Hæstiréttur íslands

Mál nr. 120/2006


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Áfengi
  • Verslun
  • Evrópska efnahagssvæðið
  • EFTA-dómstóllinn


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2007.

Nr. 120/2006.

Karl K. Karlsson hf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.

 Ólafur Örn Svansson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

og gagnsök

 

 Skaðabætur. Áfengi. Verslun. Evrópska efnahagssvæðið. EFTA-dómstóllinn.

K krafðist skaðabóta úr hendi Í vegna fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna þess að ÁTVR hélt einkarétti til innflutnings og heildsöludreifingar á áfengi eftir gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994. Byggði hann á því að vegna 11. og 16. gr. samningsins hefði Í borið að hlutast til um að umræddur einkaréttur yrði afnuminn áður en samningurinn tók gildi, en það hafi hins vegar ekki verið gert fyrr en með lögum sem tóku gildi 1. desember 1995 eða 23 mánuðum seinna. Í byggði á því að K hefði ekki sýnt fram á tjón sitt af því að hafa ekki fengið að stunda innflutning og heildsöludreifingu á áðurnefndu tímabili eða sýnt fram á orsakasamband milli slíks hugsanlegs tjóns og saknæmrar háttsemi Í. Við úrlausn um kröfu K var ekki talið hjá því komist að líta til þess hvernig hann hefði í raun nýtt sér heimild til að flytja inn og dreifa áfengi í heildsölu fyrstu 23 mánuðina eftir að honum varð það heimilt frá 1. desember 1995. Fyrir lá að K hafði aðeins í litlum mæli hafið innflutning áfengis á árinu 1996 að undanskilinni einni tegund, en að það hefði breyst nokkuð á árinu 1997. Ekki var talið að neitt benti til þess að K hefði þegar á árunum 1994 og 1995 hafið innflutning fyrir ÁTVR á öllum áfengistegundum, sem hann hafði áður umboð fyrir eða fékk á þeim tíma, en að leggja yrði til grundvallar að það hefði gerst með líkum hraða og raunin varð frá 1. desember 1995. Í málinu gerði K aðalkröfu og varakröfu sem byggðar voru á útreikningum hans á tjóni sínu, en þeir voru af nánar tilgreindum ástæðum taldir haldslausir. Önnur og þriðja varakrafa K voru studdar við matsgerðir dómkvaddra manna, en ekki var talið að með þeim hefði verið gert nægilega líklegt að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna þess að fyrrgreindum einkarétti ÁTVR var ekki aflétt fyrr en 1. desember 1995. Samkvæmt framangreindu var ekki talið sannað að K hefði beðið tjón af fyrrgreindum orsökum og var því ekki talin þörf á að taka afstöðu til málsástæðna Í sem lutu að því að ekki fengi staðist úrlausn héraðsdóms um álitaefni sem tengdust EES-samningnum eða túlkun hans á lögum nr. 2/1993. Var Í því sýknað af kröfum K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. desember 2005. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. febrúar 2006 og áfrýjaði aðaláfrýjandi öðru sinni 2. mars sama ár. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 493.246.891 krónu með nánar tilteknum ársvöxtum frá 1. janúar 1996 til 26. júlí 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 246.623.445 krónur, til þrautavara 61.200.000 krónur, en að því frágengnu 30.600.000 krónur, allt með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Í öllum tilvikum er gerð krafa um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo og vegna reksturs máls nr. 4/2001 fyrir EFTA-dómstólnum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 19. maí 2006. Hann krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.

I.

Aðaláfrýjandi hefur í nokkur ár stundað innflutning á áfengi í atvinnuskyni. Áður kom hann fram sem umboðsmaður nokkurra erlendra framleiðenda áfengis meðan Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hafði innflutning þessa varnings með höndum. Í málinu krefst hann skaðabóta úr hendi gagnáfrýjanda vegna fjártjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að andstætt hafi verið samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum), sem tók gildi 1. janúar 1994, sbr. lög nr. 2/1993, að láta ÁTVR halda einkarétti til að flytja inn áfengi og dreifa því í heildsölu. Vegna ákvæða 11. og 16. gr. samningsins hafi gagnáfrýjanda borið að hlutast til um að lögum yrði breytt áður en samningurinn tæki gildi, þannig að einkaréttur ÁTVR til að flytja inn og dreifa áfengi í heildsölu yrði afnuminn fyrir áðurgreint tímamark. Það hafi hins vegar ekki verið gert fyrr en með lagabreytingum á miðju ári 1995, sem tóku gildi 1. desember sama ár. Er málavöxtum og málatilbúnaði aðaláfrýjanda nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi, sem og forsendum um fjárhæð tjóns, sem hann styður aðal- og varakröfur sínar við.

Aðaláfrýjandi höfðaði upphaflega mál gegn gagnáfrýjanda af sama tilefni 9. nóvember 2000 til viðurkenningar á því að sá síðarnefndi væri skaðabótaskyldur vegna fjártjóns þess fyrrnefnda, þar eð honum hafi verið óheimilt að flytja til landsins og dreifa í heildsölu áfengistegundinni Cointreau á sama tímabili og krafa í þessu máli lýtur að. Undir rekstri fyrra málsins í héraði var tekin ákvörðun um að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun nokkurra ákvæða EES-samningsins. Það álit var veitt í dómi 30. maí 2002 og er niðurstaða hans rakin í héraðsdómi. Aðaláfrýjandi ákvað að fella málið niður, sem var gert 16. janúar 2003, og höfða nýtt mál þar sem gerð yrði fjárkrafa með stoð í niðurstöðu EFTA-dómstólsins í stað viðurkenningarkröfu, sem gerð var í hinu fyrra máli. Þetta mál var síðan höfðað 5. desember 2003. Sem fyrr er málatilbúnaður aðaláfrýjanda einkum á því reistur að gagnáfrýjandi hafi brotið gegn 11. og 16. gr. EES-samningsins með því að viðhalda einkarétti ÁTVR til að flytja inn og dreifa áfengi í heildsölu í 23 mánuði fram yfir það tímamark er þessi einkaréttur skyldi aflagður.

Gagnáfrýjandi reisir sýknukröfu sína meðal annars á því að reglur EES-samningsins hafi ekki verið settar til að vernda rétt milliliða framleiðenda og neytenda til að hagnast á afnámi einkaréttar á innflutningi og heildsöludreifingu áfengis. Kveður hann skýrar vísbendingar vera fyrir hendi í lögskýringargögnum um að ekki séu forsendur til að reisa skaðabótaskyldu á lögum nr. 2/1993, en litið hafi verið framhjá því í hinum áfrýjaða dómi. Þá liggi með engum hætti fyrir að brotið hafi verið gegn 16. gr. EES-samningsins eða öðrum ákvæðum hans og fái niðurstaða EFTA-dómstólsins engu um það breytt. Aðaláfrýjandi hafi ekki sýnt fram á neitt dæmi um að tilhögun innkaupa á áfengi gæti hafa varðað við þau ákvæði EES-samningsins, sem reynir á í málinu, og hann hafi heldur ekki gagnrýnt innkaupareglur ÁTVR fyrr en að löngu liðnu því tímabili, sem málið snúist um. Krafa af þessu tilefni hafi fyrst borist með bréfi 26. júní 2000. Telur gagnáfrýjandi að niðurstaða héraðsdóms um að innflutningur og heildsöludreifing ÁTVR á áfengi hafi farið í bága við EES-samninginn fái ekki staðist og að sú aðferð hans sé ótæk að leggja á gagnáfrýjanda að sanna að starfsemi ÁTVR hafi staðist kröfur EES-samningsins. Hafi héraðsdómi borið að rökstyðja sjálfstætt niðurstöðu um lögmæti þessarar starfsemi ÁTVR í stað þess að vísa beint í álit EFTA-dómstólsins um það. Fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi lagt megináherslu á þá málsvörn sína að hvað sem öðru líði hafi aðaláfrýjanda ekki tekist að sýna fram á tjón af því að hafa ekki fengið að stunda innflutning og heildsöludreifingu á áfengi sjálfur á áðurnefndu tímabili í stað þess að þiggja áfram umboðslaun samkvæmt eldra kerfi, sem hafi verið umboðsmönnum einstakra áfengistegunda afar hagstætt. Jafnvel þótt aðaláfrýjanda tækist að leiða í ljós að hagnaður hans hefði orðið ennþá meiri af innflutningi áfengis en umboðslaun samkvæmt eldra kerfi færðu honum sé ekki uppfyllt það skilyrði að orsakasamband verði fundið milli slíks hugsanlegs tjóns og einhverrar saknæmrar háttsemi gagnáfrýjanda. Telur hann að aðaláfrýjandi hafi ekki verið í stakk búinn til að taka í eigin hendur innflutning og heildsöludreifingu á áfengi 1. janúar 1994, sem hann hafi ekki heldur verið nema að litlu leyti 1. desember 1995 þegar honum varð það heimilt. Ástæða þess að aðaláfrýjandi hafi kosið að fara sér hægt við að breyta rekstri sínum skýrist aftur af því meðal annars að verulega aukin umsvif og kostnaður hefði fylgt því að taka starfsemina í eigin hendur í stað þess að þiggja áfram umboðslaun fyrir litla fyrirhöfn og áhættu.

II.

Í upphafi stefnu til héraðsdóms segir að áður en EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994 hafi aðaláfrýjandi á margvíslegan hátt búið sig undir það að einkaréttur íslenskra stjórnvalda á innflutningi og heildsöludreifingu á áfengi yrði afnuminn. Meðal annars hafi hann aflað sér umboða fyrir fjölda áfengistegunda, stækkað aðstöðu sína verulega og fjölgað starfsmönnum. Hann hafi þannig gert viðamiklar ráðstafanir 1. janúar 1994 til að taka þessa starfsemi í eigin hendur. Gagnáfrýjandi mótmælti þessum staðhæfingum. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var lýst yfir af hálfu aðaláfrýjanda að hann hefði fyrir héraðsdómi dregið þetta til baka að hluta, sem kemur þó ekki fram í gögnum málsins. Aðaláfrýjandi hefur ekki leitast við að sýna fram á réttmæti fullyrðinga um ráðstafanir sínar, sem eru ósannaðar.

Svo sem fram er komið er málsókn aðaláfrýjanda á því reist að gagnáfrýjandi hafi vanrækt skyldu sína til að innleiða réttilega með lagabreytingum frelsi til að flytja inn og dreifa áfengi í heildsölu. Það hafi honum borið að gera 23 mánuðum fyrr en gert var. Í málatilbúnaðinum felst að aðaláfrýjandi hefði þegar nýtt sér frelsið frá 1. janúar 1994 og þá jafnframt notið hagnaðar í 23 mánuði, sem hann hafi farið á mis við og krefji nú gagnáfrýjanda um skaðabætur fyrir. Áður var getið málsvarnar gagnáfrýjanda, sem lýtur að sönnun um tjón og orsakasamband. Við úrlausn um kröfu aðaláfrýjanda verður ekki komist hjá því að líta til þess hvernig hann nýtti sér í raun heimild til að flytja inn og dreifa áfengi í heildsölu fyrstu 23 mánuðina eftir að honum varð það heimilt frá 1. desember 1995. Er ekki annar samanburður nærtækari til að styðjast við svo unnt sé að leggja mat á hvernig hann hefði hagað rekstri sínum frá 1. janúar 1994 til 1. desember 1995 hefði lögum áður verið breytt, eins og aðaláfrýjandi telur að gagnáfrýjanda hefði verið skylt að gera.

III.

 Meðal gagna málsins er áfengisheildsöluleyfi handa aðaláfrýjanda, útgefið af fjármálaráðuneytinu 30. nóvember 1995 með gildistöku degi síðar. Kemur þar fram að um er að ræða leyfi af þessu tagi nr. 2/1995. Aðaláfrýjandi bendir á að umsókn hans um leyfið sýni glöggt að honum hafi verið full alvara að nýta færið til að flytja sjálfur inn og dreifa áfengi í heildsölu jafnskjótt og einkaréttur ÁTVR til þess yrði afnuminn. Það hafi hann gert strax eða fljótlega með því að flytja inn áfengi og dreifa áfram til veitingahúsa. Hann hafi einnig farið að flytja inn áfengistegundina Campari til að selja til ÁTVR, sem annist sölu á stærstum hluta áfengis í smásölu í landinu. ÁTVR hafi hins vegar brugðist við þessu með því að neita að kaupa af honum áfengið og leitast við með öllum ráðum að viðhalda í raun fyrri einkarétti þrátt fyrir breytta löggjöf. Af þeirri ástæðu hafi honum í raun verið gert ókleift að flytja sjálfur inn aðrar áfengistegundir, sem hann hafði umboð fyrir, og tegundir sem hann aflaði sér umboða fyrir eftir þetta. Eldra kerfi, þar sem hann naut einungis umboðslauna, hafi því gilt lengur en skyldi vegna harðvítugrar andstöðu ÁTVR við breytingum. Þessari deilu hafi ekki lokið fyrr en í september 1997 og í raun hafi aðaláfrýjanda ekki verið tryggt fullt frelsi til að flytja inn áfengi fyrr en í maí 1998 þegar ÁTVR hætti með öllu þeirri starfsemi í samræmi við ákvörðun fjármálaráðherra þar um.

Um þennan þátt ber verulega á milli aðilanna um málsatvik. Lýsir gagnáfrýjandi því svo að ástæður deilunnar um Campari hafi verið sérstakar og einungis bundnar við þá tegund áfengis. Um þetta vísar hann til skýrslu fyrrum forstöðumanns ÁTVR fyrir dómi. Lýsti hann þessum ágreiningi svo að þegar er aðaláfrýjandi hafi tekið innflutning þessarar áfengistegundar í eigin hendur hafi hann krafist meira en 100% hærra verðs fyrir hverja flösku en ÁTVR greiddi í fyrri innkaupum, boðið tegundina fram með minni áfengisstyrkleika en áður var og krafist þess að ÁTVR keypti 50% fleiri flöskur en leitað var eftir að fá keyptar í umrætt sinn. Þessi kjör hafi ÁTVR neitað að sætta sig við og vegna afarkosta aðaláfrýjanda hafi fyrirtækið í upphafi neyðst til að kaupa Campari af öðrum. Það hafi enn flækt málið að í ljós kom að aðaláfrýjandi var svokallaður einkainnflytjandi á Campari samkvæmt samningi við framleiðandann, en slíkt fyrirkomulag taldi forstöðumaðurinn óþekkt fram til þess tíma og hafi vaknað efasemdir um að það fengi samrýmst EES-samningnum. Deilan hafi þannig fyrst og fremst snúist um verð, en enginn ágreiningur orðið vegna annarra áfengistegunda, sem ÁTVR hóf á svipuðum tíma að kaupa af aðaláfrýjanda. Þá hafi ÁTVR þegar á árinu 1996 einnig keypt verulegt magn af ýmsum tegundum áfengis af öðrum innflytjendum en aðaláfrýjanda. Þegar umboðsmaður tiltekinnar áfengistegundar eða annar lýsti þeirri ákvörðun sinni að flytja áfengi inn sjálfur hafi engin fyrirstaða orðið á því af hálfu ÁTVR. Samstarf við innflytjendur hafi gengið vel, sem og við aðaláfrýjanda að undanskildum áðurnefndum ágreiningi. ÁTVR hafi ásamt mörgum öðrum stundað innflutning á áfengi frá lokum árs 1995 til maí 1998, en allt til þess tíma hafi fyrirtækið enn flutt inn sjö tegundir áfengis, sem aðaláfrýjandi hafði umboð fyrir. Hafnaði hann með öllu að ÁTVR hafi reynt að gera aðaláfrýjanda eða öðrum erfitt um vik með að hefja innflutning á áfengi. Á þessum tíma hafi margir umboðsmenn verið illa undir það búnir að taka við innflutningi og dreifingu áfengis og þá orðið nokkurs konar millibilsástand þegar ÁTVR hélt áfram að flytja inn áfengi og eftir atvikum dreifa til veitingahúsa samtímis því sem heildsalar tóku við því smám saman. Þetta hafi síðan þróast þar til þeir tóku þessa starfsemi að öllu leyti í sínar hendur í maí 1998. Birgir Ármannsson gaf einnig skýrslu fyrir dómi, en hann starfaði hjá Verslunarráði Íslands í fjögur ár frá september 1995. Kvaðst hann í starfi sínu hafa orðið var við ýmsa árekstra, sem komu upp í samskiptum heildverslana og ÁTVR, þar sem báðir voru að átta sig á nýjum aðstæðum. Þannig hafi orðið „töluvert margir núningsfletir“, sem megi þó að miklu leyti skýra með því að unnið hafi verið eftir nýrri löggjöf.

Undir rekstri málsins hefur gagnáfrýjandi ítrekað beint þeirri áskorun til aðaláfrýjanda að sýna fram á hvenær hann nýtti sér fyrst eftir 1. desember 1995 frelsi til innflutnings eða heildsöludreifingar á áfengi fyrir hverja tegund um sig, sem hann hafði umboð fyrir á tímabilinu frá 1. janúar 1994 til 1. desember 1995, svo og að skýra ástæður þess að það hafi dregist í einstökum tilvikum. Af framlögðum gögnum frá aðaláfrýjanda verður ekki ráðið um þær tímasetningar, sem um var beðið, en áður var getið skýringa hans á ástæðum tafa á innflutningi vegna deilna um áfengi af tegundinni Campari. Gagnáfrýjandi hefur hins vegar sjálfur lagt fram gögn sem sýna kaup ÁTVR á áfengi sem aðaláfrýjandi flutti inn á árunum 1996 og 1997. Fólust þau fyrra árið fyrst og fremst í áðurnefndri tegund, Campari eða 15.000 flöskum, en einnig á 2004 flöskum af Brolio rauðvíni og 756 flöskum af Tequila. Þá voru örfáar sérpantanir af ónefndum tegundum. Árið 1997 bættust fleiri tegundir við, en innkaup á Smirnoff vodka námu þá 52.068 flöskum og Bailey’s Irish Cream 8.760 flöskum. Fram er komið að í hvorugu þessara tilvika hafði aðaláfrýjandi áður verið umboðsmaður framleiðenda þessara tegunda, heldur hafi innflutningurinn byggst á samningum, sem gerðir voru 1997. Innkaup á tegundunum Campari og Brolio rauðvíni héldu áfram og námu annars vegar 22.200 og hins vegar 1.260 flöskum. Nokkrar aðrar tegundir höfðu bæst við, en í minna magni. Framlögð gögn gagnáfrýjanda sýna einnig mikil áfengiskaup ÁTVR af öðrum innflytjendum en aðaláfrýjanda á árunum 1996 og 1997, sem í nokkrum tilvikum námu samtals mun hærri fjárhæðum en innkaupin af aðaláfrýjanda á sama tíma.

IV.

Samkvæmt öllu framanröktu er í ljós leitt að aðaláfrýjandi hóf aðeins í litlum mæli að flytja inn áfengi til að selja ÁTVR á árinu 1996 að undanskildu Campari, þótt hann hafi haft heimild til þess. Á því ári hefur því eldra kerfi að stærstum hluta enn verið við lýði að því er aðaláfrýjanda varðaði, þar sem hann kom fram sem umboðsmaður framleiðenda gagnvart ÁTVR, sem sá um innflutninginn. Þessi mynd breyttist nokkuð á árinu 1997, þegar aðaláfrýjandi og aðrir fetuðu sig áfram á nýrri braut, og algerlega 1998 þegar ÁTVR hætti að flytja inn áfengi.

Eins og getið var í II. kafla að framan verður að hafa rás atburða frá 1. desember 1995 til 1. nóvember 1997 til viðmiðunar og ráða af henni hvað ætla megi að gerst hefði eftir 1. janúar 1994 ef aðaláfrýjanda hefði þá verið heimilt að flytja inn áfengi, svo sem hann telur að með réttu hefði átt að vera. Í ljósi þess, sem rakið hefur verið, bendir ekkert til þess að hann hefði þegar á árunum 1994 og 1995 hafið innflutning fyrir ÁTVR á öllum áfengistegundum, sem hann hafði áður umboð fyrir eða fékk á þeim tíma. Verður að leggja til grundvallar að það hefði gerst með líkum hraða og raunin varð á frá 1. desember 1995, en áður er komið fram að á árinu 1996 keypti ÁTVR lítið áfengi af aðaláfrýjanda að Campari undanskildu. Ekkert er heldur komið fram sem styður það að ÁTVR verði um kennt vegna deilna um þessa áfengistegund hve seint aðaláfrýjandi breytti að marki rekstri sínum, en á sama tíma og sú deila stóð yfir tók aðaláfrýjandi að flytja inn aðrar áfengistegundir og selja ÁTVR án þess að hnökrar á því samstarfi hafi verið leiddir í ljós.

Í málinu gerir aðaláfrýjandi aðalkröfu og þrjár varakröfur. Er rakið í héraðsdómi hvernig hann rökstyður hverja þeirra. Með vísan til forsendna dómsins verður staðfest sú niðurstaða að sýkna beri gagnáfrýjanda af aðalkröfu og fyrstu varakröfu aðaláfrýjanda. Önnur og þriðja varakrafa eru studdar við mat dómkvaddra manna 26. nóvember 2003, en viðbótarmat þeirra sömu 4. nóvember 2004 var einnig lagt fram undir rekstri málsins í héraði. Í héraðsdómi er greint frá spurningum, sem lagðar voru fyrir þá, og svörum þeirra. Aðaláfrýjandi hefur einnig lagt fyrir Hæstarétt mat tveggja dómkvaddra manna, Ingva Þórs Elliðasonar og Símonar Á. Gunnarssonar 23. júní 2006, sem hann aflaði eftir áfrýjun héraðsdóms. Í matsbeiðni var þess óskað að matsmennirnir svöruðu sömu spurningum og áður voru lagðar fyrir fyrri matsmenn.

Í matsgerð 26. nóvember 2003 tóku matsmenn fram að nálgast mætti fjártjón aðaláfrýjanda á nokkra vegu, sem gerð var grein fyrir. Niðurstaða þeirra varð sú að tjón hans vegna missis á framlegð 1994 til 1995 hafi í heild numið 39.400.000 krónum og tjón vegna tafa á uppbyggingu fyrirtækisins 21.800.000 krónum. Sambærilegar tölur í viðbótarmati sömu manna 4. nóvember 2004, þar sem einungis var miðað við vörur af Evrópska efnahagssvæðinu, voru 28.900.000 krónur og 12.500.000 krónur. Niðurstaða héraðsdóms varð sú að þessar matsgerðir yrðu ekki lagðar til grundvallar um tjón aðaláfrýjanda. Var meðal annars talið ósannað að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna tafa á uppbyggingu fyrirtækis síns, en án tillits til niðurstöðu matsmanna taldi dómurinn að útreikningar og tölulegar upplýsingar í framlögðum gögnum málsins renndu ekki nægilega styrkum stoðum undir staðhæfingar um fjárhagslegt tjón aðaláfrýjanda á árunum 1994 til 1995 samanborið við síðari tíma. Þá féllst héraðsdómur ekki á tilteknar forsendur, sem matsmennirnir lögðu til grundvallar við útreikning fjártjóns. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi leitast við að hnekkja þessari niðurstöðu héraðsdóms. Þegar litið er til matsgerðanna annars vegar og þess hins vegar hvað ætla megi um innflutning aðaláfrýjanda á áfengi 1994 til 1995, ef honum hefði verið það heimilt, koma ekki til álita aðrar áfengistegundir en þær, sem aðaláfrýjandi hafði í raun umboð fyrir á þeim tíma. Skipta þá ekki máli aðrar tegundir, sem hann fékk síðar samningsbundnar heimildir yfir, en kveðst mundu hafa áður aflað sér umboða fyrir ef innflutningur hefði verið frjáls. Verður ekki ráðið að matsmenn hafi heldur litið til þess að öðru leyti hvenær aðaláfrýjandi hóf innflutning á hverri tegund. Þá kemur fram í matsgerðunum að tjón vegna tafa á uppbyggingu aðaláfrýjanda „verður að skoða með tilliti til þess að KKK var búið að vinna grunnvinnu að undirbúningi á yfirtöku innflutnings á áfengi.“ Ekki hefur þó verið sýnt fram á það, sbr. II. kafla að framan. Þá er í matsgerðunum miðað við ætlað tjón til ársloka 1995 en ekki til 1. desember sama ár, auk þess sem matsmennirnir töldu ekki unnt að skipta framlegðarmissi milli heildsölu og innflutnings. Að öllu þessu gættu verður fallist á forsendur héraðsdóms fyrir því að aðaláfrýjandi hafi ekki með þessum matsgerðum gert nægilega líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni sökum þess að nefndum einkarétti ÁTVR var ekki aflétt fyrr en 1. desember 1995. Í nýrri matsgerð 23. júní 2006 töldu matsmennirnir ekki fært að leggja mat á tjón aðaláfrýjanda „vegna svonefndrar seinkunar á vexti fyrirtækis hans“, en fjárhagstjón vegna banns við að flytja inn áfengi og dreifa því í heildsölu töldu þeir nema 32.004.000 krónum, en 23.343.000 krónum ef einungis væri miðað við áfengistegundir framleiddar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Töldu þeir að aðaláfrýjanda hefði ekkert verið að vanbúnaði að hefja innflutning og heildsöludreifingu áfengis strax í ársbyrjun 1994 með því að nýta sér þjónustu Tollvörugeymslunnar hf. við birgðahald. Matsgerðin er að öðru leyti á margan hátt haldin sömu annmörkum og fyrri matsgerðir. Af þessum sökum og að því virtu að hún var ekki lögð fram fyrr en eftir að gagnáfrýjandi skilaði greinargerð sinni til Hæstaréttar, kemur hún ekki til frekari álita í málinu.

Samkvæmt öllu framanröktu hefur aðaláfrýjandi ekki sannað að hann hafi beðið tjón sakir þess að einkaréttur ÁTVR á innflutningi áfengis og heildsöludreifingu var ekki afnuminn 1. janúar 1994, heldur frá 1. desember 1995 að telja. Þarf þá ekki að taka afstöðu til málsástæðna gagnáfrýjanda, sem lúta að því að ekki fái staðist úrlausn héraðsdóms um álitaefni, sem tengjast EES-samningnum eða túlkun hans á lögum nr. 2/1993. Verður niðurstaða héraðsdóms samkvæmt því staðfest um annað en málskostnað, en rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður fyrir héraðsdómi fellur niður.

Aðaláfrýjandi, Karl K. Karlsson hf., greiði gagnáfrýjanda, íslenska ríkinu, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2005.

          Mál þetta, sem dómtekið var hinn 2. september sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Karli K. Karlssyni, með stefnu áritaðri um birtingu 5. desember 2003.

          Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 493.246.891 krónu, með 0,65% ársvöxtum frá 1. janúar 1996 til 1. október 1996, en þá með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, en með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 21. október 1998, en með 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 11. apríl 1999, en með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 2000, en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11. júlí 2000, en með 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 26. júlí 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.

          Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 246.623.445 krónur með 0,65% ársvöxtum frá 1. janúar 1996 til 1. október 1996, en með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, en með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 21. október 1998, en með 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 11. apríl 1999, en með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 2000, en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11. júlí 2000, en með 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 26. júlí 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.

          Til þrautavara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 61.200.000 krónur með 0,65% ársvöxtum frá 1. janúar 1996 til 1. október 1996, en með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, en með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 21. október 1998, en með 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 11. apríl 1999, en með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 2000, en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11. júlí 2000, en með 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 26. júlí 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

          Til þarautaþrautavara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 30.600.000 krónur með 0,65% ársvöxtum frá 1. janúar 1996 til 1. október 1996, en með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, en með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 11. júlí 2000, en með 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 26. júlí 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

          Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu, vegna reksturs málsins sem og vegna reksturs máls nr. E-4/01 milli sömu aðila fyrir EFTA dómstólnum, sbr. dóm EFTA dómstólsins frá 30. maí 2002.

          Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað, að mati dómsins.

          Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn falla niður.

II

          Í máli þessu krefur stefnandi, sem stundar innflutning á áfengi í atvinnuskyni, stefnda um bætur vegna fjártjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ólögmæts einkaréttar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á innflutningi og heildsöludreifingu áfengis á tímabilinu 1. janúar 1994 til 1. desember 1995. 

Nánari atvik málsins eru þau þegar EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994 voru í gildi hér á landi áfengislög nr. 82/1969 og lög nr. 63/1969 um verslun með áfengi og tóbak.  Var í áfengislögum mælt fyrir að aðeins íslenska ríkinu skyldi vera heimilt að flytja inn áfengi og að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skyldi annast innflutning og heildsöludreifingu áfengis.  Innflutningur, heildsala og smásala áfengis, hafði alfarið verið í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í umboði stefnda og hafði það fyrirkomulag tíðkast allt frá því hafin var sala á áfengi að nýju hér á landi árið 1922. Þetta fyrirkomulag stóð að meginstefnu óbreytt þar til sett voru lög nr. 94/1995 um breytingar á áfengislögum nr. 82/1969 og lög nr. 95/1995 um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak og sem tóku gildi 1. desember 1995.  Með gildistöku þessara laga var einkaréttur ríkisins á innflutningi og heildsöludreifingu áfengis afnuminn og kveðið á um aukið frelsi í þeim efnum.  Einkaréttur ríkisins til smásölu áfengis var áfram við lýði og er ekki um hann deilt í málinu.  Áfengislög nr. 75/1998 hafa nú komið í stað eldri áfengislaga.

Með hliðsjón af sakarefni málsins er óhjákvæmilegt að nokkuð ítarleg grein sé gerð fyrir tildrögum þess að einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á innflutningi og heildsöludreifingu áfengis var afnumin 1. desember 1995.

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda var afstaða íslenskra stjórnvalda lengi vel sú að gildandi fyrirkomulag hérlendis á innflutningi, heildsöludreifingu og smásölu áfengis stæðist ákvæði EES-samningsins, sbr. einkum 11. gr. og 16. gr. samningsins. Var þannig talið að engin greinarmunur væri gerður ríkisborgurum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins hvað snerti skilyrði til aðdrátta og markaðssetningu áfengis, þrátt fyrir umræddan einkarétt Áfengis- og tóbaksverslunarinnar. Auk þess hafi verið talið að 13. gr. samningsins heimilaði ákveðin höft á innflutning meðal annars vegna almanna­öryggis og til verndar lífi og heilsu. Þetta síðasta atriði hafi verið undirstrikað við samningsgerðina sjálfa með yfirlýsingu ríkisstjórna Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um áfengiseinkasölur þar sem lögð var áhersla á þá afstöðu ríkjanna að áfengissölur ríkjanna væru grundvallaðar á mikilvægum sjónarmiðum er vörðuðu stefnu þeirra í heilbrigðis- og félagsmálum.

Í gögnum málsins kemur fram að EES-samningurinn tók gildi var fljótlega byrjað að gera athugasemdir við fyrirkomulag áfengissölu hér á landi sem og á öðrum Norðurlöndum, m.a. vegna athugasemda sem bárust frá Verslunarráði Íslands. Upphaflega sendi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) stefnda fyrirspurn dags. 7. janúar 1994 þar sem óskað var eftir upplýsingum um starfsemi allra starfandi ríkiseinkasala hér á landi. Fyrirspurn þessari var svarað 17. febrúar það ár og í byrjun mars voru stofnuninni sendar nýjar innkaupareglur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem tekið höfðu gildi 1. mars þar áður. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 30. maí 1994, til stefnda lýsir stofnunin því viðhorfi sínu að það væri andstætt EES-samningnum að áfengiseinkasölur hafi einkarétt á framleiðslu, innflutningi, heildsölu­dreifingu og útflutningi áfengra drykkja. Hins vegar taldi hún það geta samrýmst samningnum að viðhalda einkasölu á smásölustigi, enda væri þess gætt að vörum sé ekki mismunað á grundvelli þjóðernis. Erindi þessu var svarað af fjármálaráðuneytinu með bréfi, dags. 11. júlí 1994. Þar lýsti ráðuneytið sig ósammála því viðhorfi ESA að starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins samrýmdist ekki EES-samningnum. Vísað var til fyrrgreindrar yfirlýsingar Norðurlandanna og bent á það að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hindraði ekki innflutning eða mismunaði framleiðendum við innkaup. Einnig taldi ráðuneytið að einstakir dómar Evrópudómstólsins hefðu ekki fordæmisgildi þar sem starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins væri ekki sambærileg við starfsemi þeirra einkasala sem þeir fjölluðu um. Í svokallaðri formlegri athugasemd ESA frá 20. júlí 1994 til íslenskra stjórnvalda er fjallað áfram um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og færð rök fyrir því að starfsemi hennar samrýmist ekki EES-samningnum. Fjármála­ráðuneytið svaraði hinni formlegu athugasemd ESA með bréfi dags. 23. september 1994. Í því bréfi var fyrri afstaða íslenskra stjórnvalda áréttuð. Jafnframt var fjallað stuttlega um þau frumvörp sem þá voru í smíðum á þessu sviði.

Hinn 22. febrúar 1995 sendi ESA síðan fjármálaráðuneytinu svokallað rökstutt álit samkvæmt 31. gr. EFTA-samnings um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Kom fram í álitinu að stofnunin teldi að einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til innflutnings- og heildsöludreifingar áfengis væri brot á EES-samningnum. Íslenskum stjórnvöldum var í bréfinu veittur 6 vikna frestur til þess að fara að áliti stofnunarinnar. Niðurstaða stofnunarinnar byggði á því að einkarétturinn á þessu sviði bryti í bága við 11. og 16. gr. samningsins. Í álitinu var vitnað til dóma Evrópudómstólsins og einnig er byggt á dómi EFTA-dómstólsins í svokölluðu Restarmarkmáli sem kveðinn hafði verið upp 16. desember 1994.

Í greinargerð stefnda segir að eftir að ESA hafi gert athugasemdir við fyrirkomulag innflutnings á áfengi hafi íslensk stjórnvöld farið að huga að breytingum á því fyrirkomulagi þótt þau teldu það enn standast EES-samninginn. Um sumarið og haustið 1994 hafi verið farið að vinna að frumvörpum til þess að koma til móts við fram komnar athugasemdir. Vinna þessi hafi leitt til frumvarps til breytinga á áfengislögum sem útbýtt var á Alþingi þann 7. desember 1994. Frumvarpið hafi gert ráð fyrir afnámi einkaréttar ríkisins til innflutnings á áfengi, en hafi ekki verið afgreitt fyrir þinglok.  Nýtt frumvarp sama efnis hafi verið lagt fram á Alþingi 18. maí 1995 og hafi það orðið að lögum 15. júní sama ár sem lög nr. 94/1995 sem tóku gildi 1. desember 1995, eins og áður greinir, sbr. einnig fyrrgreind lög nr. 95/1995. Víkur þá næst að starfsemi og athöfnum stefnanda á því tímabili sem hér er um að ræða.

 Á árunum 1994 og 1995 var stefnandi svokallaður umboðsaðili nokkurra áfengistegunda hér á landi, en fyrirtækið hafði stundað slík viðskipti um ára bil. Tilhögun þeirra viðskipta var sú að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, í umboði stefnda, sá alfarið um innflutning áfengis, þ.e. vörupantanir, fjármögnun og greiðslu, flutning, skjalagerð, tollafgreiðslu og birgða­hald. Þá hafði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einnig með höndum heildsöludreifingu og smásölu. Þótt stefnandi kæmi þannig ekkert sjálfur að innflutningnum, þáði félagið þóknun fyrir hann frá seljanda áfengisins. Stefnandi mun hafa verið umsvifamikill í umboðsmennsku sinni fyrir ýmsar erlendar áfengistegundir. Var þar bæði um að ræða áfengi frá löndum innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hinn 26. júní 2000 ritaði stefnandi stefnda bréf, þar sem þeirri skoðun var lýst að stefndi væri skaðabótaskyldur gagnvart félaginu sökum þess að íslenskum lögum hefði ekki verið komið í það horf allt frá 1. janúar 1994 að innflutningur og heildsöludreifing áfengis yrði heimilaður.   Í bréfinu var því haldið fram að fjártjón hefði orðið er fælist í töpuðum hagnaði af innflutningi á þeim áfengistegundum sem hann hafði umboð fyrir á tímabilinu 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995 eða á 23 mánaða tímabili.  Með bréfinu fylgdi listi yfir áfengisumboð stefnanda á þessum tíma og voru þar taldar 102 tegundir.

Stefndi svaraði bréfi stefnanda með bréfi dagsettu 17. júlí 2000.  Urðu frekari bréfaskipti aðila vegna málsins í ágústmánuði það ár og með bréfi stefnda, dagsettu 29. ágúst 2000, var öllum kröfum stefnanda um greiðslu skaðabóta honum til handa hafnað og vísað í bréf ráðuneytisins, dagsett 17. júlí 2000.  Taldi stefndi að á listanum væru tví- eða þríteknar vörutegundir þar sem einungis umbúðir væru mismundandi.  Þá væri á listanum vörur sem ekki falla undir gildissvið EES-samningsins.

Hinn 9. nóvember 2000 höfðaði stefnandi mál fyrir héraðsdómi gegn stefnda. Málið var höfðað til viðurkenningar á bótaskyldu vegna þess fjártjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir sökum þess að honum hafi verið óheimilt að flytja inn til landsins og dreifa í heildsölu áfengistegundinni Cointreau á tímabilinu frá 1. janúar  1994 til 30. nóvember 1995, auk þess að gera kröfu um málskostnað að skaðlausu.  Undir rekstri málsins leitaði Héraðsdómur Reykjavíkur eftir áliti EFTA-dómstólsins á tilteknum spurningum. Þann 30. maí 2002 kvað EFTA-dómstóllinn upp ráðgefandi álit sitt. Er gerð grein fyrir álitnu hér síðar. Í framhaldi af áliti EFTA-dómstólsins var mál stefnanda gegn stefnda fellt niður með samkomulagi aðila.

Að beiðni stefnanda voru dómkvaddir matsmenn til þess að meta fjártjón sem stefnandi taldi sig hafa orðið fyrir vegna þess að honum var óheimilt að flytja inn til landsins og dreifa í heildsölu ákveðnum áfengistegundum, sem hann hafi haft umboð fyrir, tímabilið 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995.  Matsgerðin er dagsett 26. nóvember 2003.  Komust hinir dómkvöddu matsmenn að þeirri niðurstöðu að fjártjón stefnanda vegna þessa væri 61,2 milljónir króna.  Er tjóninu skipt þannig:  Tjón vegna framlegðarmissis árin 1994 til 1995, 36,1 milljón króna.  Vaxtareikningur (10%) til loka árs 1995, 3,3 milljónir króna og tjón vegna tafa á uppbyggingu fyrirtækisins 21,8 milljónir króna. Byggðu þeir matið á framlegð og töfum á stækkun fyrirtækisins og því að beint samspil væri á milli upptöku áfengisgjalds og afnáms ríkisins á einkaleyfi á innflutningi áfengis.  Við matið var beitt þeirri aðferð að miða við raunverulega framlegð áranna 1996 og 1997 og taka mið af því að hún hefði fallið til tveimur árum fyrr.  Í niðurstöðu matsgerðarinnar kemur fram, að metið fjártjón taki til framlegðarmissis bæði vegna heildsölu og innflutnings, þar sem hvorki liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar úr bókhaldi stefnanda né annars staðar hér á landi, eins og segir í matsgerð, um skiptingu hennar milli þeirra þátta. Fjártjónið byggðist, eins og áður segir, á framlegð og töfum á stækkun fyrirtækisins og því áliti matsmanna að beint samspil væri á milli upptöku áfengisgjalds og afnáms ríkisins á einkaleyfi á innflutningi áfengis.  Síðar fór fram viðbótarmat, til þess að leggja mat á það hvaða áhrif það hefði á niðurstöðu matsins ef eingöngu yrði miðað við áfengistegundir sem ættu uppruna sinn á Evrópska efnahagssvæðinu og er sú matsgerð dagsett, 4. nóvember 2004.  Niðurstaða matsmanna var sú að fjártjón stefnanda vegna þeirra tegunda, sem framleiddar eru innan EES, væri 41.4 milljónir króna.

III

Eins og áður greinir lét EFTA-dómstóllinn upp ráðgefandi álit 30. maí 2002 í máli nr. E/4/01, þar sem fjallað var um ágreining aðila um einkarétt Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á innflutningi og heildsöludreifingu áfengis í tengslum við héraðsdómsmál sem stefnandi hafði höfðað gegn stefnda. Nánar tiltekið voru þær spurningar sem héraðsdómur óskaði ráðgefandi álits um svohljóðandi:

1. Ber að skýra ákvæði EES-samningsins, einkum 11. og 16. gr., þannig að íslenska ríkinu hafi frá gildistöku samningsins 1. janúar 1994 verið skylt að afnema einkarétt ríkisins á innflutningi og heildsöludreifingu áfengis?

2. Sé svarið við ofangreindri spurningu jákvætt, er spurt, hvort íslenska ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart lögaðila, sem við gildistöku samningsins hafði aflað sér einkasöluu­mboðs fyrir tiltekna áfengistegund, að því tilskildu að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna þess að ekki var heimilaður innflutningur og heildsöludreifing áfengistegundarinnar, fyrr en tæpum tveimur árum eftir gildistöku EES-samningsins, að fullnægðum bótaskilyrðum samkvæmt dómafordæmum EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins?

3. Sé svarið við spurningum 1 og 2 jákvætt, er spurt, hvort fullnægt sé bótaskilyrðum samkvæmt dómafordæmum ofangreindra dómstóla?

 Svör EFTA-dómstólsins voru svohljóðandi:

1. Viðhald einkaréttar ríkisins á innflutningi áfengis eftir 1. janúar 1994 er ósamrýmanlegt 16. gr. EES-samningsins.

2. EES-ríki verður skaðabótaskylt gagnvart mögulegum innflytjanda áfengis vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir vegna þess að einkarétti ríkisins á innflutningi var viðhaldið, að því gefnu að skilyrði fyrir skaðabótaskyldu séu uppfyllt. Þar sem þessi skilyrði eru uppfyllt, ber að ákvarða bætur á grundvelli skaðabótareglna landsréttar. Reglur um skaðabætur sem mælt er fyrir um í landsrétti mega ekki fela í sér lakari réttarstöðu en gildir um hliðstæðar innlendar kröfur og mega ekki vera settar þannig fram að það verði í reynd ómögulegt eða óhæfilega erfitt að fá bætur.

3. Mat á því hvort skilyrðum skaðabótaskyldu ríkisins sé fullnægt á að meginstefnu til undir Héraðsdóm Reykjavíkur. Við það mat ber að taka mið af eftirfarandi atriðum: (1) Ákvæði 16. gr. er ætlað að veita einstaklingum beinan rétt; (2) brotið gegn 16. gr. er nægilega alvarlegt til að hafa í för með sér skaðabótaskyldu; (3) það

kemur í hlut dómstóls aðildarríkis að meta hvort beint orsakasamband er milli vanefnda á skuldbindingum samkvæmt 16. gr. EES og tjóns sem orðið hefur.

Að því er varðaði svar við fyrstu spurningunni tók EFTA-dómstóllinn eftirfarandi fram í forsendum sínum:

[...] Ekki er unnt að líta svo á að einkaréttur á heildsöludreifingu sé eftir eðli sínu ósamrýmanlegur 16. gr. EES. Verið getur að einkaréttur á heildsöludreifingu sé ekki andstæður 16. gr. EES ef viðskipti með vörur frá öðrum EES-ríkjum búa ekki við lakari skilyrði, að lögum eða í reynd, í samanburði við viðskipti með innlendar framleiðsluvörur. [/] Það er hlutverk Héraðsdóms Reykjavíkur að meta skipulag og framkvæmd einkaréttar til heildsöludreifingar. Ef dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að einkarétturinn hafi verið framkvæmdur þannig að vörur fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum hafi sætt lakari viðskiptakjörum en innlendar vörur, verður að líta svo á að einkaréttur íslensku ríkiseinkasölunnar til heildsöludreifingar hafi verið

andstæður 16. gr. EES. [/] Reglur landsréttar sem ekki varða beint framkvæmd einkaréttar á heildsöludreifingu, þótt þær geti skipt máli fyrir hann, verður Héraðsdómur Reykjavíkur að meta á grundvelli 11. gr. EES (sjá um þetta, Franzén, lið 36). Við það mat verður að taka mið af dómi í máli E-6/96 Wihelmsen v Oslo kommune [1997] Skýrsla EFTA-dómstólsins 56, lið 51. Af þeim dómi leiðir að meginspurningin er hvort einkaréttur á heildsöludreifingu takmarkar í ríkara mæli möguleika til að koma á markað framleiðsluvörum frá öðrum EES-ríkjum en innlendum framleiðsluvörum.

IV

          Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi hafi brotið gegn EES samningsins 11. gr. og 16. gr. EES samningsins, en þessar greinar séu efnislega samhljóða 28. gr. (áður 30. gr.) Rómarsamningsins. Samkvæmt fyrrnefndu greininni séu magntakmarkanir á innflutningi og allar ráðstafanir sem hafa sambærileg áhrif skulu bannaðar milli samningsaðila. Samkvæmt síðarnefndu greininni skuli samningsaðilar tryggja að hvers konar ríkisrekin einkasala sé aðlöguð með þeim hætti að ekki sé um að ræða neina mismunun milli ríkisborgara aðildarríkja Evrópusambandsins og ríkisborgara EFTA ríkjanna um það hvernig varanna sé aflað og þær markaðssettar.

          Stefnandi vísar til áðugreinds ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um að einkaréttur ríkisins á innflutningi á áfengi eftir 1. janúar 1994 hafi verið andstæður 16. gr. EES-samningsins. Stefndi beri því skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að ekki hafi verið heimilað að flytja inn þær áfengistegundir, sem hann hafi haft umboð fyrir á tímabilinu 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt umræddu ráðgefandi áliti sé það eftirlátið Héraðsdómi Reykjavíkur að meta tjón stefnanda, sem hann hafi orðið fyrir vegna einkaréttar stefnda á heildsöludreifingu áfengis.  Ekki sé unnt að líta svo á að einkaréttur á heildsöludreifingu sé eftir eðli sínu ósamrýmanlegur 16. gr. EES.  Verið geti að einkaréttur á heildsöludreifingu sé ekki andstæður 16. gr. EES ef viðskipti með vörur frá öðrum EES-ríkjum búi ekki við lakari skilyrði, að lögum eða í reynd, í samanburði við viðskipti með innlendar framleiðsluvörur.  Í þessu sambandi heldur sterfnandi því fram að líta verði á einkarétt stefnda til innflutnings og heildsöludreifingar á áfengi á umþrættu tímabili sem óaðskiljanlega heild.  Þannig feli einkaréttur til heildsöludreifingar í raun í sér einkarétt til innflutnings og því verði ekki gerð krafa um að stefnandi sýni fram á mismunun milli íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara annarra aðildarríkja EES samningsins í máli þessu. 

          Þegar litið sé til þess hvernig einkarétti stefnda til heildsöludreifingar áfengis hafi verið háttað á umþrættu tímabili blasi við að það hefði ekki haft nokkrar réttarbætur í för með sér fyrir stefnanda hefði aðeins einkaleyfið til innflutnings verið afnumið í upphafi tímabilsins.  Einkarétturinn til heildsöludreifingar, óháð innflytjanda, hafi haft í för með sér að stefndi hafi haft allt forræði á framboði áfengis sem stefnandi hefði getað flutt inn til Íslands og hafi haft fullt forræði á verðákvörðun áfengisins.  Í ljósi þessa hafi verið óraunhæft bæði fyrir stefnanda og aðra að flytja áfengi til Íslands algerlega upp á von og óvon og því hefði frjálst flæði þess áfengis frá öðrum EES ríkjum, sem sé sambærilegt við íslenskt áfengi, alls ekki verið tryggt.

Stefnandi byggir og á því, að í raun brjóti einkaréttur til heildsöludreifingar á áfengi gegn 16. gr. á nákvæmlega sama hátt og einkaréttur til innflutnings á áfengi, eftir 1. janúar 1994. Gerir stefnandi í þessu sambandi athugasemdir við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins og telur að dómstóllinn hafi ekki gætt samræmis við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Stefnandi vísar í þessu sambandi til þess að áður en EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994, hafi stefnandi undirbúið á margvíslegan hátt afnám einkaréttar íslenskra stjórnvalda á innflutningi og heildsöludreifingu á áfengi, sbr. þágildandi 3. gr. áfengislaga nr. 82/1969. Hafi hann m.a. aflað sér umboða fyrir fjölda áfengistegunda, eflt aðstöðu sína verulega og ráðið fólk í vinnu. Er samningurinn tók gildi hafi stefnandi gert viðamiklar ráðstafanir til að hefja innflutning og heildsöludreifingu á áfengi og hafi haft  umboð fyrir fjölda áfengistegunda; bjór, léttvín auk sterkara áfengis. Flestar þessar áfengistegundir komi fram á lista sem var fylgiskjal með bréfi lögmanna stefnanda til Fjármálaráðuneytisins, dagsettu 16. ágúst 2000.  Á þeim degi, þ.e. 1. janúar 1994 og allt til 1. desember 1995, hafi stefndi hins vegar, eftir sem áður, haft einkarétt á innflutningi og heildsöludreifingu á öllu áfengi, sbr. 3. gr. þágildandi áfengislaga nr. 63/1969. Hinn 1. janúar 1994 hafi stefndi, á grundvelli þeirra skuldbindinga sem hann hafði gengist undir með undirritun EES samningsins með gildistöku 1. janúar 1994, átt að vera búinn að breyta löggjöfinni þannig, að afnuminn væri einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til innflutnings og heildsöludreifingar hér á landi. Stefnanda hefði þannig frá og með 1. janúar 1994 átt að vera heimilt að flytja allar þessar tegundir inn til landsins og dreifa til smásala, þ.á m. til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Þegar litið sé til þess hvernig einkarétti stefnda til heildsöludreifingar áfengis hafi verið háttað á hinu umþrætta tímabili, blasi við að það hefði ekki haft nokkrar réttarbætur í för með sér fyrir stefnanda hefði aðeins einkaleyfið til innflutnings verið afnumið fyrir upphaf tímabilsins. Þvert á móti verði fyrst og fremst að líta á einkaréttinn til heildsöludreifingar sem mikilvægan þátt í einkarétti stefnda til innflutnings. Ekkert sé fjallað um það hvort einkaréttur til heildsöludreifingar þjónaði þessum almanna­hagsmunum í dómi EFTA dómstólsins frá 30. maí 2002, en eins og áður segi, hafi dóm­stóllinn ekki verið sérstaklega spurður út í það atriði. Því fari fjarri að  almannahagsmunir hafi réttlætt það að einkaréttur væri til staðar við heildsöludreifingu á áfengi, enda eiga sömu rök ekki við um einkarétt til smásölu og heildsöludreifingar á áfengi. Af þessum sökum haldi stefnandi því fram, að einkarétturinn til heildsöludreifingar á áfengi hafi brotið í bága við 16. gr. EES samningsins á nákvæmlega sama hátt og einkarétturinn til innflutnings.

Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður og lagarök byggir stefnandi á því að skipulag og framkvæmd einkaréttar íslenska ríkisins til heildsöludreifingar á áfengi hafi verið þannig að vörur fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum hafi sætt lakari viðskiptakjörum en innlendar vörur og því verði að líta svo á að einkaréttur íslensku ríkiseinkasölunnar til heildsöludreifingar hafi verið andstæður bæði 11. og 16. gr. EES-samningsins. Þá hafi reglur íslensks réttar á hinu umþrætta tímabili, sem ekki varði beint framkvæmd einkaréttar á heildsöludreifingu, verið þess eðlis að einkaréttur á heildsöludreifingu hafi takmarkað í ríkara mæli möguleika til að koma á markað framleiðsluvörum frá öðrum EES-ríkjum en innlendum framleiðsluvörum, sbr. einkum 11. gr. EES-samningsins. Athugasemdir stefnanda viðvíkjandi fyrirkomulagi á einkarétti íslenska ríkisins eru í 13 liðum eins og nú greinir nánar. 

Í fyrsta lagi telur stefnandi að ekkert aðgengi hafi verið að markaðnum hér á landi fyrir annað áfengi en það sem fyrir var, á tímabilinu frá 1. janúar til 1. júlí 1994, þ.e. í heila sex mánuði af hinu umþrætta tímabili.  Vísar stefnandi til Áfengis- og tóbaksverslunarinnar til fjármálaráðuneytisins 29. október 2002 um þetta atriði.

Í öðru lagi heldur stefnandi því fram að álagning innflutningsgjalda á hinu umþrætta tímabili hafa verið með þeim hætti að innfluttu áfengi hafi verið mismunað miðað við innlenda áfengisframleiðslu. Staðhæfir stefnandi að innflutt áfengi hafi þannig borið þyngri byrðar fjárhagslega en innlend framleiðsla og vísar í því sambandi til þess hvernig virðisaukaskattur hafi verið reiknaður og lagður á áfengi. Samkvæmt reiknireglum, dags. 2. maí 1994, komi fram, að virðisaukaskattur hafi verið álagður og innheimtur þannig af innfluttu áfengi, að hann hafi verið reiknaður út frá sama grunni og innlend framleiðsla, að viðbættri frakt, tryggingu og bankakostnaði. Inni á grunninum, sem 24,5% vsk. hafi verið reiknaður af, hafi því verið fólgin sú mismunun hvað innflutta áfengið varðaði, að virðisaukaskatturinn hafi verið reiknaður af kostnaðarliðum, sem innlenda framleiðslan hafi ekki þurft að bera, þ.e. flutningskostnaður, trygging og bankakostnaður.

Í þriðja lagi hafi ýmsir kostnaðarliði verið lagðir á innflutt áfengi við ákvörðun smásöluverðs sem hafi ekki verið lagðir á innlenda framleiðslu.  Við verð alls innflutts áfengis hafi þannig verið bætt 5-12% álagi hvort sem umboðslaun hafi raunverulega verið greidd umboðsmanni eða ekki. Þá hafi verið bætt við „vörugjaldi“ sem hafi verið gjaldtaka Hafnarsjóðs Reykjavíkur, en stefnandi hafi hvergi í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum fundið álagningu þessa gjalds neina stoð.   

Í fjórða lagi bendir stefnandi á reglur um merkingarskyldu samkvæmt 7. gr. laga nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 425/1989, um sölu og veitingar áfengis, og merkingargjald. Þessi merkingarskylda hafi ótvírætt falið í sér tæknilega viðskiptahindrun samkvæmt 11. gr. EES samningsins. 

Í fimmta lagi telur stefnandi að bann við áfengisauglýsingum, sbr. 4. mgr. 16. gr. áfengislaga nr. 82/1969, hafi í ríkari mæli takmarkað möguleika á að koma á markað framleiðsluvörum frá öðrum EES ríkjum en innlendum framleiðsluvörum. 

Í sjötta lagi telur stefnandi að frá 1. janúar 1994 til gildistöku reglna nr. 158/1995 um innkaup og sölu áfengis og skilmálar í viðskiptum birgja, sem birtar voru 1. mars 1995, hafi engar reglur gilt um innkaup og sölu áfengis eða skilmálar í viðskiptum við birgja.  Reglurnar séu sagðar hafa tekið gildi 11. apríl 1994 en geti þó vart hafa öðlast gildi fyrr en við birtingu í Stjórnartíðindum. Fyrir gildistöku reglnanna hafi aðstaðan verið sú að allar þær áfengistegundir sem framleiddar voru á Íslandi hafi verið seldar hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og geðþótti ráðið um að mismuna innlendri og innfluttri framleiðslu.  Í raun hafi ríkt sama ástand eftir að fyrrgreindar reglur tóku gildi, enda hafi öll innlend framleiðsla, á umþrættu tímabili, verið í kjarna og átt greiðan aðgang að smásöluverslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og haft forskot á innflutt áfengi við markaðssetningu, m.a. með vísan til afleiðinga banns við áfengisauglýsingum. 

Í sjöunda lagi telur stefnandi að ýmsir skilmálar í viðskiptum við birgja hafi verið ólögmætir, t.d. um að sölueining bjórs í smásölu skyldi innihalda a.m.k. 2 lítra. Þá hafi birgjar þurft að skuldbinda sig til að taka aftur þá vöru sem óseld kynni að vera við lok reynslutíma enda hefði varan þá eigi verið valin í svokallaðan kjarna Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Stefnandi telur í áttunda lagi að álagningareglur hafi verið þess eðlis að þær mismunuðu innlendu og innfluttu áfengi. Reglur um það hvernig endanlegt verð var ákveðið á umþrættu tímabili séu óaðgengilegar og gagnsæi hafi ekkert verið í verðákvörðunum. Þó virðist ótvírætt að í þeim efnum hafi innlendri framleiðslu verið hampað á kostnað innfluttrar framleiðslu, t.d. með því að 35% gjald hafi verið lagt á innfluttan bjór.  Við afnám gjaldsins/álagsins 1. maí 1995 hafi enn verið um að ræða mismunun við verðákvörðun á bjór vegna mismunandi álagningarstofns virðisaukaskatts. Samkvæmt reglunum hafi 24,5% vsk. verið reiknaður af öllum álögum á erlendan bjór sem ekki hafi fallið á íslenskan bjór, s.s. uppskipunar- og hafnargjöld. Svokallað 40% álag hafi verið reiknað af bæði uppskipunar- og hafnargjöldum. Þá hafi svokallað ígildi vörugjalds af innlendum bjór verið 5,25% af kostnaðarverði en ígildi vörugjalds af innfluttum bjór numið 6,55% af Cif-verði.

          Í níunda lagi telur stefnandi að ólögmætt hafi verið að haga skattlagningu áfengis þannig að vínandi hafi í ríkari mæli verið skattlagður í sterkum drykkjum en bjór. Er þá vísað til þess að við skattlagningu áfengis var miðað við áfengisinnihald að frádregnum 2,25% áfengis sem leiddi til þess að hlutfallslega báru drykkir með lágu áfengisinnihaldi lágt áfengisgjald með hliðsjón af magni. Telur stefnandi að flestir sterkari drykkir hafi verið fluttir inn til landsins á meðan mjög hátt hlutfall veikari drykkja, þ.e. bjórs, hafi verið framleiddur hér á landi og þetta fyrirkomulag því falið í sér mismunun í reynd.

Í tíunda lagi telur stefnandi verðlagningareglur stefnda mismunað þeim vörum sem hér er um að ræða, enda hafi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ákveðið verð út frá eigin forsendum sem hafi gert framleiðendum áfengis ókleift að nýta sér mögulegt forskot í samkeppni og hasla sér aukinn hlut í markaðinum.

Í ellefta lagi telur stefnandi að neytandi, sem hafi haft hug á að eignast tiltekna áfengistegund, sem ekki fékkst hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, hafi átt þann kost að kaupa áfengið erlendis og koma sjálfur með það til landsins eða óska sérstaklega eftir því við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að fyrirtækið pantaði tegundina. Ekki hafi verið kostur á að biðja annan aðila um að hafa slíka milligöngu. Fyrir utan það að greiða sérstakt sérpöntunar- og merkingargjald, hafi þetta fyrirkomulag falið í sér tæknilega viðskiptahindrun í skilningi 11. gr. EES samningsins.

Í tólfta lagi telur stefnandi að ákvörðun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um að hámarksáfengismagn bjórs skyldi vera 5,6% á umþrættu tímabili hafi falið í sér tæknilega viðskiptahindrun og því farið í bága við 11. gr. EES samningsins.

Í þrettánda lagi bendir stefnandi á að á umræddum tíma hafi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins haft með höndum átöppun áfengis og birgðahreyfingar allra íslenskra áfengisframleiðenda gegn greiðslu.  Með þessu fyrirkomulagi hafi verið slík tengsl á milli íslenskra áfengisframleiðenda og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, að líkur verða að teljast á að innlendri áfengisframleiðslu hafi verið hyglað á kostnað innflutts áfengis.

Stefnandi telur ekki að framangreindar takmarkanir verði réttlætta með vísan til 13. gr. EES samningsins. Vísar hann til þess fyrirvara ákvæðisins að í takmörkun á frjálsri för vara megi aldrei vera fólgin geðþóttamismunun eða dulin takmörkun á viðskiptum milli samningsaðila. Þá megi takmörkun ekki ganga lengra en nauðsynlegt sé til að ná lögmætu markmiði. Hann vísar einnig til dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins um skýringu 30. gr. Rómarsamningsins um þetta atriði.

Stefnandi byggir einni kröfur sínar á því að stefndi hafi með einkarétti á heildsöludreifingu á hinu umþrætta tímabili brotið gegn 1. sbr. 2. mgr. 59. gr. EES samningsins. Ákvæðið feli í sér að eigi í hlut opinber fyrirtæki og fyrirtæki sem EFTA ríki veita sérstök réttindi eða einkarétt, skuli samningsaðilar tryggja að hvorki séu gerðar né viðhaldið nokkrum þeim ráðstöfunum sem fari í bága við reglur EES samningsins, einkum reglur sem kveðið er á um í 4. gr. og 53. – 63. gr. Einkum sé átt við að opinber fyrirtæki eða fyrirtæki með einkaleyfi eða sérleyfi skuli laga sig að samkeppnisreglum EES, enda kveðið á um það í 2. mgr. 59. gr. að reglur samningsins, einkum reglurnar um samkeppni, gildi um fyrirtæki sem falið sé að veita þjónustu sem hafa almenna efnahagslega þýðingu eða séu í eðli sínu fjáröflunareinkasölur. Að mati stefnanda felur einkasala til innflutnings og heildsöludreifingar áfengis í sér augljós brot á efnisreglum t.d. 1. og 2. mgr. 54. gr. EES samningsins.

          Stefnandi telur að ákvæði EES samningsins gildi um allar þær 102 áfengistegundir sem hann hafi haft umboð fyrir á hinu tilgreinda tímabili. Vörurnar hafi að stærstum hluta verið léttvín, 35 tegundir, púrtvín, koníak, viskí, gin, ákavíti, vodka, sjenever, líkjör, romm og bjór. Í 3. mgr. 8. gr. EES samningsins sé kveðið á um að ákvæði samningsins gildi um þær vörur sem tilgreindar séu í bókun 3 við samninginn í samræmi við það sérstaka fyrirkomulag sem þar sé greint frá. Í 1. gr. bókunar 3 segi að ákvæði samningsins skuli ná til þeirra vara sem tilgreindar séu í töflu I og II. Tafla I nái til bjórs sem framleiddur sé úr malti, vermúts og annarra léttvína úr ferskum vínberjum sem bragðbætt séu með jurtum eða arómatískum efnum og tiltekinna áfengra drykkja en tafla II nái til allra annarra áfengistegunda. Enn fremur sé kveðið á um það í bókun 8 við EES samninginn að 16. gr. samningsins taki til léttvína.

Stefnandi vísar m.a. um skaðabótaskyldu stefnda til ráðgefandi álits EFTA dómstólsins frá 30. maí 2002 sem áður hefur verið rakið. Þá vísar hann til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins 10. desember 1998 í mál nr. E-9/97 og dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins. Stefndi hafi bakað sér skaðabótaskyldu með því að viðhalda einkarétti samkvæmt 3. gr. áfengislaga nr. 82/1969 frá 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995 í trássi við ákvæði 11., 16. gr. og 59. gr. EES samningsins sem bannaði slíkan einkarétt, eins og þessi ákvæði urðu m.a. skýrð með hliðsjón af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Háttsemi stefnda hafi verið ólögmæt og saknæm og leitt til tjóns fyrir hann. Vísar stefnandi um bótaábyrgðina samkvæmt sakarreglunni sérstaklega til almennra ólögfestra reglna og dómafordæma Hæstaréttar um bótaábyrgð hins opinbera.

Stefnandi vísar dómkröfum sínum til stuðnings til 2. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, fjórða, áttunda og fimmtánda liðs aðfararorða samningsins,  3.gr., 6.gr. og 7. gr. auk V. hluta samningsins sjálfs, 3. gr. samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól og 10., 11., 14., 16., 36. og 59. gr. EES samningsins sem hafi haft lagagildi hér á landi frá 1. janúar 1994, sbr. lög nr. 2/1993, og bókun 35 við EES samninginn.

Stefnandi telur að það að stefndi skyldi ekki bregðast við með því að afnema einkarétt ríkisins til innflutnings og heildsöludreifingar á áfengi frá og með 1. janúar 1994, þar sem stefnanda og öðrum innflytjendum áfengis hafi verið heimilaður innflutningur og heildsöludreifing þeirra áfengistegunda sem fyrirtækið hafi haft umboð fyrir hafi valdið því að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni. Fjártjón stefnanda felist einkum í töpuðum hagnaði af innflutningi á þeim áfengistegundum sem hann hafi haft umboð fyrir á tímabilinu 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995 eða 23 mánaða tímabili, en einnig drætti á vexti fyrirtækisins.

Stefnandi framkvæmdi sjálfur útreikning á fjártjóni sínu, en óskaði jafnframt eftir dómkvaðningu matsmanna til að framkvæma útreikninginn.

Fjárhæð aðalkröfu sinnar, 493.246.891 krónu, hefur stefnandi rökstutt með þeim hætti að krafan sé annars vegar útreikningur hans á töpuðum hagnað af því að honum hafa ekki verið heimilt að flytja inn og dreifa í heildsölu því áfengi sem hann hafði umboð fyrir á tímabilinu 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995. Nemi sú fjárhæð 471.446.891 krónu. Hins vegar krafa um skaðabætur að fjárhæð 21.800.000 krónur vegna tafa sem orðið hafi á uppbyggingu fyrirtækis hans vegna háttsemi stefnda. Sé það sú fjárhæð sem hinir dómkvöddu matsmenn hafi komist að, að væri tjón stefnanda vegna seinkunar á uppbyggingu fyrirtækis hans.

Um þann hluta kröfugerðarinnar sem nemi töpuðum hagnaði stefnanda af innflutningi og heildsöludreifingu á þeim áfengistegundum sem hann hafi haft umboð fyrir séu eftirfarandi forsendur lagðar til grundvallar:

1.     Lögð sé til grundvallar álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tveimur tímabilum, þ.e. annars vegar á tímabilinu 1.1.1994 – 31.8.1995 og hins vegar á tímabilinu 1.9.1995 – 30.11.1995. Ástæða tvískiptingarinnar séu lög nr. 96/1995 um gjald af áfengi og tóbaki sem tóku gildi 1. september 1995. Með þeim lögum hafi verið tekið upp svokallað áfengisgjald sem orðið hafi uppistaðan í smásöluverði áfengis, en fram að þeim tíma hafi uppistaða smásöluverðs áfengis verið í formi álagningar sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ákvað.

2.      Lögð séu til grundvallar smásöluverð Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hinn 2. maí 1995.  Til hagræðis og einföldunar noti stefnandi aðeins smásöluverðin á þeim tímapunkti, enda um að ræða þá verðskrá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem lengst hafi gilt á umræddu 23 mánaða tímabili.

3.     Þar sem álagning Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi bæði falið í sér smásöluálagningu og heildsöluálagningu hafi stefnandi skipt álagningu Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins upp í tvennt í hlutföllunum 60-40, þar sem 40% álagningarinnar telst smásöluálagning, en 60% heildsöluálagning. Þetta hlutfall sé byggt á því í hvaða hlutföllum álagning skiptist almennt milli heildsölu- og smásöluálagningar í dag. Telur stefnandi að rök standi ekki til annars en að gera ráð fyrir að svipuð hlutföll hafi verið eðlileg á hinu umþrætta tímabili og almennt gilda í dag um skiptingu álagningar milli heildsala og smásala. Grundvallarbreyting hafi orðið á álagningu á áfengi hinn 1. september 1995 er áfengisgjald var tekið upp. Við þá breytingu hafi álagning Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á áfengi minnkað verulega. 

4.     Tjón stefnanda sé reiknað út frá magni þess áfengis sem seldist á hinu umþrætta 23 mánaða tímabili. Tjónið sé reiknað út frá raunverulegri sölu hverrar áfengistegundar fyrir sig. Hafi stefnandi aðeins haft einkaumboð fyrir tiltekna tegund hluta af hinu umþrætta tímabili sé aðeins tekin sala tegundarinnar þann hluta tímabilsins sem stefnandi hafði umboðið.

5.     Tjón stefnanda sé þannig talið tapaður hagnaður af því að hafa ekki hafi mátt flytja inn og dreifa í heildsölu því áfengi sem hann hafði einkaumboð fyrir, þ.e. 60% af álagningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins við sölu umræddra áfengistegunda á hinu 23 mánaða tímabili.

6.     Frá áætluðu tjóni þannig reiknuðu hafi stefnandi síðan dregið kostnað sem hann áætli að hefði þurft að inna af hendi til að fara með innflutning og heildsöludreifingu þess áfengis sem um er að ræða auk umboðslauna sem hann raunverulega hafi fengið greidd fyrir það að vera umboðsmaður. Kostnaðinn sem stefnandi hefði orðið fyrir hafi hann sundurgreint í fastan kostnað, starfsmannakostnað, flutningskostnað og geymslukostnað.

Dómkröfuna hefur stefnandi nánar sundurliðað þannig í stefnu: 


             Tímabilið 1.1.1994 – 31.8.1995

Heildarálagning ÁTVR á áfengi

sem stefnandi hafði umboð fyrir:

kr.  827.431.143.-

60% af því

kr.  496.458.686.-

- Umboðslaun stefnanda á tímanum m.v. 10% meðaltal

kr. 19.220.256.-

- Áætlaður fastur kostnaður:

 

Starfsmanna- og flutningskostnaður

kr.     4.744.000.-

 

Geymslukostnaður

kr.     6.089.293.-

 

 

 

Samtals krafa vegna tímabilsins 1.1.94 – 31.8.95

kr.  466.405.137.-

 

Tímabilið 1.9.1995 – 30.11.1995

Heildarálagning ÁTVR á áfengi sem stefnandi hafði umboð fyrir:

kr.  15.824.727.-

60% af því

kr.     9.494.836.-

- Umboðslaun stefnanda á tímanum m.v. 10% meðaltal

kr.      2.786.461.-

    - Áætlaður fastur kostnaður:

 

    Starfsmanna- og flutningskostnaður

kr.         711.600.-

Geymslukostnaður

kr.

955.021.-

 

 

Samtals krafa vegna tímabilsins 1.9.1995 – 30.11.1995  

kr.         5.041.754.-

 

 

Samtals krafa vegna beggja tímabilanna

 

                                                                 kr. 466.405.137 + 5.041.754 =

kr. 471.446.891.-

 

       Fyrsta varakrafa stefnanda er sett fram ef komist verður að því í málinu að stefndi sé aðeins bótaskyldur vegna einkaréttar hans til innflutnings á áfengi hið umþrætta tímabil en ekki vegna einkaréttarins til heildsöludreifingar. Varakrafan nemi helmingi af aðalkröfunni.  En stefnandi telur, undir þeim kringumstæðum, að tjón hans vegna tapaðs hagnaðar af innflutningi sé rétt að áætla helming af heildarhagnaði sem orðið hefði vegna bæði innflutnings og heildsöludreifingar. Stefnandi telur að ekki sé til að dreifa annarri betri leið til að áætla skiptingu tjóns annars vegar af einkarétti stefnda til innflutnings og hins vegar af einkarétti stefnda til heildsöludreifingar áfengis. Um forsendur og sundurliðun fyrstu varakröfu er að sínu leyti vísað til umfjöllunar um aðalkröfuna.

Önnur varakrafa stefnanda er byggð á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, Benedikts Jóhannessonar tryggingastærðfræðings og Vignis Rafns Gíslasonar, löggilts endurskoðanda. Matið byggi á athugun á rekstraruppgjörum stefnanda á hinu umþrætta tímabili og ákveðnum tímabilum eftir það. Matsmenn hafi lagt til grundvallar deildauppgjör áfengisdeildar stefnanda fyrir viðeigandi tímabil og telji hana gefa niðurstöðu um raunverulega afkomu umþrætts tímabils með viðmiðun við tímabil eftir að einkaleyfi til innflutnings og heildsöludreifingar var afnumið með lögum. Við mat á fjártjóninu telji matsmenn eðlilegt að líta til þeirra tekna og framlegðar fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) sem komi fram í rekstraruppgjörum stefnanda árin 1996 og 1997 á þeirri forsendu að tekjurnar og framlegðin hefði fallið til tveimur árum fyrr ef einkaréttur stefnda hefði verið afnuminn í upphafi árs 1994. Síðan sé dregin frá fjárhæð sem nemi raunverulegri framlegð. Jafnframt sé framlegðin vaxtareiknuð miðað við tveggja ára tímamismun, þ.e. frá 1996 til 1994 annars vegar og frá 1997 til 1995 hins vegar. Útreiknað framlegðartap miðað við þessa aðferð nemi 36,1 milljónum króna án vaxta, en 39,4 milljónum króna að teknu tilliti til vaxtareiknings.

Til viðbótar ofangreindu tjóni telji matsmennirnir að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna tafa á uppbyggingu fyrirtækisins. Það tjón telji þeir rétt að skoða  með tilliti til þess að stefnandi hafi verið búinn að vinna grunnvinnu að undirbúningi á yfirtöku innflutnings á áfengi. Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni af þessum sökum sem samsvari meðaltali af viðbótarframlegð sem myndaðist frá árunum 1996-7 til 1998. Nemi þessi fjárhæð 24 milljónum króna, sem miðað við 10% afvöxtun til loka ársins 1995 nemi 21,8 milljónum króna.

Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna sé því að heildarfjártjón stefnanda nemi kr. 61.200.000.- sem greinist svo:

Tjón vegna framlegðarmissis árin 1994 – 1995..........................  kr.   36.100.000.-

Vaxtareikningur (10%) til loka árs 1995.....................................               3.300.000.-

Tjón vegna tafa á uppbyggingu fyrirtækis stefnanda....................                  21.800.000.-

Samtals.   ..............  kr. 61.200.000.-

Þriðja varakrafa stefnanda nemi helmingi af annarri varakröfunni, en sem fyrr telur stefnandi undir þeim kringumstæðum, að tjón hans vegna tapaðs hagnaðar af innflutningi sé rétt að áætla helming af heildartjóni því sem orðið hefði vegna bæði innflutnings og heildsöludreifingar. Í munnlegum málflutningi vísaði stefnandi til hliðsjónar til viðbótarmatsgerðar.  Um forsendur og sundurliðun þriðju varakröfunnar er að sínu leyti vísað til umfjöllunar um aðra varakröfuna.                                                 

Stefnandi heldur því fram að það hafi enga þýðingu fyrir fjárhæð skaðabóta hans að íslenska ríkið hafi lengst af hið umþrætta tímabil haft aðaltekjur sínar af áfengissölu af álagningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, en frá 1. september 1995 af svokölluðu áfengisgjaldi. Leggja verði til grundvallar álagningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á hverjum tíma eðlilega hlutdeild stefnanda í henni miðað við skiptingu heildsölu og smásölu álagningar almennt. Réttur stefnanda til skaðabóta séu kröfuréttindi sem til hafi fallið allt umþrætt tímabil og þessi kröfuréttindi njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Dómstólar geti því ekki ákvarðað tjón stefnanda út frá forsendum sem fælu í sér að í raun hefði áfengisgjald verið lagt á áfengi á öllu hinu umþrætta tímabili. Þá væri löggjöf sem tók gildi 1. september 1995 beitt afturvirkt með íþyngjandi hætti til skerðingar á stjórnarskrárvörðum réttindum stefnanda. Þessi skilningur stefnanda sé í fullu samræmi við dóm Hæstaréttar í málinu nr. 549/2002, sem kveðinn var upp 16. október sl. Útreikningur aðalkröfu stefnanda byggi á framangreindum skilningi.

Stefnandi telur ótvírætt að stefndi hafi ekki uppfyllt þær skyldur samkvæmt EES samningnum að afnema einkarétt stefnda sjálfs til innflutnings og heildsöludreifingar á áfengi. Það eina sem komi til álita sé því hvort bótaskilyrðum sé fullnægt. Stefnandi vísar um málsástæður og lagarök sín í þeim efnum til dóms EFTA dómstólsins frá 10. desember 1998 í máli Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur, sbr. dóm Hæstaréttar 16. desember 1999 í sama máli og dóms EFTA dómstólsins frá 30. maí 2002, en þar segi að skilyrði skaðbótaskyldu sé að reglan sem um ræðir sé nægilega skýr og óskilyrt. Dómstóllinn hafi einnig talið að þessu skilyrði sé fullnægt að því er 16. gr. EES-samningsins varðar. Ákvæði 16. gr. hafi að geyma skuldbindingu sem hafi skýrt markmið og hún sé ekki háð neinum skilyrðum. Þar sem ákvæði 16. gr. hafi verið lögfest á Íslandi mæli ákvæðið fyrir um rétt til handa einstaklingum sem þeir geti sótt fyrir dómstólum landsins. Annað skilyrðið sé að brotið hafi verið nægilega alvarlegt og hafi dómstóllinn áður komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé háð því hvort samningsaðilinn  með bersýnilegum og alvarlegum hætti hafi litið fram hjá þeim takmörkunum sem séu á svigrúmi ríkisins til mats við ákvarðanatöku. Við mat á því hvort þetta skilyrði sé uppfyllt, verði dómstóll, sem fjalli um skaðabótakröfuna, að taka mið af öllum þeim þáttum sem einkenni þær aðstæður sem fyrir liggi. Þessir þættir varði m.a. það hversu skýrt og nákvæmt ákvæðið sé sem farið er gegn, hversu mikið mat ákvæðið eftirláti innlendum stjórnvöldum og hvort um sé að ræða vísvitandi brot á samningsskuldbindingum sem leiddi til tjóns eða brot sem ekki hafi verið framið af ásetningi og þess hvort lögvilla hafi verið afsakanleg eða óafsakanleg. Ljóst sé af dómi EFTA-dómstólsins í Restamark, að Ísland, með því að viðhalda einkarétti ríkisins á innflutningi á áfengi, hafi brotið gegn 16. gr. EES-samningsins frá og með þeim degi er EES-samningurinn gekk í gildi 1. janúar 1994. Sá dómur var kveðinn upp 16. desember 1994 og hafi í aðalatriðum verið byggður á dómaframkvæmd dómstóls Evrópubandalagsins fyrir gildistöku EES-samningsins. Einkaréttur ríkisins á innflutningi áfengis hafi aftur á móti ekki verið afnuminn fyrr en 1. desember 1995, eða því sem næst tveimur árum eftir að EES-samningurinn gekk í gildi.

Stefnandi hafi, með stuðningi Eftirlitsstofnunar EFTA og Framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, bent á, að við gildistöku EES-samningsins hefði það verið ljóst lengi af dómaframkvæmd dómstóls Evrópubandalagsins, að einkaréttur aðila í við­skiptum til innflutnings hafi verið ósamrýmanlegur þeim ákvæðum samningsins um Evrópubandalagið sem samsvari 16. gr. EES-samningsins. Af þessum ástæðum hafi einkaréttur til innflutnings á áfengi til Íslands eftir gildistöku EES-samningsins verið nægilega alvarlegt brot á EES-rétti.

Dómstóllinn bendi á, að dómstóll Evrópubandalagsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að ríkiseinkasölum í viðskiptum bæri að breyta þannig að afnuminn verði einkaréttur á innflutningi.  Þótt ekki væri í málinu fjallað um áfengiseinkasölur sé ljóst  að einkaréttur á innflutningi á áfengi feli í sér brot á þeim ákvæðum samningsins um Evrópubandalagið sem samsvara 16. gr. EES-samningsins. Þess vegna hafi stefndi ekki getað verið í neinum vafa um að honum hafi borið að breyta löggjöf sinni þannig að afnuminn yrði einkaréttur á innflutningi áfengis frá og með gildistöku EES-samningsins. Íslenska ríkinu hefði átt að vera kunnugt um þennan dóm og þýðingu hans fyrir skýringu EES-samningsins bæði meðan á samningaviðræðum fyrir EES-samninginn stóð og þegar hann var undirritaður 2. maí 1992.  Hin sameiginlega yfirlýsing ríkisstjórna Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar varðandi áfengiseinkasölur, sem fylgi lokagerð samningsins, þar sem ríkin lýsi því yfir að áfengiseinkasölur ríkjanna séu grundvallaðar á mikilvægum sjónarmiðum er varði stefnu þeirra í heilbrigðis- og félagsmálum geti ekki breytt þessari niðurstöðu. Yfirlýsingin sé gerð með fyrirvara um skuldbindingar sem leiði af samningnum. Jafnvel á grundvelli almenns þjóðaréttar feli hún ekki í sér formlegan fyrirvara um undanþágu frá samningsskuldbindingum. Hin mikilvægu sjónarmið varðandi heilbrigðis- og félagsmál sem vísað sé til skipti ekki máli varðandi einkarétt á innflutningi.

Dómstóllinn bendi á að almennt þegar EFTA-dómstóllinn eða dómstóll Evrópubandalagsins hafi þurft til að skýra réttarstöðu á grundvelli EES-samningsins, sem áður hafi verið talinn óljós, hafi þurft að ætla EES-ríki hæfilegan tíma til að aðlaga löggjöf sína án þess að til skaðabótaskyldu stofnist.  Það hafi löngu verið ljóst fyrir gildistöku EES-samningsins að ekki yrði heimilt að viðhalda einkarétti á innflutningi. Dómstóllinn hafi talið, að íslenska ríkið, sem tekið hafi þátt í samningaviðræðunum fyrir EES-samninginn og samningu hans og síðan undirritað hann og fullgilt, hafi verið í bestri aðstöðu til að meta hvaða lagabreytingar yrði að gera til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt samningnum áður enn hann gengi í gildi 1. janúar 1994.

Á grundvelli þessara sjónarmiða sé það niðurstaða dómstólsins að viðhald einkaréttar á innflutningi áfengis á Íslandi eftir gildistöku EES-samningsins feli í sér nægilega alvarlegt brot til að leiða til skaðabótaskyldu, að því gefnu að önnur bótaskilyrði séu uppfyllt.

Um þriðja skilyrðið, að vera þurfi beint orsakasamband milli vanefnda á skuldbindingum ríkisins og þess tjóns sem aðili hefur orðið fyrir, bendi dómstóllinn á að það sé hlutverk dómstóls aðildarríkis að meta hvort svo sé.

Mat á því hvort skilyrðum skaðabótaskyldu sé fullnægt eigi því að meginstefnu til undir Héraðsdóm Reykjavíkur. Við það mat beri að taka mið af eftirfarandi atriðum. Ákvæði 16. gr. sé ætlað að veita einstaklingum beinan rétt, brotið gegn 16. gr. sé nægilega alvarlegt til að hafa í för með sér skaðabótaskyldu, það komi í hlut dómstóls aðildarríkis að meta hvort beint orsakasamband sé milli vanefnda á skuldbindingum samkvæmt 16. gr. EES-samningsins og tjóns sem orðið hefur.

Stefnandi heldur því fram að á því leiki ekki vafi að orsakasamband sé á milli vanrækslu stefnda og þess tjóns sem stefnandi hefur orðið fyrir, en í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé sérstaklega tekið fram að þeir telji orsakasamband milli brots stefnda og tjóns stefnanda. Hefði stefndi fullnægt þeirri skyldu sinni að afnema einkaréttinn frá 1. janúar 1994 hefði stefnandi að sjálfsögðu ekki orðið fyrir því tjóni sem hann varð, þar sem hann hafi misst hagnað af innflutningi og heildsöludreifingu á þeim áfengistegundum sem hann hafi haft umboð fyrir á tímabilinu 1. janúar 1994 til 1. desember 1995 og orðið fyrir töfum á uppbyggingu fyrirtækis síns í kjölfarið.

Stefnandi kveður að vegna niðurfellingar viðurkenningarmálsins milli sömu aðila hafi verið gerð sérstök bókun þess efnis að málsaðilar væru sammála um að málskostnaður vegna málsmeðferðar fyrir EFTA dómstólnum í Luxemborg yrði hluti af málskostnaðarkröfu aðila í máli þessu.

Stefnandi krefst og almennra vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 1996 til 26. júlí 2000, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Dráttarvaxtakrafan sé gerð frá því mánuður var liðinn frá því að stefnandi sendi stefnda fyrsta bréf sitt vegna málsins, í samræmi við III. kafla þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987, einkum 15. gr. allt til 1. júlí 2001 er ný vaxtalög nr. 38/2001 tóku gildi. Frá þeim degi er gerð krafa um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. þeirra laga til greiðsludags.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins, almennra reglna Evrópuréttarins og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þá er vísað til laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 2. sbr. 3. gr., 8., 10., 11., 14., 16., 36. og 59. gr. EES-samningsins, fjórða, fimmta, áttunda og fimmtánda liðs aðfararorða samningsins, 3., 6. og 7. gr. auk II. hluta samningsins sjálfs, 3. gr. samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól og bókana 3 og 35 við EES-samninginn.  Einnig vísar stefnandi til áfengislaga nr. 82/1969 og laga nr. 63/1969 um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum eins og þau voru á tímabilinu 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995, einkum 3. gr. áfengislaganna og ýmissa stjórnsýslufyrirmæla vegna áfengis s.s. reglugerðar nr. 425/1989 um sölu og veitingar áfengis og reglna um innkaup og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja nr. 158/1995.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi einkum til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

          Stefndi byggir kröfur sínar á því, að megintilgangur EES-samningsins sé tvíþættur.  Annars vegar sé þar um að ræða atlögu að hvers konar viðskiptahindrunum milli aðildar- og samningsríkjanna, en hins vegar að tryggja rétt neytenda á samningssvæðinu með því að efla raunverulega samkeppni meðal annars með heimildum til svokallaðs samhliða innflutnings.  Ákvæði 11. gr. og 16. gr. EES-samningsins séu í þeim hluta samningsins sem kveði á um frjálsa vöruflutninga. Með ákvæðum samningsins um frjálsa vöruflutninga sé miðað að því að vernda hagsmuni neytenda á hinum innri markaði EES og hins vegar hagsmuni vöruframleiðenda á svæðinu til að koma vöru sinni á markað.  Reglunum sé ekki ætlað að tryggja þrönga hagnaðarhagsmuni innflytjenda innan hvers aðildarríkis fyrir sig.  Þannig telur stefndi að annað tveggja beri að byggja aðildina á því að vöruflæði frá einu ríki til annars hafi verið heft með ólögmætum hætti eða að réttur neytenda hafi verið fyrir borð borinn.

          Stefndi telur að þótt stefnandi virðist byggja málssókn sína á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, annað hvort beint eða óbeint, samræmist dómkröfur málsins ekki þeim hagsmunum sem EES-samningnum sé ætlað að vernda.  Ekki verði betur séð af  málatilbúnaði stefnanda en að hann sé eingöngu að byggja á þröngum sérhagsmunum, andspænis öðrum innlendum aðilum á markaði, þ.e. að hann hafi orðið af meintum stórfelldum hagnaði sem Evrópusamningurinn hafi átt að tryggja honum.  Reglur EES séu ekki til verndar sjálfstæðum rétti umboðsmanna, nema síður sé.  Stefnandi málsins komi hvorki fram sem neytandi né framleiðandi vöru heldur sem umboðsaðili og síðar heildsali, en ekki fyrir hönd tiltekinna framleiðenda á Evrópska efnahagssvæðinu.  Með hliðsjón af því að ákvæði EES- samningsins sé ekki ætlað að vernda möguleika milliliðar milli framleiðenda og neytenda til að hagnast á afnámi einkaréttar á innflutningi og heildsöludreifingu áfengis, eigi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni sem verndaðir séu af reglum skaðabótaréttar í þessu tilliti.  Meginreglur EES-samningsins miði frekar að því að koma í veg fyrir nauðsyn slíkra milliliða, a.m.k. sé óraunhæft að túlka ákvæði EES- samningsins, sem á reyni, svo að þeim sé ætlað að standa vörð um fjárhagslega hagsmuni slíkra milliliða, enda gengi slík túlkun þvert á tilgang hins frjálsa innri markaðar og markmið EES-samningsins. Benda megi á að á síðustu árum hafi innan Evrópusambandsins verið unnið að því að draga úr einkaumboðum með hagsmuni neytenda í huga.

          Stefndi byggir á því, að tengsl stefnanda við þá hagsmuni sem á sé byggt skorti alfarið og beri því að sýkna vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, og þess að málatilbúnaður stefnanda, með hliðsjón af réttarstöðu félagsins á umræddum tíma sé andstæður megintilgangi EES- samningsins um frjálsa vöruflutninga.  Í þessu efni sé því við að bæta að stefnandi hafi sem lögpersóna sjálfur tekið verulegum breytingum frá hinu umþrætta tímabili til dagsins í dag.  Þannig verði ráðið af gögnum úr fyrirtækjaskrá að á árunum 1994 og 1995 hafi stefnandi verið einkahlutafélag.  Á árinu 2000 hafi félaginu hins vegar verið breytt í almennt hlutafélag.  Á sama ári hafi nánast allar eignir og skuldir þess félags verið fluttar til þriðja félagsins, einkahlutafélagsins Ranns ehf., þ.m.t. eignarhlutur í Vínandanum ehf.  Því sé aðild og tenging við hagsmunina í raun ekki á hendi stefnanda eins og málum sé nú háttað.

          Stefndi byggir á því að ekki séu skilyrði um orsakasamband og ætlað tjón.  Stefndi telur stefnanda ekki hafa lagt fram þau umboð sem hann segist hafa haft fyrir áfengi á hinu umþrætta tíma.  Ekkert liggi því fyrir um efni þeirra á þessum tíma og því ósannað að stefnandi hafi haft umboð til að flytja inn áfengi eða dreifa því í heildsölu þótt hann hafi haft einhverja umsýslu með höndum í tengslum við innflutning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og fengið umboðslaun.  Stefnandi hafi því engar líkur leitt að því að hann hafi talist innflytjandi áfengis á þessum tíma eða haft slíka réttarstöðu ef á hefði reynt.

          Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að allar þær tegundir, sem nefndar séu í yfirlitinu sjálfu hafi fallið undir gildissvið EES- samningsins og sé því óhjákvæmilegt að mótmæla þeirri fullyrðingu. Meðal þeirra áfengisumboða sem þar komi fram séu tegundir frá Póllandi og Bandaríkjunum, sem augljóslega falli ekki undir upprunareglur 8. gr. EES-samningsins, sbr. bókun 4.  Í 3. mgr. 8. gr. EES- samningsins sé kveðið á um að ákvæði samningsins gildi um þær vörur sem tilgreindar séu í bókun 3 við samninginn.  Áfengistegundir sem flokkast með númer sem byrji á 01-,02-,03-,04-,05- og 06- séu léttvín og desertvín, í vörulið 2204 í tollskrá en falli ekki undir bókun 3 við samninginn um EES, hvorki nú né á umþrættu tímabili.  Bókun 3 nái því ekki til léttvíns og desertvína, en hins vegar segi í bókun 8 við EES-samninginn um ríkiseinkasölu að 16. gr. EES-samningsins gildi einnig um vín (ST-númer 2204).  Jafnframt fjalli bókun 47 við EES-samninginn um afnám tæknilegra hindrana í viðskiptum með vín.  Þar komi fram að samningsaðilar skuli heimila innflutning og markaðssetningu á vínafurðum sem séu upprunnar á yfirráðasvæðum þeirra og séu í samræmi við löggjöf bandalagsins.  Nánari skilgreiningu á upprunavínafurð sé að finna í bókun 47.  Ljóst sé að a.m.k. 15 afurðir af hinum 102 séu upprunnar utan EES.  Þegar af þeirri ástæðu nái ákvæði EES- samningsins ekki til þessara tegunda.

          Einnig sýni gögn að ástæða sé til að efast um að stefnandi hafi verið umboðsmaður fyrir þessar 102 tegundir allar, m.a. gögn frá Borie-Manoux, sem kveði stefnanda aðeins hafa verið umboðsmann gagnvart fríhafnaverslun en ekki innanlandsmarkaði.

          Stefndi mótmælir því sem fram kemur í stefnu, að stefnandi hafi búið sig á margvíslegan hátt undir afnám einkaréttar íslenskra stjórnvalda á innflutningi og heildsöludreifingu á áfengi áður en EES-samningurinn hafi tekið gildi.  Í málsgögnum komi hvergi fram teikn í þá veru, hvorki í ársreikningum félagsins né öðrum gögnum.  Fyrir árið 1994 sé ekki unnt að sjá marktækar breytingar í mannahaldi eða launakostnaði, enga stækkun húsnæðis sé þar að sjá og hvergi sé unnt að ráða af gögnum málsins að stefnandi hafi aflað sér áfengisumboða sérstaklega í tengslum við gildistöku EES-samningsins.  Engum fyrirætlunum um innflutning eða dreifingu hvað þá mótmælum eða kröfum hafi verið haldið á lofti gagnvart stefnda hvorki fyrir gildistöku EES-samningsins né hinum umþrætta tíma.   Þótt svo hefði verið geti það heldur ekki orðið forsenda þess að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni næstu misserin á eftir.  Verði þar að auki að telja fyrirætlanir eða undirbúning eins og stefnandi nefni mjög ósennilegar þegar ekkert hafi verið í deiglunni fyrir gildistöku samningsins, sem bent geti til þess að skipan á innflutningi eða heildsöludreifingu myndi færast í annað horf.  Hafi það ekki verið fyrr en síðar af ástæðum sem þegar hafi verið raktar.  Samkvæmt áliti EFTA-dómstólsins hafi einkaréttur ríkisins á heildsöludreifingu í eðli sínu ekki verið andstæður ákvæðum EES-samningsins.  Að þessu leyti byggi málatilbúnaður stefnanda á grundvallarforsendu sem engin stoð sé fyrir og skilyrði fébótareglna um orsakatengsl og sennilega afleiðingu séu bersýnilega ekki fyrir hendi. 

          Sumarið 2000 hafi fyrst komið fram sú hugmynd hjá stefnanda að hann hefði orðið fyrir umfangsmiklu tjóni vegna þess að félaginu hafi ekki verið sköpuð skilyrði til þess að flytja inn áfengi og dreifa því í heildsölu á grundvelli EES-samningsins fyrr en frá 1. desember 1995.  Af því sé ljóst að ekkert inngrip hafi verið í rekstur félagsins í raun heldur byggi málatilbúnaður stefnanda á því að löggjafinn hafi ekki skapað þau skilyrði í lögum sem hugsanlega hafi orðið til þess að stefnandi hefði þá þegar hafist handa við grundvallarbreytingu á starfsemi sinni og hafið innflutning og heildsöludreifingu áfengis.  Reglur skaðabótaréttar renni engum stoðum undir kröfu sem sprottin sé af slíkum hugmyndum.  Það njóti ekki verndar skaðabótaréttar eða geti talist orsakasamband, afleitt tjón eða saknæmi stefnda, að fyrirtæki telji mörgum árum síðar, að ef löggjöf hefði verið í tilteknu horfi hefði félagið að líkindum haslað sér völl við annars konar starfsemi en það hafi haft fyrir og haft af því stórkostlegan hagnað.  Á engan hátt sé hægt að gefa sér hvort af innflutningi og dreifingu hefði orðið eða ekki hjá stefnanda þótt skilyrði hefði verið til þess á umræddum tíma.  Engin vissa sé heldur fyrir því að félagið hefði náð árangri á þeim markaði eða staðist samkeppni enda ekki unnt að gefa sér einhverja atburðarás.  Þá liggi fyrir að stefnandi hafi farið mjög seint af stað í innflutningi og dreifingu og nýtti sér ekki að marki lagabreytingar frá 1995 fyrr en löngu síðar.

          Stefndi byggir á því að algerlega bresti skilyrði um orsakasamband og sennilega afleiðingu fyrir bótakröfunni.

          Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi haft með höndum innflutning og heildsöludreifingu áfengistegunda frá mörgum þeim birgjum sem nefndir séu í yfirlitum stefnanda.  Þannig hafi umræddar tegundir verið í innflutningi og dreifingu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins löngu eftir að lögin sem afnámu einkarétt Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til þess tóku gildi og hafi stefnandi því ekki nýtt sér frelsi eða þá möguleika að marki.  Gögn málsins renni stoðum undir það að innflutningur hafi í raun ekki farið af stað svo heitið geti fyrr en á árinu 1997.  Samkvæmt símbréfi frá stefnanda til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, dags. 5. maí 1998, hafi stefnandi tilkynnt að félagið myndi þjónusta Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins með vörur frá birgjum sem þar séu taldar upp, að öllum líkindum vegna bréfs sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins  ritaði stefnanda stuttu áður eða 24. apríl 1998, þess efnis að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins myndi í samræmi við ákvörðun fjármálaráðherra hætta innflutningi á áfengi.  Ef miðað sé við þá talningaraðferð stefnanda á þeim vörum virðist vera um helmingur sem stefnandi hafi ekki farið að flytja inn og dreifa fyrr en í fyrsta lagi vorið 1998.  Af þessum sökum sé engin stoð fyrir málatilbúnaði stefnanda og ástæða þess að stefnandi flutti hvorki til landsins né dreifði þessum tegundum séu ekki löggjöfin um innflutning og heildsöludreifingu áfengis hið umþrætta tímabil.  Líklegastar séu aðrar ástæður, t.d. að félagið hafi ekki haft burði til þess fyrr en svo seint, ekki haft áhuga á því eða skort umboð eða heimild til þess. Gögn málsins endurspegli að starfsemi stefnanda, sem umboðsmaður áfengis, hafi verið mjög ábatasöm og félaginu hagkvæmari, en þegar innflutningur og dreifing hafi hafist, enda hafi þá tekið við annars konar starfsemi, þar sem hagnaður hafi verið hlutfallslega miklum mun minni.

          Þegar litið sé til ársreikninga sem fyrir liggi beri allt að sama brunni.  Stefnandi virðist hafa farið mjög hægt af stað með innflutning og heildsöludreifingu að því leyti sem unnt sé að ráða af þeim og rekstarrreikningum skiptum eftir deildum.  Stefndi byggir á því að skipting rekstrargjalda, t.d. stjórnunar- og sölukostnaðar, í áfengishlutanum fái þar alls ekki staðist og hagnaðartölur vegna innflutnings og sölu á áfengi séu því stórlega ofmetnar. Á árinu 1996 aukist sölu- og umboðslaunatekjur af áfengi samkvæmt ársreikningi, en ekki sé að finna sundurliðun á því, þ.e. hve stór hluti sé vegna umboðslauna og hve hár vegna sölu.  Kostnaður samfara þessari aukningu sé mjög mikill.  Tölur sýni að hagnaður vaxi ótrúlega lítið miðað við svo aukna veltu.  Tekjur félagsins hafi aukist nokkuð árið 1997, en hagnaður vaxið lítið samanborið við aukna veltu. Á árinu 1998 hafi bersýnilega orðið alger umskipti í rekstri félagsins með verulega aukinni veltu. Hafi tekjur af vörusölu þá verið 1.394.586.693 krónur, en 612.265.849 krónur árið áður, en samkvæmt deildauppgjöri sé vörunotkun í áfengisdeild þrefölduð frá 1997 til 1998. Miðað við þennan mikla vöxt í tekjum og veltu stefnanda verði í raun sáralítil aukning í heildarhagnaði félagsins og leiða megi að því líkur, þegar litið sé til ýmiss konar stofnkostnaðar, aukinnar áhættu og útgjalda vegna svo breyttrar starfsemi, að í raun hafi hin breytta starfsemi stefnanda yfir í sjálfstæða áfengisverslun ekki skilað hagnaði. Stóraukin rekstrargjöld og kostnaður við fjárfestingar eins og t.d. vaxtagjöld séu að öllum líkindum bein afleiðing breyttrar starfsemi. Ársreikningar félagsins sýni því svo að ekki verði um villst að hagnaður miðað við veltu í innflutningi og heildsöludreifingu áfengis út árið 1998 hafi verið hlutfallslega mun minni en fyrr.

Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á tómlæti stefnanda.  Ekkert erindi hafi komið frá stefnanda á þessu 23 mánaða tímabili frá því að EES-samningurinn tók gildi til 1. desember 1995. Virðist stefnandi engar fyrirætlanir hafa haft um nokkrar ráðstafanir í þá veru að hefja innflutning eða heildsöludreifingu áfengis. Félagið hafi ekki heldur lýst væntingum sínum byggðum á EES-samningnum gagnvart stefnda. Hefði stefnanda verið það í lófa lagið, ef hann hefði haft slíkar væntingar, að höfða dómsmál strax og EES-samningurinn var lögleiddur, að fá úr því skorið hvort félaginu væri heimilt á grundvelli EES-samningsins og lagagildis hans að hefja innflutning eða heildsöludreifingu áfengis strax 1. janúar 1994. Þannig hafi stefnandi ekki neytt tiltækra réttarúrræða, hvorki þá né síðar, að freista þess að afla sér heimildar eða takmarka eftir atvikum ætlað tjón sitt, sbr. hrd. 1994, bls. 79.  Það hafi ekki verið fyrr en sex og hálfu ári eftir að EES-samningurinn tók gildi og fjórum og hálfu ári eftir að innflutningur og heildsölu­dreifing áfengis hafi verið gefin frjáls með lögum sem stefnandi hafi sent stefnda bréf það sem fyrr greinir.

Stefndi telur bótakröfur stefnanda vera byggðar á aðferðum sem í engu fái samrýmst almennum reglum skaðabótaréttar um orsakasamband og afleiðingu og hann hafi ekki sýnt fram á að hvaða marki rekstrartjón kunni að njóta verndar skaðabótareglna. Skilyrðum til stofnunar bótaskyldu sé því ekki fullnægt.

Einkaréttur í smásölu hafi verið og sé lögmætur og óumdeildur. Á hinn bóginn hafi stefnandi með engu móti sýnt fram á að áfengistegundir sem hann hafði umboð fyrir, hafi í raun mætt einhverjum hindrunum við að komast á markað, en þar hafi eftirspurn ráðið. Hafi stefnandi ekki sýnt fram að einkarétturinn til innflutnings hafi verið framleiðsluvörunum eða framgangi þeirra á markaði fjötur um fót. Hafi stefnandi engin raunveruleg dæmi nefnt um að viðkomandi tegundir hafi þokað fyrir sambærilegri innlendri framleiðslu vegna einhverra þeirra ástæðna sem ekki gætu samrýmst ákvæðum EES-samningsins. Í ljósi þess byggi stefndi á því að einkaréttur á heildsöludreifingu, t.d. til veitingahúsa þangað sem stefnandi dreifi nú, hafi á engan hátt verið ósamrýmanlegur ákvæðum EES-samningsins. Í raun hafi eina breytingin orðið sú, að stefnandi hafi tekið um síðir yfir hluta af starfsemi sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi áður haft með höndum. Áhrifin hafi verið þau að í stað þess að hagnast verulega áfram á umboðsmennsku hafi stefnandi farið út í erfiðari og umfangsmeiri starfsemi sem hlutfallslega hafi skilað honum margfalt minni hagnaði.

Auk þess bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki átt sérstakt tilkall frekar en aðrir menn eða lögaðilar að hefja innflutning eða heildsöludreifingu áfengis fyrir það eitt að fyrirtækið hefði einhvers konar umsýslu í tengslum við áfengisinnflutning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Stefndi byggir á því að engum bótagrundvelli sé til að dreifa og að stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjón. Þannig hefur stefnandi ekki sýnt fram á að grundvallarskilyrði skaðabótaskyldu um orsakatengsl, sennilega afleiðingu og tjón séu fyrir hendi. Hæstiréttur Íslands hefur þegar dæmt að við þær aðstæður að bótaskylda komi til álita á grundvelli EES-reglna eða laga nr. 2/1993 sé það alfarið á valdi íslenskra dómstóla að meta hvort og að hve miklu leyti hún geti verið raunhæf, þ.e. hvort bótaábyrgð njóti fullnægjandi lagastoðar í íslenskum rétti. Um hugsanlegan bótarétt fari þá samkvæmt almennum reglum um bótaábyrgð hins opinbera.

Álit EFTA-dómstólsins sé aðeins ráðgefandi álit, en ekki bindandi fyrir innlenda dómstóla. Stefndi byggir á því að í málinu verði ekki fram hjá því litið, að því marki sem reynt geti á lögfestan þjóðréttarsamning, að til skoðunar komi lögskýringargögn, þ.e. greinargerð með frumvarpi að lögum um Evrópska efnahagssvæðið. Styðji þau ótvírætt það sjónarmið að fyrirvari sá sem Norðurlandaþjóðirnar innan EFTA hafi gert vegna ríkiseinkasölu leiði til þess að útilokað sé að telja skaðabótaskyldu hafa stofnast við það að einkaréttur hafi ekki verið afnuminn fyrr en í desember 1995.  Dómur Hæstaréttar frá árinu 1999 bls. 4916 í dómasafni réttarins, sé skýr um þetta, þ.e. að þrátt fyrir að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins verði höfð til hliðsjónar, leiði 2. gr. stjórnarskrárinnar til þess að íslenskir dómstólar verði að skera úr um hvort bótaábyrgð njóti fullnægjandi lagastoðar að íslenskum rétti. EES-samningurinn hafi verið gerður með þessum fyrirvara og hann lögleiddur einnig með þessum fyrirvara um skýringu einstakra ákvæða með tilliti til ríkiseinkasala ef til úrlausnar dómstóla kæmi um slík álitamál.

Skilyrði fyrir beitingu sakarreglunnar séu, samkvæmt framansögðu ekki fyrir hendi, þ.e. hvorki ásetningur, gáleysi, sennilegar afleiðingar né orsakasamband. Þá sé engin stoð fyrir bótakröfum stefnanda í ákvæðum EES-samningsins eða lögum nr. 2/1993.

Álit EFTA-dómstólsins að því er tekur til ráðagerða um bótaskyldu hefur að mati stefnda hverfandi þýðingu.  Í fyrsta lagi hafi álitsins verið aflað undir áhrifum málareksturs sem á ýmsan hátt sé ólíkur máli þessu, hvað varði kröfugerð, þá vörutegund sem krafan skírskoti til og fleiri atriða. Í öðru lagi sé að finna í niðurlagi álitsins ráðagerð um það hvernig bótareglur landsréttar megi vera, þótt EFTA-dómstóllinn komist að sjálfu sér að þeirri niðurstöðu að um það fari að landsrétti. Álitið fái að þessu leyti ekki staðist fordæmi Hæstaréttar. Niðurlagið í álitinu um þetta sé þó óljóst en virðist eiga við um kröfur af erlendum uppruna samanborið við „hliðstæðar innlendar kröfur“. Ef svo sé geti álitið heldur ekki stutt málatilbúnað stefnanda af fyrrgreindum ástæðum.  Í þriðja lagi felist í niðurstöðu EFTA-dómstólsins veigamiklir fyrirvarar við bótaskyldu af þeirri augljósu ástæðu að eiginleg bótakrafa hafi ekki verið til úrlausnar þar ytra. Álit um að bótaskyldu sé til að dreifa að skilyrðum bótaréttar uppfylltum hljóti að teljast markleysa.

Við samningsgerðina um EES-samninginn hafi verið gerðir skýrir fyrirvarar í þá veru að fullveldi EFTA-ríkjanna yrði ekki skert með samningnum. Þannig sé laga­setningarvald ekki framselt til stofnana EES og komi það skýrt fram af aðfararorðum samningsins, 8. gr. og bókun 35. gr. Lögleiðing meginmáls EES-samningsins, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið sé sett til að uppfylla skuldbindingu þá sem ríkin hafi undirgengist samkvæmt 7. gr. EES-samningsins til að innleiða reglu í landsrétt og sú skýringarregla sem er í 3. gr. laganna sé til komin vegna þeirra ákvæða í bókun 35 með honum, að ríkin skuldbindi sig til, ef þörf krefur, að setja lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum þar sem komi til árekstra milli EES-reglna og annarra laga. Í dómi EFTA-dómstólsins í málinu E-1/94 hafi bókun 35 verið túlkuð svo að hún fæli í sér skyldu EFTA ríkjanna til að veita þeim EES-reglum forgang, sem taldar yrðu nægilega skýrar og óskilyrtar til þess að hafa bein réttaráhrif að EB rétti. Það sé því ljóst að skýringarregla 3. gr. laga nr. 2/1993 eigi ekki við, nema ótvírætt sé að svo standi á.

Á því er byggt af hálfu stefnda að bótaskylda hans vegna innleiðingar EES-samningsins sjálfs sé ekki fyrir hendi þegar af þeirri ástæðu að bótaskylda geti ekki fylgt því að hrinda samningnum sjálfum í framkvæmd. Á hinn bóginn geti bóta­skylda fylgt afleiddri löggjöf, þ.e. ef sú löggjöf sé í andstöðu við skýr og ótvíræð fyrirmæli EES-samningsins. Sjónarmiðum um skaðabótaskyldu ríkis vegna tjóns sem einstaklingur verður fyrir vegna vanefnda á skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum hafi ekki verið hreyft við undirritun EES-samningsins eða gildistöku 1. janúar 1994. Þvert á móti hafi ekki verið gert ráð fyrir að slík skaðabótaskylda væri fyrir hendi þar sem litið hafi verið á EES-samninginn sem þjóðréttarsamning. Það sé ekki fyrr en með dómaframkvæmd EFTA dómstólsins sem reglan um skaðabótaskyldu ríkisins fari smám saman að mótast og sé fyrst kveðið skýrt á um hana í máli E-9/97 frá 1998. Þar hafi fyrst verið kveðið á um að EES-samningurinn sé þjóðréttarsamningur sérstaks eðlis, sem fæli meðal annars í sér skaðabótaskyldu gagnvart einstaklingum. Stefndi leggur áherslu á að málsatvik sem kröfur stefnanda séu reist á hafi átt sér stað á tímabilinu 1994 til 1995. Á þeim tíma hafi legið ljóst fyrir að EES-samningurinn fæli ekki í sér skaðabótaskyldu til handa einstaklingum vegna vanefnda á skuldbindingum samningsins. Að mati stefnda verði að horfa til þess réttarástands sem hafi verið við lýði á árunum 1994 til 1995, þ.e. hvernig EES-samningurinn hafi verið almennt túlkaður og lögskýrður á þeim tíma, en ekki til þess hvernig samningurinn sé túlkaður nú, 10 árum eftir að málsatvik áttu sér stað. Það sé í samræmi við þá meginreglu landsréttar, að dæma beri eftir þeim lögum sem í gildi voru þegar málsatvik áttu sér stað, sbr. að því leyti meginreglu skaðabótalaga nr. 50/1993 og breytinga á þeim.

                Þótt ekki yrði á það fallist að skýring innlendra laga leiði þegar til þess að enginn bótagrundvöllur sé fyrir hendi, byggir stefndi á eftirfarandi atriðum varðandi þau þrjú skilyrði sem EFTA-dómstóllinn hefur litið til.

                Fyrsta skilyrðið sé að reglan sem brotin sé mæli fyrir um rétt til handa einstaklingum sem þeir geta sótt fyrir dómstólum landsins. Hér vísar stefndi í fyrsta lagi til stöðu stefnanda. Félagið hafi ekki sjálfkrafa átt tilkall til þess að hefja innflutning og dreifingu áfengis enda hafi það ekki rekið slíka starfsemi heldur sinnt umboðsmennsku sem í raun hafi verið annars konar starfsemi en innflutningur og dreifing. Stefnandi geti því ekki sótt rétt á grundvelli 16. gr. EES-samningsins.

                Samkvæmt dómafordæmum EFTA dómstólsins verði reglan sem um ræðir að vera nægilega skýr og óskilyrt til að fyrsta skilyrðið sé uppfyllt. Með hliðsjón af þeirri óvissu sem hafi ríkt um stöðu áfengiseinkasala á Norðurlöndum og víðar í Evrópu, á þeim tíma sem EES-samningurinn öðlaðist gildi, og á því tímabili sem mál þetta nái yfir, telur stefndi að ekki sé hægt að líta svo á að 11. og 16. gr. EES-samningsins hafi, á þeim tíma, verið nægilega skýr og óskilyrtar til þess að á þeim væri hægt að grundvalla skaðabótakröfu.

          Stefndi mót­mælir því að telja megi viðhald á einkarétti innflutnings á áfengi á Íslandi eftir gildistöku EES-samningsins feli í sér nægilega alvarlegt brot til að leiða til skaðabótaskyldu, að því gefnu að önnur bótaskilyrði séu uppfyllt. Stefndi ítrekar í þessu sambandi að við innleiðingu á EES-samningnum í íslenskan rétt, með gildistöku laga nr. 2/1993, í byrjun árs 1994 hafi réttarstaðan varðandi áfengi verið óglögg, a.m.k. hafi stefndi ásamt öðrum þjóðum gert fyrirvara þar um, sbr. yfirlýsingu ríkisstjórna Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Í bókun 8 um ríkiseinkasölur sem fylgdi EES-samningnum komi fram að ákvæði 16. gr. skyldu koma til framkvæmdar eigi síðar en 1. janúar 1995 vegna viðskipta sem fram færu vegna eftirfarandi ríkis­einkasala í Austurríki, Íslandi, Sviss og Liechtenstein á tilteknum vörum sem þar greinir. Það að áfengiseinkasölur hafi ekki verið tilgreindar í bókuninni sýni að ekki hafi verið gerð skýr krafa um að afnema skyldi áfengiseinkasölur eða samræma þær nánar samningnum. Ef það hefði verið ætlunin hefði verið eðlilegt að þær hefðu verið settar undir sama hatt og einkasala á Íslandi á tilbúnum áburði.

                Samkvæmt framansögðu sé ljóst að EFTA ríkin hafi ekki haft ástæðu til að ætla að nýja stefnu þyrfti þegar að taka upp í áfengismálum á umþrættu tímabili. Með dómi uppkveðnum 16. desember 1994 í máli nr. 1/94 hafi EFTA dómsóllin staðfest að vín féllu ekki undir almenn ákvæði EES samninginn og þar af leiðandi ættu 11. og 13. gr. ekki við um vín samkvæmt skýru orðalagi 2. gr. bókunar 8 við EES samninginn um ríkiseinkasölur. Þetta sýni glögglega hve mikil óvissa hafi verið á umræddu tímabili um það hvaða stefnu skyldi taka í áfengismálum og ekki síst hvaða skyldur EES samningurinn leiddi af sér í því sambandi. Því hafi það verið mjög skiljanlegt og í raun fullkomlega forsvaranlegt að ríkisstjórnir EFTA ríkjanna héldu að sér höndum og áttuðu sig betur á stöðunni, en felldu ekki þá og þegar úr gildi ríkiseinkasölur varðandi innflutning, útflutning og heildsölu með áfengi. Í raun hafi það ekki verið fyrr en árið 1997 að endanleg staðfesting hafi fengist á þeirri óvissu þegar dómur féll í máli nr.189/95. Þar hafi m.a. komið fram sú skoðun að ríkiseinkasala yrði að tryggja jafnræði varðandi skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar.

          Líkt og að framan er rakið hafi ríkt veruleg réttaróvissa við gildistöku EES samningsins varðandi einkasölu á áfengi, og sé óraunhæft að ætla að 6. gr. EES samningsins hafi leyst úr þeirri óvissu. Að vísu hafi legið fyrir dómur EB dómstólsins í mál nr. 59/75. Sá dómur hefði hins vegar hvorki verið þýddur né kynntur að neinu marki við lögfestingu samningsins. Ef vilji samningsaðila hefði verið ljós og eindreginn við lögfestingu samningsins þá hefði verið hægt að taka efnisatriði umrædds dóms upp í 16. gr. EES samningsins.  Slíkt hafi ekki verið gert þrátt fyrir áður yfirlýsta stefnu EFTA ríkjanna í áfengismálum. Samkvæmt þessu hafi verið mikil réttaróvissa til staðar.

                Þá beri einnig að geta þess að samkvæmt ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins hafi EES ríki hæfilegan tíma til að aðlaga löggjöf sína, án þess að til skaðabótaskyldu stofnast, þegar dómur EFTA dómstólsins eða dómstóls Evrópubandalagsins hafi orðið til þess að skýra óljósa réttarstöðu á grundvelli EES samningsins. Af þeirri ástæðu einni verði að telja að sá tími sem íslenska ríkið hafi tekið til þess að aðlaga löggjöf sína að EES samningnum sé réttlætanlegur. Þegar í ljós hafi komið að hugsanlega færu umræddar áfengiseinkasölur gegn EES samningnum, sbr. dómur í máli nr. 1/94, hafi íslenska ríkið tekið sér tiltölulega skamman og hæfilegan tíma til þess að aðlaga löggjöfina að niðurstöðunni. Sem fyrr segir hafi frumvarp þess efnis verið lagt fyrir Alþingi í desember 1994, sem síðar hafi orðið að lögum sem tekið hafi gildi 1. desember 1995. Í raun hafi stefndi því gengið fram umfram skyldu í því að breyta löggjöf sinni, enda hafi óvissa ríkt varðandi áfengiseinkasölurnar allt fram til ársins 1997. Með vísan til þessa hafi ekki verið um að ræða vanrækslu á skuldbindingum ríkisins, og því eindregið mótmælt að um alvarlega vanrækslu hafi verið að ræða.

Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sé komist að þeirri niðurstöðu að einkaréttur til heildsöludreifingar sé ekki eftir eðli sínu ósamrýmanlegur EES-samningnum. Síðan sé því hreyft að komist héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að einkarétturinn hafi verið framkvæmdur þannig að vörur fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum hafi sætt lakari viðskiptakjörum en innlendar vörur verði að líta svo á að einkaréttur til heildsöludreifingar hafi verið andstæður 16. gr. EES-samningsins.

          Stefndi mótmælir því, að einkaréttur til heildsöludreifingar feli í raun í sér einkarétt til innflutnings og um sé að ræða óaðskiljanlega heild. Stefndi byggir á því að einkaréttur sá til heildsöludreifingar, sem var við lýði fram til 1. desember 1995, hafi verið framkvæmdur þannig að fullkomins jafnræðis hafi verið gætt milli innfluttra vara og innlendrar framleiðslu. Í skilningi 16. gr. EES-samningsins hafi því enginn greinarmunur verið gerður á milli innfluttra vara eða innlendrar framleiðslu og einkarétturinn því ekki verið andstæður 16. gr. Reglur um innkaup og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum birgja, dags. 10. febrúar 1994, hafi tryggt að sömu reglur giltu um birgja áfengis hvort sem um innflutta vöru eða innlenda framleiðslu var að ræða. Stefndi leggur áherslu á að stefnandi hefur ekki gert tilraun til að sýna fram á með dæmum eða á annan hátt að einhver tormerki hafi verið á því að hugsanlegir umbjóðendur hans á umræddum tíma eða stefnandi kæmu áfengi í sölu hér á landi.

                Stefndi byggir á því að gera verði skýran greinarmun á einkarétti á innflutningi og einkarétti á heildsöludreifingu. Í áliti EFTA dómstólsins sé skýrt greint á milli þessara tveggja þátta. Samkvæmt dómafordæmum Evrópudómstólsins gildi ólíkar reglur eftir því hvort um einkarétt til innflutnings eða til heildsöludreifingar sé að ræða, þar sem sá síðarnefndi sé eftir eðli sínu ekki ósamrýmanlegur 16. gr. EES. Einkarétturinn til innflutnings hafi verið skýrt aðskilinn frá einkarétti til heildsöludreifingar. Innkaupareglur hafi tryggt að sömu reglur giltu um innlenda framleiðslu og innflutta vöru. Aðgengi að markaðnum hafi því verið algjörlega óháð uppruna vörunnar. Ekki sé því hægt að halda því fram að vörur fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum hafi sætt lakari viðskiptakjörum en innlendar vörur og þar af leiðandi geti einkarétturinn á heildsöludreifingu ekki talist andstæður 16. gr.

                Stefndi byggir á því að sönnunarbyrði til að sýna fram á að innfluttar vörur hafi á umþrættu tímabili sætt lakari viðskiptakjörum en innlend framleiðsla, hvíli ótvírætt á stefnanda. Að mati stefnda hafi stefnandi ekki sýnt fram á slíka mismunun og engin dæmi nefnt í tengslum við rekstur félagsins sérstaklega. 

                Stefndi mótmælir því að ekkert aðgengi hafi verið að markaðnum hér á landi fyrir áfengi annað en það sem fyrir var, á tímabilinu frá 1. janúar til 1. júlí 1994. Áðurnefndar innkaupareglur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hafi gengið í gildi 1. mars 1994 og hafi fyrir þann tíma verið kynntar öllum umboðsmönnum og birgjum. Að mati stefnda hafi því aðgengi að markaðnum verið opnað frá og með 1. mars 1994. EES-samningurinn hafi öðlast gildi 1. janúar 1994 og á þeim tíma verið mikil óvissa um áfengiseinkasölur.  Á grundvelli innkaupareglnanna hafi fyrstu áfengistegundirnar verið teknar inn í sölu frá og með 1. júlí 1994. Tíminn frá 1. mars til 1. júlí 1994 hafi verið nauðsynlegur fyrir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til að undirbúa og koma í framkvæmd þeim breytingum sem kynntar hafi verið með innkaupareglunum. Að mati stefnda hafi þessi aðlögunartími verið hæfilegur og fyllilega eðlilegur. Ekki sé því haldið fram af hálfu stefnanda að innkaupareglurnar hafi verið ómálefnalegar.

                Stefndi bendir jafnframt á að stefnandi hafi verið umboðsmaður á áfengismarkaði fyrir 1994 og því liggi ekki beint við að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni meðan á aðlöguninni stóð, fyrstu mánuðina 1994, þar sem vörur hans hafi verið til sölu á markaðnum á sama tíma. Hvergi komi fram að hann hafi án árangurs reynt fyrir hönd erlendra birgja að koma vörum í sölu en ekki fengið á þessum tíma.

          Að mati stefnda misskilji stefnandi eðli virðisaukaskatts og sambandi hans við 10. og 14. gr. EES samningsins.  Samkvæmt 34. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, skuli virðisaukaskattur innheimtur af tollverði vöru að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð, við innflutning hennar.  Um ákvörðun tollverðs gildi ákvæði þar að lútandi í tollalögum nr. 55/1987. Sams konar reglur gildi í öllum nágrannalöndum Íslands.  Meginregla virðisaukaskattslaga um skattverð sé sú að þegar vara eða þjónusta sé afhent gegn endurgjaldi miðist skattverð við heildarendurgjald. Skatturinn sé því viðbót við það verð sem seljandi setji upp fyrir viðkomandi vöru. Fyrirkomulag virðisaukaskattskerfisins, sem sé í samræmi við sjöttu virðisaukaskattstilskipun ESB, geti á engan hátt talist brjóta í bága við 10. eða 14. gr. EES samningsins. Skatturinn sé hlutlaus og leggist jafnt á innflutta vöru sem innlenda framleiðslu.

                Stefndi tekur fram að gjald hafi verið lagt á um 40 sölutegundir, en sölutegundir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hafi þá verið um 650.  Meðal þessara sölutegunda séu 5 sölutegundir sem stefnandi telji sig hafa haft umboð fyrir. Varðandi vörugjald vísar stefndi til gjaldskrár fyrir hafnir nr. 331 frá árinu 1993. Almennar gegnsæjar og hlutlausar reglur sem gilt hafi fyrir alla innflytjendur hafi því verið til staðar. Í engu tilliti hafi verið um að ræða hindranir eða brot á ákvæðum EES-samningsins. Álagning og innheimta gjalda af áfengi á umræddu tímabili hafi lagst jafnt á innfluttar vörur og innlenda framleiðslu og enginn greinarmunur gerður hvað snerti skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara. Skilyrði 16. gr. EES-samningsins hafi því að fullu verið uppfyllt.

                Loks er áréttað af hálfu stefnda að á þessum tíma hafi léttvín ekki verið framleidd á Íslandi til sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Vangaveltur stefnanda um að hallað hafi á innflutning vegna umboðslauna á léttvín séu því haldlausar.

                Stefndi byggir á því að í lögum nr. 95/1995, um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum, hafi verið felld niður sú krafa að allar vörur, sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins seldi, skyldu merktar með nafni verslunarinnar eða merki hennar. Frumvarpið sem varð að lögum nr. 95/1995 sé efnislega samhljóða frumvarpi sem lagt hafi verið fram árið 1994 en ekki tekist að afgreiða fyrir þinglok. Með hliðsjón af þessum vilja löggjafans hafi engar kröfur verið gerðar um merkingar áfengis af hálfu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í innkaupareglunum, sem tóku gildi 1. mars 1994.  Í raun hafi því engin merkingarskylda verið frá og með gildistöku innkaupareglnanna, svo sem síðar hafi verið staðfest með lögum nr. 95/1995. Burtséð frá því hefði slík merkingarskylda ekki getað talist tæknileg viðskiptahindrun í skilningi 11. gr. EES-samningsins, þar sem hún hefði náð jafnt til innlendra framleiðanda sem erlendra, þ.e. óháð uppruna vörunnar. 

          Stefndi mótmælir sérstaklega málsástæðum stefnanda varðandi sérpöntunargjald og merkingagjald. Hvergi sé nefnt í stefnu að stefnandi hafi sérpantað vörur eða að einhverjar hinna 102 vörutegunda sem verið hafi í sölu hafi verið sérpantanir. Þá hafi ekki verið lagt á merkingargjald eftir að innkaupareglur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins komu til. Fram að þeim tíma hafi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins merkt innflutt áfengi á sinn kostnað ef það kom ómerkt til landsins. Af þessum ástæðum sé ósannað að stefnandi hafi vegna þeirra vara sem hann grundvallar kröfur sínar á nokkru sinni greitt merkingagjald.

                Í stefnu sé því haldið fram að bann við áfengisauglýsingum, sbr. 16. gr. áfengislaga nr. 82/1969, á tímabilinu 1. janúar 1994 til og með 30. nóvember 1995 hafi verið þess eðlis að það takmarkaði í ríkari mæli möguleika til að koma á markað framleiðsluvörum frá öðrum EES ríkjum en innlendum framleiðsluvörum. Bann við áfengisauglýsingum, eins og það hafi verið og sé sett fram í íslenskum áfengislögum, mismuni ekki á neinn hátt innlendri framleiðslu og innfluttri vöru. Bann við auglýsingum þrengi almennt markaðssetningu áfengis, jafnt innlends og erlends.  Hafi verið staðfest af Hæstarétti lögmæti slíks banns.  Frekar hafi hallað á innlenda framleiðslu að þessu leyti, þar sem sú undantekning hafi verið við lýði í áfengislögum að bannið hafi ekki náð til erlendra tímarita, sbr. 16. gr. laga nr. 82/1969 og 3. gr. reglugerðar nr. 62/1989, síðar 16. gr. a, sbr. lög nr. 94/1995 og nú 4. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Auglýsingar í erlendum fjölmiðlum með erlendu áfengi, tímaritum og sjónvarps­útsendingum, hafa þannig streymt yfir landamærin á kostnað innlendrar framleiðslu.

          Stefndi telur ekki tækt, sökum mikillar vinnu, að verða við áskorun stefnanda um að leggja fram upplýsingar um hvaða vörur hafi verið óskað eftir að kæmu í sölu í smásöluverslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tímabilinu 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995 og hvaða afgreiðslu hver vörutegund fyrir sig hafi fengið, enda alls ekki öruggt að þær vörur sem sótt hafi verið um að kæmu til sölu hafi síðar verið settar í sölu. Þessar upplýsingar væru því ekki alveg marktækar um það hvaða vörur hafi í raun og veru verið seldar í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á umþrættu tímabili. Til staðar hafi verið innkaupareglur sem farið hafi verið eftir. Mótmælir stefndi því sem röngu og ósönnuðu að innlend framleiðsla hafi átt greiðari aðgang að útsöluverslunum en innflutt.

                Stefndi kveður að einu innkaupaskilmálarnir hafi verið þeir sem fram komi í áðurnefndum innkaupareglum, en þær fjalli um skilmála í viðskiptum birgja.

          Stefndi telur reglur um sölueiningu bjórs í smásölu og skilaskyldu ekki hafa falið í sér aðgangshindrun fyrir innflutt áfengi.  Umræddir skilmálar í innkaupareglunum hafi verið hlutlausir gagnvart uppruna vöru og gert sömu kröfur til innlendrar framleiðslu og innfluttrar vöru. Að baki liggi þau málefnalegu rök að erfitt væri og áhættusamt fyrir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að bjóða birgjum upp á reynslusölu ef fyrirtækið þyrfti sjálft að sitja uppi með vörur sem  ekki seldust.

          Stefndi kveður að einungis ein bjórtegund, San Miguel, sem stefnandi hafi haft með að gera á því tímabili sem gjald hafi verið lagt á innfluttan bjór, hafi fyrst komið í sölu í desember 1994, en gjaldið hafi verið fellt niður 1. maí 1995.  Stefnandi hafi ekki sótt um að koma öðrum bjórtegundum í sölu.  Samkvæmt gögnum málsins hafi því stefnandi að mestu leyti verið í fyrirsvari með aðrar áfengistegundir til sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og leiða megi líkum að því að það gjald hafi örvað sölu á þeim áfengistegundum og því ekki skilyrði fyrir bótaskyldu. Líkur séu því á að gjaldið hafi verið til hagsbóta fyrir rekstur stefnanda.  Telur stefndi og að með hliðsjón af stöðu mála á umræddu tímabili, þeirri óvissu sem ríkt hafi um heimildir ríkisstjórna til áfengiseinkasölu og skattlagningar á áfengi, sbr. með hliðsjón af 13. gr. EES samningsins, sé því ekki hægt að líta á umrætt 35% álag sem tæknilega viðskiptahindrun. Jafnvel þótt fallist yrði á að umrætt 35% álag fram til 1. maí 1995 fæli í sér mismunun sem andstæð yrði talin við ákvæði 10. eða 14. gr. EES samningsins, sbr. 11. og 16. gr. hans, hafi stefnandi ekki sýnt fram á að það fyrirkomulag hafi í raun haft áhrif eða geti skipt máli varðandi kröfur hans. Þrátt fyrir að umrædd bjórtegund hafi verið tekin í sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins frá og með 1. desember 1994 þá liggi fyrir að stefnandi hafi ekki hafið innflutning eða dreifingu á henni fyrr en vorið 1998.  Þess vegna sé því ekki hægt að halda fram að það hafi verið hið tímabundna 35% álag sem gert hafi það að verkum að stefnandi stóð ekki að innflutningi eða dreifingu bjórs.

          Stefndi kveður, að allt áfengi, þ.m.t. bjór, hafi verið skattlagt eftir vínandainnihaldi að frátöldum fyrstu 2,25%, á umræddu tímabili. Vegna skattfrelsis fyrstu 2,25% hafi vínandaprósenta í 5% bjór verið skattlögð mun vægar en í 40% vodka. Eigi þetta bæði við um innlenda framleiðslu sem erlenda og því vandséð að magngjald svipti innflytjendur samkeppnislegu forskoti.

          Stefndi mótmælir því að verðlagningareglur hafi ekki komið jafnt niður á innflytjendum sem innlendum framleiðendum, en ákvæði 3. gr. laga nr. 63/1969 hafi verið algjörlega óháð því hvort um var að ræða innflutta vöru eða innlenda framleiðslu.

          Stefndi kveður sérpöntunarreglur á umþrættu tímabili hafa verið gagnsæjar og skýrar og því ekki falið í sér viðskiptahindrun í skilningi 11. gr. EES-samningsins.  Stefndi byggir á því að líta verði til þess hvernig EES-samningurinn hafi verið túlkaður á umþrættu tímabili og vísun stefnanda til nýlegra athugasemda Framkvæmdastjórnar ESB eigi því ekki við um umræddar sérpöntunarreglur ÁTVR. Samkvæmt almennum innkaupareglum Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé gert ráð fyrir sölu áfengis í svonefndum kjarna eða reynslusöluflokki. Sérpöntunarþjónustan hafi því eingöngu verið hugsuð sem aukin þjónusta gegn gjaldi til að mæta sérstökum óskum en aldrei hugsuð sem einhver raunhæf leið í markaðsfærslu á áfengi hér á landi.

          Stefndi kannast ekki við það að neitt hámarksáfengismagn hafi verið á áfengi á því tímabili sem hér um ræðir. Fullyrðingum stefnanda þar að lútandi sé því mótmælt. Aðeins í þau skipti þegar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi óskað eftir tilboðum frá erlendum ölframleið­endum, hafi stærð umbúða verið tilgreind og hvert hámark og lágmark vínanda skyldi vera, en umrædd útboð hafi verið langt fyrir utan það tímabil sem hér um ræði. Stefndi kveður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafa byrjaði að selja bjór í 50 cl umbúðum í september 1993. Í janúar 1995 hafi fyrst verið sótt um að koma 5,8% bjór í sölu og sú sala hafi hafist í maí sama ár. Stefnandi hafi aldrei sótt um að koma á markað sterkari bjór en 5,4% á því tímabili sem hér um ræðir.

          Stefndi kveður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafa sinnt eftirlitshlutverki fyrir hönd stefnda, en ekki fengið greitt fyrir þau störf.  Eftirlitið hafi verið liður í að draga úr líkum á undanskoti skatta og tryggja að dreifing vörunnar yrði á vegum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.  Mótmælir stefndi öllum vangaveltum stefnanda um að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi á einhvern hátt hyglað innlendri framleiðslu. Þá er fullyrðingu um að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi sinnt átöppun fyrir innlenda framleiðendur mótmælt sem rangri, en fyrirtækið hafi ekki sinnt neinni slíkri þjónustu.

                Í stefnu hafi verið skorað á stefnda að upplýsa nákvæmlega um hve langur gjaldfrestur hafi verið veittur á greiðslu virðisaukaskatts af áfengi framleiddu hér á landi. Stefndi bendir á að seljanda sé frjálst að veita kaupanda hvern þann gjaldfrest sem hann kjósi. Veittur gjaldfrestur breyti hins vegar engu varðandi skyldur seljanda til að standa ríkissjóði skil á þeim virðisaukaskatti sem honum beri að innheimta.  Engar sérreglur hafi verið um gjaldfrest á greiðslu virðisaukaskatts vegna innlendrar framleiðslu á áfengi og gilt ákvæði virðisaukaskattslaga um þá framleiðslu. Hins vegar hafi gilt sérstakar reglur um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli vegna innflutnings, sbr. reglugerð nr. 640/1989, um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli.

Stefndi mótmælir því eindregið að brotið hafi verið gegn 1. og 2. mgr. 59. gr. eða 54. gr. EES-samningsins. Ákvæði 54. gr. fjalli um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Ekki sé unnt að gefa sér að ríkiseinkasala sé út af fyrir sig brot á ákvæðinu, sbr. orðalag 16. gr. samningsins. Skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara hafi verið uppfyllt á umþrættu tímabili, sbr. innkaupareglurnar frá 10. febrúar 1994, sem tekið hafi gildi 1. mars 1994.  Reglurnar hafi verið kynntar umboðsmönnum áfengis.  Engar athugasemdir hafi borist, hvorki frá stefnanda né öðrum birgjum áfengis. Eins og sjá megi af yfirliti af umsóknum á reynslulista hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi fyrstu umsóknir um að selja Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins áfengi á grundvelli umræddra reglna borist frá stefnanda þann 4. mars 1994. Stefnandi hafi því verið meðal þeirra fyrstu sem óskað hafi eftir viðskiptum samkvæmt reglunum. Þá liggi fyrir samkvæmt verðskrá Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins frá 1. mars 1995 að umræddar tegundir hafi farið í sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins seinni part árs 1994, en nýjar vörur hafi komist í sölu frá og með 1. júlí. Ástæða þess að nokkur tími hafi liðið frá innlagningu umsóknar þar til vara fór í sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi verið sú að framleiðendur hafi oftast þurft að fá tíma áður en varan hafi verið tiltæk til sölu.               Birting innkaupareglnanna í Stjórnartíðindum hafi verið umfram skyldu. Við setningu innkaupareglna Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hafi þær reglur sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins byggði sín innkaup á, verið gegnsæjar og hlutlausar.

Í ljósi framangreinds byggir stefndi sérstaklega á því að stefnandi hafi á engum stigum sýnt fram á að þær vörutegundir sem hann kveðist hafa haft umboð fyrir hafi í raun mætt þeim hindrunum sem meginreglur EES-samningsins sé ætlað að sporna gegn.

Varðandi 11. gr. EES-samningsins byggir stefndi á því að samkvæmt 13. gr. samningsins komi ákvæði 11. gr. ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Með hliðsjón af þeirri óvissu sem ríkt hafi um áfengiseinkasölur á umþrættum tíma og þess fyrirvara sem gerður hafi verið af hálfu Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar og bókun 8 við EES-samninginn, verði einnig að taka tillit til undanþágunnar í 13. gr. við mat á því hvort einkaréttur ríkisins á innflutningi og dreifingu hafi í raun á umræddum tíma verið andstæður 11. gr. og 16. gr. Þegar ákvæðin séu lesin saman beri að líta svo á að framkvæmd einkaréttar stefnda á áfengisinnflutningi hafi verið réttlætanlegur.

Þótt stefnandi segist miða aðalkröfu og 1. varakröfu við að hagnaður hafi tapast, þá séu kröfurnar í raun ekki byggðar á slíkum útreikningum heldur virðist þar miðað við einhvers konar ráðagerð um framlegð. Matsgerð sú sem stefnandi byggi á í 2. og 3. varakröfu snerti framlegð en ekki hagnaðarmissi. Stefnandi miði tjón sitt í öllum tilvikum við svonefndan missi framlegðar eða álagningar, en geri ekki tilraun til að sýna fram á hvort hagnaður af rekstri hafi orðið minni. Þegar af þeim ástæðum að kröfur stefnanda séu miðaðar við framlegð eða álagningu gagnrýnislaust, en ekki könnun á ætluðum nettóhagnaðarmissi sé öllum kröfum stefnanda mótmælt sem röngum og órökstuddum. Kröfur stefnanda séu í öllum tilvikum miðaðar við að innflutningur og heildsöludreifing hefjist af fullum krafti frá upphafi auk þess sem krafist sé bóta vegna seinkunar á vexti félagsins. Í báðum tilvikum sé þessum grundvelli krafna mótmælt sem röngum og óraunhæfum auk þess sem ætlað tjón sé í raun tvíreiknað með þessum hætti.

Ekkert liggi fyrir um það hvort hagnaður hefði orðið umfram það sem áður var ef fyrirtækinu hefði verið heimilt að flytja inn áfengi. Sem fyrr segir mótmælir stefndi því að einkaréttur á heildsöludreifingu áfengis hafi verið andstæður EES-samningnum. Að því er varðar einkarétt á innflutningi er áréttað að stefnandi hafi ekki gert tilraun til að leiða að því líkur að hindranir á innflutningi hafi í raun einhverjar verið andstæðar ákvæðum EES-samningnum. Hafi stefnandi ekki reynt að leiða fram sönnun um það hvort hagnaður hefði orðið af slíkri starfsemi umfram þann sem félagið hafði, heldur hafi hann aðeins helmingað óraunhæfan útreikning og óraunhæft mat á tapaðri framlegð vegna þess að hann hafi ekki mátt flytja inn og dreifa áfengi í heildsölu. Að sama skapi sé því engin sönnun komin fram um að hagnaðarmissir geti hafa orðið af völdum einkaréttar á innflutningi.

Stefndi mótmælir sérstaklega kröfum stefnanda að því er varðar ætlað tjón sem félagið reki til þess að dráttur hafi orðið á vexti þess eða til tafa á uppbyggingu. Á sama hátt sé því mótmælt að almennar reglur fébótaréttar leiði til þess að ætlað tjón vegna seinkunar á því að fyrirtæki stækki og vaxi njóti verndar eða að slíkir hagsmunir eða fyrirætlanir geti notið verndar skaðabótareglna. Vöxtur eða umfang hlutafélaga njóti í sjálfu sér ekki eignarréttar- eða skaðabótaréttarverndar. Þá sé ætluðu tjóni að þessu leyti mótmælt af þeirri ástæðu, að fyrir liggi að aukin velta félagsins hafi ekki, þegar á reyndi, leitt af sér aukinn hagnað, heldur þvert á móti.  Stefndi mótmælir því að áform hafi verið hjá stefnanda um að hefja innflutning og heildsöludreifingu áfengis, en engar raunhæfar fyrirætlanir hafi getað legið til þess. Af þeim ástæðum sé ætluð seinkun í stækkun félagsins undir engum kringumstæðum afleiðing af einkarétti stefnda til innflutnings og heildsöludreifingar.

Stefndi mótmælir aðalkröfu stefnanda og 1. varakröfu, að því er varði fjártjón og útreikningur sá sem liggi að baki sé settur fram einhliða af hálfu stefnanda og eftir hugmyndum hans. Þær byggi ekki á hlutlægu mati óvilhallra manna og hafi útreikningnum þar að auki verið hafnað af þeim matsmönnum sem stefnandi hafi látið dómkveðja.

Grundvelli aðalkröfu og 1. varakröfu er mótmælt. Í fyrsta lagi sé krafan fjarstæðukennd þótt ekki væri litið til annars en þess að heildarhagnaður stefnanda árin 1997 og 1998 samanlagt sé aðeins brot af þeirri fjárhæð sem stefnandi telji að hann hafi tapað á tímabilinu frá ársbyrjun 1994 fram undir lok ársins 1995 fyrir hluta starfseminnar. Óþekkt sé að fámennt fyrirtæki á borð við stefnanda, á árunum 1994-1995, hefði áorkað að skila hagnaði í námunda við hugmyndir stefnanda. Heildarhagnaðartölur félagsins almennt, t.d. á árinu 1998, sýni hversu mikil fjarstæða það sé að félagið hefði getað skilað hagnaði af þessari stærðargráðu og það aðeins vegna hluta starfseminnar.

Stefnandi hafi byggt aðalkröfu og 1. varakröfu á þeirri óraunhæfu forsendu að félagið hefði frá upphafi árs 1994 hagnast sem næmi álagningu þeirri sem ákveðin hafi verið einhliða af hálfu fjármálaráðherra. Óraunhæft sé með öllu að gefa sér þá forsendu eftir á, að álagning á áfengi hefði verið með þessum hætti hefði einkarétti til innflutnings og heildsöludreifingar áfengis verið aflétt í ársbyrjun 1994, enda hafi raunin orðið önnur. Telur stefndi augljóst að samspil hafi verið milli fyrri verðlagningar áfengis, sem einhliða hafi verið ákveðin, annars vegar og síðar upptöku áfengisgjalds. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, sem lagt var fyrir Alþingi haustið 1994 og aftur á vorþingi 1995 komi fram að fyrri álagning hafi í raun verið svokallað vínandagjald, þ.e. löggjafinn hafi litið svo á að álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fram að þeim tíma væri fyrst og fremst innheimta á vínandagjaldi. Vilji löggjafans hafi aldrei verið að gefa einkaaðilum hlutdeild í þessari skattlagningu. Þannig sé óraunhæf sú forsenda að baki kröfunni að miða við 60% af álagningu þessari. Stefndi mótmælir því og alfarið að 72. gr. stjórnarskrárinnar styðji á einhvern hátt kröfur stefnanda eða þann útreikning sem hann styðji þær við.

Rökstuðningur fjárkrafna stefnanda sé óraunhæfur af þeim ástæðum einnig að gert sé ráð fyrir að allar tegundirnar seljist á öllu tímabilinu, en fyrir liggi í raun að stefnandi hafi ekki haft bolmagn á þessum tíma eða aðstöðu til að fara út í svo umfangsmikla starfsemi í innflutningi og heildsölu. Þess vegna sé með öllu óraunhæft að líkja sölunni við starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.  Einnig mótmælir stefndi hlutfalli heildsöluálagningar sem allt of háu og telur ótækt að miða skiptingu milli heildsölu- og smásöluálagningar við reynslutölu úr öðru samhengi, 60/40, enda annist Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sjálft birgðahald og smásöludreifingu.  Sú aðferð stefnanda að miða við „tapaðan hagnað“ við álagninguna sé óraunhæf. Aðferð stefnanda við mat á kostnaði á móti sé auk þess fjarstæðukennd og endurspegli ekki þann kostnað sem hefði verið óhjákvæmilegur. Þá sé frádráttur að fjárhæð rúmlega 19 milljónir króna ekki í samræmi við það að greidd umboðslaun hafi numið mun hærri fjárhæðum.

Stefndi byggir á því að matsgerðin hafi ekki áhrif á það að málsástæður stefnda sem áður eru raktar leiði til sýknu af kröfum stefnanda. Stefndi og dómurinn sé óbundinn af matsgerðinni, sbr. einkum ákvæði VI. kafla, 2. mgr. 60. gr. og 66. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi mótmælir og sönnunargildi framlagðrar matsgerðar um ætlað tjón. Í matsbeiðni sé í þremur liðum óskað eftir mati á því hvert hafi verið fjártjón stefnanda rakið til tiltekins tímabils frá 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995, hvert væri fjártjón sem rekja mætti til þess að vexti stefnanda hefði seinkað og í þriðja lagi hvort eitthvert annað tjón væri til staðar vegna réttarbrots stefnda, eins og það hafi verið orðað. Í fyrsta lagi geymi matsbeiðnin tilbúnar forsendur um að tjón hafi orðið og sé matið í raun reist á ábendingum stefnanda og fullyrðingum. Hafi matsmenn t.d. gefið sér að stefnandi hafi ráðist í undirbúning innflutnings og heildsöludreifingar fyrir 1. janúar 1994, án þess að merki þess sjáist í gögnum. Í öðru lagi sé óhjákvæmilegt að benda á að matsgerðin sé ekki í samræmi við matsbeiðnina. Stefnandi hafi óskað eftir mati á fjártjóni.  Matsgerðin virðist hafa farið fram á þeirri forsendu, en eins og ítrekað komi fram í matinu hafi matsmenn tekið til skoðunar að „EBITDA framlegð“ hafi orðið minni eða hún tapast. Ætlað tjón vegna ætlaðs framlegðarmissis, veltu eða álagningar, veiti enga vísbendingu um það hvort hagnaðarmissir eða rekstrartjón í skilningi skaðabótaréttar hafi orðið. Þá gefi matsmenn sér að seinkun hafi orðið á vexti fyrirtækisins, en eins og fyrr greini sé slíkt „tjón“ á engan hátt verndað af skaðabótareglum. Gögn málsins veiti fremur vísbendingu um að umbreyting á starfsemi stefnanda, sem virðist ekki hafa orðið að ráði fyrr en á árinu 1998, hafi haft í för með sér svo aukinn kostnað og fyrirhöfn að hagnaðaraukning í hlutfalli við það hafi engin orðið. Í þriðja lagi sé sá augljósi galli á matsgerðinni, eins og á málatilbúnaði stefnanda að öðru leyti, að lögð séu til grundvallar öll áfengisumboð stefnanda á þessum tíma án nánari skoðunar, t.d. um það hvenær innflutningur og dreifing hafi í raun hafist, og þess hvort þau féllu undir EES-samninginn. Þar sem matsgerðin taki mið af framlegðarmissi, en ekki rannsókn á því hvort hagnaðarmissir hafi orðið eða rekstrartjón sé hvergi skoðað í matsgerðinni hvað nákvæmlega breyttist í áfengisinnflutningi og dreifingu undir lok ársins 1995.

Í matsgerðinni séu ýmsar forsendur gefnar sem ekki fái staðist. Matsmenn virðist gefa sér að félagið hafi á sínum tíma talið að einkarétturinn hefði átt að falla niður strax 1. janúar 1994 og að stefnandi hefði verið kominn vel á veg í undirbúningi. Hvorugt sé rétt eða stutt gögnum.  Svo virðist sem matsmenn gefi sér að innflutningur og dreifing hefði farið af stað með fullum afköstum á fyrsta degi án þess að kannað sé hvort félagið hefði haft til þess getu.  Stefndi fullyrðir að stefnandi hafi ekkert bolmagn haft til að taka að sér, á umræddu tímabili, starfsemi í líkingu við þá sem orðið hafi ekki fyrr en 1997 til 1998 í fyrsta lagi. Matsmenn byggi ekki á sjálfstæðri skoðun sinni á því hvenær félagið hafi í raun ráðist í innflutning og dreifingu á einstökum vörum. Matsmenn setja upp töflu um það hvernig áfengissala hafi þróast á árunum 1992 til 1998, sem sé óraunhæfur samanburður þar sem stefnandi hafi hvorki flutti inn né selt áfengi mestan hluta þessa tímabils. Þannig sé ekki um samanburðar­hæfar aðstæður að ræða. Matsmenn kveði breytingu á tekjum 1995 „væntanlega“ hafa orðið vegna lagabreytingarinnar 1995, án þess að kanna það nánar. Þá sé lagt til grundvallar að þróun félagsins hafi tafist um tvö ár vegna aukningar sem sé mest árið 1998. Þetta sé óraunhæfur samanburður, t.d. í ljósi þess hversu seint stefnandi hafi hafið þessa starfsemi og hins að ekkert verði fullyrt um að stefnandi hefði á árunum 1994 til 1995 orðið jafn umfangsmikill og raun beri vitni 1997 til 1998. Matsmenn styðja síðan mat sitt við fyrirtæki sem einvörðungu hafi verið með áfengisverslun, en það sé ólíkt starfsemi stefnanda.

Matsgerðin geymi í raun aðeins kenningu með því að færa mestu veltu í starfsemi stefnanda, valið tímabil, aftar í tímann, án þess að tekið sé inn hversu mikill stofnkostnaður hljóti að vera samfara svo breyttri starfsemi. Matsgerðin taki ekki til þeirra þátta sem stefndi hafi byggt á.

          Í útreikningum matsmanna sé stuðst við deildauppgjör, sem samið sé einhliða af hálfu stefnanda, en ekki af löggiltum endurskoðanda. Í þessum uppgjörum komi í ljós að á árunum 1996 og 1997 hafi hlutdeild áfengisdeildar í sölu- og stjórnunarkostnaði verið neikvæð, sem geti engan veginn staðist. Þetta séu sömu ár og matsmenn miði við í niðurstöðu sinni um ætlað tap á framlegð 1994 til 1995. Auk þess sé ekki ljóst hvort um sömu vörutegundir sé að ræða í þessum samanburði. Tekjur af umboðslaunum á árunum 1994 til 1995, og raunar síðar, sé og vanmetin.  Þannig sé matsgerðin byggð á upplýsingum sem ekki fái staðist.

Stefndi mótmælir því sérstaklega að unnt sé að vísa til annarra gagna um málsástæður, svo sem fyrri stefnu, einstaka dóma eða álits EFTA-dómstólsins. Ekki geti komið til álita aðrar málsástæður en þær sem komi fram í stefnu, sbr. ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Það geti ekki talist málsástæður að taka orðrétt heila kafla á nokkrum síðum upp úr áliti EFTA-dómstólsins eða öðrum heimildum. Þeim málatilbúnaði er mótmælt.

Stefndi telur að eins og mál þetta liggi fyrir hafi stefnandi alfarið sönnunarbyrði fyrir öllum fullyrðingum um meint tjón, meintan tilkostnað sem hann hafi orðið fyrir og öðru sem varðar bæði bótaskyldu og bótafjárhæð, í samræmi við almennar reglur, ekki síst vegna tómlætis stefnanda. Þá vekur stefndi sérstaka athygli á því að ef um raunverulegt tjón hefði verið að ræða, væri það þess eðlis að hægt væri að reikna það út lið fyrir lið, miðað við þekktar sölutölur viðkomandi áfengistegunda fyrir umþrætt tímabil.  Þar sem stefnandi hafi ekki sinnt því að grundvalla kröfugerð sína á slíkum  sundurliðunum þannig að betur væri hægt að átta sig á henni, verði hann að bera hallann af því, m.a. þannig að ótækt sé að tjón stefnanda sé ákvarðað af dómi samkvæmt mati þegar tölulegri grunnvinnu sé ekki sinnt af hálfu stefnanda.

Aðstæður hafi í raun verið þær að á hinum umþrætta tíma hafi verið um að ræða mjög ábatasama umsýslu í tengslum við áfengi, en löngu síðar starfsemi sem á engan hátt sé sjálfgefið að félag hefði tekist á hendur, þ.e. innflutningsverslun og heildsöludreifingu með áfengi.

Verði ekki fallist á sýknukröfu gerir stefnandi kröfu um stórfellda lækkun á bótakröfum stefnanda. Í því tilviki er vísað til allra mótmæla og málsástæðna sem að framan hafa verið rakin.

Stefndi mótmælir vaxtakröfum stefnanda. Byggir stefndi á tómlæti stefnanda og því að lagastoð bresti fyrir vöxtum við þessar aðstæður. Stefndi byggir einnig á því að vextir eldri en frá 5. desember 1999 séu fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, en málið var höfðað 5. desember 2003.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda, en hún er miðuð við upphafstíma frá 26. júlí 2000. Ekkert rökstutt kröfubréf hafi verið sent 26. júní sama ár og sé málatilbúnaður stefnanda nú reistur á einhliða kröfugerð sem byggð sé á fjarstæðu og matsgerð sem sé ófullnægjandi og háð fjölmörgum óvissuþáttum. Komi til þess að bætur verði dæmdar eigi upphafstími dráttarvaxta að vera frá dómsuppsögu, sbr. 15. gr. eldri vaxtalaga nr. 25/1987 og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

VI

Niðurstaða um ætlað brot stefnda gegn EES-samningnum

          Eins og áður greinir liggur fyrir í málinu ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins 30. maí 2002 í máli nr. E-4/01 sem aflað var samkvæmt 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Álitsins var aflað í tengslum við héraðsdómsmál nr. E-8318/00. Höfðaði stefnandi það mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir sökum þess að honum var óheimilt að flytja inn til landsins og dreifa í heildsölu áfengistegundinni Contreau á tímabilinu 1. janúar 1994 til 30. nóvember 1995. Mál þetta var fellt niður með samkomulagi aðila 16. janúar 2003.

          Í áliti EFTA-dómstólsins kemur fram að það hafi verið andstætt 16. gr. meginmáls EES-samningsins að viðhalda einkarétti íslenska ríkisins á innflutningi á áfengi eftir 1. janúar 1994. Að því er varðar einkarétt á heildsöludreifingu sérstaklega telur dómstóllinn að einkaréttur á heildsöludreifingu sé ekki í eðli sínu ósamrýmanlegur 16. gr. meginmáls EES-samningsins. Er það niðurstaða EFTA-dómstólsins að það sé hlutverk íslenskra dómstóla að meta skipulag og framkvæmd einkaréttar til heildsöludreifingar með tilliti til reglna EES-samningsins, sbr. 16. gr. og 11. gr. meginmáls samningsins.

          Í samræmi við ítrekuð fordæmi Hæstaréttar, sbr. einkum dóm réttarins í dómasafni 1999, bls. 4429, verður að leggja til grundvallar að rétt sé að hafa hliðsjón af framangreindu áliti EFTA-dómstólsins, enda er ekkert komið fram í málinu sem leitt getur til þess að vikið verði frá því. Samkvæmt þessu er það niðurstasða dómsins að sá einkaréttur íslenska ríkisins á innflutningi á áfengi frá 1. janúar 1994 til 1. desember 1995, sem áður hefur verið ítarlega lýst, hafi verið andstæður 16. gr. meginmáls EES-samningsins. Kemur þá næst til skoðunar einkaréttur íslenska ríkisins á heildsöludreifingu áfengis á ofangreindu tímabili.

          Eins og áður er komið fram telur EFTA-dómstóllinn í ráðgefandi áliti sínu að einkaréttur á heildsölu áfengis sé ekki sjálfkrafa andstæður reglum EES-réttar. Virðist dómstóllinn hafa í huga aðstæður, þar sem innflutningur áfengis er að meginstefnu frjáls, en einkaréttur er á heildsölu og e.t.v. einnig smásölu. Telur dómstóllinn að fyrirkomulag sem þetta geti samræmst reglum EES-samningsins, sbr. einkum 11. gr. og 16. gr. meginmáls EES-samningsins, ef vörur frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins búa ekki við lakari skilyrði, að lögum eða í reynd, en innlendar framleiðsluvörur.

          Í tilefni af framangreindri niðurstöðu EFTA-dómstólsins sér dómurinn ástæðu til að benda á að innflutningur og heildsöludreifing vara er jafnan nátengd. Þannig er þar fyrst til að taka að réttur fyrirtækis til innflutnings vöru er þýðingarlaus, ef viðkomandi innflytjanda skortir heimildir til að dreifa vörunni á markað með einhverjum hætti í því skyni að selja hana í heildsölu eða smásölu. Við þær aðstæður að ríkiseinkasala stundar sjálf innflutning á vörum myndi kerfisbundin synjun við því að taka við vörum frá öðrum innflytjendum þannig í reynd jafngilda einkarétti ríkisins á innflutningi sem er, í eðli sínu, andstæður 16. gr. meginmáls EES-samningsins samkvæmt áliti EFTA-dómstólsins. Í öðru lagi myndu þær aðstæður að ríkiseinkasölu væru engar skorður settar við mat á því við hvaða vörum hún tæki frá innflytjendum jafngilda því að ríkið hefði sjálfdæmi um hvaða vörur kæmu til sölu á innanlandsmarkaði og hverjar ekki. Þetta fyrirkomulag á innflutningi og heildsölu myndi því ekki tryggja að enginn greinarmunur væri gerður, í reynd, milli ríkisborgara aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara, jafnvel þótt innflutningur væri strangt til tekið óheftur. Í samræmi við fordæmi EFTA-dómstólsins væri slíkt réttarástand því berlega í andstöðu við 16. gr. meginmáls EES-samningsins. Væri einkaréttur á heildsöludreifingu hins vegar skipulagður þannig að ríkiseinkasala tæki við og dreifði öllum vörum, sem innflytjendur óskuðu eftir, án þess að einkasalan stundaði sjálf innflutning á vörum, mætti leiða líkur að því að vörum væri ekki mismunað eftir uppruna sínum. Þær takmarkanir á innflutningi sem leiddu af síðastnefnda fyrirkomulaginu gætu þannig samræmst 16. gr. meginmáls EES-samningsins, sbr. einnig þau sjónarmið sem liggja 11. gr. meginmálsins til grundvallar. Við slíkar aðstæður væri það ótvírætt aðildarríkis að sýna fram á að slíkt fyrirkomulag og skipulagning ríkiseinkasölu tryggði jafnræði vara, að lögum og í reynd, eftir uppruna þeirra.

          Í máli því sem hér er til meðferðar liggur fyrir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafði einkarétt til innflutnings og heildsöludreifingar áfengis frá 1. janúar 1994 til 1. desember 1995. Af hálfu stefnda hefur ekki verið leitast við að sýna fram á að fyrirkomulag og skipulagning heildsöludreifingar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hafi verið þannig að tryggt hafi verið að allar vörur, sem innflytjendur hefðu getað flutt löglega til landsins í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, hefði verið dreift í heildsölu af versluninni. Gildir þá einu þótt Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi 10. febrúar 1994 sett sér reglur, sem munu hafa komið til framkvæmda 1. júlí 1994, um innkaup og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja sem lutu að ákveðnum atriðum innflutnings áfengis, en þó fyrst og fremst að smásölu þess í áfengisverslunum. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi í raun haft sjálfdæmi um það hvaða vörum hún dreifði í heildsölu og hvernig þeirri heildsöludreifingu var háttað, enda má í raun líta á það fyrirkomulag sem rökrétta afleiðingu af óheftum einkarétti verslunarinnar til innflutnings.

Þegar af þessum ástæðum er það álit dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að heildsöludreifing áfengis á vegum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hafi verið með þeim hætti á umræddum tíma að fullnægt væri skilyrðum 16. gr. meginmáls EES-samningsins. Við úrlausn um kröfur stefnanda verður því gengið út frá því að einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi 1. janúar 1994 til 1. desember 1995 hafi verið andstæður 16. gr. meginmáls EES-samningsins.

Um skaðabótaábyrgð stefnda

          Samkvæmt fyrrgreindu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins verður aðildarríki bótaskylt gagnvart mögulegum innflytjanda áfengis vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir sökum þess að einkarétti ríkisins á innflutningi var viðhaldið, enda sé nánari skilyrðum fyrir skaðabótaskyldu uppfyllt í samræmi við meginreglu EES-samningsins um bótaskyldu ríkisins. Að mati dómsins verður að skilja þessa niðurstöðu svo að ekkert sé því til fyrirstöðu að innlendur innflytjandi geri kröfu um bætur samkvæmt greindri meginreglu EES-samningsins vegna brota ríkis sem beinast að vörum sem uppruna sinn eiga í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

          Eins og fram kemur í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins 10. desember 1998 í máli nr. E-9/97 er meginreglan um skaðabótaábyrgð aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins reist á markmiðum EES-samningsins og þeim grunnreglum sem fram koma í meginmáli hans. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í dómasafni 1999, bls. 4916, fær þessi meginregla, að því er íslenska ríkið varðar, nægilega stoð í lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið sem lögfesta meginmál samningsins. Dómurinn sér ástæðu til að taka fram að með þessari rýmkandi skýringu á lögum nr. 2/1993 er reglum EES-samningsins ekki með neinum hætti veitt bein réttarverkan að íslenskum rétti, svo sem látið hefur verið liggja að af hálfu lögmanns stefnda, enda er það alfarið á forræði hins íslenska löggjafa hvort og hvernig skaðabótaábyrgð ríkisins samkvæmt lögum nr. 2/1993 er viðhaldið. Gildir í því sambandi einu þótt breyting á lögum nr. 2/1993, á þá leið að íslenska ríkið bæri alls enga eða takmarkaða skaðabótaábyrgð á brotum sínum samkvæmt EES-samningum, fæli sér brot á skuldbindingum íslenska ríkisins að þjóðarétti, enda er skýrt, meðal annars af bókun 35 við EES-samninginn, að samningurinn felur ekki í sér framsal löggjafarvalds. Er framangreind skýring laga nr. 2/1993 þannig í fullu samræmi við 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

          Líkt og áður greinir ber að hafa hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, enda sé ekkert komið fram sem leitt geti til þess að vikið verði frá því. Samkvæmt þessu er það álit dómsins að stefndi hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda, enda sé nánari skilyrðum fyrir skaðabótum fullnægt samkvæmt umræddri meginreglu EES-samningsins um skaðabótaskyldu aðildarríkis. Í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eru umrædd skilyrði þrjú, þó þannig að skilyrði fyrir bótum mega aldrei vera strangari en á við um hliðstæðar innlendar kröfur. Í fyrsta lagi verður brot stefnda því að hafa beinst að EES-reglu sem mælir fyrir um réttindi einstaklinga og lögaðila með svo skýrum hætti að unnt sé að ráða af henni efni réttinda ætlaðs tjónþola. Í öðru lagi verður brot að hafa verið nægilega alvarlegt. Í þriðja lagi verður að vera beint orsakasamband milli brots aðildarríkis og tjóns ætlaðs tjónþola, en að mati dómsins felst m.a. í því skilyrði að tjón sé sennilegt afleiðing af broti.

          Eins og áður greinir er það í fyrsta lagi niðurstaða EFTA-dómstólsins að 16. gr. meginmáls EES-samningsins hafi mælt fyrir um rétt til handa einstaklingum og lögaðilum með nægilega skýrum hætti. Telur EFTA-dómstóllinn því að fyrstgreinda skilyrðinu fyrir skaðabótum sé fullnægt. Að mati dómsins er ekkert komið fram sem hnekkt getur þessari niðurstöðu EFTA-dómstólsins. EFTA-dómstóllinn kemst í öðru lagi að þeirri niðurstöðu að brot stefnda gegn 16. gr. meginmáls EES-samningsins hafi verið nægilega alvarlegt til að leiða til skaðabótaskyldu, að því gefnu að önnur bótaskilyrði séu uppfyllt. Að mati dómsins er ekkert fram komið í málinu sem hnekkt getur þessari niðurstöðu EFTA-dómstólsins um alvarleika brots stefnda. Þegar af þessari ástæðu telst huglægum skilyrðum fyrir bótaskyldu fullnægt í málinu að svo miklu leyti sem um slík skilyrði er að ræða við aðstæður sem þessar að íslenskum rétti. Um það atriði hvort beint orsakasamband sé á milli brots stefnda og tjóns stefnanda telur EFTA-dómstóllinn að það sé hlutverk íslenskra dómstóla að meta hvort svo sé.

          Samkvæmt framangreindu verður við það miðað að stefndi hafi brotið gegn rétti stefnanda samkvæmt 16. gr. meginmáls EES-samningsins með svo alvarlegum hætti að skilyrðum fyrir skaðabótum sé fullnægt, enda sé sýnt fram á að brot stefnda hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Ber við mat á þessu síðastgreinda atriði, svo og fjárhæð bóta, ef þeim er að skipta, að miða við innlendar reglur fjármunaréttar, enda verður ekki séð að þessar innlendu reglur feli í sér mismunun krafna sem uppruna sinn eiga í EES-rétti samanborið við kröfur sem styðjast við innlendar réttarheimildir. Felst í þessu að sönnunarbyrðin fyrir því að umrætt brot hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda, svo og fjárhæð tjóns, hvílir á stefnanda.

 

Niðurstaða um tjón stefnanda o.fl.

          Eins og áður greinir hefur stefnandi um árabil stundað innflutning í atvinnuskyni. Þá starfaði hann einnig sem svokallaður umboðsmaður fyrir áfengi hér á landi meðan einkaréttur ríkisins á innflutningi og heildsölu áfengis var við lýði. Í slíku „umboði“ fólst samningsbundinn réttur til þóknunar frá seljanda vegna áfengis sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins keypti inn og seldi í verslunum sínum eða með öðrum hætti. Að mati dómsins verður að gera ráð fyrir að stefnandi hafi af þessum ástæðum haft nauðsynleg viðskiptasambönd og þekkingu á innflutningi áfengis til þess að hefja innflutning, yrði einkarétti ríkisins aflétt. Þá telja dómarar að háttsemi stefnanda eftir að einkarétti ríkisins var aflétt bendi til þess að stefnandi hafi bæði haft hug á innflutningi og haft, a.m.k. að einhverju leyti, getu til slíkrar starfsemi. Er þá bæði litið til umsóknar stefnanda um leyfi til innflutnings á áfengi og gagna um raunverulegan innflutning hans í kjölfar setningar laga nr. 95/1995 sem afnámu einkarétt Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins frá og með 1. desember 1995.   

          Samkvæmt framangreindu lítur dómurinn svo á að nægilega hafi verið sýnt fram á að áðurlýst brot stefnda á réttindum stefnanda samkvæmt 16. gr. meginmáls EES-samningsins hafi valdið því að stefnandi hóf ekki innflutning og heildsöludreifingu áfengis á tímabilinu 1. janúar 1994 til 1. desember 1995. Það er hins vegar stefnanda að sýna fram á að þessi atvinnustarfsemi hefði skilað honum hagnaði ef brot stefnda hefði ekki komið til. Við það mat verður ekki horft fram hjá því að stefnandi hafði á umræddu tímabili umtalsverðar tekjur af innflutningi áfengis vegna áðurgreindra umboðsstarfa sinna. Vegna þessarar sérstöku stöðu stefnanda var því ekki sjálfgefið að stefnandi yrði fyrir fjártjóni þótt honum væri fyrirmunað að flytja inn áfengi og dreifa því í heildsölu. Telur dómurinn því að hvernig sem á málið er litið verði að draga raunverulegan hagnað stefnanda, sem hlaust af umræddum umboðsstörfum, frá þeim hagnaði sem hann fór hugsanlega á mis við vegna þess að honum var fyrirmunað að flytja og inn og dreifa í heildsölu áfengi á því tímabili sem hér um ræðir. Í annan stað telur dómurinn að líta verði til þess að breytingar á rekstri stefnanda sem stöfuðu af breyttu fyrirkomulagi og skipulagningu á innflutningi áfengis voru til þess fallnar að auka kostnað í rekstri hans, svo sem fjármagnskostnað og kostnað vegna birgða- og starfsmannahalds. Af þessu leiðir að aukning á framlegð stefnanda vegna innflutnings á áfengi á árunum 1996 og 1997 verður ekki gagnrýnislaust lögð til grundvallar við mat á þeim endanlega hagnaði sem stefnandi fór hugsanlega á mis við á árunum 1994 og 1995. Að síðustu verður að líta til þess hversu skjótt stefnandi hefði byrjað innflutning á áfengi í stað þess að þiggja áfram hin hefðbundnu umboðslaun vegna innflutnings Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem ekki lauk að fullu fyrr en á árinu 1998. Er þannig ekki sjálfgefið að gengið sé út frá því að stefnandi hefði þegar hinn 1. janúar 1994 viljað eða getað hafið innflutning á öllum þeim tegundum áfengis sem hann hafði svokallað umboð fyrir. Verður leyst úr kröfum stefnanda á grundvelli þessara sjónarmiða.

          Aðalkrafa stefnanda að fjárhæð 493.246.891 króna byggist á útreikningi hans sjálfs. Miðar stefnandi við að hann hefði fengið í sinn hlut, sem innflytjandi og heildsali, 60% af útsöluverði áfengis sem hann hefði flutt inn. Gengur hann út frá því að allt áfengi sem hann var umboðsmaður fyrir, í fyrrgreindum skilningi, hefði verið flutt inn af honum og selt í heildsölu til Áfengis- og tóbaksverslunarinnar. Þá gerir stefnandi kröfu um bætur vegna tafa sem urðu á uppbyggingu fyrirtækisins.

          Með hliðsjón af því að sala áfengis hefur um áratuga skeið verið notuð sem tekjulind af hálfu ríkisins telja dómendur að engar líkur séu á því að innflytjendur og heildsalar áfengis hefðu fengið í sinn hlut jafn mikinn hluta af smásöluverði áfengis og stefnandi gerir ráð fyrir í útreikningum sínum. Þær breytingar sem urðu 1. september 1995 með upptöku áfengisgjalds, sbr. lög nr. 96/1995 um gjald af áfengi og tóbaki, benda einnig eindregið til þeirrar niðurstöðu. Þá telur dómurinn einnig ósannað af hálfu stefnanda að hann hefði 1. janúar 1994 verið í stakk búinn til að hefja innflutning á öllu því áfengi sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins seldi og hann hafði svokallað umboð fyrir. Eru útreikningar stefnanda á tjóni sínu af þessum ástæðum haldslausir.

          Varakröfur stefnanda eru byggðar á ítarlegri matsgerð dómkvaddra matsmanna, en í munnlegum málflutningi var einnig af hans hálfu vísað til viðbótarmatsgerðar sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Í viðbótarmatsgerð er eingöngu tekið tillit til þeirra áfengistegunda sem uppruna sinn eiga í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Að mati dómsins hefur stefndi ekki fært fram gögn eða rökstutt að tilteknar áfengistegundir, sem miðað er við í áðurnefndri viðbótarmatsgerð, falli utan gildissviðs EES-samningsins. Eins og málið liggur fyrir verður stefndi að bera hallann af vafa um þetta atriði. Eins og atvikum málsins er háttað þykir einnig rétt að miða við að stefnandi hefði getað aflað sér réttar til þess að flytja inn og dreifa í heildsölu þeim tegundum áfengis sem miðað er við í viðbótarmatsgerð, enda hefur stefndi ekki fært fram gögn eða rökstutt með öðrum hætti aðra niðurstöðu. Að mati dómsins getur krafa stefnanda, eins og hún er fram sett, hins vegar aðeins beinst að tjóni vegna áfengis sem stefnanda reyndist ekki unnt að flytja inn og dreifa í heildsölu frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Koma niðurstöðutölur dómkvaddra matsmanna í upphaflegri matsgerð 26. nóvember 2003 því ekki til frekari skoðunar.

          Samkvæmt áðurgreindri viðbótarmatsgerð varð stefnandi fyrir tjóni vegna framlegðarmissis að fjárhæð 28,9 milljónir króna sökum þess að honum var óheimilt að flytja inn og dreifa í heildsölu tilteknum áfengistegundum á tímabilinu 1. janúar 1994 til 1. desember 1995. Tóku matsmenn tillit til verðlagsbreytinga allt til loka ársins 1995 með því að vaxtareikna ætlaða framlegð með 10 hundraðshlutum til loka þess árs. Þá telja matsmenn að stefnandi hafi orðið fyrir 12,5 milljóna króna tjóni sem rekja megi til þess að vexti fyrirtækis hans seinkaði vegna umræddrar háttsemi stefnda. Samtals telja dómkvaddir matsmenn því tjón stefnanda nema 41,4 milljónum króna. Líkt og í matsgerð sinni 26. nóvember 2003 nota matsmenn þrjár mismunandi aðferðir við svör matsspurninga, þó þannig að aðallega er miðað við þá aðferð að líta til framlegðar stefnanda árin 1996 og 1997 og gengið út frá því að þessar tekjur hefðu fallið til tveimur árum fyrr, hefði einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunarinnar verið afnuminn í upphafi ársins 1994. Frá þessari áætluðu framlegð fyrir tímabilið 1. janúar 1994 til 1. desember 1995 draga matsmenn raunverulega framlegð stefnanda og vaxtareikna niðurstöðutöluna til ársloka 1995 svo sem áður greinir. Hinar tvær aðferðirnar, þ.e. að miða annars vegar við raunverulegar sölutölur áfengis á umræddum tímabilum að frádregnum áætluðum kostnaði stefnanda og hins vegar við afkomu annarra fyrirtækja í sambærilegum rekstri, eru hafðar til hliðsjónar, en leiða þó, að áliti matsmanna, til sambærilegrar niðurstöðu og fyrstgreinda aðferðin.

          Með framangreindri aðferð dómkvaddra matsmanna er tekið tillit til þess að stefnandi þáði svokölluð umboðslaun vegna innflutnings Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins allt til 1. desember 1995, enda er raunveruleg framlegð í áfengisdeildum stefnanda látin koma til frádráttar áætlaðri framlegð fyrir umrætt tímabil. Með því að miða við framlegð á árunum 1996 og 1997 taka matsmenn einnig tillit til þess að sjálfstæður innflutningur og heildsöludreifing stefnanda var stigvaxandi eftir að einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hafði verið afnuminn. Í niðurstöðum matsmanna er hins vegar gengið út frá því að sú aukna framlegð, sem myndast hefði við innflutning og heildsöludreifingu stefnanda á áfengi 1. janúar 1994 til 1. desember 1995, hefði ekki leitt til aukins fasts kostnaðar, eins og staðfest var í skýrslu matsmannsins Benedikts Jóhannessonar fyrir dómi. Kom jafnframt fram í skýrslu hans að ef tekið hefði verið tillit til slíks fasts kostnaðar hefði hann hugsanlega, að hans mati, getað numið 10 til 12 milljónum króna.

          Á síðastgreinda forsendu dómkvaddra matsmanna getur dómurinn ekki fallist. Að mati dómsins benda gögn málsins eindregið til þess að sú starfsemi sem hér er um að ræða, þ.e. innflutningur áfengis, leiði til aukins kostnaðar fyrirtækis, svo sem fjármagnskostnaðar og kostnaðar vegna birgða- og starfsmannahalds. Styðst þessi afstaða dómsins einnig við það sem ítrekað kemur fram í gögnum málsins um að stefnandi hafi ráðist í fjárfestingu á nýju húsnæði beinlínis vegna breyttra innflutningsreglna áfengis. Samkvæmt framangreindu telur dómurinn að í matsgerðum dómkvaddra matsmanna hafi kostnaður verið vantalinn við mat á tjóni stefnanda. Þegar af þessari ástæðu verður niðurstaða dómkvaddra matsmanna á tjóni ekki lögð óhögguð til grundvallar.

          Eins og áður segir byggja niðurstöður matsmanna á þeirri forsendu að raunveruleg framlegð áranna 1996 og 1997 úr áfengisdeildum stefnanda hefði komið til á tímabilinu 1. janúar 1994 til 1. desember 1995. Dómurinn hlýtur óhjákvæmilega að líta til þess að margvíslegar orsakir, aðrar en afnám einkaréttar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á innflutningi áfengis, geta verið fyrir því að framlegð stefnanda jókst á árunum 1996 og 1997, til dæmis breytingar á neyslu áfengis eða vinsældum tiltekinna áfengistegunda, svo eitthvað sé nefnt. Hér einnig til þess að líta að á síðasta fjórðungi ársins 1997 hóf stefnandi innflutning á nýjum tegundum áfengis sem nutu vinsælda og stuðluðu að aukinni framlegð. Er því ósannað að stefnandi hefði orðið fyrir tjóni sem dómkvaddir matsmenn áætla í viðbótarmatsgerð sinni, jafnvel þótt frá niðurstöðutölum matsmanna væri dregin fjárhæð sem nemur áætluðum föstum kostnaði stefnanda á umræddu tímabili, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 26. febrúar 2004 í máli nr. 301/2003. Af sömu ástæðum telst einnig ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna tafa á uppbyggingu fyrirtækis síns. Er í þessu sambandi einnig vísað til þess að stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi ekki mátt takmarka tjón sitt til lengri tíma að þessu leyti með því að þróa og byggja fyrirtæki sitt upp í kringum annan innflutning en áfengi.

          Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að matsgerð dómkvaddra matsmanna verði ekki lögð til grundvallar við mat á tjóni stefnanda. Burtséð frá niðurstöðum dómkvaddra matsmanna telur dómurinn að útreikningar og tölulegar upplýsingar í framlögðum gögnum málsins renni ekki nægjanlega styrkum stoðum undir staðhæfingar um fjárhagslegt tjón stefnanda á árunum 1994 og 1995 samanborið við síðari tíma. Er þá meðal annars litið til þróunar umboðslaunatekna stefnanda á tímabilinu 1992 til og með 1995 og hagnaðar af reglulegri starfsemi á árunum 1992 til og með 1996.  Einnig er litið til þess að veruleg breyting varð á rekstri stefnanda á síðasta fjórðungi ársins 1997 með tilkomu nýrra umboða áfengistegunda. Niðurstaða dómsins er því sú að stefnandi hafi ekki gert nægilega líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni sökum þess að einkarétti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins var ekki aflétt fyrr en 1. desember 1995 andstætt þeim skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum sem fyrr greinir. Af þessum ástæðum ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

          Með hliðsjón af þeim vafaatriðum sem uppi eru í máli þessu verður stefndi látinn greiða hluta af málskostnaði stefnanda. Samkvæmt sameiginlegri bókun aðila við niðurfellingu máls nr. E-8318/00 hinn 16. janúar 2003 voru aðilar sammála um að málskostnaður vegna meðferðar þess máls fyrir EFTA-dómstólnum yrði hluti af málskostnaðarkröfu í máli því sem hér er til úrlausnar. Með vísan til þessa samkomulags málsaðila verður umræddur kostnaður talinn til málskostnaður, sbr. g. lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Í framangreindri bókun kemur skýrt fram að það mál hafi verið fellt niður án kostnaðar. Verður ekki séð af bókuninni eða öðrum gögnum málsins að stefnandi hafi gert fyrirvara um að krefja stefnda síðar um málskostnað vegna umrædds héraðsdómsmáls. Þegar af þessum ástæðum verður ekki litið þessa kostnaðar við ákvörðun málskostnaðar í máli þessu. Samkvæmt málskostnaðaryfirliti stefnanda nemur útlagður kostnaður vegna meðferðar málsins fyrir EFTA-dómstólnum 300.882 krónum og útlagður kostnaður vegna fyrirliggjandi máls 1.767.588 krónum. Er ekki tölulegur ágreiningur um þessar fjárhæðir. Að þessu virtu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda upp í málskostnað hans fjárhæð sem þykir hæfilega ákveðinn 3.500.000 krónur.

          Af hálfu stefnanda flutti málið Stefán Geir Þórisson hrl.

          Af hálfu stefnda flutti málið Einar Karl Hallvarðsson hrl.

          Hervör Þorvaldsdóttir kveður upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Friðbirni Björnssyni löggiltum endurskoðanda og Skúla Magnússyni héraðsdómara.

D Ó M S O R Ð

          Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Karls K. Karlssonar hf.

          Stefndi greiði stefnanda 3.500.000 króna í málskostnað.