Hæstiréttur íslands
Mál nr. 556/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 5. október 2009. |
|
Nr. 556/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X(Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að hafna því að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, nú á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 28. október 2009 klukkan 16.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 10. september 2008 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var krafa sóknaraðila í héraði einungis reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Í greinargerð til Hæstaréttar vísar sóknaraðili að auki til a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga til stuðnings kröfu sinni. Í þessum síðastgreindu lagatilvísunum felst breyting á grundvelli málsins sem héraðsdómur hefur ekki tekið afstöðu til. Koma þær því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess í gær fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, kt. [...],[...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. október 2009 kl. 16:00.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að lögreglan hafi um nokkurt skeið haft til rannsóknar innflutning á rúmlega fjórum kg af amfetamíni. Upphaf málsins hafi verið að þann 12. ágúst 2009 hafi lögreglan í Árósum í Danmörku lagt hald á pakka sem innihélt fíkniefni. Lögreglan hafi skipt fíkniefnunum út fyrir lögleg efni og síðan hafi pakkinn verið sendur undir eftirlit lögreglu hingað til lands. Rannsókn málsins hafi síðan beinst að fimm aðilum hér á landi og hafi þeir allir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, þ. á m. kærði. Fram kemur í gögnum málsins að þáttur kærða hafi verið sá að fara í vöruhús Samskipa og sækja pakkann og flytja hann upp í [...]. Í skýrslu sinni fyrir dómi í gær sagði kærði m.a. að hann hafi tekið þetta verkefni að sér til þess að fá fellda niður 400.000 króna skuld en auk þess hafi hann átt að fá 200.000 krónur greiddar fyrir verkið.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að rannsókn málsins miði vel áfram en framundan sé frekari gagnaöflun og úrvinnsla þeirra gagna. Lögreglan telur kærða vera undir sterkum grun um aðild að broti sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Meint aðild kærða sé mikil og telur lögreglan öruggt að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið ætlaða brot kærða sé mjög alvarlegt og með tillit til hagsmuna almennings sé nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar.
Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn liggur ekki annað fyrir í málinu en að þáttur kærða í brotinu hafi einungis verið sá að sækja pakka með fíkniefnum og flytja hann milli staða gegn greiðslu. Ekki liggur fyrir að kærði hafi komið að innflutningnum sjálfum eða skipulagningu hans. Þykja því skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 ekki vera fyrir hendi í málinu og verður því hafnað kröfu lögreglustjórans um að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi.