Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-294
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Rangar sakargiftir
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 9. nóvember 2021 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. október sama ár í málinu nr. 517/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærðu var birtur dómurinn 19. október 2021. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa átt í kynferðissambandi við sambúðarbarn sitt á tæplega tveggja ára tímabili er brotaþoli var 16 og 17 ára. Leyfisbeiðandi var einnig sakfelld fyrir rangar sakargiftir samkvæmt 1. mgr. 148. gr. sömu laga með því að hafa með rangri kæru til lögreglu leitast við að koma því til leiðar að brotaþoli yrði sakaður um eða dæmdur fyrir að hafa ítrekað nauðgað henni og áreitt kynferðislega. Var henni gert að sæta fangelsi í tvö ár og níu mánuði. Þá var hún dæmd til að greiða brotaþola 700.000 krónur í miskabætur.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að öll skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt fyrir veitingu áfrýjunarleyfis. Í fyrsta lagi lúti áfrýjunin að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu. Þannig vísar hún meðal annars til þess að nauðsynlegt sé að Hæstiréttur skeri úr um vægi sálfræðivottorða í málum sem þessum. Í öðru lagi telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Meðal annars hafi verið horft fram hjá vottorði sálfræðings í málinu og ekki tekin afstaða til tiltekinna ummæla sem höfð hafi verið eftir brotaþola. Þá sé ákvörðun refsingar bersýnilega röng með hliðsjón af dómafordæmum.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að nokkru leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og brotaþola en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.