Hæstiréttur íslands

Mál nr. 141/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn


                                     

Þriðjudaginn 10. mars 2015.

Nr. 141/2015.

Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

De Nederlandsche Bank N.V.

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu hollenska seðlabankans D um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á túlkun ákvæða tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi í tengslum við mál D á hendur T sem rekið var fyrir héraðsdómi. Laut ágreiningur aðila meðal annars að því hvort T bæri skylda til að greiða D, en innstæðueigendur í útibúi L hf. í Hollandi höfðu framselt D kröfur sínar, þá upphæð sem næmi lágmarkstryggingu allra innstæðueigenda samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að skýring á ákvæðum tilskipunarinnar hefði raunverulega þýðingu við úrlausn á kröfum D þar sem hún væri háð ákveðnum vafa og staðreyndir málsins lægju nægilega fyrir. Voru því þrjár nánar tilgreindar spurningar lagðar fyrir EFTA-dómstólinn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2015, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilteknum atriðum í tengslum við mál sem varnaraðili rekur á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um að leita ráðgefandi álits verði hafnað en til vara að leitað verði ráðgefandi álits á nánar tilgreindum spurningum. Að þessu frágengnu krefst hann þess að verði spurningu um dráttarvexti bætt við þær sem héraðsdómur tók til greina verði einnig leitað ráðgefandi álits á nánar tilgreindum spurningum í stað þeirrar sem varnaraðili gerir kröfu um. Þá krefst hann í báðum tilvikum kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 27. febrúar 2015. Krefst hann þess aðallega að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum spurningum. Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að öðru leyti en því að einnig skuli leitað ráðgefandi álits á nánar tilgreindri spurningu til viðbótar þeim sem úrskurðarorð héraðsdóms kveður á um. Þá krefst hann í báðum tilvikum kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Eftir atvikum er rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri kærumáls þessa.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2015.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 19. janúar sl. um það hvort leita beri ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, er höfðað af De Nederlandsche Bank N.V., Westeinde 1, 1017 ZN, Amsterdam, Hollandi, gegn Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, Borgartúni 35, Reykjavík, með stefnu birtri 23. október 2013.

Endanlegar dómkröfur stefnanda, sbr. bókun hans, dags. 17. september 2014, eru eftirfarandi:

a)       Að stefndi greiði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 38/2001 af kr. €1.322.242.850 frá 23. október 2009 til 2. desember 2011, en af €930.654.182 frá þeim degi til 24. maí 2012, en af €759.008.025 frá þeim degi til 5. október 2012, en af €679.282.351 frá þeim degi til 12. september 2013, en af €612.356.481 frá þeim degi til 26. ágúst 2014.

b)       Að stefndi greiði stefnanda €8.140.855 vegna útlagðs kostnaðar stefnanda af endurgreiðslu til innstæðueigenda í útibúi LBI í Amsterdam auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2009 til greiðsludags eða til vara að stefndi greiði kröfuna með 6% vanskilavöxtum samkvæmt grein 6:119 hollensku einkamálalaganna frá 23. október 2009 til greiðsludags.

Fyrsta varakrafa:

a)       Að stefndi greiði stefnanda 6% vanskilavexti skv. grein 6:119 hollensku einkamálalaganna af €1.322.242.850 frá 23. október 2009 til 2. desember 2011, en af €930.654.182 frá þeim degi til 24. maí 2012, en af €759.008.025 frá þeim degi til 5. október 2012, en af € 679.282.351 frá þeim degi til 12. september 2013, en af € 612.356.481 frá þeim degi til 26. ágúst 2014.

b)       Að stefndi greiði stefnanda €8.140.855 vegna útlagðs kostnaðar stefnanda af endurgreiðslu til innstæðueigenda í útibúi LBI í Amsterdam auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2009 til greiðsludags eða til vara að stefndi greiði kröfuna með 6% vanskilavöxtum skv. grein 6:119 hollensku einkamálalaganna frá 23. október 2009 til greiðsludags.

Önnur varakrafa:

a)       Að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 38/2001, af 223.763.157.506 krónum frá 23. október 2009 til 2. desember 2011, en af 157.494.607.297 krónum frá þeim degi til 24. maí 2012, en af 128.446.928.013 krónum frá þeim degi til 5. október 2012, en af 114.954.952.301 krónum frá þeim degi til 12. september 2013, en af 103.629.087.249 krónum frá þeim degi til 26. ágúst 2014.

b)       Að stefndi greiði stefnanda €8.140.855 vegna útlagðs kostnaðar stefnanda af endurgreiðslu til innstæðueigenda í útibúi LBI í Amsterdam auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2009 til greiðsludags, eða til vara að stefndi greiði kröfuna með 6% vanskilavöxtum skv. grein 6:119 hollensku einkamálalaganna frá 21. október 2009 til greiðsludags.

Þriðja varakrafa:

a)       Að stefndi greiði stefnanda 6% vanskilavexti skv. grein 6:119 hollensku einkamálalaganna af 223.763.157.506 krónum frá 23. október 2009 til 2. desember 2011, en af 157.494.607.297 krónum frá þeim degi til 24. maí 2012, en af 128.446.928.013 krónum frá þeim degi til 5. október 2012, en af 114.954.952.301 krónum frá þeim degi til 12. september 2013, en af 103.629.087.249 krónum frá þeim degi til 26. ágúst 2014.

b)       Að stefndi greiði stefnanda €8.140.855 vegna útlagðs kostnaðar stefnanda af endurgreiðslu til innstæðueigenda í útibúi LBI í Amsterdam auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2009 til greiðsludags, eða til vara að stefndi greiði kröfuna með 6% vanskilavöxtum skv. grein 6:119 hollensku einkamálalaganna frá 21. október 2009 til greiðsludags.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að honum verði dæmdur málskostnaður, auk virðisaukaskatts, úr hendi stefnda, að mati dómsins miðað við umfang og hagsmuni málsins eða samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi.

Í greinargerð sinni gerir stefndi aðallega þá dómkröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaður úr hendi stefnanda.

Í þinghaldi í málinu 17. september 2013 lagði stefnandi fram bókun þar sem farið var fram á að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna málsins. Óskaði hann eftir því að eftirfarandi spurningar yrðu lagðar fyrir dómstólinn:

1)       Samræmist það ákvæðum EES-samningsins, sérstaklega 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB, að lagalegar skuldbindingar innlánatryggingakerfis gagnvart innstæðueigendum takmarkist, þegar heildareignir þess duga ekki til að bæta heildarkröfu hvers innstæðueiganda að fjárhæð allt að 20.000 ECU, við heildareignir þess á þeim tíma sem innstæður verða ótæk innlán í skilningi 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.

2)       Samræmist það markmiðum tilskipunarinnar ef innlánatryggingakerfi setur á stofn nýja deild eða sér reikning innan kerfisins sem safnar iðgjöldum frá aðilum þess eftir að greiðsluskylda í skilningi 1. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar verður virk, sem og ákveður að allar greiðslur til sín skuli renna í nýju deildina eða reikninginn sem ekki er aðgengilegur þeim innstæðueigendum sem eiga útistandandi kröfur sem fallnar eru í gjalddaga á þeim tímapunkti þegar nýja deildin eða reikningurinn var stofnaður; eða eiga innstæðueigendur sem eiga gjaldfallnar kröfur tilkall til allra iðgjalda sem greidd eru af aðilum að innlánatryggingakerfinu eftir að greiðsluskyldan varð virk?

3)       Er rétt að túlka ákvæði tilskipunarinnar, með vísan í 3. gr. EES-samningsins og meginregluna um skilvirka framkvæmd EES-samningsins, með þeim hætti að ef innlánatryggingakerfi stendur ekki við skuldbindingar sínar innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 10. gr. tilskipunarinnar eiga innstæðueigendur rétt á að grípa til vanefndaúrræða skv. landsrétti. s.s. dráttarvaxta, sbr. 6. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar?

4)       Ef innlánatryggingakerfi ber að standa skil á vöxtum er þá rétt að túlka ákvæði tilskipunarinnar með þeim hætti að greiðslur frá innlánatryggingakerfi skulu greiddar í þeirri röð sem mælt er fyrir um í lögum sem gilda um kröfur gegn því eða fela ákvæði tilskipunarinnar í sér fyrirmæli um í hvaða röð innlánatryggingakerfi skal ráðstafa greiðslum?

5)       Ber að skýra orðalag 11. gr. tilskipunarinnar á þann veg að EES-ríkjum sé heimilt að setja í landsrétt ákvæði sem kveður á um að greiðslur vegna innstæðutryggingar frá innlánatryggingakerfi séu háðar framsali hvers innstæðueiganda á heildarkröfum hans á hendur gjaldþrota aðila innlánatryggingakerfisins, í tilvikum þar sem einungis hluti innstæðu verður bættur og þar sem innlánatryggingakerfi heldur eftir rétti til að fá allar greiðslur sem berast frá gjaldþrota aðila kerfisins vegna heildarkrafnanna, þangað til innlánakerfið hefur endurheimt greiddar innstæðutryggingar, jafnvel þó slíkt framsal og endurheimtur séu hærri en sú innstæðufjárhæð sem nýtur tryggingar og/eða innstæðna sem innlánatryggingakerfið hefur ekki greitt neina tryggingu vegna þannig að nafnverð og efnahagslegur ávinningur af framsalskröfunni er hærri en greiðsla innlánatryggingakerfisins?

Í næsta þinghaldi í málinu hinn 13. október 2014 lagði stefndi fram bókun þar sem þess er aðallega krafist að dómurinn hafni kröfu stefnanda um að aflað verði ráðgefandi álits en til vara krefst hann þess að dómurinn leiti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi spurningum:

1)       Samræmist það 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB, þegar um kerfishrun er að ræða, að skuldbindingar fyrir fram fjármagnaðs innlánatryggingakerfis takmarkist við eignir þess á þeim tímapunkti sem innstæður verða ótiltæk innlán í skilningi 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar og eignirnar duga ekki til að bæta kröfu hvers innstæðueiganda að fjárhæð allt að 20.000 EUR?

2)       Koma ákvæði tilskipunar 94/19/EB í veg fyrir að í kjölfar kerfishruns setji fyrir fram fjármagnað innlánatryggingakerfi á stofn nýja deild eða reikning þar sem safnað er iðgjöldum og ákveði að þau iðgjöld skuli renna í nýju deildina eða reikninginn í því skyni að byggja upp sjóð sem eingöngu sé ætlað að mæta mögulegum framtíðar áföllum og standi ekki til greiðslu eldri skuldbindinga?

3)       Mælir tilskipun 94/19/EB fyrir um skyldu innlánatryggingakerfis til greiðslu vaxta af innstæðum frá þeim tímapunkti sem innstæður verða ótiltæk innlán í skilningi 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar?

4)       Mælir tilskipun 94/19/EB fyrir um skyldu innlánatryggingakerfis til greiðslu dráttarvaxta ef innlánatryggingakerfi greiðir ekki innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 10. gr. tilskipunarinnar?

5)       Ef spurningu 3 og 4 er svarað jákvætt, mælir tilskipun 94/19/EB fyrir um að í landsrétti skuli kveðið á um að kröfur um innstæður annars vegar og vexti, eftir atvikum dráttarvexti, hins vegar skuli greiddar í tiltekinni röð?

6)       Kemur 11. gr. tilskipunar 94/19/EB í veg fyrir að innlánatryggingakerfi fái frekari réttindi samkvæmt landsrétti heldur en þann að ganga inn í kröfuréttindi innstæðueiganda sem svarar til fjárhæðarinnar sem greidd er?

II.

Aðdragandi máls þessa er sá að hinn 22. apríl 2008 rituðu stefnandi og stefndi undir sameiginlega yfirlýsingu (e. memorandum of understanding), þar sem fram kemur meðal annars að útibú íslenskra aðildarfyrirtækja geti gerst aðilar að hollenska innstæðutryggingakerfinu.

Með undirritun samkomulags við stefnanda hinn 23. maí 2008 gerðist Landsbanki Íslands hf., síðar LBI hf., aðili að hollenska innstæðutryggingakerfinu og skuldbatt stefnandi sig með því til að tryggja innstæður umfram þá fjárhæð sem tryggð var hjá stefnda. Í kjölfar þessa hóf útibú bankans í Hollandi innlánasöfnun undir vörumerkinu Icesave.

Hinn 6. október 2008 lokaðist fyrir aðgang að Icesave-innlánum í Bretlandi en þann dag voru samþykkt á Alþingi lög nr. 125/2008, svokölluð neyðarlög, sem fólu meðal annars í sér að innstæður voru gerðar að forgangskröfum skv. lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Daginn eftir féll Landsbanki Íslands hf. og tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar bankans, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Dagana á eftir féllu stóru íslensku viðskiptabankarnir hver á fætur öðrum. Landsbanka Íslands hf. var veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008 og með lögum nr. 44/2009 var bankinn síðan tekinn til slitameðferðar og skyldi upphaf hennar miðast við gildistöku laganna hinn 22. apríl 2009.

Hinn 7. október 2008 lagði stefnandi fram beiðni fyrir Héraðsdóm Amsterdam um að dómurinn lýsti því yfir að sérstakar neyðarreglur samkvæmt hollenskum lögum um fjármálaeftirlit skyldu gilda um útibú Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam og var úrskurður þar að lútandi kveðinn upp hinn 13. sama mánaðar. Í kjölfarið tók stefnandi um það ákvörðun að greiða Icesave-innstæðueigendum út andvirði innstæðna þeirra og var það síðan gert fyrir tilstuðlan rafræns eða skriflegs greiðsluferlis. Tók stefnandi yfir kröfuréttindi viðkomandi innstæðueigenda við móttöku greiðslunnar frá stefnanda.

Hinn 27. október 2008 tilkynnti Fjármálaeftirlitið að það væri álit stofnunarinnar að Landsbanki Íslands hf. væri ekki fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga þeirra viðskiptavina sem þess kröfðust. Sama dag tilkynnti stjórn stefnda að á grundvelli álits Fjármálaeftirlitsins hefði stofnast til greiðsluskyldu stefnda gagnvart innstæðueigendum Icesave-reikninga. Jafnframt kom fram í tilkynningunni að ekki væri ákveðið hvernig útgreiðslu stefnda yrði háttað. Frestur til að greiða var loks framlengdur um þrjá mánuði í senn í þrígang, í fyrsta skipti 26. janúar 2009, í annað skipti 4. maí sama ár og í þriðja og síðasta skiptið hinn 21. ágúst 2009.

Frá því að ljóst varð að Landsbanki Íslands hf. kæmi ekki til með að geta staðið skil á Icesave-innstæðum hjá bankanum áttu sér stað viðræður milli íslenskra og hollenskra stjórnvalda varðandi ýmis atriði er lutu að ábyrgð og fjármögnun á endurgreiðslunum til innstæðueigendanna. Samningar tókust ekki og höfðaði Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í kjölfarið  mál á hendur íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum, mál nr. 16/11. Dómur féll 28. janúar 2013, þar sem hafnað var kröfum ESA og framkvæmdastjórnar ESB um að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur stefnda vegna Icesave-innstæðna Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.

Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 28. október 2011 í máli nr. 341/2011 var staðfest að kröfur stefnanda væru forgangskröfur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Tekið er fram í stefnu máls þessa að frá stefnufjárhæð málsins á hendur stefnda hafi verið dregnar þær hlutagreiðslur sem fengist hafi greiddar frá LBI hf., að því marki sem þær tilheyri lágmarkstryggingu sem stefndi beri ábyrgð á gagnvart stefnanda.

Stjórn stefnda tók hinn 8. september 2011 ákvörðun, sem birt var 7. október sama ár, um útgreiðslu þeirra eigna til innstæðueigenda sem stefndi átti í sjóðum sínum hinn 27. október 2008, eða á þeim degi þegar Landsbanki Íslands hf. varð að áliti Fjármálaeftirlitsins ófær um að inna af hendi greiðslur á andvirði innstæðna, verðbréfa eða reiðufjár, eins og áður er rakið. Námu eignir innstæðudeildar stefnda á þeim degi 15.544.014.000 krónum. 

Stefnandi mótmælti skilmálum ákvörðunarinnar skriflega, fyrst 6. desember 2011. Taldi hann sig ekki geta sætt sig við þá skilmála sem settir væru fram af hálfu stefnda. Væri þar meðal annars um að ræða þá kröfu stefnda að hann fengi heildarkröfu stefnanda á hendur LBI hf. framselda gegn því að einungis brot af henni yrði greitt á sama tíma. Sama gilti um þá afstöðu stefnda að ekki væri rétt að ráðstafa þeim iðgjöldum sem komið hefðu til eftir hrunið til að mæta greiðsluskyldu vegna atburða sem gerst hefðu á árinu 2008. Taldi stefnandi skilmálana ólögmæta og að niðurstaðan af slíku hefði í raun sett hann í verri stöðu en ef engin greiðsla bærist frá stefnda. Í kjölfar mótmælanna hófust bréfaskipti á milli aðila þar sem skilmálar ákvörðunarinnar voru ræddir, ásamt fundarhöldum um sama efni, án þess að komist væri að niðurstöðu sem aðilar gætu sætt sig við.

III.

Með upphaflegri kröfugerð sinni í stefnu krafðist stefnandi þess að stefndi greiddi honum þá höfuðstólsfjárhæð sem næmi lágmarkstryggingu allra innstæðueigenda í útibúi Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam, auk þeirra dráttarvaxta og kostnaðar sem endanleg kröfugerð hans hljóðar nú upp á. Hins vegar féll stefnandi frá kröfu sinni á hendur stefnda um greiðslu höfuðstóls kröfunnar með fram lagðri bókun í þinghaldi hinn 17. september 2014, með vísan til þess að hann hefði selt kröfu sína á hendur LBI hf.

Málatilbúnaður stefnanda er einkum reistur á því að stefnda hafi borið skylda til að greiða stefnanda sem nemi lágmarkstryggingu allra þeirra innstæðueigenda í útibúi Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam er framselt hafi stefnanda kröfu sína, en sú skylda sé skýr í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999. Krafan leiði og af 1. mgr. 1. tl. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB um innstæðutryggingar og tryggingakerfi, þar sem kveðið sé á um að innlánatryggingakerfi skuli tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að ákveðnu lágmarki ef innlán verða ótiltæk. Í lögum nr. 98/1999 sé enginn afláttur veittur af því að stefnda beri að greiða innstæðueigendum lágmarkstrygginguna. Þessi skylda stefnda sé jafnframt staðfest í dómi EFTA-dómstólsins í máli nr. E-16/11. Í þeim dómi segi og að komi til þess að tryggingarsjóður geti ekki greitt innstæðueigendum að fullu, í kjölfar greiðsluerfiðleika aðildarfyrirtækis, sé það annarra aðildarfyrirtækja að greiða það sem upp á vanti. Heimild stefnda til þessa sé og lögfest í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999.

Stefnandi vísar og til þess að skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 yfirtaki stefndi kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki við greiðslu úr sjóðnum. Ákvæði þetta beri að túlka í samræmi við 11. gr. tilskipunar 94/19/EB, en þar segi að við greiðslur samkvæmt tryggingakerfi hafi tryggingakerfið rétt til að ganga inn í kröfuréttindi innstæðueiganda „sem svarar til fjárhæðarinnar sem greidd var“ (e. for an amount equal to their payments). Sé því ljóst að komi til greiðslu frá stefnda til stefnanda eigi stefndi einungis rétt á að yfirtaka kröfu stefnanda í samræmi við hina greiddu fjárhæð.

Stefnandi byggir og á því að fjárhæð greiðsluskyldu stefnda beri dráttarvexti frá upphafstíma greiðsluskyldu og að stefnda hafi borið skylda til að endurgreiða stefnanda þann kostnað sem hann hafi sannanlega þurft að bera vegna útgreiðslu innstæðutrygginga til umræddra innstæðueigenda útibús Landsbanka Íslands hf.

Þær varnir stefnda sem helst hafa þýðingu í þessum þætti máls lúta að því að það hafi verið skilyrði greiðsluskyldu stefnda að stefnandi framseldi stefnda allar kröfur sínar á hendur LBI hf., en dómkröfur stefnanda geri ekki ráð fyrir slíku framsali, hvorki í heild né að hluta. Jafnframt byggir stefndi á því að greiðsluskylda stefnda geti einungis náð til þeirra eigna sem verið hafi í innstæðudeild stefnda hinn 27. október 2008, samtals 15.544.014.000 króna. Sé þessi afstaða í fullu samræmi við ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 120/2000, sem og almennar reglur kröfuréttar. Þá komi þessi afstaða skýrt fram í ákvörðun stjórnar stefnda frá 8. september 2011, sem ekki hafi verið hnekkt, sbr. og lög nr. 98/1999, með síðari breytingum.

Stefndi hafnar og skyldu til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar þar sem engar lagalegur forsendur liggi þar að baki. Þannig verði meðal annars skýrlega ráðið af 1. mgr. 9. gr. og 1. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 að stefndi verði ekki krafinn um hærri fjárhæð en nemi þeirri fjárhæð sem innstæðueigandi hefði fengið frá viðkomandi fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Þar sem kröfur þessar séu eftirstæðar kröfur við slitameðferð LBI hf., og fáist ekki greiddar þar, eigi stefnandi ekki heldur kröfu vegna þeirra á hendur stefnda.

IV.

Stefnandi telur nauðsynlegt að leitað verði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins á túlkun ákvæða tilskipunar 94/19/EB um skyldu innlánatryggingakerfis til að standa skil á lágmarkstryggingu þar sem túlkun stefnda á lögum nr. 98/1999 og tilskipun 94/19/EB þýði að í raun sé ekki til nein lágmarkstrygging. Jafnframt, með hliðsjón af því að framangreind tilskipun kveði skýrt á um það innan hvaða tímamarka innlánatryggingakerfi skuli greiða réttmætar kröfur innstæðueigenda, sem og skyldu EES-ríkja til að tryggja skilvirka framkvæmd EES-samningsins, telji stefnandi það mikilvægt að leita verði eftir ráðgefandi áliti á því hvort kröfur á hendur innlánatryggingakerfum safni dráttarvöxtum komi til greiðsludráttar. Loks telji stefnandi, í ljósi raka stefnda þess efnis að greiðsla hans til stefnanda sé háð því að hann framselji heildarkröfur sínar á hendur LBI hf., þörf á áliti dómstólsins á því hvort innlánatryggingakerfum sé heimilt að fara fram á framsal á heildarkröfum þegar ljóst sé að áætluð innstæðutrygging sé lægri en heildarkröfur innstæðueiganda.

V.

Stefndi mótmælir því að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu. Sé í því sambandi í fyrsta lagi á því byggt að ákvæði íslenskra laga, þ. á m. ákvæði laga nr. 98/1999, séu skýr, sérhæfð og ótvíræð varðandi ágreining aðilanna og veiti ekkert svigrúm til túlkunar til samræmis við ákvæði EES-samningsins eða tilskipunar 94/19/EB. Skýring EES-samningsins eða afleiddrar EES-löggjafar hafi því enga þýðingu við úrlausn málsins, auk þess sem fyrir liggi að stefnandi byggi hvorki á meginmáli EES-samningsins né meginreglum EES-réttar í málatilbúnaði sínum.

Ljóst sé og að EES-samningurinn og afleidd EES-löggjöf vísi til skuldbindinga íslenska ríkisins. Þar sem stefndi sé ekki hluti íslenska ríkisins séu skuldbindingar þess stefnda óviðkomandi. Þar fyrir utan hafi EFTA-dómstóllinn, í máli nr. E-16/11, þegar tekið með afar tæmandi hætti afstöðu til skuldbindinga íslenska ríkisins í tengslum við tilskipun 94/19/EB.

Stefndi bendir á að tilskipun 94/19/EB kveði einungis á um lágmarkssamræmingu reglna um innstæðutryggingakerfi meðal aðildarríkja EES. Spurningar stefnanda lúti fyrst og fremst að fjármögnun og útgreiðslu innstæðutryggingakerfa en reglur þar um lúti ekki lágmarkssamræmingu tilskipunarinnar heldur sé aðildarríkjum játað fullt svigrúm til að útfæra þær frekar og ákvarða í landsrétti sínum eins og þau telji eðlilegast. Skýring ákvæða EES-samningsins og afleiddrar löggjafar EES hafi því enga þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Enginn vafi sé um skýringu þeirra ákvæða tilskipunar 94/19/EB sem spurningar stefnanda nr. 1 og 2 lúti að. Þau séu bæði skýr og ótvíræð. Þá hafi EFTA-dómstóllinn þegar svarað spurningu nr. 1, en fram komi efnislega í forsendum dómsins að tilskipunin láti því að mestu ósvarað hvernig með skuli farið þegar innstæðutryggingakerfi ráði ekki við greiðsluskuldbindingar sínar. Enn fremur snúi spurningar nr. 3 og 4 að lagareglum sem eigi sér ekki stoð í tilskipuninni. Loks sé orðalag ákv. 11. gr. tilskipunarinnar, sem spurning stefnanda nr. 5 lúti að, afar skýrt og ótvírætt og sé enginn réttlætanlegur vafi um skýringu þess.

VI.

A.

Fyrstu tvær spurningarnar sem stefnandi óskar eftir að dómurinn leggi fyrir EFTA-dómstólinn lúta að þeirri málsástæðu stefnda að greiðsluskylda hans geti einungis náð til þeirra eigna sem voru í innstæðudeild innstæðutryggingarsjóðsins hinn 27. október 2008 og að stefnandi eigi því hvorki rétt til þeirra eigna í B-deild sjóðsins sem myndast hafi með greiðslu iðgjalda eftir þann dag né til eigna í A-deild sjóðsins, sem myndast hafi með iðgjaldagreiðslum frá gildistöku laga nr. 55/2011. Komi þetta skýrt fram í ákvörðun stjórnar stefnda frá 8. september 2011, en hún standi enn óhögguð. Sé þetta og í fullu samræmi við ákv. reglugerðar nr. 120/2000, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sem og almennar reglur kröfuréttar. Jafnframt vísar hann um þetta til ákvæða 9. og 10. gr. laga nr. 98/1999, en af þeim sé ljóst að kröfur stefnanda eigi sér enga lagastoð að þessu leyti.

Stefnandi telur að þessi túlkun stefnda á umræddum lagaákvæðum þýði að í raun sé ekki um neina lágmarkstryggingu að ræða. Sé því nauðsynlegt að fá álit EFTA-dómstólsins á því hvort þessi túlkun stefnda samræmist ákvæðum EES-samningsins, og þá sérstaklega 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB.

Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem hér um ræðir, kemur fram að sé aðildarfyrirtæki að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár, sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gilda, sé sjóðnum skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild. Greiðsluskylda sjóðsins verði einnig virk ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við lög um viðskiptabanka og sparisjóði og lög um verðbréfaviðskipti. Þá sagði í 1. mgr. 10. gr. að hrökkvi eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum skuli greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. króna sé bætt að fullu en allt sem umfram sé þessa fjárhæð skuli bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkvi til. Fjárhæð þessi sé bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.

Lög nr. 98/1999 voru einkum sett í því skyni að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands skv. EES-samningnum, sbr. tilskipanir 94/19/EB um innlánatryggingakerfi og 97/9/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í fyrri málslið 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB, eins og hún var orðuð á þeim tíma sem hér um ræðir, segir svo: Innlánatryggingakerfin tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20.000 ECU (nú evrur) ef innlánin verða ótiltæk.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Hefur í dómaframkvæmd verið við það miðað að orðum í íslenskum lögum skuli gefin, svo sem framast er unnt, merking sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat dómsins að skýring á ákvæðum framangreindrar tilskipunar 94/19/EB hafi raunverulega þýðingu við úrlausn á kröfum stefnanda, hún sé ekki vafalaus og að staðreyndir málsins liggi nægilega fyrir á þessu stigi. Verður því fallist á að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á skýringu tilskipunarinnar í þessu tilliti með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.

B.

Með þriðju spurningu leitar stefnandi svara við því hvort rétt sé að túlka ákvæði tilskipunar 94/19/EB með þeim hætti að innstæðueigendur eigi rétt á að grípa til vanefndarúrræða samkvæmt landsrétti, s.s. dráttarvaxta, ef innlánatryggingakerfi stendur ekki við skuldbindingar sínar innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 10. gr. tilskipunarinnar. Ekki er að finna nein ákvæði í umræddri tilskipun er lúta að framangreindu og verður ekki séð að spurning þessi til EFTA-dómstólsins hafi neina þýðingu við úrlausn málsins. Er því ekki þörf á að afla álits dómstólsins um þessa spurningu.

Fjórða spurning stefnanda byggist á því að fallist sé á að leita álits EFTA-dómstólsins um þriðju spurninguna. Verður því ekki heldur talin ástæða til að afla álits um hana.

C.

Fimmta spurning stefnanda lýtur að þeirri málsástæðu stefnda að það sé skilyrði greiðsluskyldu hans að stefnandi framselji allar kröfur sínar á hendur LBI hf. en ekki einungis í samræmi við þær greiðslur sem honum berast frá stefnda, eins og stefnandi heldur fram. Vitnar stefndi í þessu sambandi til þess að orðalag 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, ásamt síðari breytingum, og staða ákvæðisins að lögum bendi eindregið til þess að stefndi eigi að yfirtaka kröfu stefnanda í heild sinni og án takmarkana. Sé þetta og í fullu samræmi við tilskipun 94/19/EB.

Í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 segir svo: „Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi.“ Í 11. gr. tilskipunar 94/19/EB segir svo: „Við greiðslur samkvæmt tryggingakerfinu hefur tryggingakerfið rétt til að ganga inn í kröfuréttindi innstæðueiganda við skiptameðferð sem svarar til fjárhæðarinnar sem greidd er, án þess að þetta hafi að öðru leyti áhrif á þau réttindi sem kerfið kann að hafa samkvæmt landslögum.“ Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að réttlætanlegur vafi sé um túlkun á tilskipun 94/19/EB, einkum 11. gr., sem geti haft þýðingu þegar leyst er úr kröfu stefnanda, og þar með haft áhrif á úrslit málsins. Verður því fallist á að leitað verði álits EFTA-dómstólsins um skýringu á ákvæðum hennar í þessu tilliti, með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Með vísan til þess að dómurinn hefur fallist á að leita álits EFTA-dómstólsins við þeim álitaefnum sem fram koma í spurningum stefnanda nr. 1, 2 og 5 verður að taka hér einnig til úrlausnar hvort leita beri álits dómstólsins á þeirri spurningu stefnda nr. 3, sem hann setur fram í varakröfu sinni í þessum þætti málsins og er annars efnis en spurningar stefnanda. Lýtur spurningin að því hvort tilskipun 94/19/EB mæli fyrir um skyldu innlánatryggingakerfis til greiðslu vaxta af innstæðum frá þeim tíma sem innstæður verða ótiltæk innlán í skilningi 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Á sama hátt og fram kemur í umfjöllun vegna spurninga stefnanda nr. 3 og 4 hér að framan er ekki að finna nein ákvæði í tilskipuninni er lúta að greiðslu vaxta við slíkar aðstæður. Verður því ekki talið að neina þýðingu hafi að leita álits EFTA-dómstólsins við þessari spurningu.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Leita skal ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

1)       Samrýmist það ákvæðum EES-samningsins, einkum 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB um innstæðutryggingar og tryggingakerfi, þegar um kerfishrun er að ræða, að skuldbindingar fyrir fram fjármagnaðs innlánatryggingakerfis takmarkist við eignir þess á þeim tíma sem innstæður verða ótiltæk innlán í skilningi 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar og eignirnar duga ekki til að bæta kröfu hvers innstæðueiganda að fjárhæð allt að 20.000 evrur?

2)       Samrýmist það tilskipun 94/19/EB að í kjölfar kerfishruns setji samningsríki lög eða stjórnvaldsfyrirmæli sem heimili fyrir fram fjármögnuðu innlánakerfi að setja á stofn nýja deild eða reikning þar sem safnað sé iðgjöldum og ákveða að þau iðgjöld skuli renna í nýju deildina eða reikninginn í því skyni að byggja upp sjóð sem eingöngu sé ætlað að mæta mögulegum framtíðaráföllum og standi ekki til greiðslu eldri skuldbindinga?

3)       Samrýmist það 11. gr. tilskipunar 94/19/EB að innlánatryggingakerfi samningsríkis fái frekari réttindi samkvæmt landsrétti en þann að við greiðslu úr sjóðnum yfirtaki það kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi sem svari til fjárhæðarinnar sem greidd er?

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.