Hæstiréttur íslands

Mál nr. 238/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing
  • Málshöfðunarfrestur


Föstudaginn 9

 

Föstudaginn 9. maí 2008.

 

Nr. 238/2008.

Ártúnsbrekka ehf.

(Kristinn Brynjólfsson, framkvæmdastjóri)

gegn

VBS Fjárfestingabanka hf.

(Skúli Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Þinglýsing. Málshöfðunarfrestur.

Á krafðist þess í málinu að nánar tilgreind skjöl yrðu afmáð úr þinglýsingabók. Var kröfunni hafnað þegar af þeirri ástæðu að þegar hún kom fram var löngu liðinn sá fjögurra vikna frestur sem mælt er fyrir í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að sýslumanninum í Reykjavík yrði gert að afmá úr þinglýsingabók færslu á eignarhlutum með auðkennunum 229-8067 og 229-8153 í fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík á 32 veðskuldabréfum, útgefnum til handhafa 1. mars 2006 að fjárhæð samtals 160.000.000 krónur, 10 veðskuldabréfum, útgefnum til handhafa 5. október 2005 að fjárhæð samtals 50.000.000 krónur, og 14 veðskuldabréfum, útgefnum til handhafa 30. júní 2006 að fjárhæð samtals 42.000.000 krónur. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess að sýslumanni verði gert að afmá færslu áðurnefndra veðskjala af framangreindum eignarhlutum í fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, sem fyrirsvarsmanni sóknaraðila, Kristni Brynjólfssyni, verði gert að greiða.

Varnaraðili hefur ekki fært haldbær rök fyrir kröfu sinni um að málinu verði vísað frá Hæstarétti og verður henni því hafnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað, enda hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en ekki eru næg efni til að dæma fyrirsvarsmann þess fyrrnefnda til greiðslu samkvæmt 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ártúnsbrekka ehf., greiði varnaraðila, VBS Fjárfestingabanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2008.

Mál þetta, sem barst dóminum 8. febrúar sl., var þingfest 15. febrúar sl. Það var tekið til úrskurðar 29. febrúar sl.

Sóknaraðili, Ártúnsbrekka ehf., krefst þess að 32 handhafaskuldabréf á 1. veðrétt hvert að fjárhæð kr. 5.000.000,- útgefin þann 1. mars 2006, 10 handhafaskuldabréf á 2. veðrétt, hvert að fjárhæð kr. 5.000.000,- útgefin þann 5. október 2005, og 14 handhafaskuldabréf á 3. veðrétt, hvert að fjárhæð kr. 3.000.000,- útgefin þann 30. júní 2006 verði afmáð úr þinglýsingarbókum af Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík, landnúmer 110748, fastanúmer 229-8067 og 229-8153. Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili, sýslumaðurinn í Reykjavík, hefur ekki látið málið til sín taka. Varnaraðili gaf VBS Fjárfestingabanka hf. kost á að koma á framfæri skriflegum kröfum sínum og athugasemdum í samræmi við 4. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Gerir VBS Fjárfestingabanki þær kröfur að kæru sóknaraðila verði vísað frá. Til vara að staðfest verði úrlausn þinglýsingarstjóra vegna Rafstöðvarvegar 1a, Reykjavík, fastanúmer 229-8067 og 229-8153 frá 24. apríl 2007 um að veðin hvíli á eignunum. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins vegna tilhæfulausrar kæru.  

I.

 Málavextir eru þeir að þann 5. október 2005 voru gefin út 10 handhafaskuldabréf að fjárhæð kr. 5.000.000,- hvert, þann 1. mars 2006 voru gefin út 32 handhafaskuldabréf að fjárhæð kr. 5.000.000,- hvert, og þann 30. júní 2006 voru gefin út 14 handhafaskuldabréf að fjárhæð kr. 3.000.000,- hvert. Voru öll bréfin með veði í Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík, landnúmer 110748.

Þann 22. desember 2006 var móttekin til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Reykjavík eignaskiptayfirlýsing fyrir Rafstöðvarveg 1a, Reykjavík, dagsett þann sama dag. Kom hún í stað fyrri eignaskiptayfirlýsingar dagsettrar í júní 2002. Var hún innfærð í þinglýsingarbækur þann 4. janúar 2007. Með henni voru stofnaðir nýir matshlutar með fastanúmerunum 229-8067 og 229-8153.

Með afsali dags. 10. mars 2007 var umræddum eignarhlutum, þ.e. hlutum merktum 229-8153 og 229-8067, afsalað til sóknaraðila af Miðstöðinni ehf. eignarhaldsfélagi. Samkvæmt veðbókarvottorðum fyrir eignirnar dags. 9. mars 2007 voru báðir eignarhlutarnir veðbandalausir.

Með bréfi VBS Fjárfestingabanka hf., dags. 20. apríl 2007, var þess krafist að leiðrétt yrði þegar í stað þinglýsing frá 4. janúar 2007 þegar eignaskiptayfirlýsingu var þinglýst á Rafstöðvarveg 1a án þess að tekið væri tillit til áhvílandi veðskulda. Var þess krafist að veðbönd þau sem hvíldu á Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík, með landnúmeri 110748, og þar tilgreindum fastanúmerum, yrðu færð inn á fastanúmer 229-8067 og 229-8153, en þau fastanúmer hafi verið stofnuð á lóðinni með eignaskiptayfirlýsingunni. 

Í bréfi sýslumanns til dómsins kemur fram að við þinglýsingu eignaskiptayfirlýsingarinnar hinn 4. janúar 2007, þar sem eigninni var skipt upp í fleiri eignarhluta, hafi láðst að flytja öll skjöl yfir á þær eignir er fengu nýtt fastanúmer. Með vísan til þessa hafi þinglýsingarstjóri orðið við beiðni VBS Fjárfestingabanka hf. hinn 24. apríl 2007. Er það sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík sem mál þetta snýst um. 

II.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi keypt eignarhluta merkta 229-8067 og 229-8153 í Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík, þann 10. mars 2007 og hafi afsal verið útgefið þann sama dag. Fyrir hafi legið þinglýsingarvottorð dags. 9. mars 2007 og samkvæmt þeim hafi engin veðbönd hvílt á eignarhlutunum og sóknaraðili því eignast þá veðbandalausa. Að kröfu varnaraðila hafi þinglýsingarstjóri þinglýst veðskuldabréfunum á matshlutana án þess að gera þinglýstum eiganda viðvart, og það hafi ekki verið fyrr en beiðni um nauðungarsölu var birt að sóknaraðila hafi verið um þetta kunnugt.

III.

Í athugasemdum, VBS Fjárfestingabanki hf., kemur fram að þegar nýrri eignaskiptayfirlýsingu um Rafstöðvarveg 1a var þinglýst og tvö ný fastanúmer mynduð, 229-8067 og 229-8153, hafi veðskuldabréfin hvílt á upphaflegu fastanúmerunum og veðskuldirnar hverfi ekki við það að ný fastanúmer komi til. Þá liggi fyrir að Miðstöðin ehf. eignarhaldsfélag hafi verið stofnandi sóknaraðila. Sömu aðilar skipi stjórnir félaganna og Kristinn Brynjólfsson sé framkvæmdastjóri fyrir þau bæði. Því hafi framkvæmdastjórinn vitað að veðskuldirnar hvíldu einnig á hinum nýju eignarhlutum. Kristni sé birt greiðsluáskorun með stefnuvotti vegna fnr. 229-8067 og 229-8153 þann 11. maí 2007 og aftur þann 12. október 2007 vegna sömu eigna. Því sé fjögurra vikna kærufrestur skv. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 liðinn. Leiðréttingunni hafi ekki verið mótmælt fyrr en 22. janúar 2008 og með vísan til eignarhalds á félögunum geti framkvæmdastjórinn ekki borið fyrir sig grandleysi og enn síður þar sem greiðsluáskoranir höfðu verið birtar honum.  

IV.

Með eignaskiptasamningi sem þinglýst var 4. janúar 2007 var fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík skipt upp í fleiri eignarhluta en áður hafði verið. Hinir  tveir nýju eignarhlutar fengu fastanúmerin 229-8067 og 229-8153. Í máli þessu er um það deilt hvort sýslumanninum í Reykjavík hafi verið heimilt að færa veðskuldabréf þau sem hvíldu á Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík á nýju eignarhlutana að kröfu varnaraðila.             Með afsali dags. 10. mars 2007 afsalaði Miðstöðin ehf eignarhaldsfélag umræddum eignarhlutum til sóknaraðila, Ártúnsbrekku ehf. Voru eignarhlutarnir veðbandalausir samkvæmt þinglýsingarvottorði og afsalað þannig. Kristinn L. Brynjólfsson er stjórnarmaður í hlutafélögunum Ártúnsbrekku ehf. og Miðstöðinni ehf. og stofnandi Ártúnsbrekku ehf. og Miðstöðvarinnar ehf.

Í bréfi sýslumannsins í Reykjavík frá 21. febrúar 2008 kemur fram að með bréfi VBS Fjárfestingabanka hf., dags. 20 apríl 2007, hafi verið krafist leiðréttingar á rangri færslu í þinglýsingabók. Við þinglýsingu á eignaskiptayfirlýsingu umræddrar eignar 4. janúar 2007, þar sem eigninni var skipt upp í fleiri eignarhluta, hafi láðst að flytja öll skjöl yfir á þær eignir er fengu ný fastanúmer.

Fyrir liggur að þinglýsingarstjóri varð við beiðni VBS Fjárfestingabanka hf. hinn 24. apríl 2007 og færði veðskuldabréfin á nýju eignarhlutana.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 skal þinglýsingastjóri bæta úr ef hann verður þess áskynja að færsla í fasteignabók er röng eða mistök hafa orðið um þinglýsinguna ella.

Sýslumaður bendir á að sóknaraðila hafi mátt vera ljóst að eðlileg leiðrétting færi fram á þinglýsingabókum umræddrar eignar og áhvílandi veðskuldir færðar aftur á eignina í samræmi við efni skjalanna.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga hefur hver sá sem hefur lögvarða hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra heimild til að bera úrlausnina undir dóm. Skal það gert áður en fjórar vikur eru frá henni liðnar ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana.

Í tilvitnuðu bréfi sýslumanns kemur fram að ekki verði séð af gögnum málins með hvaða hætti þinglýsingarstjóri hefur kynnt Ártúnsbrekku ehf. umrædda leiðréttingu í þinglýsingabók.

Sóknaraðili heldur því fram að honum hafi ekki verið kunngerð leiðréttingin og að honum hafi ekki orðið kunnugt um hana fyrr en beiðni um nauðungarsölu eignarhlutanna var birt honum. Fyrir liggur að beiðni um nauðungarsölu eignarhluta með fastanr. 229-8067 er dagsett 31.10.2007 og vegna eignarhluta með fastanr. 229-8153 er dagsett 02.11.2007. Ekki liggur fyrir hvenær beiðniranar voru birtar sóknaraðila.

Fyrir liggur að sóknaraðila voru birtar greiðsluáskoranir þann 11. maí 2007 og aftur þann 12. október 2007. Eru þær allar birtar Kristni L. Brynjólfssyni stjórnarmanni og framkvæmdastjóra sóknaraðila. Í greiðsluáskorunum þessum kemur skýrt fram að þær séu vegna 14 samhljóða veðskuldabréfa að fjárhæð kr. 3.000.000,- hvert, tryggðum með 3. veðrétti í Rafstöðvarvegi 1a, Reykjavík, eignarhlutum 229-8153 og 229-8067. Verður því við það að miða að sóknaraðila hafi mátt vera ljóst, eigi síðar en við birtingu þessara greiðsluáskorana, að veðskuldabréfin hvíldu á hinum tilgreindu eignarhlutum.

Af gögnum málsins verður ekki séð að sóknaraðili hafi krafist þess að þinglýsingarstjóri leiðrétti færslu þá sem gerð var í fasteignabók varðandi eignarhlutana, líkt og sóknaraðila var heimilt skv. 2. mgr. 27. gr. þinglýsingarlaga. Það er ekki fyrr en með bréfi dags. 22. janúar 2008 að sóknaraðili tilkynnir sýslumanninum í Reykjavík um að hann hyggist kæra ákvörðun þinglýsingarstjóra um að innfæra bréfin á eignarhlutana til héraðsdóms. Var þá löngu liðinn sá fjögurra vikna frestur sem sóknaraðili hafði skv. 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga. Ber því þegar af þessari ástæðu að hafna beiðni sóknaraðila.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna anna dómara.

                                                               Úrskurðarorð:

Kröfu sóknaraðila, Ártúnsbrekku ehf., er hafnað.

 Málskostnaður fellur niður.