Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
|
|
Miðvikudaginn 2. júní 2010. |
|
Nr. 184/2010. |
Landsbanki Íslands hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. (Hörður F. Harðarson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð.
L krafðist þess að kröfur hans á hendur S, samtals að fjárhæð 48.530.307.023 krónur, yrðu við slitameðferð S viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Aðila greindi ekki á um að L ætti kröfur á hendur S og enginn tölulegur ágreiningur var í málinu. Þeim bar hins vegar ekki saman um hvers eðlis þær greiðslur L til S hefðu verið, sem fram komu í kröfulýsingu þess fyrrnefnda. L hélt því fram að um hefði verið að ræða svonefnd peningamarkaðsinnlán, sem ætluð hefðu verið til ávöxtunar fjár eins og hver önnur innlán. S taldi á hinn bóginn að um lán til sín hefði verið að ræða sem í öllum tilvikum yrðu rakin til lánasamninga, sem áður hefðu verið gerðir milli aðilanna, og greiðslur L yrðu skýrðar með. Í samræmi við það hefði kröfum L verið skipað í flokk krafna, sem nytu rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit S. Talið var að samkvæmt hljóðan 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 nytu kröfur um innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta þess forgangs við skipti sem um var deilt. Ágreiningslaust var að kröfur L nytu ekki tryggingaverndar samkvæmt lögum nr. 98/1999, sbr. 6. mgr. 9. gr. þeirra. Þegar af þeirri ástæðu gætu kröfurnar ekki notið þeirrar rétthæðar við slit S, sem L krafðist, og þyrfti þá ekki að leysa sérstaklega úr því hvort þær væru til komnar sem innlán eða lánveiting. Var staðfestur úrskurður héraðsdóms og kröfu L hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að kröfur hans á hendur varnaraðila, samtals að fjárhæð 48.530.307.023 krónur, yrðu við slitameðferð varnaraðila viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt fyrir réttinum 25. maí 2010.
Svo sem getið er í hinum kærða úrskurði gaf slitastjórn varnaraðila út innköllun 12. maí 2009 til skuldheimtumanna félagsins. Aðila greinir ekki á um að sóknaraðili eigi kröfur á hendur varnaraðila og enginn tölulegur ágreiningur er í málinu. Þeim ber hins vegar ekki saman um hvers eðlis þær greiðslur sóknaraðila til varnaraðila hafi verið, sem fram koma í kröfulýsingu þess fyrrnefnda. Sóknaraðili heldur fram að um hafi verið að ræða svonefnd peningamarkaðsinnlán, sem ætluð hafi verið til ávöxtunar fjár eins og hver önnur innlán. Varnaraðili telur á hinn bóginn að um lán til sín hafi verið að ræða sem í öllum tilvikum verði rakin til lánasamninga, sem áður hafi verið gerðir milli aðilanna, og greiðslur sóknaraðila verði skýrðar með. Í samræmi við það hafi kröfum sóknaraðila verið skipað í flokk krafna, sem njóti rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.
Sóknaraðili reisir kröfu sína á 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Ákvæðið var upphaflega sett með 6. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., en lítillega breytt í núverandi horf með 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009. Í lagaákvæðinu er nú kveðið á um að við slit fjármálafyrirtækis skuli gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skuli „kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Sóknaraðili heldur því fram að kröfur hans teljist vera innstæður, eins og það orð sé skýrt í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þess vegna njóti þær á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og skipti þá ekki máli þótt kröfurnar séu ekki tryggðar samkvæmt lögum nr. 98/1999. Varnaraðili mótmælir þessari skýringu á nefndu lagaákvæði. Jafnvel þótt litið yrði svo á að kröfur sóknaraðila teldust ekki vera til komnar fyrir lánveitingar heldur sem innlán, verði að skilja ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 svo að einungis tryggðar innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 njóti forgangs til jafns við kröfur samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við skipti eða slit á fjármálafyrirtæki. Kröfur sóknaraðila uppfylli ekki það skilyrði að vera tryggðar innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999.
Samkvæmt hljóðan 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 njóta kröfur um innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 þess forgangs við skipti sem hér er deilt um. Ágreiningslaust er að kröfur sóknaraðila njóta ekki tryggingaverndar samkvæmt síðastgreindum lögum, sbr. 6. mgr. 9. gr. þeirra. Þegar af þeirri ástæðu geta kröfurnar ekki notið þeirrar rétthæðar við slit varnaraðila, sem sóknaraðili krefst, og þarf þá ekki að leysa sérstaklega úr því hvort þær séu til komnar sem innlán eða lánveiting, svo sem gert var í úrskurði héraðsdóms, sem lagði úrlausn um þetta til grundvallar niðurstöðu. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Landsbanki Íslands hf., greiði varnaraðila, Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf., 800.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2010.
Sakarefni og kröfur málsaðila
Mál þetta var þingfest 16. október 2009. Var þá lagt fram bréf slitastjórnar Straums -Burðaráss fjárfestingabanka hf., móttekið 9. september 2009, þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um lýsta kröfu sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., í bú varnaraðila, Straums - Burðaráss fjárfestingabanka hf. Erindinu var beint til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga og 4. töluliðs 2. mgr. ákvæðis II til bráðbirgða í lögum nr. 44/2009, sbr. 5. og 6. gr. sömu laga, um breytingu á 101. og 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Í bréfi slitastjórnar segir m.a. svo: „Ágreiningurinn er margþættur. Meðal þess sem deilt er um er hvort innlán kröfuhafans hjá Straumi njóti forgangs skv. 112. gr. gjaldþrotalaga, en slitastjórn hefur hafnað því. Þá er deilt um vaxtaútreikning innlánskrafna. Uppgjör afleiðusamninga er umdeilt. Kröfuhafinn hefur ennfremur mótmælt yfirlýsingum Straums um skuldajöfnun í nokkrum tilvikum.“
Í þinghaldi 29. janúar sl. óskuðu aðilar eftir því að sakarefni málsins yrði skipt samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þannig að fyrst yrði úrskurðað sérstaklega um þá kröfu sóknaraðila að kröfur samkvæmt 2. tölulið kröfulýsingar hans í bú varnaraðila nytu forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Dómari ákvað að verða við ósk aðila um að skipta sakarefni málsins og láta önnur atriði málsins hvíla og bíða úrlausnar. Kröfur aðila í þessum hluta málsins eru því eftirfarandi:
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að kröfur samkvæmt 2. tl. kröfulýsingar hans í bú varnaraðila, alls að fjárhæð 48.530.307.023 krónur, njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þá krefst hann málskostnaður úr hendi varnaraðila, að meðtöldum kostnaði vegna virðisaukaskatts, samkvæmt mati réttarins.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 8. febrúar sl., en endurupptekið 22. febrúar sl. og þá tekið til úrskurðar á ný.
Málsatvik
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Straumi - Burðarási fjárfestingabanka hf. (Straumi) slitastjórn 11. maí 2009 samkvæmt ákvæðum 4. töluliðs 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna 12. maí 2009 og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaði, sem út kom 18. sama mánaðar. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn tveir mánuðir og var því á enda 18. júlí 2009.
Sóknaraðili, Landsbanki Íslands hf., lýsti kröfu í bú varnaraðila og var kröfulýsing hans í 6 töluliðum. Í 2. tölulið kröfulýsingarinnar var lýst kröfu vegna peningamarkaðsinnlána, samtals að fjárhæð 48.530.307.023 krónur, sem sundurliðast þannig:
|
Höfuðstóll í íslenskum krónum, ásamt vöxtum |
27.365.762.222,00 |
|
Dráttarvextir til 22.04.2009 |
3.742.680.213,00 |
|
Samtals v. ISK |
31.108.442.435,00 |
|
Höfuðstóll USD 45.226.444,00, en ISK m.v. gengi SÍ 22.04.2009 |
5.911.548.552,00 |
|
Dráttarvextir USD 1.797.551,00, en ISK til 22.04.2009 |
234.957.891,00 |
|
Samtals v. USD |
6.146.506.443,00 |
|
Höfuðstóll CAD 21.100.240,00, en ISK m.v. gengi SÍ 22.04.2009 |
2.225.442.313,00 |
|
Dráttarvextir CAD 797.120,00, en ISK til 22.04.2009 |
84.072.246,00 |
|
Samtals v. CAD |
2.309.514.559,00 |
|
Höfuðstóll GBP 45.081.123,00, en ISK m.v. gengi SÍ 22.04.2009 |
8.614.101.038,00 |
|
Dráttarvextir GBP 1.840.813,00, en ISK til 22.04.2009 |
351.742.548,00 |
|
Samtals v. GBP |
8.965.843.586,00 |
Í kröfulýsingu segir að kröfur þessar byggist á peningamarkaðsinnlánum sem Landsbanki Íslands hf. eigi hjá Straumi - Burðarási fjárfestingabanka hf. Hafi fjármunirnir verið lagðir inn á tímabilinu 29. september 2008 til 6. október sama ár, og hafi innlánin verið með gjalddaga og borið vexti. Kröfunni var lýst sem forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni sem forgangskröfu og náðist ekki samkomulag um lausn ágreiningsins á kröfuhafafundum, sem haldnir voru 18. og 25. ágúst og 2. september 2009. Í kjölfarið beindi slitastjórnin ágreiningi aðila til úrlausnar héraðsdóms.
Málsástæður sóknaraðila og lagarök
Sóknaraðili byggir á því að peningamarkaðsinnlán hans (e. money market deposit) hjá varnaraðila njóti forgangs við slit varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Því til stuðnings bendir hann á að í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., (hér nefnd neyðarlög) segi að við skipti á búi fjármálafyrirtækis skuli kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, njóta rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Jafnframt segi í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, að kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta teljist til krafna sem njóti rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. laga um gjaldþrotaskipti við slit á fjármálafyrirtæki.
Til skýringar á því hvað teljist vera innstæða, sem njóti ofangreindrar rétthæðar, telur sóknaraðili að líta beri til laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í 3. mgr. 9. gr. þeirra laga segi að með innstæðu samkvæmt 1. mgr. sömu greinar sé átt við innstæðu, sem tilkomin sé vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, og viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum. Þar sem enga aðra skilgreiningu á hugtakinu innstæðu sé að finna í íslenskum lögum, byggir sóknaraðili á því að allar innstæður sem á annað borð uppfylli ofangreinda skilgreiningu, skuli njóta rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Með því að 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki vísi í lög um innstæðutryggingar, telur sóknaraðili að þar sé jafnframt byggt á sömu skilgreiningu á hugtakinu innstæðu. Þar sem krafa hans falli að áðurnefndri skilgreiningu á hugtakinu innstæða, njóti krafan rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti.
Ofangreindu til frekari stuðnings byggir sóknaraðili á því að lög um innstæðutryggingar feli í sér lögfestingu á efnisreglum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/19 EC. Í 1. gr. tilskipunarinnar sé hugtakið innlán þannig skilgreint: „any credit balance which results from funds left in an account or from temporay situations deriving from normal banking transactions and which a credit institution must repay under the legal and contractual conditions applicable, and any debt evidenced by a certificate issued by a credit institution“. Í 2. mgr. 7. gr. sömu tilskipunar sé heimild veitt til að undanþiggja innstæður frá fjármálafyrirtækjum tryggingu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, og hafi svo verið gert með 6. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar, þar sem m.a. segi að undanskilin tryggingu samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins séu innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja. Heldur sóknaraðili því fram að með ákvæðinu sé ekki verið að breyta ofangreindri skilgreiningu á hugtakinu innstæðu, enda sé innstæða sóknaraðila engu að síður innstæða, þótt hún sé undanskilin tryggingu. Ella þyrfti ekki að undanskilja hana tryggingu. Þá staðfesti ákvæðið einnig að aðildarfyrirtæki að tryggingarsjóðnum geti verið með innstæðu hjá öðrum aðildarfyrirtækjum, en þær innstæður njóti ekki tryggingar sjóðsins. Sóknaraðili bendir einnig á að í athugasemdum með frumvarpi til laga um innstæðutryggingar segi m.a. svo um 9. gr. laganna: „Verðbréf teljast ekki til innstæðu samkvæmt þessari grein og er það í samræmi við innstæðutryggingatilskipunina sem heimilar aðildarríkjunum að undanþiggja tryggingunni ýmis innlán, sem og útgefin verðbréf“. Telur sóknaraðili að þessi ummæli gefi beinlínis til kynna að skilgreining á innláni taki til peningamarkaðsinnlána, enda sé heimilt að undanskilja tryggingu ýmis innlán. Um leið mótmælir hann því að nokkur lagarök standi til þeirrar túlkunar slitastjórnar á ákvæðum neyðarlaga nr. 125/2008 að einungis tryggð innlán njóti rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Í því sambandi bendir hann á að í athugasemdum með frumvarpi til neyðarlaganna sé lagt til að innstæður verði forgangskröfur við gjaldþrotaskipti. Í athugasemdum við 6. gr. laganna komi fram að í ákvæðinu sé kveðið á um rétthæð innstæðna við gjaldþrot fjármálafyrirtækis. Löggjafinn hafi þannig ekki séð ástæðu til þess að gera greinarmun á rétthæð innstæða á grundvelli þess hverjir væru eigendur þeirra og/eða hvort þær væru tryggðar af þriðja aðila eða ekki.
Sóknaraðili hafnar þeim málatilbúnaði varnaraðila, sem birtist í greinargerð hans og kom áður fram á fundi með sónaraðila eftir að máli þessu var vísað til dómsmeðferðar, að peningamarkaðsinnlán séu ekki innlán. Telur hann að slitastjórn varnaraðila hafi áður viðurkennt kröfu sína sem innlán, þótt deilt væri um hvort hún nyti forgangs. Í því sambandi bendir hann á orðalag bréfs slitastjórnar til héraðsdóms, en þar komi m.a. fram að deilt sé um hvort innlán sóknaraðila hjá varnaraðila njóti forgangs samkvæmt 112. gr. gjaldþrotalaga. Byggir sóknaraðili á því að brigður varnaraðila á kröfu hans sem innlán séu of seint fram komnar, og að sú afstaða varnaraðili hefði í síðasta lagi átt að koma fram í beiðni um dómsmeðferð. Jafnframt staðhæfir sóknaraðili að við færslu innlána frá varnaraðila til Íslandsbanka hf., í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (FME) frá 17. mars 2009, hafi innlán sömu tegundar og að fullu sambærileg við innlán sóknaraðila, verið flutt yfir í Íslandsbanka hf. Þar sem slitastjórn hafi ekki gert athugasemdir við þá ráðstöfun eða reynt að rifta henni, telur sóknaraðili að sú framkvæmd staðfesti að um innlán sé að ræða í eigu sóknaraðila. Þá leggur sóknaraðili áherslu á að venja sé á Íslandi að túlka lög til samræmis við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og sambærilegar jafnræðisreglur alþjóðasáttmála, sem Ísland sé aðili að, þ.á m. Mannréttindasáttmála Evrópu. Því beri að velja þá lagatúlkun sem leiði til jafnræðis aðila.
Sem frekari rökstuðning fyrir þeirri málsástæðu að peningamarkaðsinnlán falli undir skilgreiningu á hugtakinu innstæðu, bendir sóknaraðili einnig á eftirfarandi:
Varnaraðili hafi leitað til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta um mat á því hvort ákveðin innlán teldust innlán í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Með bréfi varnaraðila til tryggingarsjóðsins hafi fylgt staðfesting á peningamarkaðsinnláni, sem sóknaraðili telur fullkomlega sambærilega við staðfestingu á peningamarkaðsinnláni sem notast var við í innlánsviðskiptum milli sóknaraðila og varnaraðila. Í svari tryggingarsjóðsins komi fram að sjóðurinn telji að um innlán sé að ræða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Samkvæmt því álítur sóknaraðili að bæði varnaraðili og Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta telji að um innlán sé að ræða. Sóknaraðili hafi lagt inn fé á reikning hjá varnaraðila og hafi varnaraðila borið að endurgreiða féð, ásamt umsömdum vöxtum. Loks staðhæfir sóknaraðili að í nágrannalöndum Íslands teljist peningamarkaðsinnlán til innlána.
Í fyrrnefndri ákvörðun FME frá 17. mars 2009, um færslu innlána frá varnaraðila til Íslandsbanka hf., segi m.a. svo: „Þá yfirtekur Íslandsbanki hf. ekki peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum sem kunna að eiga innlán hjá Straumi - Burðarás fjárfestingabanka hf. og eru aðilar að Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta“. Samkvæmt þessu líti FME svo á að peningamarkaðsinnlán séu innlán. Ákvörðunin feli aðeins í sér að innlán sóknaraðila eigi að verða eftir hjá varnaraðila, en segi ekkert um það að innlánið teljist ekki innlán, og hafi þess vegna ekki átt að flytjast yfir til Íslandsbanka hf. Sóknaraðili vekur einnig athygli á því að Seðlabanki Íslands hafi sett reglur nr. 373/2008, um bindiskyldu skuldbindinga fjármálafyrirtækja, og falli peningamarkaðsinnlán sóknaraðila undir skilgreiningu bankans á innlánum í þeim reglum.
Á árinu 2003 hafi Fjármálaeftirlitið sett reglur nr. 834, um reikningsskil lánastofnana, og sé reglum þessum ætlað að samræma reikningsskil lánastofnana. Varnaraðili teljist vera lánastofnun í skilningi laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þótt 25. gr. reglnanna geymi ekki skilgreiningu á innláni, segi þar engu að síður að innlán frá lánastofnunum skuli færast undir liðinn „skuldir við lánastofnanir“, sem innihaldi „innlán, millibankalán og aðrar skuldir við lánastofnanir sem ekki er í formi skuldabréfalána eða annarra framseljanlegra verðbréfa“. Byggir sóknaraðili á því að af þessu megi ráða að lánastofnanir geti verið með innlán hjá öðrum lánastofnunum, líkt og sóknaraðili hjá varnaraðila. Jafnframt vísar sóknaraðili til skyldu fjármálafyrirtækja, sem taka við peningamarkaðsinnlánum, til að færa þau til bókar sem innlán samkvæmt hinum alþjóðlega IFRS bókhaldsstaðli, en sá staðall sé notaður hér á landi, m.a. af varnaraðila við uppgjör og birtingu ársreikninga.
Með vísan til ofanritaðs telur sóknaraðili að peningamarkaðsinnlán séu án vafa innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar, sem eigi að njóta rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sé það eina skilyrðið sem 3. mgr. 102 gr. laga um fjármálafyrirtæki setji fyrir því að innstæður njóti slíkrar rétthæðar. Verði hvorki séð að lagagrundvöllur né lögskýringarsjónarmið geti leitt til annarrar niðurstöðu. Þess utan sé það skýrt brot gegn meginreglunni um jafnfræði að peningamarksinnlán annarra njóti forgangs á meðan sams konar innlán sóknaraðila njóti ekki sömu rétthæðar. Engin lagastoð sé fyrir slíkri mismunun innstæðueigenda.
Í greinargerð sinni skorar sóknaraðili á varnaraðila að leggja fram öll gögn varðandi innstæður sem fluttar voru til Íslandsbanka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 17. mars 2009. Einnig er skorað á varnaraðila að leggja fram öll gögn varðandi kröfu Saga - Capital hf., nr. 96 á kröfuskrá, sem samþykkt hafi verið sem forgangskrafa, en var lýst sem sérgreindri kröfu á grundvelli 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti.
Málsástæður varnaraðila og lagarök
Varnaraðili telur enga stoð fyrir þeirri kröfu sóknaraðila að kröfur hans samkvæmt framlögðum skjölum um staðfestingu á viðskiptum aðila teljist til innlána og njóti forgangs af þeim sökum. Byggist afstaða hans á eftirfarandi rökum:
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 17. mars 2009 hafi verið mælt fyrir um að Íslandsbanki hf. tæki yfir skuldbindingar varnaraðila vegna innlána í höfuðstöðvum bankans á Íslandi. Í ákvörðuninni hafi verið kveðið nánar á um framkvæmd þessa flutnings á innstæðum, og sérstaklega tekið fram að tilteknar kröfur skyldu ekki yfirteknar af Íslandsbanka hf. Meðal slíkra krafna hafi verið svokölluð peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum sem kynnu að eiga innlán hjá varnaraðila og væru aðilar að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2009 hafi fyrri ákvörðun verið breytt og tekið af skarið um að engin peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum skyldu yfirtekin af Íslandsbanka hf., óháð því hvort fjármálafyrirtæki væri aðili að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Hafi það verið gert til samræmis við aðrar ákvarðanir sem Fjármálaeftirlitið hafði tekið um flutning innlánsskuldbindinga. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins 21. nóvember 2008 sé gerð grein fyrir því á hverju framangreind afmörkun sé byggð. Þar segi að svokölluð peningamarkaðsinnlán hafi verið talin til innlána í öðrum tilvikum en þeim þegar gagnaðili væri fjármálafyrirtæki. Ástæða þessa sé í fyrsta lagi sú að erfitt sé að greina nokkurn mun á eðli slíkra lána og hefðbundinna lána milli fjármálafyrirtækja, og að mikilvægt sé að gæta jafnræðis milli lánveitenda, óháð tegund lánssamninga. Í öðru lagi var vísað til þess að lán milli fjármálafyrirtækja væru hluti af daglegri starfsemi þeirra og að því leyti frábrugðin innlánum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Loks var vísað til þess að horft hefði verið til þess hvernig umrædd lán voru færð í bókum fjármálafyrirtækjanna, svo og þeirrar staðreyndar að ekki hafi verið greitt af þessum lánum til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Heldur varnaraðili því fram að sömu sjónarmið eigi að öllu leyti við um kröfur sóknaraðila.
Þá telur varnaraðili að viðskipti málsaðila eigi ekkert skylt við innlán. Við mat á því verði að horfa til nokkurra atriða.
Þannig liggi fyrir að umrædd lán hafi ekki verið meðhöndluð sem innlán í bókum varnaraðila, heldur sem skammtímalán, og meðhöndluð sem slík í kerfum varnaraðila. Í samræmi við það hafi við útreikning á bindiskyldu og skýrsluskil til Seðlabanka Íslands á grundvelli reglna nr. 373/2008 ekki verið tekið tillit til umræddra lána frá sóknaraðila. Þá liggi enn fremur fyrir að ekki hafi verið greitt af þessum lánum til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Að baki viðskiptum málsaðila séu einnig lánssamningar, sem varnaraðili telji nauðsynlegt að gera nokkra grein fyrir.
Í fyrsta lagi samanstandi krafa sóknaraðila í íslenskum krónum, að höfuðstóli 27.365.762.222 krónur, af tveimur samningum. Annars vegar sé um að ræða viðskiptasamning um reikningslánalínu, dagsettur 30. janúar 2007, að fjárhæð 7.200.000.000 krónur. Um hefðbundinn lánssamning sé að ræða, sem upphaflega hafi verið gerður til 364 daga, en hafi síðar verið framlengdur. Hins vegar sé um að ræða lán á grundvelli samnings sem undirritaður hafi verið 30. september 2008, en samkvæmt honum hafi sóknaraðili samþykkt að veita varnaraðila tilteknar lánalínur (e. credit facilities). Þótt fjárhæðir séu þar tilgreindar í evrum hafi verið heimilt að draga á lánalínurnar í krónum. Varnaraðili hafi nýtt þessar lánalínur að hluta, annars vegar fyrir 19.000.000.000 króna, en hins vegar fyrir 1.000.000.000 króna. Telur varnaraðili fjarri að unnt sé að líta á samningana sem innlánsviðskipti. Til grundvallar síðarnefnda samningnum hafi legið samningur varnaraðila við sóknaraðila og Landsbanki Holding Europe S.A. um kaup varnaraðila á nokkrum félögum í eigu viðsemjendanna. Heildarfjárhæð samninganna tveggja sé sú sama, 380.000.000 evrur, og hafi verið gengið frá þeim báðum 30. september 2008. Telur varnaraðili að þessar staðreyndir undirstriki enn frekar að tilgangur sóknaraðila hafi ekki verið sá að stofna til innláns hjá varnaraðila.
Að því er varðar kröfu sóknaraðila í Bandaríkjadölum (USD 20.000.000), segir varnaraðili að hún sé vegna eftirstöðva láns til varnaraðila, sem greitt hafi verið út í tveimur hlutum, USD 14.000.000 15. ágúst 2008 og USD 6.000.000 3. september 2008. Lánsviðskiptin hafi komið til vegna fjármögnunar til XL Leisure Group, en samkomulag hafi verið um að varnaraðili lánaði umræddu félagi þessa fjármuni, gegn því að sóknaraðili fjármagnaði lánveitinguna.
Um kröfu sóknaraðila í Kanadadollurum (21.100.240 CAD) og hluta af kröfu hans í Bandaríkjadölum (USD 23.280.000) segir varnaraðili að þær eigi rætur að rekja til samnings sem aðilar hafi gert vegna fjárfestingarverkefnisins „Project Milan“. Hafi varnaraðili verið fenginn að því verkefni að frumkvæði sóknaraðila og samkomulag orðið um að varnaraðili lánaði til þess verkefnis. Á móti hafi sóknaraðili skuldbundið sig til að fjármagna þá lánveitingu (e. back to back). Samkvæmt samningnum hafi sóknaraðila borið að lána í Kanadadollurum til 12 mánaða í senn, en þó með skuldbindingu um framlengingu í samræmi við stöðu fjárfestingarverkefnisins. Þótt skuldbinding sóknaraðila hafi verið um lán í Kanadadollurum, hafi einnig verið lánað í Bandaríkjadölum. Fjárhæðirnar hafi verið greiddar til Straums 28. febrúar 2007.
Þá segir varnaraðili að krafa sóknaraðila í breskum pundum (45.081.123 GBP) eigi sér stoð í lánssamningi, sem undirritaður hafi verið 1. júní 2008, en sá samningur hafi verið framlenging eldri samnings um sama efni. Grundvöllur þeirrar lántöku varnaraðila hafi verið samkomulag milli málsaðila um að varnaraðili tæki yfir lán sóknaraðila til Hansa ehf. og hafi sóknaraðili skuldbundið sig til að lána sömu fjárhæð til varnaraðila. Af skilmálum lánssamningsins og tildrögum hans þykir varnaraðila ljóst að ekki sé um innlán að ræða.
Varnaraðili mótmælir sem rangri þeirri staðhæfingu sóknaraðila að skilmálar varnaraðila, sem fram komi í fylgiskjali með bréfi frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta 24. október 2008 séu sambærilegir þeim sem notast var við í viðskiptum málsaðila. Í því sambandi vekur varnaraðili athygli á að þeir skilmálar, sem til er vísað í bréfi tryggingarsjóðsins, innihaldi staðfestingu varnaraðila á að um innlán sé að ræða. Skilmálarnir séu gefnir út af varnaraðila og séu til staðfestingar á samningi um innlánsviðskipti, sem komust á í gegnum síma. Engin slík staðfesting hafi hins vegar verið gefin út af varnaraðila vegna viðskipta við sóknaraðila. Í grundvallaratriðum hafi viðskipti málsaðila einnig verið frábrugðin þeim viðskiptum sem tekin hafi verið til skoðunar af tryggingarsjóðnum.
Auk ofanritaðs leggur varnaraðili á það áherslu að aðilar hafi gert með sér samning 3. mars 2009 um uppgjör skuldbindinga milli félaganna („Agreement on Settlement of Exposure“). Vegna greiðsluþrots varnaraðila 9. mars 2009 hafi þó ekki reynst unnt að efna þann samning. Varnaraðili vekur hins vegar athygli á því að hvorki í samningnum né í samningaviðræðum milli aðila hafi því nokkru sinni verið hreyft af hálfu sóknaraðila að hann teldi sig eiga innlánskröfu á hendur varnaraðila. Í viðauka I við samninginn sé þvert á móti staðfest að um kröfur sé að ræða vegna fjármögnunar annarra undirliggjandi viðskipta (e. back to back). Í uppgjörinu sé hins vegar staðfest að eftirstöðvar kröfu sóknaraðila verði að hluta til breytt í innlán til tveggja ára. Telur varnaraðili að slíkrar umbreytingar kröfu sóknaraðila hefði ekki verið þörf, ef innlánskröfur hefðu þegar verið fyrir hendi.
Af framanrituðu telur varnaraðili ljóst að í öllum tilvikum hafi verið um lánsviðskipti að ræða milli tveggja fjármálafyrirtækja, sem í flestum tilvikum hafi auk þess átt rætur að rekja til annarra undirliggjandi viðskipta sem varnaraðili hafi verið fenginn til, að jafnaði að frumkvæði sóknaraðila. Í engu þessara tilvika hafi sóknaraðili lagt inn fjármuni á innlánsreikning í því skyni að ávaxta þá. Í engu þessara tilvika hafi varnaraðili heldur gefið út skilmála eða staðfestingu þess að innlán hefði verið móttekið. Telur varnaraðili að þeir einblöðungar sem sóknaraðili hafi sjálfur gefið út og lagt fram í málinu, geti enga þýðingu haft við mat á því hvort um innlán sé að ræða. Af þessu leiði að krafa sóknaraðila teljist ekki til innstæðu eða innláns í skilningi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eða laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta. Krafa sóknaraðila sé almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Krafa varnaraðila í máli þessu byggist einnig á því að jafnvel þótt sóknaraðili teldist eiga innstæðu hjá varnaraðila, þá njóti hún ekki forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, um fjármálafyrirtæki sé mælt fyrir um að kröfur um innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, skuli teljast til krafna sem njóti rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti og fl. Sóknaraðili telji að skilja beri umrædda tilvísun til laga nr. 98/1999 svo að allar innstæður í skilningi 3. mgr. 9. gr. laganna njóti forgangs, óháð því hvort þær hafi verið undanskildar tryggingu samkvæmt 1., sbr. 6. mgr. sömu greinar. Kveðst varnaraðili ekki fallast á þennan skilning sóknaraðila, og byggist sú afstaða einkum á túlkun hans á hugtakinu innstæðu samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Skal það nú rakið frekar.
Varnaraðili bendir á að markmið með lögum nr. 98/1999 sé að veita innstæðueigendum tiltekna lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum fjármálafyrirtækja. Í lögunum sé mælt fyrir um aðild fjármálafyrirtækja að sjóðnum og skyldu þeirra til greiðslu tiltekins hlutfalls af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi fyrirtæki á hverjum tíma. Uppfylli aðildarfyrirtæki ekki þær skyldur sínar geti það leitt til sviptingar starfsleyfis. Í 9. gr. laganna sé kveðið á um greiðslur úr sjóðnum ef aðildarfyrirtæki er ekki fært um að inna af hendi greiðslu á innstæðu. Í 3. mgr. 9. gr. sé að finna nánari lýsingu á því hvað átt sé við með innstæðu í skilningi 1. mgr. sömu greinar, en í 6. mgr. komi fram að innstæður í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður- og dótturfyrirtækja þeirra, skuli undanskildar tryggingu skv. 1. mgr.
Í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 er vísað til innstæðna samkvæmt lögum nr. 98/1999. Að dómi varnaraðila er þar vísað til laganna í heild, en ekki eingöngu til hugtaksins innstæðu, eins og það er skilgreint í 3. mgr. 9. gr. laganna. Viðfangsefni laga nr. 98/1999 sé, líkt og heiti laganna og markmiðslýsing í 1. gr. þeirra beri með sér, meðferð þeirra greiðslna sem teljist tryggðar samkvæmt lögunum. Í samræmi við það sé í umfjöllun um 9. gr. í frumvarpi til laganna vísað til skilgreiningar á „tryggðum innstæðum“ í skilningi 3. mgr. og „tryggðum verðbréfum“ í skilningi 4. mgr. o.s.frv. Telur varnaraðili að tilvísun til laga nr. 98/1999 verði að skilja svo að þær innstæður sem falla undir lögin, þ.e. tryggðar innstæður, njóti forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þær innstæður sem undanskildar eru tryggingu, sbr. 6. mgr. 9. gr. laganna, njóti hins vegar ekki forgangs. Óumdeilt sé að sóknaraðili var aðildarfyrirtæki í skilningi umrædds ákvæðis. Af þeim sökum telur varnaraðili að krafa sóknaraðila geti ekki notið forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, heldur teljist hún almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga.
Varnaraðili vísar enn fremur til þess að með ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 er vikið frá grundvallarreglu laganna um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Af því leiði að ákvæðið verði ekki skýrt rúmt. Hið sama gildi um skýringu á inntaki 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Heldur varnaraðili því fram að sá skýringarkostur sem sóknaraðili reisir kröfur sínar á leiði til umtalsvert víðtækara inntaks innstæðuhugtaksins í lögum nr. 98/1999 en efni standi til. Að mati varnaraðila er sá skýringarkostur ekki tækur.
Varnaraðili mótmælir sem röngum þeim fullyrðingum sóknaraðila að lán sambærileg hinum umdeildu lánum frá sóknaraðila hafi verið flutt yfir til Íslandsbanka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Telur hann ljóst að engin sambærileg lán hafi verið flutt til Íslandsbanka hf. Loks mótmælir varnaraðili þeirri málsútlistun sóknaraðila að í erindi slitastjórnar til héraðsdóms hafi falist einhvers konar bindandi yfirlýsing um að krafa sóknaraðila teldist innlán. Í erindinu sé gerð grein fyrir því að ágreiningur sé um stöðu kröfunnar í réttindaröð, þ.e. hvort lýst innlánskrafa njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, og fjárhæð kröfunnar sé einnig umdeild. Krafa sóknaraðila samkvæmt umræddum kröfulið sé á því reist að um innlán sé að ræða og í erindi slitastjórnar til héraðsdóms sé lýsing á kröfunni eins og hún er fram sett af sóknaraðila. Í umræddri tilvísun felist ekki afstaða slitastjórnar til eðlis kröfunnar, enda sé tilgangur erindisins til héraðsdóms meðal annars sá að fá skorið úr þeim ágreiningi. Verði því að virða þessa tilburði sóknaraðila að vettugi. Þá liggi fyrir að málsgrundvöllur aðila sé lagður í greinargerðum til dómsins en ekki í erindi slitastjórnar til héraðsdóms.
Í greinargerð sinni skorar varnaraðili á sóknaraðila að upplýsa hvernig hin umdeildu lán voru færð til bókar hjá sóknaraðila, hverjir tekið hafi ákvörðun um þær lánveitingar sem hér er deilt um, og hvaða stöðu þeir hafi gegnt innan bankans. Hafi umræddar ákvarðanir verið til umfjöllunar í nefndum innan bankans óskar hann jafnframt staðfestingar á því hvaða nefndir hafi átt í hlut.
Munnleg sönnunarfærsla fyrir dómi
Við aðalmeðferð gáfu skýrslu fyrir dóminum vitnin Ómar Örn Hannesson og Magnús Ingi Einarsson, báðir starfsmenn Straums - Burðaráss fjárfestingabanka hf.
Ómar Örn Hannesson var spurður um skjöl, sem fylgdu með kröfulýsingu sóknaraðila, gefin út af Landsbanka Íslands hf. til Straums - Burðaráss fjárfestingabanka hf. 29. september, 1. október, 2. október og 6. október 2008, og undirrituð af honum fyrir hönd Straums. Skjölin bera yfirskriftina „Money Market Loan / Deposit Transaction“. Sagði hann að skjölin væru staðfesting frá Landsbanka Íslands hf. um lán til Straums, og kæmi þar fram upphæð lánsins dagsetning þess og skilmálar. Slík staðfesting hefði bæði verið gefin út vegna nýs láns og framlengingar á eldra láni og hefði Straumi verið send skjölin til undirritunar. Skjölin væru hins vegar ekki staðfesting á innláni til Straums. Straumur hefði aftur á móti ávallt gefið út sérstaka staðfestingu þegar um innlán væri að ræða, og væri slíka staðfestingu að finna sem fylgiskjal með bréfi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, sem væri meðal gagna málsins. Undir vitnið voru einnig borin skjöl með áletruninni „IT2 Loan Blance“, sem sögð eru yfirlit úr fjárstýringarkerfi Straums. Sagði vitnið að þar mætti annars vegar sjá lánveitingar Landsbanka Íslands hf., auðkenndar sem „Short Term Loan“ (SLT). Hins vegar væri þar yfirlit yfir innlán ónafngreindra aðila, og væru þau auðkennd sem „Short Term Deposit“ (SDT).
Magnús Ingi Einarsson kvaðst þekkja alla þá samninga sem stæðu að baki fjárkröfu sóknaraðila í máli þessu. Gerði hann grein fyrir þeim og hvernig til þeirra hefði verið stofnað. Sagði hann að samningarnir fælu í sér lánveitingar til Straums, enda væru slíkir samningar ekki gerðir ef um innlán væri að ræða.
Vitnið var að því spurt hvort það kannaðist við kröfu sóknaraðila vegna 20.000.000 Bandaríkjadala, sem enginn samningur virtist hafa verið gerður um. Kvaðst vitnið vita að sú krafa væri vegna láns Straums til XL Leisure Group, sem afgreitt hefði verið í tveimur hlutum, annars vegar með 14.000.000 Bandaríkjadölum, en hins vegar með 6.000.0000 Bandaríkjadölum. Landsbanki Íslands hf. hefði lánað Straumi fjárhæðina, en Straumur síðan lánað félaginu sömu fjárhæð. Fram kom einnig í máli vitnisins að aðilar málsins hefðu gert með sér samkomulag 3. mars 2009 um heildaruppgjör á skuldbindingum hvors hjá hinum, þ.á m. um uppgjör á þeim kröfum sem hér væru til umfjöllunar. Hefði hann sjálfur átt þátt í að semja það skjal og hefði aldrei verið rætt um að kröfur sóknaraðila nytu forgangs eða yrðu flokkaðar sem innlán hjá Straumi. Spurður um merkinguna „back to back“, sem skeytt væri við nokkrar kröfur Landsbanka Íslands hf. á hendur Straumi í sama skjali, sagði vitnið að það merkti að fjármagnið væri fengið að láni frá Landsbanka Íslands hf. í því skyni að lána það áfram til þriðja aðila.
Í svari vitnisins við spurningu sóknaraðila um skilmála samkvæmt samkomulagi aðila frá 30. september 2008, þar sem fjallað er um nánar tilteknar lánalínur (credit facilities) sóknaraðila til varnaraðila, kom fram að vitnið hefði ætíð litið svo á að í innláni fælist ráðstöfun aðila á lausu fé, án þess að það fé tengdist einhverju öðru. Í þessu tilviki hefði Landsbankinn augljóslega alltaf verið að lána Straumi peninga vegna þessa samnings. Borið var undir vitnið fylgiskjal með bréfi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda frá 24. október 2008 og sagði vitnið að þar væri um að ræða staðfestingu á innláni til Straums.
Niðurstaða
Í greinargerðum beggja aðila til dómsins er skorað á gagnaðila að leggja fram tiltekin gögn. Við upphaf aðalmeðferðar lagði sóknaraðili fram upplýsingar um hverjir tekið höfðu ákvarðanir um þær kröfur sem hér er deilt um og á hvaða vettvangi fjallað hefði verið um þær innan bankans, svo og hvernig þær skuldbindingar hefðu þar verið færðar til bókar. Við sama tækifæri lagði varnaraðili fram kröfulýsingu frá Saga - Capital fjárfestingabanka hf. í bú varnaraðila, ásamt fylgiskjölum. Einnig lagði varnaraðili fram bókun, þar sem fram kemur að hann telji sér óheimilt, vegna bankaleyndar, að verða við áskorun sóknaraðila um að leggja fram gögn varðandi innstæður viðskiptamanna sem fluttar voru til Íslandsbanka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 17. mars 2009, en óskaði eftir að leggja þau gögn fyrir dómara í trúnaði samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Dómari ákvað að skjölin yrðu lögð fyrir hann í trúnaði og hreyfði sóknaraðili ekki athugasemdum við þeirri ákvörðun. Skjöl þessi eru listar sem sýna innlán allra viðskiptamanna hjá varnaraðila, sem flutt voru til Íslandsbanka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 17. mars 2009, en sýna þó ekki hvernig stofnað var til innlánanna.
Sóknaraðili byggir m.a. á því að varnaraðili hafi í raun viðurkennt kröfu hans sem innlán, þótt deilt sé um hvort þau njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.. Í því sambandi vísar hann til orðalags slitastjórnar varnaraðila í bréfi til héraðsdóms 2. september 2009. Um leið telur hann þá málsástæðu varnaraðila, að peningamarkaðsinnlán séu ekki innlán, of seint fram komna, enda hafi varnaraðili fyrst haldið því fram á fundi með sóknaraðila eftir að ágreiningsmáli þessu hafi verið vísað til dómsmeðferðar. Hefði sú málsástæða átt að koma fram í bréfi slitastjórnar varnaraðila til héraðsdóms. Varnaraðili hafnar því hins vegar að í bréfi slitastjórnar til dómsins hafi falist bindandi yfirlýsing um að krafa sóknaraðila teldist innlán, enda sé málsgrundvöllur aðila lagður í greinargerðum til dómsins.
Í kröfulýsingu sóknaraðila til slitastjórnar varnaraðila frá 17. júlí 2009 er krafa þessi sögð „vegna peningamarks innlána“, og nánar lýst þannig: „Kröfur þessar byggjast á peningamarkaðs innlánum sem Landsbanki Íslands hf. á hjá Straumi - Burðarási Fjárfestingabanka hf. Fjármunir þessir voru lagðir inn á tímabilinu 29. september 2008 til 6. október 2009. Innlán þessi voru með gjalddaga og báru vexti sbr. meðfylgjandi staðfestingar á viðskiptum“. Afstaða slitastjórnar til kröfunnar kemur fram í bréfi til sóknaraðila 30. júlí sama ár, en þar segir m.a.: „Slitastjórn lýsir í kröfuskrá þeirri afstöðu til kröfunnar að kröfum um forgang á grundvelli 112. gr. gjaldþrotalaga er hafnað“. Í áðurnefndu bréfi slitastjórnar til héraðsdóms segir síðan m.a.: „Meðal þess sem deilt er um er hvort innlán kröfuhafans hjá Straumi njóti forgangs skv. 112. gr. gjaldþrotalaga, en slitastjórn hefur hafnað því“.
Í 1. mgr. 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 segir að í kröfu til héraðsdóms um úrlausn ágreinings skuli m.a. koma fram um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi. Í XXIV. kafla sömu laga er mælt fyrir um málsmeðferð fyrir héraðsdómi, telji héraðsdómari, að lokinni athugun á kröfunni, skilyrði til þess að farið verði með ágreiningsmálið eftir ákvæðum þess kafla. Þar eru einnig fyrirmæli um hvað skuli koma fram í tilkynningu dómsins til málsaðila, sbr. 1. mgr. 174. gr., og um efni greinargerða sóknar- og varnaraðila, þ.á m. um kröfur þeirra, sbr. 177. gr. Samkvæmt síðastgreindum ákvæðum þykir ljóst að greinargerðum aðila er ætlað að leggja grundvöll að sakarefninu, en ekki krafa slitastjórnar til héraðsdóms um úrlausn ágreiningsins. Ekki verður heldur séð að orðalag og afmörkun slitastjórnar varnaraðila á ágreiningi aðila hafi á neinn hátt hamlað málatilbúnaði sóknaraðila í máli þessu, enda lítur deila aðila ekki einasta að því hvort krafa sóknaraðili njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, heldur einnig að inntaki orðsins „peningamarkaðsinnlán“. Verður því hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili hafi í erindi slitastjórnar til dómsins viðurkennt kröfu sóknaraðila sem innlán, og að varnaraðila hafi eftir það verið óheimilt að byggja mál sitt á því að ekki hafi verið um innlán að ræða.
Fram er komið að krafa sóknaraðila í máli þessu er sett fram í fjórum liðum í mismunandi gjaldmiðlum. Kröfunni til stuðnings vísar sóknaraðili til staðfestingar á viðskiptum aðila og byggir á því að um peningamarkaðsinnlán sé að ræða, og að fjármunirnir hafi verið lagðir inn til varnaraðila á tímabilinu frá 29. september til 6. október 2008. Hins vegar hafnar hann því að framlögð skjöl hans um staðfestingu á viðskiptum aðila tengist þeim samningum sem varnaraðili telur að liggi að baki viðskiptunum, og telur að þeir samningar hafi hér ekki þýðingu þar sem varnaraðili hafi ekki sýnt fram á slík tengsl. Því er nauðsynlegt að gera hér nánari grein fyrir hverjum lið í kröfu sóknaraðila.
I. Fyrsti liður kröfunnar er í íslenskum krónum, alls að fjárhæð 31.108.442.435, að meðtöldum vöxtum og dráttarvöxtum. Kröfunni til stuðnings vísar sóknaraðili til áðurnefndra skjala um staðfestingu á viðskiptum aðila. Skjölin eru á ensku, gefin út af Landsbanka Íslands hf. til „Straumur - Burðarás Fjárfesting (Counterpart)“, eins og þar segir. Öll eru þau samhljóða, að öðru leyti en því að útgáfudagur er þar mismunandi, 1., 2. og 6. október 2008. Fjárhæðir eru einnig mismunandi, 1.000.000.000 króna, 19.000.000.000 króna og 7.200.000.000 króna, svo og vextir og gjalddagi. Efni skjalanna er „Money Market Loan / Deposit Transaction“, en í 2. tl. í texta skjalanna segir: „The Transaction to which this Confirmation relates is Money Market Deposit “. Lánveitandi (Lender) er Landsbanki Íslands hf., en látaki (Borrower) er Straumur Burðarás Fjárfesting. Í skjölunum er mælt fyrir um að Landsbankinn muni millifæra fjárhæðina inn á tilgreindan reikning lántaka. Undir skjölin ritar starfsmaður sóknaraðila, svo og tveir starfsmenn varnaraðila. Þó er staðfesting vegna 7.200.000.000 króna viðskipta aðila óundirrituð af hálfu varnaraðila.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að framlögð skjöl sóknaraðila eigi sér skýringar í lánssamningum aðila, og bendir í því sambandi á tvo samninga, annars vegar að fjárhæð 7.200.000.000 krónur, en hins vegar að fjárhæð 380.000.000 evrur. Fyrri samningurinn nefnist „Viðskiptasamningur um reikningslánalínu milli Straums - Burðaráss fjárfestingarbanka hf., sem lántaka, og Landsbanka Íslands hf., sem banka“, dagsettur 30. janúar 2007. Þar segir að bankinn skuli hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu, allt að fjárhæð 7.200.000.000 krónur, og að lántaka sé innan þeirra marka heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum sem bankinn eigi viðskipti með. Fram kemur að hver lánshluti sem lántaki tekur innan lánsheimildar skuli teljast sjálfstætt lán og að hámarkslánstími hvers lánshluta skuli ekki vera lengri en 364 dagar. Í 4. gr. samningsins er mælt fyrir um form á lánsbeiðni frá lántaka og hvað skuli þar koma fram, en einnig um afgreiðslu bankans á slíkri beiðni. Síðan segir orðrétt í grein 4.3.: „Þegar bankinn hefur fengið lánsbeiðni í hendur skal forsvarsmaður banka samdægurs senda lántaka staðfestingu á lántökunni þar sem framangreind atriði koma fram. Lántaki skal gera athugasemdir við staðfestingu banka tafarlaust. Hafi hann engar athugasemdir skal hann undirrita staðfestingu bankans og endursenda með símbréfi og jafnframt senda frumrit í pósti“. Þá segir í samningnum að heimilt sé að framlengja einstaka lánshluta með sama hætti og gildir um lánsbeiðnir. Auk þessa er í samningnum ákvæði um vexti af láninu, endurgreiðslu þess, vanefndatilvik o.fl. Af gögnum málsins má sjá að Straumur óskaði tvisvar sinnum eftir því að samningurinn yrði framlengdur, í fyrra skiptið til 28. janúar 2008, en í síðara skiptið til 27. janúar 2009. Fyrir liggur einnig bréf frá Straumi til skilanefndar sóknaraðila 27. janúar 2009, þar sem fram kemur að þann dag sé á gjalddaga skuld Straums samkvæmt láni að höfuðstólsfjárhæð 7.200.000.000 krónur, og hafi Straumur ákveðið að endurgreiða lánið með skuldajöfnuði við kröfu Straums á hendur Landsbanka Íslands hf. Sóknaraðili lítur svo á að beiðnir varnaraðila um framlengingu samningsins hafi verið settar fram í því skyni að halda lánalínu opinni. Hins vegar hafi lánalínan ekki verið nýtt fyrr en 6. október 2008. Þá mótmælir hann því að bréf Straums frá 27. janúar 2009, þar sem fram kemur að þann dag sé gjalddagi á skuld Straums við sóknaraðila, hafi hér þýðingu, enda sé bréfið ekki stutt gögnum og líklega sent vegna misskilnings bréfritara.
Síðari samningurinn, sem dagsettur er 30. september 2008, er á ensku og ber yfirskriftina „Share Purchase Agreement between Landsbanki Íslands hf. and Straumur - Burðaras Investment Bank hf“. Samkvæmt honum skuldbindur Straumur sig til að kaupa hlut Landsbanka Íslands hf. og Landsbanka Holding Europe S.A. í nokkrum erlendum félögum í eigu viðsemjenda. Kaupverðið er ákveðið 380.000.000 evrur, sem eiga að greiðast með nánar tilgreindum hætti, m.a. með staðgreiðslu á 50.000.000 evrum. Sama dag gerðu málsaðilar með sér samkomulag, þar sem sóknaraðili samþykkir að veita varnaraðila þrjár lánalínur, 250.000.000 evrur, 80.000.000 evrur og 50.000.000 evrur, eða samtals að fjárhæð 380.000.000 evrur. Í skilmálum fyrir fyrstgreindu lánalínunni, að fjárhæð 250.000.000 evrur, segir að varnaraðila sé heimilt að draga á lánalínuna í íslenskum krónum. Þá er þar tekið fram að síðastgreinda lánalínan, 50.000.000 evrur, sé ætluð til að fjármagna kaup varnaraðila á þeim erlendu fyrirtækjum sem að ofan greinir. Á grundvelli þessa samkomulags aðila heldur varnaraðili því fram að hann hafi nýtt umræddar lánalínur, annars vegar fyrir 19.000.000.000 króna, en hins vegar fyrir 1.000.000.000 króna. Telur varnaraðili að framangreindir samningar taki af allan vafa um að tilgangur sóknaraðila hafi ekki verið að stofna til innláns hjá varnaraðila.
II. Annar liðurinn í kröfu sóknaraðila er að höfuðstólsfjárhæð 45.226.444 Bandaríkjadalir, en 6.146.506.443 íslenskar krónur, að meðtöldum vöxtum og dráttarvöxtum. Kröfunni til stuðnings vísar sóknaraðili einnig til framlagðra skjala um staðfestingu á viðskiptum aðila. Skjölin eru annars vegar vegna greiðslu að fjárhæð 20.000.000 Bandaríkjadala, en hins vegar að fjárhæð 25.000.000 Bandaríkjadala. Eru þau að hluta til á ensku, en einnig á íslensku. Síðasta staðfestingin vegna fyrrnefndu viðskiptanna er 6. október 2008, en 1. október 2008 vegna síðarnefndu viðskiptanna. Í íslensku útgáfunni segir að efni skjalsins sé „Staðfesting á peningamarkaðsláni“. Straumur er þar bæði nefndur viðskiptamaður og lántaki, en Landsbanki Íslands hf. lánveitandi. Í 2. tl. íslenska útgáfunnar segir síðan: „Landsbankinn sér til þess að greiðslur vegna þessa peningamarkaðsláns fari fram gegnum reikning viðskiptamanns nr. ...“.
Að áliti varnaraðila á krafa þessi annars vegar rætur að rekja til eftirstöðva láns til varnaraðila, sem greitt hafi verið út í tveimur hlutum, 14.000.000 Bandaríkjadölum 15. ágúst 2008 og 6.000.000 Bandaríkjadölum 3. september 2008. Lánsviðskiptin hafi komið til vegna fjármögnunar til XL Leisure Group, en samkomulag hafi orðið um að varnaraðili lánaði umræddu félagi þessa fjármuni, gegn því að sóknaraðili fjármagnaði lánveitinguna. Hins vegar sé hluti kröfunnar (USD 23.280.000) vegna samnings sem aðilar hafi gert með sér um fjárfestingaverkefnið „Project Milan“. Hafi varnaraðili verið fenginn að því verkefni að frumkvæði sóknaraðila, en samkomulag orðið um að varnaraðaðili lánaði til þess verkefnis gegn því að sóknaraðili fjármagnaði lánveitinguna. Fjárveitinguna nefnir varnaraðili „back to back“. Hafi fjárhæðin verið greidd Straumi 28. febrúar 2007, en samningurinn framlengdur reglulega, síðast með staðfestingu sóknaraðila 1. október 2008. Byggir varnaraðili á því að ódagsett samkomulag aðila, sem er meðal gagna málsins, en óundirritað af hálfu varnaraðila, styðji þá staðhæfingu hans að um lán sé að ræða af hálfu sóknaraðila til varnaraðila,í því skyni að fjármagna umrætt fjárfestingaverkefni. Einnig telur hann að framlagt tölvubréf frá forstjóra varnaraðila til bankastjóra sóknaraðila frá 10. nóvember 2008 veiti fullnægjandi skýringar á þeim lánum sem sóknaraðili hafi veitt varnaraðila í Bandaríkjadölum samkvæmt ofanrituðu.
III. Þriðji kröfuliður sóknaraðila, að höfuðstólsfjárhæð 21.100.240 Kanadadollarar, en 2.309.514.559 íslenskar krónur, að meðtöldum vöxtum og dráttarvöxtum, byggist einnig á staðfestingu sóknaraðila á viðskiptum aðila. Fyrsta staðfestingin er á íslensku og gefin út 28. febrúar 2007, þá vegna peningamarkaðsláns sóknaraðila til varnaraðila að fjárhæð 20.000.000 Kanadadollarar. Síðasta staðfestingin er á ensku, gefin út 1. október 2008. Fjárhæðin er þar tilgreind 21.000.000 Kanadadollarar.
Varnaraðili heldur því fram að krafa þessi sé vegna lánveitinga sóknaraðila til fjárfestingaverkefnisins „Project Milan“, og styður það sömu gögnum og fjallað er um í næsta lið hér að ofan.
IV. Síðasti kröfuliðurinn er að höfuðstólsfjárhæð 45.081.123 bresk pund, en 8.965.843.586 íslenskar krónur, að meðtöldum vöxtum og dráttarvöxtum. Eins og fyrr vísar sóknaraðili til framlagðra skjala um staðfestingu á viðskiptum aðila kröfunni til stuðnings. Fyrsta staðfestingin er á íslensku, gefin út 21. maí 2007, og er staðfesting á peningamarkaðsláni sóknaraðila til varnaraðila að fjárhæð 45.000.000 bresk pund. Síðasta staðfestingin er á ensku, gefin út 29. september 2008, og er fjárhæðin þar hins sama, 45.000.000 bresk pund.
Varnaraðili byggir á því að krafa þessi eigi sér stoð í lánssamning milli aðila frá 1. júní 2008, og sé samningurinn framlenging á eldri samningi sama efnis. Í samningnum, sem er meðal gagna málsins, kemur fram að bankinn skuli hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu, allt að fjárhæð 45.000.000 bresk pund. Þá segir þar að hver lánshluti sem lántaki tekur innan lánsheimildar skuli teljast sjálfstætt lán og að hámarkslánstími hvers lánshluta skuli ekki vera lengri en 7 dagar. Að öðru leyti er samningur þessi efnislega samhljóða þeim viðskiptasamningi sem greint var frá hér að framan við umfjöllun um fyrsta lið í kröfu sóknaraðila, þ.á m. um form á lánsbeiðni og staðfestingu bankans á lántöku varnaraðila. Fullyrðir varnaraðili að tilefni lántökunnar hafi verið samkomulag aðila um að varnaraðili tæki yfir lán sóknaraðila til Hansa ehf. og hafi sóknaraðili skuldbundið sig til að lána sömu fjárhæð til varnaraðila. Varnaraðili byggir á því að þessi samningur, sem og aðrir þeir samningar sem reifaðir hafa verið hér að framan, bendi ljóslega til þess að um lánsviðskipti hafi verið að ræða milli aðila og geti krafa sóknaraðila því ekki talist innlán.
Að áliti dómsins þykir enginn vafi leika á því að staðfesting sóknaraðila frá 6. október 2008, vegna viðskipta aðila að fjárhæð 7.200.000.000 krónur, sbr. liður I. hér að ofan, stendur í beinum tengslum við viðskiptasamning aðila frá 30. janúar 2007 um reikningslánalínu til handa varnaraðila, enda er í samningnum berum orðum mælt fyrir um slíka staðfestingu af hálfu sóknaraðila. Samningurinn er augljóslega um lánsviðskipti aðila og breytir orðalag staðfestingar sóknaraðila engu um það álit dómsins. Enga þýðingu hefur heldur þótt varnaraðili hafi fyrst nýtt sér lánalínuna 6. október 2008, eins og sóknaraðili heldur fram. Fyrir liggur hins vegar bréf frá Straumi til skilanefndar sóknaraðila 27. janúar 2009, þar sem fram kemur að þann dag sé á gjalddaga skuld Straums samkvæmt láni að höfuðstólsfjárhæð 7.200.000.000 krónur, og hafi Straumur ákveðið að endurgreiða lánið með skuldajöfnuði við kröfu Straums á hendur Landsbanka Íslands hf. Tekur bréfið af allan vafa um að varnaraðili leit á umrædda fjárhæð sem skuld, enda má telja víst að ekki hefði verið lýst yfir skuldajöfnuði hefði hann talið að um innlán væri að ræða. Þykir því ótrúverðug sú skýring sóknaraðila að líklega hafi bréf þetta verið sent vegna misskilnings varnaraðila. Með ofanritað í huga verður því hafnað þeim rökstuðningi sóknaraðila að viðskipti þessi falli undir innlán til varnaraðila. Hinu sama gegnir um staðfestingu sóknaraðila frá 29. september 2008, svo og eldri staðfestingar sama efnis, vegna viðskipta aðila að fjárhæð 45.000.000 bresk pund, sbr. liður IV. hér að ofan. Þykir augljóst að sú staðfesting standi í beinum tengslum við lánssamning aðila frá 1. júní 2008, þar samið var um að sóknaraðili skyldi hafa til reiðu reikningslánalínu fyrir varnaraðila fyrir þeirri fjárhæð.
Þótt erfitt sé að slá því föstu að aðrar staðfestingar sóknaraðila eigi rætur að rekja til undirliggjandi samninga aðila, eins og varnaraðili heldur fram, þykja engu að síður ýmis gögn málsins benda til þess að svo sé. Þannig má sjá að sóknaraðili gaf út tvær staðfestingar, annars vegar 1. október 2008 vegna millifærslu á 1.000.000.000 króna inn á reikning varnaraðila, en hins vegar 2. október sama ár vegna millifærslu á 19.000.000.000 króna inn á sama reikning. Samningur aðila og samkomulag um lánalínur frá sóknaraðila, sem fjallað er um í I. lið hér að framan, var gerður 30. september sama ár, og þykir það benda til þess að varnaraðili hafi strax í kjölfarið dregið á lánalínurnar sem nemur ofangreindum fjárhæðum. Önnur gögn þykja einnig sterklega benda til þess að millifærslur sóknaraðila samkvæmt margnefndum staðfestingum hans standi í beinum tengslum við samninga aðila um lánsviðskipti. Skal í því sambandi nefnt tölvubréf forstjóra varnaraðila til bankastjóra sóknaraðila frá 10. nóvember 2008, en þar gerir bréfritari grein fyrir öllum þeim samningum sem hér hafa verið nefndir. Í öllum tilvikum er þar tekið fram að sóknaraðili hafi skuldbundið sig til að tryggja varnaraðila fjármagn í tengslum við þá samninga, ýmist með lánveitingu eða „back-to-back“, eins og þar er orðað. Sömu samningar eru tilgreindir í viðauka I í heildaruppgjöri skuldbindinga aðila, sem þeir gerðu með sér 3. mars 2009, en þar eru taldar upp allar kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila. Í uppgjörinu er þess hvergi getið að sóknaraðili telji sig eiga innlánskröfu á hendur varnaraðila, en bæði uppgjörið og viðaukar hans eru undirritaðir af báðum aðilum. Loks má hér vísa til framburðar vitnisins Magnúsar Inga Einarssonar fyrir dómi, en fram kom í máli hans að hann þekkti alla þá samninga sem stæðu að baki fjárkröfu sóknaraðila í máli þessu, og hefðu þeir falið í sér lánveitingu til varnaraðila, enda væru slíkir samningar ekki gerðir ef um innlán væri að ræða.
Eins og margoft hefur komið fram liggja fyrir í máli þessu fjöldi staðfestinga um millifærslu fjármuna frá sóknaraðila til varnaraðila, hinar síðustu gefnar út á tímabilinu frá 29. september 2008 til 6. október sama ár. Byggir sóknaraðili á því að skjöl þessi feli í sér staðfestingu á því að um hafi verið ræða innlán sóknaraðili til varnaraðila, svokölluð peningamarkaðsinnlán. Áður hefur verið gerð grein fyrir efni þessara skjala, sem bera yfirskriftina „Money Market Loan / Deposit Transaction“. Eldri skjöl um sömu viðskipti aðila eru mörg á íslensku og bera heitið „Peningamarkaðslán“. Verður ekki annað séð en að eðli viðskiptanna sé hið sama, hvort sem litið er til ensku eða íslensku útgáfunnar. Í skjalinu felst staðfesting frá sóknaraðila, sem nefndur er lánveitandi, eða „Lender“ á ensku, til varnaraðila, sem nefndur er viðtakandi og lántaki, eða „Counterpart“ og „Borrower“ á ensku, um að sóknaraðili muni annast greiðslu á tiltekinni fjárhæð inn á tilgreindan reikning varnaraðili. Bæði fjárhæð höfuðstóls og vaxta er þar tilgreind, ásamt dagsetningu viðskiptanna, vaxtaprósentu og gjalddaga. Loks er skjalið undirritað af starfsmanni sóknaraðila og samþykkt og staðfest af tveimur starfmönnum varnaraðila. Annar þeirra starfsmanna, sem undirritaði flest skjalanna fyrir hönd varnaraðila, Ómar Örn Hannesson, sagði fyrir dómi að skjöl þessi væru til staðfestingar láni frá sóknaraðila til varnaraðila, og hafi þau bæði verið gefin út vegna nýs láns og framlengingar á eldra láni. Hefðu skjölin verið send varnaraðila til undirritunar og endursend sóknaraðila að því loknu. Tók hann fram að skjölin væru ekki staðfesting á innláni til varnaraðila, enda hefði varnaraðili í slíkum tilvikum ávallt gefið út sérstaka staðfestingu til innlánseiganda.
Að áliti dómsins þykir ljóst að umrædd skjöl, sem gefin eru út af sóknaraðila, fela það í sér að sóknaraðili hafi veitt varnaraðila skammtímalán, svokallað peningamarkaðslán, og hafi varnaraðili með undirritun sinni bæði samþykkt upphæð lánsins og skilmála þess. Þykir ekkert benda til þess að um innlán hafi verið að ræða sem sóknaraðili hafi ætlað til ávöxtunar hjá varnaraðila, og er þá sérstaklega til þess horft að varnaraðili gaf aldrei út skilríki til sóknaraðila um að greiðslan væri innlán. Hlýtur það þó að standa varnaraðila nær að gefa slíkt út, fremur en sóknaraðila, enda er varnaraðili í þeim tilvikum vörslumaður og ábyrgðarmaður fjárins og sá sem tekur að sér að annast ávöxtun þess. Meðal gagna málsins er hins vegar staðfesting sem varnaraðili gaf út til ónafngreinds aðila vegna innlánsviðskipta. Skjal þetta fylgdi álitsgerð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til varnaraðila frá 24. október 2008. Er það álit tryggingarsjóðsins að skilmálar staðfestingarinnar feli í sér skilmála vegna innstæðu í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 120/2000. Í umræddu skjali kemur skýrlega fram að um innlán sé að ræða. Er það undirritað af tveimur starfsmönnum varnaraðila, en einnig er þar gert ráð fyrir staðfestingu innlánseiganda. Eins og áður segir er engu slíku til að dreifa vegna krafna sóknaraðila í máli þessu.
Sóknaraðili heldur því fram að við færslu innlána frá varnaraðila til Íslandsbanka hf., í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 17. mars 2009, hafi innlán sömu tegundar og að fullu sambærileg við innlán sóknaraðila, verið flutt yfir í Íslandsbanka hf. Af því tilefni skoraði hann á varnaraðili að leggja fram öll gögn varðandi þær innstæður sem fluttar voru til Íslandsbanka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Varnaraðili varð við áskorun sóknaraðila að því leyti að hann lagði gögnin fyrir dómara í trúnaði, með samþykki sóknaraðila. Gögnin eru listar sem sýna innlán allra viðskiptamanna hjá varnaraðila, sem flutt voru til Íslandsbanka hf., en sýna þó ekki hvernig stofnað var til þeirra innlána. Þar sem sóknaraðili hefur ekki fært fram nein rök fyrir staðhæfingu sinni eða bent á ákveðin innlán, sem hann telur sambærileg við þau viðskipti sem liggja að baki kröfu hans, verður að telja ómögulegt að sannreyna staðhæfingu hans. Þó getur dómari upplýst að á umræddum listum verður ekki séð að innlán fjármálafyrirtækja hafi verið flutt til Íslandsbanka hf. Hins vegar lýsti lögmaður varnaraðila því yfir við munnlegan málflutning að hann teldi víst að í meirihluta tilvika væri um svokölluð peningamarkaðsinnlán að ræða.
Eins og áður greinir varð varnaraðili við áskorun sóknaraðila um að leggja fram kröfulýsingu frá Saga - Capital fjárfestingabanka hf. í bú varnaraðila, ásamt fylgiskjölum. Verður ekki fallist á að sú krafa sé á nokkurn hátt sambærileg við kröfu sóknaraðila í máli þessu.
Samkvæmt öllu framanrituðu er það niðurstaða dómsins að sóknaraðili hafi ekki fært sönnur á að hann hafi lagt umrædda fjármuni, alls 48.530.307.023 krónur, á innlánsreikning hjá varnaraðila til ávöxtunar. Þvert á móti telur dómurinn að fjármunir þessir hafi verið skammtímalán sóknaraðila til varnaraðila og liður í útlánastarfsemi hans. Slík viðskipti flokkast ekki undir innlán og njóta því ekki forgangs í bú varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Verður kröfum sóknaraðila því hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem telst hæfilegur 600.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til umfangs málsins, en einnig þess að úrskurður þessi felur aðeins í sér úrlausn á hluta af þeim ágreiningi sem vísað var til meðferðar dómsins.
Úrskurðinn kvað upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., um að krafa hans, alls að fjárhæð 48.530.307.023 krónur, verði viðurkennd sem forgangskrafa í bú varnaraðila, Straums Burðaráss fjárfestingabanka hf., samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.