Hæstiréttur íslands
Mál nr. 711/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
Mánudaginn 22. desember 2010. |
|
|
Nr. 711/2010. |
Lögreglustjórinn á Selfossi (Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, skyldi afplána 196 daga eftirstöðvar refsingar, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að X hefði framið brot er varðað gæti allt að 6 ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. desember 2010, þar sem varnaraðila var gert að afplána 196 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að „kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir og greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda varnaraðila, X , vegna meðferðar máls þessa fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. desember 2010.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur farið fram á það við dóminn að X, kt. [...] með lögheimili að [...] í [...], nú gæsluvarðhaldsfanga í fangelsinu að Litla Hrauni á Eyrarbakka, verði með vísan til 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga gert að afplána 196 daga eftirstöðvar óafplánaðra fangelsisrefsinga sem kærða var veitt reynslulausn á af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 28. nóvember sl.
Skipaður verjandi kærða krefst þess að kröfunni verði hafnað og þá krefst hann þóknunar sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 28. nóvember sl. þegar hann hafði afplánað 2/3 af:
- 460 daga eftirstöðvum 3 ára fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 28. febrúar 2008 að frádreginni 392 daga gæsluvarðhaldsvist, 6 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 10. október 2008 og 4 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 19. nóvember 2008.
- 1 mánaðar fangelsisdómi Héraðsdóms Suðurlands frá 14. desember 2009.
- 4 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 18. nóvember 2010.
Samtals sé um að ræða 196 daga eftirstöðvar ofangreindra refsinga og hafi stofnunin ákveðið að reynslutíminn skyldi vera 2 ár.
Fram kemur í greinargerðinni að kærði hafi þrátt fyrir ungan aldur mikinn sakaferil að baki og hafi ítrekað á síðustu árum hlotið þungar refsingar fyrir fíkniefnabrot, auðgunarbrot og umferðarlagabrot. Lögregla rannsaki nú neðangreind mál sem upp hafi komið eftir að kærða hafi verið veitt reynslulausn, þar sem hann sé sterklega grunaður um aðild að eftirgreindum málum:
033-2010-8707
Aðfaranótt laugardagsins 4. desember sk. hafi kærði verið stöðvaður við akstur bifreiðarinnar [...] í [...] á Selfossi, en hann sé sviptur ökuréttindum. Mælst hafi 1,45 í alkóhólmæli lögreglu og þvagpróf hafi gefið til kynna tetrahýdrókannabínólsýru. Hann hafi játað að hafa ekið bifreiðinni og að hafa neytt fíkniefna fyrir aksturinn.
033-2010-8916
Í málinu sé kærði grunaður um aðild að vopnuðu ráni, hótunum, líkamsárás og akstri án ökuréttinda á Selfossi síðdegis laugardaginn 11. desember sl., í samverknaði við tvo aðra aðila. Allir hinir grunuðu hafi að kröfu lögreglustjórans á Selfossi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins sem renni út kl. 16:00 í dag.
Það sé mat lögreglustjórans að öll lagaskilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga séu uppfyllt, enda hafi kærði með ofangreindri háttsemi rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Þá sé líka ljóst, m.a. í ljósi játninga kærða sjálfs, að hann sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem varðað geti allt að 6 ára fangelsi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga sé þess farið á leit að krafan nái fram að ganga.
Í máli þessu hefur verið lagt fram bréf Fangelsismálastofnunar ríkisins dags. 15. desember sl. en þar kemur fram að kærða hafi þann 28. nóvember sl. verið veitt reynslulausn þegar afplánaðir höfðu verið 2/3 af 460 daga eftirstöðvum samtals 3 ára fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar upp kveðnum 28. febrúar 2008, að frádreginni 392 daga gæsluvarðhaldsvist, 6 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 10. október 2008 og 4 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 19. nóvember 2008, 1 mánaðar fangelsisdómi Héraðsdóms Suðurlands frá 14. desember 2009 og 4 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 18. nóvember 2010. Sé reynslutíminn 2 ár og eftirstöðvar refsingarinnar 196 dagar.
Kærði sætir nú gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði upp kveðnum 13. desember sl. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en hann er grunaður um líkamsárás, húsbrot, rán og brot gegn vopnalögum, en þessi brot eru talin framin laugardaginn 11. desember sl. Kemur fram í rannsóknargögnum að kærði ásamt tveimur félögum sínum hafi farið inn í leiguíbúð í kjallara fjölbýlishúss hér í bæ þar sem staddir hafi verið fjórir piltar í tölvuleikjum. Hafi þremenningarnir ógnað þeim, barið þá, tekið tölvubúnað o.fl. og haft með sér á brott. Hafi fjórmenningarnir sagt kærðu hafa ógnað þeim með hnífi og hafnaboltakylfu og töldu þeir þremenningana hafa átt jafnan þátt í ráninu. Hafi þeim verið hótað lífláti ef þeir létu ekki munina af hendi eða tilkynntu um atvikið til lögreglu. Kærði hefur kannast við að hafa farið inn í íbúðina í þeim tilgangi að sækja tölvur og annan búnað en hefur neitað að hafa hótað neinum og þá kannast hann ekki við að þremenningarnir hafi verið með hnífa. Hann hefur viðurkennt að hafa kannski tekið sér kylfu í hönd en muni ekki eftir því. Fjórmenningunum hafi hins vegar mátt vera ljóst að hollast væri fyrir þá að láta af vilja þremenninganna enda hafi þeir verið „dópaðir“ og óárennilegir.
Eftir að kærða var veitt reynslulausn 28. nóvember sl. er hann grunaður um að hafa framið brot gegn umferðarlögum, vopnalögum, 217. gr., 231. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í máli þessu leikur því sterkur grunur á því að kærði hafi framið ránsbrot sem varðað getur tíu ára fangelsi. Það er almennt skilyrði reynslulausnar, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Samkvæmt 2. mgr. sömu laga getur dómstóll úrskurðað að kröfu ákæranda að maður sem hlotið hafi reynslulausn skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað geti sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þessu er það mat dómsins að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 65. gr. sömu laga að kærði hafi á reynslutíma rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar og jafnframt er sýnt að fyrir liggur sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geta sex ára fangelsi. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra í máli þessu eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Samkvæmt næstsíðasta málslið 2. mgr. 65. gr. laganna frestar kæra til Hæstaréttar Íslands ekki framkvæmd úrskurðar.
Þóknun skipaðs verjanda kærða, Kristjáns Stefánssonar hrl, 62.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal afplána 196 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar Íslands 28. febrúar 2008 og dómum Héraðsdóms Suðurlands frá 10. október 2008, Héraðsdóms Reykjaness frá 19. nóvember 2008, Héraðsdóms Suðurlands frá 14. desember 2009 og Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 18. nóvember 2010, sbr. reynslulausn sem Fangelsismálastofnun ríkisins veitti honum 28. nóvember 2010.
Kæra til Hæstaréttar Íslands frestar ekki framkvæmd úrskurðarins.
Þóknun skipaðs verjanda kærða, Kristjáns Stefánssonar hrl, 62.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.