Hæstiréttur íslands
Mál nr. 336/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
|
|
Mánudaginn 6. júní 2011. |
|
Nr. 336/2011. |
M (Halldór Reynir Halldórsson hdl.) gegn K (Valborg Snævarr hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá.
M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum hans og K um að felld yrði niður sameiginleg forsjá yfir barni þeirra meðan leyst yrði úr máli K á hendur M um forsjá þess en kveðið á um umgengni og greiðslu meðlags. Var það mat héraðsdóms að á meðan forsjármál væri rekið fyrir dóminum þjónaði það ekki hagsmunum barnsins að breyta fyrirkomulagi forsjár þess. Þá var það mat dómsins að breytt umgengni að svo stöddu fæli í sér röskun fyrir barnið og að það væri barninu fyrir bestu að meðan á forsjármáli aðila stæði yrði ekki breyting á umgengni frá því sem verið hefði. Staðfesti Hæstiréttur hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2011, þar sem hafnað var kröfum beggja málsaðila um að felld yrði niður sameiginleg forsjá yfir nafngreindu barni þeirra meðan leyst yrði úr máli varnaraðila á hendur sóknaraðila um forsjá þess, en kveðið var þar á um umgengni og greiðslu meðlags. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá barnsins til bráðabirgða, varnaraðila gert að greiða meðlag með því og dómurinn kveði á um umgengni hennar við það. Til vara krefst sóknaraðili þess að forsjá, meðlag og umgengni verði hagað eins og ákveðið hafi verið í dómsátt 21. október 2010 með þeim breytingum, sem samkvæmt henni hafi átt að taka gildi 1. maí 2011. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í kæru sóknaraðila er réttilega bent á að missagt sé í úrskurði héraðsdóms að varnaraðili búi ásamt barni þeirra hjá foreldrum sínum, svo og að ekki hafi tekist að koma á samkomulagi um reglulega umgengni sóknaraðila við barnið, en samkvæmt gögnum málsins mun varnaraðili búa í íbúð, sem hún hefur á leigu, og kveðið hefur verið á um reglulega umgengni sóknaraðila við barnið í áðurnefndri dómsátt. Þessar missagnir fá því á hinn bóginn ekki breytt að hinn kærði úrskurður verður með þessum athugasemdum staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2011.
Mál þetta var þingfest 31. mars 2011 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. apríl 2011.
Sóknaraðili er K kt. [...], [...], [...].
Varnaraðili er M kt. [...], [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að honum verði með úrskurði falin forsjá barnsins A kt. [...] til bráðabirgða þar til endanlegur dómur gengur um forsjá hennar til frambúðar. Gerð er krafa um að dómurinn ákveði hvernig umgengni barnsins við varnaraðila skuli háttað meðan á rekstri forsjármálsins stendur. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi varnaraðila í þessum þætti málsins.
Varnaraðili krefst þess aðallega að honum verði falin bráðabirgðaforsjá A og sóknaraðila verði gert að greiða meðlag með barninu frá uppkvaðningu úrskurðar um bráðabirgðaforsjá. Þá er þess ennfremur krafist að dómari úrskurði um umgengni sóknaraðila, sbr. 4. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003.
Til vara er þess krafist að dómurinn hafni kröfu sóknaraðila þannig að forsjá, meðlag og umgengni barnsins verði hagað með sama hætti og ákveðið var í dómssátt, dags. 21. október 2010.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
MÁLSATVIK
Sóknaraðili lýsir málsatvikum svo að aðilar máls þessa hafi verið í hjúskap og eignast dótturina A hinn [...]. [...] [...]. Kveður sóknaraðili sambúð aðila hafa einkennst af mikilli stjórnsemi varnaraðila og miklum afskiptum föður hans af málefnum fjölskyldunnar, en honum hafi verið mikið í nöp við sóknaraðila. Eftir fæðingu dótturinnar hafi sóknaraðili verið í fæðingarorlofi í eitt ár, en hafið störf að nýju hinn 10. maí 2010 en þá hafi varnaraðili verið byrjaður í sínu fæðingarorlofi.
Meðan á sambúð aðila stóð hafi verkaskipting þeirra verið afar skýr; varnaraðili hafi stundað sína vinnu og áhugamál, en sóknaraðili séð um barnið og heimilið. Hafi sóknaraðili reynt að vera sem mest með barnið í sumarbústað fjölskyldu sinnar með móður sinni enda hafi barnið virst vera fyrir varnaraðila, hann hafi skammað það mikið og hafi barnið grátið undan honum. Hafi varnaraðili almennt ekki treyst sér til að annast telpuna einn og hafi því barnið verið í pössun hjá foreldrum sóknaraðila ef hún þurfti að fara út að kvöldlagi. Fyrstu sjö mánuði í lífi barnsins hafi foreldrar varnaraðila ekkert samband haft við þau og hafi ávallt verið miklir samskiptaerfiðleikar milli varnaraðila og hans fólks.
Aðilar hafi verið í viðtölum hjá B sálfræðingi síðasta ár hjúskaparins vegna hjúskaparerfiðleika og eftir það hafi varnaraðili farið að taka nokkurn þátt í heimilisstörfum og umönnun barnsins. Hafi ráðgjöfin þó engum merkjanlegum árangri skilað. Hafi svo farið að sóknaraðili hafi flutt af heimilinu hinn 4. júlí s.l. með barnið og búi þær mæðgur nú hjá foreldrum hennar. Aðilar hafi mætt hjá Sýslumanninum í Reykjavík hinn 30. júlí s.l. vegna fyrirhugaðs skilnaðar þar sem bókað hafi verið að ágreiningur væri með aðilum um hvar barnið ætti að eiga búsetu. Hefði varnaraðili útbúið drög að umgengnissamningi sem hafi verið með öllu óásættanlegur að mati sóknaraðila enda að hennar mati í engu samræmi við hagsmuni barnsins. Aðilar hafi verið í sérfræðiráðgjöf hjá C sálfræðingi á vegum Sýslumannsembættisins í Reykjavík án árangurs.
Sóknaraðili telur barninu líða miklum mun betur eftir að þær mæðgur hafi farið af heimilinu og hafi tekist að skapa þokkalega ró í kringum barnið. Ekki hafi tekist að koma á samkomulagi um reglulega umgengni varnaraðila við barnið enda hafi kröfur hans verið óásættanlegar að mati sóknaraðila. Sé því krafið um forsjá til bráðabirgða þar sem kveðið yrði á um inntak umgengnisréttar barnsins við varnaraðila meðan á rekstri málsins stendur.
Af hálfu varnaraðila er málavöxtum lýst svo að sambúð aðila hafi hafist í janúar 2006. Sambúðin hafi gengið stóráfallalaust fyrir sig fyrstu mánuðina. Þó hafi virst sem sóknaraðili hefði horn í síðu föður varnaraðila og hafi þegar leið á neitað að eiga samskipti við hann en þau hafi unnið á sama vinnustað. Í þeirri viðleitni að bæta samskiptin hafi faðir varnaraðila ákveðið að segja starfi sínu lausu. Hafi það engu breytt um afstöðu sóknaraðila til föður eða fjölskyldu varnaraðila.
Frá upphafi sambúðar hafi sóknaraðili haft mjög fastmótaðar hugmyndir um hvert væri hlutverk karla og kvenna í sambandi og sambúð. Hafi hún viljað hafa hlutverkaskiptinguna þannig að hún tæki ákvarðanir um flest annað en það sem varðaði vinnu varnaraðila. Að mati varnaraðila hafi það einkum ráðist af því að móðir sóknaraðila hafi alla tíð stjórnað heimili sínu, þ.m.t. eiginmanni og börnum og muni gera enn. Þá hefði sóknaraðili haft draumkenndar hugmyndir um hvernig lífið ætti að vera sem hafi virst litast mest af amerískum þáttum í sjónvarpi og öðrum draumkenndum hugmyndum ljósvakans. Sóknaraðili hefði haft fá áhugamál önnur en að horfa á sjónvarp sem skýri e.t.v. hugmyndir hennar um „eðlilegt líf“ fólks.
Í júlí 2008 hafi aðilar gift sig. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi alfarið greitt fyrir brúðkaupið hafi skipulag þess alfarið verið í höndum sóknaraðila og móður hennar en varnaraðila og fjölskyldu hans hafi algerlega verið fyrirboðið að koma nálægt skipulagningu þess og undirbúningi. Þá hafi varnaraðili látið það eftir sóknaraðila að fara í sérstaka ferð til [...] til að versla brúðarkjól. Í kjölfar brúðkaupsins hafi verið farin sérstök brúðkaupsferð til [...] en sóknaraðili hefði ekki komið af íslenskri grundu áður en þau kynntust. Hafi varnaraðili því borið sóknaraðila algerlega á höndum sér frá upphafi sambúðar og látið allt eftir henni. Þá hafi varnaraðili séð alfarið um fjárhagsrekstur heimilisins á meðan tekjur sóknaraðila hafi að langmestu leyti farið í afborganir skulda sóknaraðila sem hún hefði stofnað til fyrir sambúð aðila.
Þegar skammt hafi verið liðið á meðgöngu einkadóttur málsaðila hafi andlegt ástand sóknaraðila tekið breytast mjög. Varnaraðili hafi fundið verulega fyrir þeim breytingum sem hefðu orðið á henni enda hafi hún átt það til að ráðast á hann með orðum og svívirðingum. Hafi sóknaraðila virst gremjast að varnaraðili hefði skoðanir á atriðum er vörðuðu líf fjölskyldunnar og heimilishald þeirra ólíkt því sem viðgengst hafi á heimili foreldra hennar þar sem móðir hennar stjórni heimilinu að öllu leyti. Í fyrstu hafi sóknaraðili séð að sér og beðið varnaraðila afsökunar á hegðun sinni. Afsökunarbeiðnunum hafi hins vegar farið fækkandi samhliða versnandi skaplyndi sóknaraðili sem aftur hafi orðið til þess að varnaraðili hafi sjálfkrafa farið að draga sig til hlés.
Eftir barnsburð, þ.e. hinn [...]. [...] [...], hafi sóknaraðili svo loks leitað á geðsvið LSH eftir hvatningu frá varnaraðila. Hafi hún farið þangað í nokkur skipti og tekið þátt í geðrannsókn á vegum ljósmæðra við Háskóla Íslands. Þrátt fyrir sálfræðimeðferðir sóknaraðila og gríðarlegt langlundargeð varnaraðila hafi háttsemi sóknaraðila ekkert breyst. Þvert á móti hafi geðsveiflur hennar versnað og hún fundið varnaraðila allt til foráttu. Samhliða þessu hafi hún tekið upp á því að fara upp í sumarbústað foreldra sína svo dögum skipti með A en gert varnaraðila kyrfilega ljóst að hann væri ekki velkominn þar.
Hinn 4. júlí 2010 hafi aðilar slitið samvistum en skilnaður að borði og sæng hafi gengið í gegn hinn 1. nóvember 2010. Við sambúðarslit hafi aðilar verið sammála um jafnar samvistir við barnið enda þótt að sóknaraðili gerði kröfu um að barnið hefði lögheimili hjá henni undir sameiginlegri forsjá. Skömmu síðar hafi sóknaraðili þó upplýst að hún væri hætt við og tekið, án nokkurra skýringa, að leggjast alfarið gegn því að barnið hefði næturgistingu hjá varnaraðila. Úr hafi orðið að varnaraðili hafi gert drög að umgengnissamkomulagi í samræmi við hugmyndir sóknaraðili en varnaraðili þó tekið fram að það væri ekki í hag barnsins að hamla gistingu þess hjá föður sínum. Enda þótt samkomulagið hafi í meginatriðum byggst á hugmyndum sóknaraðila sjálfrar hafi farið svo að hún hafi hafnað eigin tillögum með bréfi lögmanns hennar, dags. 14. júlí 2010. Í kjölfarið hafi sóknaraðili svo þingfest stefnu á hendur varnaraðila þar sem krafist hafi verið forsjár barnsins.
Hinn 21. október 2010 hafi aðilar svo gert með sér samkomulag með dómssátt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að forsjá barnsins skyldi vera sameiginleg, lögheimili þess skyldi vera hjá sóknaraðila og að varnaraðila bæri að greiða sóknaraðila meðlag. Þá hafi lágmarks umgengni varnaraðila verið ítarlega útlistuð í samkomulaginu en samkvæmt því aukist umgengi varnaraðila um nokkra klukkutíma og eina gistinótt á tveggja vikna tímabili hinn 1. maí. Þær breytingar sætti sóknaraðili sig greinilega ekki við en viðhorf hennar virðist alfarið einkennast af sveiflukenndum duttlungum þar sem hún taki sínar persónulegu þarfir og langanir framar hagsmunum barnsins. Þá komi skýrt fram í umræddu samkomulagi að um lágmarksumgengni varnaraðila sé að ræða. Þrátt fyrir þetta hafi sóknaraðili aldrei tekið það í mál að heimila varnaraðila rýmri umgengni.
MÁLSÁSTÆÐUR
Sóknaraðili byggir kröfu sína um forsjá barnsins á 2. mgr. 34. gr. laga 76/2003 enda telji hún hagsmuni telpunnar krefjast þess að henni verði falin forsjáin og telpunni þannig tryggð búseta til frambúðar á heimili sóknaraðila. Telpan sé ung að árum og hafi alla sína ævi verið aðallega í umsjá sóknaraðila og finni hún öryggi sitt í umönnun sóknaraðila.
Aðstæður sóknaraðila til að hafa forsjá barnsins á hendi séu mjög góðar. Hún sé í öruggu starfi sem verslunarstjóri í gleraugnaverslun og taki vinnuveitandi hennar gott tillit til aðstæðna hennar og að hún hafi fyrir barni að sjá. Sýni hann henni mikinn stuðning og hafi boðið henni flutning á aðra starfsstöðu fyrirtækisins sem sé nær heimili sóknaraðila. Hún njóti góðs stuðnings stórfjölskyldu sinnar sem sé boðin og búin að aðstoða með hverjum þeim hætti sem þurfa þyki. Sóknaraðili búi hjá foreldrum sínum en fasteign sú sem aðilar hafi búið á hafi verið séreign varnaraðila í hjúskap þeirra og búi hann því áfram á þeirri eign. Séu aðstæður sóknaraðila hjá foreldrum sínum mjög góðar og þekki telpan vel allar aðstæður þar, enda hafi þær mæðgur verið mikið hjá þeim meðan sóknaraðili hafi verið í fæðingarorlofi. Á heimilinu búi [...] ára bróðir sóknaraðila sem sé afar góður við telpuna og sé hún afar tengd þessum unga móðurbróður. Lokaður garður sé bakvið húsið og hafi telpan þar góðan leikvöll. Hyggi sóknaraðili á að flytja í eigin íbúð í nágrenni við foreldra sína á næstu mánuðum.
Telpan sé komin í vist hjá dagmóður í sama hverfi og uni hún hag sínum þar vel en sóknaraðili hafi hug á því að fá leikskólavistun fyrir hana þegar fram líði stundir.
Sóknaraðili sé tilbúin að stuðla að góðri umgengni barnsins við varnaraðila fái hún forsjá, en telur að sú umgengni veri að vera á forsendum barnsins en ekki varnaraðila. Hann hefur gert óraunhæfar kröfur um hvernig umgengni skuli háttað sem séu í engu samræmi við þarfir barnsins, en í ljósi ungs aldurs sé ljóst að barnið hafi mikla þörf fyrir stöðugleika og sem minnst rask í uppeldisumhverfi. Hafi varnaraðili, þrátt fyrir að enginn samningur liggi fyrir, haft uppi kröfur eins og samningur væri til staðar en svo virðist sem hann telji tillögur sínar jafngilda samningi. Sóknaraðili telur mikilvægt að ganga til samninga á forsendum barnsins, þannig að barnið hitti varnaraðila oft en ekki þurfi að vera um gistingar í hvert skipti eða lengri umgengnistímabil að ræða. Telji hún fagleg sjónarmið leiði til þess að sá háttur sé hafður á.
Varnaraðili byggir aðalkröfu sína á því að hann sé betur til þess fallinn að fara með bráðabirgðaforsjá barnsins á meðan forsjármál sé til meðferðar fyrir dómi enda hefur hann sýnt að hann er næmari á þarfir barnsins og líklegri til þess að stuðla að rýmri umgengni en sóknaraðili. Þá getur varnaraðili, ólíkt sóknaraðila, búið barninu öruggt heimili og þroskavænlegar aðstæður eins og síðar verður vikið að.
Varnaraðili byggir varakröfu sína, að dómari hafni kröfu um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár meðan forsjármál er til meðferðar fyrir dómi, á því að æskilegt sé að forsjá haldist sameiginleg á meðan máli er ráðið til lykta. Mikilvægt sé að barnið haldi sem bestum tengslum við báða foreldra sína á meðan forsjármálið sé til meðferðar, enda geti slík mál tekið töluverðan tíma. Það sé því ekki barninu fyrir bestu að fallist sé á kröfu um bráðabirgðaforsjá sóknaraðila. Þar að auki hafi ekkert komið fram af hálfu sóknaraðila sem mögulega geti réttlætt breytingar á núverandi samkomulagi. Að mati varnaraðila sé brýnt að barnið geti haldið óhindruðum tengslum við báða foreldra á meðan meðferð forsjármálsins stendur, ekki síst vegna þess að tengsl barnsins við báða foreldra sé mikilvægur þáttur við mat á því hvað sé barninu fyrir bestu við ákvörðun forsjár. Til að slík tengsl megi haldast verði að verja barnið tálmunartilburðum sóknaraðila gagnvart varnaraðila og hafna kröfu hennar um bráðabirgðaforsjá.
Barnið sé afar hænt að föður sínum og líði því greinilega vel í návist hans. Væntumþykja varnaraðila til barnsins sé öllum sem til feðginanna þekkja augljós.
Einnig megi benda á að varnaraðili hafi tekið það fæðingarorlof sem honum hafi boðist að viðbættu sumarfríi til umönnunar barnsins en á sama tíma hafi sóknaraðili verið útivinnandi þótt hún ætti til ótekið sumarfrí. Á hinn bóginn virðist sóknaraðili vinna markvisst að því að reyna fjarlægja varnaraðila úr lífi barnsins. Varnaraðili sé í góðu andlegu jafnvægi, hafi næman persónuleika og því með góða yfirsýn yfir hvað sé barninu fyrir bestu eins og fram komi í vottorði D sálfræðings, dags. 8. apríl 2011, en þar segi m.a. orðrétt:
„Af ofangreindu má draga þær ályktanir að vegna næmni sinnar á líðan annarra og góðrar greindar teljist hann mjög hæfur sem uppalandi“.
Í vottorði E, dags. 8. apríl 2011, segi enn fremur:
„M hefur einnig á metnaðarfullan hátt viljað rækja föðurhlutverk sitt og hefur því viljað eiga sem mestan tíma með dóttur sinni. Hann hefur leitast við að auka þekkingu sína á umönnun barna og uppeldi þannig að hann geti á meðvitaðan og upplýstan máta reynst henni góður faðir.
Það er álit undirritaðs að M hafi góða eiginleika til að rækja foreldrahlutverk sitt vel ásamt því að hafa sterkt fjölskyldu og vinumhverfi sér til stuðnings.“
Barnið sé afar náið varnaraðila og gjörþekki hann þarfir þess. Hið sama verði hins vegar ekki sagt um sóknaraðila. Megi í því samhengi benda á að barninu hafi verið boðin leikskóladvöl í Leikskóla [...] frá 27. september 2010. Varnaraðili hefði talið afar skynsamlegt að barnið færi á leikskóla enda slík dvöl tvímælalaust til þess fallin að örva þroska barnsins. Sóknaraðili hafi hafnað þessu alfarið einhliða án þess að veita nokkra haldbæra ástæðu fyrir þeirri afstöðu og ákveðið algerlega einhliða að barnið skyldi dveljast á daginn hjá dagmóður við bágbornar aðstæður í lítilli kjallaraíbúð við [...].
Foreldrar barnsins séu tiltölulega nýskilin og stutt síðan barnið hafi flutt af upprunalegu heimili sínu, en nú þegar hafi nýr kærasti sóknaraðila, ásamt dóttur hans, flutt inn á heimili mæðgnanna. Ætla megi að slíkar breytingar hafi í för með sér gríðarlegt álag á barnið og bæti ekki úr skák óvissa sem ríki um húsnæðismál sóknaraðila. Varnaraðili leggi mikla áherslu á stöðugleika í lífi barnsins og að sem minnst rót verði gert á högum þess. Í kringum varnaraðila sé stórt net af ástríku fólki sem sé boðið og búið til að hjálpa þegar þess þurfi ólíkt því sem haldið hafi verið fram af hálfu sóknaraðila. Varnaraðili leggi áherslu á að skapa barninu ástríkt og jákvætt umhverfi og að erfiðleikum vegna skilnaðarins og forsjárdeilunnar, sem sóknaraðili hafi síendurtekið stofnað til, sé haldið í lágmarki. Varnaraðili bendir á að í ljósi aldurs barnsins sé nauðsynlegt að foreldrarnir hafi nægan tíma til að sinna því og að barnið gangi fyrir vinnu foreldranna. Varnaraðili hafi gert ráðstafanir gagnvart vinnuveitanda sínum þannig að vinnuskylda hans samræmist dvöl barnsins hjá dagmóður eða leikskóla.
Í kröfu sóknaraðila um bráðabirgðaforsjá sé því borið við að barnið hafi sýnt sterk vanlíðunareinkenni. Þessar aðdróttanir séu enn eitt dæmi þess hversu langt sóknaraðili vilji ganga til að reyna að tálma aðgengi varnaraðila að barninu. Sóknaraðili hafi greinilega haldið upplýsingum um barnið frá varnaraðila enda hafi hún aldrei upplýst hann um að barnið sé að sýna ætlaða óæskilega hegðun eða vanlíðunareinkenni með þeim hætti sem komi fram í stefnu í forsjármáli aðila. Barnið hafi aldrei sýnt slíka ætlaða hegðun á meðan það hafi dvalist hjá honum eða verið í kringum börn í hans fjölskyldu og vinahópi. Því hafi það sætt furðu varnaraðila þegar sóknaraðili lýsti vilja sínum í tölvupósti um að fá að fara með barnið til sálfræðinga en sóknaraðili hafi engar haldbærar gefið á því hvers vegna þess þyrfti að hennar mati. Þessu til viðbótar sé algerlega fráleitt að ætla sér að tengja hina ætluðu vanlíðan og hegðunarvandamál sem barnið sýni hjá dagmóður á þann veg að þau séu að einhverju leyti varnaraðila að kenna eins og dagmóðirin, sem fái laun sín greidd frá sóknaraðila, virðist ýja að. Hafa beri í huga að barnið kemur í öllum tilvikum til dagmóður frá sóknaraðila eftir að barnið hefur haft næturdvöl á heimili sóknaraðila. Að mati varnaraðila er mun líklegra að slík ætluð hegðun og vanlíðunareinkenni barnsins megi rekja til mikils álags sem það verður fyrir á heimili sóknaraðila vegna breyttra aðstæðna þar en sem fyrr segir hefur nýr kærasti sóknaraðila flutt núþegar inn á heimili sóknaraðila ásamt dóttur hans. Að sögn sóknaraðila, í símtali hennar við varnaraðila, hefur skapast talsverð togstreita á heimilinu þegar telpurnar tvær leika saman. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að barnið hafði, allt þar til sóknaraðili hóf nýtt samband með öðrum manni, óskerta athygli foreldra sinna. Telja verður miklu mun líklegra að hin ætlaða breytta hegðun telpunnar megi rekja til þessara breyttu aðstæðna á heimili sóknaraðila enda um að ræða þekktan áhrifavald á hegðan barna. Fráleitt er að ætluð breytt hegðan barnsins verði rakin til varnaraðila sem hefur umgengist barnið frá fæðingu þess enda líður því ætíð vel í umsjá hans og er öruggt og afslappað í samvistum við hann. Sé barnið hins vegar réttilega haldið sterkum vanlíðunareinkennum, á meðan barnið lýtur ekki umsjón varnaraðila, lítur hann á það mjög alvarlegum augum og krefst þess að brugðist sé við með úrbótum á því umhverfi sem sóknaraðili og dagmóðirin bjóða barninu upp á.
Málaferli þau sem sóknaraðili hafi stofnað til séu með öllu óþörf en hafa beri í huga að aðilar hafi fyrir örfáum mánuðum síðan undirritað dómsátt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um forsjá og umgengni barnsins. Ekkert réttlæti það að aðstæðum barnsins verði enn og aftur raskað fyrir tilstuðlan sóknaraðila. Varnaraðili leggi ríka áherslu á að aðstæður í máli þessu séu næstum nákvæmlega þær sömu og þegar aðilar hafi undirritað dómsáttina hinn 21. október 2010. Einu breytingarnar sem varnaraðili hafi fengið að vita af sé að nú sé kærasti sóknaraðila fluttur með dóttur sína inn á heimili mæðgnanna. Þá sé því borið við í kröfu sóknaraðila að „útilokað sé að ná samkomulagi við varnaraðila um takmörkun umgengninnar“. Ómögulegt sé að sjá hvað sóknaraðili eigi við með þessu. Í fyrsta lagi hafi sóknaraðili aldrei látið í ljós vilja eða væntingar til einhverskonar endurskoðunar á umgengnissamkomulagi við varnaraðila síðan dómsáttin var undirrituð. Í öðru lagi teljist það varla tækt að látið verði eftir sveiflukenndum duttlungum sóknaraðili um að hún geti einhliða eftir geðþótta ákveðið hverju sinni hver umgengni barnsins við föður sinn verði og að umgengnin skuli vera þrengri en núverandi samkomulag kveður á um. Að mati varnaraðila lýsir þetta vel hver nálgun sóknaraðila að málinu er, en allur hennar málatilbúnaður virðist ganga út á að tálma aðgengi barnsins sem mest að föður sínum og halda frá honum upplýsingum um hagi barnsins.
Því er alfarið hafnað að varnaraðili sé óliðlegur í samskiptum. Þvert á móti hafi hann komið verulega til móts við sóknaraðila. Varnaraðili hafi m.a. samþykkt að gera breytingar á umgengnissamkomulagi aðila m.a. með því að leyfa sóknaraðila að fara með barnið, ásamt kærasta hennar, til [...] þann 20. apríl sl. Væru „samskipti afar slæm og engin samstað né samvinna möguleg um málefni barnsins“, líkt og haldið sé fram í kröfu sóknaraðila um bráðabirgðaforsjá, hefði varnaraðili tæplega samþykkt slíka ferð. Sé allur málatilbúnaður sóknaraðila því afar ótrúverðugur og að engu hafandi. Varnaraðili hafi lagt sig allan fram, þrátt fyrir óbilgjarna hegðun sóknaraðila, að stuðla að vinsamlegum samskiptum enda geri hann sér grein fyrir að barnið megi ekki skynja óvild foreldra í garð hvors annars. Á hinn bóginn virðist sem framganga sóknaraðila hafi verið háð miklum duttlungum og síbreytilegum geðþótta sóknaraðila.
Varnaraðili byggir kröfur sínar á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og vísar sérstaklega til 2. mgr. 35. gr. um að dómari hafni kröfu um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár meðan forsjármál er til meðferðar, og um málsmeðferð til 6. kafla laganna og ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 eftir því sem við á.
NIÐURSTAÐA
Sóknaraðili þingfesti forsjármál á hendur varnaraðila 17. mars sl. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild til að úrskurða til bráðabirgða eftir kröfu aðila hvernig fara skuli með forsjá barns eftir því sem barninu er fyrir bestu.
Dóttir málsaðila lýtur sameiginlegri forsjá þeirra og fyrrgreint ákvæði 35. gr. barnalaga mælir einvörðungu fyrir um heimild dómara til að úrskurða til bráðabirgða um hvernig fara skuli um forsjá, eftir því sem barni er fyrir bestu. Í máli þessu nýtur ekki við neinna gagna er sýnt geti fram á hæfni foreldra til að annast um barn sitt og að mati dómsins eru stúlkan of ung til þess að unnt sé að kanna og meta vilja hennar til þess hjá hvoru foreldranna hún vilji helst búa.
Það er mat dómsins að á meðan forsjármál er rekið fyrir dóminum, þjóni það ekki hagsmunum barnsins að breyta fyrirkomulagi forsjár þess þar sem það væri til þess fallið að raska hag barnsins og stuðla að frekara ójafnvægi í lífi þess. Samkvæmt því verður hafnað þeirri kröfu hvors aðila um sig að fella niður sameiginlega forsjá málsaðila, meðan forsjármál aðila verður til lykta leitt. Samkvæmt þessu fara foreldrar barnsins með sameiginlega forsjá þess meðan á meðferð forsjármáls þess er sóknaraðili hefur höfðað stendur.
Báðir aðilar hafa gert kröfu um að dómurinn ákvarði um inntak umgengnisréttar meðan forsjármál aðilanna er til meðferðar hjá dómstólunum.
Við úrlausn um það atriði er til þess að líta að með dómsátt hinn 21. október sl. var gert ítarlegt samkomulag um umgengni Samkvæmt samkomulagi þessu skyldi umgengni háttað þannig fram til 1. maí 2011 að aðra hverja viku skyldi faðir sækja barnið til dagmömmu/leikskóla og móðir sækja barnið til föður kl. 18.30 sama dag. Skyldi þetta vera á þriðjudegi og fimmtudegi. Þá skyldi faðir aðra hverja viku sækja barnið til dagmömmu/leikskóla á mánudegi og miðvikudegi og móðir sækja það til föður eigi síðar en kl. 19.00 og enn fremur skyldi faðir sækja barnið til dagmömmu/leikskóla og skila því til móður á sunnudeginum á eftir eigi síðar en kl. 18.00 þann dag. Hefur umgengni verið með þessum hætti.
Frá fyrsta maí sl. skyldi, samkvæmt samkomulaginu, sú breyting taka gildi að aðra hverja viku sæki faðir barnið til dagmömmu/leikskóla á þriðjudegi og skili til móður eigi síðar en kl. 19.00 sama dag og að á fimmtudegi sæki hann barnið til dagmömmu/leikskóla og skili barni til móður á sunnudeginum á eftir eigi síðar en kl. 18.00. Hina vikuna skyldi umgengni óbreytt.
Það er mat dómsins að breytt umgengni að svo stöddu feli í sér röskun fyrir barnið frá því sem nú er og að það sé barninu fyrir bestu að meðan á forsjármáli aðila stendur verði ekki breyting á umgengni frá því sem verið hefur undanfarið. Skal umgengni því hagað samkvæmt því sem dómsátt gerði ráð fyrir að vera skyldi frá undirritun hennar til 1. maí 2011.
Loks fari um meðlagsgreiðslu eftir framangreindri dómsátt.
Rétt er að ákvörðun um málskostnað bíði dóms í forsjármáli því sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðila.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfu málsaðila hvors um sig um að fella niður sameiginlega forsjá, meðan forsjármál aðila er til meðferðar. Umgengni og meðlagsgreiðslum skal hagað samkvæmt því sem gert var ráð fyrir í dómsátt aðila frá 21. október í máli nr. E-4889/2010 tímabilið 21. október 2010 til 1. maí 2011.
Ákvörðun um málskostnað bíður dóms í forsjármáli aðila.