Hæstiréttur íslands

Mál nr. 282/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Ár 1999, þriðjudaginn 24

                                                            

Þriðjudaginn 24. ágúst 1999.

Nr. 282/1999.

Jakob A. Traustason

(sjálfur)

gegn

Almennu málflutningsstofunni sf.

Hróbjarti Jónatanssyni

Jónatan Sveinssyni og

Reyni Karlssyni

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

J kærði úrskurð héraðsdómara um frávísun máls sem hann hafði höfðað gegn A, H, J og R. Talið var að kröfur J, sem lytu að öðru en málskostnaði og niðurstöðu héraðsdómara um frávísun málsins, vörðuðu atriði, sem sættu ekki kæru til Hæstaréttar samkvæmt 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Úrskurður héraðsdómara um að málinu bæri að vísa frá héraðsdómi vegna ýmissa annmarka á málatilbúnaði J var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. júlí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 1999, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur hans til efnismeðferðar. Hann krefst þess einnig að ómerkt verði ákvörðun héraðsdómara 15. mars 1999 um að endurupptaka málið í kjölfar útivistar af hálfu varnaraðila, að sér verði heimilað að leggja fram í málinu skriflega sókn, sem héraðsdómari hafi hafnað í þinghaldi 19. febrúar sama árs, og að meðferð málsins verði falin öðrum héraðsdómara en þeim, sem kvað upp hinn kærða úrskurð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en hverjar, sem verði lyktir málsins, verði hrundið ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað.

Framangreindar kröfur sóknaraðila, sem lúta að öðru en málskostnaði og niðurstöðu héraðsdómara um frávísun málsins, varða atriði, sem sæta ekki kæru til Hæstaréttar samkvæmt 143. gr. laga nr. 91/1991. Koma þær því ekki til álita við úrlausn málsins.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi handa hverjum varnaraðila fyrir sig, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili, Jakob A. Traustason, greiði varnaraðilum, Almennu málflutningsstofunni sf., Hróbjarti Jónatanssyni, Jónatan Sveinssyni og Reyni Karlssyni, hverjum fyrir sig samtals 50.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 1999.

I.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu að afloknum munnlegum málflutningi um hana fimmtudaginn 27. maí s.l., er höfðað fyrir dómþinginu með stefnu birtri 24. júní 1998. Málið var þingfest 30. júní sama ár.

                Stefnandi er Jakob A. Traustason, kt. 180846-2049, Barónsstíg 3, Reykjavík.

                Stefndu eru Almenna málflutningsstofan sf., kt. 460886-1399, Kringlunni 6, Reykjavík, Hróbjartur Jónatansson, kt. 270458-5649, Ljárskógum 6, Reykjavík, Jónatan Sveinsson, kt. 180234-7569, Deildarási 16, Reykjavík og Reynir Karlsson, kt. 220356-5239, Logafold 102, Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi og orðréttar úr stefnu:

                „... Aðallega, að stefndu verði dæmdir til greiða honum bótakröfu A. að fjárhæð kr. 7.408.710 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, af kr. 7.408.710, frá 8. ágúst 1993 til greiðsludags kröfunnar, en til vara, ásamt vöxtum skv. II. kafla 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, frá 8. júlí 1993 til 13. september 1996, að stefnandi gerði fyrst bótakröfuna á hendur stefndu, dskj. 18, og síðan að viðbættum dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, frá 13. október 1996 til greiðsludags kröfunnar.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til greiða honum bótakröfu B, að fjárhæð kr. 4.931.950 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, af kr. 4.931.950, frá 9. júlí 1991 til greiðsludags kröfunnar, en til vara, ásamt vöxtum skv. II. kafla 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, frá 9. maí 1991 til 13. september 1996, að stefnandi gerði fyrst bótakröfuna á hendur stefndu, dskj. 18. og síðan að viðbættum dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, frá 13. október 1996 til greiðsludags kröfunnar.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum bótakröfu C að fjárhæð kr. 2.166.633 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, af kr. 2.166.633, frá 8. ágúst 1993 til greiðsludags kröfunnar, en til vara ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, frá 8. júli 1993 til 13. september 1996, að stefnandi gerði fyrst bótakröfuna á hendur stefndu, dskj. 18, og síðan að viðbættum dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, frá 13. október 1996 til greiðsludags kröfunnar.

Til þrauta-þrautavara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum aðra bótafjárhæð að mati dómsins, ásamt vöxtum og eða dráttarvöxtum, einnig skv. mati dómsins (skv. vaxtalög nr. 25/1987 með síðari breytingum, til greiðsludags kröfunnar).

Í öllum tilfelum er krafist málskostnaðar að mati réttarins eða skv. framlögðum málskostnaðarreikning. Verði stefnanda ekki dæmdur málskostnaður er þess krafist að hann verði látinn falla niður, sbr. einnig útskýringar á bls. 15.

Varðandi kröfur um dráttarvexti, frá 8. ágúst 1993 skv. A og C bótakröfu og frá 9. júlí 1991 skv. B bótakröfu, er þess krafist að dómurinn noti heimild síðustu málsgreinar 15. gr. vaxtalaga nr. 25 / 1987.“

                Stefndu krefjast þess aðallega, að málinu verði vísað frá dómi.

Til vara krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda.

                Þá krefjast stefndu málskostnaðar samkvæmt reikningi í öllum tilvikum, auk virðisaukaskatts.

II.

Málsatvik.

Málavextir eru í stuttu máli þeir, að í nóvember 1990 fól stefnandi stefnda, Hróbjarti Jónatanssyni hrl., að gæta hagsmuna sinna vegna uppboðsmeðferðar á fasteigninni að Kleppsvegi 86, Reykjavík. Stefnandi átti veð í fasteigninni á 10. veðrétti samkvæmt tryggingarbréfi, sem ætlað var að tryggja tvær kröfur stefnanda. Önnur krafan var samkvæmt skuldabréfi útgefnu 10. júní 1990, að fjárhæð 1.140.000 krónur, en hin var samkvæmt víxli útgefnum 25. júlí 1990, að fjárhæð 3.100.000 krónur, með gjalddaga 10. ágúst 1990. Útgefandi víxilsins var Jörundur Pálsson, eigandi fasteignarinnar að Kleppsvegi 86. Sparisjóður vélstjóra hafði krafist uppboðs á fasteigninni skömmu áður.

Stefndi, Hróbjartur, fékk dóm fyrir kröfunum í ársbyrjun 1991 og gerði fjárnám fyrir þeim í fasteigninni í ágúst 1991. Hann fór fram á sölu eignarinnar á uppboði í lok ágúst 1991, með tveimur uppboðsbeiðnum, en þær beiðnir sættu mótmælum af hálfu uppboðsþola, þar sem rangra uppboðsheimilda var getið í þeim. Um þann ágreining var rekið mál fyrir uppboðsrétti og Hæstarétti Íslands. Dómur Hæstaréttar 29. september 1992 féll á þá lund að uppboðsbeiðnirnar þóttu ekki uppfylla lagaskilyrði og því ekki tækar í uppboðsréttinum.

Sýslumannsembættið ákvað að byrjun uppboðs á fasteigninni skyldi fara fram 4. desember 1992. Ákveðið var að fresta byrjun uppboðs til 28. desember 1992. Framhaldssala á fasteigninni sjálfri var ákveðin 22. janúar 1993 en féll niður, þar sem aðeins einn uppboðsbeiðandi var orðinn í málinu og uppboðsbeiðni hans afturkölluð. Beðið var um nauðungarsölu á eigninni að nýju þann 9. febrúar 1993 og var fasteignin seld þann 8. júlí 1993. Stefndi, Hróbjartur, bauð í eignina fyrir hönd stefnanda og varð hæstbjóðandi. Síðar var fallið frá boðinu og var eignin því boðin næstbjóðanda.

Samkvæmt frumvarpi að úthlutun söluandvirðis hefði stefnandi fengið greiddar rúmlega 900.000 krónur af söluandvirðinu. Uppboðsbeiðandi mótmælti hins vegar frumvarpinu og var rekið sérstakt dómsmál til úrlausnar ágreiningnum, fyrir héraðsdómi og Hæstarétti Íslands. Krafa uppboðsbeiðandans var tekin til greina í dómi Hæstaréttar þann 24. janúar 1994, en við það féll niður greiðsla til stefnanda af uppboðsandvirðinu.

Í bréfi 13, ágúst 1996 fór stefnandi fram á greinargerð og gögn um rekstur innheimtumálanna tveggja. Því bréfi var svarað með bréfi Leifs Árnasonar, hdl., fulltrúa stefnda, Hróbjarts, dagsettu 16. ágúst 1996. Stefnandi ítrekaði beiðni sína í bréfi 27. ágúst 1996. Með bréfi 13. september 1996 krafði stefnandi stefndu, Hróbjart og Almennu málfutningsstofuna um bætur vegna meintrar vanrækslu við meðferð innheimtumálanna tveggja, en stefnandi taldi sig hafa glatað andvirði verðbréfanna eftir sölu fasteignarinnar, sem bréfin voru tryggð með veði í. Nam bótakrafan 11.687.196 krónum. Í bréfi Hróbjarts Jónatanssonar hrl. fyrir hönd Almennu málflutningsstofunnar hf. til stefnanda l7. september 1996, er bótakröfunni hafnað. Þann 3. október 1996 sendi Almenna málflutningsstofan stefnanda reikninga fyrir þóknun að fjárhæð 937.982 krónur og útlögðum kostnaði að fjárhæð 156.334 krónur vegna reksturs nokkurra mála í þágu stefnanda. Í bréfi 28. október 1996 neitaði stefnandi að taka afstöðu til reikninganna fyrr en hann hefði fengið afrit viðeigandi gagna og skýringar á einstökum liðum.

Hinn 30. október 1996 óskaði stefnandi eftir áliti stjórnar Lögmannafélags Íslands á nokkrum atriðum, sem hann tiltók í 12 tölusettum liðum. Óskaði stefnandi m.a. eftir áliti stjórnarinnar á því, hver væri eðlileg þóknun fyrir lögfræðiþjónustu stefnda, Hróbjarts, í þágu stefnanda. Taldi stjórnin það ekki vera á valdsviði sínu að meta hvort stefnandi hefði orðið fyrir fjárhagslegu tjóni eða að kveða á um ætlaða bótaskyldu stefnda, Hróbjarts, vegna starfa hans í þágu stefnanda. Stjórnin áleit hins vegar að lækka bæri þóknun stefndu vegna innheimtu skuldabréfamáls og féllst ekki á reikning vegna útlagðs kostnaðar vegna reksturs sama máls, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á hvaða kostnaður þetta væri.

                Í júní 1997 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu vegna sama sakarefnis. Það mál felldi stefnandi niður 24. nóvember sama ár.

III.

Málsástæður stefnanda.

                Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni þar sem uppboðsandvirði hinnar veðsettu fasteignar, Kleppsvegar 86, hafi ekki hrokkið til greiðslu veðkrafna hans. Samkvæmt verðmati fasteignasala á hinni veðsettu eign hafi kröfur hans hins vegar verið vel tryggðar miðað við frjálsa sölu. Telur stefnandi stefndu bera bótaábyrgð á tjóninu vegna saknæmrar vanrækslu og mistaka í starfi.

Virðist stefnandi byggja mál sitt á tveimur meginmálsástæðum.

Í fyrsta lagi hafi stefndu orðið valdir að töfum á uppboðsmálinu, m.a. með því að standa í óþarfa málarekstri vegna mistaka við gerð uppboðbeiðni. Þá hafi þeir vanrækt að beiðast uppboðs á eigninni, sem hafi orðið þess valdandi að uppboðsmeðferð á framangreindri eign hafi ekki verið til lykta leidd fyrr en með uppboði 8. júlí 1993 eða hartnær þremur árum eftir að hún hófst. Áfallandi vextir á veðkröfur, sem stóðu framar í veðröð, og lækkandi fasteignaverð hefði þá rýrt mjög veðtryggingu viðskiptabréfa stefnanda.

Í öðru lagi hafi stefndu, sem boðið hafi í fasteignina fyrir hönd stefnanda á uppboðinu, borið að hafa samband við stefnanda svo hann gæti tekið afstöðu til boðsins. Það hafi stefndu ekki gert, þrátt fyrir að stefndu hefðu auðveldlega getað fengið upplýsingar um dvalarstað hans á þessum tíma og þar með haft við hann samband og samráð um málið.

IV.

Málsástæður stefndu.

                Stefndu krefjast í fyrsta lagi sýknu á þeim grundvelli, að með því að stefnandi felldi fyrirvaralaust niður dómsmál um sama sakarefni í nóvember 1997, hafi stefnandi ráðstafað sakarefni málsins á þann hátt að bindandi sé fyrir hann. Sú ráðstöfun hafi falið í sér óafturkræfa yfirlýsingu stefnanda um að hann hafi að fullu og öllu fallið frá kröfum á hendur stefndu hvað varðar sakarefni málsins.

                Stefndu benda á, að í málatilbúnaði stefnanda byggi hann á því, að stefndi, Hróbjartur, hafi gerst sekur um bótaskyld mistök, sem valdið hafi ætluðu fjártjóni stefnanda. Engin grein sé hins vegar gerð fyrir aðild stefndu, Jónatans Sveinssonar og Reynis Karlssonar, að málinu. Virðist svo sem stefnandi beini kröfum sínum að stefndu, Jónatani og Reyni, á grundvelli eignaraðildar þeirra að Almennu málflutningsstofunni sf. Benda stefndu á, að við samruna Almennu málflutningsstofunnar sf. og Lögmannsstofu Baldvins og Reynis sf. hafi Almenna málflutningsstofan hf. tekið við öllum réttindum og skyldum Almennu málflutningsstofunnar sf. Öll hagsmunagæsla vegna stefnanda hafi verið innt af hendi í nafni hlutafélagsins enda hafi hinir stefndu lögmenn og fulltrúar þeirra verið starfsmenn hlutafélagsins frá 1. september 1992. Rekstur lögmannsstofu á vegum sameignarfélagsins hafi fallið niður fljótlega eftir það. Ákveðið hafi verið í september 1996 að slíta hlutafélaginu um Almennu málflutningsstofuna og hafi sameignarfélagið Almenna málflutningsstofan tekið við rekstri stofunnar frá sama tíma. Samkvæmt þessu beri að sýkna stefnda, Jónatan, af kröfum stefnanda í máli þessu, enda beri hann ekki persónulega ábyrgð á rekstri Almennu málflutningsstofunnar hf. Þá beri einnig að sýkna Almennu málflutningsstofuna sf., en félagið hafi ekki rekið lögmannsstofu frá og með október 1992 til september 1996. Að því er stefnda, Reyni, varðar hafi hann ekki orðið meðeigandi að Almennu málflutningsstofunni sf. fyrr en í ágúst 1996, en atvik máls þessa hafi gerst á árinu 1993 og fyrr. Beri því að sömuleiðis að sýkna hann af kröfum stefnanda í máli þessu.

                Að öðru leyti er sýknukrafa stefndu studd þeim rökum að stefndu hafi ekki gerst sekir um saknæman eða ólögmætan verknað gagnvart stefnanda. Stefndi, Hróbjartur, hafi þvert á móti sinnt því verki, sem stefnandi hafi falið honum, þ.e. að gæta hagsmuna hans vegna nauðungarsölu á fasteigninni að Kleppsvegi 86 í Reykjavík. Stefnandi hafi ekki viljað eiga frumkvæði að nauðungarsölu og hafi hann ekki ætlast til annars en þess, að ef og þegar aðrir veðhafar kysu að selja fasteignina á uppboði, yrði kröfum stefnanda annað hvort lýst eða hann látinn vita af gangi mála svo að hann gæti tekið ákvörðun um framhald málsins.

                Stefndu kveða þá málsástæðu stefnanda að stefndi, Hróbjartur, hafi með mistökum tafið uppboðsmálið, ekki standast. Í fyrsta lagi hafi uppboðshaldari ákveðið að fresta uppboðinu án efnislegra ástæðna. Fjölmargar aðrar uppboðsbeiðnir hafi verið fyrir hendi og hafi þeir uppboðsbeiðendur getað hlutast til um sölu, ef því hefði verið að skipta. Í öðru lagi hafi stefnandi allt eins gert ráð fyrir því að nauðungarsala færi ekki fram á eigninni. Stefnandi hafi látið í ljós þann vilja, að sýna skuldurum biðlund. Í þriðja lagi hafi stefndi bætt strax úr göllum á uppboðsbeiðninni, sem uppboðshaldari hafi fallist á, en Hæstiréttur hafi verið á annarri skoðun. Uppboðsmálinu hafi verið áfrýjað af uppboðsþola, en ekki af hálfu stefnanda.

                Stefndu halda því fram, að reynt hafi verið með öllum ráðum að hafa upp á stefnanda fyrir uppboðið 8. júlí 1993, en án árangurs. Hafi m.a. verið sent símskeyti á heimili hans og það skilið þar eftir daginn fyrir uppboðið. Þá hafi uppboðið verið auglýst í dagblöðum. Upplýst sé af stefnanda að hann hafi verið á ferðalagi innan lands í júní og júlí. Hafi hann komið til Reykjavíkur dagana í kringum uppboðið, en síðan farið til Danmerkur 11. júlí 1993, þremur dögum eftir uppboðið án þess að hirða um að svara fyrrgreindu hraðskeyti stefndu, sem skilið hafði verið eftir á heimili hans.

                Þá vísa stefndu á bug þeim staðhæfingum stefnanda, að hann hafi látið stefndu í té símanúmer móður hans svo unnt væri að ná í hann ef þörf krefði. Stefnandi hafi ekki upplýst stefndu um að hann væri á ferðalagi innanlands eða á förum til útlanda. Þar sem stefnandi hugði á ferðalög á þessum tíma hafi honum borið að veita lögmanni sínum umboð til þess að kaupa fyrrgreinda fasteign á tilteknu verði á uppboði. Þá hafi stefnandi borið að láta stefndu í té upplýsingar um hvar og hvernig væri hægt að ná í hann ef þörf krefði.

                Stefndi, Hróbjartur, hafi gert allt sem í hans valdi stóð til þess að hafa upp á stefnanda og upplýsa hann um yfirvofandi uppboð og síðar um niðurstöðu framhaldssölu fasteignarinnar. Stefndu geti ekki borið ábyrgð á fjarveru stefnanda á þessum tíma.

                Þá krefjast stefndu sýknu vegna tómlætis stefnanda. Upplýst sé að hið umdeilda uppboð á fasteigninni að Kleppsvegi 86 fór fram 8. júlí 1993. Stefnandi hafi höfðað mál á hendur stefndu vegna sama sakarefnis 26. júní 1997 eða u.þ.b. fjórum árum eftir uppboðið. Hafi stefnandi kosið að fella það mál niður í nóvember sama ár. Stefna þessa máls sé þingfest 30. júní 1998, eða fimm árum eftir að fyrrgreint uppboð fór fram. Ljóst sé því að stefnandi hafi gerst sekur um tómlæti með því að halda kröfu sinni ekki til laga og réttar fyrr en raun ber vitni. Enn fremur liggi fyrir að stefnandi lýsti ekki kröfum sínum samkvæmt innköllun, sem birt hafi verið í Lögbirtingablaði nr. 144/1996, er Almennu málflutningsskrifstofunni hf. var slitið. Hafi stefnanda borið að beina kröfum sínum að hlutafélaginu, svo sem fyrr greinir. Allur réttur, sem stefnandi kunni að hafa átt á hendur hlutafélaginu sé því fallinn niður fyrir vanlýsingu, sbr. 112. gr. laga nr. 2/1995.

                Þá halda stefndu því fram að kröfur stefnanda samkvæmt fyrrgreindum viðskiptabréfum séu að fullu greiddar samkvæmt yfirlýsingum skuldara. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir neinu fjárhagslegu tjóni vegna þess að kröfurnar fengust ekki greiddar af uppboðsandvirði hinnar veðsettu fasteignar. Fyrrgreind viðskiptabréf hafi verið gefin út vegna peningaláns, sem stefnandi hafi verið búinn að fá greitt er uppboð á fasteigninni hófst.

V.

Niðurstaða.

Stefndu styðja frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi þeim rökum, að með því að stefnandi felldi fyrirvaralaust niður dómsmál um sama sakarefni í nóvember 1997, hafi stefnandi ráðstafað sakarefni málsins á þann hátt að bindandi sé fyrir hann. Sú ráðstöfun hafi falið í sér óafturkræfa yfirlýsingu stefnanda um að hann hafi að fullu og öllu fallið frá kröfum á hendur stefndu hvað varðar sakarefni málsins.

Á þetta verður ekki fallist. Niðurfelling máls stendur því ekki í vegi að stefnandi höfði nýtt mál um sakarefnið.

Í öðru lagi byggja stefndu frávísunarkröfu sína á því, að málatilbúnaður stefnanda sé andstæður þeirri meginreglu laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem kveður á um skýran málatilbúnað.

Ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála miða að því að grundvöllur máls sé í upphafi málsmeðferðar skýrt og greinilega markaður svo að stefndi hafi færi á að bregðast við málsókninni með málefnalegum hætti. Í e-lið 1. mgr. 80. gr. laga um 91/1991 um meðferð einkamála segir, að í stefnu þurfi að koma fram málsástæður, sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Segir ennfremur að lýsing þessi skuli vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé.

Stefna máls þessa er 21 blaðsíða að lengd. Atvikum málsins og málsástæðum er þar lýst í afar löngu og ítarlegu máli. Eftir að stefnandi hefur gert grein fyrir dómkröfum sínum í stefnu kemur kafli, sem stefnandi nefnir “málavextir og atvik máls”. Svo sem heiti kaflans bendir til gerir stefnandi þar grein fyrir atvikum málsins. Að því loknu gerir stefnandi ítarlega grein fyrir áliti stjórnar Lögmannafélags Íslands 25. mars 1997 um sakarefni málsins og gerir jafnframt grein fyrir eigin ályktunum af lestri þess. Fyrrgreint álit Lögmannafélagsins hefur stefnandi einnig lagt fram sem dómskjal í málinu. Stefnandi gerir grein fyrir dómkröfum sínum og málsástæðum á næstu 14 blaðsíðum í stefnu. Í lok þess kafla gerir stefnandi grein fyrir málsástæðum, sem hann kveðst jafnframt og meðal annars byggja á, og eru þær í 30 tölusettum liðum. Auk þessa hefur stefnandi lagt fram tvö dómskjöl, nr. 9 og 10, sem hann hefur sjálfur útbúið í tilefni málshöfðunarinnar. Á dómskjali nr. 9 gerir stefnandi grein fyrir því á 7 blaðsíðum hvernig frumvarp að úthlutun uppboðsandvirðis hefði verið ef uppboð á fasteigninni að Kleppsvegi 86 hefði farið fram í byrjun maí 1991. Á dómskjali nr. 10 gefur hins vegar að líta leiðréttingar stefnanda á frumvarpi sýslumanns um skiptingu söluverðs fasteignarinnar að Kleppsvegi 86. Dómskjal þetta er 8 blaðsíður að lengd.

Stefnandi setur kröfugerð sína fram sem aðalkröfu og þrjár varakröfur. Auk þess er í aðal-, vara- og þrautavarakröfu aðallega krafist dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, en til vara vaxta samkvæmt 7. gr. sömu laga og er þá ekki miðað við sama upphafsdag vaxtanna. Í þrautaþrautavarakröfu er hins vegar krafist vaxta og/eða dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 að mati dómsins til greiðsludags kröfunnar. Auk þess að skýra kröfur sínar í stefnu í löngu máli vísar stefnandi til dómskjala 9 og 10 til frekari skýringa á þeim, en skjöl þessi eru eins og áður segir útbúin af stefnanda sjálfum í tilefni málshöfunarinnar og hafa að geyma skriflegan málflutning.

Samkvæmt því sem að framan greinir er stefna málsins að verulegu leyti skriflegur málflutningur, sem er í brýnni andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um munnlega málsmeðferð. Þá hefur stefnandi lagt fram í málinu gífurlegan fjölda skjala. Af stefnu verður lítið ráðið um það hvað sanna eigi með einstökum skjölum. Sum þeirra hafa aðeins að geyma skriflegan málflutning svo sem fyrr greinir. Kröfugerð er óskýr og ruglingsleg og krafa um dráttarvexti í þrautaþrautavarakröfu er valkvæð. Mjög skortir því á skýra og glögga framsetningu krafna í stefnu og verður að telja dómkröfur stefnanda of óákveðnar og óljósar til að dómur verði lagður á málið. Lýsing stefnanda á málsatvikum og málsástæðum er gífurlega yfirgripsmikil og málsástæður eru ekki hnitmiðaðar. Á köflum er erfitt að greina í sundur málavexti og málsástæður. Þá tengir stefnandi lýsingu þessa ekki með viðhlítandi hætti við einstakar kröfur.

Með vísan til ofanritaðst þykir málatilbúnaður stefnanda í brýnni andstöðu við þær grunnreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sem ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991 eru reist á. Þykir svo mjög skorta á glögga og skýra framsetningu krafna, málavaxta og málsástæðna í stefnu að hún geti ekki orðið grunnur áframhaldandi meðferðar málsins. Úr þessum ágöllum verður ekki bætt undir rekstri málsins.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 50.000 krónur.

Úrskurðinn kvað upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi greiði stefndu 50.000 krónur í málskostnað.