Hæstiréttur íslands
Mál nr. 409/2002
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Kaupverð
- Virðisaukaskattur
|
|
Fimmtudaginn 6. mars 2003. |
|
Nr. 409/2002. |
Brynjar Vilmundarson(Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Sigurbirni Bárðarsyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Kaupverð. Virðisaukaskattur.
B og S, sem báðir stunduðu hrossabúskap, áttu saman stóðhest. Ákváðu þeir að slíta sameigninni og varð að ráði að hvor þeirra ritaði á miða mat sitt á verði fyrir hestinn, en sá sem mæti hann hærra keypti á því verði. S mat hestinn á fjórar milljónir króna. Af þessu tilefni gaf B út reikning á hendur S fyrir tveimur milljónum króna auk virðisaukaskatts. S var óskylt að greiða meira en tvær milljónir króna fyrir hestinn, enda bar að líta svo á að virðisaukaskattur væri innifalinn í verðinu þar sem annað var ekki sérstaklega tekið fram eða mátti leiða af atvikum við samningsgerðina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 490.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júní 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Brynjar Vilmundarson, greiði stefnda, Sigurbirni Bárðarsyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2002.
Mál þetta var höfðað 25. september 2001 og dómtekið 10. maí 2002.
Stefnandi er Brynjar Vilmundarson, kt. 040937-4559, Hamragarði 7, Reykjanesbæ.
Stefndi er Sigurbjörn Bárðarson, kt. 020252-2869, Vatnsendabletti 57, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 490.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júní 2001 til 30. júní 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags, auk málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnda auk málskostnaðar.
Málsatvik og helstu ágreiningsefni
Stefnandi rekur hrossabú á jörðinni Feti í Holta- og Landssveit. Stóðhesturinn Ásaþór er frá Feti en stefnandi lét hann þriggja vetra í tamningu og þjálfun hjá stefnda. Stefndi sýndi hestinn til fyrstu verðlauna en hesturinn fór aftur til stefnanda fimm vetra. Stefndi hélt því eftir þetta fram að stefnandi hefði lofað honum helmingshlut í stóðhestinum ef hann yrði sýndur til fyrstu verðlaunum. Deildu aðilar um eignarrétt að hestinum en gerðu dómsátt í Héraðsdómi Reykjavíkur, 26. október 2000, þar sem stefnandi þessa máls viðurkenndi eignarrétt stefnda að helmingshlut í hestinum.
Samkomulag varð með aðilum 26. febrúar 2001 um að slíta sameigninni. Komu þeir saman með lögmönnum sínum á skrifstofu lögmanns stefnanda og komu sér saman um þá aðferð við slit á sameigninni, að hvor um sig setti í lokað umslag seðil með verðmati á hestinum. Miðinn skyldi tilgreina heildarverð hestsins. Í samkomulaginu sagði ennfremur að sá þeirra sem hefði hærra matið væri skuldbundinn til að greiða hinum helming þess verðs. Skyldi greiðslan fara fram innan 4 vikna en fram að greiðsludegi yrði hesturinn í vörslum stefnanda. Jafnframt sagði í samkomulaginu að hvorugur aðila ætti kröfur á hinn vegna sameignarinnar á hestinum umfram það sem beint leiddi af samkomulaginu.
Fjárhæð sú sem stefndi ritaði á sinn seðil reyndist hærri. Í kjölfarið undirrituðu málsaðilar svofellda yfirlýsingu um lyktir sameignaslitanna á sama skjal og samkomulagið var ritað á: "Staðfest er að boð Sigurbjörns kr. 4.000.000.- var hærra, og samkvæmt því ber honum að greiða Brynjari kr. 2.000.000 fyrir hlut hans í hestinum samkvæmt framangreindu."
Stefnandi gerði stefnda í kjölfarið reikning, samtals að fjárhæð 2.490.000 krónur, sem dagsettur er 15. mars 2001 og var hann sendur til stefnda í pósti. Reikningurinn var þannig sundurliðaður að stefnda var gert að greiða 2.000.000 krónur fyrir Ásaþór frá Feti, samkvæmt samkomulagi, auk 24,5% virðisaukaskatts sem nam 490.000 krónum. Stefndi greiddi 2.000.000 krónur inn á reikning stefnanda 30. mars 2001 og sótti hestinn til stefnda eftir það. Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um eftirstöðvar reikningsins.
Óumdeilt er að áður en frá samkomulaginu var gengið létu málsaðilar Dýralæknaþjónustu Suðurlands skoða hestinn. Gaf Tómas Jónsson dýralæknir út svokallað heilbrigðisvottorð vegna sölu-, tryggingarskoðunar á hrossi, dagsett 22. febrúar 2001. Dýralæknarnir Sveinn Ólason og Tómas Jónsson framkvæmdu skoðunina. Gerðar voru þrjár athugasemdir við heilbrigðisástand hestsins en ekki var talið að þau atriði hefðu áhrif á notagildi hans Þau atriði sem gerðar voru athugasemdir við varða ekki ágreining málsaðila. Í símbréfi sem Páll Stefánsson, dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands, sendi stefnanda 26. febrúar 2001 var gerð grein fyrir niðurstöðu skoðunarinnar.
Stefndi greinir svo frá að hann hafi tekið við hestinum um miðjan apríl 2001 og hafi hann verið geymdur í haga þar til hann hafi verið fluttur til Reykjavíkur í lok þess mánaðar. Hægri framfótur hestsins hafi bólgnað í fyrsta reiðtúrnum. Við næsta reiðtúr hafi bólgan aukist enn frekar. Í framhaldi af því hafi stefndi haft samband við Þorvald H. Þórðarson dýralækni sem hafi meðhöndlað hestinn frá 4. 20. maí. Í greinargerð sem Þorvaldur ritaði í framhaldi kemur fram það álit hans að hesturinn sé með kvíslbandsbólgu í hægri framfæti.
Í bréfi lögmanns stefnda, frá 29. maí 2001, kemur fram að eftir kaupin hafi komið í ljós að hesturinn þjáist af alvarlegri kvíslabandsbólgu í hægra framfæti. Samkvæmt niðurstöðu dýralæknis Þorvaldar H. Þórðarsonar yrði hesturinn verði ekki notaður til reiðar sem skyldi og óráðlegt væri að hann yrði undir miklu álagi. Ljóst væri samkvæmt greinargerð dýralæknisins að hesturinn hafi verið haldinn verulegum galla við kaupin. Var lýst yfir riftun af hálfu stefnanda og krafist endurgreiðslu kaupverðsins.
Með bréfi lögmanns stefnanda frá 5. júní 2001 var því mótmælt að skilyrði væru til að rifta kaupunum. Bent var á að aðilar hefðu staðið sameiginlega að öflun vottorðs dýralæknis um hestinn. Þá kom fram að stefnandi teldi stefnda hafa nægilega þekkingu á hestum til að hann gæti gert sér grein fyrir ástandi hestsins á þeim tíma sem kaupin hafi verið afráðin og að riftunin væri fyrirsláttur.
Af hálfu stefnanda var hlutast til um að Ólöf Lofsdóttir dýralæknir framkvæmdi á hestinum svokallaða gæðaskoðunar vegna tryggingar eða sölu og er hún dagsett 1. október 2001. Niðurstaða dýralæknisins var sú að almennt ástand hestsins væri gott og engar athugasemdir gerðar. Af hálfu stefnanda hefur verið upplýst að skoðunina hafi hann látið framkvæma í því skyni að kanna hvort dýralækni gæti sést yfir kvíslbandsbólgur við slíka staðlaða skoðun.
Stefndi óskaði eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur, 18. september 2001, að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta hestinn og 28. september 2001 voru dómkvaddir matsmennirnir Sigurður Sæmundsson og Ólafur Valsson héraðsdýralæknir á Akureyri. Í matsbeiðninni var óskað eftir að lagt yrði mat á:
1. Hvort hesturinn væri með eða hafi haft kvíslbandsbólgur á hægri framfæti.
2. Hverjar væru orsakir og afleiðingar slíkrar bólgu.
3. Hver væri meðhöndlun á slíkum sjúkdómi, möguleikar á lækningu og kostnaður við hana.
4. Áhrif kvíslbandsbólgu á notkunarmöguleika hestsins.
Matsgerð þeirra er dagsett í janúar 2002. Í henni kemur fram að hesturinn hafi verið skoðaður 6. nóvember 2001, og 5. janúar 2002 þá einnig með sónarskoðun.
Í matsgerðinni kemur meðal annars fram að við skoðun finnist einkenni um kvíslbandsbólgu á framfæti. Ekki sé út frá einkennum mögulegt að ákvarða hversu lengi hesturinn hafi haft þá bólgu. Þó megi álykta að hún sé “krónísk”, þ.e. bólgan hafi verið til staðar í einhvern tíma þar sem ekki sé að finna eymsli né hita í skemmdinni, en það séu einkenni bráðrar bólgu og skemmda á sinum sem séu ný af nálinni.
Niðurstaða matsmanna var sú að við venjulega heilbrigðisskoðun á framfótum sýni hesturinn ekki helti né önnur einkenni sársauka sem bendi til áverka á fótum. Við nákvæmari skoðun hafi komið í ljós að hesturinn sé með kvíslbandsbólgu í hægri framfæti. Töldu matsmenn það alvarlegan galla og vart hægt að reikna með að hesturinn nýtist að fullu til sýningar og keppni.
Málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á ógreiddum eftirstöðvum reiknings sem stefnandi gerði stefnda 15. mars 2000. Stefndi hafi aldrei andmælt því að reikningurinn væri í samræmi við samkomulagið frá 26 febrúar 2001. Slík andmæli hafi ekki komið fram í riftunarbréfi stefnda og raunar ekki fyrr en í stefnu í máli þessu. Þá hafi stefndi viðurkennt greiðsluskyldu sína á reikningsfjárhæðinni í samtölum við stefnanda og dóttur hans en fengið frest til að greiða virðisaukaskattinn fram að gjalddaga virðisaukaskatts 5. júní 2001.
Stefnandi kveður sölu á hlut hans í stóðhestinum Ásaþór til stefnda hafa verið lið í virðisaukaskattskyldri starfsemi sinni og ótvírætt að viðskiptin séu virðisaukaskattskyld.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi hafi engar athugasemdir gert við ástand hestsins er hann hafi tekið við honum í mars 2001 og slíkar athugasemdi hafi ekki komið fram fyrr en löngu síðar. Stefndi sé sennilega þekktasti hestamaður landsins og hafi þar að auki verið helmingseigandi hestsins þegar hann hafi leyst hestinn til sín. Stefnandi geti ekki vitað hvað kunni að hafa komið fyrir hestinn eftir það né beri hann á því ábyrgð. Hann hafi verið í góðri trú um ástand hestsins þegar salan hafi farið fram.
Málsaðilar hafi verið sammála um að láta fara fram heilbrigðisskoðun á hestinum hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands áður en þeir hafi gengið frá samkomulagi um slit sameignarinnar en við þá skoðun hafi ekki komið fram nein merki um kvíslbandsbólgu. Af hálfu stefnanda er það talin sönnun þess að hesturinn hafi ekki verið haldinn neinum galla þegar gengið hafi verið frá samkomulaginu 26. febrúar 2001 og beri stefndi sjálfur ábyrgð á því sem síðar hafi komið fyrir hestinn.
Telur stefnandi yfirlýsingu stefnda um riftun vera fyrirslátt, enda sé hún engum haldbærum gögnum studd.
Stefnandi kveðst miða upphaf dráttarvaxtakröfu við það tímamark er hann hafi orðið að skila virðisaukaskatti, samkvæmt umræddum reikningi, en hann hafi veitt stefnda greiðslufrest á þeirri upphæð fram til 5. júní 2001.
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að hesturinn Ásaþór hafi verið haldinn verulegum leyndum göllum við kaupin sem hafi heimilað honum að rifta kaupunum, samanber 42. gr. þágildandi laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Vísar hann þar um til greinargerðar Þorvaldar H. Þórðarsonar dýralæknis og niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna.
Kvíslbandsbólgan í hægri framfæti hestsins hafi komið strax í ljós er honum hafi verið riðið í fyrsta sinn eftir kaupin en það hafi verið í byrjun maí 2001. Hestinum hafi verið riðið varlega. Stefndi telur ljóst að gallinn hafi verið til staðar við kaupin og stefnanda hafi þá verið um gallann kunnugt. Byggir stefndi það á því að eftir kaupin hafi hann fengið upplýsingar um að hesturinn hafi ekki verið í þjálfun frá árinu 1998 og að frá þeim tíma hafi ekki verið keppt á honum eða hann sýndur þrátt fyrir að hann hafi fengið fyrstu verðlaun bæði fyrir hæfileika og byggingu á árinu 1996.
Þá telur stefndi, að niðurstaða Dýralæknaþjónustu Suðurlands við heilbrigðisskoðun 22. febrúar 2001 staðfesti ekki að hesturinn hafi verið alheilbrigður og ekki verið með eða haft kvíslbandsbólgu við þá skoðun. Þegar sú skoðun hafi farið fram hafi hesturinn verið búinn að vera lengi í hvíld og ekki verið riðið eða þjálfaður í langan tíma. Við slíkar aðstæður komi gallinn ekki í ljós við hefðbundna skoðun. Vísar stefndi þessu til stuðnings til vottorðs Ólafar Loftsdóttur frá 1. október 2001 sem skoðað hafi hestinn eftir að hann hafði verið í hvíld frá því vorið 2001 en hún hafi þá ekki orðið kvíslbandsbólgunnar vör.
Stefndi telur að um verulegan galla á hestinum sé að ræða. Stóðhestur sem sé með kvíslbandsbólgu eða hafi haft slíkan kvilla hafi ekki aðra notkunarmöguleika en að vera til undaneldis. Hann sé ónothæfur sem keppnishestur og til lítils gagns sem reiðhestur. Stefndi hafi ætlað sér að þjálfa hestinn til sýningar í því skyni að auka verðgildi hans og haft í huga að selja hann. Boð hans í hlut stefnanda í hestinum hafi verið við það miðað. Vegna þessa galla séu algerlega brostnar forsendur fyrir kaupum stefnda á hlut stefnanda í hestinum.
Verði ekki á þetta fallist byggir stefndi á því að kaupverðið sé að fullu greitt. Umsamið kaupverð hafi verið 2.000.000 krónur. Krafa stefnanda í málinu sé 490.000 krónur svari til virðisaukaskatts sem lagður sé ofan á umsamið kaupverð.
Stefndi telur málsaðila ekki skattskylda samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Þeir hafi átt hestinn í sameign og ekki liggi fyrir að hesturinn hafi verið hluti af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi þeirra. Reikningur fyrir kaupverðinu hafi verið gefinn út í nafni Hrossaræktabúsins Fets sem gera megi ráð fyrir að sé með virðisaukaskattskyldan rekstur. Ekkert komi hins vegar fram í dómsátt aðila um eignarréttinn eða í samkomulagi þeirra um slit sameignarinnar annað en að aðilar ættu hestinn persónulega í óskiptri sameign.
Verði talið að viðskipti þessu séu virðisaukaskattskyld byggir stefndi á því að kaupverðið hafi verið heildarverð og virðisaukaskattur því innifalinn. Það sé í samræmi við samkomulag aðila. Líta verði á fjárhæð í tilboði sem heildarverð sem innihaldi virðisaukaskatt ef ekki er sérstaklega tilgreint að virðisaukaskattur sé ekki innifalinn. Stefndi telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á að samið hafi verið um annað heildarverð en fram komi í samkomulaginu. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að taka sérstaklega fram í samkomulaginu ef bæta hafi átt virðisaukaskatti við tilgreint kaupverð.
Þá er því mótmælt að í símtölum stefnda við stefnanda eða dóttur stefnanda hafi komið fram loforð um greiðslu á hærri fjárhæð en þegar hafði verið greidd eða viðurkenning á frekari greiðsluskyldu.
Niðurstaða
Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli samkomulags aðila þar um, samkvæmt heimild í 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um eftirstöðvar reiknings sem stefnandi gerði stefnda og dagsettur er 15. mars 2001. Reikning þennan kveður stefndi byggðan á samkomulagi aðila frá 26. október 2001. Stefnufjárhæðin, 490.000 krónur, svarar til virðisaukaskatts sem reiknaður er ofan á þá fjárhæð sem tilgreind er sem kaupverð í umræddu samkomulagi.
Enda þótt umrætt samkomulag málsaðila frá 26. febrúar 2001, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, sé orðað sem aðferð við slit á sameign verður að líta svo á að niðurlag þess feli í sér samning um kaup stefnda á hlut stefnanda í stóðhestinum Ásaþór og um það verð sem stefnandi skyldi greiða fyrir hestinn.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 hvílir skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð á þeim aðilum sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu.
Upplýst þykir í málinu að stefnandi rekur búskap með hross á jörðinni Feti í Holta- og Landssveit. Á umræddan reikning er prentað “Hrossaræktarbúið Fet, Brynjar Vilmundarson”. Af hálfu stefnanda er haldið fram að Hrossaræktarbúið Fet hafi á umræddum tíma verið einkafyrirtæki hans og rekið á hans kennitölu. Hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Verður að leggja til grundvallar að sala hestsins hafi verið liður í virðisaukaskattskyldri starfsemi stefnanda. Ekki hefur hins vegar verið upplýst hvort stefndi geti nýtt virðisaukaskatt í umræddum kaupum sem innskatt en það þykir þó ekki skipta máli við úrlausn málsins.
Af hálfu stefnanda hefur ekki verið bent á tiltekið ákvæði í framangreindum lögum um virðisaukaskatt sem geti veitt stefnanda undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts. Ekkert annað er heldur fram komið í málinu sem styður þá málsástæðu stefnda að þessi kaup hafi átt að vera undanþegin virðisaukaskatti. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að stefnanda hafi ekki borið að innheimta virðisaukaskatt af söluverði hestsins.
Þegar kaupverð lausafjár er tilgreint ber almennt að líta svo á að virðisaukaskattur sé innifalinn í tilgreindu verði nema annað sé sérstaklega tekið fram eða megi leiða af atvikum við samningsgerðina. Verður að leggja á seljanda þá byrði að sýna fram á að honum sé heimilt að bæta virðisaukaskatti við tilgreinda fjárhæð.
Fyrir liggur að lögmenn málsaðila voru viðstaddir undirritun framangreinds samkomulags málsaðila. Í samkomulaginu er ekki tekið fram hvort virðisaukaskattur sé innifalinn í þeirri fjárhæð sem þar er tilgreint að stefndi skyldi greiða stefnanda fyrir hestinn eða hvort bæta skyldi honum við fjárhæðina. Raunar er þar ekki minnst á virðisaukaskatt. Af framburði málsaðila fyrir dómi verður ráðið að ekkert hafi verið minnst á virðisaukaskatt við gerð samkomulagsins.
Við túlkun á efni samkomulagsins þykir hafa nokkra þýðingu að sú fjárhæð sem stefndi skyldi greiða stefnanda samkvæmt samkomulaginu var helmingur þeirrar fjárhæðar sem stefndi hafði sjálfur tilgreint sem verðmat á hestinum en af hans hálfu er því nú haldið fram að fjárhæðin feli í sér heildarverð.
Með vísan til framangreinds þykir stefnanda ekki hafa tekist að sýna fram á að honum hafi verið heimilt að bæta virðisaukaskatti við þá fjárhæð sem fram kom í umræddu samkomulagi að stefnda bæri að greiða honum fyrir hlut hans í hestinum.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að í háttsemi stefnda eftir að hann fékk reikninginn í hendur hafi falist viðurkenning á skyldu til að greiða umrædda fjárhæð. Stefnandi bar fyrir dómi að stefndi hefði hringt í hann 21. mars 2001 og spurt hvort í lagi væri að hann greiddi aðeins 2.000.000 króna en að virðisaukaskatturinn yrði greiddur 3-4 dögum fyrir gjalddaga hans 5. júní 2001. Stefndi hafi aldrei gert athugasemdir við eða gefið til kynna að reikningurinn væri rangur.
Brynja Brynjarsdóttir, dóttir stefnanda, bar fyrir dómi að hún hafi fært 2.000.000 króna innborgun stefnda inn á umræddan reikning en stefndi hafi samið um við föður hennar um gjaldfrest á virðisaukaskatti. Hún hafi talað við Fríðu eiginkonu stefnda í síma rétt fyrir gjalddaga virðisaukaskattsins og beðið um greiðslu fyrir hvítasunnu. Fríða hafi fengið upplýsingar um hvert ætti að greiða. Þá hafi hún haft símasamband við stefnda og hann sagst ætla að ná í Fríðu og biðja hana um að greiða. Hún hafi aftur haft samband við stefnda eftir gjalddaga virðisaukaskattsins en hann þá sagst ætla að geymslugreiða virðisaukaskattinn.
Fyrir dómi kvaðst stefndi hafa litið á 4.000.000 króna verðmat sitt sem heildarverð á hestinum. Hann kvað eiginkonu sína sjá um greiðslu reikninga og hafi reikningurinn borist henni. Hann hafi gert henni grein fyrir hvaða upphæð hafi verið samið um og strax sett spurningarmerki við virðisaukaskattinn. Stefnandi hafi hringt í hann vegna reikningsins. Hann kvað samkomulag þeirra hafa verið mjög stirt á þessum tíma en hann hafi svarað stefnanda því til að ef einhver áhöld væru um hvort kaupverð hestsins hefði verið greitt skyldi hann sjá um að það yrði greitt. Á þeim tíma hafi hann talið að ekki væri búið að greiða. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa hringt í stefnanda og beðið um frestun á greiðslu virðisaukaskatts.
Þótt framburður stefnda sé ekki að öllu leyti skýr varðandi efni símtala hans við stefnanda verður að leggja til grundvallar að hann hafi með því að greiða einungis 2.000.000 krónur af reikningsfjárhæðinni, sýnt í verki að teldi sér ekki skylt að greiða meira eða hefði efasemdir um frekari greiðsluskyldu. Hefur það meðal annars stoð í framburði dóttur stefnanda þess efnis að stefndi hafi rætt um að geymslugreiða. Með vísan til framangreindra framburða þykir stefnanda ekki hafa tekist að sýna fram á að stefndi hafi í símtölum við stefnanda eða dóttur hans lofað greiðslu á virðisaukaskattshluta reikningsins eða viðurkennt með öðrum hætti greiðsluskyldu sína.
Af framangreindri niðurstöðu, um að umsamið heildarverð stóðhestsins hafi verið 2.000.000 króna og að virðisaukaskattur teljist innifalinn í þeirri fjárhæð, leiðir að stefndi telst hafa greitt kaupverð hestsins að fullu. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Stefndi hefur lagt út 188.949 krónur vegna matskostnaðar. Af hálfu stefnda var ekki höfðuð gagnsök vegna riftunarkröfu þeirrar sem matsgerðinni var ætlað að styðja heldur var meint riftunin ein af sýknuástæðum hans. Ekki hefur verið leyst úr riftunarkröfunni í máli þessu. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki að svo stöddu lagður á stefnanda kostnaður stefnda af öflun matsgerðar.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem með hliðsjón af framangreindu þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ragnar H. Hall hrl. en Brynjar Níelsson hrl. af hálfu stefnda.
Dóminn kveður upp Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari.
Dómsorð
Stefndi, Sigurbjörn Bárðarson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Brynjars Vilmundarsonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.