Hæstiréttur íslands

Mál nr. 231/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Föstudaginn 27. apríl 2012.

Nr. 231/2012.

Kristján Þorsteinsson

(sjálfur)

gegn

Vöku hf., björgunarfélagi

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

Kærumál. Nauðungarsala. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu hans um ógildingu á ákvörðun sýslumanns um nauðungarsölu tveggja bifreiða en kröfum hans hafnað að öðru leyti. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem ekki var uppfyllt skilyrði um áfrýjunarfjárhæð, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Garðar Gíslason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. mars 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2012, þar sem ógilt var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að bifreiðir sóknaraðila með fastanúmerin VX 132 og AY 786 yrðu seldar nauðungarsölu að kröfu varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Hann krefst þess aðallega að nauðungarsölur á áðurgreindum bifreiðum „verði felldar niður og að varnaraðila verði gert að afhenda sóknaraðila sömu bifreiðar og að Hæstiréttur kveði svo á að sóknaraðila beri ekki að greiða þann áfallna og áfallandi kostnað sem gerð er krafa um í uppboðsbeiðnum varnaraðila, dags. 15. mars 2011.“ Að þessu frágengnu gerir sóknaraðili fjórar varakröfur, sem ekki eru efni til að greina nánar frá. Í öllum tilvikum krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila, en til vara að kærumálskostnaður falli niður.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að lagt verði fyrir sýslumann að láta fara fram nauðungarsölu á áðurgreindum bifreiðum. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Í gögnum málsins kemur fram að höfuðstóll þeirra krafna, sem varnaraðili leitaði fullnustu á hjá sóknaraðila með beiðni um nauðungarsölu á áðurgreindum bifreiðum, var samtals 214.500 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 verður úrskurður um efni máls, sem rekið er eftir ákvæðum XIII. kafla laganna, ekki kærður til Hæstaréttar nema fullnægt sé almennum skilyrðum fyrir áfrýjun dóms í einkamáli. Af þessu leiðir að heimild til kæru í máli sem þessu er meðal annars háð því að hagsmunir svari til áfrýjunarfjárhæðar, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en hún nemur nú 705.325 krónum. Því skilyrði er hér ekki fullnægt og verður þegar af þeirri ástæðu tekin til greina aðalkrafa varnaraðila um að máli þessu verði vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Kristján Þorsteinsson, greiði varnaraðila, Vöku hf., björgunarfélagi, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2012.

Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar 13. janúar 2012, barst dóminum 26. ágúst 2011. Það er höfðað af Kristjáni Þorsteinssyni, kt. 110264-2919, Veltustundi 3b, Reykja­vík, á hendur Vöku hf., kt. 670269-5589, Skútuvogi 8, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að nauðungarsala, nr. 011-2011-00293, sem fram á að fara hjá Sýslu­mann­inum í Reykjavík á tveimur bifreiðum, annarri af gerðinni Subaru, árgerð 1999, með fasta­númerið VX-132, og hinni af gerðinni Renault Clio, árgerð 1994, með fasta­núm­erið AY-786, verð felld niður og að varnaraðila verði gert að afhenda sóknaraðila bif­reið­arnar svo og að dómurinn kveði á um að sóknaraðila beri ekki að greiða áfallinn og áfall­andi kostnað sem gerð er krafa um í uppboðsbeiðni varn­ar­aðila, dags. 15. mars 2011.

Til vara krefst sóknaraðili þess að nauðungarsalan verði stöðvuð og sókn­ar­aðila dæmdur vörsluréttur yfir bifreiðum með fastanúmerin VX-132 og AY-786 á meðan rekið verði dómsmál um réttmæti kröfu varnaraðila vegna þessara bifreiða, sem sókn­ar­aðili muni höfða gegn varnaraðila í framhaldi þess að hann fái úrskurð um að bifreiðarnar skuli afhentar honum.

Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að nauðungarsala á grundvelli uppboðs­beiðni, dags. 15. mars 2011, í uppboðsmáli nr. 011-2011-00293 hjá Sýslumanninum í Reykja­vík, verði dæmd niðurfallin frá og með fyrirtöku málsins 9. maí 2011, sökum þess að varn­ar­aðili mætti ekki til þeirrar fyrirtöku, er taka átti fyrir að ræða mótmæli sókn­ar­aðila gegn nauðungarsölunni.

Komi til þess að úrskurður héraðsdóms verði kærður til Hæstaréttar krefst sókn­ar­aðili þess að sú kæra fresti frekara framhaldi nauðungarsölunnar og um það vísað til heimildar í 3. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991.

Sóknaraðili krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi Sýslumannsins í Reykja­vík og varnaraðila að mati réttarins.

Þegar málið var þingfest kom starfsmaður varnaraðila, Vöku hf., í dóminn. Þar sem hann var hvorki fyrirsvarsmaður né formaður stjórnar var litið svo á að varnar­aðili hefði ekki sótt þing. Hann kom því ekki neinum kröfum að í málinu.

Sýslumaður hefur ekki nýtt sér heimild 6. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 til að senda héraðsdómara athugasemdir sínar um málefnið.

Málavextir

Að sögn sóknaraðila fjarlægði varnaraðili, 11. janúar 2011, bifreið sóknaraðila, VX-132, frá Hrannarstíg í Reykjavík án heimildar og vitundar sóknaraðila og hafi síðan þá haft hana í sinni vörslu. Samkvæmt gögnum málsins var hin bifreið sóknar­aðila, AY-786, fjarlægð þaðan sem hún stóð 17. janúar sama ár. Sóknaraðili kveðst hvorki hafa fengið viðvörun um töku bílanna né til­kynn­ingu í framhaldi af henni. Í greinar­gerð sóknaraðila kemur fram að lögregla hafi, skömmu áður, fjarlægt skrán­ing­ar­plötur af bifreiðunum án þess að gera sókn­ar­aðila við­vart um afleiðingar þess.

Varnaraðili hafi með beiðni, dags. 15. mars 2011, sem sýslu­maður hafi tekið við 20. apríl 2011, krafist nauð­ung­ar­sölu á bifreiðum sóknaraðila. Með beiðn­inni hafi hann lagt greiðsluáskorun stílaða á sókn­ar­aðila, dags. 15. mars sl., og birt­ingar­vottorð um meinta birtingu fyrir honum, 31. mars sl. Sókn­ar­aðili kannist hvorki við að hafa séð eða vitað um þessi gögn fyrr en hann hafi fengið þau afhent hjá sýslu­manni 4. maí 2011. Þá hafi hann mótmælt því að honum hafi verið birt greiðslu­áskor­unin, upp­boðs­beiðnin eða annað varðandi þetta mál. Á sama tíma hafi hann óskað eftir því að fá frá sýslu­manni gögn sem lægju til grund­vallar beiðninni. Sýslumaður hafi sagst ekki hafa frekari gögn. Þannig séu ekki neinar sann­anir um tilefni eða undan­fara þess að bif­reið­arnar voru fjar­lægðar. Á sama tíma krafðist sóknaraðili þess að nauðungarsalan yrði felld niður og að honum yrðu afhentar bifreiðarnar úr vörslu varnaraðila meðal annars í ljósi þess að fram­ganga hans væri bæði óeðlileg og ólögmæt.

Sýslumaðurinn í Reykjavík hugðist, á reglubundnu uppboði til nauð­ung­ar­sölu á bif­reiðum, laugardaginn 7. maí 2011, bjóða upp bifreiðar sóknaraðila, með fasta­númerin VX-132 og AY-786. Vegna mótmæla sóknar­aðila voru bifreiðarnar ekki boðnar upp á fyrirhuguðum tíma heldur hélt sýslu­maður, mánu­dag­inn 9. maí 2011, fund um mótmæli sóknaraðila við fyrirhugaðri nauð­ung­ar­sölu. Varn­ar­aðili sótti ekki þann fund. Á fundinum hafnaði fulltrúi sýslumanns þeirri kröfu sókn­ar­aðila að nauð­ungar­sala bifreiða hans yrði stöðvuð á grundvelli þess að birtingu greiðslu­áskor­unar væri áfátt. Að mati sýslumanns var það ekki á hans valdi að úrskurða um lögmæti birt­ingar. Þá lýsti sóknaraðili því yfir að hann myndi kæra þessa ákvörðun sýslu­manns til héraðsdóms.

Það var ekki fyrr en 17. ágúst 2011 sem sóknaraðili fékk gögn málsins afhent frá sýslumanni og 26. ágúst afhenti hann þau héraðsdómi ásamt kæru á ákvörðun sýslu­manns. Að hans sögn misskildi hann eðli og boðleið málsskots sem þessa.

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að áskorun varnaraðila, Vöku hf., um greiðslu geymslugjalda hafi ekki verið birt fyrir honum þrátt fyrir framlagt birt­ing­ar­vott­orð þess efnis. Hann mótmælir því að hafa tekið við greiðsluáskorun frá birt­ing­ar­votti. Hann áréttar að í gögnum sýslumanns sé aðeins eitt meint birtingarvottorð, dags. 31. mars 2011, en því sé fram­vísað í tveimur ljósritum. Hins vegar séu greiðslu­áskor­anir­nar tvær, ein á hvorn bíl. Í meintu vottorði sé talað um eina greiðslu­áskorun (í eintölu) en ekki sé hægt að vita við hvora greiðsluáskorunina sé átt, yrði álitið að birting hafi verið lögmæt. Auk þess séu á vottorðinu margar rit­hendur og aug­ljóst að síðar sé ritað inn á það, meðal annars efst á vottorði skrán­ing­ar­núm­erum bíl­anna og Vaka hf. í horn þess. Þá verði ekki séð af meintu vottorði fyrir hverjum sé birt, auk þess sem undirskrift viðtakanda vanti í hægra horni að neðan. Þá komi ekki fram á birt­ing­ar­vottorði frá hvaða ári vottorðið sé, auk þess sem augljóst sé að þar sé eftir á skrifað ofan í ártal hvað varðar síðasta birtingardag, ásamt því að skrifað sé ofan í máls­númer efst á vottorði og þar einnig eftir á bætt inn bílnúmerum. Við undir­skrift sé svo ekkert ártal en þess í stað gæsalappir og ekki heldur ártal við tilgreinda birt­ing­ar­stund, en þess í stað sett þar upphrópunarmerki.

Sóknaraðili kveðst ekki heldur hafa fengið tilkynningu um uppboð á bílunum og hafi sýslumaður ekki haldið hinu gagnstæða fram.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að beiðni varnaraðila um uppboð uppfylli ekki ákvæði 11. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, þar sem meðal annars sé fjallað um hvað skuli koma fram í beiðni. Í uppboðsbeiðni komi ekki skýrt fram hverjir séu gerðarbeiðandi og gerðarþoli og ekkert, eða rangt, heimilisfang gerðar­beiðanda, sem flutt hafi á annan stað fyrir tveimur árum. Þar sé ekki heldur sundurliðun á fjárhæð og ekki greint frá atvikum að baki beiðni, né heldur röksemdum fyrir því að taka eigi beiðni til greina. Þar komi hvorki fram hver fari með umráð hlutaðeigandi eignar né hvar hún sé niður komin, en samkvæmt 11. gr. laganna skuli þetta allt koma skil­merki­lega fram í uppboðs­beiðni.

Greiðsluáskorun uppfylli ekki heldur lagaskilyrði eins og þau skilyrði séu skýrð í greinargerð að baki 9. gr. með frumvarpi til ofangreindra laga. Um skoðun sýslu­manns og afleiðingu vísar sóknaraðili til 13. gr. laganna.

Sóknaraðili byggir í þriðja lagi á því að sú heimild sem sýslumaður veitti varn­ar­aðila til að taka vörslur bifreiðanna standist ekki lög. Með stimpli sýslumanns á upp­boðs­beiðni sé varnaraðila heimiluð vörslutaka bif­reið­anna frá og með 20. apríl 2011. Sóknaraðili byggir á því að þessi heimild hafi verið veitt ólög­lega með því að sýslu­maður gerði þetta af sjálfsdáðum án þess að í upp­boðs­beiðni sé óskað eftir þessu, en samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um nauð­ung­ar­sölu, sé það skil­yrði fyrir því að slík heimild sé veitt að þess hafi verið óskað í upp­boðs­beiðni, auk þess sem sýslumaður hafi veitt heim­ild­ina án þess að kanna hvort skilyrði séu til að veita hana. Þar sem beiðn­inni hafi hvorki fylgt gögn né rökstuðningur hafi verið brotið gegn 2. mgr. 59. gr. laganna. Þá sé sá misbrestur á stimplun sýslumanns um heimild til vörslu­töku að þar sé hvorki nægjan­lega getið um uppboðstíma né heldur um uppboðs­stað, en þetta hvoru tveggja sé hins vegar skilyrði samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laganna.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili, sem einkafyrirtæki, geti ekki á grund­velli 110. gr. umferð­arlaga eignast haldsrétt í bifreiðinni. Haldsréttur samkvæmt 6. tölu­lið 6. gr. laga nr. 90/1991 þurfi að byggja á viðskiptasambandi eða lagaheimild þess sem vilji beita slíkum rétti við innheimtu viðskiptaskuldar. Einkafyrirtæki byggi ekki halds­rétt á ákvæðum 110. gr. umferðarlaga og þaðan af síður án nokkurra skýr­inga. Þá séu athafnir og starfssvið sem hér um ræðir ekki tilgreint í skráðum til­gangi varn­ar­aðila sem lögaðila eða fyrirtækis auk þess sem hann skorti lagaheimild fyrir umræddum athöfnum.

Þar sem varnaraðili fái ekki heimild til að taka bílana í sína vörslu fyrr en 20. apríl 2011 hafi hann haldið þeim án heimildar frá 11. janúar sama ár, vel á fjórða mánuð. Að minnsta kosti hafi sýslumaður litið svo á að varnaraðila hafi ekki verið heimil varsla bílanna fram að 20. apríl og hafi talið sig þurfa af sjálfsdáðum að bæta úr þessu fyrir varnaraðila með því að stimpla uppboðsbeiðnina. Þar sem sýslumaður hafi af sjálfs­dáðum heimilað ólöglega vörslutöku sé hún á þeim grundvelli einnig ólögleg og varsla varn­ar­aðila á bílnum eftir 20. apríl sl. einnig ólögmæt. Skilyrði haldsréttar séu í þessu ljósi ekki heldur fyrir hendi, auk þess sem almennt sé talið að skilyrði halds­réttar séu ekki fyrir hendi nema að sá sem vilji beita honum hafi vörslur hlutar­ins, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 246/2004. Þar fyrir utan séu grund­vallar­rökin fyrir því að halds­réttur stofnist, að verðmæti hlutar hafi aukist í vörslum kröfu­hafa eða að honum hafi verið forðað frá verðfalli, en hér eigi hvorugt við.

Enn fremur byggir hann á því að varnar­aðili hafi ekki átt rétta aðild að uppboðsmáli um bifreiðina. Einkafyrirtæki geti ekki byggt á 110. gr. umferð­ar­laga. Auk þess sem það sé opinberra aðila að sjá um framkvæmd þeirra laga.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 6/2002 komi fram að haldsréttur stofnist ekki í hlut nema þjónusta að baki þeim kostnaði sem haldsréttar eigi að njóta hafi sannan­lega farið fram að ósk eiganda. Þetta dómafordæmi segi jafnframt það að undan­farandi við­skipta­samband við eiganda hlutarins, hér bílsins, sé forsenda þess að haldsrétti sé beitt gegn honum.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3344/2010 segi að stefn­andi þess máls hafi ekki verið aðili að réttarstöðu stefnda og þriðja aðila og hafi því ekki á grund­velli þeirrar réttarstöðu getað krafist haldsréttar þó svo hann hefði hlutina í sinni vörslu. Varnaraðili, Vaka ehf., geti ekki seilst inn í réttastöðu sóknaraðila gangvart Reykja­víkur­borg, verði talið að slík réttarstaða hafi verið fyrir hendi varðandi töku bílsins sem sóknaraðili þó mótmælir.

Sóknaraðili byggi á því að hann sé hvorki í neinu við skiptasambandi við varn­ar­aðila né annars konar sambandi sem heimili varnaraðila að halda bifreiðum hans í sinni vörslu. Önnur bifreiðin hafi staðið á sameignarlandi sem ætlað sé kyrrstæðum bif­reiðum, en hin á einkalóð, en ekki á lóð eða landi varnaraðila. Hafi til dæmis Reykja­víkur­borg, eða einhver annar, beðið varnaraðila að fjarlægja bílinn þá sé við­skipta­sam­bandið þar á milli og þá beri varnaraðila að beina innheimtu fyrir unna vinnu og aðra þjón­ustu að þeim aðila. Sóknaraðili hafi ekki óskað eftir neinni þjónustu frá varnar­aðila.

Þótt svo ólíklega færi að bifreiðin teldist hafa staðið ólöglega, og fallist yrði á að tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt og að Reykjavíkurborg eða einhver annar hafi mátt láta fjarlægja bifreiðina þá hafi varnaraðili samt ekki neina heimild til að halda bif­reið­inni fyrir sóknaraðila og krefjast nauðungarsölu, sbr. jafn­framt 5. liður 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991, en þar segi að krefjast megi nauðungar­sölu samkvæmt ákvæðum laga sem veiti lögveðrétt í eigninni fyrir kröfu ríkisins, sveit­ar­félaga, stofn­ana þeirra eða fyrirtækja, sé fjárhæð kröfunnar ákveðin í lögum, reglu­gerð eða gjald­skrá stað­festri af ráðherra. Enginn heimild sé heldur í lögunum til þess að einkafirma, eins og varn­ar­aðili, geti krafist nauðungarsölu í ljósi þess ákvæðis, en hér sé skýrlega tekið fram að það séu aðeins fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga sem komi til greina, sbr. að í ákvæðinu segi „stofnana þeirra eða fyrirtækja,“ og sé þetta hnýtt við ríkið eða sveit­ar­félög.

Eigi sóknaraðili að greiða skuld vegna töku bifreiðarinnar, sem hann mótmæli, geti slík krafa aðeins staðið milli hans og einhvers hulduaðila en ekki við varnar­aðila. Varnaraðili geti þannig ekki heldur verið aðili að uppboðsmálinu.

Sóknaraðili kveðst hafa heyrt að það sé vinnuregla, standi til að fjarlægja bif­reið á grundvelli 110. gr. umferðarlaga, að gera eiganda hennar fyrst viðvart með því að líma miða á viðkomandi bifreið þar sem varað sé við að slíkt sé í vændum og að sögn, gefinn það rúmur fyrirvari að telja mætti öruggt að eigandi hafi orðið miðans var og fengið ráðrúm til að aðhafast sjálfur.

Sóknaraðili fullyrðir að honum hafi ekki verið veitt viðvörun með þessari miða­aðferð. Hann álíti að hann hafi átt að njóta jafnræðis við aðra um slíka viðvörun áður en bifreiðarnar voru fjarlægðar og byggi þar á jafnræðisreglu í stjórnarskrárinnar ásamt stjórn­sýslulögum auk þess sem gæta hafi átt meðalhófs gagnvart honum sem öðrum borg­urum. Ofangreind miðaaðferð geti þó ekki ein sér talist full­nægj­andi tilkynning, auk þess sem upplýsingar um sóknaraðila, heimili hans og síma­númer, hafi legið fyrir og því hafi verið vandalaust og skylt að beina til­kynn­ingu til sóknaraðila og/eða hringja í hann eða banka upp á hjá honum. Þá sé það einnig svo að lögregla hafi verið nýbúin að fjar­lægja skrásetningarnúmer af bif­reið­inni án þess að gera sókn­ar­aðila viðvart um mögu­legar afleiðingar. Þetta atriði sé sérstaklega alvar­legt hafi lögreglan vitað að það leiddi til tjóns fyrir sóknaraðila með því að þá yrði bif­reiðin fjar­lægð án vitundar hans. Þá sé það auk þess meginreglan í 110 gr. umferðar­laga að lög­regla sjái um að fjar­lægja bif­reiðar ef með þurfi eða lög bjóði, ásamt að hún hafi um það tilkynn­ingar­skyldu við eig­anda samkvæmt ákvæðum greinarinnar. Ljóst megi vera að lög­reglan hafi einnig, í því tilviki sem hér um ræðir, allar upplýsingar um sóknaraðila sem eig­anda að bílnum sem um ræðir og að vandalaust hafi verið að upplýsa hann um, ef til stóð að fjarlægja hann eða ef hætta var á slíku, og hefði sóknaraðili þá sjálfur getað fært bifreiðina sér að kostnaðar­lausu. Þá séu engar merkingar um það að númers­laus bif­reið megi ekki standa á almennu bílastæði borgarbúa. Yfirvöld hafi vissu­lega ein­hverjar skyldur gagn­vart borgurum. Sóknaraðili tekur fram að hann hafi ekki séð neinn við­vör­un­ar­miða á bifreiðunum auk þess sem því sé heldur ekki haldið fram að miða­viðvörun hafi verið veitt og auk þess engar sannanir í málinu um slíkt og/eða aðrar tilkynningar.

Að mati sóknaraðila er þessi aðför ólögmæt. Hún hjálpi ekki fólki í erfið­leikum þegar erfið­leikar séu orsakavaldur en geri vandann hins vegar að óyfir­stíg­an­legri martröð, og leiði til þess að margur missi eigur sínar en sá sem valdi fái hrós fyrir að geta rekið þetta einkafyrirtæki sitt með hagnaði. Borgarhliðin standi svo ekki opin þegar farið sé að banka uppá um sanngirni, réttlæti, meðalhóf, bræðralag o.fl., en þess í stað þurfi að glíma við opinberan valdsmann, sýslumann, gegn þessari ólög­mætu atvinnu­starfsemi einka­fyrir­tækis í gróðahyggju, sem fari um og taki, að því er virðist, ófrjálsri hendi eigur sóknaraðila og það án viðvörunar til eiganda, til þess að geta síðan safnað á kostnaði til að heimta af viðkomandi aura­lausum og af því hann eigi ekki eyri til að greiða með, þá sé bara í krafti meints halds­réttar safnað á enn meiri kostn­aði þar til eignin hafi verið gerð upptæk. Varnaraðili hafi þó sýnt, að hann hafi haft upplýsingar um eiganda bílsins og heimili hans og gat látið hann vita áður en tjón var orðið. Varn­ar­aðili geti ekki heldur neitað því að hann hafi getað flett upp síma­númeri eiganda og/eða bankað upp á hjá honum.

Hafi einhver óskað afskipta varnaraðila þá byggir sóknaraðili á því að þeim hinum sama sem og varnaraðila, hafi verið skylt, ekki síður siðferðislega, að bjóða sóknar­aðila hjálp við að færa bílinn til skoðunar. Hvað þetta varðar vísar sóknaraðili meðal annars til siðfræði þeirra trúarbragða sem stjórnaskrá Íslands ætlist til að hið opin­bera standi vörð um, sbr. 62. gr. stjórnarskrárinnar.

Niðurstaða

Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðili, Vaka hf., hafi heimild til þess að krefjast nauð­ung­ar­sölu á tveimur bifreiðum varnaraðila. Í uppboðsbeiðni sinni vísar varnar­aðili til 110. gr. umferðarlaga og/eða 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu.

Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er lögreglu heimilt að flytja eða láta flytja brott ökutæki, sem stendur þannig að brjóti í bága við reglur um stöðvun eða lagn­ingu ökutækja, eða að öðru leyti þannig að það valdi truflun á umferð, snjó­mokstri eða vinnu við veg. Sama á við um skráningarskylt ökutæki, sem skilið hefur verið eftir án skráningarmerkja, og ökutæki, sem telja verður að eigandi hafi yfirgefið að fullu. Enn fremur ökutæki, sem stendur á einkalóð eða opinberri lóð þannig að valdi eiganda eða umráðamanni hennar tjóni eða óþægindum eða gegn banni hans. Standi ökutækið á svæði, sem ekki er ætlað til almennrar umferðar, skal það því aðeins flutt á brott, að eigandi eða umráðamaður lóðar krefjist þess.

Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal færa ökutæki til geymslu á tryggan stað, sem lögreglan vísar á, nema ökumaður eða eigandi (umráðamaður) sé viðstaddur og flytji það þegar á brott eða vísi á annan geymslustað. Er geymsla ökutækisins á ábyrgð eig­anda. Kostnað vegna flutnings og geymslu skal ökumaður greiða. Ef ökumaður er óþekktur eða greiðir ekki þrátt fyrir áskorun þar um, ber eigandi (umráðamaður) öku­tæk­is­ins jafnframt ábyrgð á greiðslu kostnaðarins, nema ökumaður hafi notað öku­tækið í algeru heimildarleysi. Heimilt er að halda ökutæki í geymslu til tryggingar greiðslu kostn­aðar. Kostnað má innheimta með lögtaki.

Í 3. mgr. ákvæðisins er tekið fram að lögreglustjóri skuli tilkynna eiganda öku­tækis um flutning þess, hvenær hann fór fram og hvar ökutækið sé í geymslu. Í til­kynn­ingu skal jafnframt koma fram, að verði ökutækið eigi sótt innan tiltekins frests og áfallinn kostnaður greiddur, verði það selt. Sé eigandi óþekktur, má selja ökutækið einum mánuði eftir að það var fjarlægt.

Að loknum fresti skv. 3. mgr. skal, samkvæmt 4. mgr., selja ökutækið við nauð­ungarsölu eða til niðurrifs, ef ætla má að hærra verð fáist þannig. Söluandvirði rennur í ríkissjóð. Eigandi ökutækisins getur þó, innan árs frá því sala fór fram, krafist greiðslu á söluandvirðinu, að frádregnum kostnaði við flutning, geymslu og sölu öku­tækisins.

Höfuðmálsástæða sóknaraðila er að varnaraðili hafi ekki haft lögvarinn rétt til þess að krefjast nauðungarsölu á bifreiðum hans.

Samkvæmt frásögn sóknaraðila hafði lögregla fjarlægt skráningarmerki af bif­reiðum hans áður en varnaraðili fjarlægði þær þaðan sem þær stóðu, 11. og 17. janúar 2011. Af frásögn hans má einnig ráða að skráningarmerkin hafi verið fjarlægð vegna þess að hann hafi ekki fært bifreiðarnar til skoðunar. Hann upplýsti einnig að önnur bifreiðin stóð við Hran­nar­stíg í Reykjavík en hin stóð, að hans sögn, á einkalóð.

Af frásögn sóknaraðila sjálfs verður ekki annað ráðið en lögregla hafi haft lög­mæta ástæðu til að fjarlægja skráningarmerkin af bifreiðunum. Einnig er ljóst að sókn­ar­aðili gætti ekki að bifreiðunum eins og honum bar því honum virðist ekki hafa orðið kunnugt um að skráningarmerkin hefðu verið tekin af þeim og þær fluttar á brott í byrjun ársins 2011 fyrr en 4 maí sl.

Sóknaraðili hefur hvorki fært rök né gögn fyrir því að eigandi þeirrar ónefndu einka­lóðar þar sem hann segir bifreiðina AY-786 hafa staðið hafi ekki óskað eftir því við lögreglu að hún fjarlægði, eða léti fjarlægja, bifreiðina af lóðinni. Hann hefur því hvorki fært rök né gögn fyrir því að lögreglunni hafi ekki verið fyllilega heimilt sam­kvæmt 1. mgr. 110. gr. umferðarlaga að flytja eða fela öðrum, svo sem varnaraðila, að flytja bif­reið­arnar á brott.

Þar sem sóknaraðili var ekki viðstaddur þegar bifreiðarnar voru fjarlægðar bar lög­reglu að láta færa ökutækin til geymslu á tryggan stað eins og tekið er fram í 2. mgr. 110. gr. Samkvæmt því ákvæði er kostnaður vegna geymslu ökutækisins á ábyrgð eiganda þess. Að loknum fresti skv. 3. mgr. skal, samkvæmt 4. mgr., selja öku­tækið við nauð­ungarsölu.

Sóknaraðili fullyrðir að áskorun um greiðslu gjaldfallins geymslukostnaðar hafi ekki verið birt honum fimmtudaginn 31. mars 2011. Eins og málið er lagt fyrir dóm­inn ræður það atriði ekki úrslitum fyrir niðurstöðu málsins hvort svo var eða ekki þar sem sókn­ar­aðili byggir ekki á því að hann hefði greitt gjaldfallinn geymslukostnað hefði hann vitað af því fyrir 4. maí 2011 að varnaraðili hefði fjarlægt bifreiðarnar 11. og 17. janúar 2011.

Sóknaraðili fullyrðir að hann hafi hvorki fengið tilkynningu frá lögreglunni né boðun í fyrirtöku hjá sýslumanni. Af einhverjum ástæðum var sóknaraðila þó kunnugt um stöðu málsins 4. maí.

Ekki verður annað séð en að stimpill sýslumanns sé í fullu samræmi við 59. gr. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Ekki hefur annað verið leitt í ljós en lögreglan hafi beðið varnaraðila að fjarlægja bifreiðarnar og varnaraðili hafi af þeim sökum verið kominn með vörslur þeirra þegar hann sendi sýslumanni beiðni um nauð­ung­ar­sölu enda krefst hann nauðungarsölunnar til þess að fá geymslukostnað sinn greiddan.

Það er meginregla að réttur til vörslutöku fylgir heimild til þess að krefjast nauðungarsölu. Varnaraðili þurfti því ekki að krefjast þess sérstak­lega í nauð­ungar­sölu­beiðni sinni að sýslumaður veitti honum heimild til vörslutöku bifreiðanna.

Enda þótt beiðni um nauðungarsölu hefði að ósekju hefði mátt vera vandaðri verður ekki séð að þeir ágallar sem kunna að vera á henni hafi þau réttaráhrif að fallast beri á kröfur sóknaraðila.

Eins og áður greinir eiga öll rök sóknaraðila að undirbyggja þá málsástæðu hans að varnaraðili hafi ekki haft að lögum heimild til að krefjast þess að bifreiðar sókn­ar­aðila yrðu seldar nauðungarsölu.

Sóknaraðili hefur ekki hrundið því að lögregla hafi haft lögmæta ástæðu til að fjarlægja skráningarmerki af bifreið hans. Hann hefur ekki heldur hnekkt því að laga­til­vísun varnaraðila í nauð­ung­ar­sölu­beiðni eigi við rök að styðjast og varnaraðili hafi, þar sem sóknaraðili hafi ekki fært bifreiðarnar til lögboðinnar skoðunar, fjarlægt bif­reið­arnar að ósk lögreglu og þannig fengið samkvæmt 110. gr. umferðarlaga lög­var­inn rétt til þess að krefjast nauðungar­sölu á bifreiðunum.

Eins og fram kemur í 3. mgr. ákvæðisins skal lögregla tilkynna eiganda öku­tækis um flutning þess, hvenær hann fór fram og hvar ökutækið sé í geymslu. Í til­kynn­ingu skal jafnframt koma fram, að verði ökutækið eigi sótt innan tiltekins frests og áfallinn kostnaður greiddur, verði það selt.

Tilkynning í samræmi við 3. mgr. 110. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er ekki meðal gagna málsins. Af þeim sökum hafa ekki verið færðar sönnur fyrir því að sókn­ar­aðila hafi verið gefinn kostur á forða bifreiðunum frá nauðungarsölu.

Samkvæmt 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu verða kröfur ekki hafðar uppi í máli samkvæmt ákvæðum XIII. kafla um annað en þá ákvörðun sýslu­manns sem varð tilefni málsins, svo og málskostnað, sbr. þó 3. mgr. Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. skal í úrskurði héraðsdómara, á grundvelli framkominna sönnunar­gagna og málflutnings aðilanna, kveðið á um staðfestingu, breytingu eða ómerkingu ákvörð­unar sýslumanns.

Í þessu máli verður af þessum sökum einungis tekin afstaða til þeirrar ákvörð­unar sýslumanns að bifreiðar með fastanúmerin VX-132 og AY-786 skuli seldar við nauð­ungar­sölu. Eins og áður segir liggja ekki fyrir gögn um það að sóknaraðila hafi verið gefinn kostur á að forða bifreiðum sínum frá nauðungarsölu með því að honum væri birt tilkynning samkvæmt 3. mgr. 110. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Af þeim sökum þykja ekki vera uppfyllt skilyrði umferðarlaga fyrir nauðungarsölu bifreiðanna og verður því að ógilda þá ákvörðun sýslumanns að þær skuli seldar nauðungarsölu fyrir kröfum varnaraðila.

Eins og hér stendur sérstaklega á þykir rétt að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af málinu.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Tafir hafa orðið á uppkvaðningur úrskurðarins vegna anna dómara við mjög brýn verkefni.

Úrskurðarorð:

Ógilt er sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík að bifreiðar með fastanúmerin VX-132 og AY-786 í eigu sóknaraðila, Kristjáns Þorsteinssonar, skuli seldar nauð­ungar­sölu fyrir kröfum varnaraðila, Vöku hf.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.