Hæstiréttur íslands
Mál nr. 101/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 8. mars 2004. |
|
Nr. 101/2004. |
Ríkislögreglustjóri (Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. mars 2004 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2004.
Ríkislögreglustjóri hefur gert kröfu til þess að X, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá 21. febrúar s.l., verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 24. mars nk. kl. 16.00.
Í greinargerð ríkislögreglustjóra segir að af hálfu sýslumannsins á Eskifirði, ríkislögreglustjórans og ýmissa annarra lögreglustjóraembætta, hafi verið unnið að rannsókn eftirgreinds sakamáls í kjölfar þess að miðvikudaginn 11. þ.m. hafi fundist í höfninni í Neskaupsstað lík af karlmanni, sem augljóslega hafði verið varpað í höfnina með viðfestum sökkum. Í samræmi við ákvæði b. liðar 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 hafi verið óskað aðstoðar frá ríkislögreglustjóra og hafi efnahagsbrotadeild embættisins veitt rannsóknaraðstoð frá miðvikudeginum 11. febrúar s.l.
[ . . . ]
Álit dómsins:
Telja verður að rökstuddur grunur sé fyrir því að kærði, X, hafi átt hlut að brotum gegn 124. gr., 173. gr. a, 211. gr. og eða 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og að hætta geti verið á því að hann torveldi rannsókn málsins, sem enn er ólokið, svo sem með því að skjóta undan gögnum og hafa áhrif á vitni og eða samseka, ef hann fær að fara frjáls ferða sinna. Ber því samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að taka kröfu ríkislögreglustjóra til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. mars 2004 klukkan 16.00.