Hæstiréttur íslands
Mál nr. 76/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. febrúar 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ,,felldur úr gildi eða ómerktur“, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og verði án takmarkana.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Engin haldbær rök hafa verið færð fram til stuðnings kröfu varnaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar, sem staðfestur verður með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. febrúar 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2017, klukkan 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra. Hann krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldskröfunni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er og að það verði án takmarkana. Einnig krefst hann þess að kveðið verði á um að óheimilt sé að skerða réttindi samkvæmt c- til e-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögregla hafi nú til rannsóknar hvarf A, sem horfið hafi á Laugavegi í Reykjavík um klukkan 05.30 að morgni laugardagsins 14. janúar sl. Lík hennar hafi fundist sunnudaginn 22. janúar í fjöruborðinu við Selvogsvita í Ölfusi. Eftir skoðun réttarmeinafræðings sé það niðurstaða hans í bráðabirgðavottorði að henni hafi verið ráðinn bani. Samkvæmt rannsókn lögreglu þyki vafalaust að hún hafi farið í [...] frá Laugavegi á móts við Vatnsstíg þar sem hún hafi sést síðast á gangi á leið austur Laugaveg. Með rannsókn á fjarskiptagögnum og myndefni megi rekja ferðir bifreiðarinnar um Reykjavík, um Sæbraut og Reykjanesbraut, Kópavog, Garðabæ og til Hafnarfjarðar. Símsendar hafi hætt að nema síma A um klukkan 05:50 á móts við Sléttahraun í Hafnarfirði. [...] bifreiðin sé talin vera bifreið sem kærði X hafi verið með á leigu frá bílaleigu frá því síðdegis föstudaginn 13. janúar sl. til miðs dags daginn eftir eða laugardaginn 14. janúar. Bifreiðin hafi borið skráninganúmerið [...] og sé [...] að lit. Á myndefni úr eftirlitsmyndavélum við hafnarkant á suðurbakka í Hafnarfirði megi sjá að bifreiðinni var ekið að togaranum B sem þar lá við viðlegukant. Á myndskeiðum sjáist ökumaður stíga út úr bifreiðinni, en kærði X hafi kannast við að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar. Út úr bifreiðinni farþegamegin að framan sjáist stíga skipsfélagi kærða, Y. Samkvæmt frásögn kærða X hafi hann verið á veitingastöðum í miðbæ Reykjavíkur um nóttina með skipsfélaga sínum Y. Þeim beri saman um að frá miðbæ Reykjavíkur hafi þeir ekið til skips síns sem legið hafi í Hafnarfjarðarhöfn. Þetta hafi fengist staðfest með því að bifreið þeirra sjáist í eftirlitsmyndavélum í miðborginni og nágrenni undir morgun laugardaginn 14. janúar. Kærði X hafi greint frá því að áður en þeir hafi ekið til Hafnarfjarðar hafi tvær stúlkur komið inn í bifreiðina og farið með þeim til Hafnarfjarðar. Skipsfélagi hans Y hafi borið um að hann hafi aðeins séð eina stúlku í bifreiðinni. Þá hafi Y greint frá því að hafa séð stúlkuna liggja í aftursæti bifreiðarinnar þegar hann fór úr bifreiðinni í Hafnafjarðarhöfn þar sem hann hafi farið um borð í togarann B. Y hafi borið um það í fyrstu yfirheyrslum að tvær stúlkur hafi komið inn í bifreiðina. Að hans sögn skýrist það af því að X hafi haldið þessu fram við hann. Y kveðst nú muna eftir að aðeins ein stúlka hafi komið í bifreiðina. Hann hafi verið mjög ölvaður og muni ekki eftir því að hafa rætt við stúlkuna.
Kærði X hafi kannast við það að hafa fengið upp í bifreiðina [...] af gerðinni [...], sem hann hafi haft á leigu laugardaginn 14 janúar 2017, stúlku sem hann hafi þekkt af mynd sem A. Hann hafi haldið því fram að önnur kona hafi einnig komið inn í bifreiðina og verið farþegi í henni til Hafnarfjarðar undir morgun þennan dag. Kærði hafi ekkert viljað tjá sig um þetta mál í síðustu yfirheyrslum, en hann hafi setið í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá því fimmtudaginn 19. janúar sl. Í fyrstu yfirheyrslum hafi kærði borið um að stúlkurnar hafi komið inn í bílinn í eða við miðborg Reykjavíkur og síðan hafi verið ekið að togaranum sem legið hafi í Hafnarfjarðarhöfn. Þar hafi Y farið út úr bifreiðinni, en hann hafi ekið með stúlkurnar á annan stað í höfninni þar sem hann hafi stöðvað bifreiðina og farið aftur í farþegasætið til stúlknanna. Hann hafi m.a. kysst A. Á eftirlitsmyndavél sjáist X stöðva bifreiðina og fara aftur í farþegasætið. Þar hafi bifreiðin staðið í u.þ.b. 50 mínútur eða þar til X sjáist koma úr farþegasætinu aftur í og setjast fram í og aka burt. X hafi borið um að hafa ekið að hringtorgi, líklega Ástorgi norðan Reykjanesbrautar. Það hafi hann gert að ósk stúlknanna, en þar hafi þær farið út úr bifreiðinni og hann ekki séð þær meir. Kærði sjáist síðar um morguninn eða klukkan 11:00 aka að togaranum við bryggjukantinn og stíga út úr bifreiðinni og þá sé hann einn. Kærði X hafi skilað bifreiðinni aftur á bílaleiguna skömmu síðar.
Lögregla hafi lagt hald á bifreiðina í þágu rannsóknar málsins. Rannsókn tæknideildar hafi sýnt að mikið blóð hafi verið í aftursæti og undir sætinu og þá hafi blóðslettur verið víða í bifreiðinni og blóð á stýri hennar. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á því blóði sé um að ræða blóð úr A. Við skoðun á fatnaði kærða hafi komið svörun um blóð. Við leit í togaranum B, eftir að hann kom í Hafnarfjarðarhöfn um miðnætti miðvikudaginn 18. janúar sl., hafi fundist í svörtum ruslapoka á þilfari ökuskírteini A. Þar hafi verið lagt hald á ýmislegt fleira sem talið sé að geti tengst málinu, svo sem einnota gúmmíhanska, en á þeim hafi verið blóð sem nú sé til rannsóknar.
Fyrir liggi að kærði X hafi keypt hreinsivörur í verslun [...] um klukkan 10:30 laugardaginn 14. janúar. Á myndskeiðum sjáist hann þrífa bifreiðina, einkum aftur í henni, við skipshlið á milli klukkan 12.46 og 13.25. Að því loknu sjáist hann fara með stóran svartan ruslapoka úr bifreiðinni um borð í togarann.
Svo sem að framan greini hafi lík A fundist í fjörunni við Selvogsvita í Ölfusi sunnudaginn 23. janúar sl. Rannsókn réttarmeinafræðings hafi leitt í ljós að henni höfðu verið veittir áverkar í andliti og á höfði og þá hafi hún verið með mikla þrýstiáverka á hálsi, sem bendi til ofsafenginnar kyrkingar með höndum. Þá hafi rannsókn leitt í ljós að hún hafði látist vegna drukknunar. Lík A hafi verið án fata þegar það fannst.
Rannsókn máls hafi miðað áfram með yfirheyrslum, en aðallega með öflun sönnunargagna og upplýsinga um fjarskipti og skoðun myndefnis af eftirlitsmyndavélum og úrvinnslu þess. Umfangsmikil rannsókn sé í gangi, bæði hjá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, og hjá erlendum lögregluliðum og vísindastofnunum, sem rannsaki nú mikinn fjölda sýna og annað sem aflað hafi verið við rannsókn málsins og talið sé að geti veitt þýðingarmiklar upplýsingar um málið. Niðurstaðna sé að vænta á næstu vikum. Yfirheyrslur hafi verið skipulagðar næstu tvær vikur.
Í greinargerðinni segir að rannsókn þyki hafa leitt til þess að A hafi verið ráðinn bani laugardaginn 14. janúar sl. Þá þyki í ljós leitt að henni hafi verið ráðinn bani eftir að Y, skipsfélagi X, yfirgaf bifreiðina [...] við togarann B. Vafalaust þyki að A hafi verið veittir áverkar í bifreiðinni eftir að Y fór úr henni. Þá þyki ljóst að A hafi verið varpað í sjó á stað frá svæði austan við Selvogsvita þar sem hún hafi drukknað. Grunur lögreglu, sem byggi á rannsókn málsins fram til þessa, þyki sterkur um það að X beri ábyrgð á hvarfi A og dauða hennar.
Rannsókn á hvarfi A og því hvernig henni var ráðinn bani sé enn á frumstigi þótt rannsókninni hafi miðað áfram. Enn liggi ekki fyrir niðurstöður rannsóknar á sýnum og öðru sem þýðingu geta haft fyrir rannsóknina. Fyrir liggi að yfirheyra þurfi fjölda vitna, bæði þau sem yfirheyrð hafa verið, og önnur sem ekki hafa verið yfirheyrð áður. Kærði X sé undir sterkum grun um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að bera ábyrgð á hvarfi A og dauða hennar. Veruleg hætta þyki á því að kærði geti sett sig í samband við vitni og haft áhrif á framburð þeirra, sem og komið undan gögnum sem lögreglan leitar, ef hann fær að fara frjáls ferða sinna og er ekki í einangrun. Þyki brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni máls á þessu stigi. Með vísan til þess og alls þess sem að framan er rakið, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er fram sett.
Samkvæmt því sem að framan greinir og með hliðsjón af gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga, sem varðað getur allt að ævilöngu fangelsi. Kærði neitar sök. Rannsókn málsins, sem er umfangsmikil, stendur enn yfir og er beðið niðurstaðna rannsóknar á sýnum, þ.á.m. lífsýnum, sem aflað hefur verið og talið er að veitt geti þýðingarmiklar upplýsingar um málið. Þá liggur fyrir að frekari vitnayfirheyrslur þurfa að fara fram vegna málsins. Gangi kærði laus þykir hætta á því að hann muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Með vísan til framangreinds er jafnframt fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, fæddur 17. mars 1987, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2017, klukkan16.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.