Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2007


Lykilorð

  • Húsbrot
  • Líkamsárás
  • Samverknaður
  • Skilorðsrof
  • Ítrekun


         

Fimmtudaginn 24. janúar 2008.

 

Nr. 453/2007.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

Kristjáni Halldóri Jenssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Húsbrot. Líkamsárás. Samverknaður. Skilorðsrof. Ítrekun.

K var ákærður ásamt X og Z fyrir tvö húsbrot. Þá voru K og X ákærðir fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa í sameiningu veist að C. Í ákærunni var talið að K hefði slegið C með hafnaboltakylfu svo hann féll í gólfið og sparkað ítrekað í hann en að X hefði síðan klippt litla fingur vinstri handar af C með greinaklippu. K neitaði að hafa sparkað í C og að hafa tekið þátt í að klippa fingur af honum en játaði brot sín að öðru leyti. Með framburði vitna þótti sannað að K hefði sparkað í C eftir að hann féll í gólfið. Þá var fallist á að í ákærunni væri K gefið að sök að vera samverkamaður X við að klippa fingurinn af. Varð að meta framgöngu hans við líkamsárásina þannig að um samverknað hans og X hefði verið að ræða. Með brotum sínum rauf K skilorð 45 daga fangelsisrefsingar samkvæmt dómi frá 2005 og var hann tekinn upp og dæmt í einu lagi fyrir brotin samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga. Tveir eldri dómar, þar sem K var fundinn sekur um líkamsárásir, höfðu ítrekunaráhrif á brot hans nú. Þá var litið til þess við ákvörðun refsingar að K og X stóðu saman að árásinni, hversu hrottafengin hún var og þeirra afleiðinga sem hlutust af henni auk þess sem skipulagning og aðdragandi hennar þóttu bera vott um einbeittan ásetning. Var refsing K ákveðin þriggja ára fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst mildunar refsingar og að bótakröfu á hendur sér verði vísað frá dómi.

I.

           Fyrir Hæstarétti unir ákærði sakfellingu vegna ákæruliða A1 og B3 í ákæru 6. desember 2006. Varðandi ákærulið B5 í sömu ákæru unir ákærði sakfellingu fyrir að hafa veitt C högg með kylfu.

          Í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti er gerð sú krafa að bótakröfu á hendur honum verði vísað frá dómi. Samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal í bréflegri tilkynningu ákærða til ríkissaksóknara um áfrýjun tekið nákvæmlega fram í hverju skyni sé áfrýjað, þar á meðal varðandi kröfur skv. XX. kafla ef því er að skipta. Í tilkynningu ákærða til Ríkissaksóknara 23. maí 2007 er ekki vikið að því að áfrýjunin taki til krafna skv. XX. kafla laga nr. 19/1991. Af þessum sökum kemur þessi krafa ákærða ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti nema að því leyti sem réttinum er skylt að taka afstöðu til hennar ex officio, sbr. meðal annars 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.

          Af hálfu ákærða er því borið við að ákæra málsins varðandi ákærulið B5 sé mjög óljós og verði ekki séð að ákærða sé þar gefið að sök að hafa verið samverkamaður meðákærða í héraði X við að klippa fingur af C. Á þetta verður ekki fallist með ákærða enda er tekið fram í ákærulið B5 að ákærði og meðákærði í héraði séu taldir hafa framið „stórfellda líkamsárás með því að hafa í sameiningu veist að [C]”.

Áfrýjun málsins afmarkast að öðru leyti við að ákærði neitar að hafa sparkað í C liggjandi. Þá telur ákærði sig ekki hafa átt neinn þátt í að meðákærði í héraði X klippti fingur af C.

II.

Meðákærði í héraði, X, greindi svo frá í lögregluskýrslu 11. júní 2006, sem staðfest var fyrir dómi daginn eftir, að hann og ákærði Kristján hafi að morgni 25. maí 2006 farið að [...] á Akureyri en ákærði Kristján hafði áður búið á efstu hæð hússins og mun hafa geymt enn í húsinu ýmsa muni sína. Fram kom að eftir að hafa athugað muni ákærða Kristjáns hafi þeir komið við í annarri íbúð hússins. Eins og áður segir unir ákærði Kristján sakfellingu fyrir að hafa um klukkan níu að morgni ruðst í heimildarleysi ásamt meðákærða X inn í íbúð á 1. hæð hússins þar sem A bjó ásamt syni sínum, B. Meðákærði X greindi svo frá í fyrrnefndri lögregluskýrslu að komið hafi til deilna milli þeirra og A. Leiddi það til þess að meðákærði X sló hann hnefahögg í andlitið og braut við það nefrót vinstramegin og kinnbeinsboga á tveimur stöðum. Um þessa líkamsárás var dæmt í hinum áfrýjaða dómi og er sá þáttur hans ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Meðákærði X kvaðst eftir þessa atlögu hafa stungið á sig farsíma sem í íbúðinni var, þannig að A gæti ekki hringt á lögreglu. Nokkru eftir að þeir hafi yfirgefið íbúð A hafi C hringt í þennan síma og óskað eftir að fá að tala við eiganda hans. Hafi ákærði rætt við C í símann og hafi kastast fljótlega í kekki milli þeirra þar sem ákærði hafi talið að C hefði kallað föður sinn fífl. Að sögn meðákærða X varð það til þess að þeir sammæltust um að lokka C heim til A í þeim tilgangi að lemja hann. Hafi þeir nú snúið aftur að heimili A. Eins og áður segir unir ákærði Kristján sakfellingu fyrir að hafa um klukkan tíu að morgni sama dags ruðst á ný í heimildarleysi ásamt meðákærða X inn í íbúð A. Í síðastnefndri skýrslu meðákærða X kvaðst hann hafa sparkað upp og brotið hurð á íbúð A og hafi þeir síðan „ætt þar inn með látum“.

          Í framburði A fyrir rétti kom fram að eftir að ákærði og meðákærði X hefðu ruðst inn hefðu þeir skipað sér að hringja í C og fá hann á staðinn. Aðspurður kvað A að sér hefði skilist að ástæðan væri sú að C hefði kallað föður ákærða Kristjáns aula. Hafi þeir haft í hótunum við sig ef hann ekki hringdi í C og fengi hann á staðinn. Hafi þeir síðan farið inn í svefnherbergi og rifið son hans B á fætur og skipað honum að fara fram. Í vætti B kom fram að ákærði Kristján hafi vakið hann, otað að honum hafnaboltakylfu, skipað honum að fara á fætur, fara fram í stofu og setjast hjá föður sínum. Hafi þeim feðgum verið hótað því að klipptir yrðu af þeim fingur ef þeir fengju ekki C til að koma á staðinn. Að lokum hafi A látið undan hótunum þeirra og hringt í C. Meðákærði X bar fyrir dómi að hann hafi slegið B í kinnina á meðan A ræddi við C í síma svo hann léti hjá líða að gefa C vísbendingu um að koma ekki. Í hinum áfrýjaða dómi var meðákærði X sakfelldur fyrir að brjóta kinnbein og augntótt svo og bein í kinnholu vinstra megin á B.

          Í skýrslu sem B gaf fyrir lögreglu og staðfesti var fyrir dómi kom fram að ákærði hafi yfirgefið íbúðina í skamman tíma og komið til baka með stórar trjáklippur. Kvað hann augljóst að „lúskra“ hefði átt á C og hefðu ákærðu gefið það vel til kynna. Í lögregluskýrslu sem A staðfesti fyrir dómi kvað hann ákærða hafa haldið fyrst á trjáklippunum. Í fyrrnefndri skýrslu sem meðákærði X gaf fyrir lögreglu og staðfesti fyrir dómi kvað hann að ákærði Kristján hefði komið með einhverja stóra töng sem hann taldi að ákærði hefði fundið heima hjá A á meðan A var að tala við C í síma og fá hann á staðinn. Við aðalmeðferð málsins bar B að hann myndi ekki hver hefði komið með trjáklippurnar. Hann sagði hins vegar að X hefði tekið við klippunum og hefði setið með þær við hlið sér.

          Fram er komið að C kom skömmu síðar ásamt H og G eftir að hafa rætt við A í síma. Eins og áður segir unir ákærði Kristján sakfellingu fyrir að hafa veitt C högg með kylfu í þann mund er hann gekk inn í íbúðina. Í framburði B fyrir rétti kom fram að ákærði hefði barið C í bakið með hafnaboltakylfu og C fallið fram á stofugólfið. Hafi ákærði síðan sparkað í síðu C og sagt að enginn kallaði pabba sinn fífl eða aula. Meðákærði X greindi svo frá í lögregluskýrslu 11. júní 2006, sem staðfest var fyrir dómi daginn eftir, að hann hefði verið inn í stofu þegar ákærði tók á móti C. Þegar hann hafi litið við hafi hann séð C liggjandi á stofugólfinu innan við dyrnar. Hafi hann séð ákærða sparka einu sinni í C og hafi ákærði sagt við C í leiðinni: „Þú skalt ekki kalla pabba minn aumingja“.

          Vitni greinir á um hversu langur tími leið frá atlögu ákærða að C þar til X gekk að C með trjáklippurnar. Í framburði H kom fram að það gætu hafa liðið tíu mínútur þótt hann myndi það ekki fyrir víst. Í framburði G kom fram að hann hefði komið með C en ekki gengið strax inn í húsið þar sem hann hefði verið að gera upp við leigubílstjóra og aðeins spjallað við hann. Taldi hann tvær til fimm mínútur hafa liðið frá því að hann og C komu þar til að hann hefði gengið inn í íbúðina en þá hefði verið búið að klippa fingurinn af C.

          Í fyrrgreindri lögregluskýrslu X 11. júní 2006 kvaðst hann hafa gengið að C þar sem hann lá á gólfinu og sett litla fingurinn á honum í kjaft tangarinnar. Hann sagði að fingurinn hefði dregist úr kjaftinum þannig að hann hafi sett fingurinn þangað aftur og síðan klemmt saman. Aðspurður kvað hann ákærða hafa staðið við hlið C þegar þessu fór fram og er það einnig í samræmi við framburð H. B hefur borið að ákærði og meðákærði hafi síðan skilið C eftir liggjandi á gólfinu og hótað viðstöddum frekari barsmíðum og limlestingum ef þeir kærðu til lögreglu. Síðan hafi þeir farið á brott og haft með sér hinn afklippta fingur. Í fyrrnefndri skýrslu meðákærða kemur fram að síðar sama dag hafi hann séð eftir öllu saman og farið til baka með fingurinn að [...]. Hafi C þá verið kominn á sjúkrahús. Fram er komið að ekki var unnt að græða fingurinn á C.

          C bar fyrir rétti að hann hefði fengið þungt högg í bakið og síðan hefði verið sparkað í hann og honum haldið. Hefði hann eftir það verið hálf rænulítill. Áður en fingur hans var klipptur af hefði hann meðal annars heyrt sagt: „Talaðu ekki illa um pabba vinar míns.“ 

III.

          Í ljósi framburðar B og meðákærða X er fallist á með héraðsdómara að telja verði sannað að ákærði hafi sparkað í C eftir að hafa barið hann með hafnaboltakylfu. Er það einnig í samræmi við framburð C sem ber að sparkað hafi verið í sig.

Eins og áður greinir telur ákærði sig ekki eiga þátt í að meðákærði í héraði X klippti fingur af C. Í ákæru málsins er ákærða gefin að sök að vera samverkamaður meðákærða við að klippa fingur af C.

          Þegar litið er til skýrslu meðákærða X í héraði er fram komið að hann og ákærði hafi sammælst um að lokka C heim til A í þeim tilgangi að veitast að honum, þar sem hann hafi kallað föður ákærða fífl. Af framburði A og B verður ráðið að þeir hafi í sameiningu hótað þeim og þvingað A til þess að hringja í C og fá hann á staðinn. Þegar C gekk inn í íbúð A veittist ákærði að honum og sló hann í bakið með hafnaboltakylfu og sparkaði síðan í hann liggjandi. Nokkrum mínútum síðar klippti meðákærði fingur af C með trjáklippum og stóð þá ákærði við hlið hans. Þegar litið er til framburðar og skýrslna B, A og meðákærða er sannað að ákærði hafi náð í klippurnar og afhent meðákærða. Báðir höfðu þeir hótað B og A að klippa af þeim fingur létu þeir ekki að vilja þeirra áður en klipptur var fingur af C.

          Þegar framangreint er virt heildstætt verður að telja að um samverknað hafi verið að ræða og er því fallist á með héraðsdómi að brot ákærða samkvæmt lið B5 ákæru 6. desember 2006 varði við þau lagaákvæði sem í henni greinir.

IV.

Sakarferill ákærða er nægilega rakinn í héraðsdómi. Frá uppsögu hans hefur ákærði undirgengist sátt fyrir brot á 2. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Eins og í héraðsdómi kemur fram var ákærði 25. febrúar 2005 dæmdur í fangelsi í 45 daga skilorðsbundið í þrjú ár fyrir þjófnað og hilmingu. Ákærði hefur með brotum sínum rofið það skilorð. Verður sá dómur tekinn upp og dæmt í einu lagi fyrir brot, sem ákærði var þar sakfelldur fyrir og þau brot sem nú eru til meðferðar samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. sömu laga.

Ákærði hefur áður sætt refsingum fyrir brot á 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með dómi Hæstaréttar frá 20. janúar 2005 og dómi Héraðsdóms Norðurlands Eystra 24. nóvember 2003 og hafa þeir ítrekunaráhrif á brot þau sem ákærði framdi 25. maí 2006 og hann er hér dæmdur fyrir, sbr. 71. gr. og 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga.

Þar sem ákærði og meðákærði í héraði, X, stóðu saman að árás á C í umrætt sinn verður litið til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar.

Þegar litið er framanritaðs en einkum þess hversu hrottafengin árásin var, hverjar afleiðingar hlutust af henni og að skipulagning og aðdragandi hennar bera vott um einbeittan ásetning er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald ákærða frá 27. maí til 2. júní 2006.

Ákvæði héraðsdóms um skyldu ákærða til greiðslu skaðabóta verður óraskað.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað hvað ákærða varðar verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Kristján Halldór Jensson, sæti fangelsi í þrjú ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 27. maí til 2. júní 2006 kemur til frádráttar refsingu.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og skaðabætur hvað ákærða varðar eru óröskuð.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins 432.005 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur. 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. mars 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 27. febrúar sl., er höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákærum lögreglustjórans á Akureyri og ríkissaksóknara, á hendur X, [kt. og heimilisfang], Y, [kt. og heimilisfang], Kristjáni Halldóri Jenssyni, [kt.], Drekagili 28, Akureyri Z, [kt. og heimilisfang].

I.      Ákæra lögreglustjórans á Akureyri, útgefin 17. ágúst 2006.

[...]

II.      Ákæra lögreglustjórans á Akureyri, útgefin 6. nóvember 2006.

[...]

 

III.      Ákæra ríkissaksóknara, útgefin 6. desember 2006.

Með ákærunni höfðar ríkissaksóknari mál á hendur ákærðu X, Kristjáni Halldóri Jenssyni og Z „fyrir eftirgreind brot fimmtudagsmorguninn 25. maí 2006 að [...], Akureyri:

A.

Gegn ákærðu X og Kristjáni Halldóri fyrir eftirgreind brot framin um klukkan níu um morguninn:

1.        Ákærðu báðum fyrir húsbrot með því að ryðjast í heimildarleysi inn í íbúð á 1. hæð hússins.

2.        Ákærða Z fyrir líkamsárás með því að slá húsráðanda A, [kt.], nokkur hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut brot í nefrót vinstra megin og tvö brot á kinnbeinsboga.

B.

Gegn ákærðu X, Kristjáni Halldóri og Z fyrir eftirtalin brot framin um klukkan tíu um morguninn:

3.        Ákærðu öllum fyrir húsbrot með því að ákærði X sparkaði upp hurðinni að íbúð á 1. hæð hússins og ákærðu ruddust þar inn í heimildarleysi.

4.        Ákærða X fyrir líkamsárás með því að slá B, [kt.], mörg hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut kinnbeinsbrot, brot í augntótt brot inn í kinnholu vinstra megin.

5.        Ákærðu X og Kristjáni Halldóri fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa í sameiningu veist að C, [kt.], ákærði Kristján Halldór slegið C í hnakka með hafnarboltakylfu svo að hann féll í gólfið og sparkað ítrekað í C liggjandi, með þeim afleiðingum að hann hlaut mar á brjóstkassa og framhandlegg, en ákærði X síðan klippt litla fingur vinstri handar C af við miðkjúku með greinaklippum.

 

Telst háttsemi ákærðu samkvæmt 1. og 3. lið ákæru varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 með áorðnum breytingum, háttsemi ákærða X samkvæmt 2. og 4. lið ákæru við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en háttsemi ákærðu Kristjáns Halldórs og X samkvæmt 5. lið ákæru við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Bótakröfur:

Af hálfu C er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.090.316 krónur, af hálfu B skaðabóta að fjárhæð 463.114 krónur og af hálfu A skaðabóta að fjárhæð 474.964 krónur, í öllum tilvikum auk dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 4. ágúst 2006.“

 

IV.      Ákæra lögreglustjórans á Akureyri, útgefin 2. janúar 2007.

[...]

 

Skipaður verjandi ákærða X krefst sýknu af ákærum útgefnum 17. ágúst 2006, 6. nóvember 2006 og 2. janúar 2007 en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Hann krefst vægustu refsingar sem lög leyfa vegna brota samkvæmt ákæru útgefinni 6. desember 2006.  Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

Skipaður verjandi ákærða Z gerir aðallega kröfu um sýknu en til vara að ákærða verði ekki gerð sérstök refsing og til þrautavara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

Skipaður verjandi ákærða Kristjáns Halldór krefst sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Varðandi framkomna bótakröfu krefst hann frávísunar, til vara er krafist sýknu en til þrautavara að hún verði lækkuð verulega.  Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa og að þau verði að fullu greidd úr ríkissjóði.

 

I.      Mál höfðað með ákæru lögreglustjórans á Akureyri, 17. ágúst 2006.

[...]

 

II.      Mál höfðað með ákæru lögreglustjórans á Akureyri, 6. nóvember 2006.

[...]

 

III.      Mál höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, 6. desember 2006.

1.        Málavextir.

Samkvæmt rannsóknargögnum var aðstoðar lögreglu óskað á slysadeild FSA laust eftir kl. 13:00, fimmtudaginn 25. maí sl.  Hafði C leitað þangað og lék grunur á að hann hefði orðið fyrir alvarlegri líkamsárás.  Kom fram að klippt hefði verið af öðrum litla fingri hans og auk þess væri hann hugsanlega rifbrotinn.  Á slysadeildinni fékk lögregla þær upplýsingar að B væri þar einnig með alvarlega áverka.  Ræddi lögregla við þá á staðnum og fór í kjölfarið á vettvang að [...] á Akureyri.  Austan á húsinu er stigahús sem lögregla fór inn í og sá þá að dyr voru opnar inn í geymslu eða þvottahús og að hurð inn í íbúð A var brotin.  Var stykki um handfang og læsingu brotið af og hurðin klofin þvert út frá handfanginu.  Bankaði lögregla og gekk svo inn.  Í eldhúsi íbúðarinnar sat A við eldhúsborðið með glóðarauga báðum megin og bólgið nef sem hann hafði troðið pappír í til að stöðva blæðingu.  Vildi hann lítið ræða það sem gerst hafði.  Eftir tiltal lögreglu lét hann þó tilleiðast að fara á slysadeild FSA til aðhlynningar.  Vettvangur var rannsakaður og myndaður.

Í kjölfar þess að lögregla hafði aflað nokkurra upplýsingar um árásirnar voru ákærðu handteknir á heimili ákærða Kristjáns Halldórs að Drekagili 28 á Akureyri.  Voru ákærðu Kristján Halldór og X í mjög annarlegu ástandi og vart viðræðuhæfir.  Ákærði Z var hins vegar nokkuð vel áttaður.  Leit var gerð í íbúðinni og hald lagt á ýmsa muni í þágu rannsóknar málsins.

Lögregla kannaði á leigubifreiðastöðinni BSO hvort leigubifreiðar hefðu verið pantaðar til eða frá [...] eða Drekagili 28 þennan morgun, án árangurs.  Síðar kom þó í ljós að leigubílstjóri hafði komið með stubbinn sem klipptur hafði verið af fingri C á slysadeild.

Þá gekk lögregla einnig í nærliggjandi hús í vitnaleit og kom í ljós að ákærðu X og Kristján Halldór höfðu heimsótt íbúa í [...] og [...].

2.        Framburður ákærða og vitna.

Ákærði X kveðst hafa farið inn til A um klukkan níu að morgni.  Aðspurður um hvort hann hafi bankað kveðst hann hafa gengið inn.  Ákærði kveður þeim A hafi lent eitthvað saman og hann hafi tekið síma þarna og geymt í vasanum til að A hringdi ekki á lögreglu.  Hann hafi svo farið í heimsókn til félaga síns og gleymt að hann væri með símann í vasanum.  Þegar síminn hafi hringt hafi hann svarað og sá sem hringdi hafi viljað tala við eiganda símans.  Ákærði kveðst hafi svarað því til að hann væri ekki þarna en viðmælandinn þá kallað hann aumingja, fífl og fleira álíka og hótað honum öllu illu.  Ákærði kveðst þá hafa farið aftur til A og skilað símanum og sagt A að segja eiganda símans að koma.  A hafi hringt í manninn en sér hafi þótt hann gefa viðmælandanum vísbendingu um að koma ekki.  Ákærði kveðst því hafa slegið son A á kinnina til að A myndi fá manninn á staðinn.  Maðurinn hafi svo komið á staðinn og kveðst ákærði hafa klippt af honum fingur.  Aðspurður kveðst ákærði ekki kannast við að hafa lamið eða sparkað í C.  Ákærði kveðst hafa setið inni í sófa og svo komið og séð C liggja á gólfinu.  Aðspurður kveðst ákærði ekki draga í efa að hann hafi valdið þeim áverkum á C og B sem lýst er í ákæru.  Aðspurður um hvaðan klippurnar hafi komið kveðst ákærði ekki vita það, hann hafi setið í sófanum og einhver hafi rétt sér klippurnar.  Ákærði kveðst ekki vilja tjá sig um hverjir hafi verið með honum í umrætt sinn og ekki heldur um hvort framburður hans fyrir lögreglu varðandi það sé réttur.  Aðspurður kveður ákærði ekki hafa verið um samvinnu hans og meðákærða Kristjáns Halldórs að ræða og hann kveðst ekki vita hvað Kristján Halldór hafi gert.  Aðspurður kveðst ákærði hafa verið með meðákærða Z nóttina áður, þeir hafi farið saman í aðra íbúð í [...] af skemmtistaðnum Dátanum.  Aðspurður kveðst ákærði hafa brotið upp hurðina að [...] í síðara skiptið sem hann fór þangað.  Ákærði kveðst hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar þessi atvik urðu, hann hefði annars ekki gert slíka hluti.  Aðspurður kveðst ákærði vera búinn að breyta afstöðu sinni til framkominna bótakrafna og fallast á þær eins og þær eru fram settar.

Ákærði Z kveðst hafa verið í partíi hjá D, í gamla Tónlistarskólanum í Hafnarstræti.  Hann hafi svo fengið far með E og F heim til sín í [...] og farið að sofa.  Meðákærðu X og Kristján Halldór hafi síðan komið og vakið sig og beðið sig að koma niður í [...].  Ákærði kveðst hafa talið að þeir ættu við að þeir færu aftur til D og því farið með þeim.  Meðákærði Kristján Halldór hafi svo sagst ætla inn til A.  Ákærði kveðst áður hafa búið í húsinu og þekkt A og ekki vitað af neinum leiðindum.  Meðákærðu hafi ekki rætt um hvað þeir ætluðu að gera þar.  Meðákærðu X og Kristján Halldór hafi svo farið inn til A en ákærði kveðst hafa staðið fyrir utan.  Svo hafi C, G og H einnig farið þar inn.  Þegar hann hafi svo farið þangað á eftir þeim hafi allar þrjár hurðirnar á leið inn í íbúð A verið opnar.  Hann kveðst ekki hafa tekið eftir því að ein hurðin hafði verið brotin upp.  Ákærði kveður C hafa legið á gólfinu þegar hann kom inn og búið hafi verið að klippa af honum fingur.  Hann kveðst ekki muna vel eftir atvikum en þar hafi verið rifist og öskrað.  Ákærði kveðst ekki hafa séð nein átök, þegar hann hafi komið inn hafi G og H verið búnir að fá sér sæti, A og B hafi einnig setið en C legið á gólfinu.  Ákærði kveðst ekki hafa séð C lenda á gólfinu.  Aðspurður kveðst ákærði ekki muna eftir að hafa séð hafnarboltakylfu á staðnum.

Ákærði Kristján Halldór Jensson kveðst hafa labbað inn í íbúð A um morguninn ásamt meðákærða X.  Þar hafi verið opið, þeir hafi oft komið þangað áður og ekkert verið beðnir að fara.  Ákærði kveðst hafa búið í húsinu áður og hafa átt eftir að tæma íbúðina.  Þeir hafi verið í partíi rétt hjá og rölt til A og spjallað við hann.  Aðspurður kveður ákærði þá ekki hafa lamið A og kveðst hann ekki hafa séð meðákærða X lemja hann.  Ákærði kveður þá hafa farið aftur til A síðar um morguninn og þá hafi meðákærði X sparkað hurðinni upp.  Þá hafi meðákærði Z verið með þeim en ekki verið kominn að húsinu.  Ákærði kveðst hafa farið inn til A ásamt meðákærða X en meðákærði Z hafi komið inn töluvert síðar.  Ákærði kveður þá X hafa talað við A og þeir hafi eitthvað verið á flandri um íbúðina og út í garð og í einhverju fyllerísrugli.  Þegar C, H og G hafi komið hafi þeir verið búnir að vera hjá A töluverða stund, spjallað við hann og spilað.  Ákærði kveður ekki rétt að hann hafi slegið C með hafnarboltakylfu og kveðst hvorki hafa verið með hafnarboltakylfu né garðklippur.  Þá hafi hann ekki sparkað í C, ákærði hafi séð mynd af einhverri rönd á C en enginn ákærðu hafi veitt honum þann áverka.  Ákærði kveðst ekki hafa séð nein átök þarna.  Hann viti að fingur hafi verið klipptur en kveðst ekki hafa séð það, hann hafi þá verið uppi á þriðju hæð hússins.  Aðspurður um hvort ákærði hafi séð A sleginn segir hann að hann hafi aldrei verið sleginn.  Hann sé vælukjói og eigi til að ljúga upp á fólk en hann hafi þó kunnað ágætlega við hann.  Aðspurður kveðst ákærði ekki kannast við að hann hafi talað um að C hefði talað illa um föður ákærða.  Ákærði kveðst síðar hafa heyrt að C hefði gert það og það hafi reitt sig til reiði þó hann hafi átt erfitt með að trúa því þar sem C og faðir ákærða þekkist mjög vel.  Ákærði kveðst ekki kannast við að hafa hvatt til þess að C yrði tekinn í gegn, hann þekki C mjög vel.  Nánar aðspurður kveður ákærði hann og meðákærða X hafa komið saman að í síðara skiptið sem þeir fóru inn til A.  Kveðst ákærði hafi séð meðákærða X sparka hurðinni upp.  Í fyrra skiptið hafi verið opið.  Ákærði kveður alltaf hafa verið ólæst hjá honum.  Lögreglan hafi oft komið vegna fjölskylduleiðinda og fólk gengið þar inn og út að vild.  Aðspurður kveðst ákærði hafa verið í mikilli vímu þegar þetta gerðist, hann hafi verið á læknalyfjum og muni atvik brotakennt.  Aðspurður kveður ákærði það geta verið að C hafi hringt í þá fyrr um morguninn og hugsanlega talað við meðákærða X.  Hann kveðst ekki vita hvort það hafi verið í síma sem þeir hafi tekið hjá A í fyrra skiptið sem þeir fóru til hans.  Aðspurður kveðst ákærði ekki vita hvort hann hafi séð áverka á húsráðendum þegar þeir fóru úr íbúð A.  Þeir séu með voðalega bauga, bólgnir og drykkjumannslegir nema B, ákærði hafi ekki séð áverka á honum.

Vitnið A kveðst hafa vaknað við að bankað var harkalega á hurðina hjá honum sem þá var ólæst.  Kveðst hann hafa farið fram og þar hafi ákærðu Kristján Halldór og X verið.  Kveður hann ákærða X hafi ráðist á sig og lamið sig.  Vitnið kveðst ekki hafa vitað af hverju hann gerði það,en þeir hafi eitthvað rætt um byssur sem hefðu horfið úr geymslu í húsinu.  Vitnið kveðst ekki vita hve oft ákærði X kýldi hann en það hafi verið nokkrum sinnum, hann hafi kýlt með hnefum.  Ákærðu hafi síðan farið og kveðst vitnið hafa læst á eftir þeim.  Kveðst vitnið hafa þvegið sér og farið í rúmið.  Kveður vitnið ákærðu hafa svo komið aftur og þá brotið upp hurðina.  Þeir hafi komið inn og spurt hvar C væri.  Vitnið kveðst hafa sagt þeim að hann vissi það ekki og hafi þeir þá skipað sér að hringja í hann (C).  Kveður vitnið þá hafa náð í son sinn, B, sem hafi verið sofandi í herbergi sínu.  Vitnið kveðst þó ekki muna hvor þeirra náði í hann.  Vitnið segir að ákærðu hafi hótað að klippa af þeim fingur ef hann hringdi ekki í C og ákærði X hafi lamið B.  Aðspurt kveðst vitnið minna að þeir hafi þá verið komnir með greinaklippurnar og ákærði Kristján Halldór hafi verið með hafnarboltakylfu.  Vitnið kveðst ekki vita hvor ákærðu kom með hana.  Vitnið kveðst ekki muna hvort ákærði Z hafi verið inni í íbúðinni þegar þetta var, hann hafi að minnsta kosti ekki tekið þátt í hótununum.  Vitnið kveðst hafa hringt í C sem hafi komið ásamt H og G.  Ákærði Kristján Halldór hafi lamið C með hafnarboltakylfunni einu sinni eða tvisvar og einnig ætlað að sparka í andlit C en ekki hitt.  Vitnið kveður ákærða Kristján Halldór hafi talað um að C hefði kallað föður sinn aula.  Aðspurt kveðst vitnið telja að ákærði Z hafi ekki verið kominn inn þegar þetta var.  Vitnið kveður ákærða X svo hafa klippt fingur af C.  H hafi beðið um að fá stubbinn en ákærði X hafi ekki viljað afhenda honum hann.  Sonur vitnisins hafi ekið C á sjúkrahús en vitnið kveðst hafa setið áfram í íbúðinni ásamt H og G.  Skömmu síðar hafi ákærði X svo komið með stubbinn í poka með ísmolum og sagst sjá eftir þessu.  Þeir hafi hringt í I leigubílstjóra sem hafi farið með fingurstubbinn á sjúkrahúsið.  Vitnið kveður lögreglu svo hafa komið síðar með B.  Vitnið kveðst ekki muna hvenær ákærði Z kom inn, þetta hafi gerst hratt.  Vitnið kveðst þó líklega ekki séð hann fyrr en eftir að C, H og G komu.  Aðspurt kveðst vitnið ekki vita hvaðan klippurnar komu.  Þá kveðst hann ekki hafa séð ákærða X sparka í C.  Vitnið er spurt hverju það sæti að það hafi ekki komið fram í lögregluskýrslu hans að ákærði Kristján Halldór hafi lamið C með kylfunni.  Kveðst vitnið hafa verið vankað er hann gaf skýrsluna og ekki í andlegu jafnvægi.  Hann kveðst þó viss um að ákærði Kristján Halldór hafi lamið hann með kylfunni, líklega tvö högg á síðuna.  Aðspurt kveður vitnið hurðina inn í íbúðina venjulega hafa verið ólæsta.  Vitnið kveður það rétt að ákærði Kristján Halldór hafi um tíma búið í sama húsi.  Þeir hafi þó ekki þekkst en ákærðu Kristján Halldór og X hafi einu sinni komið til hans og stoppað stutt.  Aðspurt kveðst vitnið kannast við að ákærði X hafi hótað sér í kjölfar árásarinnar, hann hafi sagt að þeir fengju að kenna á því ef þeir kærðu.  Vitnið kveðst ekki muna eftir því að ákærðu Kristján Halldór eða Z hafi hótað því.

Vitnið C kveðst hafa verið hjá vini sínum í [...]  þegar A hafi hringt og beðið hann að koma til sín.  Hann hafi farið þangað, gengið inn og strax fengið högg á bakið.  Vitnið kveðst hafa heyrt eftir á að hann hafi verið laminn með kylfu en hann hafi ekki séð það sjálfur og ekki séð hver veitti honum höggið.  Hann kveðst hafa fallið við og sparkað hafi verið í sig.  Honum hafi svo verið haldið niðri og fingurinn klipptur af.  Hann kveðst ekki hafa séð mennina en heyrt einhvern segja: „þú klippir ekki puttann af honum“ og eitthvað um „þú talar ekki illa um pabba vinar míns“.  Fingurinn hafi svo verið klipptur af.  Hann hafi lítið fundið fyrir því og ekki trúað því fyrst að hann hafi verið klipptur af.  Vitnið kveðst hafa verið hálf rænulítill og ekkert muna eftir ákærðu.  Hann hafi verið undir miklum áfengisáhrifum.  Vitnið kveðst hafa séð A þegar hann kom inn, hann hafi setið í stofunni en kveðst ekki muna eftir fleirum.

Vitnið B kveðst hafa verið sofandi á heimili sínu umræddan morgun en vaknað við einhver högg á milli klukkan 10 og 11.  Hann hafi í svefnrofunum talið að einhver væri að banka.  Svo hafi hann heyrt skyndilega skell og skömmu síðar hafi ákærði Kristján Halldór komið inn til hans með hafnarboltakylfu og sagt honum að koma fram.  Vitnið kveðst ekki hafa þekkt Kristján Halldór persónulega en hafa þekkt hann í sjón.  Vitnið kveðst hafa beðið um að fá að klæða sig en ekki fengið það, hann hafi þó smeygt sér í slopp.  Ákærði Kristján Halldór hafi sagt sér að setjast fram í stofu og hafi hann sest í sófa, andspænis föður sínum, A.  Þegar hann hafi séð ákærðu X og Z þarna hafi hann spurt hvað gengi á en ekki fengið svör.  Kveðst hann hafa setið í sófanum og beðið.  Ákærðu hafi verið á ferð um íbúðina, ákærði Z hafi farið milli herbergja og að útidyrahurðinni.  Vitnið kveðst hafa verið stressað og beðið um að fá að sækja sígarettur í herbergi sitt og fengið að gera það í fylgd ákærða Z.  Vitnið kveðst hafa sest aftur fram í stofu og kveikt sér í sígarettu.  Hann hafi ekki verið búinn að reykja mikið af henni þegar hann hafi fært sig til föður síns sem hafi virst þurfa á stuðningi að halda.  Einhver ákærðu hafi komið inn með garðklippur, vitnið kveðst ekki muna hver, en ákærði X hafi tekið við þeim og setið með þær við hlið vitnisins.  Hann hafi hótað að klippa fingur af þeim feðgum ef þeir fengju ekki C á staðinn.  Ákærði X hafi svo sest í sófann við hlið A og vitninu hafi orðið það á að glotta eitthvað.  Þá hafi ákærði X sagt að ef hann gerði þetta aftur myndi hann ganga í skrokk á vitninu.  Vitninu hafi þótt þetta eitthvað hjákátlegt og brosað út í annað en þá hafi ákærði X reynt að sparka í höfuð vitnisins yfir stofuborðið.  Það hafi ekki heppnast heldur hafi fótur hans lent ofan í öskubakka.  Þá hafi ákærði X fært sig og sest við hlið sér og haft í hótunum við sig.  Vitnið kveður ákærða Z hafa verið á ferðinni frammi en hann hafi svo komið inn í stofu og spurt ákærða Kristján Halldór hvort hann ætti að sækja hnífa eða einhver áhöld en ákærði Kristján Halldór hafi neitað því og sagt að hann hataði hnífa.  Fljótlega eftir þetta kveður vitnið ákærða X hafa slegið sig á vinstri kinn nokkrum sinnum og sagt eitthvað sem vitnið kveðst ekki muna.  Vitnið segir að ákærði X hafi slegið sig nokkrum sinnum til viðbótar og við síðasta höggið kveðst vitnið hafa heyrt smell og þá rétt upp hendur og sagt að þetta væri orðið gott hjá honum.  Ákærði X hafi þá hætt.  Vitnið segir að ákærðu Z og Kristján Halldór hafi verið búnir að biðja ákærða X um að láta hann vera.  Vitnið kveður ákærða X hafa komið með spilastokk úr eldhúsinu og beðið vitnið um að spila við sig ólsen ólsen.  Vitnið kveðst hafa tekið við stokknum og gefið en þá heyrt umgang frammi.  Þar hafi C, G og H verið að koma.  Segir vitnið að ákærði Kristján Halldór hafi barið C í bakið með hafnarboltakylfu þegar hann kom auga á hann og hafi C henst fram á stofugólfið.  Ákærði Kristján Halldór hafi sparkað í síðu C og talað um að enginn kallaði pabba sinn aula eða fífl eða annað slíkt.  Vitnið kveður C hafa legið hjálparlausan á gólfinu.  Vitnið kveðst ekki alveg muna hvað svo gerðist en ákærði Z hafi einhvern tíman stuggað við H þannig að hann rakst utan í skáp.  Ákærði Z hafi einnig tekið myndir með farsíma, líklega að minnsta kosti af G og H.  Hann hafi einnig beðið um að fá að sjá persónuskilríki G.  Segir vitnið að síðan hafi ákærði X staðið upp með garðklippurnar og gengið að C, þar sem hann lá á gólfinu.  Hann hafi fálmað eftir litla fingri hans, verið smá stund að koma fingrinum í klippurnar en loks tekist það og klippt. C hafi svo verið látinn liggja á gólfinu en ákærðu X og Kristján Halldór hafi hótað þeim frekari barsmíðum og limlestingum ef þeir myndu kæra.  Vitnið segir að ákærðu hafi svo farið og haft fingurstubbinn með sér.  Vitnið kveðst þá hafa flýtt sér að gera lítillega að hönd C og klæða sig og hafi því næst ekið honum í skyndi á sjúkrahús.  Aðspurt kveðst vitnið hafa verið allsgáð þegar þetta var, hann hafi kannski drukkið einn eða tvo bjóra kvöldið áður.  Hann kveðst muni þetta nokkuð vel því hann hafi stuttu eftir þetta skrifað niður ítarlega lýsingu fyrir sjálfan sig.  Aðspurt kveður vitnið alla ákærðu tvímælalaust hafa verið undir áhrifum fíkniefna.  Ákærði Z hafi verið taugaóstyrkur og ákærði X hafi einnig verið það um tíma, komið hafi augnablik þar sem hann virtist aðeins hika.  Vitnið kveður sér hafa virst ákærði Kristján Halldór einna styrkastur fyrir þessu.  Aðspurt kveðir vitnið sig minna að ákærði Z hafi staðið í stofunni þegar hann kom fyrst fram úr herbergi sínu.  Aðspurt kveður vitnið ákærða Kristján Halldór hafa slegið C með sömu kylfu og hann hafði þegar hann kom inn í herbergi vitnisins.  Vitnið kveðst aðeins muna eftir einu höggi með kylfunni en hann hafi í kjölfarið sparkaði í C oftar en einu sinni.  Aðspurt kveður vitnið hafa orðið smá hlé frá því að ákærði Kristján Halldór sparkaði í C þar til ákærði X klippti af honum fingurinn.  Aðspurt kveðst vitnið ekki muna hvað fór ákærðu X og Kristjáni Halldóri á milli.

Vitnið H kveður C og G hafa verið í heimsókn hjá sér umræddan morgun.  A hafi hringt í C og beðið hann að koma, þeir hafi haldið að hann vildi fá þá í heimsókn og farið þangað.  C hafi gengið inn fyrstur og vitnið næst.  Segir vitnið að þegar hann hafi komið inn hafi C legið í gólfinu og kveður vitnið einhvern hafa kýlt sig en vitnið kveðst ekki vita hver gerði það.  Vitnið kveðst hafa staðið fyrir framan ákærðu X og Kristján Halldór.  Ákærði Kristján Halldór hafi verið tilbúinn að lemja sig með hafnarboltakylfu en ekkert hafi orðið úr því.  Vitnið kveðst hafa kynnt sig og heilsað með handabandi.  Þeir hafi beðið sig að setjast og hafi hann gert það, þó ekki alveg strax.  Eftir nokkra stund kveður vitnið ákærða Z hafa beðið sig um skilríki sem vitnið kveðst ekki hafa haft.  Þá hafi ákærði Z tekið mynd af sér með síma sínum.  Vitnið segir að eftir nokkra stund hafi ákærði X tekið í hendi C.  Kveðst  vitnið hafi talið að þeir væru að grínast en ákærði X hafi svo klippt fingurinn af C.  Ákærði Kristján Halldór hafi staðið yfir C á meðan.  Þeir hafi svo farið út.  Aðspurt kveðst vitnið ekki muna eftir að ákærðu hafi haft uppi hótanir áður en þeir fóru.  Vitnið kveður ákærða X svo hafa komið aftur með fingurstubbinn.  Vitnið kveðst fyrst hafa séð ákærða Z eftir að hann var laminn.  Aðspurt kveðst vitnið ekki hafa séð C laminn með kylfu og ekki að sparkað hafi verið í hann.  Vitnið kveðst hafa séð áverka á A og B.  Aðspurt kveðst vitnið ekki geta sagt til um hvort ákærði X hafi verið undir áhrifum fíkniefna því þeir þekkist ekkert.  Hann hafi þó í það minnsta verið eitthvað spenntur.  Aðspurt kveður vitnið einhverja stund hafa liðið frá því að hann kom inn og sá C á gólfinu þar til fingurinn var klipptur af honum, kannski tíu mínútur.  Vitnið kveðst þekkja vel til heima hjá A.  Hann kveðst vita að hurðin hafi yfirleitt verið ólæst þegar A var heima.  Ekki hafi þó tíðkast að ganga beint inn til hans heldur banka fyrst.  Aðspurt kveðst vitnið ekki hafa hlotið áverka af því höggi sem hann fékk og ómögulega geta sagt til um hver veitti honum það.  Aðspurt kveðst vitnið hafa verið undir áhrifum áfengis í umrætt sinn en muna atvik ágætlega.

Vitnið G kveðst hafa verið í heimsókn hjá H ásamt C.  Þeir hafi fyrr um nóttina verið á heimili vitnisins.  Hringt hafi verið í C og hann beðinn að koma til A og þeir hafi tekið leigubíl þangað.  C og H hafi farið inn en vitnið kveðst hafa orðið eftir til að gera upp við bílstjórann og hafi eitthvað spjallað við hann.  Hann hafi farið inn líklega 2-5 mínútum síðar en C og H og þá hafi allt verið afstaðið, búið hafi verið að klippa fingur af C.  Inni hafi verið hár maður, A, B, H og C.  Vitnið kveðst ekki hafa séð ákærða X en hann hafi mætt tveimur mönnum sem voru á leið út þegar hann var á leið inn.  Hann hafi þó ekki þekkt þá og kveðst ekki geta borið um hvort það voru ákærðu í þessu máli X og Kristján Halldór, enda hafi hann ekki þekkt til þeirra.  Vitnið kveðst ekki hafa séð háa manninn fyrir utan húsið áður en hann fór inn.  Aðspurt um hótanir kveður vitnið hávaxna manninn hafa ýjað eitthvað að því að hann skildi ekki vera með vandræði.  Vitnið kveðst ekki muna eftir því að ákærði X hafi komið aftur með fingurinn.  Aðspurt kveðst vitnið ekki hafa tekið eftir því hvort hurðin hafi verið brotin upp, hún hafi staðið opin.

Vitnið Daníel Snorrason rannsóknarlögreglumaður ber að um hádegisleytið þann 25. maí 2006 hafi borist tilkynning um að á slysadeild FSA væri mikið slasaður maður vegna líkamsárásar.  Vitnið kveðst hafa farið þangað ásamt Guðmundi Svanlaugssyni rannsóknarlögreglumanni.  Þar hafi þeir hitt B og C.  B hafi verið mjög tregur til að segja frá því hvað gerst hefði og hverjir hefðu verið þar að verki, hann hafi virst hræddur við það.  C hafi verið nýkominn úr aðgerð, honum hafi liðið mjög illa, verið æstur og drukkinn.  Vitnið kveðst hafa verið búið að heyra eitthvað um ferðir ákærðu nóttina á undan og hafi helst talið þá hafa verið að verki.  Þegar B hafi verið spurður hvort ákærðu hafi valdið áverkunum hafi hann játað því.  Í framhaldi af því hafi þeir farið að [...] til að tryggja vettvang.  Þar hafi mátt sjá að hurð hafði verið sparkað upp og nokkuð áberandi skóför á henni.  A hafi setið þar inni og augljóslega verið mjög brugðið.  Hann hafi ekki viljað upplýsa hverjir hefðu verið þarna að verki en þegar vitnið hafi tjáð honum að þeir teldu sig vita að það hefðu verið ákærðu í máli þessu hafi hann staðfest það.  Þá hafi hann einnig náð í töng sem hann hafði falið í þvottahúsi íbúðarinnar að beiðni ákærða X.  Vitnið kveður J hafa farið með A á slysadeild vegna áverka en vitnið hafi orðið eftir í íbúðinni til að tryggja vettvang.  Vitnið kveður brotaþola hafa verið mjög trega til að skýra frá atvikum af ótta við hefndir, sérstaklega hafi A verið mjög hræddur við ákærðu.  Vitnið kveður sérsveitina hafa handtekið ákærðu í íbúð ákærða Kristjáns Halldórs í Drekagili.  Aðspurt um lokaskýrslu af ákærða X kveðst vitnið það eftir honum haft að hann sæi mjög eftir háttsemi sinni.

Vitnið Þórarinn Viðar Hjaltason, sálfræðingur, kveðst hafa gert sálfræðimat á ákærða X að beiðni sýslumannsins á Akureyri.  Vitnið kveður það ekki sitt mat að ákærði hafa verið í ákafri geðshræringu eða skammvinnu ójafnvægi á geðsmunum þegar hann framdi verknaðinn..  Fram hafi komið að ákærði hafi fyrst sett töngina efst upp á fingurinn en hugsað sig aðeins um og svo fært hana framar.  Telur vitnið það benda til þess að ákærði hafi haft nokkra stjórn á sér, hann hafi takmarkað skaðann með því að klippa minna af fingrinum.

 

3.        Niðurstaða.

Ákæruliður A.1.

Ákærði X hefur játað brot sitt.  Er játning hans og lýsing á atvikum í samræmi við framburði meðákærða Kristjáns Halldórs og vitnisins A.  Þykir brot hans því nægjanlega sannað og varðar við tilgreind lagaákvæði í ákæruskjali.

Ákærði Kristján Halldór hefur hins vegar neitað sök.  Ákærði X sagði aðspurður um það hvort hann hefði bankað hjá A í fyrra skiptið sem hann fór til hans að hann hefði gengið inn.  Ákærði Kristján Halldór kvaðst hafa gengið inn með ákærða X.  Hann kvaðst nokkrum sinnum hafa komið til A enda hafi hann áður búið í sama húsi.  Þar hafi fólk gengið út og inn að vild.  Vitnið A kvaðst hins vegar ekki þekkja ákærða Kristján Halldór en sagði að hann og ákærði X hafi einu sinni komið til sín áður en stoppað stutt.  Hann kvað það ekki vana að fólk gæti gengið inn til hans að vild þó hurðin væri ólæst.  Vitnið B, sonur vitnisins A, sem bjó einnig á heimilinu, kvaðst ekki þekkja ákærðu, hann hafi aðeins þekkt ákærða Kristján Halldór í sjón.  Verður samkvæmt framangreindu ekki talið að ákærði Kristján Halldór hafi mátt telja sér heimilt að ganga óboðinn inn til A og B og verður hann því sakfelldur fyrir brot það sem honum er gefið að sök í ákærulið A.1.

 

Ákæruliður A.2.

Ákærði X hefur viðurkennt brot sitt samkvæmt þessum ákærulið og er játning hans og lýsing á atvikum í samræmi við framburð vitnisins A og gögn málsins.  Þykir brot hans því nægjanlega sannað og varðar við tilgreind lagaákvæði í ákæruskjali.

 

Ákæruliður B.3.

Ákærði X hefur viðurkennt brot sitt samkvæmt þessum ákærulið og er játning hans og lýsing á atvikum í samræmi við framburði meðákærða Kristjáns Halldórs og vitnisins A og gögn málsins.  Þykir brot hans því nægjanlega sannað og varðar við tilgreind lagaákvæði.

Ákærði Kristján Halldór neitaði sök.  Hann kvaðst þó hafa farið heim til A með ákærða X.  Ákærði X hafi sparkað upp hurðinni að íbúðinni og þeir gengið inn.  Með vísan til þessa framburðar ákærða sjálfs, sem studdur er framburði ákærða X og vitnisins A auk ummerkja á vettvangi, verður talið sannað að ákærði Kristján Halldór hafi með háttsemi sinni gerst sekur um húsbrot sem varðar við tilgreind lagaákvæði í ákæru.

Ákærði Z kveðst hafa farið ásamt meðákærðu í [...] í þeirri trú að þeir ætluðu aftur til D, þar sem þeir höfðu verið fyrr um morguninn.  Meðákærðu hafi hins vegar farið til A en ákærði hafi beðið úti.  Hann hafi ekki vitað hvað meðákærðu ætluðu að gera þar.  Þegar C, G og H hafi einnig farið þarna inn hafi hann farið á eftir þeim.  Hurðirnar þrjár, á leið inn til A, hafi allar staðið opnar og hann hafi ekki tekið eftir því að ein þeirra hefði verið brotin upp.  Þegar hann hafi komið inn hafi þegar verið búið að klippa fingur af C.  Var framburður hans í lögregluskýrslu frá 30. júní 2006 á sama veg.

Í lögregluskýrslu ákærða X, sem hann staðfesti fyrir dómi þann 12. júní 2006, segir hann að hann og meðákærði Kristján Halldór hafi ákveðið að lokka C heim til A og meðákærði Z hafi ákveðið að fara með þeim.  Þá bar hann að „þeir“ hefðu ruðst inn.  Einnig talaði hann um að ákærði Z hafi staðið í stofunni þegar A hringdi í C.  Þá minntist hann á að ákærði Z hefði tekið á móti C ásamt ákærða Kristjáni Halldóri.

Ákærði Kristján Halldór bar að ákærði Z hefði komið inn nokkru á eftir honum og ákærða X.

Vitnið A kvaðst aðspurt ekki muna hvenær ákærði Z kom inn, líklega hefði það ekki verið fyrr en á eftir C, H og G.

Vitnið B bar að ákærði Z hefði verið inni í stofu þegar hann kom út úr herbergi sínu í fylgd ákærða Kristjáns Halldórs.  Einnig hefði hann fengið að ná í sígarettur í fylgd ákærða Z sem hefði verið á stöðugri ferð um íbúðina og út að dyrum.  Þá hefðu ákærðu Z og Kristján Halldór beðið ákærða X að hætta að lemja vitnið.  Einnig bar vitnið að ákærði Z hefði á einhverjum tímapunkti stuggað við H.  Hann hefði einnig fengið persónuskilríki G og tekið myndir með farsíma.  Vitnið lýsti því að ákærði Z hefði verið taugaóstyrkur.

Eins og að framan greinir verður ekki af framburðum meðákærðu og vitna ráðið með vissu hvenær ákærði Z kom inn í íbúðina og hefur framburði hans um þetta atriði ekki verið hnekkt.  Verður því við það að miða að greiður aðgangur hafi verið inn í íbúðina er ákærði fór þar inn á eftir félögum sínum.  Er ósannað gegn neitun ákærða Z að honum hafi verið ljóst að koma hans í íbúðina hafi verið í óþökk húsráðenda fyrr en eftir að inn í íbúðina kom.  Eins og ákæru er háttað þykir ekki unnt að refsa ákærða fyrir að hafa ekki farið út úr íbúðinni eftir að honum var ljóst að vera hans og félaga hans þar var í óþökk húsráðenda.

Verður ákærði Z sýknaður með vísan til þess sem að framan er rakið.

 

Ákæruliður B.4.

Ákærði X hefur viðurkennt brot sitt samkvæmt þessum ákærulið og er játning hans og lýsing á atvikum í samræmi við framburði vitnanna A og B og gögn málsins.  Þykir brot hans því nægjanlega sannað og varðar við tilgreind lagaákvæði.

Ákæruliður B.5.

Ákærði X hefur viðurkennt brot sitt samkvæmt þessum ákærulið og er játning hans og lýsing á atvikum í samræmi við framburði vitnanna A og B og gögn málsins.  Hann hefur hins vegar neitað því að um samverknað hans og meðákærða Kristjáns Halldórs hafi verið að ræða.  Kvaðst hann ekkert vita um þátt meðákærða Kristjáns Halldórs, hann hafi aðeins séð C liggjandi á gólfinu.  Aðspurður um hvaðan klippurnar komu kvaðst hann ekki vita það, hann hafi setið í sófanum og einhver hafi rétt honum þær.

Ákærði Kristján Halldór neitar sök, kvaðst hann hvorki hafa lamið C með hafnarboltakylfu né sparkað í hann.  Kvaðst hann ekki hafa orðið var við nein átök á vettvangi.  Hann hafi þó vitað að fingur hafi verið klipptur af C en ekki verið viðstaddur er það gerðist.  Ákærði kvaðst ekki hafa verið með hafnarboltakylfu á vettvangi og hvorki séð hafnarboltakylfu né garðklippur þar.  Er framburður ákærða mjög á skjön við framburð vitna og ótrúverðugur.

Samkvæmt framburði vitnisins B, sem dómari metur trúverðugan, var ákærði Kristján Halldór með hafnarboltakylfu þegar hann vakti hann þennan morgun.  Þá bar vitnið að ákærði Kristján Halldór hefði barið C í bakið með hafnarboltakylfunni þegar hann kom inn og í kjölfarið sparkað í síðu hans þar sem hann lá.

Vitnið A bar að ákærði Kristján Halldór hefði verið með hafnarboltakylfu og lamið C með henni, líklega tvö högg á síðuna.  Hann hefði einnig ætlað að sparka í C en ekki hitt.

Vitnið C kvaðst hafa fengið högg á bakið þegar hann kom inn í íbúð A en kvaðst ekki hafa séð hver veitti honum það eða með hverju.  Hann hafi fallið við og sparkað hafi verið í hann.

Vitnið H kvað C hafa legið á gólfinu þegar hann kom inn og bar hann jafnframt að ákærði Kristján Halldór hafi verið með hafnarboltakylfu.  Þá bar vitnið að ákærði Kristján Halldór hefði staðið yfir C á meðan ákærði X klippti af honum fingurinn.

Í ákæru er ákærða Kristjáni Halldóri gefið að sök að hafa slegið C með hafnarboltakylfu í hnakkann og sparka ítrekað í hann liggjandi með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið mar á brjóstkassa og framhandlegg.  Af framburði vitna og áverkum C má ráða að ákærði Kristján Halldór hafi barið C í bakið með hafnarboltakylfu og sparkað í hann liggjandi á gólfinu og með því veitt honum þá áverka er í ákæru er lýst.  Ónákvæmni í ákæru um hvar höggin með hafnarboltakylfunni lentu á C stendur því ekki í vegi að ákærði Kristján Halldór verði sakfelldur fyrir framangreindan verknað.

Ákærði X bar fyrir lögreglu að meðákærði Kristján Halldór hefði rétt honum töng þá er hann notaði til að klippa fingurinn af C. Framburð þennan staðfesti hann fyrir dómi þann 12. júní 2006.

Að öllu því virtu sem að framan er rakið þ.á.m. framburðum ákærða X og vitnanna B og A þykir ekki leika vafi á að ákærðu X og Kristján Halldór hafi í sameiningu tekið ákvörðun um að ganga í skrokk C og unnið saman að því að fá hann heim til A í því skyni og síðan í sameiningu unnið að þeirri atburðarás sem lýst er í ákæru.

Varða brot ákærðu samkvæmt þessum lið ákærunnar við þau lagaákvæði er í ákæru greinir.

 

IV.      Mál höfðað með ákæru lögreglustjórans á Akureyri, 2. janúar 2007.

[...]

 

V.  Ákvörðun refsingar.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði Z, frá því á árinu 1999 þegar hann var 17 ára gamall, þrettán sinnum verið dæmdur til refsingar fyrir brot á hegningarlögum, umferðarlögum, fíkniefnalöggjöfinni og vopnalögum.  Hér verða raktir þeir fangelsisdómar sem hann hefur hlotið.  Ákærði var fyrst dæmdur til fangelsisrefsingar þann 29. október 1999, en þá var hann dæmdur í 2 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir líkamsárás, fölsun, þjófnað og eignaspjöll.  Þann 22. nóvember 2001 var hann dæmdur í 5 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað og nytjastuld og var þá dómurinn frá 29. október 1999 tekinn upp og dæmdur með.  Þann 5. júní 2002 var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað og umferðarlagabrot og var þá dómurinn frá 22. nóvember 2001 tekinn upp og dæmdur með.  Þann 29. október 2003 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og þann 1. júlí 2004 var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir.  Þá var ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi þann 2. mars 2006 fyrir tvær líkamsárásir, hótanir, fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot og brot á vopnalögum.

Brot samkvæmt ákæru lögreglustjórans á Akureyri, útgefinni 6. nóvember 2006 framdi ákærði þann 18. febrúar 2006, áður en síðastgreindur dómur var upp kveðinn, og ber vegna þess brots að líta til ákvæða 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Önnur brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir framdi hann eftir uppkvaðningu síðasta dómsins og hafa fyrri dómar frá 1. júlí 2004 og 2. mars 2006, vegna ofbeldisbrota, ítrekunaráhrif nú, sbr. 71. gr. og 1. mgr. 218. gr. a. hegningarlaganna.  Í máli þessu er ákærði fundinn sekur um ofbeldisbrot gegn fimm manneskjum.  Varða tvö brotanna við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, tvö við 1. mgr. 218. gr. laganna og eitt þeirra við 2. mgr. 218. gr.

Við ákvörðun refsingar má líta til þess að ákærði viðurkenndi alvarlegustu brot sín, samkvæmt ákæru ríkissaksóknara, og við aðalmeðferð málsins samþykkti hann framkomnar bótakröfur.  Óljóst er um aðdraganda að árás ákærða að [...] en að minnsta kosti er ljóst að önnur brot hans framdi hann algerlega að tilefnislausu.  Brot ákærða sem lýst er í ákæru ríkissaksóknara voru alvarleg og hrottafengin og ber aðdragandi og framkvæmd þeirra vott um einbeittan brotavilja.  Þá verður litið til þess að brot gegn C frömdu ákærðu X og Kristján Halldór í sameiningu, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Að framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár.  Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald ákærða frá 27. maí til 12. júní 2006.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði Kristján Halldór níu sinnum verið dæmdur til refsingar fyrir brot á almennum hegningarlögum, fíkniefnalöggjöfinni, vopnalögum og áfengislögum.  Hann var fyrst dæmdur í fangelsi 17. mars 1998 þegar hann var 17 ára gamall.  Var hann þá dæmdur í 15 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað, gripdeild og rán.  Þann 29. desember 1998 var hann dæmdur í 16 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað og var þá dómurinn frá 17. mars 1998 tekinn upp og dæmdur með.  Þann 24. nóvember 2003 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir líkamsárás og þann 20. janúar 2005 var hann dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og brot gegn valdstjórninni.  Þá var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, og til greiðslu sektar fyrir þjófnað og hylmingu þann 25. febrúar 2005.  Síðast var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir fíkniefnalagabrot þann 26. apríl 2006.

Þau brot sem ákærði er nú dæmdur fyrir framdi hann þann 25. maí 2006 og hafa dómar vegna ofbeldisbrota frá 24. nóvember 2003 og 20. janúar 2005 ítrekunaráhrif nú, sbr. 71. gr. og 1. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Ákærði og meðákærði X stóðu saman að árás á C og verður því litið til 2. mgr. 70. gr. hegningarlaganna við ákvörðun refsingar.  Var atlaga þeirra að honum alvarleg og hrottafengin og ber aðdragandi að henni vott um einbeittan brotavilja.  Að framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.  Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald ákærða frá 27. maí til 2. júní 2006.

[...]

 

VI.  Bótakröfur.

Í málinu gerir C kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 1.090.316,- auk dráttarvaxta frá 4. ágúst 2006 til greiðsludags.  Krafan sundurliðast þannig:

Miskabætur                                  kr.                             1.000.000,-

Útlagður kostnaður                     kr.                                  40.316,-

Lögmannskostnaður                   kr.                                  50.000,-

Alls                                                kr.                             1.090.316,-

Samkvæmt ofangreindri niðurstöðu um sekt ákærðu X og Kristjáns Halldórs bera þeir, in solidum, skaðabótaábyrgð á því tjóni C sem rekja má til hinnar refsiverðu háttsemi.  Við aðalmeðferð málsins samþykkti ákærði X framkomnar bótakröfur en ákærði Kristján Halldór krafðist hins vegar sýknu eða lækkunar.  Samkvæmt 45. gr. laga nr. 91/1991 er yfirlýsing aðila, sem er gefin fyrir dómi og felur í sér ráðstöfun á sakarefni, bindandi fyrir hann eftir reglum um gildi loforða ef hann hefur forræði á því.  Samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 skulu samaðilar bundnir við þá kröfu eða yfirlýsingu sem er gagnaðila hagkvæmust séu kröfur þeirra eða yfirlýsingar ósamrýmanlegar.  Samkvæmt því eru kröfur C á hendur ákærðu X og Kristjáni Halldóri teknar til greina að fullu.

 

B krefst skaðabóta að fjárhæð kr. 463.114,- ásamt dráttarvöxtum frá 4. ágúst 2006 til greiðsludags.  Sundurliðast krafa hans þannig:

Miskabætur                                  kr.                                400.000,-

Útlagður kostnaður                     kr.                                  13.114,-

Lögmannskostnaður                   kr.                                  50.000,-

Alls                                                kr.                                436.114,-

 

Við aðalmeðferð málsins samþykkti ákærði X bótakröfuna og ber samkvæmt því að dæma hann til greiðslu hennar að fullu.

 

A gerir kröfu um greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 474.964,- ásamt dráttarvöxtum frá 4. ágúst 2006 til greiðsludags og sundurliðast krafa hans þannig:

Miskabætur                               kr.                                400.000,-

Útlagður kostnaður                  kr.                                  24.964,-

Lögmannskostnaður                kr.                                  50.000,-

Alls                                             kr.                                474.964,-

 

Við aðalmeðferð málsins samþykkti ákærði X bótakröfuna og ber samkvæmt því að dæma hann til greiðslu hennar að fullu.

 

VII. Sakarkostnaður

Dæma ber ákærða X til að greiða skipuðum verjanda sínum, Sigmundi Guðmundssyni hdl., kr. 780.000,- í málsvarnarlaun, þ.m.t. kr. 363.602,- fyrir verjandastörf á rannsóknarstigi sem hann hefur þegar fengið greiddar.

Dæma ber ákærða Kristján Halldór til að greiða skipuðum verjanda sínum, Arnari Sigfússyni hdl., kr. 450.000,- í málsvarnarlaun, þ.m.t. kr. 134.460,- fyrir verjandastörf á rannsóknarstigi sem hann hefur þegar fengið greiddar.

[...]

Sakarkostnaður ákærða Z greiðist úr ríkissjóði þá.m. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Bjarna Lárussonar hdl., kr. 450.000-.  Er þar með taldar kr. 140.063,- vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi sem hann hefur þegar fengið greiddar.

Virðisaukaskattur er innifalinn í tildæmdum málsvarnarlaunum.

Annar sakarkostnaður samkvæmt sakarkostnaðaryfirlitum er vegna læknisvottorðs Sigríðar Maríu Bragadóttur, kr. 7.500,- sem ákærði X verður dæmdur til að greiða.  Verður hann einnig dæmdur til greiðslu kostnaðar vegna læknisvottorða B, kr. 12.500,- og A, kr. 10.000,-.  Að auki verður ákærði X dæmdur til greiðslu kostnaðar vegna geðskoðunar, kr. 243.428,-.  Ákærðu X og [...] verða dæmdir til greiðslu kostnaðar af læknisvottorði [...], kr. 15.000,- in solidum.  Ákærðu X og Kristján Halldór ber að dæma til að greiða in solidum kr. 17.500,- vegna læknisvottorðs C.  Að auki ber að dæma ákærða  Kristján Halldór til að greiða kr. 33.615,- vegna þóknunar verjanda á rannsóknarstigi sem þegar hefur verið greidd.  Þá ber að dæma ákærða [...] til að greiða kr. 33.615,- vegna þóknunar verjanda við upphaf dómsmeðferðar sem þegar hefur verið greidd.  Sakarkostnaður vegna máls samkvæmt ákæru lögreglustjórans á Akureyri, útgefinni 2. janúar 2007, kr. 25.887,-, greiðist úr ríkissjóði.

Í yfirliti um sakarkostnað vegna máls samkvæmt ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 6. desember 2006, er talinn til kostnaður vegna töku blóðsýna o.fl. að fjárhæð kr. 37.500,- og vegna matsgerða að fjárhæð kr. 390.972,-.  Er þessi kostnaður til kominn vegna rannsóknar á magni áfengis og fíkniefna í blóði ákærðu.  Ekki verður séð að þessi kostnaður hafi verið óhjákvæmilegur vegna rannsóknar málsins, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 19/1991 og verða ákærðu því ekki dæmdir til greiðslu þess kostnaðar.

Nánari samantekt sakarkostnaðar greinir í dómsorði.

Töf á uppkvaðningu dóms þessa stafar af önnum dómarans.

Dóminn kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði X sæti fangelsi í fjögur ár.  Gæsluvarðhaldsvist hans frá 27. maí til 12. júní 2006 kemur til frádráttar refsingunni.

Ákærði Kristján Halldór Jensson sæti fangelsi í tvö ár.  Gæsluvarðhaldsvist hans frá 27. maí til 2. júní 2006 kemur til frádráttar refsingunni.

[...]

Ákærði Gunnar Freyr Þormóðsson er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærðu X og Kristján Halldór greiði C kr. 1.090.316,- ásamt dráttarvöxtum frá 4. ágúst 2006 til greiðsludags, in solidum.

Ákærði X greiði B kr. 463.114,- ásamt dráttarvöxtum frá 4. ágúst 2006 til greiðsludags.

Ákærði X greiði A kr. 474.964,- ásamt dráttarvöxtum frá 4. ágúst 2006 til greiðsludags.

Ákærði X greiði kr. 1.053.428,- í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar hdl., kr. 780.000,-.

Ákærði Kristján Halldór greiði kr. 483.615,- í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Sigfússonar hdl., kr. 450.000,-.

[...]

Ákærðu X og Kristján Halldór greiði sakarkostnað kr. 17.500,- in solidum.

[...]

Sakarkostnaður ákærða Z greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Bjarna Lárussonar hdl., kr. 450.000,-.

Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.