Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-3
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Nauðasamningur
- Fjárhagsleg endurskipulagning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 7. janúar 2022 leitar Allrahanda GL ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 6. sama mánaðar í máli nr. 691/2021: Allrahanda GL ehf. gegn fyrrgreindum gagnaðilum á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Í málinu krefst leyfisbeiðandi staðfestingar á nauðasamningi félagsins 23. maí 2021. Með úrskurði Landsréttar var kröfunni hafnað meðal annars á þeim grundvelli að nauðasamningurinn miðaði við að gjalddagi samningsveðkrafna framlengdist um þrjú ár og gengi því lengra en 20. gr. laga nr. 57/2020 um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar heimilaði.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og varði mikilsverða almannahagsmuni. Í málinu reyni í fyrsta sinn á túlkun ýmissa ákvæða laga nr. 57/2020 auk samspils þeirra við lög nr. 21/1991. Þá hafi úrlausn málsins þýðingu fyrir réttarstöðu fjölmargra fyrirtækja. Loks byggir hann á því að hinn kærði úrskurður sé bersýnilega rangur að efni til.
5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.