Hæstiréttur íslands

Mál nr. 318/1998

A og B (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Sigrún Guðmundsdóttir)

Lykilorð

  • Stjórnsýsla
  • Uppsögn
  • Ógildi löggernings


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. mars 1999.

Nr. 318/1998.

A og

B

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

 

Stjórnsýsla. Uppsögn. Ógildi löggernings.

A og B ráku meðferðarheimili á grundvelli samnings við barnaverndarstofu fyrir börn, sem ekki gátu búið með fjölskyldum sínum og ekki töldust fósturhæf vegna sálræns ástands síns. A og B sögðu upp samningnum eftir viðræður við barnaverndarstofu sem hafði látið í ljós að stofan myndi að öðrum kosti segja samningnum upp fyrir sitt leyti. Með hliðsjón af því starfi sem fram fór á heimilinu var talið að málefnaleg sjónarmið hefðu legið að baki þeirrar afstöðu barnaverndarstofu að ekki yrði við það unað að heimilið lyti forráðum B, sem uppvís hafði orðið að ölvun í húskynnum þess og að hafa sýnt þar af sér kynferðislega áreitni við starfsmann. Þótti uppsögn A og B á samningnum skuldbindandi og þurfti því ekki að meta viðbrögð barnaverndarstofu við afturköllun A og B á uppsögninni. Þá var ekki talið að skilyrði væru til að víkja uppsögn A og B til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Var kröfu A og B um að viðurkennt yrði að uppsögn á samningi þeirra væri ógild því hafnað ásamt kröfu um skaðabætur af þessum sökum

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 1998. Þau krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að uppsögn 31. janúar 1996 á samningi þeirra við barnaverndarstofu, félagsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið um rekstur meðferðarheimilis Barnaheilla að […], sem gerður var 6. september 1995, sé ógild. Einnig krefjast þau skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 10.316.727 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. september 1996 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjenda og að málskostnaður verði látinn niður falla.

I.

Málavextir eru þeir helstir, að áfrýjendur tóku að sér að reka meðferðarheimili Barnaheilla að […] með samningi við barnaverndarstofu 6. september 1995, sem var staðfestur af félagsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Tekið var fram í samningnum að heimilið væri rekið í samræmi við 4. mgr. 51. gr. laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna með síðari breytingum. Væri um að ræða meðferðarheimili fyrir börn, sem ekki gætu búið með fjölskyldum sínum, teldust ekki fósturhæf að mati sérfræðinga eða vegna annarra ástæðna gætu ekki nýtt sér úrræði barnaverndarnefnda sökum sálræns ástands og félagslegra aðstæðna. Gert var ráð fyrir að á meðferðarheimilið yrðu vistuð að hámarki sex börn, sem að öðru jöfnu væru ekki eldri en 12 ára við komu þangað. Í 4. gr. samningsins var sérstaklega tekið fram, að áfrýjendur ábyrgðust að uppeldi og meðferð þeirra barna, sem vistuð væru á heimilinu, væri í samræmi við kröfur barnaverndarstofu hverju sinni. Þau skyldu leggja sig fram um að mynda félags- og tilfinningatengsl við börnin, sem á heimilinu dveldust, og skapa þeim eins gott fjölskylduumhverfi og frekast væri kostur. Samningurinn skyldi gilda til 31. desember 1997, en heimilt var að segja honum upp með 6 mánaða fyrirvara.

Svo sem í héraðsdómi greinir gerðist það aðfaranótt 4. janúar 1996 að áfrýjandinn B, sem var einn í vistarverum sínum, gerðist drukkinn. Hann kallaði til sín nafngreinda konu, sem var starfsmaður á heimilinu, og viðhafði við hana háttsemi, sem að hennar mati fól í sér kynferðislega áreitni. Leiddi þetta til þeirra eftirmála, sem nánar eru raktir í héraðsdómi, þar á meðal uppsagnar áfrýjenda á samningnum 31. janúar 1996, sem síðar var dregin til baka með bréfi þeirra til barnaverndarstofu 15. apríl sama árs. Þessari afturköllun á uppsögn hafnaði forstöðumaður barnaverndarstofu með bréfi 23. sama mánaðar. Deila aðilarnir um hvort uppsögnin hafi verið bindandi fyrir áfrýjendur.

II.

Samningurinn frá 6. september 1995 um rekstur meðferðarheimilisins var sem áður segir gerður með heimild í 4. mgr. 51. gr. laga nr. 58/1992. Þar segir, að félagsmálaráðuneytið skuli sjá um að sérhæfð heimili og stofnanir séu tiltækar fyrir börn og ungmenni, svo og að slík heimili og stofnanir séu reknar af ríkinu eða einkaaðilum undir yfirumsjón og eftirliti barnaverndarstofu. Nánar skuli kveða á um starfsemi heimila og stofnana þessara með reglugerð, sem félagsmálaráðherra setji. Þegar gætt er að þessu er ekki unnt að líta þannig á samninginn að hann hafi verið þess eðlis að ákvæði 3. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 girði fyrir að önnur ákvæði laganna en þar greini geti átt við um hann. Bar því stefnda eftir þörfum að gæta ákvæða stjórnsýslulaga og almennra reglna stjórnsýsluréttar í lögskiptum sínum við áfrýjendur vegna samningsins.

Óumdeilt er, að áfrýjendur afhentu 31. janúar 1996 bréflega uppsögn sína á samningnum eftir ítrekaðar viðræður við starfsmenn barnaverndarstofu, sem höfðu meðal annars látið í ljós að hún myndi þá samdægurs nýta sér heimild til uppsagnar samningsins, ef áfrýjendur létu ekki verða af því. Vegna þessa aðdraganda að uppsögn áfrýjenda verður að meta lögmæti hennar og áhrif með tilliti til þess hvort barnaverndarstofa hefði fyrir sitt leyti mátt segja upp samningnum, þar á meðal hvort fullnægt væri til þess ákvæðum III. kafla stjórnsýslulaga.

Í minnisblaði, sem starfsmaður barnaverndarstofu ritaði um fund sinn við áfrýjendur 8. janúar 1996, sagði meðal annars að þegar rás atburða að […] aðfaranótt 4. sama mánaðar hafi verið borin undir áfrýjandann B hafi hann staðfest „að rétt væri með farið.“ Í minnisblaðinu er sú atburðarás þó ekki rakin nánar. Í bréfi, sem starfsmaðurinn ritaði áfrýjendum sama dag og fundurinn var haldinn, sagði hins vegar eftirfarandi: „Tilefni fundarins var að starfsmaður meðferðarheimilisins hefur haldið því fram að hann hafi verið beittur kynferðislegri áreitni af hálfu B (svo) aðfararnótt 4. janúar s.l. Ennfremur fullyrti starfsmaðurinn að B hafi neytt áfengis í óhófi á heimilinu við sama tækifæri. Fundurinn með yður í dag hefur leitt í ljós að ekki er ágreiningur milli yðar og starfsmannsins um það sem fram fór og reifað var nánar á fundinum.“ Áfrýjendur hreyfðu ekki athugasemdum vegna þessara ummæla í bréfinu, en sérstakt tilefni gafst þó til þess, ef þau töldu ummælin ekki á rökum reist, þegar áfrýjandinn A ritaði greinargerð 20. janúar 1996 til forstöðumanns barnaverndarstofu vegna málsins. Af þessum sökum var ekki tilefni fyrir barnaverndarstofu til að efna til frekari rannsóknar á atvikum málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en meta verður lögmæti þess, sem í kjölfarið gerðist, með tilliti til atvikanna eins og þau voru rakin með tilvitnuðum orðum úr bréfinu.

Vegna þess starfs, sem rækt var á meðferðarheimilinu að […] og áður er lýst með vísan til samnings áfrýjenda við barnaverndarstofu, lágu málefnaleg sjónarmið að baki þeirri afstöðu hennar að ekki yrði við það unað að heimilið lyti forráðum manns, sem hefði orðið uppvís að ölvun í húsakynnum þess og að hafa sýnt þar af sér kynferðislega áreitni við samstarfskonu. Til þess verður og að líta að bæði áfrýjandinn B og hlutaðeigandi kona áttu á sama tíma að hafa gætur á börnum, sem dvöldust á heimilinu. Barnaverndarstofa kaus ekki að bregðast við þessum aðstæðum með því að rifta samningi sínum við áfrýjendur, heldur gaf hún þeim kost á að segja upp samningnum með 6 mánaða fresti að því viðlögðu hún neytti ella heimildar sinnar til uppsagnar. Með þessum viðbrögðum var fullnægt þeim kröfum, sem gerðar eru til stjórnvalda með 12. gr. stjórnsýslulaga. Í þessu ljósi þurfa ekki að koma sérstaklega til skoðunar viðbrögð barnaverndarstofu við afturköllun áfrýjenda á uppsögninni 15. apríl 1996.

Ekki verður fallist á með áfrýjendum að skilyrði séu til að víkja til hliðar uppsögn þeirra með stoð í ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, A og B, greiði í sameiningu stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 1998.

Árið 1998, föstudaginn 22. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-3229/1997: A og B gegn íslenska ríkinu kveðinn upp svohljóðandi dómur:

                Mál þetta, sem dómtekið var 24. f.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, kt. […] og B, kt. […], […], Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu sem birt var 25. júní 1997.

 

Dómkröfur stefnanda.

1.    Að viðurkennt verði með dómi að uppsögn þann 31. janúar 1996 á samningi við Barnaverndarstofu, félagsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið um rekstur meðferðarheimilis Barnaheilla að […], sem gerður var 6. september 1995, sé ógild.

2.    Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum 10.316.727 kr. í skaðabætur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27.september 1996 til greiðsludags. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, hið fyrsta sinn 27. september 1997.

3.    Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

 

Dómkröfur stefndu.

                Aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati réttarins.

                Til vara er gerð krafa um stórfellda lækkun á kröfum og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.

 

Málavextir og önnur atvik frá sjónarhóli stefnanda.

                Í ágúst 1995 hafi stefnendur tekið að sér rekstur meðferðarheimilis Barnaheilla að […] í […]. Gengið hafi verið frá skriflegum samningi þar að lútandi 6. september 1995 milli stefnenda annars vegar og Barnaverndarstofu, félagsmálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins hins vegar. Samkvæmt 10. gr. samningsins skyldi Barnaverndarstofa greiða stefnendum árlegt rekstrarframlag, sem félagsmálaráðuneytinu hafi borið að beita sér fyrir að Alþingi veitti fjárveitingu fyrir á fjárlögum sbr. 11. gr.

                Samkvæmt 14. gr. samningsins hafi samningstíminn verið ákveðinn til 31. desember 1997. Hvorum aðila um sig hafi þó verið heimilt að segja honum upp með 6 mánaða fyrirvara.

                Tengiliður stefnenda við Barnaverndarstofu hafi verið skipuð C.

                Þann 1. nóvember 1995 hafi stefnendur ráðið D leikskólakennara sem uppeldisfulltrúa að heimilinu, enda hafi sérstaklega verið mælt með henni af C.

                Þegar á hafi reynt hafi D ekki reynst ráða við starf sitt. Hún hafi ekki fest rætur á heimilinu og hafi haft á orði að láta af störfum fyrir áramót 1995/1996.

                Um jól og áramót hafi engir vistmenn dvalist að […]. En þann 3. janúar hafi verið komnir til starfa E, D og stefnandi B. Þá hafi verið á heimilinu þennan dag þrjú þeirra barna sem dvalið höfðu þar fyrir jólaleyfi og 18 ára sonur stefnenda.

                Að kvöldi þess dags hafi B haft áfengi um hönd að […] án þess þó að nokkur sem þá hafi verið staddur þar hafi orðið þess var nema D. En við hana hafi B átt einhver samskipti um kvöldið. Hver þau hafi verið nákvæmlega hafi aldrei verið upplýst og ljóst sé að þau hafi farið hljótt, þar sem hvorki fullorðnir, svo sem E, né börn sem að […] dvöldu hafi orðið þeirra vör. Engu að síður hafi samskipti B og D leitt til þess, að D hafi snúið sér til Barnaverndarstofu og kvartaði undan kynferðislegri áreitni af hálfu B umrætt kvöld.

                Í kjölfar kvörtunarinnar á hendur B hafi starfsmenn Barnaverndarstofu og félagsmálaráðuneytisins hafið rannsókn á meintum ásökunum D á hendur B. Mánudaginn 8. janúar 1996 hafi B m.a. verið í einhvers konar yfirheyrslum hjá starfsmönnum Barnaverndarstofu og félagsmálaráðuneytisins, þeim F og G. Í framhaldi af því hafi nefndir starfsmenn átt viðtal við B og A sameiginlega. Af hálfu starfsmanna Barnaverndarstofu og félagsmálaráðuneytisins hafi engin skýrsla verið gerð um þessar yfirheyrslur og viðtöl, sem stefnendum hafi verið kynnt.

                Að yfirheyrslum loknum hafi F ritað stefnendum bréf f.h. Barnaverndarstofu þar sem þeim hafi verið veitt alvarleg áminning, hvernig sem það hafi svo sem getað átt við A, þar sem hún hafi verið fjarverandi þegar meint brot áttu að hafa verið framin. Þeim hafi auk þess verið tilkynnt að í ljósi málavaxta kæmi til álita að rifta samningnum við þau. Í niðurlagi bréfsins hafi verið tekið svo til orða: „Barnaverndarstofa mun taka sér frest til 26. janúar til að kanna hvort og þá með hvaða hætti starfssamningur hafi verið brotinn.“

                Stefnendum sé ekki kunnugt um hvort og þá með hvaða hætti Barnaverndarstofa hafi kannað mál þeirra í janúar 1996. Í það minnsta sé ljóst að ekkert samband hafi verið haft við þá aðila sem verið hafi á […] að kvöldi 3. janúar 1996 og aðfaranótt þess 4. til þess að ganga úr skugga um hvort einhverjir starfs- eða vistmanna hefðu orðið varir við eða tekið eftir óhóflegri áfengisneyslu B og meintri áreitni hans í garð D.

                Það hafi hins vegar ekki farið fram hjá stefnendum að starfsmenn Barnaverndarstofu hafi haft mikinn áhuga á því að koma á starfslokasamningi fyrir hinn meinta brotaþola D. Þar hafi farið fremst í flokki C sem hafi sent stefnendum samning um starfslok D úr faxtæki Barnaverndarstofu 9. janúar 1996. Þann 10. janúar hafi hún gert sér ferð að […] til þess að fá undirskrift stefnenda á frumrit samningsins.

                Undir hótun um fjölmiðlaumfjöllun um meinta kynferðislega áreitni hafi farið svo að lokum að stefnendur hafi fallist á að greiða D 820.000 kr. fyrir 2. febrúar 1996. Þau hafi jafnframt leyst hana undan samningi hennar við stefnendur frá 1. nóvember 1995. Þessi afskipti starfsmanna Barnaverndarstofu af máli D hafi verið sérstaklega athyglisverð í ljósi yfirlýsinga forstöðumanns stofnunarinnar í bréfi dags. 23. apríl 1996 á bls. 6 en þar segi „...hefur Barnaverndarstofa aðeins eftirlit með framkvæmd þjónustusamnings. Með tilliti til þessa telur Barnaverndarstofa að brot á ráðningarsambandi aðila einkarekins meðferðarheimilis og starfsmanns þess ekki falla undir starfssvið stofnunar.“

                Þegar þetta hafi verið frá hafi stefnendur, sem fyrst og fremst hafi borið hag skjólstæðinga sinna fyrir brjósti, reynt að binda enda á þá óvissu sem bréf starfsmanns Barnaverndarstofu frá 8. janúar 1996 hafði skapað, meðal annars með því að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum skriflega og á fundum með fulltrúum Barnaverndarstofu 24. og 31. janúar 1996.

                Allt hafi komið fyrir ekki og á fundi sem haldinn hafi verið á Barnaverndarstofu 31. janúar 1996 hafi forstöðumaður stofnunarinnar, H, tilkynnt stefnendum að ef þeir segðu upp samningi sínum um rekstur meðferðarheimilisins að […] samdægurs væri stofnunin reiðubúin að taka hugsanlega afturköllun á uppsögn samningsins gilda leiddi athugun lögmanns stefnenda til þeirrar ótvíræðu niðurstöðu að brotið hefði verið á rétti þeirra.

                Á fundinum hafi stefnendum þannig verið stillt upp við vegg af forstöðumanni Barnaverndarstofu. Þeim hafi verið boðið að segja upp eða vera sagt upp ella. Svo hafi virst sem forstöðumaðurinn hefði alveg gleymt tilvist stjórnsýslulaga við meðferð máls þessa.

                Í ljósi yfirlýsinga forstöðumannsins hafi stefnendur kosið að segja upp þegar í stað með sex mánaða uppsagnarfresti.

                Með bréfi til Barnaverndarstofu dags. 15. apríl 1996 hafi stefnendur dregið uppsögn sína til baka enda hafi það verið álit lögmanns þeirra að við meðferð máls þeirra hjá Barnaverndarstofu hafi ótvírætt verið brotinn réttur á þeim.

                Forstöðumaður Barnaverndarstofu hafi hafnað afturkölluninni með bréfi dags. 23. apríl 1996.

                Að fengnu svari Barnaverndarstofu hafi stefnendur borið mál sitt upp við félagsmálaráðherra. Þau hafi leitað ásjár hans með bréfi dags. 21. apríl 1996 þar sem óskað hafi verið eftir því að ráðherra drægi til baka gerðir Barnaverndarstofu, en hún heyri undir félagsmálaráðuneytið sbr. 3. gr. laga um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992.

                Með bréfi félagsmálaráðuneytisins dags. 12. júní 1996 hafi þeirri málaleitan stefnenda verið hafnað án þess að félagsmálaráðherra eða starfsmenn ráðuneytisins hefðu fyrir því að kanna nema aðra hlið málsins.

                Með bréfi dags. 27. ágúst 1996 hafi mál stefnenda verið tekið upp á ný við félagsmálaráðuneytið. Skaðbóta hafi verið krafist sem svöruðu til launa þeirra út upphaflegan samningstíma svo og vegna kostnaðar þeirra við starfslok D og ótímabærs búferlaflutnings.

                Við þessu bréfi hafi borist svar frá félagsmálaráðuneytinu 22. október 1996 þar sem skaðabótakröfu stefnenda hafi verið hafnað.

                Stefnendur geri þá kröfu að stefnda verði gert að greiða þeim skaðabætur að fjárhæð 10.316.727 kr. sem sé:

                Í fyrsta lagi byggð á því að meðalbrúttótekjur stefnenda á mánuði tímabilið 1. ágúst 1996 til 31. desember 1997 hefðu í það minnsta orðið þær sömu og þær voru að meðaltali á mánuði tímabilið 1. janúar 1996 til 31. júlí 1996, þ.e. kr. 558.631. Í máli þessu sé krafist greiðslu fyrir 17 mánaða tímabil, þ.e. frá ágúst 1996 til og með 31. desember 1997. Krafan sé því 17x558.631 eða kr. 9.496.727.

                Í öðru lagi sé hún byggð á því að stefnda beri að halda stefnendum skaðlausum af starfslokum D sem hafi leitt til aukaútgjalda að fjárhæð 820.000 kr. fyrir stefnendur.       

 

Málavextir og önnur atvik frá sjónarhóli stefnda.

                Upphaf málsins megi rekja til samnings aðila um rekstur meðferðarheimilis Barnaheilla að […] frá 6. september 1995. Samningurinn hafi verið gerður á grundvelli 20. gr. reglugerðar nr. 264/1995 um Barnaverndarstofu.

                Í byrjun janúar 1996 hafi borist á Barnaverndarstofu vitneskja um atburð er átt hafi sér stað á […] aðfaranótt fimmtudagsins 4. janúar 1996. Hafi hún falist í áfengisneyslu B og ætlaðri kynferðislegri áreitni af hans hálfu gagnvart starfsmanni heimilisins, sem af því tilefni hafi strax látið af störfum. Boðað hafi verið til fundar 8. janúar s.á. og atburðarás næturinnar borin undir B. Hann hafi staðfest að rétt væri með farið, sbr. minnisblað dags. sama dag. Stefnendum hafi samdægurs verið ritað bréf. Í bréfinu komi fram að í ljósi atburða komi vel til álita að rifta starfssamningnum frá 6. september 1995. Það hafi einnig verið tilkynnt að Barnaverndarstofa liti atburðina mjög alvarlegum augum og stefnendum verið veitt áminning af þessu tilefni. Síðan hafi verið tilkynnt að Barnaverndarstofa myndi taka sér frest til 26. janúar til að kanna hvort og þá með hvaða hætti starfssamningur hefði verið brotinn.

                Dagana 18. og 22. janúar 1996 hafi H, forstjóri Barnaverndarstofu, átt símtöl við stefnendur. Í báðum símtölum hafi stefnendur lagt áherslu á að ákvörðun Barnaverndarstofu í málinu mætti ekki dragast lengi þar sem sú óvissa sem ríkti væri þeim óbærileg og kæmi niður á starfsemi heimilisins. Í fyrra símtalinu hafi þess þó verið óskað af stefnendum að engin ákvörðun yrði tekin áður en þeim gæfist kostur á að skila greinargerð í málinu. Forstjóri Barnaverndarstofu hafi sagst skyldu skoða greinargerð stefnenda rækilega og í kjölfar þess yrði tekin ákvörðun um framhald málsins.

                Í greinargerð stefnanda A dags. 20. janúar 1996 hafi hún gert grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Jafnframt hafi hún lýst yfir ábyrgð sinni á málinu og að hún gerði sér grein fyrir því hversu alvarlegt það væri og að það gæti orðið tilefni samningsslita. Jafnframt hafi hún óskað eftir að málið yrði til lykta leitt sem fyrst. Hún hafi farið þess á leit að það yrði gert fyrir „n.k. mánaðamót.“

                Hinn 24. janúar hafi forstjóri Barnaverndarstofu farið að […] ásamt G, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu. Tilgangurinn hafi verið að komast að samkomulagi við stefnendur um lok málsins. Forstjóri Barnaverndarstofu hafi rakið með hvaða hætti stofnunin teldi unnt að binda enda á samningssamband aðila og gefið stefnendum kost á að segja upp samningnum enda væru starfslok miðuð við 1. júní. Stefnendur hafi óskað eftir umþóttunartíma en þau hafi þá haft samband við lögmann.

                Þann 26. janúar 1996 hafi annar stefnenda, B, haft samband við forstjóra Barnaverndarstofu og farið þess á leit að verklok yrðu ekki fyrr en 1. september.

                Þann 29. janúar s.á. hafi forstjóri Barnaverndarstofu tilkynnt stefnendum símleiðis að stofan myndi koma til móts við óskir þeirra og gæti fallist á 6 mánaða uppsagnarfrest skv. samningnum eða til 1. ágúst. Af hálfu stefnenda hafi verið farið fram á að efnt yrði til fundar með lögmanni þeirra til þess að varpa ljósi á réttarstöðu þeirra. Sá fundur hafi verið haldinn 31. janúar. Á fundinn hafi mætt stefnendur ásamt I hrl. og J, systur A. Þar hafi einnig verið forstjóri Barnaverndarstofu og G ásamt C, félagsráðgjafa á Barnaverndarstofu. Lögmaður stefnenda hafi talið að Barnaverndarstofa hafi farið offari og málsmeðferð hafi ekki verið í anda stjórnsýslulaga. Þessu hafi verið andmælt af hálfu forstjóra Barnaverndarstofu. Stefnendum hafi verið gefinn kostur á að segja samningnum upp og fallist hafi verið á þá ósk að samningslok yrðu 1. ágúst.

                Þann 31. janúar hafi Barnaverndarstofu borist svohljóðandi bréf frá stefnendum: „Með tilvísun til fundar okkar í dag varðandi málefni meðferðarheimilis Barnaheilla að […] og tilkynningu yðar um afstöðu Barnaverndarstofu gagnvart samningi okkar 6. sept. 1995 tilkynnum við hér með uppsögn okkar á nefndum samningi með umsömdum 6 mán. uppsagnarfresti.“

                Þann 15. apríl 1996 hafi borist tilkynning frá stefnendum um afturköllun á uppsögn samningsins. Af hálfu stefnenda hafi ekki borist nein ný gögn eða nýjar upplýsingar. Stefnendur hafi hins vegar farið fram á að fá ýmis gögn úr skjalaskrá Barnaverndarstofu.

                Þann 23. apríl 1996 hafi erindi stefnenda verið svarað. Þann 21. apríl hafi stefnendur beint máli sínu til félagsmálaráðherra með þeirri kröfu að „gjörningar barnaverndarstofu verði dregnar til baka“ og að stefnendur fái að starfa út það tímabil sem þeim hafi upphaflega verið ætlað.

                Þann 12. júní 1996 hafi félagsmálaráðuneytið svarað bréfi stefnenda og bent á að stefnendur hefðu sagt upp samningnum með samningsbundnum 6 mánaða fyrirvara, sbr. 14. gr. samningsins. Þann 27. ágúst 1996 hafi stefnendur beint skaðabótakröfu sinni að félagsmálaráðuneytinu sem hafi hafnað henni 22. október 1996.

                              

Framburður aðila og vitna.

                Ekki þykir ástæða til að rekja framburð aðila og vitna en þeir sem komu fyrir dóm voru: A, B, D, H og C.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnendur byggja kröfur sínar á þessum málsástæðum aðallega.

                Krafan um að viðurkennt verði með dómi að uppsögn þeirra sé ógild sé á því byggð að starfsmenn Barnaverndarstofu hafi knúið uppsögnina fram eftir að kvörtun hafði borist frá einum starfsmanni á […] um drykkjuskap og kynferðislega áreitni af hálfu B.

                Starfsmenn Barnverndarstofu hafi ekki kannað réttmæti ásakana sérstaklega, enda yfirlýst skoðun forsvarsmanns stofnunarinnar að slíkt sé ekki í verkahring hans eða starfsmanna Barnaverndarstofu.

                Starfsmenn Barnaverndarstofu, þ.á.m. forstöðumaður hennar, hafi hins vegar nýtt sér ásakanir þessar og knúið fram skriflega uppsögn stefnenda undir hótun um uppsögn samningsins að öðrum kosti. Auk þess hafi ítrekað verið látið í það skína af hálfu starfsmanna Barnaverndarstofu að meint kynferðisleg áreitni B gagnvart D yrði gerð að fjölmiðlamáli féllust þau ekki á að víkja úr starfi.

                Þá hafi stefnendur bent á að, að því leyti sem stjórnsýslureglur eigi eða geti átt við um meðferð máls þeirra hjá Barnaverndarstofu, verði ekki annað ráðið af gögnum máls þessa en að 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið þverbrotin. Það ákvæði bjóði að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Á stefnanda B hafi verið bornar þær sakir að hann hefði áreitt samstarfsmann sinn kynferðislega og svo alvarlega að starfsmaðurinn hafi kosið að láta af stöfum samstundis. Þessi staðhæfing, sem komi fram í bréfi forstöðumanns Barnaverndarstofu frá 23. apríl 1996, sé alröng því hinn meinti brotaþoli, D, hafi verið við störf að […] 4. janúar 1996 og átt símtal við stefnanda A. Í því samtali hafi ekkert komið fram varðandi hina meintu kynferðislegu áreitni. Þá megi og benda á að D hafi ekki verið hræddari en svo við B, að hún hafi leitað hann uppi í þvottahúsinu á […] daginn eftir hina meintu kynferðislegu áreitni til að afla sér upplýsinga hjá honum um færð á vegum á leiðinni frá […] til Reykjavíkur.

                Þá bendi stefnendur á að það sé ekki í verkahring Barnaverndarstofu að rannsaka kynferðisbrot eða önnur afbrot, sem starfsmenn heimila er undir stofnunina heyra kunni að fremja eða eru sakaðir um að hafa framið. Meðan allt hafi verið á huldu um hina meintu brotastarfsemi og rétt yfirvöld höfðu ekki fengið formlega beiðni um rannsókn á henni hafi starfsmönnum Barnaverndarstofu auðvitað borið að halda aftur af sér og virða þá gullvægu reglu að sérhver maður sé saklaus uns sekt hans sé sönnuð.

                Áfengisneysla B á heimilinu að […] að kvöldi 3. janúar 1996 hafi verið brot á reglum heimilisins sjálfs. En þó verði að hafa hugfast að meðferðarheimilið hafi jafnframt verið heimili hans sjálfs. Það virðist hins vegar hvergi liggja neitt fyrir um það í gögnum Barnaverndarstofu eða annars staðar í hvaða mæli sú neysla hafi verið. Ekki liggi heldur fyrir hvar hún hafi farið fram eða hvort einhver annar en D hafi orðið hennar var. Þá sé spurt: Hvaða upplýsinga hafi Barnaverndarstofa aflað af þessu tilefni? Gögn þar að lútandi og varðandi rannsókn máls þessa í heild sinni hafi Barnaverndarstofu sem stjórnvaldi borið að kynna stefnendum. Slíkt hafi ekki verið gert og þegar eftir því hafi verið leitað af hálfu stefnenda hafi aðgangi að gögnum verið neitað, sbr. niðurlag bréfs H, dags. 23. apríl 1996.

                Það kunni að vera að Barnaverndarstofa hafi haft rétt til að áminna B fyrir að hafa haft áfengi um hönd að […] að kvöldi 3. janúar 1996, enda hafi slíkt ekki fengið samrýmst reglum heimilisins sjálfs. Þess beri þó að geta að hann hafi fyrst og fremst verið starfsmaður meðstefnanda, A, sem hafi borið alla faglega ábyrgð á rekstri heimilisins og því hafi það ef til vill staðið henni nær að veita áminningu. Það sé hins vegar jafnljóst að krafa Barnaverndarstofu um að stefnendur segðu upp samningi sínum um rekstur heimilisins eða yrðu að þola uppsögn hans að öðrum kosti, vegna þessa atviks, sé fjarri því að vera sanngjörn. Og vart verði það talið í anda stjórnsýsluréttar sem bjóði að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmæltu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru vægara móti. Megi í þessu sambandi benda á að í stjórnsýslurétti sé talið að við mat á því hvert efni ákvörðunar skuli vera sé óheimilt að líta til þess hvort tiltekin niðurstaða leiði til þess að komast megi hjá fyrirhafnarmeiri málsmeðferð þar sem aðilum sé búið aukið réttaröryggi.

                Við úrlausn […]málsins í janúarmánuði 1996 hafi af hálfu starfsmanna Barnaverndarstofu ekki verið þörf jafn hvatvíslegra vinnubragða og sýnd hafi verið. Það sjáist best á því að eftir að stefnendur hafi verið þvingaðir til að segja upp hafi þeim verið treyst til að reka heimilið til loka júlímánaðar 1996 án þess að eftirlit með starfseminni hefði verið aukið. En slíkt hafi þó verið boðað í bréfi Barnaverndarstofu frá 8. janúar 1996. Jafnframt bendi stefnendur á að forstöðumaður Barnaverndarstofu hafi lýst því yfir og látið bóka eftir að hafa knúið fram uppsögn þeirra að Barnaverndarstofa væri reiðubúin að taka gilda afturköllun á uppsögn stefnenda ef athugun lögmanns þeirra leiddi til þeirrar ótvíræðu niðurstöðu að brotið hefði verið á rétti þeirra.

                Þegar slík afturköllun hafi borist til Barnaverndarstofu hafi forstöðumaður stofnunarinnar látið hana sem vind um eyru þjóta og jafnframt neitað að afhenda þeim gögn um mál þeirra.

                Stefnendur hafi gert verktakasamning við Barnaverndarstofu, félags- og fjármálaráðuneytið um rekstur […]heimilisins til ársloka 1997. Sá samningur hefði skilað stefnendum sameiginlega í brúttótekjuafgang að meðaltali 520.991 kr. tímabilið 15. ágúst 1995 til 31. desember 1995 og 558.631 kr. að meðaltali á mánuði tímabilið 1. janúar 1996 til 31. júlí 1996.

                Með aðgerðum Barnaverndarstofu í janúar 1996 hafi endi verið bundinn á frekari störf stefnenda að kennslu- og uppeldismálum frá og með 1. ágúst 1996. En A hafi unnið við kennslu og önnur uppeldismál í um 20 ár. Frá því starfi þeirra að […] lauk hafi B að mestu verið atvinnulaus og A alfarið. Aðgerðir Barnaverndarstofu hafi því skaðað þau fjárhagslega og því þyki við hæfi að miða kröfuna við þær brúttótekjur sem þau hafi haft af starfseminni eftir að hún hafi verið komin vel á stað undir þeirra stjórn á árinu 1996.

                Þegar uppsögn stefnenda hafi verið knúin fram af hálfu Barnaverndarstofu hafi ekki verið jafnræði með aðilum. Á stefnandann B höfðu verið bornar þungar sakir af hálfu eins af starfsmönnum hans og A. Aðstæður allar hafi því verið stefnendum mjög öndverðar þegar komið hafi að fundum með starfsmönnum Barnaverndarstofu og félagsmálaráðuneytisins og vandkvæði þeirra af því að láta skerast í odda með barnverndaryfirvöldum augljós vegna skjólstæðinga þeirra á heimilinu og aðstandenda þeirra. Vilja þeirra til að semja um uppsögn á samningi sínum um rekstur meðferðarheimilis að […] verði að skoða í því ljósi. Jafnframt verði að horfa til yfirlýsingar forstöðumanns Barnaverndarstofu sem gefin hafi verið við samningsgerðina um mögulega afturköllun uppsagnarinnar.

                Stefnendur benda ennfremur á að mál þeirra hafi ekki fengið þá meðferð hjá Barnaverndarstofu sem m.a. stjórnsýslulögum sé ætlað að tryggja. Hið sama gildi um meðferð félagsmálaráðuneytisins eftir að því hafi borist stjórnsýslukæra stefnenda í aprílmánuði 1996.

                Stefnendur beini málsókn sinni að félagsmálaráðherra vegna félagsmálaráðuneytisins, en ráðuneytið fari með yfirstjórn barnaverndarmála. Einnig að fjármálaráðherra þar sem krafist sé greiðslu skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins.

                Lagarök: Krafan um ógildingu sé byggð á 36. gr. laga nr. nr. 7/1936 og krafan um skaðabætur á almennum reglum kröfuréttar um skaðabætur innan samninga.

                Vaxtakrafan sé byggð á ákvæðum III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Málskostnaðarkrafan sé byggð á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991.

               

Málsástæður og lagarök stefnda.

                Málsástæðum stefnenda sé algjörlega hafnað.

                Í upphafi sé rétt að árétta að meðferðarheimilið að […] hafi verið byggt í þágu vegalausra barna. Þar hafi frá upphafi vistast börn sem hvorki eigi sér trausta forsjáraðila né eiginlegt heimili; börn sem hafi á stuttri ævi orðið fyrir endurteknum áföllum í uppeldi þegar forsjáraðilar hafi brugðist, ekki síst vegna áfengisneyslu. Sum þessara barna hafi jafnframt orðið fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis. Kjarni máls þessa snúist því um traust, en það sé undirstaða meðferðarheimilis eins og hér eigi í hlut.

                Stefnendur hafi gert verksamning við Barnaverndarstofu, félags- og fjármálaráðuneytið þann 6. september 1995 um rekstur meðferðarheimilis Barnaheilla að […] til ársloka 1997. Í 14. gr. samningsins sé gagnkvæmt uppsagnarákvæði. Hvor aðili fyrir sig hafi því getað sagt samningnum upp með 6 mánaða fyrirvara, án þess að tilgreina nokkra ástæðu fyrir uppsögninni.

                Þegar trúnaðarbrestur hafi orðið á milli Barnaverndarstofu og stefnenda í byrjun janúar 1996 hafi Barnaverndarstofa gert þeim ljóst að þrjár leiðir væru færar í stöðunni. Barnaverndarstofa gæti rift samningnum, sagt honum upp eða gefið stefnendum tækifæri til að segja honum upp. Í framhaldi af því hafi stefnendur sagt samningnum upp þann 31. janúar 1996. Samkomulag hafi orðið um að þau rækju heimilið út júlí- mánuð, þ.e. út 6 mánaða uppsagnarfrestinn. Uppsögnin hafi því alfarið verið á ábyrgð stefnenda.

                Stefnendur hafi afturkallað uppsögnina þann 15. apríl 1996, tveimur og hálfum mánuði eftir að samningnum hafi verið sagt upp. Langur tími hafi liðið frá uppsögninni þar til afturköllun hafi komið fram, auk þess sem engin ný gögn eða upplýsingar hafi borist með henni. Afturköllunin hafi því engin áhrif haft á gildi uppsagnarinnar.

                Samningurinn sé einkaréttarlegur gerningur og því gildi ákvæði stjórnsýslulaga ekki um hann heldur ákvæði samninga- og kröfuréttar. Samkvæmt 1. gr. laganna gildi þau um stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Lögin gildi hins vegar ekki um einkaréttarlega samninga sem stjórnvöld geri, þar á meðal verksamninga eins og um sé að ræða í þessu tilviki, sbr. greinargerð með 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

                Því sé hafnað af hálfu stefnda að starfsmenn Barnaverndarstofu hafi knúið uppsögnina fram. Það liggi ljóst fyrir í málinu að stefnendur hafi gert sér grein fyrir alvarleika málsins frá upphafi. Ennfremur komi það fram í greinargerð stefnanda A frá 20. janúar 1996. Hún hafi viljað hraða málalokum svo að ekki ríkti óvissa um framtíð heimilisins. Það sé því einkum vegna eindreginnar óskar hennar að ljúka málinu á sem skjótastan hátt að það hafi verið gert þann 31. janúar 1996. Því sé hafnað að stefnendur hafi ekki fengið nægan umhugsunarfrest.

                Í stefnu sé því haldið fram að starfsmenn Barnaverndarstofu hafi ekki kannað réttmæti ásakana um kynferðislega áreitni sérstaklega. Ennfremur sé vísað til 10. gr. stjórnsýslulaga um það að stjórnvaldi beri að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin um það. Hér sé í raun um þversögn að ræða þar sem á öðrum stað í stefnunni segi „að það sé ekki í verkahring Barnaverndarstofu að rannsaka kynferðisafbrot eða önnur afbrot sem starfsmenn heimila, er undir stofnunina heyra, kunni að fremja eða séu sakaðir um að hafa framið.“ Burtséð frá því þá sé það ljóst að hér hafi ekki verið um stjórnsýsluákvörðun að ræða og því eigi ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu stjórnvalds ekki við. Hitt megi þó benda á að Barnaverndarstofa hafi haft eftirlit með framkvæmd samningsins og því hafi verið eðlilegt að starfsmenn stofunnar könnuðu það sérstaklega hvort slíkir annmarkar hefðu orðið á framkvæmd hans að það réttlætti uppsögn af þeirra hálfu.

                Þá sé því haldið fram í stefnu að starfsmenn Barnaverndarstofu hafi knúið fram uppsögn samningsins með hótun um uppsögn hans að öðrum kosti. Barnaverndarstofa hafi gert stefnendum grein fyrir því að þrír kostir væru tiltækir í þeirri stöðu sem málið hafi verið komið í. Barnaverndarstofa gæti rift samningnum vegna trúnaðarbrests, sagt honum upp með samningsbundnum fyrirvara ellegar gætu stefnendur sagt samningnum upp af sinni hálfu. Stefnendur hafi sagt samningnum upp. Að mati stefnda hafi það verið vægasta leiðin.

                Þá sé því haldið fram í stefnu að ekki hafi verið þörf jafn hvatvíslegra vinnubragða og viðhöfð hafi verið, enda hefði stefnendum verið treyst til að reka heimilið út uppsagnarfrestinn án þess að eftirlit væri nokkuð aukið. Þessu sé mótmælt. Eftirlit hafi verið aukið mjög með ráðningu K sálfræðings að heimilinu. Hann hafi hafið störf strax í febrúar 1996 og komið þangað mun oftar en félagsráðgjafinn C hafði áður gert.

                Það sé ljóst að það hefði engu breytt um niðurstöðu málsins ef stefnendur hefðu ekki sagt upp samningnum, enda hefði Barnaverndarstofa þá getað neytt uppsagnarréttar síns samkvæmt 14. gr. samningsins. Því verði ekki séð að stefnendur hafi beðið nokkurt fjártjón af þessum málalokum, þar sem þau hafi rekið heimilið út uppsagnarfrestinn, svo sem hefði einnig orðið staðan ef Barnaverndarstofa hefði sagt upp samningnum af sinni hálfu.

                Kröfu um bætur vegna starfslokasamnings D sé hafnað á þeirri forsendu að um sé að ræða samning milli stefnenda og starfsmanns þeirra. Í raun sé um tvö aðgreind atriði í málatilbúnaði stefnanda að ræða, þ.e. annars vegar mál D og stefnenda og hins vegar verktakasamning við stefnendur.

                Verði eigi fallist á sýknukröfu stefndu sé til vara gerð krafa um verulega lækkun á kröfum stefnenda og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.

                Því sé haldið fram að tjón sé ósannað og órökstutt með öllu. Þá sé einnig að líta til eigin sakar stefnenda sem sé veruleg. Sérstakur áskilnaður sé gerður til að bera fram fleiri málsástæður og hafa uppi mótmæli um tölulegan þátt málsins.

                Þá er vísað til skýringa í bréfum til ríkislögmanns, annað frá Barnaverndarstofu dags. 13. ágúst 1997 hitt frá félagsmálaráðuneytinu dags. 15. ágúst 1997.

                Varðandi málskostnað er vísað til 130. gr. eml.

 

Niðurstöður.

                Stefnendur krefjast ógildingar á uppsögn sinni frá 31. janúar 1996 á samningi sínum við Barnaverndarstofu, um rekstur meðferðarheimilis Barnaheilla að […]. Stefnendur telja að 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Þá krefjast stefndu skaðabóta.

                Samningur stefnenda og stefnda frá 6. september 1996, sem gilda átti til 31. desember 1997 um rekstur framangreinds meðferðarheimilis, var verktakasamningur. Skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda lögin þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Lögin taka ekki til einkaréttarlegra ákvarðana stjórnvalda, m.a. samninga við verktaka, og koma stjórnsýslulögin nr. 37/1993 því ekki til álita um samskipti aðila.

                Vegna eðlis samningsins verður ekki talið að stjórnsýsluákvörðun hafi verið tekin. Bar Barnaverndarstofu því ekki skylda til að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við rannsókn og ákvarðanatöku í málinu. Af þessu leiðir einnig að ekki verður litið á bréf stefnenda dags. 21. apríl 1996 til félagsmálaráðuneytisins sem stjórnsýslukæru.

                Í 14. gr. framangreinds verksamnings stefnenda, A og B, og stefndu, Barnaverndarstofu, félags- og fjármálaráðuneytisins, er gagnkvæmt uppsagnarákvæði. Hvor aðili um sig gat sagt samningnum upp með 6 mánaða fyrirvara, án þess að tilgreina nokkra ástæðu fyrir uppsögninni.

                Það er ítarlega rakið hér að framan að heimilið að […] var meðal þeirra heimila sem byggt var fyrir vegalaus börn. Það hefur ennfremur komið fram, að foreldrar þeirra barna sem þar vistast hafi ekki verið sviptir forræði þeirra heldur hafi dvöl barnanna byggst á samkomulagi barnaverndaryfirvalda við foreldrana. Börnin sem þar dvelja eru þar vegna margháttaðra erfiðleika sem þau hafi upplifað á stuttri ævi. Mörg hver hafa búið við óreglu, ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og fleira. Annar stefnenda, B, hafði viðurkennt áfengisneyslu og var borinn sökum um kynferðislega áreitni í garð starfsmanns. Vegna þessara atvika varð trúnaðarbrestur milli aðila málsins og báðir gerðu sér frá upphafi grein fyrir alvarleika þess.

                Af hálfu stefnenda er því haldið fram að uppsögn þeirra hafi verið knúin fram undir hótun Barnaverndarstofu. Segðu stefnendur ekki upp samningnum myndi þeim vera sagt upp af stefndu og málið hlyti umfjöllun í fjölmiðlum.

                Þau atvik sem urðu til þess að umræða um uppsögn samnings aðila fór af stað má rekja til hegðunar, B annars stefnenda, aðfaranótt 4. janúar 1996. Samningnum var síðan sagt upp þann 31. janúar s.á. Allan janúarmánuð var unnið af aðilum í málinu, m.a. með fundarhöldum, símtölum og bréfaskiptum. Fyrsti fundurinn var haldinn 8. janúar á Barnaverndarstofu með stefnendum. Af hálfu Barnaverndarstofu sat F fundinn í forföllum H sem var erlendis og G frá félagsmálaráðuneyti. Þann sama dag ritar F stefnendum bréf. Þann 18. janúar talar H, forstjóri Barnaverndarstofu, við stefnendur í síma. Tveimur dögum síðar ritar annar stefnenda, A, greinargerð í málinu. Þann 22. janúar talar H, við stefnendur í síma. Fundur var haldinn á […] 24. janúar, með stefnendum, H og G. Annar stefnenda, B, talar við H í síma 26. janúar og óskar eftir að þau fái að starfa til 1. september 1996. Þann 29. janúar óskar A eftir fundi með Barnaverndarstofu vegna málefna meðferðarheimilisins. Sá fundur er haldinn á Barnaverndarstofu þann 31. janúar 1996. Fundinn sátu stefnendur, A og B, þáverandi lögmaður þeirra, I, hrl., J, systir A, H, forstjóri Barnaverndarstofu, G frá félagsmálaráðuneyti og C, yfirfélagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu. Þann sama dag segja stefnendur samningnum upp. Frá því fyrsti fundur var haldinn með aðilum 8. janúar lá það í loftinu að samningnum yrði sagt upp. Í bréfi F til stefnenda þann dag segir m.a. „Í ljósi málavaxta kemur vel til álita að rifta starfssamningi við yður sem gerður var hinn 6. september sl. Barnaverndarstofa lítur þá atburði sem hér er lýst mjög alvarlegum augum ...“ Þá segir: „Barnaverndarstofa mun taka sér frest til 26. janúar til að kanna hvort og þá með hvaða hætti starfssamningur hafi verið brotinn.“ Í greinargerð A dags. 20. janúar segir m.a. „Ég lýsti yfir ábyrgð okkar á þessu máli og að ég liti þetta mjög alvarlegum augum þar sem algjört áfengisbann er á heimilinu. Ég gerði mér líka grein fyrir að þetta gæti þýtt riftun á samningi, ...“ ...„Við viljum gjarnan halda hér áfram störfum ef fært þykir. Það er Barnaverndarstofu að taka ákvörðun og ég fer þess á leit að það verði gert fyrir n.k. mánaðamót.“ Það er rakið hér að framan að I, hrl. mætti með stefnendum á fundinn þann 31. janúar. Í fundargerð frá þeim fundi kemur fram að Barnaverndarstofa sé reiðubúin að taka hugsanlega afturköllun á uppsögn gilda leiði athugun lögmanns meðferðaraðila til þeirrar ótvíræðu niðurstöðu að brotið hafi verið á rétti þeirra. Afturkölluninni fylgdu hins vegar ekki nein ný gögn. Í bréfi Barnaverndarstofu, dags. 23. apríl 1996, undirrituðu af H, er afturköllun á uppsögn samningsins hafnað með vísan til þess m.a. að Barnaverndarstofu hafi ekki borist neinar upplýsingar frá lögmanni stefnenda. Afturköllunin hafi auk þess verið gerð tveimur og hálfum mánuði eftir uppsögn samningsins og því afar seint fram komin. Í bréfinu er ennfremur bent á það að Barnaverndarstofa hefði sjálf sagt samningnum upp hefðu stefnendur ekki gert það.

                Stefnendur hafa haldið því fram að þeim hafi verið hótað því af stefndu að farið yrði með málið í fjölmiðla og m.a. undir þeirri hótun hafi uppsögnin verið knúin fram.

                Stefnendur þykja ekki hafa sýnt fram á gegn neitun stefndu að þeim hafi verið hótað fjölmiðlaumfjöllun af þeirra hálfu. Þvert á móti þykja stefndu hafa sýnt fram á að þeim hafi verið mikið í mun að málið færi ekki í fjölmiðla með tilliti til skjólstæðinga þeirra og forsjáraðila. H lýsti því yfir fyrir dómi að oft væri það erfið barátta að fá foreldra til að láta börnin af hendi án sviptingar forræðis. Foreldrarnir færu enn með forsjá þeirra barna sem vistuðust á meðferðarheimilum sem rekin væru af stefndu. Þeir ættu oft við vandamál að stríða, svo sem áfengisneyslu, og hefði málið farið í fjölmiðla hefði mátt búast við að foreldrarnir hefðu misst traust sitt á meðferðaraðilum og talið þá engu betri en þá sjálfa. Með hliðsjón af þessu er ljóst að það var mjög andstætt öllum sjónarmiðum bæði stefnenda og stefndu að mál þetta færi í fjölmiðla. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykja stefnendur ekki, gegn neitun stefndu, hafa sýnt fram á að stefndu hafi hótað þeim fjölmiðlaumræðu um málið.

                Þegar litið er til þess sem hér að framan er rakið þykja stefnendur ekki hafa sýnt fram á að þeir hafi verið beittir þrýstingi við uppsögn framangreinds samnings. Málið var alvarlegt og það var öllum aðilum ljóst. Fundarhöld, símtöl og bréfaskriftir sýna að unnið var að lausn málsins af yfirvegun. Við meðferð málsins var lögð á það áhersla að allir gætu komið sínum sjónarmiðum að. Með því að gefa stefnendum sjálfum kost á að segja samningnum upp var farin vægasta leiðin af þeim þremur sem færar voru við þessar aðstæður. Stefnendur nutu lögfræðilegrar aðstoðar við uppsögnina, svo sem hér að framan greinir. Með hliðsjón af öllu því sem hér hefur verið rakið þykja stefnendur ekki hafa sýnt fram á nein þau atvik sem leiða ættu til ógildingar á uppsögn þeirra og eru stefndu sýknaðir af þeirri kröfu stefnenda.

                Af hálfu stefnenda er gerð krafa um skaðabætur. Annars vegar vegna uppsagnarinnar á samningum og hins vegar vegna starfsloka D. Þar sem niðurstaða málsins er sú að stefnda er sýknað af kröfu stefnenda um ógildingu á uppsögninni, kemur skaðabótakrafa vegna starfsloka stefnenda ekki til álita.

                Stefnendur hafa krafist þess að stefndu greiði þeim bætur vegna starfslokasamnings stefnenda við D. Ekkert samningssamband er milli stefndu og D. Stefnendur tóku að sér rekstur heimilisins sem verktakar og réðu til sín fólk í vinnu á eigin ábyrgð. Stefnda getur því ekki borið ábyrgð á þeim samningum, stofnun þeirra eða slitum. Stefnda er sýknað af þessari kröfu stefnenda vegna aðildarskorts.

                Málskostnaður fellur niður.             

                Halla Bachmann Ólafsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.               

Dómsorð:

                Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af öllum kröfum stefnenda, A og B.

                Málskostnaður fellur niður.