Hæstiréttur íslands
Mál nr. 126/2000
Lykilorð
- Veðréttur
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 8. júní 2000. |
|
Nr. 126/2000. |
Oddi hf. (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) gegn íslenska ríkinu (Sveinn Sveinsson hrl.) |
Veðréttur. Fyrning.
Með áritun á tryggingarbréf veitti O P heimild til að setja að veði nánar tiltekna fasteign sína til að tryggja skaðleysi Í af ábyrgð á skuld P við B. Talið var að þessi ráðstöfun hefði ekki bakað O greiðsluskyldu gagnvart Í. Hún hefði því hvorki falið í sér ábyrgðarskuldbindingu, sem ákvæði fyrri málsliðar 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda gæti tekið til, né yrði henni jafnað við slíka skuldbindingu. Þótti O ekki geta vikist undan veðrétti Í í eign sinni á þeim grunni að réttindi hans hefðu fallið niður fyrir fyrningu óháð fyrningu kröfu Í á hendur aðalskuldaranum. Þar sem 10 ára fyrningarfrestur á endurgreiðslukröfu Í var ekki liðinn þegar málið var höfðað var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að staðfesta veðrétt Í í fasteign O á grundvelli tryggingarbréfsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. mars 2000. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gaf Patrekur hf. út skuldabréf 10. nóvember 1982 til Byggðasjóðs að fjárhæð 275.801 þýskt mark. Átti að greiða skuldina á tíu árum með jöfnum afborgunum tvisvar á ári. Tekið var fram í skuldabréfinu að yrðu nánar tilteknar vanefndir af hendi skuldarans væri Byggðasjóði „heimilt að telja allar eftirstöðvar, er þá kunna að vera ógreiddar af höfuðstól skuldarinnar, fallnar í gjalddaga fyrirvaralaust.“ Með áritun á skuldabréfið 15. nóvember 1982 gekkst stefndi í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni samkvæmt heimild í lánsfjárlögum nr. 13/1981. Til að tryggja skaðleysi stefnda af þessari ábyrgð gaf Patrekur hf. út tryggingarbréf 12. nóvember 1982, þar sem fiskiskip í eigu félagsins var sett að veði ásamt fiskverkunarstöð í eigu áfrýjanda. Var tryggingarbréfið áritað af stjórn áfrýjanda um samþykki veðsetningarinnar, auk þess sem hann hafði 1. júlí 1982 gefið út sérstakt leyfi handa Patreki hf. til að setja fiskverkunarstöðina Byggðasjóði að veði. Stefndi kveður Patrek hf., sem nú heiti Útgerðarfélagið Horn ehf., ekki hafa staðið skil á greiðslu afborgana og vaxta af skuldabréfinu og hafi stefndi því orðið að greiða þær Byggðasjóði jafnóðum og þær féllu í gjalddaga.
Stefndi höfðaði málið með stefnu 30. apríl 1999, þar sem hann krafðist þess að Útgerðarfélagið Horn ehf. yrði dæmt til að greiða sér 4.000.120 krónur með dráttarvöxtum frá 1. maí 1994 til greiðsludags, svo og að áfrýjanda yrði gert að þola viðurkenningu á 1. veðrétti í fiskverkunarstöð sinni til tryggingar á þeirri skuld með stoð í tryggingarbréfinu frá 12. nóvember 1982. Samkvæmt því, sem fram kom í héraðsdómsstefnu, er fyrrgreind stefnufjárhæð samtala afborgana af höfuðstól skuldarinnar við Byggðasjóð, sem voru í gjalddaga frá 1. október 1989 til 1. apríl 1993 og stefndi innti af hendi á tímabilinu frá fyrrnefnda deginum til 3. desember 1992. Séu greiðslurnar færðar í íslenskar krónur eftir skráðu gengi þýsks marks þegar þær voru inntar af hendi. Ekki sé gerð krafa um vexti, sem stefnda bar að greiða Byggðasjóði vegna ábyrgðar sinnar. Í héraði var ekki sótt þing í málinu af hálfu Útgerðarfélagsins Horns ehf. Með hinum áfrýjaða dómi voru allar kröfur stefnda teknar til greina.
II.
Með áritun á tryggingarbréfið frá 12. nóvember 1982 veitti áfrýjandi sem áður segir Patreki hf. heimild til að setja að veði nánar tiltekna fasteign sína til að tryggja skaðleysi stefnda af ábyrgð á skuld félagsins við Byggðasjóð. Þessi ráðstöfun bakaði ekki áfrýjanda greiðsluskyldu gagnvart stefnda. Hún fól því hvorki í sér ábyrgðarskuldbindingu vegna skuldar Patreks hf., sem ákvæði fyrri málsliðar 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda gæti tekið til, né verður henni jafnað við slíka skuldbindingu. Getur áfrýjandi af þessum sökum ekki vikist undan veðrétti stefnda í eign sinni á þeim grunni að réttindi hans geti fyrir fyrningu fallið niður gagnvart sér óháð fyrningu kröfu hans á hendur aðalskuldaranum.
Í málinu liggur fyrir að Byggðasjóður nýtti sér ekki fyrrgreinda heimild í skuldabréfi Patreks hf. til að fella eftirstöðvar skuldar félagsins í gjalddaga vegna vanskila, heldur greiddi stefndi gjaldfallnar afborganir ýmist á eða skömmu eftir gjalddaga þeirra, ef frá er talin greiðsla síðustu afborgunarinnar, sem var innt af hendi tæpum fjórum mánuðum fyrir gjalddaga. Gagnvart Patreki hf. hófst því tíu ára fyrningarfrestur á endurgreiðslukröfu stefnda sjálfstætt á gjalddaga hverrar afborgunar, sbr. lokaorð 4. töluliðar 3. gr. og 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905. Sá fyrningarfrestur var ekki liðinn þegar málið var höfðað að því er varðar þær greiðslur samkvæmt skuldabréfinu, sem stefndi leitar dóms fyrir.
Samkvæmt því, sem að framan greinir, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Oddi hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 13. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Lánasýslu ríkisins, kt. 521192-2409, Hverfisgötu 6, Reykjavík, með stefnu birtri þingfestri 20. maí 1999 á hendur Útgerðarfélaginu Horni ehf., kt. 650374-0379, Aðalstræti 5, Patreksfirði, og Odda hf., kt. 550367-0179, Eyrargötu, Patreksfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
1.Að stefndi, Útgerðarfélagið Horn ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 4.000.120, auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 1. maí 1994 til greiðsludags.
2.Að stefndi, Oddi hf., verði dæmdur til að þola viðurkenningu á 1. veðrétti stefnanda í fiskverkunarstöð Odda hf. samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu þann 12.11.1982, til tryggingar ofangreindri fjárhæð.
3.Þá er þess krafizt, að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefnda, Odda hf., eru þær, að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmdur til að greiða félaginu málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Af hálfu stefnda, Útgerðarfélagsins Horns ehf., hefur ekki verið sótt þing, og verður málið dæmt á hendur þessum stefnda samkvæmt framlögðum gögnum.
II.
Málavextir:
Málavextir eru þeir, að á árinu 1982 veitti Byggðasjóður Patreki hf., Patreksfirði lán að fjárhæð DEM 275.801. Lánið er samkvæmt skuldabréfi, útg. 10.11.1982, og skyldi lántaki endurgreiða það á 10 árum með jöfnum afborgunum, DEM 13.790,05 á hverjum gjalddaga, þann l. apríl og 1. okt. ár hvert, í fyrsta sinn þann 01.10. 1983. Skuldin bar 11% ársvexti, sem greiðast skyldu eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir, í fyrsta sinn þann 01.04.1983. Í skuldabréfinu er ákvæði þess efnis, að verði ekki staðið í skilum með greiðslu vaxta eða afborgana beri að greiða hæstu lögleyfða dráttarvexti af hinni vangoldnu fjárhæð.
Þann 15.11.1982 tókst ríkissjóður á hendur sjálfskuldarábyrgð á láninu. Var heimild ríkissjóðs til ábyrgðarveitingarinnar veitt í lánsfjárlögum fyrir árið 1981, lög nr. 13/1981. Til að tryggja skaðleysi ríkissjóðs vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar gaf Patrekur hf. út tryggingarbréf þann 12.11.1982, sömu fjárhæðar og skuldabréfið, með veði í ms. Patreki BA-64 á 4. veðrétti og uppfærslurétti. Einnig var veðsett fiskverkunarstöð Odda hf., Patreksfirði, með 1l. veðrétti og uppfærslurétti. Veitti Oddi hf. Patreki hf. heimild til veðsetningarinnar. Enn fremur gaf stjórn Odda hf. út sérstakt veðleyfi þann 1. júlí 1982.
Samkvæmt veðbókarvottorði, dags. 06.04 1998, er tryggingarbréfið nú með l. veðrétti í fiskverkunarstöðinni.
Patrekur hf. stóð ekki í skilum með afborganir skuldabréfsins til Byggðasjóðs og leysti Ríkisábyrgðasjóður því til sín gjaldfallnar greiðslur jafnóðum og þær féllu til.
Ríkisábyrgðasjóður gerði stefnda, Patreki hf., að endurgreiða hverja innleysta afborgun um leið og þær voru inntar af hendi, án árangurs.
Þann 25.05.1987 var gerður greiðslusamningur við stjórn Patreks hf., þar sem kveðið var á um, að þau vanskil, sem þá voru gjaldfallin, að fjárhæð kr. 5.348.107, skyldu greidd með 8 afborgunum á sex mánaða fresti á næstu fjórum árum. Staðið var í skilum með greiðslur samkvæmt greiðslusamningnum til og með 01.11.1988. Stefnandi kveður skuldir samkvæmt nefndum greiðslusamningi ekki vera með í stefnufjárhæðinni.
Þann 22.06.1989 var Patrekur BA-64 seldur á nauðungaruppboði, án þess að nokkur greiðsla fengist upp í kröfur Byggðasjóðs eða Ríkisábyrgðasjóðs vegna skulda Patreks hf.
Með bréfi dags. 03.07.1989 óskaði Byggðastofnun eftir því við Ríkisábyrgðasjóð, að hann greiddi upp lánið sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Ríkisábyrgðasjóður svaraði með bréfi dags. 31. ágúst, þar sem sagt er, að lánið verði greitt samkvæmt upphaflegum gjalddögum þess. Byggðastofnun áritaði samþykki sitt á bréfið sama dag. Fór uppgreiðsla bréfsins fram með þeim hætti og við uppborgun síðasta gjalddaga bréfsins fékk Ríkisábyrgðasjóður bréfið afhent.
Nafni stefnda, Patreks hf., kt. 650374-0379, var breytt á aðalfundi félagsins, sem haldinn var þann 12. maí 1992, í Útgerðarfélagið Horn hf. með sömu kennitölu.
Þann 18.06.1997 var send nauðungarsölubeiðni á fiskverkunarstöð Odda hf. Vegna mótmæla gerðarþola, er snertu form tryggingarbréfsins, var beiðnin felld niður við byrjun uppboðsins.
Deila í máli þessu snýst um það, hvort krafa stefnanda á hendur stefnda, Odda hf., sé fyrnd.
Stefnandi kveður mál á grundvelli sömu skjala og lögð eru fram í máli þessu, hafa verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 16. apríl 1998. Því hafi verið vísað frá héraðsdómi og frá Hæstarétti með dómum, uppkveðnum 10. febrúar 1999 og 9. marz 1999.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir stefnukröfur sínar á hendur stefnda, Útgerðarfélaginu Horni ehf., á því, að hann hafi orðið að leysa til sín kröfu þá, sem hann gekkst í sjálfskuldarábyrgð á fyrir stefnda samkvæmt skuldabréfi, dags. 10.11.1982, að fjárhæð DEM 275.801, sbr. dskj. nr. 4. Stefnandi hafi orðið að greiða bréfið upp að mestu leyti fyrir stefnda.
Stefnandi telji sig ótvírætt eiga endurkröfu á hendur stefnda fyrir þeim fjárhæðum, sem hann hafi þurft að leysa til sín, og þar sem innlausnin hafi farið fram innan 10 ára frá þingfestingu þessa máls (sic í stefnu).
Réttur stefnanda gagnvart stefnda, Útgerðarfélaginu Horni ehf., byggi á innlausninni og handhöfn skuldabréfsins. Stefndi sé skyldugur til að standa við þá skuldbindingu, sem hann tókst á hendur samkvæmt skuldabréfinu. Hann sé greiðandi bréfsins, og samkvæmt reglum um ábyrgð hafi sjálfskuldarábyrgðaraðili fullan rétt til að leggja fram endurgjaldskröfu á hendur aðalskuldara jafnlengi og aðalkrafan sé við lýði. Í því sambandi vísi stefnandi til 4. tl. 3. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, þar sem skýrt komi fram, að endurgjaldskrafan sé jafnan dómtæk, eins lengi og innleysta krafan myndi verið hafa. Krafa sú, sem Ríkisábyrgðasjóður leysti til sín, hafi verið dómtæk í 10 ár frá hverjum gjalddaga á hendur stefnda.
Stefnufjárhæðin sé samsett af höfuðstólsgreiðslum skuldarinnar, sem voru á gjalddaga innan við 10 ár frá þingfestingu þessa máls (sic í stefnu), og sundurliðist svo:
Gjalddagi:Fjárh. í DEM.:Fjárhæð í kr.:Innlausnard: Gengi:
1989.01.10.DEM. 13.790,05kr. 449.30601.10.198932,5819
1990.01.04.DEM. 13.790,05kr. 498.07501.04.199036,1184
1990.01.10.DEM. 13.790,05kr. 500.71315.10.199036,3097
1991.01.04.DEM. 13.790,05kr. 488.72901.04.199135,4407
1991.01.10.DEM. 13.790,05kr. 491.25910.10.199135,6242
1992.01.04.DEM. 13.790,05kr. 497.07001.04.199236,0456
1992.01.10.DEM. 13.790,05kr. 527.43403.12.199238,2474
1993.01.04.DEM. 13.790,05kr. 547.53403.12.1992 39.7050
Samtalskr. 4.000.120
Miðað sé við sölugengi á þýsku marki á hverjum gjalddaga.
Stefnandi kveður, að aðeins séu teknar með þær afborganir af höfuðstól, sem gjaldfallið hafi 0l.10.1989 og síðar. Engir innleystir vextir séu teknir með.
Að því er varði kröfuna á hendur stefnda, Odda hf., byggi stefnandi hana á því, að hann sé eigandi að tryggingarbréfi í fasteign stefnda, fiskverkunarstöð Odda hf., sem nú sé tryggt þar með l. veðrétti. Í bréfinu sé sérstaklega tekið fram, að til tryggingar því, að ríkissjóður verði skaðlaus af ábyrgð, sem hann takist á hendur á láni hjá Byggðasjóði, sé fiskverkunarstöðin veðsett.
Stefnandi vísar til þess, að þar sem hann hafi, sem sjálfskuldarábyrgðaraðili, orðið að leysa til sín kröfu þá, sem tryggingarbréfið tiltaki, og krefjist endurgreiðslu hennar í máli þessu, eigi hann tvímælalausan rétt til að krefjast þess, að um leið og skuldari kröfunnar hafi verið dæmdur til greiðslu hennar, verði staðfestur veðréttur hans í fiskverkunarstöðinni.
Stefndi hafi haldið því fram, að stefnandi eigi ekki kröfu til þess að fá viðurkenndan veðréttinn, þar sem krafan gegn stefnda, Odda hf., sé fyrnd. Stefnandi mótmæli þessari staðhæfingu stefnda og haldi því fram, að hér sé um veðkröfu að ræða, en ekki ábyrgðarkröfu persónulegs eðlis, og veðkrafan sé alls ekki fyrnd. Öllum kröfum stefnda þess efnis, að krafan sé fyrnd, sé þannig hafnað.
Vísað sé til meginreglna kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga svo og samningalaga og eðli máls. Þá sé vísað til þinglýsingarlaga og veðlaga, lánsfjárlaga nr. 13/1981, auk laga um ríkisábyrgðir nr. 37/1961 og reglugerðar um ríkisábyrgðir og ríkisábyrgðasjóð nr. 43/1967. Krafan um dráttarvexti og vaxtavexti sé byggð á reglum III. kafla laga nr. 25/1987. Þá sé krafan um málskostnað byggð á l. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og krafan um virðisaukaskatt sé reist á lögum nr. 50/1988, sbr. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og geti hann því ekki nýtt sér frádráttarrétt vegna greidds virðisaukaskatts.
Stefnandi vísar til þess, að Ríkisábyrgðasjóður sé deild í Lánasýslu ríkisins samkvæmt 1. tl. 3. gr. 1. nr. 43/1990.
Málsástæður stefnda, Odda hf.:
Stefndi, Oddi hf., byggir sýknukröfu sína á því, að hver sú krafa, sem stefnandi kunni að hafa átt á hendur félaginu, sé fyrnd. Eftirfarandi rök styðji sýknukröfuna:
1. Fyrning veðréttinda.
Ríkisábyrgðasjóður eigi þinglýstan veðrétt í eign stefnda, Odda hf. Þar sem veðréttindi teljist til eignarréttinda, sé meginreglan sú, að veðréttindi fyrnist ekki, og að fyrning þeirrar kröfu, sem veðréttindunum fylgi, hafi ekki áhrif á veðréttinn. Frá þessari meginreglu séu þó nokkrar undantekningar. Sambandið milli veðréttarins og kröfunnar, sem veðrétturinn eigi að tryggja, geti verið þannig vaxið, að það sé forsenda fyrir gildi veðréttarins, að krafan falli ekki niður fyrir fyrningu. Fyrning kröfunnar geti þá leitt til þess, að veðrétturinn falli niður. Það eigi t.d. við, þegar sett sé veð fyrir öllum núverandi og væntanlegum kröfum, sem veðhafinn kunni að eignast á hendur veðþola. Þá megi benda á, að kröfuréttindum sé ætlaður ákveðinn líftími. Kröfuréttindi falli niður, séu þau ekki nýtt í ákveðinn tíma og eigi gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að forða fyrningu réttindanna.
Veðtryggingarbréfinu á dskj. nr. 3. hafi verið ætlað að standa sem ábyrgð fyrir annarri skuld. Í tryggingarbréfinu sé tekið fram, að lán það, sem Ríkisábyrgðasjóður gekkst í ábyrgð fyrir, sé að fjárhæð DEM 275.801. Láninu sé ekkert lýst frekar, engir gjalddagar nefndir eða greiðsluskilmálar. Í bréfinu sé einnig tekið fram, að veðhafa sé ".....ávallt heimilt, án uppsagnar, að leita fullnustu í veðunum með sölu þeirra á nauðungaruppboði samkvæmt 39. gr. laga nr. 95/1947 og lögum nr 57/1949, sbr. lög um veð 4. nóv. 1887, 3. gr., ...." Tryggingarbréfið hafi því aldrei getað orðið bein nauðungarsöluheimild, svo sem fram komi í mótmælum gegn framgangi nauðungarsölu á fiskverkunarstöð stefnda, Odda hf., sbr. dskj. nr. 23.
Það er sé því nauðsynlegt að fá dóm fyrir skuldinni á bak við tryggingarbréfið og dóm fyrir viðurkenningu á veðréttinum. Það náið samband sé því á milli veðréttarins og kröfunnar á bak við veðréttinn, að fyrning kröfunnar leiði óhjákvæmilega til þess, að veðrétturinn sé einnig fyrndur.
2. Fyrning ábyrgðarskuldbindinga.
Stefndi, Oddi hf., hafi veitt Patreki hf. veðleyfi til tryggingar ábyrgð, sem Ríkisábyrgðasjóður gekkst í gagnvart Byggðasjóði. Í samræmi við veðleyfið hafi stefndi, Oddi hf., áritað tryggingarbréfið, sem Patrekur hf. gaf út til Ríkisábyrgðasjóðs. Réttarsamband það, sem sé á milli stefnanda og stefnda, Odda hf., byggist á tryggingarbréfinu, en ekki á skuldabréfinu á dskj. nr. 4. Skuldabréfið á dskj. nr. 4 hafi Patrekur hf. gefið út til Byggðasjóðs með ábyrgð Ríkisábyrgðasjóðs. Rót kröfu stefnanda á hendur stefnda, Odda hf., sé því ekki skuld Patreks hf. gagnvart Byggðasjóði samkvæmt láninu, sem Ríkisábyrgðasjóður þurfti að yfirtaka sem ábyrgðaraðili, heldur tryggingarbréfið sem stefndi, Oddi hf., áritaði um veðleyfi.
Stefndi, Oddi hf., hafi ekki verið skuldari samkvæmt skuldabréfinu. Með því að veita Patreki hf. veðleyfið, hafi hann hins vegar tekið á sig ábyrgð á skuldinni. Hann hafi verið ábyrgðaraðili, rétt eins og Ríkisábyrgðasjóður var ábyrgðaraðili. Stefndi, Oddi hf., hafi aldrei gefið út skuldabréf til Ríkisábyrgðasjóðs, heldur eingöngu tekizt á hendur ábyrgð. Fyrningartími á ábyrgðarskuldbindingum sé fjögur ár, sbr. 4. tl. 3. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Fyrningartíminn á kröfu stefnanda á hendur stefnda, Odda hf., sé því fjögur ár.
3. Endurgjaldskrafa milli ábyrgðarmanna fyrnist á fjórum árum.
Samkvæmt 4. tl. 3. gr. fyrningarlaga fyrnist einnig á fjórum árum endurgjaldskrafa, sem ábyrgðarmaður eða samskuldari hafi á hendur aðalskuldunaut, meðábyrgðarmanni eða samskuldara út af greiðslu skuldar. Ríkisábyrgðasjóður hafi tekið á sig ábyrgð á skuld Patreks hf. við Byggðasjóð sem ábyrgðaraðili. Ríkisábyrgðasjóður hafi ekki verið aðalskuldari hinnar upphaflegu kröfu. Líta megi á stefnda, Odda hf., sem meðábyrgðarmann Ríkisábyrgðasjóðs. Stefndi hafi ekki verið aðalskuldunautur, heldur aðeins meðábyrgðarmaður eins og Ríkisábyrgðasjóður.
4. Upphaf fyrningarfrests.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga teljist fyrningarfrestur frá þeim degi, er krafa varð gjaldkræf. En hvenær hafi krafa Ríkisábyrgðarjóðs á hendur stefnda, Odda hf., orðið gjaldkræf? Ríkisábyrgðasjóður hafi alltaf greitt af láninu til Byggðasjóðs. Það verði því að líta svo á, að fyrningarfrestur hverrar afborgunar hafi hafizt frá greiðsludegi hverrar afborgunar fyrir sig. Þá hafi Ríkisábyrgðasjóður orðið fyrir tjóninu, og þá hafi krafa sjóðsins í raun orðið gjaldkræf. Síðasta afborgun af láninu hafi átt að greiðast 1. apríl 1993, en Ríkisábyrgðasjóður hafi leyst eftirstöðvar kröfunnar til sín 3. desember 1992. Fyrningardagur síðustu greiðslu Ríkisábyrgðasjóðs sé því 3. desember 1996. Allar kröfur sjóðsins á hendur stefnda, Odda hf., séu því fyrndar. Jafnvel þótt miðað væri við það, að upphafstími fyrningarfrestsins væri síðasti umsaminn gjalddagi á láninu, 1. apríl 1993, þá væri einnig öll krafan gagnvart stefnda, Odda hf., fyrnd, vegna þess að fyrra málið, sem stefnandi höfðaði á hendur stefnda, hafi verið þingfest 16. apríl 1998. Um upphafstíma fyrningarfrest megi vísa til hrd. 1998, bls. 642: Ríkisábyrgðasjóður gegn Siglufjarðarkaupstað. Í því máli hafi Hæstiréttur Íslands talið, að fyrningarfrestur hefði byrjað að líða frá þeim degi, sem framkvæmdasjóður hefði leyst til sín kröfu. Hæstiréttur hafi einnig talið, að endurgjaldskrafa sjóðsins á hendur ábyrgðarmanni félli undir fyrningarreglu 4. tl. 3. gr. fyrningarlaganna, þ.e. að fyrningarfresturinn væri fjögur ár. Þessi dómur sé mjög sambærilegur því máli, sem hér sé til umfjöllunar. Hæstiréttur sé búinn að kveða upp úr með það, hver sé fyrningartíminn á svona kröfum. Mál Ríkisábyrgðasjóðs gegn Siglufjarðarkaupstað hafi verið þingfest fyrir héraðsdómi í marz 1996. Stefndi í því máli hafi strax haft uppi kröfur um sýknu vegna fyrningar. Það sæti furðu, að stefnandi skuli þá þegar ekki hafa "tekið til" hjá sér og hugað strax að öllum þeim málum, sem eins gæti staðið á um.
5. Athugasemd við dómkröfur stefnanda.
Krafa stefnanda gagnvart stefnda, Odda hf., sé um viðurkenningu á 1. veðrétti stefnanda í fiskverkunarstöð stefnda samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu þann 12.11.1982 ".. til tryggingar ofangreindri fjárhæð", eins og það sé orðað í stefnunni. Tryggingarbréfinu sé ekkert nánar lýst, eða tilgreint, hvar umrædd fiskverkunarstöð Odda hf. sé á landinu. Samkvæmt d. lið 1. mgr. 80. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála skuli dómkröfur vera glögglega orðaðar. Miðað sé við þá grundvallarreglu, að hægt sé að taka stefnukröfurnar óbreyttar upp sem dómsorð. Orðalag kröfugerðar stefnanda gagnvart stefnda, Odda hf., sé á mörkunum að uppfylla skilyrði 80 gr. einkamálalaga. Sú leið hafi þó ekki verið farin að krefjast frávísunar málsins af þessum sökum. Slíkt myndi aðeins draga málarekstur þennan á langinn og tefja fyrir endanlegum sýknudómi í málinu.
Varðandi málskostnaðarkröfuna vísist til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi lagarök að öðru leyti vísist til þess, sem hér að ofan greini í kaflanum.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Eins og að framan greinir hefur ekki verið sótt þing af hálfu stefnda, Útgerðarfélagsins Horns ehf., og verður málið því dæmt á hendur félaginu samkvæmt framlögðum gögnum, og þar sem þau eru í samræmi við málatilbúnað stefnanda, verða kröfur hans teknar til greina að öllu leyti.
Stefndi, Oddi hf., byggir sýknukröfu sína á því, að krafa stefnanda sé fyrnd. Eru málsástæður þessa stefnda raktar undir fjórum töluliðum í greinargerð:
1. Fyrning veðréttinda:
Í greinargerð sinni gerir stefndi, Oddi hf., athugasemdir við það, hvernig skuldin, sem tryggingarbréfinu er ætlað að tryggja, er tilgreind í því, en ekki er ljóst, hvort hann byggir kröfur sínar á því, að sú tilgreining sé ekki nægileg, enda sýnist sýknukrafa hans eingöngu byggð á fyrningu. Hins vegar þykir rétt að fjalla um þetta atriði.
Í bréfinu segir svo: "Að til tryggingar því að ríkissjóður verði skaðlaus af ábyrgð þeirri, sem hann tekst á hendur á láni voru (Patreks hf. - innskot dómara) hjá Byggðasjóði til kaupa á ms. Patreki BA 64, en lánið er að fjárhæð DEM 275.801,00 auk vaxta og kostnaðar, setjum vér "
Með vísan til þeirrar lýsingar, sem þarna kemur fram, þykir skuldin að baki bréfinu nægilega tilgreind.
Stefndi byggir á því, að nauðsynlegt sé að fá dóm fyrir skuldinni, sem stendur að baki tryggingarbréfinu, sem og fyrir viðurkenningu á veðréttinum, en fyrning kröfunnar leiði til þess, að veðrétturinn sé einnig fyrndur.
Með vísan til þess, að kröfur stefnanda í máli þessu á hendur stefnda, Útgerðarfélaginu Horni ehf., eru teknar til greina að öllu leyti, kemur þessi málsástæða stefnda, Odda hf., ekki til frekari skoðunar, en tryggingarbréfið stendur til tryggingar hinni dæmdu fjárhæð.
2. Fyrning ábyrgðarskuldbindinga:
Með tryggingarbréfinu setti Patrekur hf., Ríkisábyrgðasjóði að veði m.a. Fiskverkunarstöð Odda hf., svo sem nánar greinir í bréfinu, og er bréfið áritað um samþykki Odda hf. á veðsetningunni. Er ekki fallizt á þann skilning stefnda, Odda hf., að með veðleyfinu hafi hann tekið á sig ábyrgðarskuldbindingu fyrir greiðslu lánsins á sama hátt og Ríkisábyrgðasjóður. Veðheimildin veitir vissulega tryggingu fyrir greiðslu skuldarinnar, en sú trygging takmarkast við veðandlagið sjálft, og verður á engan hátt jafnað við ótakmarkaða greiðsluábyrgð lánsins. Er því ekki fallizt á þær málsástæður stefnda, Odda hf., að fyrningartími umdeilds veðréttar sé hinn sami og fyrningartími ábyrgðarskuldbindinga.
3. Endurgjaldskrafa milli ábyrgðarmanna fyrnist á fjórum árum:
Málsástæðum stefnda, Odda hf., undir þessum tölulið er hafnað með vísan til þess sem fram kemur undir tl. 2.
4. Upphaf fyrningarfrests:
Málsástæður stefnda, Odda hf., undir þessum tölulið byggja á því, að skuldbinding stefnda sé ábyrgðarskuldbinding og fyrningarfrestur því 4 ár samkvæmt 4. tl. 3. gr. l. nr. 14/1905. Með vísan til þess, er að framan er rakið, er þessum skilningi stefnda hafnað.
Krafa stefnanda á hendur stefnda, Odda hf., er um viðurkenningu á veðrétti til tryggingar ákveðinni, tilgreindri fjárhæð. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. l. nr. 14/1905 fyrnist sá réttur ekki, óháð fyrningu skuldarinnar, sem að baki veðréttinum stendur. Ber því að fallast á kröfu stefnanda um staðfestingu á veðrétti, eins og hún er fram sett.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 600.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Útgerðarfélagið Horn ehf., greiði stefnanda, Lánasýslu ríkisins, kr. 4.000.120, auk dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 25/1987 frá 1. maí 1994 til greiðsludags.
Staðfestur er 1. veðrétti stefnanda í fiskverkunarstöð stefnda, Odda hf., samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu þann 12.11.1982, til tryggingar ofangreindri fjárhæð.
Stefndu greiði stefnanda kr. 600.000 í málskostnað.