Hæstiréttur íslands
Mál nr. 280/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 22. maí 2007. |
|
Nr. 280/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Daði Kristjánsson fulltrúi) gegn X (Oddgeir Einarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 25. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur um aðild varnaraðila meðal annars að líkamsárás, sem varðað getur hann fangelsisrefsingu samkvæmt 1. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, [kt.], til heimilis í Danmörku, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 25. maí 2007, kl. 16:00.
Í kröfu lögreglu kemur fram að fimmtudaginn 17. þ.m. hafi verið kallað á lögreglu að Y í Reykjavík vegna hugsanlegs innbrots í nágrannaíbúð. Hafði tilkynnandi farið inn í greinda íbúð og fundið þar brotaþola, A, [kt.], alblóðugan þar innandyra. Þegar lögreglumenn komu á vettvang lá brotaþoli í rúminu og var mikið blóð að sjá í kringum rúmið, í rúmfötum, á veggjum og gólfi. Var andlit brotaþola afmyndað sökum mikillar bólgu hægra megin í andliti, augu blóðhlaupin og storknað blóð víðs vegar á höfði og líkama. Í fyrstu kvaðst brotaþoli ekki vita hvað hefði átt sér stað og neitaði því að hafa orðið fyrir líkamsárás. Á vettvangi vakti athygli að útihurð að íbúð brotaþola hafði verið brotin upp og var hurðarkarmur brotinn. Greina mátti skófar á hurðinni. Blóðugt fingrafar var á stigahandriði á stigagangi fyrir framan íbúðina. Nágrannar á vettvangi könnuðust við að hringt hefði verið á dyrabjöllu og að aðila hefði verið hleypt inn á stigaganginn þá um morguninn. Kannaðist íbúi svo við í kjölfarið hafa heyrt óp frá íbúðinni.
Í samtali við kærða á slysadeild kom fram að hann teldi aðila sem hann nefndi [...] hafa veitt honum áverkana. Af lýsingum að dæma töldu lögreglumenn að um kærða væri að ræða og staðfesti brotaþoli það eftir að honum var sýnd mynd af honum. Kvað brotaþoli nokkra aðila hafa verið hjá sér um nóttina og hafi kærði komið þangað. Hafi kærði verið ógnandi í hans garð og sakað hann um að hafa verið að reyna við fyrrverandi kærustu hans, B, [kt.]. Hefur barnsmóðir kærða staðfest að hún hafi hitt brotaþola og kærða um nóttina og átt við þá samtal. Einnig hefur komið fram hjá henni að kærði vissi að lögreglan leitaði hans vegna líkamsárásarinnar og hann hygðist ekki ætla að gefa sig fram við lögreglu.
Á slysadeild var rætt við lækni sem annaðist brotaþola og liggur fyrir bráðabirgðalæknisvottorð í málinu. Afleiðingar ætlaðrar árásar voru nefbrot, kinnbeinsbrot, loft undir húð í andliti ásamt lofti í mjúkverjum háls aðliggjandi efri hluta loftvegar. Greindi læknir á slysadeild lögreglu svo frá að áætla mætti að áverkarnir stöfuðu af beitingu hnúajárns eða einhverju álíka barefli.
Kærði neiti sök en kveðst hafa farið heim til brotaþola aðfaranótt 17. þ.m. þar sem hann var ósáttur við brotaþola en ekki hafi komið til átaka í umrætt skipti. Fyrir liggur að kærði er með áverka á hendi sem kann að tengjast meintri líkamsárás á brotaþola en kærði hafi greint frá því að tengist umferðaróhappi.
Þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi brotist inn á heimili brotaþola, veitt honum alvarlega líkamsáverka og yfirgefið hann mikið slasaðan. Meintur verknaður þykir alvarlegur með hliðsjón af áverkum og ætlaðri verknaðaraðferð. Rannsókn málsins er á frumstigi en nauðsynlegt þykir að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Nauðsynlegt er að yfirheyra vitni, þ.m.t. brotaþola. Ekki liggur ljóst fyrir um dvalarstað kærða hér á landi og á eftir að gera húsleit þar í því skyni að leggja hald á sönnunargögn, þ.m.t. fatnað kærða sem hann klæddist þegar meintur verknaður átti sér stað. Einnig verður unnið að gagnaöflun um símnotkun kærða sem skýrt geta ferðir hans á umræddum tíma og samskipti við aðila sem veitt geta frekari upplýsingar í málinu. Nauðsynlegt er að yfirheyra kærða frekar um málið. Gangi kærði laus getur hann komið undan munum og gögnum sem hafa sönnunargildi og eða hann getur haft áhrif á framburði vitna.
Þá liggur fyrir að kærði er búsettur í Danmörku og því nauðsynlegt að tryggja nærveru kærða hér á landi á meðan málið er til rannsóknar.
Ætluð brot telst varða við 1. eða 2. mgr. 218. gr., 1. mgr. 220. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en fyrrgreint brot varða að lögum fangelsisrefsingu. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Fyrir liggur í máli þessu að íbúi að Y í Reykjavík varð fyrir líkamsárás fimmtudaginn 17. maí sl. Samkvæmt rannsóknargögnum málsins eru verulegar líkur á að um sé að ræða brot gegn 1. eða 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Kærði er undir rökstuddum grun um að eiga aðild að þessu máli, en hann hefur neitað sök. Fyrir liggur að eftir á að yfirheyra vitni og getur kærði haft áhrif á framburð þeirra vitna haldi hann óskertu frelsi sínu. Sækjandi hefur hér fyrir dómi fullyrt að á þeim tíma sem gæsluvarðhald vari, verði það úrskurðað til 25. maí nk., verði náð utan um grundvallarþætti málsins. Verði eftir það eigi talin hætta á að kærði spilli rannsókn málsins, haldi hann frelsi sínu. Á þessum grundvelli er það niðurstaða í málinu að rétt sé að verða við kröfu lögreglu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi skv. a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður gæsluvarðhaldi markaður sá tími sem krafist er.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 25. maí 2007, kl. 16:00.