Hæstiréttur íslands

Mál nr. 710/2017

Kennarasamband Íslands (Gísli Guðni Hall hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Félagsdómur
  • Frávísun frá Félagsdómi

Reifun

Kærður var úrskurður Félagsdóms þar sem máli K gegn Í var vísað frá dómi. Krafðist K að viðurkennt væri að bókun Kvennaskólans í Reykjavík og K frá júní 2015 væri skuldbindandi. Í úrskurði sínum tók Félagsdómur meðal annars fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefðu ekki komið að gerð bókunarinnar en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga færi ráðherra fyrrnefnds ráðuneytis með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga samkvæmt lögum. Þá kæmi ekki fram í bókuninni að hún væri byggð á kjarasamningnum og ekki væri unnt að líta svo á að aðilar bókunarinnar hefðu upp á sitt eindæmi getað breytt eða aukið við efni kjarasamningsins.Var því talið að framangreind bókun gæti ekki talist vera kjarasamningur eða ígildi kjarasamnings í skilningi 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 og félli því utan lögsögu Félagsdóms að fjalla um skuldbindingargildi bókunarinnar. Hæstiréttur staðfesti úrskurð Félagsdóms með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Félagsdóms 3. nóvember 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. tölulið 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Félagsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kennarasamband Íslands, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2017.

                Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutning um frávísunarkröfu stefnda 26. október sl.

                Úrskurðinn kveða upp Sigurður Gísli Gíslason, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Inga B. Hjaltadóttir og Sveinn Sveinsson.

                Stefnandi er Kennarasamband Íslands, Laufásvegi 81, Reykjavík.

                Stefndi er íslenska ríkið vegna Kvennaskólans í Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að bókun Kvennaskólans í Reykjavík og Kennarasambands Íslands, dagsett 22. júní 2015, sé skuldbindandi.

Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

Dómkröfur stefnda

Af hálfu stefnda eru gerðar þær dómkröfur að málinu verði vísað frá Félagsdómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, samkvæmt mati Félagsdóms.

Málavextir

Stefnandi er stéttarfélag kennara (KÍ) og hefur rétt samkvæmt lögum nr. 94/1986 og 80/1938 til að gera kjarasamninga fyrir félagsmenn sína.  Innan KÍ eru nokkur aðildarfélög, m.a. Félag framhaldsskólakennara (FF).

Kvennaskólinn í Reykjavík er framhaldsskóli rekinn af stefnda, íslenska ríkinu.  Um skólann gilda lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Í 1. gr. laganna segir að nám á framhaldsskólastigi sé skipulagt sem framhald af námi á grunnskólastigi. Það miði að lokaprófi, svo sem framhaldsskólaprófi, starfsréttindaprófi, stúdentsprófi eða öðrum skilgreindum námslokum, sem geti miðast við tiltekin störf og veitt sérstök réttindi þeim tengd. Í IV. kafla laganna eru ákvæði um skipulag náms og námslok. Í 15. gr. segir að öll vinna nemenda í framhaldsskóla skuli metin í stöðluðum námseiningum og skal að baki hverri einingu liggja því sem næst jafnt vinnuframlag nemenda. Eitt námsár, sem mæli alla ársvinnu nemanda með fullnaðarárangri, veitir 60 einingar og er þá miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé að lágmarki 180 dagar frá og með 1. ágúst 2015 (fram að því tímamarki var fjöldinn 175).  Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skal ráðherra setja í aðalnámskrá nánari reglur um mat á námi til eininga og vinnu nemenda í framhaldsskólum. Í 17. gr. segir að til að útskrifast með stúdentspróf frá framhaldsskóla skuli nemandi hafa lokið námi með fullnaðarárangri samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hafi staðfestingu ráðherra.

Í nefndum lögum nr. 92/2008, sbr. 5. gr. breytingarlaga nr. 71/2010, var ákvæði til bráðabirgða nr. I þess efnis að framhaldsskólar hefðu frest allt til 1. ágúst 2015 til að setja sér námsbrautarlýsingar samkvæmt lögunum. Menntamálaráðuneytið setti nýja aðalnámskrá framhaldsskóla á árinu 2011.  Í 8.3 kafla kemur fram að stúdentspróf miði að því að undirbúa nemendur undir háskólanám hérlendis og erlendis. Námstími til stúdentsprófs geti verið breytilegur milli námsbrauta og skóla en framlag nemenda skuli þó aldrei vera minna en 200 einingar (nefndar feiningar). Um er að ræða nýtt einingakerfi, því allt til haustsins 2015 störfuðu framhaldsskólar eftir eldra einingakerfi, þar sem stúdentspróf nam 140 einingum.

Allt til haustsins 2015 kenndu flestallir framhaldsskólar landsins til stúdentsprófs á 4 árum. Kvennaskólinn í Reykjavík hafði á árunum á undan boðið upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs og var litið á það sem tilraunaverkefni. Kveður stefnandi að frá upphafi hafi verið viðurkennt að styttri námstíma fylgdi aukið álag á kennara samanborið við lengri námstíma. Vegna þessa hafi verið gert sérstakt samkomulag um þróunarstarf í skólanum, milli Kvennaskólans í Reykjavík og KÍ, sem gilt hafi frá og með skólaárinu 2009-2010. Í þessu samkomulagi hafi falist viðurkenning á að það fylgdi því aukið álag á kennara að kenna til stúdentsprófs á þremur árum samanborið við fjögurra ára nám.

Í málinu hefur verið lagður fram kjarasamningur KÍ og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs, 4. apríl 2014, þar sem samið var um kjör félagsmanna Félags framhaldsskólakennara.  Gildistími kjarasamningsins er frá 1. mars 2014 til 31. október 2016. Í aðfararorðum hans segir að honum sé ætlað að skapa innan framhaldsskóla þau starfsskilyrði sem nauðsynleg eru til að markmið nýrra laga um skólastarf nái fram að ganga. Enn fremur sé leitast við að skapa nýja og bætta umgjörð um kennarastarfið og færa laun kennara þannig til betri vegar um leið og skólum verði gert auðveldara að rækja hlutverk sitt. Með samningnum sé leitast við að gera þetta fyrst og fremst með því að aðlaga kjarasamninginn að breyttum viðmiðum laga um framhaldsskóla um námseiningar og færa útfærslur faglegs starfs skóla og kennara frá samningsaðilum til fagfólks í skólamálum. Sé það gert með áætlun um samningu nýs vinnumats og innleiðingu þess sem fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins og kennara muni leiða í samstarfi sín á milli, með þátttöku fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Sé þess vænst að með þessu batni hagur bæði skóla og kennara, auk þess sem skólaþróun verði auðveldari innan skólanna til að mæta margvíslegum þörfum nemenda. Aðfararorðunum lýkur með þeim orðum að samningsaðilar telji að með samningnum aukist möguleikar skóla til að haga starfi sínu með breytilegum hætti. Í 7. grein samningsins eru ákvæði um vinnumat kennara. Þar segir að mat á vinnu kennara vegna námsáfanga sé byggt á áfangalýsingu viðkomandi áfanga og skuli unnið af kennurum og skólastjórnendum. Vinnumat skuli byggja á hlutlægum viðmiðum og málefnalegum tilefnum. Eru síðan taldir upp nokkrir helstu þættir, sem skuli metnir eins og við eigi hverju sinni, en tekið fram að upptalningin sé ekki tæmandi. Í annarri efnisgrein 7. gr. eru ákvæði um að vinnumat skuli vera sívirkt, eins og nánar er lýst í ákvæðum kaflans. Í þriðju efnisgrein eru ákvæði um sveigjanlegt mat vegna „meginbreytinga“.  Orðrétt segir:

Verði meginbreytingar gerðar á útfærslu skóla á leiðum til námsloka svo sem tímalengd náms eða öðru ytra skipulagi sem hefur áhrif á kennslufyrirkomulag innan skólans skal endurmeta vinnumat áfanga sem tilheyra slíkri breytingu.

Við slíkt endurmat skal meðal annars taka tillit til þess hvort aukið álag fylgi nýju fyrirkomulagi svo sem vegna hraðari yfirferðar námsefnis en í venjulegu skólahaldi eða annars sem áhrif kann að hafa á vinnu kennara.

Slíkt mat verður unnið á sama hátt og almennt vinnumat og ræðst af þeim breytingum sem gera á.  

Kveður stefnandi að við kjarasamningsgerðina hafi verið vitað af áhuga mennta- og menningarmálaráðherra á því að stytta framhaldsskólanám úr fjórum árum í þrjú. Stefnandi kveðst líta svo á að framangreint ákvæði í 3. undirkafla 7. greinar hafi verið sett í þeim tilgangi að liðka fyrir slíkum útfærslum.

                Í 9. grein kjarasamnings aðila kemur fram að samhliða undirritun kjarasamningsins verði sett á stofn verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með undirbúningi og innleiðingu nýs vinnumats kennara í framhaldsskólum. Verði hún skipuð fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti sem og KÍ. Þá kemur fram að stofnaðar verði vinnumatsnefndir til að undirbúa og innleiða nýtt vinnumat, en stofnun þeirra verði á hendi verkefnisstjórnarinnar.  Þá verði jafnframt komið á fót úrskurðarnefnd til að skera úr deilum um vinnumat. Í 10. grein kjarasamningsins segir að um nýtt vinnumat samkvæmt kjarasamningi skuli fjallað á kennarafundum í framhaldsskólum og að niðurstöður þess skuli kynna og ræða á kennarafundi. Þá segir í 11. grein kjarasamningsins að skólameistarar skuli kynna trúnaðarmönnum KÍ í hverjum framhaldsskóla stöðu vinnu við vinnumatið meðan sú vinna standi yfir sem og niðurstöðu þeirrar vinnu.

                Loks kemur fram í 13. grein kjarasamningsins að í síðasta lagi fyrir lok febrúar 2015 fari fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna KÍ um upptöku nýs vinnumats. Niðursöður atkvæðagreiðslunnar skuli svo vera ráðandi um upptöku hins nýja vinnumats og gildi ákvæða kjarasamningsins um það.   

                Hinn 22. júní 2015 gerðu Kvennaskólinn í Reykjavík og KÍ með sér samkomulag í formi  bókunar. Í bókuninni eru raktar þær forsendur að á árinu 2009 hafi skólinn fengið heimild til að leggja í meginbreytingu, sem hafi falist í styttingu á framhaldsskólanámi til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Framkvæmdin hafi kallað á sérstakan samning milli skólans og KÍ, sem fulltrúar ráðuneyta fjármála og menntamála hafi einnig átt aðild að, um frávik frá 2. kafla miðlægs kjarasamnings KÍ og fjármálaráðherra (um vinnutíma), en á þeim tíma hafi vinnutími verið skilgreindur í miðlæga samningnum. Kjarasamningur KÍ og fjármála- og efnahagsráðherra frá 4. apríl 2014, ásamt sérstöku samkomulagi er tengist honum frá 1. apríl 2015, hafi þá meginbreytingu í för með sér að framkvæmd vinnutímaákvæða kjarasamnings sé flutt til skólanna þó tilefni til vinnumats og reglur um framkvæmd séu bundnar í miðlæga samningnum. Því næst segir í samkomulaginu:

Í ljósi framangreinds eru Kvennaskólinn og Kennarasamband Íslands fyrir sitt leyti sammála um að samningurinn frá 2009 falli brott en að kjör sem í honum felast og snúa að áhrifum þess á vinnu kennara að stytta námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú verði nú tekin til vinnumats á grundvelli 7. greinar gildandi kjarasamnings, nánar tiltekið undirkaflans um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga.  Þessir aðilar eru sammála um að ekki færri en 58 klst. á ári eða 29 klst. á önn skuli bætast við vinnumat kennara sem gegnir fullu starfi en hlutfallslegur stundafjöldi vegna hlutastarfa. Aðilar eru sammála um að aukið álag og hraðari yfirferð námsefnis vegna þjöppunar námstíma og aukin ábyrgð á framkvæmd og viðhaldi skólanámskrár gefi tilefni til þess sérstaka mats samanber einnig fyrrgreindan síðasta undirkafla 7. greinar kjarasamnings.

Ákvörðun um efni þessarar bókunar er ótímabundin og tekur ekki breytingum nema aðilar hennar verði sammála um það eða annarhvor aðilinn óski breytinga. Efni bókunarinnar skal ekki hafa áhrif á vinnumat námsáfanga að öðru leyti og kemur ekki í stað neins efnis er snýr að vinnumati og kann nú að vera bundið í stofnanasamning.

Efni bókunarinnar skal kynnt á kennarafundi að undangengnu samráði við trúnaðarmann og bókunin verður skráð í fundargerð.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið ritaði skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík bréf, dags. 1. júlí 2015, þar sem vitnað er til framangreindrar bókunar. Var tekið fram að ráðuneytið teldi ekki að fækkun námsára þýði að fjórum árum sé þjappað í þrjú, heldur séu í nýrri námskrá boðaðar breytingar á skólastarfi sem „felast m.a. í breyttri nálgun sem tekur meira mið af hæfni en þekkingu“. Þá segir í bréfinu að launahækkanir framhaldsskólakennara skv. samningnum frá 4. apríl 2014 hafi verið verulega umfram hækkanir annarra starfstétta og hafi þær verið réttlættar með „þeim breytingum sem nú eru að verða að veruleika“.  Ekki hafi verið ætlunin að tvígreiða fyrir þær breytingar.

Skólameistari Kvennaskólans svaraði ráðuneytinu með bréfi, dags. 20. ágúst 2015. Segir þar að bókunin sé hluti af vinnumati skólans, og er rifjað upp að vinnumat hafi verið fellt af kennurum í fyrstu umferð, en samþykkt eftir að ákveðnar breytingar höfðu verið gerðar á því.  Skiptar skoðanir hafi verið á því innan skólans. Þá segir að er nýtt kerfi hafi verið innleitt í Kvennaskólanum hafi markmiðið verið að gengisfella ekki stúdentsprófið, heldur endurskoða allt námið og þjappa því eins og unnt væri. Áfangar séu klárlega efnismeiri og með mun meiri verkefnavinnu en áður, og það hafi verið grunnforsenda þess að út í breytinguna var farið. 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið ritaði dreifibréf til skólameistara framhaldsskóla, dags. 3. september 2015 þar sem lýst var túlkun ráðuneytisins á 7. grein kjarasamningsins.  Bréfið hófst með þessum orðum:

Í 7. grein kjarasamnings Kennarasambands Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra er vísað til vinnumats framhaldsskólakennara og m.a. getið um að við mat á vinnu í nýju kerfi skuli "meðal annars taka tillit til þess hvort aukið álag fylgi nýju fyrirkomulagi svo sem vegna hraðari yfirferðar námsefnis en í venjulegu skólahaldi eða annars sem áhrif kann að hafa á vinnu kennara."

Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur ekki að sú meginbreyting að fækka námsárum þýði að fjórum árum sé þjappað í þrjú, heldur eru í nýrri námskrá boðaðar breytingar á skólastarfi sem felast m.a. í breyttri nálgun sem tekur meira mið af hæfni en tiltekinni þekkingu.  Þannig er ekki litið til magnsetningar á náminu eins og virðist koma fram í hugmyndum fulltrúa Kennarasambands Íslands um viðbótarlaun vegna breytinga á skólastarfi og túlkun þeirra á þessum hluta 7. greinar kjarasamningsins.

Þá vekur ráðuneytið athygli á að launahækkanir framhaldsskólakennara skv. samningi frá 4. apríl 2014 voru verulega umfram hækkanir annarra starfsstétta og voru þær réttlættar með þeim breytingum sem nú eru að verða að veruleika.  Ekki er ætlunin að tvígreiða fyrir þær.  Skilningur ráðuneytis er sá að þeir samningar sem gerðir voru við nokkra skóla vegna tilraunaverkefna samkvæmt nýrri námskrá séu úr sögunni vegna þess að nýir hafa komið í staðinn.  Kostnaður vegna kjarasamninga hefur auk þess verið metinn og vinnumatið fyllir vafalaust þann ramma.  Því eru engar forsendur til að samþykkja frekari útgjöld.

Hinn 27. nóvember 2015 ritaði skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík KÍ bréf, þar sem kjörum, er felast í áðurnefndri bókun frá 22. júní 2015 var sagt upp, frá og með 1. mars 2016.  Segir í bréfinu að skólinn geti ekki staðið við að greiða fyrir þá tíma sem tilgreindir eru í bókuninni, skólinn hafi ekki, þrátt fyrir mikla viðleitni, fengið samþykki ráðuneytisins fyrir fjármögnun þeirra.

                KÍ lýsti sig ósammála túlkun ráðuneytisins á 3. mgr. 7. greinar kjarasamnings aðila sem birtist í áðurnefndu dreifibréfi til skólameistara dags. 3. september 2015. KÍ mótmælti túlkuninni á fundi 10. september 2015 í sáttanefnd, er starfar samkvæmt kjarasamningnum. Á fundinum var lagt fram  minnisblað Elnu Katrínar Jónsdóttur, eins nefndarmanna sem tilnefnd er af KÍ. KÍ ritaði mennta- og menningarmálaráðherra jafnframt ítarlegt bréf, dags. 24. september 2015, þar sem bréfi ráðherrans var svarað í lengra máli.

                KÍ taldi að stytting framhaldsskóla á námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú, með nýjum námsbrautarlýsingum fyrir hvern og einn áfanga, hafi falið í sér meginbreytingu í skilningi ákvæðisins. Hafi þar af leiðandi borið að endurmeta vinnumat áfanga, sem breytingunni tilheyra. Í Kvennaskólanum í Reykjavík hafi það þá þegar verið gert, þar sem reynsla hafi verið komin á að bjóða upp á umrætt nám á þriggja ára námstíma. Í því hafi falist viðurkenning á því sem KÍ kveðst telja augljóst, að það feli í sér aukið starfsálag á kennara að komast yfir námsefni til stúdentsprófs á þremur árum samanborið við fjögur ár, enda allir sammála um að stytting námstímans eigi ekki að fela í sér gengisfellingu á stúdentsprófinu á þann hátt að einn fjórði hluti af námsefninu hafi verið felldur niður.

                Vegna ágreiningsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið, og þar sem afstaða  Kvennaskólans í Reykjavík var byggð á fyrirmælum þess, höfðaði KÍ mál gegn íslenska ríkinu fyrir Félagsdómi. Kröfugerð í því máli tók eingöngu til Fjölbrautarskólans í Breiðholti, sem er ríkisskóli. Dómur var kveðinn upp 22. september 2016 (mál nr. 2/2016), þar sem fallist var á kröfu KÍ.  Dómsorð var svohljóðandi:

Viðurkennt er að við breytingu á námsskipulagi til stúdentsprófs við Fjölbrautarskólann í Breiðholti, sem tók gildi á haustönn 2015 og felur í sér styttingu á námstíma úr fjórum árum í þrjú, allt samkvæmt breyttum námsbrautarlýsingum og áfangalýsingum, staðfestum af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og á grundvelli aðalnámskrár framhaldsskóla 2011, sbr. auglýsingu nr. 674/2011 og með breytingum samkvæmt auglýsingu nr. 890/2015, er skylt að endurmeta vinnumat áfanga sem tilheyra breytingunni, samkvæmt fyrirmælum 3. efnisgreinar 7. greinar samkomulags fjármála- og efnahagsráðherra f. h. ríkissjóðs annars vegar og Kennarasambands Íslands hins vegar um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila, dagsettu 4. apríl 2014.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Um lögsögu Félagsdóms vísar stefnandi til 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Stefnandi byggir á að bókun, dags. 22. júní 2015, sem kröfugerð hans lýtur að, feli í sér útfærslu á kjarasamningi og hafi þar með gildi eins og kjarasamningur í skilningi laga.  Í bókuninni hafi verið samið um vinnumat á grundvelli 7. greinar kjarasamnings KÍ og íslenska ríkisins. Stefnandi byggir jafnframt á því að ekki hafi verið lagagrundvöllur fyrir Kvennaskólann í Reykjavík að segja bókuninni upp einhliða eins og gert hafi verið með bréfi 27. nóvember 2016. 

Stefnandi bendir einnig á að forsenda Kvennaskólans í Reykjavík fyrir uppsögn hafi verið greinileg fyrirmæli frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, á grundvelli túlkunar á 3. efnisgrein 7. gr. kjarasamningsins, sem hafi ekki staðist fyrir Félagsdómi, sbr. mál nr. 2/2016. Eftir að bókuninni hafi verið sagt upp hafi hvorki stefndi né Kvennaskólinn í Reykjavík gert nokkuð annað til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt 7. greininni.

Stefnandi telur að engin lagastoð sé fyrir því að bókunin skuli ekki hafa skuldbindingargildi. Stefnandi vísar til meginreglu samninga- og vinnuréttar um að samningar skuli standa. Engin ógildingarregla geti átt við og áréttar stefnandi að hvers kyns frávik frá meginreglunni skuli túlkuð þröngt. Sem dæmi stoði ekki fyrir stefnda að bera fyrir sig að fjárheimildir skorti.

Stefnandi vísar einnig til reglu vinnuréttar þess efnis að eftir að kjarasamningi er sagt upp þá gildi hann eftir sem áður áfram í samskiptum aðila þar til nýr samningur hefur verið gerður, sbr. 12. gr. laga nr. 94/1986.

Stefnandi kveðst styðja málskostnaðarkröfu sína við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé skaðleysiskrafa, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og eignist því ekki frádráttarrétt.

          Málsástæður og lagarök stefnda

          Til stuðnings frávísunarkröfu sinni vísar stefndi til þess að í 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sé fjallað um þau mál sem heyra undir Félagsdóm. Í 1. mgr. segi þannig að Félagsdómur dæmi í málum sem rísi á milli samningsaðila um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nær, lögmæti boðaðra eða þegar hafinna vinnustöðvana, ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans, hverjir falli undir ákvæði 5.-8. tl. 19. gr. laganna og önnur atriði sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn enda séu að minnsta kosti þrír af dómendum því meðmæltir. Í 2. og 3. mgr. sé svo nánari útfærsla og heimildir til að leggja mál fyrir Félagsdóm vegna félagsaðildar eða á grundvelli samkomulags milli aðila.

          Kveður stefndi að krafa stefnanda og ágreiningsefnið varði ekki þau atriði sem talin eru upp í 26. gr. laga nr. 94/1986, heldur einfaldlega um skuldbindingargildi samninga og af þeim sökum krefjist stefndi þess að málinu verði vísað frá Félagsdómi. Stefndi hafnar því að um sé að ræða kjarasamning milli aðila, né heldur að um stofnanasamning sé að ræða. Þar sem lögsögu Félagsdóms beri að túlka þröngt telur stefndi að vísa beri málinu frá.

          Um sé að ræða bókun um samkomulag milli Kvennaskólans í Reykjavík og stefnanda. Efni samkomulagsins sé ekki þess efnis að unnt sé að fella það undir venjulega stofnanasamninga. Stefndi bendir á að stofnanasamningur sé sérstakur samningur milli stofnunar og viðkomandi stéttarfélags um aðlögun tiltekinna þátta hins miðlæga kjarasamnings að þörfum stofnunar með hliðsjón af sérstöðu starfa og verkefna hverrar stofnunar sbr. 11. kafla kjarasamnings. Einn veigamesti þáttur hins miðlæga kjarasamnings sem stofnun og viðkomandi stéttarfélagi sé ætlað að útfæra sé hvaða þættir/forsendur skuli ráða röðun starfa. Engin heimild sé í kjarasamningi fyrir umræddri bókun.

          Þá vísar stefndi jafnframt til þess að í bréfi Kvennaskóla Reykjavíkur dags. 20. ágúst 2015, komi skýrlega fram að bókunin frá 22. júní 2015 sé ekki hluti af stofnanasamningi skólans og stefnanda, heldur hluti af vinnumati. Hún sé jafnframt ekki fyrirmynd fyrir aðra skóla til að fara eftir.

          Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Niðurstaða

Í stefnu vísar stefnandi til 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna að því er varðar lögsögu Félagsdóms í málinu. Að mati dómsins getur sú tilvísun ekki verið annað en misritun, en í 2. tl. ákvæðisins er fjallað um að undir Félagsdóm eigi mál um lögmæti boðaðra eða þegar hafinna vinnustöðvana, en engu slíku er fyrir að fara í málinu. Verður við það miðað við úrlausn málsins að stefnandi byggi hér á 3. tl. ákvæðisins þar sem vísað er til ágreinings um skilning á kjarasamningi eða gildi hans, en að þessu var raunar vikið við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefnda, en önnur ákvæði 26. gr. laganna geta ekki komið hér til álita.

Bókun sú sem um er deilt í málinu er gerð 22. júní 2015 og er milli KÍ og Kvennaskólans í Reykjavík. Hvorki mennta- og menningarmálaráðuneytið né fjármála- og efnahagsráðuneytið komu að gerð hennar og í bókuninni er ekki vísað til þess við hvaða heimild hún styðjist.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986 fer fjármála- og efnahagsráðherra með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga samkvæmt lögunum, enda kemur fram að samkomulag 4. apríl  2014 um framlengingu á kjarasamningi er á milli fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og KÍ hins vegar, en það eru aðilar viðkomandi kjarasamnings. Þá liggur fyrir að samkomulag 1. apríl 2015 um breytingar og sérstakar kjarasamningsgreinar vegna upptöku nýs vinnumats kennara í framhaldsskólum er á milli sömu aðila og kjarasamningurinn, en í aðfararorðum samkomulagsins segir að aðilar samkomulagsins séu sammála um að kjarasamningur þeirra frá 4. apríl 2014 haldi gildi sínu með þeim breytingum sem felist í téðu samkomulagi. Í hinni umdeildu bókun kemur ekki fram að hún sé byggð á kjarasamningnum og ekki er unnt að líta svo á að aðilar bókunarinnar hafi upp á sitt eindæmi getað breytt eða aukið við efni kjarasamningsins.

Að mati dómsins er ekki unnt að líta á hina umdeildu bókun sem stofnanasamning í skilningi 11. kafla kjarasamnings aðila, enda er ekki byggt á því af hálfu stefnanda.

Í kjarasamningi aðila er við það miðað að vinnumat kennara sé unnið eftir ákveðnu ferli með aðkomu verkefnastjórnar og vinnumatsnefndar skv. 9. gr. kjarasamningsins, en fjalla skal um nýtt vinnumat á kennarafundum í framhaldsskólum, sbr. 10. gr. kjarasamningsins. Samkvæmt 13. gr. skal fara fram atkvæðagreiðsla um upptöku nýs vinnumats „á grundvelli útfærslu kennsluþáttar (A-hluta)“. Á þá að liggja fyrir „útfærsla og sýnidæmi verkefnastjórnar og vinnumatsnefnda sem kennarar og skólar hafa átt kost á að kynna sér“. Sérstaklega er fjallað um hlutverk verkefnisstjórnar og vinnumatsnefnda í viðauka 2 við kjarasamninginn. Hvergi í þessum ákvæðum er gert ráð fyrir því að skólameistari tiltekins skóla geri við stefnanda samkomulag um tilteknar forsendur sem eigi þá að leggja til grundvallar við vinnumatið, eins og hið umdeilda samkomulag virðist fela í sér.

Að framangreindu virtu er ekki unnt að líta svo á að framangreind bókun milli KÍ og Kvennaskólans í Reykjavík geti talist vera kjarasamningur eða ígildi kjarasamnings í skilningi 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 og fellur því utan lögsögu Félagsdóms að fjalla um skuldbindingargildi bókunarinnar.

Ber að vísa málinu frá Félagsdómi af þessum sökum.

Rétt er að málskostnaður falli niður.

Úrskurðinn kveða upp Sigurður Gísli Gíslason, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Inga B. Hjaltadóttir og Sveinn Sveinsson.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Málskostnaður fellur niður.