Hæstiréttur íslands
Mál nr. 426/2002
Lykilorð
- Ærumeiðingar
- Ómerk ummæli
- Aðild
- Samkeppni
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 10. apríl 2003. |
|
Nr. 426/2002. |
Korea Ginseng Corporation(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Heilsuverslun Íslands ehf. og Ólafi Erni Karlssyni (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Ærumeiðingar. Ómerking ummæla. Aðild. Samkeppni. Aðfinnslur.
H ehf., sem meðal annars flutti inn kínverskt ginseng, gaf út blað sem hafði að geyma heilsíðuviðtal við mann að nafni D og auglýsingu fyrir þessa tiltekna tegund ginsengs. Í viðtalinu lýsti D því meðal annars hvernig staðið væri að ræktun ginsengs í Kóreu og Kína, þar á meðal muninum á notkun áburðar og skordýraeiturs. Var sérstaklega fjallað um rautt ginseng. Af þessu tilefni höfðaði K, kóreanskt ríkisfyrirtæki og stærsti framleiðandi ginsengs þar í landi, mál á hendur H ehf. og Ó, framkvæmdastjóra þess, þar sem gerð var krafa um að nánar tiltekin ummæli í viðtalinu yrðu dæmd ómerk. Var K sá framleiðandi, sem langmest hafði selt af ginsengi hér á landi, en framleiðsla félagsins var seld undir vörumerkinu rautt eðalginseng. Talið var að ummælunum í viðtalinu væri beint að K með þeim hætti að játa yrði því aðild að meiðyrðamáli, sbr. 3. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga. Hafi D ekki nafngreint sig sem höfund þess sem H ehf. hafði eftir honum í viðtalinu. Var kröfu H ehf. og Ó um sýknu á grundvelli aðildarskorts því hafnað. Talið var að ýmsar staðhæfingar í viðtalinu um samanburð á ræktun ginsengs í Kóreu og Kína væru rangar. Hafi viðtalið falið í sér óréttmæta árás á framleiðsluvörur þeirra, sem stóðu í samkeppni við H ehf. um sölu á ginseng á íslenskum markaði og brotið í bága við ákvæði samkeppnislaga. Kröfur K væru aftur á móti ekki reistar á þeim grundvelli að brotin hafi verið ákvæði laga, er vörðuðu óréttmæta viðskiptahætti heldur væri málið rekið til verndar æru félagsins á grundvelli ákvæða XXV. kafla almennra hegningarlaga. Vörðuðu ummælin, sem K krefðist þess að yrðu dæmd ómerk, ræktun ginsengjurtarinnar í Kóreu almennt. Fælist því ekki í þeim refsiverð aðdróttun samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Yrði því ekki komist hjá því að sýkna H ehf. og Ó.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. september 2002. Hann krefst þess að eftirfarandi ummæli í auglýsingablaði stefnda Heilsuverslunar Íslands ehf., sem fylgdi Morgunblaðinu 11. febrúar 2001, verði dæmd ómerk: „Í Kóreu er notuð svokölluð „intensive“ ræktun sem þýðir að jurtin vex í 4-6 ár til að ná hæstu gæðum áður en hún er tekin upp og unnin. Þá líða önnur 2-3 ár áður en nýjum fræjum er sáð en biðtíminn stafar af hreinsun jarðvegsins sem hefur skaðast af völdum eiturefna sem ginsengrótin gefur frá sér. Hins vegar er ekki nóg að aðeins líði nokkur ár til þess að lífrænn jarðvegurinn öðlist örverufræðilegt jafnvægi aftur. Í Kóreu er jarðvegurinn því oft á tíðum bættur með kemískum efnum, bæði skordýraeitri og tilbúnum áburði því þar sem örverufræðilegt jafnvægi er ekki til staðar verður ginsengið mun viðkvæmara fyrir skaða af völdum skordýra og sveppa og kallar það á enn frekari notkun skordýraeiturs.“ Jafnframt að millifyrirsögnin „Hvorki áburður né skordýraeitur“ og eftirfarandi ummæli í sama blaði verði dæmd ómerk: „Munurinn er hins vegar sá að í Kína notum við alls engan áburð og því engin köfnunarefni, í langflestum tilfellum ekkert skordýraeitur en ef þurfa þykir, þá í algjöru lágmarki.“ Enn fremur krefst áfrýjandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér óskipt 250.000 krónur til þess að standa straum af kostnaði við birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna, eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og ráðið verður af áðursögðu mun auglýsingablað útgefið af stefnda Heilsuverslun Íslands ehf. hafa fylgt Morgunblaðinu 11. febrúar 2001. Var ábyrgðarmaður þessa blaðs tilgreindur stefndi Ólafur Örn Karlsson. Í blaðinu birtist heilsíðuviðtal við mann að nafni Luc Delmulle undir fyrirsögninni „Það er til ginseng og það er til GINSENG“. Í inngangi viðtalsins var Delmulle kynntur á þann hátt að hann væri doktor í efnafræði og efnafræðilegur ráðgjafi „belgíska heilsuvöruframleiðenda, -heildsala og -dreifingaraðilasambandsins“. Hann væri einnig meðlimur í „The Herbal Advice Commission“ belgíska heilbrigðisráðuneytisins. Þá starfi hann hjá belgíska fyrirtækinu Ortis Laboratories, sem framleiði Ortis ginseng. Í viðtalinu kvað hann Ortis ginseng hafa þann dásamlega eiginleika að koma jafnvægi á líkamann. Þá gaf hann ráð um hvernig haga skyldi neyslu ginsengs. Hann var spurður af hverju þeir hafi valið Kína sem ræktunarsvæði en ekki Kóreu. Kvað hann jurtina „Panax Ginseng C.A. Meyer“ aðeins geta dafnað í tveimur löndum, Kóreu og á vissum svæðum í Kína. Ginseng, sem ræktað væri annars staðar, væri af annarri tegund, sem ekki hafi sömu lyfjafræðilegu eiginleika. Kínverska jurtin og sú kóreanska væru hins vegar af sömu tegund og efnafræðilega væru gæði jurtarinnar sjálfrar nákvæmlega þau sömu. Síðan var í viðtalinu lýst hvernig staðið væri að ræktun ginsengs í Kóreu með þeim orðum, sem áfrýjandi krefst ómerkingar á í fyrri lið framangreindrar kröfu sinnar. Undir millifyrirsögninni „Hvorki áburður né skordýraeitur“, sem síðari liður ómerkingarkröfu áfrýjanda lýtur meðal annars að, var að þessu búnu lýst þeim aðferðum, sem notaðar væru við ginsengræktun í Kína. Þar væri notuð svokölluð „extensive“ ræktun. Væru sett niður furutré samhliða ginseng fræjum og veitti furan jarðveginum næringu. Ginsengið væri látið vaxa í sex ár áður en það væri tekið upp. Síðan væri hafin ræktun á öðru svæði, sem þá þegar hafi öðlast sitt rétta náttúrulega jafnvægi. Fræin væru því sett niður í jörð, sem í langflestum tilfellum þarfnist hvorki áburðar né skordýraeiturs. Svona gangi þetta fyrir sig koll af kolli og líði 20 til 25 ár þangað til ræktun hefjist aftur á sama svæði, en þann tíma taki það jarðveginn að ná aftur æskilegum eiginleikum. Lyfjafræðileg og efnafræðileg gæði ginsens væru sem fyrr segi þau sömu í Kína og Kóreu, en hins vegar væri munur varðandi notkun áburðar og skordýraeiturs. Lýtur seinni liður ómerkingarkröfu áfrýjanda að ummælum varðandi það.
Í síðari hluta viðtalsins var Delmulle spurður um þá miklu umræðu, sem hafi verið á Íslandi um óæskilega eiginleika rótarenda ginsengjurtarinnar. Þetta kvað hann ótrúlega umræðu. Rakti hann síðan þau æskilegu efni, sem hann teldi vera í rótarendunum, og taldi að notkun á rótarbolnum einum til framleiðslu á ginsengi mætti rekja til fornrar hjátrúar, en hún ætti ekki við nein efnafræðileg rök að styðjast nema síður væri. Þá var hann spurður að því hvort máli skipti við val á ginsengi hversu mikið væri í hverju hylki af svonefndum „ginsenósíðum“. Taldi hann að í þessu sambandi þyrfti að huga að tvennu. Annars vegar væru í ginsengi mörg önnur virk efni en svonefndir „ginsenósíðar“ og hins vegar þyrfti að gæta jafnvægis milli ólíkra „ginsenósíða“ innbyrðis, en það væri tryggt með því að nota alla rótina. Delmulle var spurður um hver væri munurinn á rauðu og hvítu ginsengi og svaraði því til að í náttúrunni væri ekkert til, sem heiti rautt ginseng. Upprunalega væri allt ginseng hvítt. Rautt ginseng væri einungis vara, sem búin hafi verið til vegna markaðssetningar. Við þá framleiðslu væri ginsengið gufuhitað, sem valdi miklum efnafræðilegum breytingum fyrir utan útlitsbreytinguna. Líkti hann breytingunni við það að epli, sem skorið væri í sundur, yrði smám saman brúnleitt. Loks var í viðtalinu lýst vinnsluferli við framleiðslu á Ortis ginsengi þar sem öll rótin sé notuð. Á baksíðu blaðsins var heilsíðuauglýsing fyrir Ortis ginseng, sem stefndi Heilsuverslun Íslands ehf. flutti inn á þessum tíma.
Áfrýjandi kveðst vera kóreanskt ríkisfyrirtæki og stærsti framleiðandi ginsengs í Kóreu. Við framleiðslu sína noti hann eingöngu rótarbol ginsengjurtarinnar. Kveðst hann um árabil hafa flutt framleiðsluvöru sína til Íslands og selt undir heitinu rautt eðalginseng. Sé fyrirtækið langstærsti útflytjandi kóreansks ginsengs til Íslands.
II.
Stefndu reisa kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að áfrýjandi sé ekki réttur aðili að málinu, en samkvæmt 3. tölulið 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 geti þeir einir, sem misgert sé við, höfðað mál út af brotum á þeim ákvæðum laganna, sem áfrýjandi reisi málsókn sína á. Hafi í framangreindu viðtali verið fjallað almennt um ræktunaraðferðir á ginsengi í Kóreu og Kína, en framleiðendur séu fjölmargir í báðum löndunum. Hvergi sé áfrýjandi nafngreindur í greininni eða ýjað að því að verið sé að gagnrýna tiltekinn framleiðanda.
Við blasir að framangreint viðtal er auglýsing. Er þar auglýst ginseng, sem ræktað er í Kína og selt undir tilteknu vörumerki. Í viðtalinu er meðal annars gerður samanburður á aðferðum við ræktun ginsengs í Kína og Kóreu með hagstæðum hætti fyrir ræktun í fyrrnefnda landinu. Þá er í viðtalinu sérstaklega fjallað um rautt ginseng. Áfrýjandi framleiðir ginseng, sem ræktað er í Kóreu, og er ekki ágreiningur um að hann er sá framleiðandi, sem langmest hefur selt af ginsengi á íslenskum markaði. Er framleiðsla hans seld sem áður segir undir vörumerkinu rautt eðalginseng. Þegar þessa er gætt verður að líta svo á að ummælunum í viðtalinu sé beint að áfrýjanda með þeim hætti að játa verði honum aðild að meiðyrðamáli vegna þeirra.
Þá reisa stefndu kröfu sína á því að umrædd ummæli séu ekki frá þeim komin og málsókninni sé því ranglega beint að þeim. Um sé að ræða ummæli virts fræðimanns, Luc Delmulle, sem hann láti falla í viðtali um ginsengrótina og stefndu hafi birt í blaði sínu með samþykki hans. Séu þetta skoðanir fræðimannsins, sem stefndu beri enga ábyrgð á.
Í skýrslu fyrir héraðsdómi kom fram hjá vitninu Luc Delmulle að starfsmaður stefnda Heilsuverslunar Íslands ehf. hafi haft samband við hann símleiðis og lagt fyrir hann ákveðnar afmarkaðar spurningar, sem hann hafi svarað, en hann hafi ekki komið að því að semja viðtalið. Í auglýsingablaði stefndu var nafns hans aðeins getið í upphafi viðtalsins og undir andlitsmynd á miðri síðu. Hann hefur því ekki nafngreint sig sem höfund þess, sem áfrýjandi hafði þar eftir honum, í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Samkvæmt því og að virtri 13. gr. sömu laga verður krafa stefndu um sýknu á grundvelli aðildarskorts því ekki tekin til greina.
III.
Í gögnum málsins eru mjög takmarkaðar upplýsingar varðandi sannleiksgildi þeirra ummæla um samanburð á ræktun ginsengs í Kóreu og Kína, sem aðilar þess deila um. Þó er ótvírætt að á grundvelli þeirra er unnt að slá því föstu að ýmsar staðhæfingar í greininni um þetta efni séu rangar. Fyrrgreint viðtal var samanburðarauglýsing og fól í sér óréttmæta árás á framleiðsluvörur þeirra, sem stóðu í samkeppni við stefnda Heilsuverslun Íslanda ehf. um sölu ginsengs á íslenskum markaði. Var með birtingu viðtalsins brotið í bága við ákvæði 20. gr., 20. gr. a. og 21. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. 11. gr. laga nr 107/2000.
Til þess verður á hinn bóginn að líta að í máli þessu eru kröfur áfrýjanda ekki reistar á þeim grundvelli að stefndu hafi brotið ákvæði laga, er varða óréttmæta viðskiptahætti, heldur er málið rekið til verndar æru áfrýjanda á grundvelli ákvæða XXV. kafla almennra hegningarlaga. Ekki verður efast um að óréttmæt ummæli um framleiðsluvöru geti vegið að heiðri framleiðanda hennar á þann hátt að með þeim væri brotið gegn reglum almennra hegningarlaga um æruvernd og ákvæðum laga nr. 71/1928 um vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum. Ummæli þau, sem mál þetta snýst um, varða á hinn bóginn ræktun ginsengs í Kóreu í heild. Fyrir liggur að þar í landi séu fjölmargir ræktendur þessarar jurtar og að afurðir séu unnar úr rót hennar og settar á markað af fleiri kóreönskum framleiðendum en áfrýjanda. Liggja engar staðfestar upplýsingar fyrir í málinu um hlutdeild áfrýjanda í framleiðslu og sölu á kóreönsku ginsengi í heiminum. Þó að í umræddu viðtali sé vikið að rauðu ginsengi, sem er framleiðsluvara áfrýjanda, varða þau ummæli, sem krafist er ómerkingar á, ræktun ginsengjurtarinnar í Kóreu almennt, hvort sem úr rótinni er unnið rautt eða hvítt ginseng. Eru ummælin þegar allt þetta er virt það almenn að þau verða ekki talin vega að heiðri áfrýjanda með þeim hætti að þau teljist refsiverð aðdróttun samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Verður samkvæmt því ekki komist hjá því að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hver aðili látinn bera sinn kostað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Það athugast að fyrir héraðsdómi var maður að nafni Si-Kwan Kim leiddur sem vitni af hálfu áfrýjanda, að virðist eingöngu til að bera um almenn sérfræðileg atriði varðandi ræktun á ginsengi og framleiðslu afurða úr því. Þar sem ekki verður séð að maður þessi hafi nokkuð getað borið um atvik málsins hefði héraðsdómari átt með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 að hafna því að hann gæfi skýrslu fyrir dómi.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var upphaflega 21. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 24. og 25. apríl s.l. Málið var flutt að nýju 6. júní s.l. og þá dómtekið.
Stefnandi er Korea Ginseng Corp. 302, Shinsong-dong, Yusong-ku, Taejeon 305-345, Kóreu.
Stefndu eru Heilsuverslun Íslands ehf., kt. 621299-3799, Borgartúni 7, Reykjavík og Ólafur Örn Karlsson, kt. 020966-4599, Ásvallagötu 55, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að eftirfarandi setningar í auglýsingablaði stefnda, sem fylgdi Morgunblaðinu 11. febrúar 2001 í formi viðtals við Dr. Luc Delmulle, verði dæmdar dauðar og ómerkar, annars vegar: „Í Kóreu er notuð svokölluð „intensive“ ræktun sem þýðir að jurtin vex í 4-6 ár til að ná hæstu gæðum áður en hún er tekin upp og unnin. Þá líða önnur 2-3 ár áður en nýjum fræjum er sáð en biðtíminn stafar af hreinsun jarðvegsins sem hefur skaðast af völdum eiturefna sem ginsengrótin gefur frá sér. Hins vegar er ekki nóg að aðeins líði nokkur ár til þess að lífrænn jarðvegurinn öðlist örverufræðilegt jafnvægi aftur. Í Kóreu er jarðvegurinn því oft á tíðum bættur með kemískum efnum, bæði skordýraeitri og tilbúnum áburði því þar sem örverufræðilegt jafnvægi er ekki til staðar verður ginsengið mun viðkvæmara fyrir skaða af völdum skordýra og sveppa og kallar það á enn frekari notkun skordýraeiturs.“ Hins vegar feitletruð millifyrirsögn: „Hvorki áburður né skordýraeitur.“ „Munurinn er hins vegar sá að í Kína notum við alls engan áburð og því engin köfnunarefni, í langflestum tilfellum ekkert skordýraeitur en ef þurfa þykir, þá í algjöru lágmarki.“
Þá gerir stefnandi þá kröfu að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða stefnanda kr. 250.000 til þess að standa straum af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt, eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir.
Í auglýsingablaði stefnda Heilsuverslunar Íslands ehf., sem dreift var með Morgunblaðinu 11. febrúar 2001, var meðal annars efnis viðtal sem tekið var við Dr. Luc Delmulle og er fyrirsögnin „Það er til ginseng og það er til GINSENG.“ Samkvæmt kynningu í greininni mun Dr. Luc Delmulle vera doktor í efnafræði og efnafræðilegur ráðgjafi belgíska heilsuvöruframleiðenda-, heildsala- og dreifingaraðilasambandsins. Hann mun einnig vera í nefnd belgíska heilbrigðisráðuneytisins sem nefnist „The Herbal Advice Commission.“ Þá mun hann starfa hjá belgíska fyrirtækinu „Ortis Laboratories“, en það fyrirtæki mun framleiða Ortis ginseng. Í viðtalinu svarar hann spurningum um ginseng rótina og koma fram upplýsingar um það fyrir hverja það sé og hvernig eigi að taka það. Þá kemur fram hjá honum að „Panax Ginseng C.A. Meyer“ geti aðeins vaxið og dafnað í tveimur löndum í heiminum, þ.e. í Kóreu og Kína. Hann segir kínversku jurtina og þá kóresku nákvæmlega sömu tegundar en ræktunaraðferðir geti verið mismunandi. Hann lýsir ræktunaraðferðum annars vegar í Kína og hins vegar í Kóreu. Þá svarar hann spurningu um mikla umræðu á Íslandi um að rótarendar ginsengs séu eitraðir og því ekki æskilegir og segir hann það ótrúlega umræðu sem ekki sé byggð á vísindalegum grunni. Hann fjallar einnig um virk efni í ginseng og segir rautt ginseng ekki til í náttúrunni, allt ginseng sé hvítt. Að lokum lýsir Dr. Luc Delmulle vinnsluferli Ortis ginsengs.
Stefnandi mun hafa í meira en áratug flutt hingað til lands framleiðsluvöru sína sem nefnd er rautt eðalginseng. Segir stefnandi að kóresk yfirvöld hafi gert sér far um að viðhalda orðspori þessarar vöru með ströngu eftirliti með hráefni, hreinlæti og aðskotaefnum á öllum framleiðslustigum. Við efnafræðilega rannsókn, sem fram hafi farið í Þýskalandi fyrir rúmu ári á framleiðslu stefnanda hafi komið í ljós að aðskotaefni voru í algjöru lágmarki og langt undir leyfilegum mörkum. Hins vegar hafi komið í ljós í sömu rannsókn að aðskota- og eiturefni í framleiðsluvöru stefnda hafi verið fyrir ofan leyfileg mörk.
Stefnandi heldur því fram að fyrir nokkrum árum hafi sprottið upp deilur vegna þess að seljandi rótarenda ginsengs, sem ræktað var í Kína, hafi reynt að nýta sér hið góða orðspor sem hafi farið af rauðu eðalginsengi með því að líkja eftir nafni og umbúðum. Hafi það verið í eina skiptið sem deilt hafi verið um mun á verkun og innihaldsefnum rótarbola og rótarenda ginsengjurtarinnar. Í kjölfar þessarar deilu hafi komið í ljós að í kóreska ginsenginu hafi engin varnarefni fundist en í því kínverska hafi fundist mikið magn skordýraeiturs.
Stefnandi telur ljóst að í umræddri auglýsingu sé verið að vísa til framleiðsluvöru stefnanda, en hún hafi um langt árabil verið mest selda kóreska ginsengafurðin hér á landi og eina kóreska rauða ginsengið sem hafi verið á markaði hér. Segir stefnandi umrædda auglýsingu stefnda hafa valdið sér fjárhagslegu tjóni og hafi margir hætt við kaup á kóresku ginsengi. Sé því nauðsynlegt fyrir stefnanda að leiðrétta þær rangfærslur sem hafi komi í greininni og fá hin umstefndu ummæli dæmd dauð og ómerk.
Stefndi Ólafur Örn mun vera ábyrgðarmaður umrædds auglýsingablaðs.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi vísar um aðild sína til 16. og 17. gr. laga nr. 91/1991. Sé ljóst að auglýsing stefnda beinist að stefnanda, enda engin önnur afgerandi sala á kóresku ginsengi hér á landi en framleiðslu stefnanda. Í auglýsingunni sé vísað til umræðu um eitur í rótarendum og viti þeir sem til þekki til umræðunnar hér heima milli umboðsmanns stefnanda og annarra innflytjenda ginsengs, sem ræktað hafi verið í Kína.
Stefnandi byggir á því að honum beri nauðsyn til að fá síðari hluta ummæla í auglýsingunni dæmd dauð og ómerk þar sem með gagnályktun megi ráða að skordýraeitur sé í kóreska ginsenginu.
Stefnandi segir um auglýsingu að ræða í merkingu 20 gr. a laga nr. 25/1993 og sé hún í andstöðu við þá lagagrein, svo og 21. gr. laganna og fleiri ákvæði. Þá brjóti auglýsingin gegn lögum nr. 71/1928 um vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum. Þá sé auglýsingin refsiverð samkvæmt samkeppnislögum nr. 8/1993 svo og almennum hegningarlögum, 234., 235., 236. og 237. gr. Stefnandi rökstyður ómerkingarkröfu með vísan til 241. gr. laganna, 1. mgr. og krafa um birtingarfjárhæð er byggð á 2. mgr. sömu lagagreinar.
Stefnandi skýrir dómkröfur sínar nánar með þeim hætti að kóreska ginsengið sé undantekningalaust ræktað í 6 ár, jörðin hvíld í a.m.k. 10 ár og þá sé notkun tilbúins áburðar bönnuð. Þá séu reglur um notkun kemískra efna, þ.m.t. skordýraeitur, mjög strangar í Kóreu. Stefnandi segir að í auglýsingunni sé dregin upp afar dökk mynd af jarðvegi og heilbrigðiseftirliti við ræktun ginsengs í Kóreu og sé gefið í skyn að um sé að ræða nánast skefjalausa notkun kemískra efna eins og tilbúins áburðar og hættulegra efna, svo sem skordýraeiturs og sé gefið í skyn að ræktunin sé komin í vítahring.
Stefnandi vísar einnig til laga nr. 93/1995, 7/1998, sbr. reglugerð nr. 837/2000 og laga nr. 52/1988, sbr. reglugerð nr. 857/1999.
Málskostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 130. gr.
Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda, Heilsuverslun Íslands ehf. sem útgefanda auglýsingarinnar og á hendur stefnda Ólafi Karli sem ábyrgðarmanni.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Hin umstefndu ummæli séu ekki frá stefndu komin, heldur frá Dr. Luc Delmulle, en hann sé virtur fræðimaður á sviði efnafræði og heilsuvara. Hafi stefndu birt viðtal þetta við hann í auglýsingablaði sínu. Komi nafn stefnanda hvergi fram í viðtalinu og ekki sé ýjað að því að verið sé að gagnrýna einhvern tiltekinn framleiðanda ginsengs eða tiltekna framleiðsluvöru og þá sé hvergi talað um að ein framleiðsluvara sé betri en önnur. Sé um að ræða hlutlaust viðtal sem tekið sé við fræðimann sem kunni skil á virkni og eiginleikum ginsengrótarinnar. Dr. Luc Delmulle fjalli almennt um ginseng og lýsi mjög almennt mismunandi ræktunaraðferðum annar vegar í Kína og hins vegar í Kóreu. Séu fjölmargir ræktendur ginsengs í þessum löndum og enn fleiri sem framleiði vörur úr því og selji. Séu þeir það margir að óhugsandi sé að einn þeirra telji að sér vegið með viðtalinu. Sé því ekki hægt að sjá hvernig stefnandi geti talið sig eiga aðild að málinu þar sem hann sé aðeins einn af fjölmörgum framleiðendum vara úr kóresku ginsengi.
Verði ekki á sýknukröfu fallist af þessum ástæðum byggja stefndu á því að engin ærumeiðandi ummæli sé að finna í viðtalinu. Í hinum fyrri umstefndu ummælum fjalli Dr. Luc Delmulle um ræktunaraðferðir við ginsengræktun. Hann lýsi skoðunum sínum á áhrifum ræktunaraðferða eins og hann telur þær vera í Kóreu á jarðveginn. Hvergi komi fram að þessar aðferðir leiði til þess að ginseng frá Kóreu sé varasamt. Þvert á móti komi fram annars staðar í viðtalinu að efnafræðileg og lyfjafræðileg gæði ginsengs frá Kóreu og Kína séu nákvæmlega þau sömu. Sé því ekki hægt að sjá að í þessum ummælum felist nokkur ærumeiðing. Honum hljóti sem vísindamanni og fræðimanni að vera heimilt að tjá sig um skoðanir sínar og kenningar á þessu sviði og njóta tjáningarfrelsis sem tryggt sé í 73. gr. stjórnarskrárinnar.
Að því er seinni ummælin varðar byggja stefndu á því að þar sé aðeins talað um aðferðir sem notaðar séu til ræktunar á ginsengi og þann mun sem Dr. Luc Delmulle telur vera á þeim annars vegar í Kína og hins vegar í Kóreu. Fram komi í viðtalinu að efnafræðilega eða lyfjafræðileg gæði ginsengsins séu nákvæmlega þau sömu í Kína og Kóreu. Þá komi fram að til þess geti komið að skordýraeitur sé notað við ræktun ginsengs í Kína. Sé því ekki rétt að í Kóreu sé notað skordýraeitur en alls ekki í Kína. Stefndu benda á ákvörðun samkeppnisráðs vegna kvörtunar Eðalvara ehf. yfir umræddu auglýsingablaði og úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Sé þar komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði talið að í viðtalinu sé gefið í skyn að kóreska ginsengrótin sé eitruð eða varasöm. Sé lýst mismunandi ræktunarferli ginsengs í tveimur löndum og komi fram að Dr. Luc Delmulle finnist kínverska aðferðin betri. Þá komi eingöngu fram í viðtalinu að ginsengrætur gefi frá sér eiturefni út í jarðveginn, en ekki að ræturnar sem slíkar séu eitraðar. Eigi þetta bæði við um ginsengrætur sem ræktaðar séu í Kóreu og Kína. Hafi því ekki verið talin ástæða til íhlutunar samkeppnisráðs vegna birtingar viðtalsins.
Stefndu segja ástæðu þess að umrætt viðtal var birt vera þá að seljandi framleiðsluvöru stefnanda hér á landi, Eðalvörur ehf., hafi birt ýmsar fullyrðingar og villandi upplýsingar um ginseng og virkni þess. Í vöru stefnda sé öll ginsengrótin notuð, þar á meðal rótarendarnir. Í auglýsingum frá Eðalvörum ehf. hafi verið gefið í skyn að notaðir væru úrgangshlutar í vöruna vegna þess að rótarendar voru notaðir. Hafi stefndu því talið rétt að birta umrætt viðtal í þeim tilgangi að veita svör við ýmsum spurningum sem vaknað hefðu hjá neytendum og leiðrétta rangar staðhæfingar. Byggja stefndu á því að með vísan til 239. gr. almennra hegningarlaga ætti refsing því að falla niður.
Stefndu benda á að Dr. Luc Delmulle sé virtur fræðimaður á sínu sviði og hafi væntanlega á starfsferli sínum þróað með sér ýmsar kenningar og skoðanir á áhrifum ginsengrótarinnar og ræktunaraðferðum. Hafi stefndu birt skoðanir hans í auglýsingablaði sínu með samþykki hans og sé ekki hægt að sjá að stefndu beri ábyrgð á skoðunum fræðimannsins sem hann láti frá sér í viðtali um ginsengrótina. Sé það ekki á færi stefndu að færa sönnur á kenningar hans og eigi ekki að þurfa þess til að geta birt viðtal við hann í blaði sínu.
Stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu að í efnafræðilegri rannsókn í Þýskalandi hafi komið í ljós að aðskota- og eiturefni í söluvöru stefnda hafi verið fyrir ofan leyfileg mörk.
Stefndu vísa um aðildarskort til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Málskostnaðarkrafa stefndu er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt er reist á lögum nr. 50/1988.
Niðurstaða.
Í máli þessu kemur fyrst til skoðunar hvort stefnandi sé réttur aðili máls þessa. Fram hefur komið að stefnandi hafi í rúman áratug flutt hingað til lands framleiðsluvöru sína, svokallað rautt eðalginseng. Í gögnum málsins kemur fram, svo og í framburði Dr. Si-Kwan Kim fyrir dómi, að stefnandi sé í eigu kóreska ríkisins og hafi framleitt rautt ginseng í meira en 100 ár. Ríkiseignarformið sé ekki til komið sökum þess að efnahagur kóreska ríkisins standi og falli með sölu á ginseng, heldur sé rautt ginseng hluti af menningu og sögu Kóreu í 2000 ár og hafi kóresk yfirvöld einskis látið ófreistað í því skyni að varðveita orðspor þess. Þar skipti öllu máli að kóreskt ginseng sé laust við öll eiturefni og séu hvorki notuð kemísk efni né skodýraeitur við framleiðsluna. Umræddur Dr. Si-Kwan Kim mun vera prófessor við Konkuk háskólann í Seoul í Kóreu og vera sérfræðingur í notkun náttúrulegra efna við lyfjagerð og til lækninga. Hann mun m.a. hafa stundað rannsóknir á virkni ginsengs til að draga úr áhrifum díoxín-eitrunar.
Óumdeilt er að hin umstefndu ummæli voru látin falla í viðtali í auglýsingablaði stefndu við Dr. Luc Delmulle, en hann starfar hjá belgíska fyrirtækinu Ortis Laboratories, sem samkvæmt gögnum málsins framleiðir ginseng sem framleitt er í Kína og flutt hingað til lands í samkeppni við hina kóresku framleiðsluvöru stefnda Heilsuverslunar Íslands ehf. Hann segir kínversku jurtina og þá kóresku nákvæmlega sömu tegundar en ræktunaraðferðir geti verið mismunandi. Hann lýsir ræktunaraðferðum annars vegar í Kína og hins vegar í Kóreu. Kemur fram í máli hans að hann telji hina kínversku ræktunaraðferð hentugri þar sem þar sé enginn áburður notaður og því engin köfnunarefni og í langflestum tilvikum ekkert skordýraeitur, sbr. hin umstefndu ummæli. Í viðtalinu talar Dr. Luc Delmulle almennt um ræktun ginsengs í Kóreu og er hvergi vikið að einstökum fyrirtækjum, hvorki stefnanda né framleiðsluvöru hans, rauðu eðalginsengi. Þó kemur fram að hann telji rautt ginseng ekki til í náttúrunni, það sé einungis vara sem hafi verið búin til markaðssetningar.
Stefnandi krefst í máli þessu einungis ómerkingar ummæla og greiðslu hæfilegrar fjárhæðar til þess að standa straum af kostnaði af birtingu dóms. Hvorki er krafist refsingar né fébóta. Samkvæmt 3. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga getur sá einn höfðað mál sem misgert er við, sbr. einnig 1. mgr. 241. gr. laganna. Kemur því til skoðunar hvort talið verði að hin umstefndu ummæli beinist að stefnanda þannig að honum verði játuð málssóknaraðild í máli þessu. Telja verður nægilega í ljós leitt með framlögðum gögnum að stefnandi sé einn fjölmargra framleiðenda ginsengs í Kóreu. Ummæli Dr. Luc Delmulle lutu að þeim ræktunaraðferðum sem hann taldi notaðar í Kóreu og var hvergi minnst á stefnanda eða framleiðsluvöru hans. Þá ber einnig að hafa í huga að um auglýsingu var að ræða þar sem tilgangurinn var augljóslega sá að vekja athygli á framleiðsluvöru stefndu og koma á framfæri því áliti viðmælanda að ræktunaraðferðir í Kína væru hentugri. Þá verður að skýra æruverndarákvæði almennra hegningarlaga út frá grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar um frelsi manna til að tjá sig í ræðu og riti. Þegar efni viðtalsins er virt í heild sinni, hliðsjón höfð af því að þar er hvergi vikið að stefndu og þar sem telja verður að sá hópur sem ummælin beindust að er of stór til þess að stefnandi hafi með réttu getað tekið ummælin til sín, ber með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, sbr. málshöfðunarreglur æruverndarkafla almennra hegningarlaga, að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu kr. 300.000 í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Heilsuverslun Íslands ehf. og Ólafur Örn Karlsson, skulu vera sýknir af öllum kröfum stefnanda, Korea Ginseng Corp. í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu kr. 300.000 í málskostnað.