Hæstiréttur íslands
Mál nr. 737/2014
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Uppsögn
|
|
Miðvikudaginn 13. maí 2015. |
|
Nr. 737/2014.
|
Kolbrún grasalæknir ehf. (Helgi Birgisson hrl.) gegn Helgu Dögg Björgvinsdóttur (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Vinnusamningur. Uppsögn.
H höfðaði mál gegn K ehf. og krafðist greiðslu launa í uppsagnarfresti. H hafði verið sagt upp störfum af fyrirsvarsmanni K ehf. Við það tilefni lét fyrirsvarsmaðurinn H afhenda fartölvu og farsíma, sem hún hafði haft yfir að ráða í störfum sínum fyrir félagið, svo og lykla að vinnustaðnum. Óumdeilt var að H mætti ekki frekar til vinnu. Aðilar deildu um hvort K ehf. hefði leyst H undan þeirri skyldu að vinna út þriggja mánaða uppsagnarfrest, en af hálfu H var á því byggt að fyrirsvarsmaður K ehf. hefði sent sér símskilaboð þar sem fram hefði komið að hún fengi greidd full laun í uppsagnarfresti án þess að inna vinnuframlag af hendi. K ehf. byggði á hinn bóginn á því að stéttarfélag H hefði, í umboði H, boðið fram starfskrafta hennar í uppsagnarfrestinum og þar sem H hefði ekki komið til starfa hefði hún fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti. Talið var að sú framganga fyrirsvarsmanns K ehf., að segja H upp störfum og krefjast þess að hún afhenti lykla að vinnustaðnum, fartölvu og farsíma, yrði ekki skilin öðruvísi en svo að um riftun á vinnusamningi aðila hefði verið að ræða, sem leiddi til fyrirvaralausrar brottvikningar H úr starfi. Sú niðurstaða fengi og stoð í fyrrgreindum símskilaboðum fyrirsvarsmannsins. Að þessu gættu hefðu heimildir stéttarfélags H ekki náð til að stofna til nýrrar skuldbindingar hennar um vinnuframlag í þágu K ehf. Var því fallist á kröfu H um greiðslu launa fyrir þrjá mánuði að frádregnum atvinnuleysisbótum sem hún hafði fengið á tímabilinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. nóvember 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningslaust er með aðilum að fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafi 12. júní 2012 sagt stefndu upp störfum og látið hana afhenda sér lykla að vinnustaðnum, farsíma og fartölvu. Af þessari framgöngu fyrirsvarsmannsins verður ekki annað ráðið en að um riftun á vinnusamningi aðila hafi verið að ræða, sem leiddi til fyrirvaralausrar brottvikningar stefndu úr starfi. Sú niðurstaða fær enn fremur stoð í eftirfarandi símskilaboðum fyrirsvarsmannsins til stefndu tveimur dögum síðar: „Viltu hringja? Mundi vilja hitta tig kl 15.30 í dag til ad afhenda tér uppsagnabréf. Tú færd greidd full laun. Trátt fyri ad vinna ekki vinnu tina.“ Að þessu gættu náðu heimildir stéttarfélags stefndu ekki til að stofna til nýrrar skuldbindingar hennar um vinnuframlag í þágu áfrýjanda. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Kolbrún grasalæknir ehf., greiði stefndu, Helgu Dögg Björgvinsdóttur, 450.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. september sl., er höfðað 20. janúar sl. af Helgu Dögg Björgvinsdóttur, Sævarlandi 16, Reykjavík gegn Kolbrúnu grasalækni ehf., Freyjugötu 30, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.498.695 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 310.000 krónum frá 1. júlí. 2013 til 1. ágúst 2013, af 826.250 krónum frá þeim degi til 1. september 2013 og af 1.498.696 krónum frá þeim degi greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst stefndi greiðslu málskostnaðar.
I.
Í málinu krefur stefnandi stefnda um laun í uppsagnarfresti. Stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda 15. maí 2012. Stefnandi er viðskiptafræðimenntuð og var henni ætlað að halda utan um fjármál og bókhald stefnda. Fyrirsvarsmaður stefnda kom á fund stefnanda 12. júní 2013 og sagði stefnanda upp störfum. Við það tækifæri fór fyrirsvarsmaðurinn þess á leit að stefnandi myndi afhenda fartölvu er hún hafði yfir að ráða og var í eigu stefnda, farsíma sem stefndi hafði útvegað stefnanda og lykla að vinnustað stefnda. Fór stefnandi strax af vinnustaðnum, án þess að hafa fengið uppsagnarbréf í hendi. Stefnandi leitaði til stéttarfélags sína í kjölfarið. Stefnandi mætti ekki til vinnu eftir þetta og leit svo á að um væri að ræða ólögmæta uppsögn. Stefndi kveðst hafa óskað eftir því að stefnandi ynni út uppsagnarfrest sinn. Það hafi hún ekki gert og eigi hún því ekki rétt á launum í uppsagnarfresti.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar málsins skýrslu fyrir dóminum.
II.
Stefnandi kveður málatilbúnað sinn byggðan á meginreglum samningaréttarins um að samninga skuli halda svo og reglum vinnuréttarins. Ráðningarsamningur aðila, sem eigi stoð í kjarasamningi VR, hafi verið brotinn af hálfu stefnda. Stefnandi byggi á því að hún hafi áunnið sér 3ja mánaða uppsagnarfrest og skuli uppsagnarfrestur miðast við mánaðamót. Þann 12. júní 2013 hafi fyrirsvarsmaður stefnda, Kolbrún Björnsdóttir, vikið stefnanda fyrirvaralaust úr starfi og farið þess á leit við hana að hún yfirgæfi vinnustaðinn þá þegar. Hafi hún verið krafin um fartölvu og farsíma og gert að skila af sér lyklum. Við þetta tækifæri hafi stefnandi spurt að því hvort verið væri að segja sér upp og fyrirsvarsmaður stefnda sagt það ekki vera, heldur væri verið að reka hana. Stefnandi hafi orðið við þessum tilmælum, tekið saman hluti sína og yfirgefið fyrirtækið. Stefnandi hafi tveimur dögum síðar fengið símskilaboð frá fyrirsvarsmanni stefnda þar sem hún hafi beðið hana að koma á fund til sín til að fá afhent uppsagnarbréf og tekið fram að hún fengi greidd full laun þrátt fyrir að vinna ekki vinnuna. Þremur dögum eftir það hafi hún fengið tilkynningu frá símafélagi sínu um að vinnuveitandinn greiddi ekki lengur farsímareikning sem greiddur hefði verið samkvæmt samkomulagi. Samningaumleitanir VR hafi ekki báru ekki árangur. Stefnandi hafi fengið uppgerð laun vegna vinnu sinnar fram til 12. júní 2013 svo og áunnið orlof fram til þess dags. Hún hafi hins vegar ekki fengið greidd nein laun í uppsagnarfresti. Stefnandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur og fengið greiddar bætur samtals 584.406 krónur, sem hafi verið dregnar frá kröfu á hendur stefnda. Innheimtubréf vegna kröfunnar hafi fyrst verið sent 23. júlí 2013 og síðan leiðrétt bréf sent 28. október 2013 þegar ljóst hafi verið hverjar atvinnuleysisbætur væru.
Stefnandi eigi rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt kjarasamningi og skuli uppsögn miðast við mánaðamót. Við ólögmætan brottrekstur úr starfi öðlist stefnandi rétt til skaðabóta sem nemi launum fyrir þann tíma auk umsamins orlofs, sem séu 28 dagar á ári. Sá dagafjöldi jafngildi 12,07% ofan á laun. Dómkrafan um laun í uppsagmarfresti sundurliðist með eftirfarandi hætti:
Laun vegna júní 2013 310.000 krónur
Laun vegna júlí-september 516.250 x 3 1.548.750 krónur
Orlof 12,07 % af kr. 1.858.750 224.351 krónur
Frá dragast atvinnuleysisbætur 584.406 krónur Samtals 1.498.695 krónur
Krafist sé dráttarvaxta af framangreindri fjárhæð frá 23. ágúst 2013 og til greiðsludags. Dráttarvaxtakrafa vegna skaðabóta byggi á 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Miðað sé við að dráttarvexti á skaðabætur sé einungis hægt að krefja frá því að einn mánuður sé liðinn frá því að innheimtubréf hafi verið sent til stefnda. Þá sé krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. laga nr. 38/2001 er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Stefnandi vísar í meginreglur samningaréttar um að samninga skuli halda og varðandi rétt til skaðabóta vegna riftunar til ráðningarsamnings aðila. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Kröfur um orlof, 12,07% ofan á laun, eigi stoð í orlofslögum nr. 30/1987 og ráðningarsamningi. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum númer 50/1988. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Stefndi kveður stefnanda hafa verið ráðna í starf framkvæmdastjóra hjá stefndu, sem m.a. reki jurtaapótek, heilsuráðgjöf o.fl. Meðal verkefna stefnanda hafi verið að halda utan um fjármál og bókhald félagsins. Þann 12. júní 2013 hafi fyrirsvarsmaður stefnda tilkynnt stefnanda að hún yrði að segja henni upp störfum. Hafi stefnanda m.a. verið gerð grein fyrir því að launakostnaður hennar væri of hár miðað við veltu, en jafnframt hafi fyrirsvarsmaðurinn haft orð á því við stefnanda að bókhald virtist ekki vera í góðu horfi. Stefnandi hafi tekið þessum orðum illa og horfið af starfsvettvangi. Því hafi ekki komið til þess að henni yrði afhent uppsagnarbréf. Stefnandi hafi ekki mætt til starfa 13. júní 2013 og ekki heldur 14. júní 2013. Fyrirsvarsmaðurinn hafi þá haft samband við stefnanda og boðað hana samdægurs á fund til þess að ræða uppsögnina og afhenda henni uppsagnarbréf. Stefnandi hafi ekki mætt á þann fund, en sent þess í stað skilaboð um að hún vildi fá uppsagnarbréfið í pósti. Í millitíðinni hafi stefnda borist bréf VR, dagsett 14. júní 2013, þar sem sagði að yrði stefnandi ekki kölluð til starfa innan 7 daga yrði litið svo á að um fyrirvaralausa uppsögn væri að ræða og launþeginn áskildi sér þá launa á uppsagnarfresti. Fyrirsvarsmaður stefnda hafi haft sambandi við starfsmann VR og benti honum á að stefnandi hefði farið í fússi vegna uppsagnarinnar og að henni bæri að vinna uppsagnarfrest sinn eins og öðrum. Þann 18. júní 2013 hafi stefnda borist svofellt tölvubréf starfsmanns VR: ,,Sæl Kolbrún. Ég hef látið Helgu Dögg vita og mun hún mæta til starfs í fyrramálið“. Stefnandi hafi ekki mætti til vinnu 19. júní 2013 eins og hún hafði þó boðað. Í kjölfarið hafi verið boðað til fundar 21. júní 2013 hjá VR, en auk starfsmanns VR hafi stefnandi, fyrirsvarsmaður stefnda og lögmaður stefnda setið fundinn. Á fundinum hafi verið rætt um þá skyldu stefnanda að mæta til starfa, en hún hafnað því alfarið þar sem hún kvaðst ekki getað hugsað sér að vinna áfram með stefnda. Kom fram hjá starfsmanni VR að félagið myndi ekki hafa frekari afskipti af málinu. Í lok júní 2013 hafi stefndi gert upp mánaðarlaun stefnanda miðað við 13. þess mánaðar, er stefnandi lét af störfum, og jafnframt hafi verið gengið frá orlofsuppgjöri við stefnanda vegna starfslokanna. Hefði hún því fengið greitt laun að fullu í samræmi við vinnuframlag.
Stefnanda hafi ekki verið fyrirvarlaust rekin úr starfi, en ráðningarsamningi hennar hafi ekki verið rift. Þegar starfsmanni sé sagt upp störfum hefði hann alltaf þá skyldu að vinna uppsagnarfrestinn, nema samkomulag næðist um annað. Ekkert samkomulag hafi verið gert við stefnanda um að hún losnaði undan vinnuskyldu sinni heldur, þvert á móti, hafi orðið að samkomulagi að stefnandi myndi mæta til starfa og vinna uppsagnarfrest sinn. Með því að gera það ekki hafi hún með ólögmætum hætti slitið ráðningarsamning sinn við stefnda og bakað sér skyldu til að greiða skaðabætur, sem samkvæmt dómvenju næmi hálfum uppsagnarfresti. Varakröfu um lækkun byggi stefndi á því, verði ekki fallist á sýknu, að draga beri frá stefnufjárhæðinni launagreiðslur frá öðrum vinnuveitendum í ætluðum uppsagnarfresti. Þannig verði stefnandi því að upplýsa um allar launagreiðslur til sín eftir 12. júní 2013 og jafnframt um verktakagreiðslur, ef um þær hafi verið að tefla. Orlofskröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt sem rangri.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttar, samningaréttar og vinnuréttar og reglna um vanefndir og ólögmæta riftun samninga og afleiðingar þeirra.
IV.
Í málinu deila aðilar um hvort stefndi hafi leyst stefnanda undan þeirri skyldu sinni að vinna út uppsagnarfrest. Stefnandi staðhæfir að fyrirsvarsmaður stefnda hafi komið á sinn fund 12. júní 2013 og sagt stefnanda upp störfum. Um leið hafi fyrirsvarsmaðurinn krafið stefnanda um fartölvu, farsíma og lykla að vinnustað, allt í eigu stefnda. Þá staðhæfir stefnandi að fyrirsvarsmaður stefnda hafi 14. júní 2013 sent stefnanda símaskilaboð með þeim skilaboðum að fyrirsvarsmaðurinn vildi afhenda stefnanda uppsagnarbréf. Í skilaboðunum hafi komið fram að stefnandi fengi greidd full laun og að hún þyrfti ekki að vinna út uppsagnarfrestinn. Stefndi hefur viðurkennt að hafa krafið stefnanda um fartölvu, farsíma og lykla að vinnustað. Þá hefur stefndi viðurkennt að hafa sent stefnanda símaskilaboð er frammi liggja í málinu. Í málinu er óumdeilt að stefnandi hafði áunnið sér 3ja mánaða uppsagnarfrest, miðað við mánaðarmót.
Stefndi er atvinnurekandi og hefur starfsmenn í vinnu. Stefnda máttu vera ljósar skyldur sínar í tengslum við uppsagnir starfsmanna. Sú ákvörðun stefnda að krefja stefnanda um fartölvu, farsíma og lykla að vinnustað stefnda gaf stefnanda til kynna að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hennar í uppsagnarfresti. Símaskilaboð sem stefndi sendi stefnanda 14. júní 2013 verða ekki skilin á annan veg en að stefnandi þyrfti ekki að vinna út uppsagnarfrest sinn. Með þessu komst á bindandi samkomulag á milli stefnanda og stefnda um vinnu í uppsagnarfresti.
Stefndi heldur því fram að stéttarfélagið VR hafi haft umboð fyrir stefnanda til að semja um starfslok stefnanda. Hafi stéttarfélagið, í umboði stefnanda, boðið fram starfskrafta stefnanda í uppsagnarfresti. Stefnandi hafi ekki komið til starfa og þar með fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnafresti. Þessu hefur stefnandi mótmælt og kveður stéttarfélagið ekki hafa haft umboð til að bjóða fram vinnuframlag sitt í uppsagnarfresti. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að stéttarfélagið VR hafi haft stöðuumboð til að koma fram fyrir hönd stefnanda og ráðstafa þar hennar hagsmunum. Þá liggur ekkert umboð frammi í málinu sem bindur stefnanda gagnvart stefnda. Er stefnandi því óbundinn af yfirlýsingum stéttarfélagsins í málinu. Er tölulegur útreikningur kröfunnar í samræmi við launaseðla stefnanda. Frá eru dregnar atvinnuleysisbætur er stefnandi naut í uppsagnarfresti. Verða stefnukröfur stefnanda því teknar til greina eins og þær eru fram settar.
Í samræmi við niðurstöðu málsins greiði stefndi stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.
Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Sigrún Ingibjörg Gísladóttir héraðsdómslögmaður.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Kolbrún grasalæknir ehf., greiði stefnanda, Helgu Dögg Björgvinsdóttur, 1.498.695 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 310.000 krónum frá 1. júlí 2013 til 1. ágúst 2013, af 826.250 krónum frá þeim degi til 1. september 2013 og af 1.498.695 krónum frá þeim degi greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.