Hæstiréttur íslands
Mál nr. 401/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Mánudaginn 22. júní 2015. |
|
Nr. 401/2015.
|
A (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) gegn Velferðarsviði B (Unnar Steinn Bjarndal hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. júní 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 9. sama mánaðar um nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að þóknun talsmanns síns fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 9. júní 2015 um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi. Ákvörðun héraðsdóms um málskostnað skal vera óröskuð.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, og talsmanns varnaraðila, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur til handa hvorum um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 12. júní 2015.
Með kröfu, sem barst Héraðsdómi Reykjaness þann 9. júní 2015, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins dagsett 9. júní 2015, um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi í 21 dag, með vísan til 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga
Guðmundur St. Ragnarsson hdl. var skipaður talsmaður sóknaraðila og Unnar Steinn Bjarndal hdl. verjandi varnaraðila, samkvæmt 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
I
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð C geðlæknis, dagsett 8. júní 2015. Í því kemur m.a. fram að sóknaraðili hafi komið á geðdeild í fylgd starfsmanns í [...], geðræktarmiðstöð í [...] þann 3. júní sl. vegna geðrofseinkenna. Sóknaraðili sé greind með [...] og hafi hætt að taka geðrofslyf fyrir einhverjum vikum án samráðs við lækni sem hafi leitt til ýmissa ranghugmynda sem nánar er lýst í vottorðinu. Sóknaraðili sé greind með alvarlegan geðsjúkdóm og sé nú í sjúkdómsversnun með geðrofi og aðsóknarranghugmyndum. Vegna þeirra ranghugmynda hafi hún sýnt ofbeldishegðun og gæti verið hættuleg öðrum. Nauðungarvistun sé óhjákvæmileg þar sem sóknaraðili hafi ekki sjúkdómsinnsæi og hafi ekki viljað lyfjameðferð.
Kallað var eftir athugasemdum D yfirlæknis á bráðageðdeild 32C Landspítala. Í athugasemdum hennar sem bárust 10. júní sl. kom meðal annars fram að sóknaraðili sé með alvarlegan geðsjúkdóm sem stýri hugsunum hennar og hegðun. Sóknaraðili sé bráðveik og nauðsynlegt að hún vistist áfram á geðdeild og þiggi þar meðferð.
II
Sóknaraðili mætti sjálf fyrir dóminn og gaf skýrslu. Fram kom í máli hennar að samkvæmt Mannréttindasáttmála og Stjórnarskrá Íslands hefði hver manneskja þann rétt að vera frjáls.
C geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti vottorð sitt dags. 8. júní sl. Læknirinn var spurð um það hvort hægt hefði verið að beita vægari úrræðum við meðhöndlun á veikindum sóknaraðila en að loka hana inni á geðdeild. Í svari læknisins kom að ekki væri hægt að tryggja henni nauðsynlega meðferð nema á spítalanum. Veikindi hennar nú væru einmitt rakin til þess að hún hafi sjálf hætt að taka geðrofslyfin sín. Sóknaraðili væri með alvarleg geðrofseinkenni og ekki væri hægt eða forsvaranlegt að beita vægari úrræðum. Sóknaraðili hafi verið greind með [...] sjúkdóm eða [...] sem leiddi til afsóknarranghugmynda og væri hún í raun á flótta undan eigin einkennum sem orsakaði það að hún vildi ekki vera lengur á spítalanum. Sóknaraðili væri í virku geðrofi með ranghugmyndum sem hafi meðal annars leitt til ofbeldis að hennar hálfu. Sóknaraðili hafi ekki sjúkdómsinnsæi. Aðspurð kom fram að það hafi verið mat hennar þann 8. júní sl. sem óháður geðlæknir, að sóknaraðili væri með alvarlegan geðsjúkdóm og óhjákvæmilegt væri annað en að vista hana áfram á spítala.
D yfirlæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti athugasemdir sínar sem fram komi í tölvupósti hennar dags. 10. júní sl. Aðspurð um stöðu sóknaraðila nú kom fram að það væri enn mat lækna að nauðsynlegt væri að hún yrði áfram vistuð á spítala. Sóknaraðili sé enn með töluverð geðrofseinkenni sem þurfi að meðhöndla. Sóknaraðili taki lyf þó hún sé ekki sátt við það og þurfi til þess fortölur þó ekki hafi þurft að beita þvingaðri lyfjameðferð, en nauðsynlegt væri að sóknaraðili dveldi í eina til tvær vikur í viðbót á spítalanum. Hafi læknar metið það þannig að ekki hafi verið hægt að beita vægari úrræðum og því nauðsyn á nauðungarvistun sóknaraðila. Sóknaraðili geti ekki haldið utan um lyfjameðferð sína og geti hún það ekki, verði hún mjög lasins og líðan hennar þá mjög slæm. Sóknaraðili hafi verið að mæta í geðræktarmiðstöðina í [...] en þrátt fyrir það hafi henni alls ekki tekist að halda utan um lyfjameðferð sína og ekki væru önnur úrræði í lögum. Læknirinn sagðist því ekki sjá hvaða önnur úrræði væru sóknaraðila tæk önnur en nauðungarvistun. Sóknaraðili hefði ekki innsæi í sinn sjúkdóm sem væri alvarlegur og það innsæisleysi ylli því að óhjákvæmilegt væri annað en að vista sóknaraðila á spítala enn um sinn.
Lögmaður sóknaraðila krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytis, dags. 9. júní 2015, um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi í 21 dag. Í máli hans kom fram að nauðungarvistun ætti að vera neyðarúrræði. Ekki væri nóg til ákvörðunar nauðungarvistunar, að ekki væru til staðar önnur vægari úrræði.
Lögmaður varnaraðili krafðist þess að kröfu sóknaraðila yrði hafnað og vísaði hann í því sambandi til framkominna læknisvottorða og framburða lækna fyrir dóminum. Uppfyllt væru skilyrði 19. gr. lögræðislaga um að sóknaraðili væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og að mati lækna óhjákvæmilegt annað en að vista sóknaraðila á spítala.
III
Talsmaður sóknaraðila og verjandi varnaraðila, upplýstu báðir fyrir dóminum að ekki væri þörf á því að leita eftir frekari læknisfræðilegum upplýsingum eða áliti lækna. Með vísan til fyrirliggjandi læknisfræðilega raka er að mati dómsins leitt í ljós að ástand sóknaraðila sé með þeim hætti að hún sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Í máli sóknaraðila var ekki bent á hvaða vægari úrræði gætu hugsanlega staðið sóknaraðila til boða en rætt var um geðræktarmiðstöðina [...] í [...] í því sambandi. Upplýst er í málinu að sóknaraðili hafi stundað geðræktarmiðstöðina en þrátt fyrir það hefur henni ekki tekist vegna innsæisleysis að halda utan um lyfjameðferð sína og hafi starfsmaður frá þeirri miðstöð komið með sóknaraðila á bráðamóttöku geðsviðs. Telja verður, vegna framangreinds, að óhjákvæmilegt sé annað en að sóknaraðili dvelji áfram á sjúkrahúsi þar sem tryggja megi henni áframhaldandi viðeigandi meðferð. Ber því með vísan til 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, að ákveða að ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 9. júní 2015 haldist.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns og verjanda varnaraðila, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, eins og segir í úrskurðarorði.
Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu A, kt. [...], um að fellt verði niður samþykki Innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun hennar, sem dagsett er 9. júní 2015.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og verjanda varnaraðila að fjárhæð 132.000 krónur til hvors um sig greiðist úr ríkissjóði. Tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts.