Hæstiréttur íslands

Mál nr. 253/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárslit


         

Föstudaginn 16. maí 2008.

Nr. 253/2008.

K

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

gegn

M

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Kærumál. Hjón. Fjárslit.

M krafðist frávika frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 104. gr. sömu laga þannig að honum yrði heimilað að taka að óskiptu nánar tilgreinda fasteign. Málsaðilar gengu í hjónaband [dags.] 2005 en skildu rúmu ári síðar að borði og sæng. Óumdeilt var að eiginleg sambúð stóð aðeins hluta af hjúskapartímanum. Litið var svo á að M hefði flutt hina umdeildu fasteign í búið við hjúskaparstofnun [dags.] 2005 og einn fjármagnað kaupin. Með vísan til hins skammvinna hjúskapar málsaðila, sem ljóst var að leiddi hvorki til fjárhagslegrar né félagslegrar samstöðu málsaðila og þess að M flutti verulega miklu meira í búið en K þótti ljóst að helmingaskipti á búi þeirra yrði bersýnilega ósanngjörn. Þóttu því skilyrði til að víkja frá meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga þannig að hin umdeilda fasteign kæmi í hlut M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 11. apríl 2008, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum varðandi opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fasteignin X, komi til skipta og að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila endurgjald fyrir afnot af eigninni, 30.000 krónur fyrir hvern mánuð frá 15. ágúst 2006 til skiptaloka. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

                                             Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 11. apríl 2008.

I.

                                                                      Aðild og dómkröfur

Með bréfi dags. 19. júní 2007, sem barst dóminum 21. sama mánaðar, beindi skiptastjóri ágreiningi, sem risið hafði við opinber skipti til fjárslita á milli aðila, til héraðsdóms með vísan til 122. gr., sbr. 112. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Málið, sem upphaflega var nr. Q-1/2007, var þingfest 26. júní sama ár og tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 23. nóvember sl. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði 14. desember 2007. Mál það, sem hér er til úrlausnar, var þingfest 15. janúar sl. og tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 14. mars sl.

Sóknaraðili er M, kt[...], [heimilisfang].

Varnaraðili er K, kt. [...], [heimilisfang].

Sóknaraðili krefst frávika frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, með vísan til 104. gr. sömu laga, þannig að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu fasteignina að X, auðkennd [...] og bifreiðina Y. Einnig krefst sóknaraðili þess að innistæða á bankareikningi nr. [...] falli utan skipta með vísan til 4. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Loks krefst sóknaraðili þess að varnaraðili greiði honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að fasteignin X, fastanúmer [...], komi til skipta við opinber skipti á búi málsaðila. Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila fyrir afnot sín af ofangreindu húsnæði, 30.000 krónur fyrir hvern mánuð frá 15. ágúst til skiptaloka. Loks krefst varnaraðil þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati réttarins.

II.

   Málavextir

Í greinargerð sóknaraðila segir að málsaðilar hafi kynnst í Úkraínu í árslok 2004 þegar sóknaraðili hafi verið þar sem ferðamaður. Á þeim tíma hafi sóknaraðili leigt fasteign að X, og starfað hjá Z. Stuttu eftir kynni þeirra hafi sóknaraðili gert starfslokasamning við Z, sem undirritaður hafi verið 12. febrúar 2005. Í samningum hafi verið tiltekið að sóknaraðili skyldi eiga forkaupsrétt að fasteigninni X og lóðarréttindum. Í kjölfar samningsins hafi verið óskað eftir verðmati á henni og að lokum hafi sóknaraðili gert tilboð í eignina hinn 24. febrúar 2005. Hinn 9. mars 2005 hafi tilboð sóknaraðila í eignina verið samþykkt af bæjarráði [...].

Sóknaraðili kveður að á þessum tíma hafi málsaðilar verið í samskiptum, sem leitt hafi til þess að hann hafi byrjað að senda varnaraðila peninga hinn 23. mars 2005 og allt fram til 4. júlí sama ár eða þar til varnaraðili hafi komið til Íslands sem ferðamaður. Eftir stutta dvöl varnaraðila á Íslandi hafi málsaðilar ákveðið að ganga í hjónaband og það hafi þau gert hinn 9. ágúst 2005. Í lok þess mánaðar hafi varnaraðili farið aftur til Úkraínu til að ganga frá sínum málum þar en á þeim tíma hafi sóknaraðili aftur hafið að senda peninga út til varnaraðila eða frá 13. september til 16. nóvember 2005. Hinn 22. nóvember 2005 hafi varnaraðili flutt til Íslands og málsaðilar hafið búskap að X.

Í greinargerð sóknaraðila segir ennfremur að varnaraðili hafi komið til landsins ásamt þrettán ára dóttur sinni, en þær mæðgur hafi komið hingað eignalausar. Fyrstu mánuði hjúskaparins hafi sóknaraðili staðið straum af öllum kostnaði þeirra mæðgna þar sem varnaraðili hafi verið atvinnulaus. Í mars 2006 hafi varnaraðili fengið vinnu á V og í kjölfarið leigt herbergi þar, en unglingsdóttir hennar hafi búið áfram hjá sóknaraðila þar sem hún hafi verið í skóla. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi aflað tekna á þessum tíma hafi sóknaraðili einn staðið straum af öllum kostnaði við heimilið, þ. á m. kostnaði vegna uppihalds dóttur varnaraðila. Óásættanlegur ágreiningur aðila, sem m.a. hafi stafað af áhugaleysi varnaraðila á að taka þátt í heimilisrekstrinum, hafi leitt til þess að í ágúst 2006 hafi varnaraðili alfarið flutt til V og málsaðilar slitið sambúð sinni.

Hinn 20. nóvember 2006 hafi sóknaraðili síðan leitað til sýslumannsins á V og óskað eftir skilnaði að borði og sæng. Ágreiningur hafi verið með aðilum um fjárskipti og hafi sóknaraðili því farið fram á opinber skipti.

Í greinargerð varnaraðila er málavaxtalýsingu sóknaraðila mótmælt. Er því sérstaklega mótmælt að sóknaraðili hafi staðið einn að kaupum á áðurgreindri fasteign, heldur hafi það verið sameiginleg ákvörðun málsaðila að kaupa fasteignina með það fyrir augum að búa þeim og fjölskyldu þeirra heimili. Þá er fullyrðingum sóknaraðila um að varnaraðili hafi ekki lagt fé af mörkum til sameiginlegs heimilishalds þeirra mótmælt. Bendir varnaraðili á að hún hafi alfarið séð um öll heimilisstörf. Loks er því mótmælt að sóknaraðili hafi haldið varnaraðila uppi áður en hún flutti til Íslands. Bendir varnaraðili á að á þessum tíma hafi verið komin fjárhagsleg samstaða á milli hennar og sóknaraðila. Á milli þeirra hafi gengið peningar, sem notaðir hafi verið í sameiginlegar þarfir þeirra s.s. uppihald þeirra úti og ýmis aðföng sem varnaraðili hafi útvegað áður en hún kom til Íslands. Varnaraðili vekur sérstaka athygli á því að samkvæmt dskj. nr. 17 hafi kaup á fasteigninni fyrst komist á hinn 11. október 2005 með undirritun kaupsamnings.

III.

Málsástæður

Sóknaraðili kveðst fara fram á frávik frá helmingaskiptareglunni samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 104. gr. þeirra laga. Í gögnum málsins komi fram að eignin að X hafi verið keypt af sóknaraðila áður en til hjúskapar aðila kom, jafnvel þótt afsal hafi ekki verið gefið út fyrr en 11. október 2005, sbr. dskj. nr. 17-19. Þar sem varnaraðili hafi verið ein með barn á framfæri í Úkraínu og tekjulaus að auki hafi sóknaraðili byrjað að símsenda til hennar peninga hinn 23. mars 2005 og gert það allt til 2. nóvember 2005 eða rétt áður en varnaraðili flutti til landsins, sbr. dskj. nr. 20. Ljóst sé af framangreindu að sóknaraðili hafi staðið einn að kaupum á fasteigninni, X, og að varnaraðili hafi þar engan hlut átt að máli. Varnaraðili hafi komið til landsins rúmum mánuði eftir að afsal var gefið út og hafi hvorki þá né síðar staðið straum af kostnaði við eignina.

Þegar litið sé til lengdar hjúskaparins, þess að varnaraðili kom með engar eignir inn í hjúskapinn, sóknaraðili stóð straum af heimilisrekstri og lagði til helstu eignir búsins verði að telja bersýnilega ósanngjarnt að miða við helmingaskipti á einu eign búsins að X. Því sé ljóst að ákvæði 103. gr., sbr. 104. gr. hjúskaparlaga eigi við í máli þessu.

Varnaraðili kveðst ekki fallast á að forsendur séu til að beita 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 í máli þessu þar sem skilyrði ákvæðisins séu ekki fyrir hendi. Það sé rangt hjá sóknaraðila að fjárhagsleg samstaða hafi ekki skapast auk þess sem margdæmt sé að framlag eiginkonu með vinnuframlagi á heimili beri að meta en ekki horfa einungis til þess hver afli teknanna. Fjárhagsleg samstaða hafi verið með málsaðilum frá því snemma árs 2005 þegar málsaðilar hafi hafið samband sitt og fram til haustsins 2006 þegar upp úr hafi slitnað.

Í ákvæðinu sé aðaláherslan lögð á þau verðmæti sem annað hjóna leggi í búið geti fallið utan skipta. Eins og fram komi á dskj. 27 hafi veruleg hækkun orðið á verðmæti fasteigna á [...] á sambúðartíma málsaðila. Varnaraðila kveðst ekki fallast á að sóknaraðili hafi fært þau verðmæti í búið heldur sé um að ræða verðmæti sem skapast hafi á sambúðar/hjúskapartímanum. Engin rök séu því til að þau falli utan skipta. Í því efni sé sérstaklega mikilvægt að benda á að kaupin hafi verið fjármögnuð með lánsfé og að þau hafi komist á eftir að til hjúskaparins var stofnað. Sanngirnissjónarmið mæli með því að þessi verðmætaaukning komi til skipta. Um verðmæti eignarinnar og útlagningu sé ekki fjallað í ágreiningsmáli þessu, heldur verði það gert fyrir skiptastjóra á síðari stigum.

Varðandi kröfur um greiðslu fyrir afnot fasteignarinnar kveðst varnaraðili byggja á því að sóknaraðili hafi einn haft afnot eignarinnar á þessu tímabili og að varnaraðila beri að fá greitt sem nemi 50% af eðlilegri húsaleigu eignarinnar fyrir þau afnot. Kveðst varnaraðili leggja til grundvallar að eðlilegt endurgjald fyrir afnotins séu 30.000 krónur, þ.e. að eðlileg húsaleiga sé 60.000 krónur fyrir allt húsið.

Varnaraðili kveðst vísa til hjúskaparlaga og laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Að því er málskostnaðarkröfu varðar vísar varnaraðili til 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                                                                           Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um hvort uppfyllt séu skilyrði 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 til að víkja frá helmingaskiptareglu 103. gr. sömu laga við opinber skipti til fjárslita milli málsaðila þannig að fasteignin að X, [...], komi óskert í hlut sóknaraðila. Kröfum sóknaraðila um að bifreiðin Y komi óskert í hans hlut og að innistæða á bankareikningi nr. [...] falli utan skipta með vísan 4. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga, sæta hins vegar ekki mótmælum af hálfu varnaraðila.

Í 104. gr. hjúskaparlaga segir að víkja megi frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Eigi þetta einkum við þegar tekið sé tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun.

Málsaðilar gengu í hjónaband 9. ágúst 2005 og rúmu ári síðar krafðist sóknaraðili skilnaðar að borði og sæng hjá sýslumanninum á V. Óumdeilt er að eiginleg sambúð málsaðila stóð aðeins hluta af hjúskapartímanum, þ.e. frá lokum nóvembermánaðar 2005 og fram í mars 2006. Þá er og óumdeilt að í ágúst 2006 hafi varnaraðili flutt alfarið burt af heimilinu og málsaðilar slitið sambúð sinni. Hjúskapur málsaðila var því skammvinnur í skilningi 104. gr. hjúskaparlaga.

Í málinu hefur verið lagður fram starfslokasamningur, sem sóknaraðili gerði við Z hinn 12. febrúar 2005 þar sem Z samþykkti að greiða sóknaraðila eingreiðslu að tiltekinni fjárhæð vegna starfsloka hans hjá Z. Þá var sóknaraðila veittur kaupréttur að fasteigninni að X ásamt lóðarréttindum, en fram kemur í samningnum að sóknaraðili hafi verið með fasteignina á leigu. Í samningnum segir að kaupréttur hans skuli vera á verði sem nemi 75% af verðmæti fasteignarinnar samkvæmt mati löggilts fasteignasala. Hinn 24. febrúar sama ár gerði sóknaraðili kauptilboð í fasteignina að fjárhæð 6.800.000 krónur á grundvelli verðmats löggilts fasteignasala. Samkvæmt framlögðu bréfi bæjarstjóra [...] var kauptilboð sóknaraðila tekið fyrir á fundi bæjarráðs hinn 9. mars 2005 og bæjarstjóra falið að ganga frá málinu á grundvelli tilboðsins. Í bréfinu segir einnig að fundargerð þessa fundar hafi síðan verið tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar [...] hinn 16. mars 2005 þar sem málið hafi verið kynnt og staðfest. Hinn 11. október 2005 undirrituðu málsaðilar kaupsamning og afsal um fasteignina á grundvelli áðurgreinds kauptilboðs sóknaraðila.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að kaup um fasteignina komust á 16. mars 2005 er Z samþykkti kauptilboð sóknaraðila í fasteignina þó að ekki hafi verið gengið frá kaupsamningi og afsali fyrr en í október 2005. Með vísan til alls framangreinds verður því að líta svo á að sóknaraðili hafi flutt fasteignina í búið við hjúskaparstofnun hinn 9. ágúst 2005. Ljóst er að sóknaraðili fjármagnaði kaupin á fasteigninni með láni, sem hvílir á fasteigninni og tekið var 12. október 2005, þ.e. rúmum mánuði áður en varnaraðili flutti til landsins frá Úkraínu. Af hálfu varnaraðila hefur ekki verið sýnt fram á að hún hafi lagt eitthvað af mörkum til kaupa á fasteigninni.

Samkvæmt framlögðum skattframtölum málsaðila frá 2006 og 2007 var varnaraðili tekjulaus hér á landi árið 2005 og tekjulág á árinu 2006 en það ár nema framtaldar tekjur hennar tæmum 1.300.000 krónum. Á árinu 2005 námu tekjur sóknaraðila hins vegar um fimm milljónum króna hvort árið. Ljóst er og af framlögðum skattframtölum að varnaraðili flutt engar eignir í búið. Mikill munur var því á fjárhag málsaðila við hjúskaparstofnun og ljóst að sóknaraðili flutti í búið verulega miklu meira en varnaraðili við hjúskaparstofnun.

Með vísan til hins skammvinna hjúskapar málsaðila, sem ljóst er að leiddi hvorki til fjárhagslegrar né félagslegrar samstöðu málsaðila og þess að sóknaraðili flutti verulega miklu meira í búið en varnaraðili þykir ljóst að helmingaskipti á búi þeirra yrðu bersýnilega ósanngjörn. Þykja því skilyrði til að víkja frá meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti með heimild í 104. gr. sömu laga þannig að fasteignin að X, [...] og þar með talin hugsanleg vermætaaukning, sem á henni kann að hafa orðið, komi óskert í hlut sóknaraðila. Þá er einnig fallist á að bifreiðin Y komi óskert í hans hlut og að innistæða á bankareikningi nr. [...] falli utan skipta með vísan til 4. tl. 1. mgr. 102. gr. sömu laga, enda hefur þessum kröfum ekki verið mótmælt af hálfu varnaraðila.

Eftir þessum málsúrslitum bera að úrskurða varnaraðila til að greiða sóknaraðila 265.000 krónur í málskostnað og er þar með talinn virðisaukaskattur

Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Við opinber skipti til fjárslita á milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, kemur fasteignin að X, [...], fastanúmer [...], bifreiðin Y og innistæða á bankareikningi nr. [...], óskert í hlut sóknaraðila.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 265.000 krónur í málskostnað.