Hæstiréttur íslands

Mál nr. 539/2013


Lykilorð

  • Vinnulaun
  • Orlof
  • Fyrning
  • Lagaskil
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 16. janúar 2014.

Nr. 539/2013.

Lech Wesolowski

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Ístaki hf.

(Hjördís Halldórsdóttir hrl.)

Vinnulaun. Orlof. Fyrning. Lagaskil. Gjafsókn.

L höfðaði mál á hendur Í hf. til greiðslu vangoldinna launa og orlofs. Gögn málsins báru með sér að frá 31. mars 2007 til ársloka 2008 hafði L fyrst og fremst unnið almenn verkamannastörf í þágu Í hf. og fengið greidd laun sem slíkur. Var L þegar af þeirri ástæðu ekki talinn hafa átt rétt til launa sem iðnaðarmaður með sveinspróf það tímabil og kröfu hans til viðbótarlauna því hafnað. Þá var talið að hafi L átt rétt til hærri launa frá janúar 2006 til 31. mars 2007 væri ljóst að krafa hans til viðbótarlauna það tímabil væri fyrnd samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en um fyrningu krafna L á hendur Í hf. sem stofnuðust fyrir 1. janúar 2008 færi eftir þeim lögum, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Var kröfunni því hafnað. Á hinn bóginn var fallist á kröfu L um hækkun orlofs vegna hluta þess tíma er hann vann hjá Í hf. og var sú krafa talin ófyrnd.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. ágúst 2013. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 3.058.590 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2009 til greiðsludags en til vara lægri fjárhæðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Með hinum áfrýjaða dómi var kröfu áfrýjanda um vangoldna yfirvinnu vísað frá héraðsdómi án kröfu með vísan til e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi kærði ekki til Hæstaréttar ákvæði héraðsdóms um frávísun málsins að hluta. Ekki er á færi réttarins að taka efnislega afstöðu til kröfu sem vísað hefur verið frá héraðsdómi og kemur þessi krafa því ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti.

Krafa áfrýjanda á hendur stefnda fyrir Hæstarétti er tvíþætt. Hann krefst í fyrsta lagi vangoldinna launa fyrir tímabilið 1. janúar 2006 til ársloka 2008. Er krafan á því reist að áfrýjanda hafi umrætt tímabilið borið réttur til launa samkvæmt launaflokki iðnaðarmanna með sveinspróf en ekki samkvæmt launaflokki þeirra sem vinna almenn verkamannastörf eins og honum var greitt. Þessu andmælir stefndi en ekki er tölulegur ágreiningur um útreikning kröfunnar. Í öðru lagi telur áfrýjanda sig eiga rétt til greiðslu vangoldins orlofs úr hendi stefnda. Samkvæmt kjarasamningi hafi hann átt rétt til 11,11% orlofs en einungis fengið 10,17% greitt. Varnir stefnda eru á því reistar að hann hafi að fullu efnt skyldur sínar gagnvart áfrýjanda samkvæmt ráðningarsamningi aðila og þeim kjarasamningum er um starfskjör áfrýjanda giltu á hverjum tíma og eigi hann því engar frekar kröfur á hendur sér á þeim grundvelli. Verði ekki á það fallist er á því byggt af hálfu stefnda að allar kröfur áfrýjanda í málinu séu fyrndar. Málsástæður aðila og lagarök eru nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi.

Krafa áfrýjanda til greiðslu vangoldinna launa spannar eins og áður greinir tímabilið 1. janúar 2006 til 31. desember 2008. Af gögnum málsins er eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi ljóst að á tímabilinu 31. mars 2007 til ársloka 2008 vann áfrýjandi fyrst og fremst almenn verkamannastörf í þágu stefnda. Er þegar af þeirri ástæðu fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að launagreiðslur til áfrýjanda hafi ekki brotið í bága við þá kjarasamninga er um rétt hans til launa giltu á því tímabili. Verður stefndi því sýknaður kröfu áfrýjanda til viðbótarlauna fyrir þetta tímabil.

Málsaðila greinir á um hvort áfrýjandi hafi frá 1. janúar 2006 til 31. mars 2007 átt rétt til launa sem iðnaðarmaður með sveinspróf í samræmi við kjarasamninga Eflingar og Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem þá giltu. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fer um fyrningu krafna áfrýjanda á hendur stefnda sem stofnuðust fyrir 1. janúar 2008 eftir ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Ágreiningslaust er að áfrýjandi hóf störf hjá stefnda 19. maí 2005 á grundvelli ráðningarsamnings aðila frá 31. mars sama ár, hann fékk laun sín greidd hálfsmánaðarlega, lét af störfum 31. desember 2008 og höfðaði mál þetta með birtingu stefnu 4. september 2012. Hafi áfrýjandi átt rétt til hærri launa umrætt tímabil er ljóst að krafa hans til viðbótarlauna er fyrnd, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905, en upphafstíma fyrningarfrests ber í þessu tilviki samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 5. gr. þeirra laga að miða við gjalddaga hverrar launagreiðslu. Ber því einnig að sýkna stefnda af þessari kröfu áfrýjanda.

Samkvæmt kjarasamningum þeim er giltu um starfskjör áfrýjanda fram til 1. febrúar 2008 skyldu orlofslaun vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem var fyrir dagvinnu eða yfirvinnu. Starfsmaður sem unnið hafði tíu ár í sömu starfsgrein að loknu sveinsprófi átti rétt á 11,11% orlofslaunum og starfsmaður sem unnið hafði fimm ár í sama fyrirtæki átti rétt á 11,59% orlofslaunum. Þar sem áfrýjandi hafði hvorki sveinspróf né hafði hann starfað fimm ár hjá stefnda átti hann ekki rétt til hærra orlofs en 10,17% af launum fyrr en frá og með 1. febrúar 2008 og til loka þess árs samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, sem ágreiningslaust er að þá gilti um starfskjör hans. Samkvæmt þeim kjarasamningi átti áfrýjandi, sem unnið hafði tíu ár í sömu starfsgrein, rétt á orlofslaunum sem námu 11,59% af launum. Áfrýjandi krefur stefnda um 11,11% í orlof á þessu tímabili en fjárhæð þess nemur samtals 358.469 krónum. Að teknu tilliti til þess sem áfrýjandi fékk greitt í orlof og nemur 328.140 krónum krefst hann mismunarins sem er 30.329 krónur. Þar af eru greiðslur vegna orlofsársins sem lauk 30. apríl 2008, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1987 um orlof, fyrndar, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007. Sá hluti orlofsins sem tilheyrir næsta orlofsári féll í gjalddaga á árinu 2009 og er því sá hluti kröfunnar ófyrndur, en hann nemur samtals 22.394 krónum. Verður stefnda gert að greiða áfrýjanda þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. maí 2009 til greiðsludags.  

Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Staðfest er ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda í héraði.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað sameiginlega á báðum dómstigum og rennur hann í ríkissjóð. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Ístak hf., greiði áfrýjanda, Lech Wesolowski, 22.394 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2009 til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda í héraði skulu óröskuð.

Stefndi greiði 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2013.

Mál þetta sem dómtekið var 23. apríl 2013 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 4. september 2012 af Lech Wesolowski, Ljósheimum 12, Reykjavík, á hendur Ístaki hf., Engjateig 7, Reykjavík.

Kröfur aðila

Stefnandi krefst þess aðallega, að stefnda verði gert að greiða honum skuld vegna launa og orlofs að fjárhæð 3.058.590  krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2009 til greiðsludags. Þá er þess krafist að vextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 1. janúar 2010, skv. 12. gr. laga nr. 38/2001. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum lægri fjárhæð skv. álitum dómsins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verði fram við aðalflutning málsins.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda  og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti, sem lagt verði fram undir meðferð málsins.

Atvik máls

Stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda með skriflegum ráðningarsamningi, dagsettum 31. mars 2005. Var starfssvið hans í samningnum tilgreint sem „skilled labourer“. Hóf stefnandi störf hjá stefnda 19. maí 2005. Honum var sagt upp störfum 31. október 2008 og lét hann af störfum hjá stefnda 31. desember 2008. Samkvæmt ráðningarsamningnum skyldi stefnandi frá greiddar 705 krónur fyrir hverja klukkustund í dagvinnu en 1.243 krónur fyrir hverja unna klukkustund í yfirvinnu. Tekið var fram að föst yfirvinna skyldi vera 16 klst. á viku og að laun skyldu greidd út hálfsmánaðarlega. Um réttindi og skyldur var að öðru leyti en í samningnum greindi vísað til kjarasamnings Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (hér eftir SA). Ágreiningur er með aðilum um hvers eðlis störf stefnanda fyrir stefnda hafi verið a.m.k. hluta ráðningartímans. Þó liggur fyrir að á tímabilinu 10. júlí 2005 til 18. febrúar 2007, meðan á vinnu við svonefndan Skarfabakka í Sundahöfn stóð, hafi stefnandi m.a. unnið við málmsuðu. Þegar því verkefni lauk virðist hann aðallega hafa unnið ýmis almenn verkamannaströf fyrir stefnda m.a. við lagnir og yfirborðsvinnu í jarðvinnsluverkefnum. Hinn 15. júní 2006 var orðinu „Welder“ bætt við starfheiti stefnanda í framangreindum ráðningarsamningi og mun það hafa verið gert eftir að í ljós kom að stefnandi hafði reynslu og menntun í málmsuðustörfum frá heimalandi sínu, Póllandi. Þá var ákveðið að beiðni stefnanda að stéttarfélagsgjöldum hans yrði eftirleiðis skilað til VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna (hér eftir VM). Hinn 3. október 2007 sendi stefnandi menntamálaráðuneytinu beiðni um mat og viðurkenningu á menntun sinni í Póllandi, í málmsuðu. Mentamálaráðuneytið framsendi VM beiðnina 8. nóvember til umsagnar. Í svari VM til ráðuneytisins 27. nóvember segir að félagið hafi yfirfarið þau gögn sem því hafi borist til umsagnar varðandi mat og viðurkenningu á námi stefnanda. Stefnandi hafi lokið þriggja ára námi á vélvirkjasviði á sviði iðnaðarvéla og tækja frá málmiðnaðarskóla í Póllandi, auk þess sem hann hafi lokið námi í kennslufræðum. Hann hafi 28 ára starfsreynslu við suðu og samsetningu í skipasmíðastöð. Stefnandi uppfylli því væntanlega skilyrði um menntun og starfsreynslu til vélvirkjastarfa á því sviði sem starfsreynsla hans segi til um. Stefnandi hafi auk þess gilt hæfnisvottorð í málmsuðu, sem veiti honum heimild til að starfa við málmsuðu hér á landi. Tekið skuli fram að gildistími hæfnisvottorðsins renni út í janúar 2008. Hins vegar séu framlögð gögn ekki þess eðlis að hægt sé að bera þau saman við menntunarkröfur til sveinsprófs í vélvirkjun hér á landi. Menntamálaráðuneytið svaraði framangreindu erindi stefnanda, 10. desember 2007. Í svari ráðuneytisins er rakið að leitað hafi verið umsagnar VM og að félagið hafi komist að þeirri niðurstöðu að vandkvæðum væri bundið að jafna menntun stefnanda til íslensks sveinsprófs í vélvirkjun en engu að síður væri ljóst að stefnandi hefði að baki iðnnám og starfsreynslu, sem væri skyld störfum vélvirkja á Íslandi. Féllst ráðuneytið á að stefnandi öðlaðist viðurkenningu að hluta til ákveðinna afmarkaðra starfa sem stefnanda væru töm. Væri gengið út frá því að þátttaka stefnanda á vinnumarkaði hér á landi tæki mið af því. Þá tók ráðuneytið fram að stefnandi hefði hæfnisvottorð í málmsuðu sem veitti honum heimild til að starfa við málmsuðu jafnframt því sem vakin var á því athygli að hæfnisvottorðið rynni út í janúar 2008. Hinn 19. september 2008 sendi starfsmaður VM stefnda fyrirspurn um launakjör stefnanda hjá stefnda. Í fyrirspurninni er m.a. bent á að tímalaun málmsuðumanna með hæfnisvottun séu hærri en laun stefnanda samkvæmt launaseðli 21. ágúst 2008. Starfsreynsla hans hér á landi sé þrjú ár auk þess sem hann hefði að baki margra ára starfsreynslu erlendis. Var það álit VM að tímalaun stefnanda ættu að vera 1.299,77 í stað 1.011,43 skv. launaseðli. Stefnanda var, eins og áður greindi, sagt upp störfum hjá stefnda með uppsagnarbréfi dagsettu 31. október 2008. Í bréfinu segir að ýmsum verkefnum sem stefndi hafi unnið að sé að ljúka og ekki hjá því komist að fækka starfsmönnum nokkuð. Stefnanda sé því sagt upp með tveggja mánaða fyrirvara og verði síðasti starfsdagur hans því 31. desember. Stefndi svaraði framangreindu erindi VM frá 29. september 2008 með bréfi 9. janúar 2009.  Í svarinu er rakið að stefnandi hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda 31. mars 2005, sem sérþjálfaður verkamaður (skilled labourer). Hafi hann í starfi sínu hjá stefnda, að sögn verkstjóra, að langmestu leyti unnið almenn verkamannastörf, mestmegnis við lagnir og yfirborðsvinnu í jarðvinnuverkefnum. Hann hafi hins vegar í tveimur verkefnum komið að stálvinnslu og einhverju leyti málmsuðu. Aðkoma hans að málmsuðu hafi hins vegar verið mjög tilfallandi og í engum tilfellum um að ræða suðu þar sem krafa hafi verið gerð af hálfu verkkaupa eða eftirlitsaðila um sérstaka hæfnisvottun. Þessar framkvæmdir hafi staðið yfir á tímabilinu 10. júlí 2005 til 18. febrúar 2007. Eftir þetta tímabil hafi hann unnið almenn verkamannastörf og ekki komið að suðuverkefnum að neinu leyti. Með því að bæta orðinu „Welder“ við starfsheiti stefnanda, í ráðningarsamningi, hafi stefndi samþykkt að stefnandi flytti sig úr Eflingu í VM. Með því hafi félagið ekki verið að staðfesta hæfni hans eða menntun frá heimalandi hans enda hafi úttekt menntamálaráðuneytisins á réttindum hans þá ekki legið fyrir. Stefndi hafi samþykkt beiðni stefnanda um tilfærslu í VM á þeim forsendum að kjör hans yrðu óbreytt enda hafi laun hans þá verið yfir lágmarkslaunum samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og SA um sérhæfða aðstoðarmenn í iðnaðarstörfum með mikla faglega reynslu og starfsaldur lengri en 5 ár. Á sama hátt líti stefndi svo á að viðmiðunarflokkur stefnanda, með tilliti til launa, væri samkvæmt kjarasamningi VM og SA sem tekið hafi gildi 1. febrúar 2008, flokkur sérhæfðra aðstoðarmanna með faglega reynslu og væru launakjör hans hjá stefnda því í fullu samræmi við það. VM gerði með bréfi til stefnda 23. mars 2009 kröfu um að laun stefnanda yrðu leiðrétt m.v. að stefnandi hefði átt að fá greidd laun meðan á starfi hans hjá stefnda stóð skv, „sveinataxta“ og 5 ára starfsreynslu. Þá var krafist hækkunar á orlofi, endurgreiðslu á greiðslum fyrir fæði og greiðslu vegna ógreiddrar yfirvinnu m.v. að stefnandi hefði átt rétt á greiðslum fyrir 16 yfirvinnutíma á viku. Með bréfi 3. september 2010 krafði lögmaður stefnanda stefnda um meint vangreidd laun og var krafan reist á útreikningum VM. Þá var í samræmi við framangreint bréf VM frá 23. mars 2009 krafist leiðréttingar á orlofi og greiðslu vegna vangreiddrar yfirvinnu. Erindið var ítrekað með bréfi lögmanna stefnanda 14. september 2010. Með bréfi 3. desember 2010 hafnaði SA f.h. stefnda öllum framangreindum kröfum stefnanda.

Aðila máls þessa greinir á um hvort laun þau sem stefndi greiddi stefnanda á tímabilinu 1. janúar 2006 til til 31. desember 2008 hafi verið í samræmi við þá kjarasamninga sem um störf hans giltu og hvað fjölda greiddra yfirvinnutíma varðar, í samræmi við ráðningarsamning stefnanda og stefnda frá 31. mars 2005. Þá er ágreiningur um fjárhæð orlofs.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi byggir á því að þar sem hann hafi hvorki talað íslensku né ensku, verið starfsmaður í ókunnugu landi með litla peninga á milli handanna og litla þekkingu á kauptöxtum og kjarasamningum hér á landi, auk þess að óttast um afdrif sín og fjölskyldu sinnar, ef til ágreinings um launamál kæmi og þar sem hann hafi vonað að úr rættist, hafi tilraunir til að leiðrétta laun hans dregist á langinn. Í kjölfar bréfs menntamálaráðuneytisins, 10. desember 2007, hafi verið staðfest að hann hefði lokið námi í vélvirkjun og kennslufræðum og hefði hæfnisvottorð í málmsuðu. Þá fyrst hafi stefnandi getað hafist handa við að ná leiðréttingu launamála sinna, þótt stefndi hafi áður viðurkennt hann sem „welder“ þ.e. málmsuðumann í ráðningarsamningi. Stefnandi mótmæli alfarið fullyrðingum stefnda um við hvað hann hafi unnið og byggi stefnandi mál sitt á því að hann hafi frá ársbyrjun 2006 unnið við málmsuðu eins og greinilega sjáist á vinnuseðlum með launaseðlum, sem samþykktir hafi verið af stefnda. Starfsheiti stefnanda hafi verið breytt í ráðningarsamningi hans og stefnda í júní 2006 í „welder“, sem þýði málmsuðumaður og feli það í sér sönnun þess og staðfestingu stefnda á að stefnandi hafi unnið sem málmsuðumaður og hafi átt að taka laun samkvæmt því.  Jafnframt sé vísað til yfirlýsingar vinnumálastofnunar í Póllandi, þar sem fram komi að stefnandi sé málmsuðumaður (rafsuðumaður) að mennt, til fyrirliggjandi umsóknar stefnda um dvalarleyfi, þar sem fram komi að hann sé vélvirki og málmsuðumaður og til bréfs menntamálaráðuneytisins 10. desember 2007 um fagmenntun stefnanda.  Ennfremur til fyrirliggjandi yfirlýsinga starfsfélaga stefnanda. Eftirá skýringar stefnda á öðrum tilgangi með breyttu starfsheiti stefnanda í „welder“, í ráðningarsamningi, séu haldlausar. Að auki hafi stefndi ekki átt né mátt láta stefnanda vinna við málmsuðu, sbr. lög um iðnað nr. 42/1978, ef hann hefði ekki haft þekkingu eða réttindi til slíks en ljóst sé að frá árinu 2006 hafi stefnandi verið í mikilli fagvinnu hjá stefnda. Í fyrirliggjandi launatöflu VM, sem gilt hafi frá 1. febrúar 2008 komi fram í texta í þriðja lið hennar að hún gildi m.a. fyrir „Iðnaðarmenn með sveinspróf og málmsuðumenn með hæfnisvottun“. VM hafi skilgreint þennan texta þannig að verið væri að staðfesta skilning manna í orði á fyrri kjarasamningi Samiðnar og SA, sem gilt hafi um „iðnaðarmenn með sveinspróf“.  Hafi  stefndi því átt að taka laun skv. kjarasamningi Samiðnar og SA sem iðnaðarmaður með sveinspróf, þar sem málmsuðumenn með hæfnisvottun hafi fallið þar undir. Samkvæmt framangreindu sé því gerð krafa um leiðréttingu launa frá árinu 2006, þar sem stefnda hafi borið skylda til að greiða stefnanda laun samkvæmt fagmenntun hans og vinnu samkvæmt vinnuseðlum með launaseðlum, frá byrjun árs 2006, og/eða leiðrétta laun hans til samræmis við kjarasamning sem um hann hafi gilt. Stefnandi hafi ekki getað gert sér grein fyrir því, hvort og hver leiðrétting launa hans ætti að vera gagnvart stefnda, fyrr en eftir aðkomu og útreikninga VM, sbr. tölvupóst VM til stefnda dags. 19. september 2008, sbr. 1. mgr. 2. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 þar sem segi að „Fyrningarfrestur kröfu reiknast frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda“. Í tilfelli stefnanda hafi hann ekki getað átt rétt til efnda fyrr en legið hafi ljóst fyrir að hann ætti kröfu á hendur stefnda. Að auki hafi ekki komið í ljós fyrr en við starfslok stefnanda hjá stefnda, sem hafi verið síðasti gjalddagi uppgjörs launa, að stefndi hafi ekki ætlað að leiðrétta laun stefnanda og því hafi vanefnd stefnda við stefnanda þá endanlega orðið ljós, sbr. 4. mgr. 8. gr. hjúalaga nr. 22/1928 með lögjöfnun en í þeim segi:  „Við lok vistartíma skal húsbóndi hafa lokið kaupi hjús að fullu“. Stefndi eigi ekki að hagnast á vanefndum sem honum hafi verið ljósar frá upphafi og ókunnugleika stefnanda sem útlendings við leiðréttingu launa sinna. Verði því að miða upphaf fyrningartíma, hvað varði leiðréttingu á launum stefnanda fyrir tímabilið 1. janúar 2006 til 31. desember 2008, við starfslok stefnanda hjá stefnda, 31. desember 2008. Starfslokadagur hvers vinnusambands sé síðasti gjalddagi á uppgjöri og leiðréttingu launa, orlofs og annarra tengdra launaliða enda hugsanlegt að löngu eftir gjalddaga launa hvers mánaðar komi í ljós að laun hafi verið vangreidd og verði því að miða við vinnusambandið í heild, sbr. 6. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 og 4. mgr. 8. gr. hjúalaga nr. 22/1928.  Jafnframt sé vísað til 2. mgr. 2. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 þar sem segi: „Fyrningarfrestur krafna, sem stofnast vegna vanefnda, reiknast frá þeim degi þegar samningurinn er vanefndur“.  Jafnframt sé vísað til greinargerðar með 2. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007, en þar komi fram að annað tímamark en gjalddagi geti átt við þ.e. þegar kröfuhafi hafi átt þess fyrst kost að setja fram kröfu um efndir, sem aldrei hafi getað orðið fyrr í tilfelli stefnanda en þegar VM hafi sent athugasemdir í tölvupósti 19. september 2008 og eftir atvikum með kröfubréfi lögmanns VM, 3. september 2010. Stefnandi hafi algjörlega verið háður VM að þessu leyti. Verði því að miða fyrningartíma launa- og orlofskrafna stefnanda við starfslok stefnanda hjá stefnda 31. desember 2008. Dráttarvaxta sé krafist frá 1. janúar 2009 en endanlega hafi verið ljóst 31. desember 2008 að stefndi ætlaði ekki að leiðrétta laun og orlof stefnanda. Stefnandi telji að launagreiðslur til sín á starfstíma hans hjá stefnda frá 1. janúar 2006 til 31. desember 2008, hafi ekki verið í samræmi við framangreind ráðningarkjör hans sem suðumanns með hæfnisvottun (iðnaðarmenn með sveinspróf) eða skv. lágmarksákvæðum kjarasamningum Samiðnar og SA frá 1. janúar 2006 til 31. janúar 2008 og skv. kjarasamningi VM og SA frá 1. febrúar 2008, sem tekið hafi við af kjarasamningi Samiðnaðar og SA. Stefndi hafi greitt stefnanda laun samkvæmt almennum verkamannataxta en borið í ljósi menntunar, starfsreynslu og starfa stefnanda að greiða honum laun skv. framangreindu. Samkvæmt framlögðum útreikningum VM, sé mismunurinn á þeim launum sem stefnandi hafi fengið greidd og þeim launum sem honum hafi borið skv. framangreindu, eftirfarandi: 

Leiðrétting dag- og yfirvinnulauna:

Vegna ársins 2006 B1-B2

kr.     663.802

Orlof 10,17% v/2006

kr.       67.509

Vegna ársins 2007 C1-C2

kr.     668.192

Orlof 10,17% v/2007

kr.       67.955

Vegna ársins 2008 D1-D2

kr.     564.486

Orlof 10,17% v/2008

kr.       57.408

Samtals               

kr. 2.089.352

Samkvæmt launaseðlum hafi stefnandi einvörðungu fengið greitt 10,17% orlof ofan á laun. Samkvæmt kjarasamningi VM hafi honum hins vegar borið 11,11% orlof ofan á laun, þar sem hann hafði starfað meira en 10 ár í starfsgreininni. Samkvæmt útreikningum VM sé mismunur 10,17% orlofs og 11,11% orlofs á launagreiðslur eftirfarandi:

Vegna ársins 2006

kr. 22.056 (260.686 - 238.630)

Vegna ársins 2007

kr. 28.395 (335.604 - 307.209)

Vegna ársins 2008

kr. 32.841 (388.156 - 355.315)

Samtals               

kr. 83.292

Samkvæmt ráðningarsamningi hafi stefnanda verið tryggðir að lágmarki 16 fastir yfirvinnutímar á viku án undantekninga. Við skoðun á fyrirliggjandi launaseðlum stefnanda sjáist að hann hafi ekki fengið greidda fasta yfirvinnu í samræmi við ráðningarkjör í ráðningarsamningi. Krafa stefnanda vegna vangreiddra yfirvinnutíma  sé eftirfarandi:

Vegna ársins 2006

kr. 561.677,-

Vegna ársins 2007

kr. 174.891,-

Vegna ársins 2008

kr. 149.378,-

Samtals               

kr. 885.946,-

Með vísan til framangreinds sundurliðist heildarkrafa stefnanda þannig:

Leiðrétting skv. launataxta

kr. 2.089.352,-

Leiðrétting orlofs

kr.      83.292,-

Vangreidd yfirvinna

kr.    885.946,-

Samtals               

kr. 3.058.590,-

Þar sem fyrri innheimtutilraunir, sbr. tölvupóst VM 19. september 2008 og bréf lögmanns VM 3. september 2010 hafi reynst árangurslausar sé málshöfðun þessi nauðsynleg. Kröfur sínar styðji stefnandi m.a. við lög nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lög um orlof nr. 30/1987, meginreglur kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, meginreglur vinnuréttar um greiðslu launa, kjarasamninga Samiðnar og SA, kjarasamning VM og bókanir sem teljist hluti kjarasamninga.   Vísað sé til 8. gr. hjúalaga nr. 22/1928 og til 2. og 6. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991. Kröfur um málskostnað styðji stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málkostnaði.  Einnig sé krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Kröfu sína um sýknu af kröfum stefnanda byggir stefndi á því að stefnandi eigi enga kröfu á hendur honum enda hafi hann að öllu leyti greitt stefnanda í samræmi við efni þeirra kjarasamninga, sem um kjör hans hafi gilt, og því beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda. Haldi stefnandi öðru fram beri hann sönnunarbyrðina fyrir slíkum fullyrðingum. Stefndi byggi á því að stefnandi hafi verið ráðinn til stefnda sem sérþjálfaður verkamaður og hafi farið um starfskjör hans samkvæmt kjarasamningi Eflingar stéttarfélags og SA. Samkvæmt kjarasamningnum fari launakjör starfsmanna eftir því starfi sem viðkomandi starfsmaður ráði sig til. Þannig hafi hvorki menntun né starfsreynsla af öðrum sviðum áhrif, nema viðkomandi sé ráðinn til þeirra starfa. Stefnandi hafi ekki afhent stefnda neinar upplýsingar um fyrri störf eða menntun við upphaf starfs síns hjá stefnda en samkvæmt gr. 1.1.3 í kjarasamningi Eflingar við SA komi eftirfarandi m.a. fram:

Starfsreynslu skal meta til launaþrepa skv. launaákvæðum samnings þessa. Starfsaldur, m.v. starfsreynslu í sömu starfsgrein, skal metinn skv. staðfestum upplýsingum um fyrri störf, og skal það gilda, þótt starfshlé úr greininni verði allt að þrjú ár ....

Þar sem stefnandi hafi ekki upplýst stefnda um framangreint við ráðningu sína til stefnda sé ekki hægt að gera kröfu um að hann hafi á eigin spýtur aflað sér slíkra upplýsinga. Stefnanda hafi borið að upplýsa stefnda um framangreint og verði sjálfur að bera hallan af því að hafa ekki gert það við ráðningu sína til stefnda. Launakjör stefnanda hjá stefnda í dagvinnu hafi allan starfstíma hans verið yfir þeim taxta sem kjarasamningar hafi kveðið á um og stefnandi því verið yfirborgaður í starfi sínu hjá stefnda. Á tímabilinu frá því að stefnandi hafi hafið störf hjá stefnda og til febrúar 2006 hafi farið um kjör stefnanda samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA og laun stefnanda á þeim tíma verið eftirfarandi:

a)                   Í upphafi hafi þau verið kr. 706,49 en lágmarkstaxti kjarasamnings hafi verið

     kr. 614,71.

b)                   Í janúar 2006 hafi þau verið kr. 724,15 en lágmarkstaxti kjarasamnings hafi verið

     kr. 658,86.

c)                   Í febrúar hafi þau verið kr. 760,37 en lágmarkstaxti kjarasamnings verið

     kr. 658,86.

Í júní 2006 hafi stefndi samþykkt beiðni stefnanda um að félagsgjöldum yrði skilað til VM. Á sama tíma hafi starfsheitinu „welder“ verið bætt við starfsheiti hans í ráðningarsamningi og laun hans samtímis hækkuð úr kr. 760,37 í kr. 845,14. Í þágildandi kjarasamningi Samiðnar og SA, sem gilt hafi um kjör stefnanda frá júní 2006, hafi aðeins verið um  tvo launaflokka að ræða, annars vegar „iðnaðarmenn með sveinspróf“ og hins vegar „sérhæfðir aðstoðarmenn í iðnaðarstörfum með mikla faglega reynslu í iðninni“. Launaflokkar starfsmanna án sveinsprófs hafi ekki náð til starfa sem talist hafi hefðbundin störf verkamanna, en svo hafi verið um flest þeirra starfa sem stefnandi hafi unnið hjá stefnda. Þar sem stefnandi hafi ekki verið með sveinspróf í iðninni og hafi ekki fengið reynslu sína eða menntun frá heimalandi sínu viðurkennda hér á landi hafi ekki verið mögulegt að fella hann inn í launaflokk iðnaðarmanna með sveinspróf heldur hafi hann verið settur í flokk sérhæfðra aðstoðarmanna í iðnaðarstörfum sem haft hafi mikla faglega reynslu í iðninni. Hafi stefnandi engar athugasemdir gert við að vera settur í þann flokk. Á tímabilinu júní 2006 og þar til stefnandi hafi látið af störfum 31. desember 2008 hafi farið um kjör stefnanda samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og SA. Á þeim tíma hafi stefnandi verið yfirborgaður samanborið við kjör hans samkvæmt umræddum kjarasamningi:

a)                   Í júní hafi þau verið 845,14 en 5 ára taxti skv. kjarasamningi hafi verið kr. 694,37.

b)                   Í júlí 2006 hafi þau verið 931,69 en 5 ára taxti skv. kjarasamningi hafi verið

     kr. 780,92.

c)                   Í janúar 2007 – október 2007 hafi þau verið 958,71 en 5 ára taxti skv.

     kjarasamningi hafi verið kr. 803,66.

d)                   Í nóvember 2007 hafi þau verið kr. 1008,70 en 5 ára taxti skv. kjarasamningi hafi

     verið kr. 803,66.

Í október 2007 hafi stefnandi sent beiðni um mat og viðurkenningu  á menntun sinni í vélvirkjun og málmsuðu frá heimalandi sínu. Menntamálaráðuneytið hafi ekki fallist á að jafna mætti menntun stefnanda til íslensks sveinsprófs í vélvirkjun. Hins vegar hafi verið talið að fallast mætti á að stefnandi öðlaðist viðurkenningu að hluta til ákveðinna og afmarkaðra starfa sem hann hafi verið vanur að sinna. Í febrúar 2008 hafi verið endurnýjaðir kjarasamningar við VM þar sem samið hafi verið um sérstaka launataxta fyrir félagsmenn félagsins. Þrátt fyrir að stefnandi hafi áfram unnið sem sérhæfður verkamaður hafi launakjör hans verið miðuð við launataxtann „sérhæfðir aðstoðarmenn með faglega reynslu“, en eins og áður greini hafi menntamálaráðuneytið ekki fallist á að jafna menntun hans í heimalandi við sveinspróf hér á landi. Hafi stefnandi enn verið yfirborgaður samanborið við kjör hans samkvæmt kjarasamningi. Þannig hafi laun stefnanda í mars 2008 verið kr. 1.011,43 en 5 ára taxti skv. kjarasamningi verið kr. 907,51. Stefnandi hafi hætt störfum hjá stefnda í lok desember 2008 og hafi hann fyrst gert athugasemdir við launagreiðslur til sín skömmu áður en hann hafi látið af störfum. Þá mótmæli stefndi kröfum stefnanda um leiðréttingu launataxta og þeim útreikningum sem hann leggi til grundvallar sem röngum og ósönnuðum. Með vísan til framangreinds beri því að sýkna stefnda af þeirri kröfu stefnanda. Kröfu stefnda um leiðréttingu á orlofi ofan á laun sé alfarið hafnað sem rangri og ósannaðri. Samkvæmt kjarasamningi Eflingar stéttarfélags og SA, sem gilt hafi um ráðningarkjör stefnanda fram til júní 2006, hafi  orlofsávinnsla miðast við starfstíma í sama fyrirtæki. Lágmarksorlof hafi verið 10,17% og skyldi hækka í 10,64% eftir 5 ár í sama fyrirtæki. Samkvæmt þágildandi kjarasamningi hafi orlofsávinnsla ekki verið bundin við starf í tiltekinni starfsgrein. Í júní 2006 hafi tilfærsla stefnanda í VM verið samþykkt. Í gr. 1.1.1.3 í þágildandi kjarasamningi segi að starfsaldur miðist við starfsaldur í starfsgrein frá sveinsprófi. Þar sem stefnandi hafi ekki verið með sveinspróf hafi starfsaldurstengd réttindi ekki gilt um hann. Samkvæmt þágildandi kjarasamningi hafi starfsmaður þurft að hafa unnið í 5 ár í sama fyrirtæki til að fá aukinn orlofsrétt. Stefnandi hafi starfað í rúmlega þrjú og hálft ár hjá stefnda. Stefnandi hafi þar af leiðandi ekki náð þeim rétti til orlofsauka sem hann geri kröfu um. Að teknu tilliti til framangreinds mótmæli stefndi því að stefnandi eigi rétt til leiðréttingar á orlofi ofan á laun enda telji stefndi grundvöll kröfu stefnanda rangan og ósannaðan. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda. Stefnandi haldi því fram í stefnu að hann hafi ekki fengið greidda fasta yfirvinnu í samræmi við ráðningarkjör í ráðningarsamningi. Sé því mótmælt af hálfu stefnda sem röngu og ósönnuðu. Stefndi hafi ráðið stefnanda í upphafi í tiltekið verkefni og hafi fjöldi vinnutíma miðast við það verkefni. Þegar því verkefni hafi verið lokið hafi stefnanda verið boðið áframhaldandi starf við önnur verkefni á vegum stefnda. Vinnutími hafi fylgt þeim verkefnum sem framkvæmd hafi verið á hverjum tíma. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi stefnanda borið að fá greidda 16 yfirvinnutíma á viku. Í yfirliti yfir vinnutíma stefnanda, sem fylgt hafi stefnu, komi fram að stefnandi hafi réttilega unnið yfirvinnu á starfstíma hans hjá stefnda. Þegar tímarnir séu lagðir saman og deilt í þá með þeim vikum sem stefnandi hafi starfað hjá stefnda megi sjá að þetta séu að meðaltali um 16 yfirvinnutímar á viku yfir allan starfstíma stefnanda. Greiðsla á yfirvinnu til stefnanda hafi því verið fyllilega í samræmi við ráðningarkjör hans hjá stefnda. Í ljósi framangreinds telji stefndi að hann hafi í öllum atriðum greitt stefnanda í samræmi við efni ráðningarsamnings og þeirra kjarasamninga, sem um kjör hans hafi gilt, og því gert að fullu upp við stefnanda, hvort sem um ræði laun, orlof eða yfirvinnugreiðslur. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Verði ekki fallist á kröfu stefnanda á grundvelli þess að hann hafi að öllu leyti greitt stefnanda í samræmi við efni kjarasamninga, sem um kjör hans hafi gilt, byggi stefndi á því að kröfur stefnanda séu fyrndar og því beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda. Málatilbúnaður stefnanda byggi á meintum launakröfum, sem eigi að hafa stofnast á árunum 2006, 2007 og 2008, þ.e. á þeim tíma þegar stefnandi hafi verið starfsmaður stefnda, en hann hafi hætt störfum 31. desember 2008. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, hafi lögin öðlast gildi 1. janúar 2008 og skuli þau gilda „einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna“. Af framangreindu leiði að um þær kröfur stefnanda, sem stofnast hafa á árunum 2006 og 2007, skuli gilda ákvæði eldri laga um fyrningu nr. 14/1905. Samkvæmt 1. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 segi að á 4 árum fyrnist kröfur vegna; „ ...vinnu og hvers konar starfa, sem í té er látinn;...“. Samkvæmt 2. tl. 3. gr. sömu laga segi að á sama tíma fyrnist kröfur um; „... gjaldkræf laun ...“. Samkvæmt 5. gr. sömu laga telst fyrningarfrestur: „frá þeim degi, er krafa varð gjaldkræf“. Meint krafa stefnanda vegna áranna 2006 og 2007 sé launakrafa sem verið hafi á gjalddaga við hverja og eina útgreiðslu á launum til stefnanda og fyrnist því á fjórum árum talið frá hverri útgreiðslu til stefnanda. Þannig hafi meint krafa um leiðréttingu vegna útgreiðslu til stefnda 12. janúar 2006 fyrnst 12. janúar 2010, o.s.frv. Undantekningarregla í ákvæði lokamálsliðar 1. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, um að krafa hjús um kaupgjald fyrnist ekki meðan það sé samfellt áfram í sömu vist, eigi aðeins við um vinnusambönd þau sem um sé fjallað í hjúalögum nr. 22/1928. Framangreind undantekningarregla hafi jafnframt verið felld úr gildi við setningu núgildandi fyrningarlaga og tekið fram í almennum athugase

mdum við frumvarp það er orðið hafi að lögunum, að réttarreglur um hjú hefðu varla nokkra raunhæfa þýðingu nú á tímum og því verði ekki séð að ástæða sé til að halda í aðra tilhögun um fyrningu á launakröfum hjúa en gildi í vinnuréttarsamböndum almennt. Eigi framangreint ákvæði því ekki við í málinu enda ekki um slíkt vinnusamband að ræða. Um meintar launakröfur stefnanda, sem eigi að hafa stofnast á árinu 2008, gildi hins vegar ákvæði núgildandi fyrningarlaga nr. 150/2007, sbr. áðurnefnda 28. gr. laganna. Samkvæmt launaseðlum stefnanda eigi umræddar kröfur að hafa stofnast á tímabilinu 10. janúar til 23. desember það ár. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 150/2007 reiknist fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi þegar kröfuhafi hafi fyrst getað átt rétt til efnda. Samkvæmt 3. gr. sömu laga teljist almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda vera fjögur ár. Fyrnist kröfur um laun á fjórum árum, enda annað ekki ákveðið með lögum. Stefnandi hafi hafið innheimtuaðgerðir með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 14. september 2010 en stefna í málinu hafi hins vegar vegar ekki verið birt stefnda fyrr en 4. september 2012. Við móttöku gagna málsins, við þingfestingu, hafði stefnandi í fyrsta sinn séð einhver gögn varðandi kröfur stefnanda. Stefndi mótmæli því sem fram komi í stefnu að miða eigi upphaf fyrningar við starfslok stefnanda, 31. desember 2008, enda leiði engin lagaleg rök til þeirrar niðurstöðu. Einnig mótmæli stefndi því, sem fram komi í stefnu, að miða verði við vinnusambandið í heild sinni, sbr. 6. gr. núgildandi fyrningarlaga nr. 150/2007 og 4. mgr. 8. gr. hjúalaga nr. 22/1928. Tilvísun stefnanda í fyrrnefnda 6. gr. núgildandi fyrningarlaga sé óskiljanleg enda í þeirri grein mælt fyrir um fyrningu krafna sem feli í sér greiðslur með reglulegu millibili án þess að um afborganir af höfuðstól skuldar sé að ræða og eigi ákvæðið því að engu leyti við í því máli sem hér um ræði. Þá hafi þegar verið fjallað um ákvæði hjúalaga og ljóst að þeirri undantekningarreglu verði ekki beitt gegn skýru ákvæði 3. gr. núgildandi fyrningarlaga. Þá mótmæli stefnandi tilvísunum stefnanda í ákvæði 2. mgr. 2. gr. núgildandi fyrningarlaga og til greinargerðar með 2. gr. sömu laga, enda ljóst að ákvæðið eigi ekki við í málinu og breyti því ekki að miða skuli við meginregluna um að fyrningarfrestur skuli reiknast frá þeim degi þegar kröfuhafi hafi fyrst getað átt rétt til efnda, sbr. ákvæði 1. mgr. 2. gr. laganna. Að teknu tilliti til framangreinds sé því ljóst að meintar kröfur stefnanda, vegna launa árið 2006, hafi allar fyrnst á árinu 2010. Meintar kröfur stefnanda vegna launa árið 2007 hafi allar fyrnst á árinu 2011 og meintar kröfur stefnanda vegna launa árið 2008 séu fyrndar fram að þeim tíma þegar stefna í málinu hafi verið birt stefnda 4. september 2012. Breyti í þessu sambandi engu hvort um sé að ræða kröfu vegna leiðréttingar launa, leiðréttingu orlofs eða vangreiddrar yfirvinnu. Grundvöllur kröfufjárhæðar stefnanda sé launatímabilið frá upphafi árs 2006 til loka árs 2008 og sé fjárhæð kröfunnar sett fram í einu lagi, 3.058.590 krónur. Stefnandi hafi með engum hætti reynt að gera grein fyrir því að lítill hluti meintra krafna sé, að teknu tilliti til þess sem að framan hafi verið rakið, ekki fyrndur, enda þótt stefndi telji að umræddar kröfur eigi engan rétt á sér, sbr. fyrri umfjöllun. Með vísan til framangreinds beri að sýkna stefnda af þeirri kröfu stefnanda. Stefndi mótmæli jafnframt varakröfu stefnanda um að hann verði dæmdur til að greiða honum lægri fjárhæð, en aðalkrafa hans kveði á um, samkvæmt álitum dómsins. Umrædd krafa sé órökstudd og grundvöllur hennar óljós en  helst megi álykta að stefnandi sé að gera einhvers konar bótakröfu þar sem lagt sé að dómstólnum að dæma tilætlaða kröfu að álitum. Umræddri kröfu sé mótmælt sem rangri og ósannaðri. Í fyrsta lagi skuli ítrekaðar fyrri málsástæður stefnda sem leiði til þess að ekki sé unnt að fallast á varakröfu stefnanda, enda beri samkvæmt þeim að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Í öðru lagi skuli bent á að þegar fjárhæð sé dæmd að álitum sé ástæða þess fyrst og fremst sú að sönnun á umfangi tjóns viðkomandi aðila sé miklum vandkvæðum bundin. Hér þurfi einnig að liggja fyrir að viðkomandi hafi orðið fyrir fjártjóni, sem valdið hafi verið með saknæmum hætti. Vart verði á það fallist að framangreind sjónarmið eigi við, enda telji stefndi sig á engan hátt hafa brotið á rétti stefnanda. Þá verði vart hægt að fallast á að umfang meintrar launakröfu sé óljóst enda liggi fyrir ítarlegir útreikningar henni til stuðnings, þó að stefndi fallist hins vegar ekki á gildi þeirra útreikninga. Beri því jafnframt að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda. Stefndi mótmæli dráttarvaxtakröfu stefnanda, þar sem krafan eigi sér enga lagastoð og sé ekki í samræmi við atvik málsins. Þá séu allir ætlaðir dráttarvextir, eldri en 4 ára, fyrndir í samræmi við fyrri umfjöllun. Beri því að sýkna stefnda af kröfu um dráttarvexti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem og að vextir leggist við höfuðstól skuldarinnar, sbr. 12. gr. sömu laga. Kröfum sínum til stuðnings vísi stefndi meðal annars til 2., 3., og 28. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og 3. og 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, kjarasamninga Samiðnar og SA, kjarasamnings VM og SA og bókanir sem teljist hluti kjarasamninga, meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, meginreglna vinnuréttar um greiðslu launa og ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað vísist til 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Forsendur og niðurstaða

Eins og rakið hefur verið byggir stefnandi launakröfur sínar í máli þessu á því að hann hafi frá 1. janúar 2006 til ársloka 2008 þegið lægri laun vegna starfa sinna hjá stefnda en honum hafi borið samkvæmt þeim kjarasamningum sem um störf hans hafi gilt. Vísar stefndi í þeim efnum til kjarasamnings Samiðnar og SA, hvað tímabilið 1. janúar 2006 til 31. janúar 2008 varðar en til kjarasamnings VM og SA frá 1. febrúar 2008 til 31. desember s.á. Stefnandi byggir á því að honum hafi að réttu borið laun samkvæmt þeim launaflokkum sem átt hafi við um störf iðnaðarmanna með sveinspróf samkvæmt samningi Samiðnar og SA og iðnaðarmanna með sveinspróf og málmsuðumanna með hæfnispróf samkvæmt samningi VM og SA.

Í málinu liggur fyrir útreikningur sem sýnir mismuninn á þeim launum sem stefnandi fékk greidd á framangreindu tímabili og þeim launum sem hann telur sig hafa átt að fá samkvæmt tilvitnuðum kjarasamningum. Ekki er tölulegur ágreiningur um þessa útreikninga, hvað dagvinnulaun varðar. Hins vegar er, eins og rakið hefur verið, ágreiningur með aðilum um eftir hvaða launaflokki í tilvitnuðum kjarasamningum stefnandi hafi átt að taka laun, miðað við þau störf sem hann vann í þágu stefnda.

Samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, með síðari breytingum, skulu laun og önnur starfskjör samkvæmt kjarasamningi, vera lágmarkslaun í viðkomandi starfsgrein á því svæði er kjarasamningur tekur til. Óheimilt er að semja um lakari kjör í ráðningarsamningi en í kjarasamningi.

Eins og rakið hefur verið hóf stefnandi störf hjá stefnda 19. maí 2005, á grundvelli ráðningarsamnings frá 31. mars s.á. Í ráðningarsamningnum er starfsheiti stefnanda tilgreint sem „skilled labourer“. Ekki liggur fyrir í málinu löggilt þýðing á þessu enska starfsheiti en aðilar hafa ýmist þýtt það á íslensku sem verkamaður með faglega reynslu eða sérþjálfaður verkamaður. Ekki er ágreiningur með aðilum um inntak hins enska starfsheitis. Hinn 15. júní 2006 bætir Ólafur Gíslason, staðarstjóri stefnda, orðinu „Welder“ við starfsheiti stefnanda. Ekki er ágreiningur með aðilum um að orðið megi þýða á íslensku sem „suðumaður“. Mun þessi viðauki við starfsheiti stefnanda hafa verið gerður um það leyti sem hann fékk aðild að VM. Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að viðbótin við starfsheitið hafi eingöngu verið gerð til að stefnanda gæfist kostur, í samræmi við óskir sínar, að ganga í VM en breytingin hafi ekki af hálfu stefnda falið í sér staðfestingu á að stefndi ynni málmsuðustörf í þágu stefnda.

Í málinu liggja fyrir launaseðlar stefnanda ásamt vinnuskýrslum vegna starfa stefnanda í þágu stefnda 2006-2008, ásamt launamiðum fyrir þessi ár. Á launamiðum 2007, 2008 og 2009, vegna áranna 2006-2008, er stefnandi tilgreindur, á reit fyrir lýsingu á tegund vinnu, sem „ósérhæfður byggingaverkamaður“.

Á vinnuseðlum vegna starfa stefnanda hjá stefnda á árinu 2006, sem skráðir eru af verkstjóra stefnda, kemur fram að mestur hluti starfa hans á því ári hafi verið við málmsuðu og málmbræðslu. Er það í samræmi við þær upplýsingar staðarstjóra stefnda, fyrir dómi, að stefnandi hafi allt árið 2006 unnið við frágang stálþils við Skarfabakka í Sundahöfn. Á árinu 2007 vinnur stefnandi, skv. vinnuseðlum stefnda, suðuvinnu í samtals fimm vikur en mestur hluti starfstíma hans það árið virðist, eftir því sem næst verður komist, hafa farið í önnur störf, svo sem lagna- og jarðvinnu. Virðist óhætt að fullyrða að störf hans við málmsuðu hafi á árinu 2007 verið óverulegur hluti af heildarstörfum hans hjá stefnda nema á tímabilinu 19. febrúar til 4. mars, 12. mars til 17. mars og 19. mars til 31. mars. Ekki verður séð af vinnuskýrslum stefnda að stefnandi hafi á árinu 2008 unnið málmsuðustörf á vegum stefnda og hefur því ekki verið andmælt af stefnanda. 

Í skýrslu Ólafs Gíslasonar staðarstjóra stefnda, fyrir dómi, staðfesti hann aðspurður að stefnandi hefði, meðan unnið hafi verið við stálþil við Skarfabakka, starfað við að skera stálþil og við aðra suðuvinnu. Hins vegar hefði hann ekki mátt vinna við suðu sem krafist hefði hæfnisvottunar og því ekki unnið við slík verkefni.

Í skýrslu Allans Sveinbjörnssonar verkstjóra stefnda, fyrir dómi, staðfesti hann að stefnandi hefði m.a., þegar unnið hefði verið við stálþilið við Skarfabakka, unnið við suðu og verið notaður í slík verkefni, ef þurft hefði að sjóða.    

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið um störf stefnanda, skv. vinnuskýrslum stefnda og því sem fram kom í skýrslum starfsmanna stefnda fyrir dómi, verður að telja nægilega sannað að stefnandi hafi á árinu 2006 mestmegnis unnið við málmsuðu á vegum stefnda og að slík störf hafi verið umtalsverður hluti starfa hans fyrir stefnda í febrúar og mars 2007. Hins vegar hafi hann eftir 31. mars 2007 unnið við önnur og óskyld störf á vegum stefnda.

Halldór Arnar Guðmundsson starfsmaður VM gaf skýrslu fyrir dómi. Aðspurður kvað hann bæði faglærða og ófaglærða geta átt aðild að VM en suðuvinna væri fagvinna. Hafi stefnandi, miðað við menntun og fyrri störf, átt að vera skráður sem suðumaður með hæfnisvottun og mátt vinna við málmsuðu. Hann hafi uppfyllt skilyrði til að vinna sem suðumaður en ekki mátt kalla sig svein í faginu. Hann hafi hins vegar, án vafa, verið með menntun sem suðumaður og sem slíkur fallið undir launaflokkinn iðnaðarmaður með sveinspróf í kjarasamningi Samiðnar og SA en ekki sem aðstoðarmaður. Hann hafi verið suðumaður með suðumenntun. Aðspurður kvað hann suðumenn alltaf hafa tekið laun samkvæmt launaflokki fyrir iðnaðarmenn með sveinspróf. Aðspurður kvaðst vitnið hafa samið þá útreikninga sem fram komi á dómskjali nr. 27, er sýni mismuninn á þeim launum sem stefnandi hafi átt að fá samkvæmt kjarasamningum Samiðnar og SA og VM og SA og þeirra launa sem hann hafi fengið hjá stefnda.

Þeirri staðhæfingu stefnanda, sem studd er framangreindum vitnisburði starfsmanns VM, að stefnandi hafi meðan hann vann hjá stefnda við málmsuðu átt að fá greidd laun skv. launaflokki fyrir iðnaðarmenn með sveinspróf, skv. kjarasamningi Samiðnar og SA, hefur ekki verið hrundið af stefnda. Styðst staðhæfingin við fyrirliggjandi mat menntamálaráðuneytisins frá 10. desember 2007, sem áður hefur verið rakið, sem fól í sér staðfestingu á að stefnandi hefði vegna menntunar sinnar í Póllandi og fyrri starfa sinna þar í landi, gilt hæfnisvottorð í málmsuðu og væri heimilt að starfa við málmsuðu hér á landi. Verður því á það fallist með stefnanda að hann hafi átt kröfu á hendur stefnda um mismuninn á þeim launum sem hann hafi fengið greidd úr hendi stefnda, vegna starfa í hans þágu 1. janúar 2006 til 31. mars 2007, og þeim launum sem lögð eru til grundvallar í útreikningi VM á dómskjali nr. 27, fyrir sama tímabil en eins og áður er rakið hefur tölulegum útreikningi samkvæmt dómskjali nr. 27, vegna dagvinnutíma, ekki verið mótmælt af stefnda. Hins vegar verður jafnframt á það fallist með stefnda að launagreiðslur til stefnanda fyrir vinnu eftir 31. mars 2007 hafi ekki brotið í bága við tilgreinda kjarasamninga Samiðnar og SA og VM og SA enda hafi stefnandi skv. vinnuskýrslum stefnda á tímabilinu 31. mars 2007 til ársloka 2008, fyrst og fremst unnið almenn verkamannastörf í þágu stefnda. Hefur því ekki verið hrundið af stefnanda.

Af hálfu stefnanda er, hvað kröfu um meint ógreitt orlof varðar, á því byggt að stefnanda hafi skv. kjarasamningi VM og SA, átt rétt á 11,11% orlofi en eingöngu fengið 10,17% orlof ofan á laun. Rétturinn til 11,11% orlofs sé á því byggður að stefnandi hafi starfað meira en 10 ár í viðkomandi starfsgrein.

Af hálfu stefnda er kröfu stefnanda um hækkun á orlofi ofan á laun alfarið hafnað sem rangri og ósannaðri. Stefndi byggi á því að samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA, sem gilt hafi um ráðningarkjör stefnanda fram til júní 2006, hafi  orlofsávinnsla miðast við starfstíma í sama fyrirtæki. Lágmarksorlof hafi verið 10.17% en skyldi hækka í 10,64% eftir 5 ár í sama fyrirtæki. Samkvæmt þágildandi kjarasamningi hafi orlofsávinnsla ekki verið bundin við starf í tiltekinni starfsgrein. Í júní 2006 hafi stefnandi fært sig úr Einingu í VM. Í ákvæði 1.1.1.3 í þágildandi kjarasamningi Samiðnar og SA, sem gilt hafi um félagsmenn í VM, hafi sagt að starfsaldur skyldi miðast við starfsaldur í starfsgrein frá sveinsprófi. Þar sem stefnandi hafi ekki verið með sveinspróf hafi framangreind starfsaldurstengd réttindi ekki gilt um hann. Þá hafi stefnandi starfað í rúmlega þrjú og hálft ár hjá stefnda og þar af leiðandi ekki átt rétt til orlofsauka skv. kjarasamningi Eflingar og SA.

Óumdeilt er að samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA hafi orlofsávinnsla miðast við starfstíma hjá sama fyrirtæki. Þá er óumdeilt að lágmarksorlof hafi, á þeim tíma sem stefnandi var félagsmaður í Eflingu, verið 10,17% en hækkað í 10,64% eftir fimm ára starf hjá sama fyrirtæki. Fyrir liggur að stefnandi starfaði í rúm þrjú og hálft ár hjá stefnda eða frá 19. maí 2005 til 31. desember 2008 og uppfyllti hann, þegar af þeirri ástæðu, ekki framangreint skilyrði fyrir hækkun orlofs. Kjarasamningar Samiðnar og SA og VM og SA hafa ekki verið lagðir fram í málinu. Stóð það stefnda næst að leggja þessa samninga fyrir dóminn enda eru dómkröfur hans, hvað orlofsgreiðslur varðar, reistar á umræddum kjarasamningum. Af hálfu stefnda er á því byggt, eins og rakið hefur verið, að hækkun orlofs samkvæmt kjarasamningum Eflingar og SA og Samiðnar og SA hafi verið háð því skilyrði annars vegar að starfsmaður hefði unnið 5 ár eða lengur hjá sama fyrirtæki og hins vegar 10 ára starfsaldri í starfsgrein, talið frá sveinsprófi. Þessum staðhæfingum stefnda hefur ekki verið hrundið. Þar sem stefnandi hafði hvorki formlegt sveinspróf eða hafði starfað í 5 ár hjá stefnda verður kröfu hans um hækkun orlofs hafnað.

Aðila greinir á um hvort stefnandi hafi meðan á starfi hans hjá stefnda stóð fengið greidda 16 yfirvinnutíma á viku, sbr. ráðningarsamning aðila frá 31. mars 2005. Af  hálfu stefnda er fullyrt að svo hafi verið og hafi umsamin yfirvinna að fullu verið gerð upp við stefnanda. Af hálfu stefnanda er á því byggt að svo hafi ekki verið. Hefur stefnandi lagt fram útreikning VM þessu til stuðnings. Þeim útreikningi hefur, hvað fjölda ógreiddra yfirvinnutíma varðar, verið mótmælt af stefnda og fullyrðir stefndi að stefnandi hafi, meðan á starfi hans hjá stefnda stóð, fengið að meðaltali greitt fyrir 16 yfirvinnutíma á viku. Greiðsla fyrir yfirvinnu hafi því verið í samræmi við ráðningarkjör stefnanda hjá stefnda. Stefnandi hefur ekki mótmælt því að skilja beri umrætt yfirvinnuákvæði í ráðningarsamningi aðila á þann veg að stefnandi hafi átt að fá greidda 16 yfirvinnutíma að meðaltali meðan á störfum hans hjá stefnda stóð.

 Útreikningar VM, sem stefnandi hefur lagt fram, m.a. um fjölda unninna og greiddra yfirvinnutíma meðan á ráðningu stefnanda hjá stefnda stóð eru sagðir sýna að stefnandi hafi samtals á ráðningartímanum fengið greitt fyrir 1.995,52 yfirvinnutíma en átt rétt á greiðslu fyrir 2432 tíma m.v. 152 vinnuvikur. Stefndi hefur mótmælt útreikningi stefnda hvað fjölda ógreiddra yfirvinnutíma varðar og umkröfðu tímagjaldi vegna yfirvinnunnar.

Eftir því sem næst verður komist byggja útreikningar stefnanda, til grundvallar þessum þætti í kröfugerð hans, á meðalyfirvinnulaunum. Sá útreikningur liggur hins vegar ekki fyrir í málinu eða aðrar forsendur útreikningsins. Þannig liggur ekki fyrir hvort stefnandi hefur í tölulegum útreikningi sínum miðað við 40 stunda vinnuviku eða hvort hann hefur talið stefnanda eiga rétt til 16 yfirvinnutíma á viku án tillits til fjölda unninna dagvinnutíma. Er þessi hluti kröfugerðar stefnanda því vanreifðuar og er honum vísað frá dómi ex officio, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi hefur sett fram þá varnarástæðu, að því er virðist til vara, að meintar kröfur stefnanda á hendur stefnda í máli þessi séu fyrndar, sbr. ákvæði laga nr. 14/1905, hvað varði þær kröfur sem stofnast kunni að hafa á árunum 2006 og 2007 en samkvæmt ákvæðum laga nr. 150/2007 hvað varði þær kröfur sem stofnast kunni að hafa eftir 1. janúar 2008. Stefndi byggir á því að samkvæmt 1. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnist kröfur vegna „ ...vinnu og hvers konar starfa, sem í té er látinn;...“ á 4 árum og samkvæmt 2. tl. 3. gr. sömu laga fyrnist kröfur um; „... gjaldkræf laun ...“ á 4 árum. Samkvæmt 5. gr. sömu laga teljist fyrningarfrestur: „frá þeim degi, er krafa varð gjaldkræf“. Meint krafa stefnanda vegna áranna 2006 og 2007 sé launakrafa sem verið hafi á gjalddaga við hverja og eina útgreiðslu á launum til stefnanda og því fyrnst á fjórum árum talið frá hverri útgreiðslu til stefnanda. Undantekningarregla í ákvæði lokamálsliðar 1. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, um að krafa hjús um kaupgjald fyrnist ekki meðan það sé samfellt áfram í sömu vist, eigi aðeins við um vinnusambönd þau sem um sé fjallað í hjúalögum nr. 22/1928. Framangreind undantekningarregla hafi jafnframt verið felld úr gildi við setningu núgildandi fyrningarlaga og tekið fram í almennum athugasemdum við frumvarp það er orðið hafi að lögunum, að réttarreglur um hjú hefðu varla nokkra raunhæfa þýðingu nú á tímum og því yrði ekki séð að ástæða væri til að halda í aðra tilhögun um fyrningu á launakröfum hjúa en gildi í vinnuréttarsamböndum almennt. Eigi framangreint ákvæði því ekki við í málinu enda ekki um slíkt vinnusamband að ræða. Meintar launakröfur stefnanda, sem eigi að hafa stofnast á árinu 2008, hafi þá samkvæmt launaseðlum stefnanda, stofnast á tímabilinu 10. janúar til 23. desember það ár. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 150/2007 reiknist fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi, þegar kröfuhafi hafi fyrst getað átt rétt til efnda. Samkvæmt 3. gr. sömu laga teljist almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda vera fjögur ár. Fyrnist kröfur um laun á fjórum árum, enda annað ekki ákveðið með lögum. Stefnandi hafi hafið innheimtuaðgerðir með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, 14. september 2010, en stefna í málinu hafi hins vegar vegar ekki verið birt stefnda fyrr en 4. september 2012. Að teknu tilliti til framangreinds sé því ljóst að meintar kröfur stefnanda, vegna launa árið 2006, hafi allar fyrnst á árinu 2010. Meintar kröfur stefnanda vegna launa árið 2007 hafi allar fyrnst á árinu 2011 og meintar kröfur stefnanda vegna launa árið 2008 séu fyrndar fram að þeim tíma þegar stefna í málinu hafi verið birt stefnda 4. september 2012. Breyti í þessu sambandi engu hvort um sé að ræða kröfu vegna leiðréttingar launa, leiðréttingu orlofs eða vangreiddrar yfirvinnu. Grundvöllur kröfufjárhæðar stefnanda sé launatímabilið frá upphafi árs 2006 til loka árs 2008 og sé fjárhæð kröfunnar sett fram í einu lagi, 3.058.590 krónur. Stefnandi hafi með engum hætti reynt að gera grein fyrir því að lítill hluti meintra krafna sé, að teknu tilliti til þess sem að framan hafi verið rakið, ekki fyrndur, enda þótt stefndi telji að umræddar kröfur eigi engan rétt á sér. Með vísan til framangreinds beri að sýkna stefnda af þeirri kröfu stefnanda.

Af hálfu stefnanda er því mótmælt að kröfur hans séu fyrndar. Á það verði að líta að stefnandi hafi ekki getað gert sér grein fyrr því hvort og hver leiðrétting launa hans ætti að vera gagnvart stefnda fyrr en eftir aðkomu og útreikninga VM en VM hafi fyrst sent stefnda  tölvupóst varðandi laun stefnanda, 19. september 2008, sbr. 1. mgr. 2. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 þar sem segi: „Fyrningarfrestur kröfu reiknast frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda“.  Í tilfelli stefnanda hafi hann ekki átt rétt til efnda fyrr en legið hafi ljóst fyrir að hann ætti kröfu á hendur stefnda. Að auki hafi ekki komið í ljós fyrr en við starfslok stefnanda hjá stefnda, sem verið hafi síðasti gjalddagi uppgjörs launa, að stefndi ætlaði ekki að leiðrétta launin við stefnda og því hafi vanefnd stefnda við stefnanda þá verið  endanlega ljós, sbr. 4. mgr. 8. gr. hjúalaga nr. 22/1928 með lögjöfnun en í þeim segi:  „Við lok vistartíma skal húsbóndi hafa lokið kaupi hjús að fullu“. Stefndi eigi ekki að hagnast á vanefndum sem honum hafi verið ljós frá upphafi og ókunnugleika stefnanda sem útlendings við leiðréttingu launa sinna. Rétt sé því að miða upphafstíma fyrningar vegna launa stefnanda við starfslok hans hjá stefnda 31. desember 2008. Starfslokadagur hvers vinnusambands sé síðasti gjalddagi á uppgjöri og leiðréttingu launa, orlofs og annarra tengdra launaliða því hugsanlegt sé að löngu eftir gjalddaga launa hvers mánaðar komi í ljós að laun hafi verið vangreidd og verði því að miða við vinnusambandið í heild, sbr. 6. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 og 4. mgr. 8. gr. hjúalaga nr. 22/1928.  Jafnframt sé vísað til 2. mgr. 2. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 þar sem segi: „Fyrningarfrestur krafna, sem stofnast vegna vanefnda, reiknast frá þeim degi þegar samningurinn er vanefndur“. Jafnframt sé vísað til greinargerðar með 2. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007, að annað tímamark en gjalddagi geti átt við þ.e. þegar kröfuhafi hafi fyrst átt þess kost að setja fram kröfu um efndir, sem aldrei hafi getað orðið fyrr, í tilfelli stefnanda, en þegar VM hafi sent athugasemdir í tölvupósti 19. september 2008 og eftir atvikum með kröfubréfi lögmanns VM, 3. september 2010. Stefnandi hafi verið algjörlega háður VM að þessu leyti. Verði því að miða fyrningartíma launa- og orlofskrafna stefnanda við starfslok hans hjá stefnda  31. desember 2008.

Dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að laun stefnanda hjá stefnda hafi frá og með 1. apríl 2007 ekki verið undir þeim lágmarkslaunum sem kjarasamningar Samiðnar og SA og VM og SA mæltu fyrir um. Samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fyrndust kröfur um endurgjald fyrir vinnu og hvers konar starfa á fjórum árum frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf, sbr. 1. tl. 3. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Eindagi kröfunnar markaði þannig upphaf fyrningarfrestsins. Frá framangreindri meginreglu um að upphaf fyrningarfrests, vegna launakrafna, skyldi reiknast frá eindaga kröfu var m.a. gerð sú undantekning að krafa hjús um kaupgjald fyrndist ekki meðan það væri samfellt í sömu vist, sbr. 3. gr. 1. tl. in fine. Þessi undantekningarregla gilti aðeins um hjú og aðeins um kaupkröfur þeirra. Vöru rökin að baki reglunni þau að það myndi gefast illa ef hjú þyrfti að standa í málsókn á hendur húsbændum sínum út af kaupgreiðslum meðan á vistinni stæði. Þessari reglu,  sem er undantekningarregla, byggð á þeim sérstöku aðstæðum sem hjú bjuggu oft á tíðum við, á fyrri hluta 20. aldar, verður ekki beitt með lögjöfnun um vinnusamband stefnanda og stefnda. Samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda og stefnda frá 31. mars 2005 skyldi stefnandi frá greidd umsamin laun á 2. vikna fresti. Ekki er ágreiningur með aðilum um að laun stefnandi hafi á ráðningartíma hans hjá stefnda verið greidd með þessum hætti. Ekki eru lagaleg rök fyrir því að möguleg vanþekking stefnanda á réttindum sínum breyti upphafi fyrningartímans. Samkvæmt framangreindu verður fallist á það með stefnda að kröfur stefnanda um leiðréttingu launa sinna tímabilið 1. janúar 2006 til og með 31. mars 2007 séu fyrndar.

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins, eins og áður greinir, að kröfu stefnanda vegna meintrar ógreiddrar yfirvinnu skuli vísað frá dómi ex officio. Þá verður stefndi sýknaður af öðrum kröfum stefnanda í máli þessu. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu og greiðist þóknum lögmanns hans, Þórður Heimis Sveinssonar héraðsdómslögmanns, úr ríkissjóði. Telst hún hæfilega ákveðin 1.305.200 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Kröfu stefnanda um vangreidda yfirvinnu er vísað frá dómi ex officio. Stefndi, Ístak hf., skal að öðru leyti vera sýkn af kröfum stefnanda, Lech Wesolowski, í máli þessu. Málskostnaður milli aðila fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Þórðar Heimis Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 1.305.200 krónur.