Hæstiréttur íslands

Mál nr. 739/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka
  • Stefnubirting


Miðvikudaginn 4. desember 2013.

Nr. 739/2013.

Bakkabraedur Holding B.V.

(Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

Kærumál. Endurupptaka. Stefnubirting.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu B um endurupptöku máls A hf. gegn B var hafnað. Útivist hafði orðið af hálfu B og stefna málsins verið árituð um aðfararhæfi 10. apríl 2013. B byggði á því að stefnan hafi hvorki verið birt félaginu né öðrum sem birta mátti fyrir, sbr. a. lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og því hefði átt að vísa kröfum á hendur honum sjálfkrafa frá dómi, sbr. b. lið 2. mgr. sömu lagagreinar. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að samkvæmt 1. mgr. 90., sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 91/1991 hafi A hf. verið rétt að fara fram á að stefna í málinu yrði birt fyrir fyrirsvarsmanni B í Bretlandi. Ennfremur að samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laganna og ákvæðum samnings frá 15. nóvember 1965 um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum, sem Ísland og Bretland eiga aðild að, hafi um birtingu stefnunnar átt að fara eftir lögum síðarnefnda ríkisins. Yrði ekki talið að B hafi hnekkt því, sem fram kom í birtingarvottorði, útgefnu af þar til bæru stjórnvaldi í Bretlandi, að stefnan hafi verið réttilega birt fyrirsvarsmanni félagsins samkvæmt þeim lögum er gilda í Englandi og Wales. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að B hefði ekki sýnt fram á að skilyrðum a. liðar eða b. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 væri fullnægt til að málið yrði endurupptekið.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að héraðsdómsmálið nr. E-807/2013 yrði endurupptekið. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að endurupptaka málsins verði heimiluð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Með vísan til forsendna hans er staðfest sú niðurstaða að samkvæmt 1. mgr. 90. gr., sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 91/1991 hafi varnaraðila verið rétt að fara fram á að stefna í áðurgreindu máli yrði birt fyrir fyrirsvarsmanni sóknaraðila, Lýð Guðmundssyni, í Bretlandi. Ennfremur að samkvæmt 1. mgr. 90. gr. sömu laga og 5. gr. og 15. gr. Haagsamningsins um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum frá 15. nóvember 1965, sem Ísland og Bretland eiga aðild að, hafi um birtingu stefnunnar átt að fara eftir lögum síðarnefnda ríkisins.

Stefnan og beiðni um birtingu hennar á heimili Lýðs Guðmundssonar í London báru það með sér að sóknaraðili væri stefndi í málinu og Lýður fyrirsvarsmaður hans. Í bréfi sýslumannsins í Keflavík 27. nóvember 2012 sagði að sú aðferð, sem viðhöfð hafi verið við birtingu stefnunnar, teldist lögmæt samkvæmt breskum lögum og var þar greinilega vísað til þess sem stóð í birtingarvottorði, útgefnu 19. sama mánaðar af þar til bæru stjórnvaldi í Bretlandi: „This method is good service under rule 6.3 (1) (c) of the Civil Procedure Rules of England and Wales.“  Í 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um að efni slíks vottorðs teljist rétt þar til það gagnstæða sannist og í 2. mgr. 44. gr. laganna segir að sá, sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu, verði að leiða tilvist og efni hennar í ljós. Til sönnunar þeirri staðhæfingu að birting stefnunnar hafi verið óheimil samkvæmt breskum eða enskum lögum hefur sóknaraðili einungis lagt fram „afrit af þeim hluta bresku einkamálalaganna sem varða birtingu“, án þess að því skjali hafi fylgt þýðing á íslensku eða álit annars en hans sjálfs á því hvernig skýra beri þessi erlendu lagaákvæði. Verður ekki talið að sóknaraðili hafi með þessu hnekkt því, sem fram kom í birtingarvottorðinu, að stefnan hafi verið réttilega birt fyrirsvarsmanni hans samkvæmt þeim lögum sem gilda í Englandi og Wales.

Sóknaraðili heldur því fram í kæru sinni til Hæstaréttar að hvað sem öðru líði hafi héraðsdómi borið að gæta að ákvæði 2. mgr. 26. gr. Lúganósamningsins um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem lögfestur var hér á landi með 2. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 7/2011. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. Lúganósamningsins, sem eftir 3. mgr. hennar á þó ekki við ef senda skal stefnu samkvæmt áðurgreindum Haagsamningi, skal dómstóll fresta meðferð máls þar til sýnt sé fram á að varnaraðili í málinu hafi átt kost á að taka á móti stefnu svo tímanlega að hann hefði getað undirbúið vörn sína eða að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar í því skyni. Þessi málsástæða var ekki höfð uppi af hálfu sóknaraðila í héraði og verður þegar af þeirri ástæðu ekki tekið tillit til hennar hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991.

Með vísan til þess sem að framan greinir er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að skilyrðum a. liðar eða b. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt til að áðurgreint útivistarmál verði endurupptekið. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Það athugist að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 skal skjali á erlendu tungumáli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem byggt er á efni þess nema dómari telji sér fært að þýða það. Þrátt fyrir það hafa málsaðilar ekki lagt fram íslenska þýðingu á ýmsum skjölum, sem lögð hafa verið fram í málinu og þeir hafa stuðst við í málatilbúnaði sínum, þar á meðal fyrrgreindri beiðni um birtingu stefnunnar fyrir fyrirsvarsmanni sóknaraðila  í Bretlandi og birtingarvottorðinu sjálfu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Bakkabraedur Holding B.V., greiði varnaraðila, Arion banka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2013.

Með beiðni móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. ágúst sl. óskaði sóknaraðili, Bakkabraedur Holding B.V., Prins Bernhardsplein 200, 1097 JB Amsterdam, Hollandi, eftir endurupptöku máls nr. E-807/2013, Arion banki hf. gegn Bakkabraedur Holding B.V.

Við þingfestingu þessa máls 4. október sl. mótmælti varnaraðili, Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík því að málið yrði endurupptekið.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 14. október sl.

                Málavextir

                Sóknaraðili er hollenskur lögaðili, til heimilis að Prins Bernhardsplein 200, 1097 JB Amsterdam, Hollandi. Fyrirsvarsmaður sóknaraðila er Lýður Guðmundsson, búsettur að 68 Cadogan Place, London SW1X9RS, Bretlandi. Ísland, Holland og Bretland eru öll aðilar að Haag-samningi frá 15. nóvember 1965 um birtingar á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Samkvæmt framlögðu birtingarvottorði frá breskum yfirvöldum (e. ,,Senior Courts of England and Wales – Foreign Process Section“) var stefna málsins E-807/2013 birt 12. nóvember 2012 eftir reglum Haag-samningsins. Í vottorðinu er svofelld áritun: ,,The documents were served by posting them through the defendant‘s letterbox. This method is good service under rule 6.3 (1) (c) of the Civil Procedure Rules of England and Wales.“

                Af hálfu sóknaraðila var þing ekki sótt við þingfestingu málsins 28. febrúar sl. Málið var þá dómtekið og stefna málsins var árituð 10. apríl sl. um aðfararhæfi. Sóknaraðili kveðst fyrst hafa fengið vitneskju um málshöfðunina 12. júlí sl. er honum hafi borist beiðni um kyrrsetningu bankareikninga sinna í Hollandi á grundvelli áritunarinnar.

                Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að stefna hafi hvorki verið birt honum né öðrum sem mátti birta fyrir, sbr. a-lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og því hefði átt að vísa kröfum á hendur honum sjálfkrafa frá dómi að öllu leyti, sbr. b-lið 2. mgr. sömu lagagreinar.

Sóknaraðili byggir á því aðallega að birta hefði átt stefnu fyrir honum í Hollandi samkvæmt skýru orðalagi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt ákvæðinu skuli fara um birtingu stefnu eftir lögum þess ríkis og þjóðréttarsamningi, ef slíkur samningur hefur verið gerður við hlutaðeigandi ríki, ef stefndi á þekkt heimili eða aðsetur erlendis eða það liggur annars fyrir að hann eigi heimili í tilteknu öðru ríki og birting stefnu getur ekki farið fram hér á landi eftir öðrum ákvæðum laganna.

Sóknaraðili hafi þekkt aðsetur í Hollandi og hafi varnaraðili þekkt til þess, þar sem í lánasamningi sé kveðið á um að öll samskipti milli aðila skyldu fara fram með skriflegum hætti eða símbréfi á heimilisfangi sóknaraðila að Prins Bernhard Plein 200, Amsterdam 1097 JB í Hollandi. Holland og Ísland séu aðilar að Haag-samningnum um birtingar á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum frá 15. nóvember 1965. Samkvæmt 5. gr. samningsins skuli miðlægt stjórnvald þess ríkis sem beiðni er send til sjálft birta skjal eða hlutast til um að það verði birt af viðeigandi stofnun, annaðhvort: (a) með þeirri aðferð sem kveðið er á um í lögum viðkomandi ríkis um birtingu skjala fyrir mönnum á yfirráðasvæði þess í málum sem rekin eru þar, eða (b) með þeirri sérstöku aðferð sem beiðandi óskar, nema hún sé ósamrýmanleg lögum þess ríkis sem beiðni er send til.

Birta hefði átt stefnuna í Hollandi samkvæmt hollenskum reglum, samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991. Hvorki liggi fyrir birtingarvottorð né önnur gögn um að rétt birting hafi farið fram samkvæmt hollenskum lögum. Ekki séu gerðar undantekningar frá 1. mgr. 90. gr. í lögum nr. 91/1991 og hafi breskt birtingarvottorð enga þýðingu í málinu, enda geti það ekki talist sönnun fyrir réttri birtingu í Hollandi.

Til vara byggir sóknaraðili á því að birta hefði átt stefnuna á heimili hans í Hollandi, samkvæmt skýrri samningsskuldbindingu þar um, sbr. 22. gr. lánasamningsins. Þar sem ekki sé heimilt samkvæmt breskum lögum að birta stefnu fyrir fyrirsvarsmanni lögaðila, geti undantekningarákvæði c-liðar 22. gr. lánasamningsins ekki átt við í málinu. Varnaraðila hefði verið í lófa lagið að birta stefnuna réttilega fyrir sóknaraðila á sama hátt og kyrrsetningarbeiðni var birt fyrir sóknaraðila 12. júlí 2013.

Til þrautavara byggir sóknaraðili á því að stefnan hafi ekki verið réttilega birt fyrir fyrirsvarsmanni hans í Bretlandi. Í birtingarvottorði segi að stefnan hafi verið skilin eftir í póstkassa, merktum Lýði Guðmundssyni, í Bretlandi vegna Bakkabraedur Holding B.V. og teljist þessi birtingaraðferð lögmæt samkvæmt breskum lögum. Sýslumaðurinn í Keflavík staðfesti að samkvæmt birtingarvottorðinu hafi stefnan verið skilin eftir í póstkassa Lýðs þann 14. nóvember 2012, að heimili hans, 68 Cadogan Place, London, SW1X 9RS, Bretlandi.

Sá sem ritar birtingarvottorðið telji ljóslega að stefndi sé Lýður sjálfur, sbr. orðin „the defendant‘s letterbox“ eða „póstkassi merktur stefnda“. Þó sé ljóst að sóknaraðili sé stefndi í málinu en ekki Lýður sjálfur. Þá sé einnig óumdeilt að sóknaraðili eigi ekki heimili eða þekkt aðsetur að 68 Cadogan Place í London. Vegna þessa geti birtingarvottorðið ekki talist sönnun fyrir því að stefnan hafi verið réttilega birt fyrir Lýði sem fyrirsvarsmanni stefnda, samkvæmt breskum lögum.

Ekki sé heimilt samkvæmt breskum lögum að birta stefnu fyrir fyrirsvarsmanni lögaðila, sbr. grein 6.3, 6.8 og 6.9 í einkamálalögum Englands og Wales („Civil Procedure Rules“). Samkvæmt lögunum skuli birta stefnu í höfuðstöðvum lögaðila eða á starfsstöð hans, eða á öðrum stað sem stefndi hefur sjálfur vísað til.

Lýður kannist hvorki við það að póstkassa sé að finna við heimili hans í Bretlandi né að hafa fengið umrædda stefnu í gegnum þá bréfalúgu sem þar sé að finna. Lýður hafi því aldrei fengið stefnuna í hendur á heimili sínu. Sóknaraðili hafi fyrst fengið stefnuna 31. júlí 2013, þegar lögmaður varnaraðila hafi sent áritaða stefnu til lögmanns sóknaraðila, eftir beiðni þar að lútandi. Vegna sumarleyfa í Héraðsdómi Reykjavíkur hafi sóknaraðila ekki verið unnt að fá afrit af áritaðri stefnunni.

Til þrautaþrautavara byggir sóknaraðili á því að almenn ákvæði 82. til 85. gr. laga nr. 91/1991 um birtingu eigi við í málinu. Verði ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila beri annað hvort að líta fram hjá reglu 90. gr. laga nr. 91/1991 í heild sinni, enda sé hún þá orðin merkingarlaus, eða túlka hana til fyllingar þeim grunnreglum laga nr. 91/1991 sem eigi að tryggja að stefna hafi sannarlega verið birt. Varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að birting hafi farið fram með neinum þeim hætti sem lögmætur er samkvæmt 82. til 85. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem stefna hafi ekki verið réttilega birt í málinu hefði dómari átt að vísa málinu án kröfu (ex officio) frá dómi, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991, sbr. b-lið 2. mgr. 137. gr. sömu laga.

                Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili byggir á því að stefna málsins hafi verið birt með réttum og lögmætum hætti. Varnaraðili vísar til XIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sér­staklega þó 90. gr., sbr. lög nr. 7/2011 um Lúganósamninginn um dómsvald og um viður­kenningu og fullnustu dóma í einkamálum og 15. gr. Haag-samnings um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunar­málum. Birtingarvottorð taki af allan vafa um að birting stefnunnar hafi verið gerð með réttum og lögmætum hætti í samræmi við bresk lög, en óumdeilt sé að fyrirsvarsmaður sóknaraðila eigi lögheimili í Bretlandi. Varnaraðili telur því engu máli skipta þótt stefnubirtingin hafi ekki farið fram í Hollandi, enda leiði það af 1. mgr. 82. gr. laga nr. 91/1991 að heimilt sé að birta stefnu fyrir fyrirsvarsmanni stefnda. Birtingarvottorðið beri með sér að birting fyrir fyrirsvarsmanni sóknaraðila hafi farið fram með lögmætum hætti. Gildi birtingarvottorðsins verði ekki haggað þótt af orðalagi áritunar í birtingarvottorði megi ráða að Lýður Guðmundsson hafi verið talinn stefndi í málinu. Hér sé auðsýnilega um að ræða ónákvæmni í orðalagi af hálfu stefnuvottsins, enda megi að öllu öðru leyti skýrlega ráða af birtingarvottorðinu (e. „Summary of the document to be served“) og enskri þýðingu stefnunnar, að stefndi í málinu (e. defendant) sé sóknaraðili en ekki Lýður Guðmundsson.

                Við lögskýringu á þessum ákvæðum og samspili þeirra verði að hafa í huga markmið reglna einkamálaréttarfars um birtingu stefna. Markmiðið með reglum um stefnubirtingar sé að tryggja að stefndi hafi vitneskju um fyrirhugaða málsókn. Sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um að fyrirhugað væri að birta [sic] stefnuna í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. febrúar 2013. Það megi t.a.m. ráða af samskiptum lögmanna aðila. Varnaraðili bendir sérstaklega á að stuttu eftir að stefnan var birt fyrir Lýði Guðmundssyni hafi hann hringt í lögmann varnaraðila og rætt við hann um stefnuna, eins og ráða megi af tölvubréfi sem lögmaður sóknaraðila sendi til lögmanns varnaraðila 21. nóvember 2012. Varnaraðili telur því einsýnt að sóknaraðila hafi verið full­kunnugt um stefnuna strax eftir birtingu hennar og að fyrirhugað væri að þingfesta hana ríflega þremur mánuðum síðar. Sóknaraðili hafi því haft nægan tíma til að grípa til varna. Sóknaraðili hafi hins vegar tekið meðvitaða ákvörðun um að mæta ekki við þing­festingu málsins og gæta þar réttar síns, sbr. tölvubréf frá lögmanni sóknaraðila frá 28. febrúar 2013.

                Varnaraðili hafnar því sérstaklega að lánssamningur aðila hafi ráðið niðurstöðu um það hvernig hafi átt að birta réttargerðir fyrir sóknaraðila. Samkvæmt b-lið gr. 22 í lánasamningi aðila (um lögsögu) sé mælt fyrir um að birting stefnu geti farið fram milli aðila með almennum pósti til lög­heimilis stefnda í Hollandi. Í c-lið gr. 22 segi að ekkert í samningnum skuli hafa áhrif á rétt aðila til að birta stefnu með öðru lögheimiluðu móti. Samkvæmt þessu ráði samningurinn því ekki til lykta, hvernig stefnubirting skuli fara fram, svo lengi sem önnur stefnu­birting sé í samræmi við lög. Hér verður jafnframt að horfa til þess að samkvæmt gr. 22 séu skyldur lántaka, þ.e. sóknaraðila, til hagsbóta fyrir lánveitanda, nú varnaraðila.

                Varnaraðili vísar á bug þeim málatilbúnaði sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að birting hafi farið fram með þeim hætti sem kveðið sé á um í 82. til 85. gr. laga nr. 91/1991. Því sé mótmælt að stefndi hafi sýnt „fullan samstarfsvilja“ vegna máls­ins. Þá hafnar varnaraðili fullyrðingu sóknaraðila um að varnaraðili „hafi farið þá leið sem raun ber vitni til þess að koma í veg fyrir að krafan myndi fyrnast […], sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda“. Ljóst sé að krafa samkvæmt lánasamningi fyrnist á tíu árum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007. Þá andmælir varnaraðili því að útprentanir, sem sóknaraðili hefur lagt fram, hafi nokkurt sönnunargildi í málinu um hvaða lög gildi í Englandi um birtingu stefnu, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðili mótmælir því einnig að skilyrði 2. mgr. 141. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt í málinu. Að síðustu sé öllum öðrum málsástæðum sóknaraðila mótmælt.

                Verði fallist á kröfu sóknaraðila um endurupptöku málsins mótmælir varnaraðili sérstaklega kröfu sóknaraðila um málskostnað. Samkvæmt 3. mgr. 141. gr. laga nr. 91/1991 skuli ekki dæma málskostnað í úrskurði um endurupptöku máls, heldur skuli það gert í einu lagi vegna málsins í heild. Í öllu falli verði að horfa til þess að við þingfestingu málsins hafi sóknaraðila verið fullkunnugt um fyrirhugaða þingfestingu þess.

Varnaraðili vísar til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega XIII. og XXIII. kafla. Einnig er vísað til laga nr. 7/2011 um Lúganósamninginn, um dómsvald og viðurkenningu og full­nustu dóma í einkamálum, og Haag-samnings, um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttar­skjölum í einkamálum og verslunar­málum. Jafnframt er vísað til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

                Niðurstaða

Í 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því máli lauk í héraði en innan árs frá því geti stefndi beiðst endurupptöku útivistarmáls ef beiðnin berst dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn og stefndi sýni fram á að einu af fjórum skilyrðum sé fullnægt, m.a. a) að stefna hafi hvorki verið birt honum né öðrum sem mátti birta fyrir og b) að átt hefði að vísa kröfum á hendur honum sjálfkrafa frá dómi að einhverju leyti eða öllu.

Stefna málsins nr. E-807/2013 var þingfest 28. febrúar sl. og árituð um aðfararhæfi 10. apríl sl. Ekki er um það deilt að sóknaraðila varð fyrst kunnugt um lyktir málsins 12. júlí sl. og beiðni hans um endurupptöku málsins barst héraðsdómi 12. ágúst sl. Er beiðnin þannig fram komin innan þeirra tímafresta sem áskildir eru í 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.

Sóknaraðili byggir aðallega á því að stefnu málsins hafi borið að birta fyrir honum í Hollandi. Óumdeilt er að sóknaraðili er með tiltekið heimilisfang í Hollandi og að fyrirsvarsmaður sóknaraðila býr á tilteknu heimilisfangi í Bretlandi. Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991 segir að eigi stefndi þekkt heimili eða aðsetur erlendis eða það liggi annars fyrir að hann eigi heimili í tilteknu öðru ríki og birting stefnu geti ekki farið fram hér á landi eftir öðrum ákvæðum XIII. kafla, fari um birtingu eftir lögum þess ríkis og þjóðréttarsamningi, ef slíkur samningur hefur verið gerður við hlutaðeigandi ríki. Í 1. mgr. 82. gr. sömu laga kemur fram að þar sem eftirfarandi ákvæði XIII. kafla mæli fyrir um að stefna verði birt fyrir stefnda, og öðrum sem tengist honum, á stað sem varði hann, og með fresti sem taki mið af högum hans, eigi þær reglur við fyrirsvarsmann í stað stefnda, fari fyrirsvarsmaður með mál hans. Að mati dómsins verður að túlka þessar lagagreinar saman, enda er 90. gr. hluti af XIII. kafla og ekki undanskilin í 1. mgr. 82. gr. Að mati dómsins verður að túlka þessi ákvæði á þann veg að fari fyrirsvarsmaður með mál stefnda megi birta stefnu fyrir fyrirsvarsmanninum, þótt stefndi eigi sjálfur heimili erlendis, og skiptir þá ekki máli þótt fyrirsvarsmaðurinn búi einnig erlendis. Af þessu leiðir að varnaraðila var heimilt að birta stefnu málsins fyrir fyrirsvarsmanni sóknaraðila. Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. bar varnaraðila þá að birta stefnuna fyrir fyrirsvarsmanni sóknaraðila í samræmi við breskar birtingarreglur. Fyrirsvarsmaðurinn er einstaklingur og verður að mati dómsins því að líta svo á að birta beri stefnu fyrir honum eftir breskum reglum um birtingu fyrir einstaklingum.

Sóknaraðili byggir til vara á því að stefnu hafi borið að birta honum í Hollandi samkvæmt ákvæði b-liðar 22. gr. lánssamnings aðila. Þar sem í c-lið sömu greinar er tekið fram að ekkert í viðkomandi samningi hafi áhrif á rétt til að birta stefnu með neinu öðru lögheimiluðu móti getur sóknaraðili ekki byggt á þessu ákvæði, en hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að birta stefnu fyrir fyrirsvarsmanni sóknaraðila.

Bæði Ísland og Bretland eru aðilar að Haag-samningi frá 15. nóvember 1965 um birtingar á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Meðal gagna málsins er birtingarvottorð vegna birtingar á stefnu málsins, gefið út af breskum yfirvöldum (e. ,,Senior Courts of England and Wales – Foreign Process Section“). Samkvæmt vottorðinu var stefna málsins birt 12. nóvember 2012 á heimili fyrirsvarsmannsins að 68 Cadogan Place, London SW1X9RS og er því nánar lýst að skjölin hafi verið birt ,,by posting them through the defendant‘s letterbox“. Samkvæmt framlögðu útprenti úr Ensk – íslenskri orðabók og íslensk – enskri orðabók merkir enska orðið ,,letterbox“ annað hvort póstkassi eða bréfalúga. Sóknaraðili kveður að hvorki sé póstkassa að finna við heimili fyrirsvarsmannsins í Bretlandi né hafi hann fengið umrædda stefnu í gegnum þá bréfalúgu sem þar sé að finna. Sóknaraðili hefur ekki leitast við að sanna að efni birtingarvottorðsins sé rangt, en fyrir því ber hann sönnunarbyrði samkvæmt 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Framlögð tölvupóstsamskipti milli lögmanna aðila 21. og 22. nóvember 2012 og 6. og 28. febrúar sl. varpa ekki ljósi á þetta atriði. Gegn andmælum varnaraðila er þessi málsástæða því ósönnuð. Verður því að leggja til grundvallar að stefna málsins hafi verið birt fyrir fyrirsvarsmanni sóknaraðila með þeim hætti sem greinir í birtingarvottorðinu.

Fram kemur í vottorðinu að skjalið hafi verið birt ,,On behalf of Bakkabraedur Holding B.V.“. Einnig kemur fram í fylgiskjali með birtingarvottorðinu (e. ,,summary of the document to be served“) að viðtakandi sé Lýður Guðmundsson ,,on behalf of Bakkabraedur Holding B.V.“ og að aðilar málsins (e. ,,Particulars of the parties“) séu varnaraðili og sóknaraðili (e. ,,Arion banki hf. against Bakkabraedur Holding B.V.“). Loks fylgir með birtingarvottorðinu eintak stefnu málsins, þýtt á ensku af löggiltum dómtúlki. Verður því að líta svo á að ummæli í birtingarvottorði þar sem minnst er á ,,defendant“ séu ónákvæmni sem geta að mati dómsins engu máli skipt um mat á lögmæti birtingarinnar.

Í birtingarvottorðinu kemur fram að birting stefnu sé lögmæt samkvæmt reglum um réttarfar í einkamálum í Englandi og Wales (e. ,,This method is good service under rule 6.3. (1) (c) of the Civil Procedure Rules of England and Wales“). Sóknaraðili hefur borið því við að ekki sé heimilt samkvæmt breskum lögum að birta stefnu fyrir fyrirsvarsmanni lögaðila og vísar um það til greina 6.3, 6.8 og 6.9 í fyrrnefndum reglum um réttarfar í einkamálum í Englandi og Wales. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 skal sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu leiða tilvist og efni hennar í ljós. Sóknaraðili hefur lagt fram útprent af heimasíðu sem ber með sér að vera á vegum breskra yfirvalda og að þar séu settar fram reglur 6. kafla fyrrnefndra reglna um réttarfar. Verður að telja nægilega sannað að hér sé um að ræða gildandi reglur á þessu réttarsviði.

Í reglu 6.3 í 6. kafla fyrrnefndra reglna um réttarfar, er varðar aðferðir við birtingu, segir í c-lið að kröfueyðublað (e. ,,claim form“) megi birta með því að skilja það eftir á stað sem tilgreindur er í reglu 6.7, 6.8, 6.9 eða 6.10. Í reglu 6.9 er fjallað um birtingu kröfueyðublaðs þegar stefndi gefur ekki upp heimilisfang þar sem birta má fyrir honum. Í lið (2) 1 segir að birta megi fyrir einstaklingi á venjulegu eða síðast þekktu heimilisfangi (e. ,, Usual or last known residence“). Var því heimilt að birta stefnu fyrir fyrirsvarsmanni sóknaraðila á heimili hans.

Samkvæmt þessu var stefna birt með lögmætum hætti í samræmi við enskar birtingarreglur og þar af leiðandi einnig 1. mgr. 90. gr., sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 91/1991. Skilyrði a-liðar 2. mgr. 137. gr. sömu laga er því ekki uppfyllt. Af þessu leiðir einnig að skilyrði b-liðar 2. mgr. sömu greinar er ekki uppfyllt, en ekki verður séð að neinir aðrir gallar séu á málatilbúnaði varnaraðila sem varða frávísun máls frá dómi án kröfu.

Í samræmi við allt framangreint ber að hafna kröfu varnaraðila um að málið nr. E-807/2013 verði endurupptekið.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu varnaraðila, Bakkabraedur Holding B.V., um að héraðsdómsmálið nr. E-807/2013 verði endurupptekið, er hafnað.