Hæstiréttur íslands

Mál nr. 289/2003


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Tilraun
  • Ítrekun
  • Upptaka
  • Reynslulausn
  • Ákæra


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. október 2003.

Nr. 289/2003.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Rúnari Ben Maitsland

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Tilraun. Ítrekun. Upptaka. Reynslulausn. Ákæra.

Nokkurt magn fíkniefna fannst á C, þýskum ríkisborgara, við komu hans til landsins. Viðurkenndi hann að hafa tekið við efnunum frá A, erlendum manni og hafa átt að koma þeim til viðtakanda hér á landi og lýsti sig fúsan til að aðstoða lögreglu við rannsókn málsins. Lögregla skipti á fíkniefnunum og útbjó pakka með gerviefni, sem C afenti R á hótelherbergi og lá fyrir í málinu hljóðupptaka af samtali þeirra. Voru R og C báðir sakfelldir í héraðsdómi, en málinu var aðeins áfrýjað af hálfu R. Talið var að af hljóðupptöku af samtali þeirra mætti ráða að R hafi staðið í fíkniefnaviðskiptum við A, sem verið hafi í föstum skorðum. Í ákæruskjali var R gefin að sök þátttaka í innflutningi C, með því að hafa tekið við úr hendi hans pökkum sem hann hafi álitið vera fíkniefni, í því skyni að selja þau hér á landi. Þar sem efnin sem hann tók við voru gerviefni, skorti á það hlutræna samhengi að brot R gæti orðið fullframið og var háttsemi hans metin sem tilraun til brots á 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga. Þetta hafði þó engin áhrif á refsiákvörðun í málinu, enda taldist ákærði hafa haft ótvíræðan ásetning til að fremja brotið, sbr. 2. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um 5 ára fangelsi R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og þyngingar á refsingu hans.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara, að refsing verði látin falla niður á grundvelli 3. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til þrautavara krefst ákærði vægustu refsingar, sem lög leyfa, og verði hún skilorðsbundin að hluta.

Í héraðsdómi eru rakin málsatvik og helstu atriði úr framburði ákærðu og vitna. Eins og þar greinir kom meðákærði C, sem sakfelldur var í héraði og undi dómi, hingað til lands frá Þýskalandi 7. nóvember 2002 með fíkniefni innan klæða, 890,73 grömm af amfetamíni og 979,56 grömm af hassi. Hann var staðinn að verki og kvaðst þá vilja greina frá öllu, sem fíkniefnunum tengdist, og aðstoða lögreglu við að grafast fyrir um aðra málsaðila. Meðákærði kvaðst vera hingað kominn að beiðni manns í Þýskalandi að nafni A og ætti hann að fara á [hótel] í Reykjavík og hafa símsamband við A og B, sem myndi koma á hótelið og sækja fíkniefnin. Lögreglumenn báðu þýskan starfsbróður sinn að hlusta á símtal meðákærða við A, en lögregla hleraði jafnframt síma B. Í málinu nýtur ekki upptöku af símtali meðákærða við B, en hins vegar er meðal málsgagna upptaka af símtali B við ákærða strax á eftir. Þar biður hann [ákærða] að koma í snatri, það sé svolítið áríðandi og hann verði að tala við ákærða. Það var svo ákærði en ekki B, sem hlýddi kalli meðákærða og fór á hótelherbergið. Áður en til þess kom hafði lögregla komið fyrir hlustunarbúnaði í herberginu og jafnframt útbúið tvo pakka með gerviefnum fyrir meðákærða til að afhenda í stað fíkniefnanna.

Endurrit samtals meðákærða og ákærða í hótelherberginu liggur fyrir í heild og verða rakin þau atriði, sem einkum skipta máli. Meðákærði spyr ákærða, hvort hann hafi peninga meðferðis, en hann neitar því ítrekað og segist ekki hafa þá ennþá, síðast með þessum orðum: „Just not yet, cause of the spítt that came last time, not good spítt.“ Þessum hluta samtalsins lyktar þannig, að meðákærði segir: „Why don´t you work it out with him ... I give you the stuff and you work the money out with him, and then you call me, ok fair enough and then you got it even ...“ Þessu svarar ákærði játandi. Þeir ræða síðan um sendingar frá A og meðal annars segir ákærði: „I´ve been business for 18 years ... I know what it means ... its got nothing in it ... I have to go down town ... Can´t sell it. Compared to people with cocaine ... I have to give lower price ... “ Nokkru síðar segir ákærði: „I´m gonna sell it. I´m gonna give you all the money I get for this. As you know.“ Undir lok samtalsins aðvarar ákærði meðákærða um að fara varlega, þegar hann skipti peningunum.

Ummæli ákærða í samtalinu verður að skilja svo, að hann hafi ekki verið reiðubúinn að greiða A strax fyrir fíkniefnin, þar sem efni í síðustu sendingu hafi verið ábótavant, og hafi hann áður viljað ganga úr skugga um gæði þeirra. Örugglega verður ráðið af orðum hans, að hann hyggist selja efnin, áður en hann afhendi meðákærða peninga, sem hann eigi síðan að skipta í erlenda mynt og færa A.

Að þessu gættu verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, að ákærði hafi staðið í fíkniefnaviðskiptum við A, sem verið hafi í föstum skorðum. Héraðsdómur metur framburð ákærða fyrir dóminum ótrúverðugan og eru engin efni til að ætla, að því mati geti verið ábótavant, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sannað er gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru greinir. Þar er honum gefin að sök þátttaka í innflutningi meðákærða „með því að hafa í ágóðaskyni tekið við úr hendi hans á [hóteli] ... pökkum sem hann taldi hafa að geyma framangreind fíkniefni og hann ætlaði til söludreifingar hér á landi ...“ Eins og ákæran er úr garði gerð verður þátttaka ákærða í innflutningnum einskorðuð við þá athöfn hans að taka við úr hendi meðákærða pökkum, sem hann áleit hafa að geyma fíkniefni, í því skyni að selja þau hér á landi. Þar sem lögregla hafði sett gerviefni í þeirra stað skorti á það hlutræna samhengi, að brot ákærða gæti orðið fullframið, og ber að virða verknað hans sem tilraun til brots á 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga. Þetta hefur þó engin áhrif á refsiákvörðun í málinu, enda hafði ákærði ótvíræðan ásetning til að fremja brotið, sbr. 2. mgr. 20. gr. Þótt lögregla hafi í öryggisskyni tekið fíkniefnin í sínar vörslur kemur ekki til álita, að 3. mgr. 20. gr. hegningarlaganna geti átt við.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður ákvörðun hans um refsingu ákærða staðfest. Það athugist þó, að 18. maí 2002 var ákærða veitt reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2000, 480 dögum en ekki 489 dögum, eins og misritast hefur í héraðsdómi.

Upptökuákvæði héraðsdóms eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Staðfest verður ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað að því er varðar ákærða. Hann skal jafnframt greiða áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar ákærða, Rúnar Ben Maitsland.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2003.

Málið er höfðað með ákæruskjali, dags. 30. apríl 2003, á hendur: C, þýskum ríkisborgara, f. [...] 1943, og  Rúnari Ben Maitsland, [kt. og heimilisfang],

„fyrir stórfelld fíkniefnabrot framin 7. nóvember 2002:

1.        Ákærða C er gefið að sök að hafa í ágóðaskyni flutt hingað til lands 890,73 g af amfetamíni og 979,56 g af kannabis frá Þýskalandi, sem ákærði hugðist afhenda til söludreifingar hér á landi en efnin fundu tollverðir falin innanklæða á ákærða við komu hans til Keflavíkurflugvallar.

2.        Ákærða Rúnari Ben er gefið að sök þátttaka í innflutningi meðákærða með því að hafa í ágóðaskyni tekið við úr hendi hans á [...] í Reykjavík, pökkum sem hann taldi hafa að geyma framangreind fíkni­efni og hann ætlaði til söludreifingar hér á landi, en efnin hafði lögregla þegar lagt hald á og sett gerviefni í staðinn.

          Brot ákærðu teljast varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. lög nr. 32/2001, en til vara við 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga að því er varðar ákærða Rúnar Ben.

          Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Ennfremur er með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 490/2001 og reglugerð nr. 848/2002, krafist upptöku á ofangreindum fíkniefnum sem og hálfri töflu með fíkni­efninu MDMA sem fannst við leit lögreglu þann 7. nóvember 2002 á heimili ákærða Rúnars Ben.“

Verjandi ákærða, C, gerir þær kröfur að ákærði verði dæmdur til væg­ustu refsingar er lög leyfa.  Þá dragist gæsluvarðhaldsvist frá 8. nóvember 2002 frá dæmdri refsingu.  Ennfremur að dómurinn ákveði skipuðum verjanda málsvarnarlaun.

Verjandi ákærða, Rúnars Bens, gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður í mál­inu en til vara að refsing falli niður.  Til þrautavara er krafist vægustu viðurlaga sem verði skilorðsbundin að hluta.  Þá dragist frá gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 8. nóvember 2002.  Krafist er málsvarnarlauna skipaðs verjanda.  

Málavextir.

          Samkvæmt lögregluskýrslu er upphaf þessa máls það að fimmtudaginn 7. nóvember 2002 kom ákærði, C, til landsins með flugi frá Frankfurt í Þýska­landi.  Þegar hann kom að grænu tollhliði sýndi fíkniefnaleitarhundur honum mikinn áhuga.  Aðspurður af tollvörðum kvaðst ákærði hingað kominn sem blaðamaður og fram­vísaði blaðamannaskírteini því til sönnunar.  Við leit á ákærða komu í ljós pakkar sem festir voru á líkama hans með límbandi.  Var ákærði handtekinn og færður á lög­reglustöð. 

          Við nánari athugun reyndist efni það sem ákærði hafði meðferðis vera 890,73 g af amfeta­míni og 979,56 g af hassi.  Samkvæmt vottorði Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands reyndist magn amfetamíns í þurrkuðu sýni vera 71%, sem samsvaraði 97% amfeta­minsúlfati.  Magn tetrahýdrókannabínóls í hasssýni var 78 mg/g.

          Í upphafi kvaðst ákærði vilja greina frá öllu því sem tengdist umræddum fíkni­efnum og aðstoða lögreglu við að upplýsa um aðra málsaðila.  Kvaðst hann hafa komið hingað til lands með umrædd fíkniefni að beiðni manns í Þýskalandi að nafni A.  Þegar til Reykjavíkur kæmi átti hann að fara á [...], þar sem hann átti pantað herbergi.  Í framhaldi af því hafi hann átt að hringja í símanúmer sem hann hélt að væri númer [B].

          Í framhaldinu var komið fyrir hlustunarbúnaði í herbergi ákærða, C, auk þess sem símhlerunum var beitt. Þá lét lögregla útbúa tvo gervipakka sem sam­svöruðu þyngd þeirra fíkniefna sem ákærði hafði komið með.  Ákærði hringdi síðan í til­tekið símanúmer og kom meðákærði í framhaldi af þessu og var hann handtekinn í kjölfarið.

          Umfangsmikil lögreglurannsókn hefur farið fram síðan en óumdeilt er að mál ákærðu tengist umfangsmiklu fíkniefnamáli sem rannsakað hefur verið hjá lögreglu bæði hér á landi og í Þýskalandi.  Hefur ákærði, C, viðurkennt að hafa flutt inn fíkniefni í fleiri ferðum til landsins en hér er ákært fyrir. Rannsókn þeirra mála er hins vegar ekki lokið. Með úrskurði 23. maí sl. var hafnað kröfu verjanda C um að ákæru í hans þætti væri vísað frá dómi þar sem ákæra hefði átt í málinu í heild.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

          Ákærði, C, skýrði svo frá fyrir dóminum að fyrrverandi nágranni hans í Þýskalandi, A, hefði fengið hann til að flytja fyrir sig efni til Íslands.  Í fyrstu hafi hann ekki vitað hvað var í pökkunum en síðar hafi honum verið ljóst að um fíkniefni var að ræða.  Alls hafi hann farið 8 ferðir til landsins, fyrst í mars 2002, og flutt fíkniefni, 1-2 kg, í 7 ferðum.  Kvaðst ákærði hafa átt að fá greiddar 3-5 þúsund evrur fyrir hverja ferð. 

          Ákærði kvaðst hafa starfað sem blaðamaður auk þess að vera með eigin frétt­astofu en kvaðst hafa átt í fjárhagsörðugleikum á þessum tíma.  Hafi A lánað honum peninga og boðið honum síðan að greiða skuldina með því að fara í ferðir fyrir sig.  Ákærði kvaðst hafa eygt endurkomuleið í hóp blaðamanna með því að skrifa grein um skipulag fíkniefnainnflutnings og því tekið þetta að sér.  Ákærði kvaðst aðspurður hafa vitað að A hafði verið dæmdur fyrir inn­flutn­ing til Íslands á fíkniefnum og hafði setið í fangelsi vegna slíkra mála hér á landi og í Frakklandi.  Þá hafi honum verið ljóst, þegar kona var handtekin hér á landi með efni frá A, að hér væri um skipulega starfsemi að ræða og að hans mati væru efnin til dreifingar og sölu.  Kvaðst ákærði hafa farið með töluvert magn af peningum, m. a. frá þeim [meðákærða og B] til A, um 10 þúsund evrur og allt upp í 15 þúsund evrur.

          Ákærði kvaðst hafa gengið sjálfur frá fíkniefnum þeim sem hér um ræðir og límt þau á líkama sinn fyrir umrædda ferð.  Þegar hann var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli hafi hann ákveðið að aðstoða við að upplýsa málið.  Hann kvað A hafa sagt honum að efnið yrði þá sótt af [B] eða meðákærða, Rúnari Ben.  Hafi A sagt að annar þeirra væri klárari, hann væri víst höfuðið, og reyndist þar átt við meðákærða. Ákærði kvaðst þegar á hótelherbergið kom hafa í sam­ráði við lögreglu hringt í A, eins og ráðgert hafi verið, og síðan hafi hann hringt í símanúmer sem hann hélt að væri númer B.  Meðákærði, Rúnar Ben, hafi svo komið 15-20 mínútum síðar og tekið efnið og farið.  Að fyrirmælum A hafi hann átt að spyrja hann um peninga en Rúnar hafi sagt að hann fengi enga peninga í þetta skiptið þar sem gæði síðustu sendingar hafi verið afar léleg.  Aðspurður um það sem fram kemur í símtali: „I´m gonna sell it. I´m gonna give you all the money I get for this.  As you know.“ Kvaðst ákærði hafa talið að efnið væri til sölu en vegna gæða hafi orðið að lækka verðið.

          Ákærði, Rúnar Ben Maitsland, neitar sök í málinu.  Ákærði sagði B hafa hringt í sig um 15 mínútum áður en hann var handtekinn og sagt að það væri kominn gestur.  Hafi ákærði farið á hótelið og hitt þar meðákærða, C.  Hafi það komið sér á óvart og þá kvaðst hann ekki hafa átt von á neinum fíkniefnum.  Aðspurður um framburð sinn lögreglu 29. nóvember sl. þar sem segir: „Ég held að [C] hafi hringt í [B] og sagt honum hvar hann var.  [B] sagði líka að [C] hafi farið í sturtu“kveðst ákærði ekki muna þetta glöggt.  Á hótelherberginu hafi meðákærði verið að röfla eitthvað og spyrja um peninga en hann hafi sagst ekki eiga neina peninga. Þá hafi meðákærði sagst vera með einhverja pakka fyrir hann.  Forvitnin hafi rekið hann til að taka við þeim án þess að hann hafi haft hugmynd um hvað í þeim var.  Hann hafi hins vegar tekið við efninu sem fíkill.   Aðspurður um framburð hjá lögreglu 8. nóvember sl. „Ég á efnið, en ég flutti það ekki inn sjálfur.“  Kvað ákærði þetta rétt enda hafi hann verið eigandi efnisins eftir að það var komið í vasa hans.

          Aðspurður um vitnesku hans á innihaldi pakkanna sem fram kemur í sömu lögregluskýrslu: „Annar böggulinn er kíló af hassi og hinn er spítt c.a. 300 grömm.  Þetta var efni til eigin neyslu.“ Kvað hann upplýsingarnar frá meðákærða komnar.  Aðspurður um það sem fram kemur í samtali ákærðu um lélegt efni og að hann ætli að greiða lægra verð fyrir það, kveðst hann aðeins hafa tekið svona til orða til að losna við meðákærða.   Ákærði er spurður um einstök atriði samtalsins en kveðst ekki geta gefið skýringar á því eða svarar að hann viti það ekki.  Spilaðar eru í réttinum upptökur af símtölum og neitar ákærði ýmist að svara eða kveðst ekki vita svarið við spurningum.  Ákærði kannast við að hafa átt samtal 7. nóvember sl. en kveðst ekki hafa vitað við hvern hann var að tala. Þá kannast hann við samtal milli sín og B frá 7. nóvember.

          Ákærði viðurkenndi að hafa hitt meðákærða einu sinni en neitaði að svara spurn­ingu um hvort hann hefði þá fengið fíkniefni hjá honum.

          Ákærði kveðst hafa verið í mikilli neyslu fíkniefna og nota tugi gramma af amfetamíni á dag sem hann gleypi.  Þá hefði hann reykt tæpt kíló af hassi á nokkrum dögum.

          Vitnið, Kristinn Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður, sem stjórnaði rannsókn málsins, gerði grein fyrir henni.  Kvað hann ákærða, C, þegar við handtöku hafa verið tilbúinn til samvinnu við lögreglu.  Hafi allt gengið eftir eins og til var ætlast og hafi allt reynst rétt sem C hafi sagt um atburðarásina.  Vitnið kvaðst hafa farið til Þýskalands vegna rannsóknar málsins og hafi þá verið staðfestur sá grunur lögreglu að þeir [B og /eða] ákærði, Rúnar Ben, hefðu staðið um nokkurn tíma í fíkniefnaviðskiptum við A, en þeir hafi setið á sama tíma í fangelsi.  Aðspurður kvaðst hann telja að C væri svonefnt burðardýr. 

          Vitnið, Sólberg S. Bjarnason rannsóknarlögreglumaður, staðfesti að ákærði C hafi frá upphafi greint rétt frá varðandi samskipti sín við meðákærða svo og samband ákærða við A.  Þá hafi ákærði C að hans mati verið burðardýr.

          Vitnið, Jens Hilmarsson rannsóknarlögreglumaður, sem tók skýrslu af ákærða, Rúnari Ben, kvað það hafa komið fram að hann ætti efnið og að hann ætlaði það til eigin neyslu.  Hann hafi tekið fram að hann hafi ekki greitt fyrir efnið og að hann ætlaði ekki að gera það en hann notaði mikil fíkniefni á þessum tíma.   Hann kvað ákærða, Rúnar Ben, hafa ítrekað verið inntan eftir því af hverju hann hefði framfærslu og hafi hann sagst hafa tekjur að mestu úr spilakössum og talaði um 1,3-1,5 milljónir króna.  Við könnun hafi komið í ljós að hann hafi fengið greidda þrívegis 50.000 króna vinninga, eða samtals 150.000 krónur.  Aðrar tekjur hafi hann vitanlega ekki haft.

Niðurstaða.

          Ákærði, C, hefur játað, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hafa flutt til landsins 890,73 g af amfetamíni og 979,56 g af kannabis með þeim hætti sem segir í ákæru.  Hefur hann skilmerkilega greint frá því hvernig hann flutti fíkniefni í alls 7 ferðum til Íslands í samvinnu við fyrrverandi nágranna sinn í Þýskalandi, A, síðast þann 7. nóvember sl., þegar hann var handtekinn.  Ákærða, sem var kunnugt um að A hafði afplánað dóm fyrir fíkniefnalagabrot á Íslandi, kvaðst hafa farið með peninga til A bæði fyrir meðákærða og bróður hans en honum hafi fljótlega verið ljóst að um skipulega dreifingu fíkniefna var að ræða sem ætluð voru til sölu hér á landi.  Ákærði átti sjálfur að fá peningagreiðslu fyrir hverja ferð sem hann fór með fíkniefni til landsins.  Þykir sannað með skýlausri játningu ákærða, C, sem er í samræmi við gögn málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í þeim ákærulið greinir sem hann varðar. 

          Framburður ákærða, Rúnars Bens, er nokkuð á annan veg.  Hann hefur viðurkennt að hafa tekið við pökkum hjá meðákærða sem hann hafi ætlað að í væru fíkniefni en að öðru leyti vildi hann ekkert við innflutning fíkniefna kannast.  Bar ákærði að hann væri í mikilli neyslu fíkniefna og ætlaði efnin einvörðungu til eigin neyslu.

          Í máli þessu nýtur við ríkra sönnunargagna þar sem samtöl ákærðu voru hleruð af lög­reglu um samskipti ákærðu auk þess sem símtöl Rúnars Bens voru hleruð.  Sýna þau á ótvíræðan hátt að ákærði stóð í viðskiptum með fíkniefni við A sem meðákærði sá um að flytja til landsins.  Þessi viðskipti voru greinilega í föstum skorðum enda gat ákærði, C, afhenti Rúnari Ben fíkniefnin á staðnum en greiðslan átti að vera samkomulagsatriði við A, eins og fram kemur í einu samtalinu.  Framburður ákærða, Rúnars Bens og skýringar sem hann hefur gefið á þessum gögnum eru í hæsta máta ótrúverðugar og í engu samræmi við rann­sókn­ar­gögn.  Þykir einsýnt að á þeim verði ekki byggt í málinu.  Hins vegar stað­festa sam­tölin og framburður meðákærða, sem eru í fullu samræmi við rannsóknargögn í heild, að ákærði, Rúnar Ben, hafi verið þátttakandi í innflutningi á fíkniefnum ásamt með­ákærða sem hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi. 

          Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök í ákæru.  Brot ákærða, Rúnars Bens, telst fullframið þrátt fyrir að í öryggisskyni hafi verið skipt um inni­hald í pökkunum við afhendingu til hans.  Telst því brot beggja ákærðu, sem telst stór­fellt, varða við 173 gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breyt­ingum eins og er aðalkrafa ákæruvaldsins í málinu.  Að öðru leyti er háttsemi ákærðu rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Viðurlög.

          Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. júní 1994, sem staðfestur var í Hæstarétti 20. október 1994 með vísan til forsendna, kemur fram að aðilar, sem sammælast um að flytja fíkniefni til landsins, geti ekki dreift refsiábyrgðinni milli seljanda ytra, aðila sem flytji inn efnið og svo þess sem taki við efninu hér á landi.  Beri þessir aðilar jafna refsi­ábyrgð og megi vísa til refsihækkunarástæðu 2. mgr. 70. gr. almennra hegn­ing­ar­laga.  Eins og vörn ákærðu í þessu máli er háttað skulu þessi sjónarmið áréttuð hér.

          Til refsiþyngingar ákærðu beggja er einnig að þeir hafa orðið uppvísir að inn­flutn­ingi á miklu magni fíkniefna og sérstaklega vanabindandi efni sem amfetamín er.  Hvað amfetamínið varðar var um að ræða hreint efni sem var til þess fallið að stofna í hættu heilbrigði ótiltekins fjölda manna hefði það komist í dreifingu eins og að var stefnt.  Brotið var þaulskipulagt.  Þannig framvísaði ákærði, C, blaða­manna­passa við komu til landsins til að villa um fyrir tollyfirvöldum.  Sýnir þetta styrk­an og einbeittan brotavilja hans.

          Ákærði, C, hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi sem áhrif hefur á mat refsingar í máli hans.  Til þess verður litið að ákærði játaði brot sitt þegar í stað.  Hefur hann verið samvinnuþýður við rannsókn þess og átt stóran þátt í að upp­lýsa málið í heild.  Þykir refsing ákærða, C, í þessu ljósi hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og sex mánuði.

         Ákærði, Rúnar Ben, hefur frá árinu 1990 hlotið 9 refsidóma fyrir þjófnað, skjala­fals, fíkniefnabrot o. fl. Hann hlaut síðast dóm 27. júní 2000, fangelsi í 4 ár, fyrir stórfellt fíkniefnabrot.  Þann 18. maí 2002 var honum veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsingar á 489 dögum, skilorðsbundin í 2 ár.  Þá hlaut ákærði viðurlagaákvörðun 6. maí 2002, 100.000 króna sekt, einnig fyrir fíkniefnabrot.  Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð reynslulausnar og verður sá hluti refsingarinnar sem óafplánaður er dæmdur með, skv. 60. gr. almennra hegningarlaga.  Þykir það sýna sérstaklega styrkan og einbeittan brotavilja ákærða að brotið skuli framið á skilorði sem hann hlaut fyrir dóm fyrir stórfellt fíkniefnabrot.  Þá hefur brotið samkvæmt þeim dómi ítrek­unaráhrif á brot það sem nú er dæmt um, sbr. 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefnis.

         Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða, Rúnars Bens, hæfi­lega ákvörðuð, þegar litið hefur verið til 77. gr. almennra hegningarlaga, fangelsi í 5 ár. 

         Til frádráttar refsivistinni komi óslitið gæsluvarðhald beggja ákærðu frá 8. nóvember 2002 að telja.

         Ákærðu greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, C, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, héraðsdómslögmanns og ákærða Rúnars Bens, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur til hvors.

         Upptæk eru í ríkissjóð, með vísan til laga sem í ákæru greinir, umrædd fíkniefni.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigurður Gísli Gíslason fulltrúi lög­reglu­stjórans í Reykjavík

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

         Ákærði, Rúnar Ben Maitsland, sæti fangelsi í 5 ár.

         Ákærða, C, sæti fangelsi í 2 ár og sex mánuði.

         Til frádráttar refsivistinni komi óslitið gæsluvarðhald ákærðu frá 8. nóvember 2002 að telja.

         Ákærðu greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða C, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns og ákærða, Rúnars Bens, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur til hvors.

         Upptæk eru gerð í ríkissjóð 890,73 g af amfetamíni og 979,56 g af kannabis svo og hálf tafla af MDMA sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.