Hæstiréttur íslands

Mál nr. 148/2016

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)
gegn
X (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. febrúar 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta brottvísun af heimili og nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði ekki gert að sæta brottvísun af heimili sínu, en að því frágengnu að brottvísun af heimili og nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Hæstaréttar 23. febrúar 2016 í máli nr. 143/2016 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi til 4. mars sama ár. Varðhald yfir varnaraðila getur engu breytt um þá ákvörðun lögreglustjóra að honum verði gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans á þann veg sem í dómsorði greinir.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008  um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi 10. febrúar 2016 um að varnaraðili, X, skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili sitt og eiginkonu sinnar, A, að [...] í [...]. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti eftirför, heimsæki eða með nokkru öðru móti setji sig í samband við eiginkonu sína.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola eru staðfest.

Þóknun verjanda varnaraðila, Torfa Ragnars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. febrúar 2016

Árið 2016, þriðjudaginn 23. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra kveðinn upp úrskurður þessi. 

            Með bréfi dagsettu 14. febrúar 2016 hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi krafist þess með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, að staðfest verði ákvörðun lögreglustjórans sem tekin var þann 10. febrúar 2016 með vísan til 4. og 5. gr. laganna um að X, kt. [...], [...], [...], hafi verið gert að yfirgefa heimili sitt að [...] í [...], þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni, A, kt. [...] og ungu barni þeirra, í fjórar vikur frá og með 11. febrúar 2016 kl. 15:03.  Þá hafi honum verið gert að sæta nálgunarbanni þannig að lagt var bann við því að hann kæmi að eða væri við [...] í [...] og jafnframt hafi honum verið bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í sambandi við eiginkonu sína, svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti. Framangreind ákvörðun lögreglustjóra var birt varnaraðila 11. febrúar sl. kl. 15:03 og skyldi hún gilda í fjórar vikur frá birtingu. Torfi Ragnar Sigurðsson hrl. hefur verið skipaður verjandi varnaraðila og Jónína Guðmundsdóttir hdl. hefur verið skipuð réttargæslumaður brotaþola.

            Málið var þingfest þann 17. febrúar sl. Útivistarfyrirkall hafði verið gefið út og  sótti varnaraðili þing ásamt verjanda sínum og auk þess mætti réttargæslumaður brotaþola fyrir dóm. Verjandinn mótmælti framkominni kröfu fyrir hönd varnaraðila og krafðist þóknunar fyrir störf sín. Réttargæslumaður brotaþola gerði grein fyrir afstöðu brotaþola og þá gerði hún einnig kröfu um þóknun. Málið var því tekið til úrskurðar í þessu þinghaldi eftir að sækjandi, verjandi og réttargæslumaður brotaþola höfðu tjáð sig um lagaatriði.

            Í ákvörðun lögreglustjóra kemur fram að þann 31. október 2015 hafi verið óskað aðstoðar lögreglu vegna brotaþola vegna ofbeldis sem hún teldi sig hafa orðið fyrir af hálfu varnaraðila, en hann hafi alfarið neitað sök. Hafi varnaraðila í kjölfarið verið gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í þrjár vikur og hafi sú ákvörðun verið staðfest með úrskurði dómsins þann 5. nóvember sl. Fáum dögum síðar hafi brotaþoli óskað eftir niðurfellingu ákvörðunarinnar og hafi hún viljað láta á það reyna hvort hjónaband hennar og varnaraðila myndi ganga. Hafi ákvörðunin því verið felld úr gildi með ákvörðun lögreglustjóra þann 10. nóvember sl. Þann 30. nóvember sl. hafi verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila þar sem honum hafi verið gefin að sök líkamsárás gagnvart brotaþola. Aðalmeðferð málsins hafi hafist þann 8. febrúar sl. en brotaþoli hafi þá upplýst að hún nýtti heimild sína til að skorast undan vitnisburði. Brotaþoli hafi daginn eftir lýst hjá lögreglu viðvarandi ruddalegu og niðurlægjandi framferði varnaraðila gagnvart henni og ósjálfstæði hennar gagnvart honum, bæði í fjárhagslegu og atvinnulegu tilliti. Hún hafi lýst því að varnaraðili hafi í þrígang veist að henni með líkamlegu ofbeldi, fyrst fyrir u.þ.b. tveimur árum, síðan í nóvember 2015 og aftur fyrir u.þ.b. tveimur vikum. Þá hafi varnaraðili vegna þess máls sem nú sé rekið fyrir dómi ítrekað hótað að láta drepa fjölskyldu hennar í [...], ef af málinu hljótist afleiðingar fyrir hann, auk þess sem hann hafi lagt henni línurnar um það hvernig hún ætti að bera vitni fyrir dómi, þ.e. að hún ætti að greina frá því að varnaraðili hefði aldrei beitt hana ofbeldi. Hefði hann orðið henni mjög reiður fyrir að hafa ekki orðið við því. Brotaþoli segi það  ódýrt og tiltölulega auðfengið að láta drepa fólk í [...] og óttist hún að hann myndi láta verða af þeirri hótun. Hafi brotaþoli skýrt frá því að hún hafi hlotið marbletti á handlegg vegna árásar varnaraðila á hana fyrir u.þ.b. tveimur vikum og þá hafi hún upplýst um tvö vitni að árásinni, en það séu tvær konur sem búi á heimili þeirra. Varnaraðili hafi í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkennt að hafa beitt brotaþola ofbeldi en ekki nýlega og hafi hann alfarið neitað sök. Þá hafi hann sagt að brotaþoli hefði komið fyrir dóm daginn áður og sagt að hún ætlaði að vera góð og vildi að málinu lyki. Framangreind vitni hafi við skýrslutökur ekki kannast við nokkurt ofbeldi af hálfu varnaraðila gagnvart brotaþola. Fram kemur í greinargerðinni að í tvö skipti í apríl 2014 hafi brotaþoli óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ótta við varnaraðila sem hafi hótað henni barsmíðum og lífláti. Varnaraðili hafi sagt ásakanir brotaþola byggðar á misskilningi, ekkert ofbeldi hefði átt sér stað á heimilinu en þau hefðu rifist. Hafi brotaþoli eftir annað tilvikið gist í Kvennaathvarfinu.

            Lögreglustjóri byggir á því að brotaþoli hafi ásakað varnaraðila um ítrekað ofbeldi, hótanir og ólögmæta nauðung vegna skýrslugjafar hennar hjá lögreglu og til þess að hafa áhrif á skýrslugjöf fyrir dómi. Brotaþoli hafi nú upplýst að hún sé reiðubúin að gefa skýrslu fyrir dómi. Lögreglustjóri telur framburð brotaþola trúverðugan, læknir hafi lýst því fyrir dómi að brotaþoli hafi verið einkar trúverðug við læknisskoðun og staðfesti hann að áverkar hennar samrýmdust frásögn hennar af atburðum. Lögreglustjóri telur að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi beitt brotaþola ofbeldi þannig að varði við 217. gr. almennra hegningarlaga og ólögmætri nauðung/hótun sem varðað geti við 108. gr. sömu laga. Þá sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að varnaraðili muni beita brotaþola ólögmætri nauðung eða hótunum þar sem brotaþoli hafi nú öðlast kjark til þess að gefa skýrslu við aðalmeðferð ofangreinds máls, enda hafi hann verulega og augljósa hagsmuni af því að brotaþoli gefi ekki skýrslu fyrir dómi. Þá telur lögreglustjóri að vægari úrræði en brottvísun af heimili og nálgunarbann muni ekki vernda friðhelgi og tryggja öryggi og hagsmuni brotaþola, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011. 

Niðurstaða:

            Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða, eins og segir í b-lið lagagreinarinnar, að hætta sé á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna er heimilt að beita brottvísun af heimili ef rökstudd ástæða er til að ætla að sakborningur hafi framið refsivert brot gegn ákvæðum XXII.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga og/eða 108. gr., 233. gr., 233. gr. b, 253. gr. og/eða 257. gr. sömu laga, sbr. a-lið greinarinnar eða hætta er á að viðkomandi muni fremja háttsemi skv. a-lið gagnvart brotaþola eins og segir í b-lið greinarinnar.

             Rökstuddur grunur leikur á því að varnaraðili hafi beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi og liggja fyrir í málinu gögn því til stuðnings. Varnaraðili hefur kannast við að hafa beitt brotaþola ofbeldi en þó ekki nýlega. Þá leikur grunur á því að varnaraðili hafi reynt að hafa áhrif á afstöðu brotaþola að því er varðar skýrslugjöf hennar fyrir dómi í  máli þar sem varnaraðili er ákærður fyrir líkamsárás gagnvart henni.

            Með vísan til framangreindra gagna og háttsemi varnaraðila gagnvart brotaþola er fallist á að fram sé komin rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili hafi framið refsivert brot gegn brotaþola sem varðar geti við 108. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður ekki séð að vægari úrræði dugi í þessum efnum.  Brýna nauðsyn ber til að vernda brotaþola fyrir þeirri háttsemi sem varnaraðili er grunaður um. Þá liggur fyrir að varnaraðili hefur áður sætt nálgunarbanni og brottvísun af framangreindu heimili, eða fyrir rúmum þremur mánuðum.

            Verður því fallist á að varnaraðili skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

            Með vísan til annars vegar 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 og hins vegar 3. mgr. 48. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Torfa Ragnars Sigurðssonar hrl., 368.280 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 393.855 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist einnig úr ríkissjóði.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

            Varnaraðila, X, kt. [...] [...], [...], er skylt að yfirgefa heimili sitt að [...] í [...], þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni, A, kt. [...] og ungu barni þeirra, í fjórar vikur frá og með 11. febrúar 2016 kl. 15:03.  Þá er honum gert að sæta nálgunarbanni í fjórar vikur frá og með sama tíma þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...] í [...] og jafnframt er honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í sambandi við eiginkonu sína, svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti. 

            Þóknun verjanda varnaraðila, Torfa Ragnars Sigurðssonar hrl., 368.280      krónur að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkisjóði. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 393.855 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist einnig úr ríkissjóði.