Hæstiréttur íslands

Mál nr. 199/2005


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Örorka
  • Læknir
  • Sjúkrahús
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. desember 2005.

Nr. 199/2005.

Elías Hákonarson

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Skaðabótamál. Örorka. Læknar. Sjúkrahús. Gjafsókn.

E krafði Í um bætur fyrir tjón, sem hann hafði orðið fyrir vegna dráttar, sem varð á því að hann fengi viðhlítandi meðferð við kransæðasjúkdómi. Hafði hann verið settur á biðlista eftir kransæðavíkkun í kjölfar hjartaþræðingar, sem gerð var 1. október 1997. Þegar aðgerðin átti að fara fram 27. janúar 1998 kom í ljós að æðarnar höfðu lokast og að víkkun þeirra væri óframkvæmanleg. Talið var að verklagsreglur, sem fylgt hafði verið við forgangsröðun sjúklinga með kransæðasjúkdóma á biðlista, hafi byggst á faglegum viðmiðunum, og að ekki væri leitt í ljós að mál E hafi verið meðhöndlað á annan hátt en gert væri ráð fyrir í þeim. Enn fremur var talið að upplýsingar um ástand hans í október 1997 hafi ekki gefið til kynna að nauðsynlegt hafi verið að setja E í forgang á biðlista. Talið var að ástand E hafi versnað í nóvember 1997 og kvaðst hann í byrjun þess mánaðar hafa fengið þær leiðbeiningar frá starfsmönnum sjúkrahússins, þar sem hjartalæknir hans starfaði, að hann gæti komið á bráðamóttöku sjúkrahússins eða beðið læknisins, sem þá var í fríi. Hann kaus að koma ekki á bráðamóttökuna og gegn framburði læknisins þótti ósannað að þeir hefðu rætt saman um ástand hans eftir að læknirinn kom úr fríi. Þá var ekki talið að starfsmenn Í, sem önnuðust greiningu og meðhöndlun sjúkdómsins, hafi að öðru leyti sýnt af sér slíka vanrækslu að það gæti leitt til bótaskyldu gagnvart E. Í var því sýknað af kröfu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. maí 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 9.674.713 krónur með 2% ársvöxtum frá 28. janúar 2003 til 5. júlí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en áfrýjanda hefur verið veitt gjafsókn á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

 

I.

Áfrýjandi leitaði til hjartasjúkdómalæknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 16. júní 1997 vegna verkja er leiddu út í vinstri handlegg. Við rannsókn þann dag vaknaði grunur um að hann væri haldinn kransæðasjúkdómi og var hafin lyfjameðferð með Tensol, Imdur og Magnyl. Tekin voru sýni til blóðrannsókna og einnig send beiðni til Landspítala-Háskólasjúkrahúss um kransæðaþræðingu. Áfrýjandi var sérstaklega hvattur til að hætta reykingum og leiðbeint um mataræði. Hins vegar var hann ekki strax settur á blóðfitulækkandi lyf. Kransæðaþræðing á áfrýjanda var gerð 1. október 1997. Í niðurstöðum læknis þess sem hana framkvæmdi segir: „Vi. Höfuðstofn er eðlil. Engar sjúklegar breytingar á LAD. Á CX æð eru 90% þrengsli. Neðri kransæðin er meðalstór, það eru 40% þrengsli í fyrsta þriðjungi æðarinnar og neðarlega niður við greiningu eru 70% þrengsli. Þannig tveggja æða sjúkdómur.”  Áfrýjanda var vísað til frekari meðferðar til hjartasjúkdómalæknis þess er hafði annast hann á Akureyri. Læknirinn ræddi við hann 27. sama mánaðar og setti hann í lyfjameðferð til þess að lækka kólesteról í blóði hans enn frekar en tekist hafði með leiðbeiningum um breytt mataræði. Þá var send beiðni um kransæðavíkkun til Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Þar var hann settur á biðlista miðað við daginn, sem hann fór í hjartaþræðinguna. Fyrir liggur að 11. nóvember 1997 var hann nr. 47 í röðinni af 80 sjúklingum á þeim lista. Af hálfu stefnda er því haldið fram að niðurstaða æðamyndatöku og ástand áfrýjanda hafi þegar sú ákvörðun var tekin ekki bent til þess að hann þyrfti á sérstökum forgangi að halda til þess að komast í æðavíkkun. Þegar hins vegar átti að gera kransæðavíkkunina 27. janúar 1998 kom í ljós að sú aðferð varð ekki viðhöfð þar sem æðar þær sem víkka átti höfðu lokast. Áfrýjandi segir að í nóvember hafi hann kennt sér frekara meins af völdum sjúkdómsins og haft þá samband við sjúkrahúsið. Honum hafi þá verið sagt að læknirinn væri í fríi og hann yrði að bíða endurkomu hans eða panta sér sjúkrabíl og koma á bráðamóttöku. Hann hafi ákveðið að bíða og haft samband við lækninn þegar hann kom úr fríinu og sagt honum ítrekað frá því að honum hefði versnað. Honum hafi þá verið sagt að biðlistar væru langir en að það hlyti að fara að koma að honum. Á sjúkrahúsinu á Akureyri liggur ekkert fyrir um þessi samskipti. Sagði læknirinn fyrir dómi að hann minntist þess ekki að áfrýjandi hafi haft samband við hann á þessum tíma og ekki fyrr en eftir að æðavíkkunin hafði reynst árangurslaus. Kvað hann að miðað við venju hefði hann átt að eiga eitthvað skrifað um þetta hefði svo verið. Á þessum tíma hafi hins vegar ekki verið fært til bókar þótt sjúklingar hefðu samband við ritara, nema þá á minnisblöðum sem ritari skrásetti handa læknunum. Hins vegar hefði starfsfólk haft um það ströng fyrirmæli, væri hann ekki viðlátinn, að vísa sjúklingum á bráðamóttöku. Af gögnum málsins má ráða að miðað við lýsingar áfrýjanda hafi sjúkdómur hans verið að ágerast í nóvember 1997 og virðist ekki ágreiningur um það í málinu. Hafa dómkvaddir matsmenn metið áfrýjanda varanlega örorku 25% og varanlegan miska 30% vegna þess tjóns sem ætla má að hlotist hafi af þeim drætti sem á því varð að hann kæmist í kransæðavíkkun.

Áfrýjandi vitnar til þess að sérfræðingar viðurkenni að kransæðasjúkdómur sé ágengur og óútreiknanlegur og heldur fram að verulegar líkur séu á því að komast hefði mátt hjá afleiðingum þeim, sem hann búi við, hefði hann komist fyrr í aðgerð. Ljóst sé að hann hafi ekki fengið þá læknisfræðilegu þjónustu sem honum bar og fyrir sé mælt í lögum. Vitnar hann í því sambandi aðallega til laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu með áorðnum breytingum og laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að hann verði ekki gerður bótaábyrgur fyrir því að áfrýjandi kom ekki til rannsóknar á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í nóvember 1997 þegar hann fann til þess að honum hrakaði. Þá er því haldið fram að tækjabúnaður og starfslið, sem til reiðu var á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, hafi ekki á þessum tíma getað sinnt öllum þeim beiðnum um æðavíkkun, sem borist hafi, innan æskilegs tíma. Aðeins hafi verið eitt tæki til í landinu og margir á biðlista eftir kransæðavíkkun.

II.

Í 1. mgr. 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, sem áður er getið, er mælt fyrir um að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma er tök á að veita. Markmið laga um réttindi sjúklinga, sem áður er á minnst, kemur fram í 1. gr. laganna og er að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja með þeim hætti réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni. Þar er einnig lagt bann við því að mismuna sjúklingum á nokkurn hátt. Í 5. gr. laganna er kveðið á um upplýsingar þær sem sjúklingur á rétt á að fá, og í 18. gr. eru sérstakar reglur um að þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skuli læknir, sem hann leitar til, gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um biðtíma. Þá sé skylt að gera sjúklingi grein fyrir því ef unnt er að fá þá meðferð sem hann þarfnast fyrr annars staðar. Ákvæði um forgangsröð er síðan í 19. gr. laganna og hljóðar svo: „Ef nauðsynlegt reynist að forgangsraða sjúklingum vegna meðferðar skal fyrst og fremst byggt á læknisfræðilegum sjónarmiðum og eftir atvikum öðrum faglegum forsendum.”

III.

Héraðsdómur, sem var skipaður tveimur embættisdómurum og einum yfirlækni sérfróðum á sviði hjartasjúkdóma, sýknaði stefnda af kröfum áfrýjanda. Þar þótti sannað að heilbrigðisstarfsfólk hefði sinnt áfrýjanda á faglega fullnægjandi hátt eftir því sem á valdi þess stóð á þeim tíma, sem hér um ræðir.  Af gögnum málsins sést að víkkun kransæða var ekki á þessum tíma staðalmeðferð við tveggja æða kransæðasjúkdómi og niðurstaða kransæðaþræðingar 1. október 1997 var ekki með þeim hætti að nauðsyn bæri til að setja áfrýjanda í forgang á biðlista. Þá má af gögnum málsins ráða að þróun þeirrar meðferðar, sem hér um ræðir, var mjög ör á þessum tíma og mikil aðsókn í hana og því erfitt að halda í við aukna eftirspurn.

Áfrýjandi segist hafa fengið þær leiðbeiningar í nóvember, þegar talið er að ástandi hans hafi hrakað og hann hringdi á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, að hann gæti valið um að bíða komu hjartasjúkdómalæknisins eða koma á bráðamóttöku og hann hafi valið að bíða. Frásagnir hans á viðbrögðum læknisins við endurteknum erindisrekstri hans eru ósannaðar gegn framburði læknisins um að hann minnist þess ekki að þeir hafi ræðst saman, en bókanir sem læknirinn hefur annars gert af viðtölum sínum við áfrýjanda eru skýrar og þar koma skilmerkilega fram leiðbeiningar og ákvarðanir honum viðvíkjandi. Áfrýjandi hélt því fram fyrir Hæstarétti að hjartasjúkdómalæknirinn á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hefði strax átt að setja sig á blóðfitulækkandi lyf eða um leið og niðurstöður fyrstu blóðrannsóknar lágu fyrir. Í Læknablaðinu 1996 má sjá niðurstöðu starfshóps, sem skipaður var af landlækni vorið 1995, um meðferð við hárri blóðfitu. Þar kemur fram að ljóst sé, þótt ekki verði alhæft um alla kransæðasjúklinga, að mjög stóran hluta þeirra beri að meðhöndla með kólesteróllækkandi lyfjum, að minnsta kosti ef kólesterólgildi þeirra sé hærra en 5,0-5,5 mmól/L eftir að kólesteróllækkandi mataræði hefur verið haldið í þrjá til sex mánuði. Er ekki annað fram komið en meðferð á áfrýjanda hafi verið í samræmi við almenna meðferð sjúkdómsins að þessu leyti. Þarf þá ekki að taka afstöðu til mótmæla stefnda um að þessi málsástæða sé of seint fram komin.

          Samkvæmt framanrituðu en annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkisjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                              Dómsorð:

          Héraðsdómur skal vera óraskaður.

          Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

          Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Elíasar Hákonarsonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 700.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2005.

Mál þetta höfðaði Elías Hákonarson, kt. 090157-7449, Huldugili 64, Akureyri, með stefnu birtri 27. maí 2003, gegn íslenska ríkinu, kt. 540269-6459, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 9.674.713  krónur með 2% ársvöxtum frá 28. janúar 2003 til 5. júlí 2003 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er gerð krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól bótanna á 12 mánaða fresti í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins. Stefndi krefst þess til vara að dómkröfur stefnanda verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði þá felldur niður.

Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 15. febrúar sl., en dómsformaður fékk því úthlutað í september 2004.

 

Málsatvik.

Þann 16. júní 1997 leitaði stefnandi til Jóns Þórs Sverrissonar hjartasérfræðings á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri vegna óþæginda sem hann hafði fundið fyrir fram í vinstri handlegg við áreynslu. Gert var áreynslupróf á stefnanda sem leiddi til greinilegra óþæginda fyrir brjósti hans með leiðni út í vinstri handlegg auk þess sem breytingar á hjartalínuriti vöktu grun um kransæðasjúkdóm. Ráðlagði sérfræðingurinn stefnanda að taka upp breytta lifnaðarhætti, hætta reykingum sem hann mun hafa stundað frá því hann var innan við tvítugt, breyta mataræði og auka hreyfingu. Sendi hann jafnframt beiðni um hjartaþræðingu á Landspítalann auk þess sem lyfjameðferð var hafin með Tensol 25 mgr. ½ x 1, Imdur 60 mg daglega og Magnyl 150 mg x 1. Fengnar voru blóðprufur til að meta frekari áhættuþætti, svo sem hækkað kólesteról. Rannsókn á blóðfitu 19. júní 1997 sýndi S-kólesteról 7,6, S-kólesteról í HDL 0,9 og fs-þríglyseríð 2,4. Stefnandi var lagður inn á Landspítalann hinn 30. september 1997 til hjartaþræðingar og var hún framkvæmd daginn eftir þann 1. október. Um niðurstöðu hennar segir í læknabréfi, dags. 9. október 1997, eftirfarandi:

„Vi. höfuðstofn eðlil. Engar sjúklegar breytingar á LAD. Á CX æð er 90% þrengsli. Neðri kransæðin er meðalstór, það eru 40% þrengsli í fyrsta þriðjungi æðarinnar og neðarlega niður við greiningu eru 70% þrengsli. Þannig tveggja æða sjúkdómur. Frekari meðferð í höndum Jóns Þórs Sverrissonar á Akureyri.”

            

Stefnandi átti í samskiptum við Jón Þór á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar hinn 27. október 1997 og er eftirfarandi þá skráð í dagbók sjúkrahússins:

„Elías fór í hjartaþræðingu 30.09. og reyndist hafa alvarlega þrengingu í cirkumflexa og einnig í hægri kransæð. LAD var án sjúkdóms. Hér verður greinilega að gera kransæðavíkkun og mun ég strax senda beiðni um það. Elías var með verulega hækkað cholesterol hér í júní síðastliðnum. Við munum því fá nýja mælingu en jafnframt ætla ég að sækja um læknisvottorð vegna umsóknar lyfjaskírteinis þar sem ég tel mjög brýnt að setja hann á aggresíva cholesterol lækkandi lyfjameðferð.”

 

Í framhaldi viðtalsins gekk læknirinn síðan frá umsókn um lyfjaskírteini fyrir Zocor 20 mg og sendi jafnframt beiðni um innlögn á Landspítalann til kransæðavíkkunar og segir þar:

„Þessi fertugi rekstrarfræðingur hefur fundið fyrir óþægindum fram í vinstri handlegg við áreynslu. Gert var þrekpróf hér í júní síðastliðnum þar sem hann fékk óþægindi fyrir brjóstið og fram í vinstri handlegg. Honum tókst þó að ganga einar 12 mínútur. Gerð var hjartaþræðing 01.10. sem sýndi alvarlegar þrengingar í cirkum flexa og hægri kransæð. LAD var í lagi. Þessi maður er með talsverð óþægindi og þar sem hann er þetta ungur finnst mér full ástæða að reyna kransæðavíkkun.”

 

Blóðrannsókn gerð 31. október sýndi lækkandi kólesteról, S-kólesteról 6,6, S-kólesteról í HDL 0,9 og fs-þríglyserid 3,1.

Stefnandi var settur á biðlista eftir kransæðavíkkun og af bréfi Kristjáns Eyjólfs­sonar, sérfræðings á lyflækningadeild Landspítalans, dags. 21. apríl 1999, til Þórðar Harðarsonar má ráða að 11. nóvember 1997 hafi stefnandi verið nr. 47 af 80 á slíkum lista og þar hafi verið miðað við þann dag sem þræðing var framkvæmd. Jafnframt segir þar m.a.: „Elías mun hafa beðið eftir tímaröð eins og lög gera ráð fyrir, en ekki lágu fyrir upplýsingar sem gerðu þörf hans brýnni en annarra.”

Stefnandi hefur haldið því fram að strax í byrjun nóvembermánaðar 1997 hafi hann kvartað við starfsmenn Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar undan auknum verkjum. Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði hann frá því að þegar hann hafi vaknað einn morgun snemma í nóvember, líklega á sunnudegi, hafi hann fundið að honum hafði versnað verulega. Hann hafi þó ekkert gert strax í málinu. Um kvöldið hafi honum versnað frekar og hafi hann því haft símsamband við sjúkrahúsið daginn eftir og spurt eftir Jóni Þór. Hafi hann þá verið sagður í fríi og að hann kæmi eftir viku. Kvaðst stefnandi þá hafa útskýrt ástæðu þess að hann vildi hitta lækninn og óskað leiðbeiningar um hvað hann ætti að gera í slíku tilviki. Þá hafi svarið verið að annað hvort yrði hann að bíða komu hans úr fríinu eða þá að hringja á sjúkrabíl. Sagði stefnandi að þessi svör hefðu virkað einhvern veginn þannig á hann að hann hafi ákveðið að gera ekkert í málinu. Er Jón Þór kom til starfa á ný hafi þeir síðan rætt saman og hafi stefnandi þá skýrt honum frá verri líðan sinni. Hafi Jón Þór þá svarað að það hlyti að styttast í að stefnandi kæmist að og að hann skyldi hafa samband ef honum versnaði frekar. Stefnandi kvaðst þá enn hafa sagt að honum hefði versnað. Þá hafi svör Jóns Þórs verið aftur þau sömu eða að hann hlyti að fara að komast að. Þegar stefnandi var spurður hvort hann hefði gert lækninum grein fyrir að hann væri með verki í hvíld sagðist stefnandi ekki muna hvort hann hefði gert það, en hins vegar hafi hann sagt Jóni Þór ítrekað að óþægindi hans hefðu versnað.

Jón Þór bar fyrir dóminum að stefnandi hefði ekki haft við sig samband í nóvember vegna aukinna einkenna. Undir hann voru bornar umsagnir hans í bréfi hans til Þorvaldar Ingvarssonar, dags. 27. júlí 2000, um að ástand stefnanda hafi versnað greini­lega á þessum tíma, í skýrslu um áreynslupróf dags. 5. maí 1998 um að orðið hafi klínísk versnun á stefnda í október og síðan orðið stutt í verki núna, og loks í læknis­vottorði vegna umsóknar um örorkubætur þá umsögn hans að á þeim tíma versnaði ástand stefnanda nokkuð. Sagði vitnið þá að þetta hefði í öllum tilvikum verið skráð aftur í tímann eftir öðrum gögnum. Spurður hvort skráning hafi verið á þessum tíma til staðar varðandi fyrirspurnir eða önnur samskipti sjúklinga við ritara hans sagði hann það ekki vera. Hins vegar hafi ritarar hans um það ströng fyrirmæli að þegar hann sé ekki við skuli boða þá sjúklinga á bráðamóttöku sem hringi og tilkynni um versnandi ástand. Ítrekað spurður um staðhæfingar stefnanda vegna þessara samskipta sagði vitnið að hann minntist þess ekki að þessi samskipti við stefnanda hafi átt sér stað og bætti því við að í slíkum tilvikum færi hann slík símtöl við sjúklinga til bókar hjá sér en það hafi hann ekki gert í þessu tilviki.

Þann 27. janúar 1998 var stefnandi síðan tekinn inn á Landspítalann þar sem framkvæmd var hjartaþræðing að nýju og áætlað að kransæðavíkkun yrði framkvæmd í kjölfarið. Í sjúkraskrá hans vegna innlagnar á spítalann greinir meðal annars:

„Að sögn sjúklings fær hann enn áreynslubundna anginu sem hverfur við hvíld þrátt fyrir lyfjameðferð. Einnig bar á því fyrir tveimur til þremur mánuðum síðan að sjúklingur fékk brjóstverki í hvíld með leiðni út í vinstri handlegg og var það einkum eftir þungar máltíðir á kvöldin. Hefur að sögn ekki tekið sprengitöflur við þessum verk. Leggst nú sjúklingur inn til kransæðavíkkunar.“

 

Við hjartaþræðinguna kom síðan í ljós að fyrri þrengingar höfðu lokast, þ.e. í circumflexa og hægri kransæð, og að hægri kransæðin væri alveg lokuð nánast frá stofni. Var niðurstaða lækna sú að víkkun þessara æða yrði ekki við komið. Hins vegar hafi ekki verið merkjanleg breyting á svokallaðri LAD æð og því ekki sjáanlegar þrengingar í henni. Með hliðsjón af því og ungum aldri stefnanda var ekki talið æskilegt að gera á honum aðgerð en hann áfram settur á lyf.

Í læknabréfi Ragnars Danielsen, dags. 18. mars 1998, kemur fram sú staðhæfing að stefnandi hafi haldið áfram að reykja á biðtímanum. Einnig kemur þar fram að stefnandi hafi sagst „hafa fengið greinilega versnun” í nóvember 1997 en það síðan aftur lagast. Tekur læknirinn svo fram að líklegt sé að hann hafi verið að loka þessum æðum þá. Stefnandi verði síðan endurmetinn með nýju álagsprófi og fari í hjartaómun til að meta vinstri slegil. Síðan verði tekin afstaða til áframhaldandi lyfjameð­ferðar eða hvort hann þurfi á opinni graftaaðgerð að halda. Bætir hann svo við að taka verði hans áhættuþætti vel í gegn og hann verði í áframhaldandi eftirliti hjá Jóni Þóri Sverrissyni.

Hinn 5. febrúar 1998 var á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar endurtekið áreynslupróf hjá stefnanda og tókst honum þá aðeins að ljúka 6 mínútum á göngubrautinni. Var hann þá sagður kominn með mikil ónot fyrir brjóstið. Í skýrslu vegna áreynsluprófsins er tekið fram að hann hefði hætt að reykja fyrir nokkrum mánuðum. Hjarta­línurit tekið fyrir áreynsluprófið sýndi reglulegan takt, 74 slög á mínútu. Engin merki um hjartadrep.

Samkvæmt blóðrannsókn 13. febrúar hafði S-kólestrol lækkað og var 4,5, S- kólesterol í HDL var 1,0  og fs-þríglyseríð 2,0.

Hinn 20. apríl 1998 ritaði Jón Þór Sverrisson læknisvottorð vegna umsóknar um örorkubætur og er þar tekið fram að áreynslupróf hafi verið endurtekið 5. febrúar og þá hafi stefnanda aðeins tekist að ljúka 6 mínútum og verið kominn með mikil ónot fyrir brjóstið og 2 mm ST lækkanir yfir allar framveggsleiðslur. Þannig hafi átt sér stað veruleg afturför frá þrekprófi sem gert hafi verið í júní 1997. Þar sem ekki séu þrengingar í LAD sé skurðaðgerð slæmur kostur hjá svo ungum manni. Því hafi verið mælt með að reyna áframhaldandi lyfjameðferð. Í lok vottorðsins kemur fram að stefnandi teljist óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og virðist geta unnið aðeins léttustu störf. Bíða verði og sjá hvernig sjúkdómur hans þróist, hvort hjáæðar myndist og dragi úr einkennum hans, og verði að endurmeta ástandið eftir 6 til 12 mánuði og þá með tilliti til kransæðaskurð­aðgerðar. Í dagbókarfærslum Jóns Þórs á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar kemur fram að hann hafði reglulega símasamband við stefnanda fram til 7. september 1998 og hafi stefnandi þá látið ágætlega af líðan sinni. Í síðustu innfærslu 7. september kemur fram að reiknað hafi verið með blóðprufum og áreynsluprófi í febrúar og jafnvel fyrr og að stefnandi muni hafa samband við lækninn strax ef nokkur breyting verður á líðan.

Stefnandi dró sig hins vegar úr meðferð og eftirliti hjá Jóni Þór í kjölfar þessa og virðist ekki hafa verið í reglulegu eftirliti frá september 1998 til október 2001, en þá leitaði hann til Karls Andersen hjartalæknis í Reykjavík. Við komu til hans er skráð að hann sé fyrrum reykingamaður með 30 pakkaár að baki. Hann hafi hætt að reykja en þyngdist. Karl setti stefnanda á lyf og ákvað að senda hann í hjartaþræðingu til að kortleggja sjúkdóm hans og möguleika á aðgerðum og var sú hjartaþræðing framkvæmd á Landspítala– háskólasjúkrahúsi hinn 16. maí 2002. Var meginniðurstaða hennar sú að útlitið væri að miklu leyti óbreytt miðað við síðustu þræðingu, rúmum 4 árum áður. Þó væri áberandi betra “collateral” flæði en þó ekkert sem krefðist aðgerðar.

Í læknabréfi um þá aðgerð, kemur fram að kolesteról hafi mælst 5,1 og stefnandi fái aukinn skammt af Zocor en fái að öðru leyti á óbreytta lyfja­með­ferð.

Þann 4. október 2002 voru dómkvaddir þeir Atli Þór Ólason bæklunarlæknir og Þorkell Guðbrandsson hjartalæknir til að framkvæma mat að beiðni stefnanda.  Þann 12. desember 2002 lá fyrir mat þeirra. Mátu þeir varanlega örorku 25% og varanlegan miska 30%. Í matinu var miðað við þær breytingar sem urðu á ástandi stefnanda frá því að hjartaþræðing var framkvæmd þann 1. október 1997 og ástandi hans þegar kransæða­víkkun átti að framkvæmast í lok janúar 1998.

Stefnandi óskaði eftir matsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar trygginga­fræðings á tjóni sínu, sem gert var á grundvelli ofangreinds mats hinna dómkvöddu mats­manna sem og skattframtölum stefnanda.  Mat Jóns Erlings lá fyrir þann 28. janúar 2003.

Þann 2. desember 2003 voru sömu læknar dómkvaddir til að gera viðbótarmat við mat þeirra frá 12. desember 2002. Var niðurstaða viðbótarmatsins sú að viðbótargögn um hjartaþræðingu, sem framkvæmd var á stefnanda þann 16. maí 2002, breyttu ekki niðurstöðu mats þeirra.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að hann eigi rétt til greiðslu bóta úr hendi stefnda vegna heilsutjóns er hann hafi orðið fyrir vegna gáleysislegs aðgerðarleysis  stefnda og starfsmanna hans. Hafi stefnandi ekki fengið þá læknisfræðilegu þjónustu sem honum bar og lög kveði á um. Afleiðingar þessa séu að stefnandi sé nú með alvarlegan æðasjúkdóm sem hafi gerbreytt lífi hans og orsakað að hann sé nú ófær um að stunda vinnu og eiga viðunandi daglegt líf. Hann sé nú 46 ára, menntaður sem húsasmíðameistari sem og rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri, í sambúð og með eitt barn á framfæri. Kona hans hafi lítið starfað utan heimilis. Stefnandi hafi um nokkurra ára skeið rekið ráðgjafafyrirtæki á sviði bygginga- og verktakavinnu á Akureyri í samvinnu við aðra. Allt frá því haustið 1997 hafi starfsorka hans verið skert og sé nú svo komið að hann hafi hætt störfum hjá fyrirtækinu sem hann var hluthafi í, enda úthaldslaus og illa haldinn af verkjum. Óvíst sé hvort hann finni vinnu við sitt hæfi. Þá hafi sjúkdómurinn dregið úr getu hans til að stunda íþróttir og almenn heimilisverk reyni um of á hann. Í læknis­vottorði Jóns Þórs Sverrissonar, dags. 21. apríl 1998, segi að stefnandi sé óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og virðist aðeins geta unnið léttustu störf.  

Heilbrigðismál, og þar af leiðandi starfsmenn sjúkrahúsa, lúti yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Beri stefndi húsbóndaábyrgð á mistökum starfs­manna sinna eða skorti á eftirfylgni þeirra með nauðsynlegum viðbrögðum við sjúkdómi stefnanda svo og skorti á nauðsynlegum reglum eða skipulagi er tryggi nauðsynleg viðbrögð við alvarlegum tilvikum eins og þeim sem greinst hafi hjá stefnanda.

Í  1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 segi að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma sé mögulegt að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 komi fram í 3. gr. að sjúklingur eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma sé völ á að veita.  Sjúklingurinn eigi rétt á þjónustu sem miðist við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ sé á.  Í 1. gr. laganna segi jafnframt að markmið laganna sé að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heil­brigðis­þjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja beri milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna.  Þá sé og óheimilt samkvæmt lögunum að mismuna sjúklingum, m.a. á grundvelli stöðu þeirra.

Læknir beri ábyrgð á greiningu og meðferð þeirra sjúklinga sem til hans leiti eða hann hafi til umsjónar, sbr. 9. gr. læknalaga nr. 53/1988. Læknar er komið hafi að meðhöndlun á sjúkdómi stefnanda hafi ekki sýnt þá aðgát og eftirfylgni sem af þeim megi ætlast við greiningu og meðferð sjúkdómsins.

Sé þá fyrst að nefna sérfræðing Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar. Stefnandi hafi vorið 1997 leitað til hans vegna verkja í brjósti sem leiddu út í handlegg. Í framhaldi hafi stefnandi verið settur í áreynslupróf, blóðprufur og síðar sendur á Landspítala í hjarta­þræðingu. Hjartaþræðingin, sem framkvæmd hafi verið 1. október 1997, hafi sýnt alvarlegar þrengingar eins og áður hafi verið lýst. Ferli þetta hafi tekið óþarflega langan tíma og það sé svo fyrst 27 dögum eftir hjartaþræðinguna að sérfræðingurinn hafi sent beiðni til Landspítalans um kransæðavíkkun. Í beiðninni hafi þess ekki verið getið sérstaklega að aðgerðin væri aðkallandi og að setja þyrfti stefnanda á forgangslista.

Þá sé því einnig haldið fram að sérfræðingi sem og starfsfólki Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar, er haft hafi með mál stefnanda að gera, hafi borið að ítreka umrædda beiðni um kransæðavíkkun og þrýsta á um það gagnvart Landspítalanum að hún fengi forgang þegar þeim varð ljóst, eftir kvörtun stefnanda strax í nóvemberbyrjun 1997, að verkir hans hefðu aukist til muna.

Einnig byggir stefnandi á því að læknar á Landspítalanum hafi átt að grípa inn í og setja aðgerðina í forgang þegar eftir að myndatakan hafi farið fram og eigi síðar en þeim barst beiðni Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Hafi þeir haft allar upplýsingar um niðurstöður þræðingarinnar sem og vitneskju um aldur stefnanda og fjölskyldusögu.

Stefnandi heldur því og fram að koma hafi mátt í veg fyrir tjón stefnanda hefði aðgerð verið framkvæmd fyrr. Um þá fullyrðingu vísar hann til álitsgerðar dómkvaddra matsmanna og álitsgerðar nefndar um ágreiningsmál. Þá megi og leiða ofangreinda fullyrðingu af bréfi Dr. Hirshfeld til Hákonar Hákonarsonar, dags. 27. febrúar 1998. Þegar af þessari ástæðu sé þeirri fullyrðingu mótmælt er fram komi í bréfi Dr. Árna Kristinssonar til Þórðar Harðarsonar, dags. 1. ágúst 2000,að alveg væri óvíst hvort forða hefði mátt tjóni ef aðgerð hefði verið framkvæmd fyrr”. Þá sé og mótmælt því er fram komi í bréfi Dr. Þorvaldar Ingvarssonar, dags. 14. ágúst 20000 að læknir Fjórðungs­sjúkrahúss Akureyrar „hafi gert allt er í hans valdi stóð til að koma Elíasi í meðferð”… og að…„það komi fram að sjúklingur hafi haldið áfram reykingum”. Þarna fari læknirinn með rangt mál því stefnandi hafi hætt reykingum í ágústbyrjun 1997.

Stefnandi byggir og á því að sjúkraskrár sjúkrahúsanna hafi ekki verið gerðar með fullnægjandi hætti, enda hafi þar ekkert verið skráð um samtöl starfsmanna né viðkomandi sérfræðings við stefnanda, auk þess sem skráning sé fátækleg og reykinga­saga stefnanda afar misvísandi í skrám.

Eins og fram komi í gögnum máls þessa sé því haldið fram af hálfu lækna sjúkrahúsanna að þeir beri ekki ábyrgð á því að biðlistar myndist hjá sjúkrahúsum vegna fjárþurrðar sjúkrahúsanna. Í lögum um réttindi sjúklinga segi í 19. gr. að byggt skuli á læknisfræðilegum sjónarmiðum og eftir atvikum öðrum faglegum forsendum við for­gangs­röðun sjúklinga. Í upplýsingabæklingi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um réttindi sjúklinga, bls. 9, segi meðal annars að undir ákveðnum kringumstæðum geti sjúklingurinn þurft að bíða eftir meðferð. Þegar svo beri undir skuli læknir viðkomandi sjúklings gefa skýringar á biðinni og upplýsingar um áætlaðan biðtíma svo og því ef unnt sé að fá nauðsynlega meðferð fyrr annars staðar. Þessi regla komi einnig fram í 18. gr. laga um réttindi sjúklinga. Stefnanda hafi hvorki verið greint frá hvernig raðað væri á biðlista, hvar honum yrði raðað á lista, hversu lengi hann mætti gera ráð fyrir að bíða né að hugsanlega mætti leita annað um meðferð.

Í máli þessu sé afar óljóst hvort reglur þær er tilgreindar séu í bréfi Dr. Árna Kristinssonar til Þórðar Harðarsonar, dags. 1. ágúst 2000, hafi verið til staðar á þeim tíma er um ræði í máli þessu. Þá komi og fram í bréfi Árna að þær hafi ekki verið birtar. Sé því spurning hvort starfsfólki annarra sjúkrahúsa eða læknum almennt hafi verið kunnugt um þær. Sé því óvíst hvort læknar Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar hafi vitað um tilvist reglnanna.

Þá liggi heldur ekki fyrir í máli þessu hvort jafnræðis hafi verið gætt við niðurröðun á biðlistana, það er að sjúklingar í sama ástandi hafi notið sömu meðferðar. Því kunni hugsanlega að hafa verið brotið gegn 65. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins sem sé almenn leiðbeiningarregla um bann við mismunun og ætlað sé að gildi á öllum sviðum löggjafar né hvort eftir reglunum hafi verið farið. Þórður Harðarson prófessor segi í bréfi sínu til aðstoðarlandlæknis, dags. 12. maí 1999, að hann „samþykki fullkomlega það sjónarmið að skemmri biðtími eftir kransæðarannsókn og víkkun hefði verið eðlilegur”.

Heilbrigðisþjónustan skuli hafa það að meginmarkmiði að stuðla að bættu heilsufari og fyrirbyggja sjúkdóma, berjast gegn og draga úr heilsufarslegum þjáningum þannig að einstaklingar geti orðið sem virkastir þátttakendur í hinu daglega lífi, án tillits til félagslegs bakgrunns eða efnahagslegrar stöðu. Stefnandi hafi sannanlega orðið fyrir heilsufarstjóni vegna dráttar á að komast í aðgerð. Haldi hann því fram að fyrir liggi ábyrgð ríkisins og stefndi sé því skyldur til greiðslu bóta. Bótakrafa stefnanda sé byggð á fyrirliggjandi mati hinna dómkvöddu matsmanna, sem hafi við mat sitt haft hliðsjón af amerískum matstöflum í Guides to the Evaluation of Permanent Impairment (5. útgáfu) og útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 28. janúar 2003. Skiptist krafa stefnanda þannig:

Varanleg örorka.

Krafa um varanlega örorku sé byggð á matsgerð, en þar komi fram að útreikningur miðist við að varanleg örorka stefnanda sem hlaust af þeim drætti að hann kæmist í kransæðavíkkun sé mismunur á þeirri varanlegu örorku sem stefnandi búi við í dag, eða 35%, og þeirri varanlegu örorku, 10%, sem líklegt sé að stefnandi myndi hafa búið við ef hann hefði strax gengist undir kransæðavíkkun.  Mismunurinn sé 25%. Geri stefnandi kröfu um greiðslu bóta vegna 25% varanlegrar örorku stefnanda að fjárhæð kr. 6.830.903, með 10,94% vöxtum, reiknuðum til 28. janúar 2003, kr. 7.578.381.  Jafnframt sé gerð krafa um greiðslu 2% ársvaxta frá 28. janúar 2003 til 5. júlí 2003 og með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Um forsendur útreiknings vísar stefnandi til fyrirliggjandi útreiknings tryggingafræðings.

    Um bótarétt sé vísað til 5., 6., 7. og 9. gr. sem og 15. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum.

Varanlegur miski.

    Krafa um varanlegan miska sé einnig byggð á fyrirliggjandi matsgerð, en þar komi fram að útreikningur miðist við að varanlegur miski sem hlaust af þeim drætti að stefnandi  kæmist í kransæðavíkkun sé mismunur á þeim varanlega miska sem stefnandi búi við í dag, eða 50%, og þeim varanlega miska sem líklegt sé að stefnandi myndi hafa búið við, 20%, ef hann hefði gengist strax undir kransæðavíkkun.  Mismunur þessara talna sé 30%. Sé gerð krafa um greiðslu bóta vegna 30% miska, eða kr. 1.616.453, með 10,94% vöxtum reiknuðum til 28. janúar 2003, samtals kr. 1.793.326.  Jafnframt sé gerð krafa um greiðslu 2% ársvaxta frá 28. janúar 2003 til 5. júlí 2003 og með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Um bótarétt sé vísað til 4., 15. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Þjáningabætur.

    Stefnandi kveður kröfu þessa á því byggða að stefnandi hafi legið á sjúkrahúsi dagana 30. september 1997 til 1. október 1997 og svo aftur 25. janúar til 28. janúar 1998 auk þess sem hann hafi þurft að koma sér til Reykjavíkur  vegna rannsókna.  Þá hafi stefnandi verið meira og minna við rúmið allt frá því um haustið 1997 og vel fram á árið 1998, enda hafi starfsorka hans verið verulega skert. Sé gerð krafa um greiðslu hæstu þjáningabóta, kr. 200.000 x vísitala í maí 2003 (4482 st/ 3282) eða kr. 273.126 og með 10,94% vöxtum reiknuðum til 28. janúar 2003, kr. 303.006. Jafnframt sé gerð krafa um greiðslu 2% ársvaxta frá 28. janúar 2003 til 5. júlí 2003 og dráttarvaxta frá 5. júlí 2003 til greiðsludags. Um bótarétt vísist til 3.,15. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

    Um bótarétt vísist jafnframt til 1. gr. skaðabótalaga sem og 1. og 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu en því sé haldið fram að komast hefði mátt hjá tjóni stefnanda hefði hann komist í aðgerð fyrr.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er staðhæfingum stefnanda, um að brotið hafi verið gegn lagaákvæðum um réttindi sjúklinga, forgangsröðun og jafnræði við niðurröðun á biðlista, eindregið vísað á bug. Haldi stefnandi því m.a. fram að honum hafi ekki verið leiðbeint um að hugsanlega mætti leita annað um meðferð. Staðreynd sé hins vegar að á þeim tíma hafi æðavíkkanir hvergi verið framkvæmdar á landinu nema á Landspítala. 80 einstaklingar hafi verið á biðlista eftir kransæða­víkkun hinn 11. nóvember 1997, þar af 5 sem settir hafi verið á listann í apríl en aðrir síðar. Stefnandi hafi beðið eftir tímaröð og verið númer 47 á þeim lista en þar hafi verið miðað við þann dag sem þræðing var framkvæmd. Ekki hafi legið fyrir á Landspítalanum upplýsingar um aðstæður hjá stefnanda sem gerðu þörf hans brýnni en annarra.

Stefndi hafnar og þeim staðhæfingum stefnanda að hvorki hafi verið gætt jafnræðis við niðurröðun á biðlistana né eftir þeim farið og að Þórður Harðarson viðurkenni það í bréfi til landlæknis dags. 12. maí 1999. Slíkt verði ekki með réttu lesið úr bréfinu þar sem vitnað sé til þess að skemmri biðtími hefði verið æskilegur en aðstöðuleysi og skortur á fjárveitingum hefði leitt til þess að sjúkrahúsin í Reykjavík hafi á þeim tíma þurft að búa við meiri tafir á kransæðarannsókn og víkkun en æskilegt hefði verið. Tækjabúnaður hafi verið ónógur og mannskapur ekki verið í stakk búinn til að anna innan æskilegs tíma öllum þeim beiðnum sem bárust.

Forgangur á biðlista til æðavíkkunar hafi verið veittur þeim sem hafi haft þrengsli í upp­tökum vinstri kransæðar eða hliðstæðar skemmdir auk þess stundum þeim sem þjáðst hafi af mjög miklum þrengslum nálægt upptökum framveggskvíslar vinstri kransæðar ásamt miklum einkennum. Hjá stefnanda hins vegar hafi það verið hægri kransæð og circumflexa æðin sem hafi verið þrengdar. Hjartalæknar hafi ávallt reynt að meta í hve bráðri áhættu hver og einn sjúklingur væri. Í þeim tilvikum þar sem raunveruleg þörf hafi verið á þræðingu eða að framkvæma útvíkkun í skyndingu, þá hafi það verið gert. Það sé samdóma álit hjartalækna að sjúklingum hafi ekki verið mismunað á biðlista og sé engin ástæða til að rengja orð þeirra eða að þeir hafi ekki meðhöndlað alla sjúklinga af samviskusemi.

Stefndi hafnar því algjörlega að læknar er komið hafi að máli stefnanda hafi ekki sýnt þá aðgát og eftirfylgni sem ætlast hafi mátt til við greiningu og meðferð sjúkdóms stefnanda. Stefnandi hafi fyrst leitað til Jóns Þórs Sverrissonar hinn 16. júní 1997 og þá samdægurs hafi verið gert á honum áreynslupróf. Hafi hann þar klárað 12 mínútur sem sé ágætur árangur. Hann hafi fengið óþægindi fram í vinstri handlegg og vægar línuritsbreytingar. Hafi því vaknað grunur um kransæðasjúkdóm og strax verið hafin lyfja­meðferð með Tensol, Imdur og Magnyl. Gerðar hafi verið blóðrannsóknir og samdægurs send beiðni um hjartaþræðingu. Þar sem ekki hafi legið fyrir afdráttarlaus greining um kransæðasjúkdóm hafi eðlileg fyrsta meðferð við hækkuðu kólesteróli verið að gera hjá honum mataræðisbreytingar. Hafi stefnandi síðan verið settur á kólesteról­lækkandi lyf er niðurstaða þræðingar lá fyrir.

Niðurstaða þrekprófs hafi ekki gefið vísbendingu um að stefnandi þyrfti á neinum sérstökum forgangi að halda varðandi kransæðaþræðingu. Við komu í kransæðaþræðingu hafi hann upplýst að hann hefði ekki tekið lyfin sín að undanförnu, sem bendi til að hann hafi ekki verið það slæmur að honum hafir fundist þörf á lyfjum. Niðurstaða þrekprófsins hafi verið höfð til hliðsjónar við kransæða­þræðinguna 1. október sama ár. Hafi stefnandi þá reynst með tveggja æða sjúkdóm, en einkenni hafi þá ekki verið þess eðlis að það krefðist skjótra aðgerða. Á árinu 1997 og þar áður hafi ekki verið venja að gera víkkun í beinu framhaldi af kransæðamyndatöku nema í undantekningartilvikum. Kransæða­víkkunar­aðgerð hafi þá ekki verið, og sé ekki enn, staðalmeðferð við tveggja æða kransæðasjúkdómi. Kransæðaskurð­aðgerð hafi stundum verið talin heppilegri en hvert tilfelli hafi verið metið af hjartalæknum og hjartaskurðlæknum sameiginlega. Niðurstöður kransæðaþræðinga hafi því verið sendar hjartalækni stefnanda, Jóni Þór Sverrissyni, til frekari ákvörðunar.

Á þessum tíma hafi verið töluvert langur biðtími eftir kransæðavíkkun þannig að búa hafi þurft við meiri tafir á þeim aðgerðum heldur en æskilegt hefði verið. Mál stefnanda hafi ekki verið neitt einsdæmi hvað það varðaði að sjúkdómsástand hafi versnað á biðtíma. Niðurstaða æðamyndatöku og ástand stefnanda þá hafi ekki bent til að hann þyrfti á neinum sérstökum forgangi að halda til að komast í æða­víkkun er ákvörðun um hana lá fyrir og stefnandi var settur á biðlista til æðavíkkunar. Á biðlistanum hafi verið miðað við þann dag sem þræðing var framkvæmd en ekki hvenær formleg beiðni um æðavíkkun barst. Þannig hafi það ekki breytt neinu um röðun stefnanda á biðlistanum þó formleg beiðni hafi ekki verið sett fram fyrr en 27. október. 

      Stefndi vísar þeim staðhæfingum stefnanda eindregið á bug að sérfræðingi og starfsfólki á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar hafi verið ljóst, þegar í nóvemberbyrjun 1997, að verkir hans hefðu aukist til muna og þeim því borið að ítreka beiðnina og þrýsta á forgang. Í greinargerð Jóns Þórs Sverrissonar, dagsettri 27. júlí 2000, vegna kæru til ágreiningsnefndar, sé rakin niðurstaða hjartaþræðingarinnar hinn 27. janúar 1998, en þá hafði komið í ljós að fyrri þrengingar hefðu báðar lokast og að víkkun yrði ekki við komið. Komi þar meðal annars fram að hann geti ekki haft afgerandi áhrif á biðlista Land­spítalans varðandi kransæðavíkkanir og biðtími alltaf erfiður. Síðan segi: „Ástand Elíasar versnaði greinilega á þessum tíma hann var þó aldrei það slæmur að hann væri lagður inn á sjúkrahúsið og ekki eru færð til bókar samskipti okkar þetta tímabil.“ Þarna sé bersýnilega vísað til þess sem eftir á hafi komið í ljós um lokun þrenginganna við kransæðavíkkun, en ekki að lækninum hafi verið það ljóst, á þeim tíma er talið er líklegt að þær hafi lokast, að stefnanda hafi versnað til muna.

      Í sjúkraskrá vegna æðavíkkunaraðgerðar hafi stefnandi upplýst að borið hafi á því í nóvember að hann hafi fengið brjóstverki í hvíld og hafi það einkum verið eftir þungar máltíðir á kvöldin og það síðan aftur lagast. Í bréfi stefnanda, dags. 25. september 2000, telji hann ástand sitt hafa verið með svipuðum hætti þar til um miðjan nóvember en þá hafi honum versnað. Einn morguninn hafi hann vaknað upp við verk og getað sig varla hreyft án þess að fá verki og andþrengsli. Hann hafi reynt að ná til Jóns Þórs Sverrissonar sem þá hafi verið í fríi og ekki væntanlegur fyrr en eftir viku. Aðili sem hann ræddi við í símann hafi greinilega ráðlagt honum að hringja í sjúkrabíl og koma á bráðamóttöku Fjórðungs­sjúkrahússins til frekari skoðunar og mats. Stefnandi hafi þó ekki talið sig verri en það að hann hafi sjálfur ákveðið að bíða. Sú versnun sem lýst sé virðist þannig hvorki hafa verið það mikil né það langvinn að stefnandi kæmi til athugunar á slysadeild eða til læknisins til frekari skoðunar og mats fram að þeim tíma er hann var kallaður inn til æðavíkkunar. Hvíldarverkur eftir þunga máltíð að kvöldi eins og stefnandi hafi lýst geti hvort heldur sem er stafað af bakflæði eða hvikulli hjartaöng. Engar staðfestar upplýsingar hafi þannig legið fyrir á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar eða Landspítala um að ástand stefnanda hefði versnað það mikið á biðtíma að hann hefði þróað með sér hvikula hjartaöng. Slíkt ástand hafi og heldur ekki verið til staðar er hann kom á Landspítala í æðavíkkunaraðgerð.

             Auk þessa liggi fyrir að í sjúkraskrá vegna innlagnar stefnanda til hjartaþræðingar á Landspítalann 30. september 1997, sé greinilega skráð eftir stefnanda sjálfum að hann reyki og pakkaár séu 26. Í upplýsingum fyrir hjúkrun komi og fram að stefnandi hafi ekki tekið lyfin sín að undanförnu og að hann reyki.

             Kveðst stefndi hvorki verða gerður bótaábyrgur fyrir þeirri ákvörðun stefnanda að koma ekki inn til rannsóknar á sjúkrahúsið eins og hann hafi verið hvattur til að gera er hann fann til þess að honum versnaði né því líkamstjóni er við það yrði tengt. Meðferðarheldni hans hafi  þannig ekki verið sem skyldi en því til viðbótar hefði stefnandi ekki tekið lyfin sín að undanförnu er hann kom í þræðinguna og í ljós hafi komið síðar að hann hafi haldið áfram að reykja á biðtíma eftir æðavíkkunaraðgerð.

      Engum saknæmum eða ólögmætum athöfnum eða athafnaleysi starfsmanna stefnda sé þannig fyrir að fara er valdið hafi stefnanda frekara heilsutjóni og sem varðað gæti stefnda bótaábyrgð að lögum. Leiði það til sýknu af öllum kröfum stefnanda.

      Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallist sé varakrafa hans sú að stefnu­kröfurnar verði stórkostlega lækkaðar.

      Útreikningur stefnanda á bótum vegna varanlegrar örorku, 6.830.903 krónur, byggi á tekjum á árinu 1996. Þessu mótmælir stefndi. Samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, beri að miða árslaun við næstliðna 12 mánuði. Samkvæmt því beri að leggja til grundvallar tekjur á tímabilinu 1. nóvember 1996 til 31. október 1997 við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku. Hafi stefndi í greinargerð skorað á stefnanda að upplýsa um hverjar þær tekjur hafi verið og leggja fram gögn því til stuðnings. Við því hafi stefnandi ekki orðið.

      Stefndi mótmælir kröfum stefnanda um hæstu mögulegu þjáningabætur, 273.126 krónur, miðað við vísitölu í maí 2003, sem allt of háum og krefst hann stórkostlegrar lækkunar þeirra. Sé því eindregið vísað á bug að rúmlega á sjúkrahúsi, tengd kransæðaþræðingu og kransæðavíkkun, geti valdið bótaskyldu. Staðhæfingar stefnanda um að hann hafi verið við rúmið allt frá því um haustið 1997 og vel fram á árið 1998 séu engum gögnum studdar. Af gögnum málsins verði ekki ráðið að stefnandi hafi verið óvinnufær. Þvert á móti komi fram í matsgerð á bls. 7-8 að stefnandi hafi unnið fulla vinnu áfram.

      Vaxtakröfu stefnanda, 10,94%, sem sé innifalin í höfuðstól vegna 2% ársvaxta á einstaka bótaliði, alls 954.231 krónur, er mótmælt sem of hárri sbr. framangreint og 3% vöxtum vegna tímabilsins 1. nóvember 1997 til 5. júní 1999 er mótmælt sem fyrndum.

 

Niðurstaða.

             Stefnandi byggir bótaskyldu stefnda í fyrsta lagi á því að læknar og sérfræðingar Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar hafi ekki sýnt þá aðgát og eftirfylgni sem ætlast megi til við greiningu og meðferð sjúkdómsins og þannig sýnt af sér saknæma vanrækslu. Sjúkdómsgreiningarferlið hafi tekið óþarflega langan tíma allt þar til beiðni um sjúkrahúsvist vegna kransæðavíkkunar var lögð fram.  Eins heldur stefnandi því fram að um sé að kenna vanrækslu starfsmanna stefnda að hann gekkst ekki undir kransæðavíkkun í tæka tíð eins og hann hafi átt lögbundinn rétt á.

             Fyrir liggur að stefnandi leitaði fyrst meðferðar hjá Jóni Þór Sverrissyni, hjartasérfræðingi Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar, þann 16. júní 1997. Af gögnum má ráða að þá strax hafi vaknað um það sterkur grunur hjá sérfræðingnum að stefnandi væri með kransæðasjúkdóm og hafi hann því að skoðun lokinni útbúið beiðni samdægurs til Landspítalans um að stefnandi yrði lagður inn á sjúkrahúsið til hjartaþræðingar og kransæðamyndatöku til fá úr grunsemdum sínum skorið. Kemur í beiðni hans fram allnákvæm lýsing á einkennum stefnanda ásamt tilgreiningu á áhættuþáttum eins og reykingasögu og fjölskyldusögu. Loks tekur hann sérstaklega fram að honum finnist full ástæða til að gera hér kransæðamyndatöku fljótlega. Við þessari beiðni er síðan orðið með því að stefnandi fær vistun á Landspítalann og hjartaþræðing er framkvæmd þann 1. október 1997 eða um þremur og hálfum mánuði seinna.

             Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki annað séð en að hjarta­sérfræðingur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hafi brugðist við með þeim hætti sem ætlast mátti til af honum að lokinni fyrstu skoðun á stefnanda. Verður honum því ekki kennt um þann drátt sem varð á frekari greiningu sjúkdómsins.

             Á milli aðila er nokkur ágreiningur um hvaða ráðleggingar hjartasérfræðingurinn gaf stefnanda um mataræði og hreyfingu á þessum tíma og hvort þau lyf sem sérfræðingurinn ráðlagði honum að taka hafi verið fullnægjandi eins og málum var háttað. Þá er einnig ágreiningur á milli aðila um hvernig og hvort stefnandi fór eftir þessum ráðleggingum, t.d. um reykingar, og hvort lyfjagjöfin var ekki eðlileg eins og sakir stóðu. Eins og sakarefni máls þessa er háttað þykja þessi ágreiningsefni ekki hafa þá þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að ástæða sé til að taka sérstaklega afstöðu til þeirra.

             Eftir að greining stefnanda lá fyrir og niðurstöður hennar voru sendar til sjúkrahússins í framhaldi af því liðu 27 dagar þangað til ákvörðun var tekin um að senda stefnanda í kransæðavíkkun. Í bréfi Kristjáns Eyjólfssonar, sérfræðings hjá Land­spítalanum, dags. 21. apríl 1999, sem staðfest var með vitnisburði hans fyrir dómi, kemur fram að skráning stefnanda á biðlista eftir kransæðavíkkun hafi miðast við þann dag sem hjartaþræðing fór fram, það er 1. október 1997. Verður ekki séð að þessar upplýsingar spítalans hafi verið vefengdar af stefnanda og verður því að líta svo á að þær séu óumdeildar. Getur meintur dráttur á að senda beiðni um kransæðavíkkun því ekki orðið grundvöllur bótaábyrgðar í þessu máli.

             Stefnandi hefur hins vegar haldið því fram að hann hafi kvartað við starfsmenn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í byrjun nóvember 1997 undan auknum verkjum og mæði og að verkir væru þá einnig í hvíld, einkum eftir máltíðir. Vegna þessara kvartana hafi sérfræðingar sjúkrahússins átt að ítreka beiðni sína um kransæðavíkkun og þrýsta á um að stefnandi fengi sérstakan forgang til aðgerðarinnar. Fyrir dómi skýrði stefnandi svo frá að hann hefði hringt einu sinni í sjúkrahúsið í byrjun nóvember og þá hafi honum verið sagt að læknir hans, Jón Þór Sverrisson, væri í fríi. Kvaðst stefnandi þá hafa lýst því hvaða verki hann hefði fengið daginn áður og hafi hann þá fengið þau svör að það væri um tvennt að ræða. Annað hvort að koma á sjúkarhúsið í sjúkrabíl eða bíða þar til Jón Þór kæmi til starfa viku seinna. Stefnandi kvaðst þó ekkert hafa gert í því frekar en ekki verður séð að nein fyrirstaða hafi verið af hálfu sjúkrahússins að stefnandi kæmi þangað til rannsóknar í sjúkrabíl eða með öðrum hætti.

             Stefnandi hefur jafnframt haldið því fram að hann hafi svo einhverjum dögum seinna, eftir að Jón Þór hafi verið kominn úr fríinu, rætt við hann símleiðis um framan­greinda afturför sína. Kvaðst stefnandi þannig í skýrslu sinni fyrir dómi hafa  sagt honum ítrekað að óþægindi sín hefðu versnað, en læknirinn hafi ekki brugðist við með nokkrum hætti. Jón Þór neitaði því hins vegar alfarið fyrir dómi að umrætt símtal hefði átt sér stað. Fullyrti hann að hann myndi hafa fært það til bókar ef svo væri. Þar sem ekkert hefur komið fram í málinu sem styður framburð stefnanda að þessu leyti telst þessi fullyrðing hans því ósönnuð.

             Með hliðsjón af þessari niðurstöðu þykir ekki hafa þýðingu að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu stefnanda að sjúkraskrám sjúkrahússins hafi verið ábótavant.

             Samkvæmt þessu verður ekki séð að starfsfólk sjúkrahússins hafi átt þess kost að leggja mat á ástand stefnanda í umrætt sinn vegna þess að hann sinnti því ekki sjálfur með fullnægjandi hætti að leita sér læknishjálpar. Hefði slíkt mat legið fyrir er ekki ólíklegt, samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja um það hvernig raðað var á biðlistann, að forgangur stefnanda hefði þá verið samþykktur. Verður því ekki á það fallist með stefnanda að saknæm vanræksla starfsfólks sjúkrahússins hafi leitt til þess að ekki var á þessum tíma send sérstök beiðni um forgang honum til handa vegna kransæðavíkkunar.

             Ekki sýnist um það deilt að skýringa, á þeim biðtíma sem stefnandi þurfti að sæta, annars vegar þegar hann beið eftir að komast að til kransæðamyndunar og hins vegar þegar hann beið eftir að komast að til kransæðavíkkunar, sé að leita í skorti á nægum tækjabúnaði, aðstöðu og hæfu starfsfólki á þeim tíma sem hér um ræðir til að anna innan eðlilegs tíma öllum þeim beiðnum sem bárust. Kemur fram í bréfum frá sérfræðingum Landspítalans vegna málsins að sjúklingum hafi farið mjög fjölgandi á þessum tíma en einungis hafi verið til eitt tæki til kransæðavíkkana og röntgentæki til kransæða­myndatöku verið orðin léleg. Af þessum orsökum mynduðust biðlistar sem sjúklingar voru settir á í tímaröð og aðgerðir síðan framkvæmdar eftir þeirri röðun sjúklinganna en þó með einhverjum forgangsfrávikum. Snýst ágreiningur í máli þessu að hluta um skráningu og röðun stefnanda á þann biðlista sem myndaðist vegna víkkunaraðgerðanna, hvort löglega hafi verið að henni staðið í tilviki stefnanda og þá sérstaklega hvort gætt hafi verið jafnræðis við röðun á listann. Jafnframt byggir stefnandi á því að skortur hafi verið á reglum eða skipulagi er tryggði nauðsynleg viðbrögð við alvarlegum tilvikum eins og þeim sem greindust hjá stefnanda.

             Í 19. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, er tóku gildi þann 1. júlí 1997, er kveðið á um, ef nauðsynlegt reynist að forgangsraða sjúklingum vegna meðferðar, að þá skuli fyrst og fremst byggja á læknisfræðilegum forsendum og eftir atvikum öðrum faglegum forsendum við forgangsröðun sjúklinga. Verður því ekki annað séð en að löggjafinn geri ráð fyrir að til slíkrar forgangsröðunar sjúklinga kunni að koma en hún skuli þá einungis gerð á faglegum forsendum. Slík forgangsröðun er enda alþekkt við fjölmargar aðgerðir sem framkvæmdar eru á sjúkrahúsum, bæði hérlendis og erlendis. Upplýst hefur verið af forsvarsmönnum Landspítala-háskólasjúkrahúss að eftirgreindar forgangsreglur hafi á þessum tíma gilt um það hvernig sjúklingar röðuðust á listann:  Forgangur á biðlista hafi aðeins verið veittur væri um að ræða þrengsli í upptökum vinstri kransæðar eða hliðstæðar skemmdir. Auk þess hafi forgangur stundum verið veittur þegar mjög mikil þrengsli hafi verið nálægt upptökum framveggskvíslar vinstri kransæðar ásamt miklum einkennum. Loks hafi þeir fengið forgang sem fengu hvikula hjartaöng á biðtímanum.

             Staðfest hefur verið af hálfu Landspítala-háskólasjúkrahúss að reglur þessar hafi ekki verið til skriflegar og hafi því aldrei verið birtar, en allir sérfræðingar hjartadeildar spítalans hafi staðið að setningu þeirra og reynt eftir bestu getu að fara eftir þeim og meta hverju sinni í hve bráðri hættu hver og einn sjúklingur var. Eins kom fram í vitnisburði Jóns Þórs Sverrissonar fyrir dómi að honum hafi verið vel kunnugt um þær grunn­viðmiðanir sem fram koma í hinum tilgreindu reglum.

             Af fyrirliggjandi gögnum og vitnaframburði þeirra sem skýrslur gáfu fyrir dómi verður ekki annað ráðið en að umræddar reglur hafi verið samdar á grundvelli faglegra viðmiða og að röðun á biðlista hafi almennt ráðist af þeim viðmiðunum er þar koma fram. Enda þótt fallast megi á það með stefnanda að formlegur frágangur slíkra reglna, kynning þeirra og birting hljóti að vera æskileg fyrir stjórnsýslu spítalans og öryggi sjúklinga þá verður ekki séð að leiða megi kröfu um slíkt af ákvæðum fyrrgreindra laga um réttindi sjúklinga eða annarra laga. Þar sem stefnandi hefur ekki leitt neinar líkur að því að með mál hans hafi verið farið með öðrum hætti en reglur þessar gera ráð fyrir og hann þannig misrétti beittur varðandi röðun á biðlista verður að hafna þeim málsástæðum stefnanda sem að þessu lúta.          

             Í 18. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 er kveðið á um að þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skuli læknir, sem hann leitar til, gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma. Jafnframt sé skylt að gera sjúklingi grein fyrir því ef unnt sé að fá þá meðferð sem hann þarfnast fyrr annars staðar. Lög þessi tóku gildi þann 1. júlí 1997 og ná því yfir þau samskipti stefnanda og sérfræðings Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar sem áttu sér stað 27. október 1997.

             Stefnandi skýrði sjálfur svo frá fyrir dómi að Jón Þór Sverrisson hafi gert honum grein fyrir því í umrætt sinn að hann mætti eiga von á nokkurri bið eftir að komast í kransæðavíkkunaraðgerð. Hann hafi þó ekki sagt neitt nánar um hversu langur þessi biðtími gæti orðið. Ekki hafi hann heldur getið neitt um að stefnandi kynni að eiga rétt á að fara í aðgerð erlendis. Jón Þór Sverrisson bar á svipaðan veg fyrir dómi. Samkvæmt þessu sýnist ljóst að stefnandi mátti eiga von á nokkurri bið eftir aðgerð. Þegar haft er huga eðli þess biðlista sem hér um ræðir, þar sem röðun sjúklings á listann kann að ráðast af eðli sjúkdóms hans, hlýtur nokkur óvissa um lengd biðtíma að vera óhjákvæmileg og því erfitt að segja fyrir fram um hve biðtími geti orðið langur. Þykir því ekki unnt að virða sérfræðingnum það til sakar þótt hann hafi ekki gefið stefnanda það sérstaklega til kynna að biðtíminn gæti orðið jafn langur og raunin varð. Er málsástæðu stefnanda að þessu leyti því hafnað.

             Stefnandi byggir á því að honum hafi ekki verið greint frá því að hann gæti hugsanlega leitað annað en á Landspítalann í meðferð. Af gögnum máls þessa má ráða að kransæðavíkkunaraðgerðir voru á þeim tíma sem hér um ræðir einungis framkvæmdar hér­lendis á Landspítalanum. Í vitnisburði Jóns Þórs Sverrissonar fyrir dómi kom fram viðurkenning á því að leiðbeining um mögulega aðgerð erlendis hefði ekki verið gefin. Taldi hann það almennt ekki hafa tíðkast hérlendis vegna þess kostnaðar sem því yrði samfara fyrir viðkomandi sjúkling þar eð Tryggingastofnun ríkisins hefði hafnað beiðnum um kostnaðarþátttöku aðgerða þegar unnt sé að framkvæma sömu aðgerðir innanlands. Stefnandi hefur ekki leitt neinar líkur að því að hann hafi átt þess kost að komast í umrædda aðgerð erlendis, áður en útvíkkunaraðgerð varð óframkvæmanleg. Verður af þeirri ástæðu ekki fallist á sök stefnda að þessu leyti.   

             Samkvæmt því sem að framan er rakið er því ekki fallist á bótaskyldu stefnda í máli þessu og ber að sýkna hann af öllum dómkröfum stefnanda.

             Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

             Stefnandi hefur gjafsókn í þessu máli samkvæmt leyfi frá 19. júní 2002 og fer um gjafsóknarkostnað hans eins og segir í dómsorði.

             Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdóms­mönnunum, Ásgrími Ragnarssyni, yfirlækni á hjartadeild Ríkisspítalans í Osló, og Friðgeiri Björnssyni héraðsdómara.

 

Dómsorð:

             Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn af kröfum stefnanda, Elíasar Hákonarsonar, í málinu.

             Málskostnaður fellur niður.

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Hönnu Láru Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, 1.450.000 krónur auk virðisaukaskatts.