Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Gengistrygging
  • Vanreifun
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Miðvikudaginn 26. mars 2014.

Nr. 187/2014.

Arion banki hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

gegn

Gísla Pálssyni

(enginn)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Gengistrygging. Vanreifun. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms, þar sem vísað var frá dómi máli A hf. á hendur G til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi sem ágreiningur var um hvort væri í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í úrskurði héraðsdóms var talið að lánssamningur aðila kvæði á um ólögmæta gengistryggingu og málatilbúnaður A hf. þar af leiðandi talinn vanreifaður. Hæstiréttur komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að samningurinn væri í erlendum gjaldmiðlum og lögmætur sem slíkur og hafnaði því af þeim sökum að slíkir annmarkar væru á málatilbúnaði A hf. að varðaði frávísun málsins.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2014, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Drómi hf. höfðaði mál þetta 12. september 2012 gegn varnaraðila til greiðslu láns, sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis veitti honum í desember 2006, en samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 tók Drómi hf. við eignum sparisjóðsins, þar á meðal ætluðum kröfuréttindum á hendur varnaraðila, og er óumdeilt að þau eru nú komin í hendur sóknaraðila fyrir framsal. Lán þetta var veitt á grundvelli erindis frá varnaraðila 21. desember 2006, sem bar fyrirsögnina „beiðni um reiknislán í erlendum myntum“, en þar sagði meðal annars að hann óskaði eftir því að sparisjóðurinn veitti sér „fjölmyntareiknislán að upphæð jafnvirði ISK 7.340.000,- sbr. eftirfarandi: ... 2) Að fjárhæðin verði samsett af eftirfarandi gjaldmiðlum: CHF 64.521,80 og JPY 6.274.577.-“. Í skjali frá sparisjóðnum með fyrirsögninni „staðfesting á fjölmyntareikningsláni“, sem var dagsett degi fyrr en framangreint erindi varnaraðila, var vísað til beiðni hans um „reikningslán bundið erlendum gjaldmiðlum samkvæmt því sem að neðan greinir“, sem sparisjóðurinn hafi samþykkt. Sagði síðan að sparisjóðurinn láni varnaraðila „í formi fjölmyntareikningsláns á útgáfudegi skjals þessa í eftirfarandi myntum: CHF og JPY sbr. neðar, m.v. kaupgengi Sparisjóðabanka Íslands hf. 2 dögum fyrr.“ Þar fyrir neðan kom fram að í japönskum jenum væri lánsfjárhæð 6.274.577 og í svissneskum frönkum 64.521,80, en einnig var tiltekið hvert hafi verið kaupgengi þessara gjaldmiðla 20. desember 2006 og svonefndir LIBOR vextir vegna lána í þeim, svo og að álag á þá vexti yrði 3%. Frekari skjöl voru ekki gerð um lántöku varnaraðila hjá sparisjóðnum, en fyrir liggur að fjárhæð lánsins, 7.262.750 krónur, var lögð inn á tékkareikning hans 22. desember 2006 samkvæmt nótu, sem sparisjóðurinn gaf út vegna kaupa sinna á áðurgreindum fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum.

Þegar leyst hefur verið úr því hvort samningur hafi verið gerður um lán í erlendum gjaldmiðli, svo sem heimilt er, eða um sé að ræða lán í íslenskum krónum, sem bundið er gengi erlendra gjaldmiðla, hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar fyrst og fremst verið lagður til grundvallar texti samnings um lán, þar sem lýst er þeim skuldbindingum sem aðilarnir takast á hendur. Í framangreindri beiðni varnaraðila 21. desember 2006 var leitað eftir reikningsláni „í erlendum myntum“ og var fjárhæð þeirra skýrlega tilgreind í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Í staðfestingu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um veitingu lánsins komu sömu fjárhæðir fram í þessum erlendu gjaldmiðlum. Með þessum skjölum komst á lánssamningur milli aðilanna. Þegar svo hefur háttað til sem að framan greinir hefur í dómafordæmum réttarins verið lagt til grundvallar að orðalag skuldbindingar nægi til að ráða úrslitum og þurfi þá hvorki að líta frekar til þess hvernig ráðgert hafi verið í samningi að skyldur aðilanna yrðu efndar og hvernig efndir þeirra hafi orðið í raun. Verður þannig að líta svo á að lánið, sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis greiddi út til varnaraðila 22. desember 2006, hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, svo sem heimilt var samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Að virtu framangreindu eru ekki þeir annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila, sem valdið gætu því að vísa bæri málinu frá dómi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Ákvörðun málskostnaðar í héraði bíður efnisdóms í málinu, en rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 12. febrúar sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Dróma hf., Lágmúla 6, Reykjavík, á hendur Gísla Pálssyni, Skúlagötu 20, Reykjavík, með stefnu birtri 12. september 2012.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 12.688.457 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 9. nóvember 2009 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

                Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega.  Einnig krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

II

                Málavextir eru þeir að með lánsumsókn stefnda hinn 21. desember 2006 óskaði stefndi eftir því að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., veitti sér fjölmyntareikningslán að jafnvirði 7.340.000 ISK, sbr. eftirfarandi:

  1. „að fjárhæðin verði til reiðu þann 22.12.206 og skuldfærist af reikningi 1150-26-979 í einu lagi ásamt vöxtum og kostnaði á gjalddaga þann 07.05.2007.
  2. að fjárhæðin verði samsett af eftirfarandi gjaldmiðlum: CHF 64.521,80 og JPY 6.274.577.
  3. vextir verði 6 mán. LIBOR að viðbættu 2,5% álagi.
  4. Lántökugjald er 1,0%.“

Ofangreindur reikningur stefnda er tékkareikningur í íslenskum krónum.  Stefnandi samþykkti lánsumsóknina, sbr. framlagt skjal sem ber yfirskriftina „Staðfesting á fjölmyntareikningsláni“, undirritað f.h. Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hinn 20. desember 2006, eða degi áður en lánsumsóknin er dagsett.  Í staðfestingunni segir m.a., að SPRON hafi samþykkt beiðni stefnda um reikningslán bundið erlendum gjaldmiðlum.  Lánsfjárhæðin verði nýtt til greiðslu á stofnfjárbréfum og endurgreiðist með þeim kjörum og skilmálum sem hér fari á eftir: „Samningsfjárhæð, -tími og –vextir.  SPRON lánar í formi fjölmyntareikningsláns á útgáfudegi skjals þessa í eftirfarandi myntum: CHF og JPY sbr. neðar, m.v. kaupgengi Sparisjóðabanka Íslands hf. 2 dögum fyrr.“  Í skilmálum lánsins segir að á gjalddaga hinn 7. maí 2007 sé SPRON heimilt að skuldfæra framangreindan reikning fyrir andvirði lánsins í íslenskum krónum, að viðbættum vöxtum sem miðist við sex mánaða LIBOR-útlánsvexti hverrar myntar eins og þeir séu skráðir á Reuters-síðu FRASETT, um kl. 12 á hádegi að íslenskum tíma, tveimur dögum fyrir útborgunardag láns, að viðbættu 3,0% álagi.  Vextir af láninu reiknist á grundvelli actual/360 daga eða raunverulegur dagafjöldi á vaxtatímabilinu/360.

Í skilmálum lánsins kemur fram, að stefndi skuldbindi sig til þess, á gjalddaga lánsins, að hafa til ráðstöfunar á framangreindum reikningi fjárhæð í íslenskum krónum sem svaraði til uppgreiðslu á láninu, þ.e. höfuðstóls lánsins og vaxta auk afgreiðslugjalds, samkvæmt gjaldskrá Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.  Skyldi útreikningur á þeirri fjárhæð, sem greiða skyldi á gjalddaga, í íslenskum krónum, miðast við sölugengi Sparisjóðabanka Íslands hf. á gjalddaga lánsins. 

Andvirði lánsins var síðan lagt inn á reikning stefnda hinn 22. desember 2006.  Á gjalddaga lánsins, hinn 7. maí 2007, greiddi stefndi SPRON hf. 1.913.447 krónur.  Eftir greiðsluna voru eftirstöðvar þess 46.160,20 svissneskir frankar og 4.488.960 japönsk jen.  Sama dag sendi stefndi SPRON beiðni um framlengingu lánsins.  Með samþykki SPRON var framangreint reikningslán framlengt og í stað gjalddaga lánsins, hinn 7. maí 2007, skyldi gjalddagi þess verða hinn 7. maí 2008, sem yrði nýr gjalddagi höfuðstóls þess, þó þannig að báða þessa daga greiddi stefndi vexti af láninu.  Þá var vaxtakjörum lánsins breytt á þann veg að vextir skyldu nú vera 12 mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 3% álagi.  Þá veitti stefndi heimild til þess að skuldfæra umsýslugjald af reikningi nr. 1150-26-979.

Hinn 16. maí 2008 sendi stefndi SPRON enn á ný beiðni um framlengingu lánsins.  Með samþykki SPRON var framangreint reikningslán framlengt og í stað gjalddaga lánsins 7. maí 2008 skyldi gjalddagi þess nú verða 7. maí 2009, sem yrði nýr gjalddagi höfuðstóls lánsins.  Lánið var við framlenginguna með eftirfarandi stöðu mynta: 4.663.918 japönsk jen og 48.820,07 svissneskir frankar.  Þá var vaxtakjörum lánsins breytt á þann veg að vextir skyldu nú vera 12 mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 7,0% álagi.  Þá veitti stefndi samþykki sitt fyrir 0,25% framlengingargjaldi.

Hinn 8. maí 2009 sendi stefndi SPRON enn beiðni um framlengingu lánsins.  Með samþykki SPRON var reikningslánið framlengt og í stað gjalddaga lánsins sem var 7. maí 2009 skyldi gjalddagi þess verða 7. nóvember 2009, sem yrði nýr gjalddagi höfuðstóls lánsins, þó þannig að báða þessa daga skyldu greiðast vextir af láninu.  Lánið var með eftirfarandi stöðu mynta við framlenginguna: 4.663.918 japönsk jen og 48.820,07 svissneskir frankar.  Þá var vaxtakjörum lánsins breytt á þann veg að vextir skyldu nú vera sex mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 3,0% álagi.  Þá veitti stefndi heimild til þess að skuldfæra framlengingargjald, samkvæmt verðskrá, af reikningi nr. 0334-26-979.

Stefndi kveður tildrög þess að umrædd viðskipti hafi átt sér stað hafa verið þau að hann hafi átt stofnfjárhlut í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sem stefnandi leiði rétt sinn af í máli þessu.  Á aðalfundi SPRON 6. mars 2006 hafi stjórn sjóðsins veitt heimild til að auka stofnfé sjóðsins allt að sjöfalt.  Á stjórnarfundi í SPRON 8. nóvember 2006 hafi sjóðurinn ákveðið að nýta heimildina til þess að nærri tvöfalda stofnfé hans eða úr 5.000.000.000 hluta í 9.500.000.000, en stofnfé sjóðsins hafi einnig áður verið aukið umtalsvert, bæði árið 2005 og í apríl 2006.

Stofnfjárhluthöfum SPRON hafi verið boðið að auka hlut sinn en sæta ella hlutfallslegri skerðingu á stofnfjáreign sinni.  Til að halda hlut sínum hafi stefndi þurft að reiða fram yfir sjö milljónir króna.  Stefndi hafi ekki haft slíkar fjárhæðir á reiðum höndum og gramist þeir afarkostir sem SPRON hafi sett honum með tíðum og óhóflegum stofnfjáraukningum.

Stefndi kveður starfsfólk SPRON hins vegar hafa lagt hart að sér að auka hlut sinn og boðið fram fjármögnun til þátttökunnar.  Hafi mikil áhersla verið á það lögð að stefndi sæi ella fram á 47,4% skerðingu og yrði af arði.  Starfsfólk SPRON hafi fullyrt að stefndi þyrfti ekki að óttast skuldbindingu vegna fjármögnunarinnar.  Um væri að ræða arðbæra fjárfestingu sem stæði undir skuldbindingunni.  Þá mætti nýta arðgreiðslur til að gera upp skuldbindinguna.  Hafi og verið fullyrt að áhættan væri einungis fólgin í því að tapa stofnfjárhlutnum.  Skuldbinding stefnda næði ekki lengra.

Stefndi kveðst, þrátt fyrir að hafa haft ákveðnar efasemdir, ákveðið að reiða sig á sérfræðikunnáttu starfsfólks SPRON og fallist á að taka þátt í stofnfjárhækkuninni á þessum forsendum.  Í kjölfarið hafi SPRON lagt fyrir stefnda ódagsett form að lántökubeiðni, þar sem fram hafi komið helstu stærðir.  Þar hafi m.a. komið fram, að gjalddagi yrði 7. maí 2007, aðeins rúmlega fimm mánuðum síðar.  Stefndi kveðst hafa dagsett og undirritað skjalið í trausti þess að starfsfólk SPRON hefði ráðið sér heilt, en ekki tekið sjálfstæða afstöðu til efnis þess, enda hafi hann talið sig hafa notið traustrar sérfræðiráðgjafar.  Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda í stefnu, að hann hafi óskað eftir því að taka lán, honum hafi hins vegar verið att út í það af starfsfólki SPRON.  Stefndi hafi aldrei undirritað staðfestingu um reikningslánið, og hafi hann ekki fallist á skilmála hennar.  Lánsfjárhæðinni hafi verið ráðstafað inn á reikning nr. 1150-26-979 hjá SPRON, en þaðan jafnharðan út aftur til kaupa á stofnfjárhlutum.  Kveðst stefndi ekki hafa komið nálægt þessum millifærslum.

Á gjalddaga lánsins hafi hann ekki verið krafinn um endurgreiðslu heldur hafi lánið verið framlengt um ár, ef frá eru taldar tæpar tvær milljónir króna, sem stefndi hafi átt inn á reikningi sínum.  Á gjalddaga hafi SPRON getað leyst hlutina til sín og ráðstafað til greiðslu lánsins, en ekki gert það, þar sem rekstur sjóðsins hafi þá verið kominn í óefni.  Það hafi verið hagsmunir sjóðsins að eiga kröfu á hendur stefnda en ekki súrnandi bréf í sjálfum sér.  Þetta hafi fyrirsvarsmenn SPRON vitað, en ekki stefndi.  Lánið hafi tvívegis í viðbót verið framlengt eða til 7. nóvember 2009, en slíkt hafi verið almenn venja við kaup á stofnfjárhlutum.

Stefndi kveðst hafa staðið í þeirri trú að skuldbinding hans væri niður fallin og hann að sama skapi hafa glatað allri stofnfjáreign sinni er Fjármálaeftirlitið hafi yfirtekið vald hluthafafundar SPRON.

Hinn 21. mars 2009 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar SPRON hf. og víkja stjórn félaganna frá störfum á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.  Skilanefnd var skipuð yfir SPRON hf. og síðan slitastjórn, sem enn er yfir félaginu.  Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var skilanefnd SPRON hf. gert að stofna sérstakt hlutafélag í eigu SPRON hf., sem taka skyldi við öllum eignum, tryggingarréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON.  Á þeim grundvelli var hlutafélagið Drómi hf., stefnandi málsins, stofnað.

Í þinghaldi hinn 12. febrúar sl., er mál þetta var endurupptekið, lagði stefnandi fram staðfestingu þess efnis, að krafa samkvæmt umþrættu láni hefði verið framseld Arion banka hf., sem sé þá réttur aðili málsins til sóknar.

III

                Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á ákvæðum framangreinds fjölmyntareikningsláns milli aðila ásamt viðaukum.  Krafan sé byggð á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi, loforð og greiðslu skulda.  Stefndi hafi lofað að greiða skuldina á gjalddaga, samkvæmt framangreindu, og skuldbundið sig til þess að hafa til ráðstöfunar á reikningi í sinni eigu, á gjalddaga, sem svari til uppgreiðslu lánsins, þ.e. höfuðstóls og vaxta auk afgreiðslugjalds, samkvæmt gjaldskrá, í íslenskum krónum.  Skuld samkvæmt lánssamningi nr. 10031 hafi verið í vanskilum frá 9. nóvember 2009 og hafi innheimtuaðgerðir engan árangur borið.

                Kröfu sína hefur stefnandi sundurliðað svo í stefnu:

                Vegna lánssamnings nr. 10031:

                Eftirstöðvar höfuðstóls í JPY                                                                          4.663.918,00

                Samningsvextir í JPY                                                                                               89.776,00

                Samtals skuld í JPY                                                                                            4.753.694,00

                Eftirstöðvar höfuðstóls í CHF                                                                               48.820,07

                Samningsvextir í CHF                                                                                                   892,50

                Samtals skuld í CHF                                                                                                49.712,57

                Næsta virka bankadag eftir gjalddaga lánsins, hinn 9. nóvember 2009, hafi skráð sölugengi svissnesks franka verið 123,185 krónur og sölugengi japansks jens 1,38095 krónur.  Samtals hafi því fallið í gjalddaga hinn 9. nóvember 2009 12.688.457 krónur (4.753.694 japönsk jen x 1,38095 + 49.712,57 svissneskir frankar x 123,185) og sé það stefnukrafa málsins, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 9. nóvember 2009 til greiðsludags.

                Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þóknun sinni.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

IV

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að fyrrgreindur lánssamningur sé óskuldbindandi fyrir stefnda.  Vísar stefndi til ógildingarreglna III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 33. og 36. gr. laganna.  Um sé að ræða staðlað eyðublað útbúið af SPRON sem stefndi hafi undirritað vegna kaupa á stofnfjárhlutum.  Allt frumkvæði að gerð skjalsins hafi komið frá starfsmönnum SPRON, sem hafi fullyrt að stofnfjárhlutirnir væru örugg og góð fjárfesting.  Ekkert hafi verið fjallað um lánskjör eða skuldsett kaup.  Staðfesting lánsins, sem stefnandi byggi á að sé hluti af því, hafi verið gefin út degi áður en stefndi hafi undirritað umsóknina.  Hún sé óundirrituð af hálfu stefnda og geti ekki skuldbundið hann.  Stefndi hafi hvorki haft reynslu né þekkingu á verðbréfaviðskiptum og ekki haft neinar forsendur til að meta þau skjöl sem starfsmenn SPRON hafi lagt fyrir hann.  Ástæða þess að stefndi hafi látið til leiðast hafi verið áralöng viðskipti hans við SPRON og það traust sem starfsmenn sjóðsins hafi áunnið sér á löngum tíma.

                Lánið hafi ekki staðið stefnda til fullrar og frjálsrar ráðstöfunar, eins og ætla mætti af málavaxtalýsingu í stefnu.  Þvert á móti hafi SPRON hirt andvirði lánsins aftur til kaupa á hlutum í sjálfum sér.  Stefnanda hafi raunar ekki tekist að sanna að nokkrir fjármunir hafi verið lánaðir, a.m.k. hafi stefndi aldrei fengið lánið í hendur.  Þau yfirlit og kvittanir, sem liggi frammi í málinu séu einhliða bókhaldsgögn SPRON, sem stefndi hafi enga aðkomu haft að.  Framlögð skjöl um framlengingu lána hafi heldur enga þýðingu, enda hafi stefndi undirritað þau, í trausti þess að SPRON ætti réttmæta kröfu á hendur sér, en svo sé ekki.

                SPRON hafi orðið uppvíst að háttsemi sem leiði sjálfstætt til ógildingar á lántökunni og ráðstöfun lánsins.  Auk framangreindra ógildingarreglna samningalaga vísar stefndi til þágildandi laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, sbr. nú lög nr. 108/2007, og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Samkvæmt 5. gr. laga nr. 33/2003 hvíli sú skylda á fjármálafyrirtæki að veita viðskiptavinum greinargóðar upplýsingar m.a. um þá fjárfestingarkosti sem þeim standi til boða.  Í ákvæðinu segi enn fremur að upplýsingar sem fjármálafyrirtæki veiti skuli vera skýrar, nægjanlegar og ekki villandi þannig að viðskiptavinir geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun.  Stefndi telur ljóst, samkvæmt framansögðu, að SPRON hafi brotið gegn ákvæðinu við upplýsingagjöf sína til stefnda, sbr. 14. gr. núgildandi laga nr. 108/2007.  Starfsmönnum SPRON hafi því borið að ganga úr skugga um að stefndi gerði sér skýra grein fyrir þeirri áhættu sem hann hafi gengist undir með undirritun beiðninnar.  Alltént hafi SPRON borið að haga skjalagerð með þeim hætti að stefnda mætti vera ljóst um hvað væri að tefla.  Starfsmenn SPRON hafi mátt vita að ef stefndi hefði verið upplýstur um þá fjárhagslegu áhættu sem fælust í kaupunum á stofnfjárhlutunum hefði ákvörðun hans orðið önnur.  Þá hafi starfsmenn SPRON ekkert hirt um að meta stefnda sem fjárfesti.  Stefnandi verði að bera hallann af því hversu illa SPRON hafi staðið að málum.  Stefndi bendir á í þessu sambandi að gera verði ríkar kröfur til fjármálafyrirtækja, enda séu þau oft í yfirburðastöðu gagnvart viðsemjendum sínum.  Það að láta hjá líða að upplýsa stefnda um jafnveigamikil atriði og raun beri vitni, sé ólögmætt.  Stefndi hafi verið í góðri trú við undirritun beiðninnar og treyst því að starfsmenn SPRON gættu lögvarinnar réttinda sinna.  Með villandi upplýsingum hafi starfsmenn SPRON blekkt stefnda.  Sú háttsemi hafi m.a. verið andstæð 4. og 9. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, auk reglugerða og reglna sem settar hafi verið með stoð í lögunum.  Samkvæmt framangreindu verði að víkja lánssamningi aðila til hliðar að öllu leyti.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því, að það hafi verið forsenda fyrir viðskiptum hans við SPRON í desember 2006 að áhættan við þau væri bundin við stofnfjáreign hans.  Starfsmenn SPRON hafi fullyrt að arðgreiðslur myndu standa undir láninu og greiða það upp.  Í öllu falli myndi stefndi ekki tapa meira en sem næmi stofnfjáreign hans.  Þessi forsenda hafi verið veruleg og ákvörðunarástæða lánsviðskiptanna.  Skemmst sé frá því að segja, að ekki hafi staðið steinn yfir steini í þessum fullyrðingum starfsmanna SPRON.  Með málshöfðun hafi komið í ljós að stefndi hafi farið út í lánaviðskiptin við SPRON á röngum forsendum.

                Kröfu sína um lækkun dómkröfu byggir stefndi á því að skuldbinding hans sé í íslenskum krónum en bundin við gengi hinna tilgreindu erlendu mynta.  Slík verðtrygging sé ólögmæt samkvæmt VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Skuldbinding stefnda sé því langtum lægri en sem nemi dómkröfum stefnanda.  Stefndi vísar m.a. til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 92/2010 og 153/2010, en með þeim hafi verið skorið úr um það að gengistrygging sé ólögmæt að því er varði þær skuldbindingar sem falli undir VI. kafla laga nr. 38/2001.

                Þýðingarmestu atriðin í „lánssamningnum“ sem leiði í ljós að um skuldbindingu um lán í íslenskum krónum sé að ræða, séu eftirfarandi helst:

                -Lánsfjárhæðin í lánsbeiðni sé tilgreind í íslenskum krónum.

                -Gert hafi verið ráð fyrir því að lánsfjárhæðin yrði greidd út í íslenskum krónum.

                -Gert hafi verið ráð fyrir því að lánsfjárhæðin yrði endurgreidd í íslenskum krónum.

                -Láninu hafi verið varið til kaupa á stofnfjárhlutum í íslenskum krónum.

                -Í staðfestingu á fjölmyntaláni og framlengingum sé fjallað um gengisviðmið.

                Ofangreind atriði varpi hvert og eitt og einnig til samans skýru ljósi á þá staðreynd að meint skuldbinding stefnda hafi verið í íslenskum krónum, en ekki erlendum gjaldmiðlum.  Þar sem lán SPRON til handa stefnda hafi verið gengistryggt sé ljóst að ógreiddar eftirstöðvar séu lægri.  Skorar stefndi á stefnanda að leggja fram rétta fjárhæð eftirstöðva lánsins.

                Stefndi mótmælir einnig dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur að dráttarvextir verði í fyrsta lagi reiknaðir frá dómsuppsögu, verði að einhverju leyti fallist á kröfu stefnanda, þar sem kröfufjárhæðin sé óljós.

                Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, m.a. reglna um brostnar forsendur.  Einnig vísar stefndi til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, einkum 33. og 36. gr. laganna.  Þá vísar stefndi til laga nr. 33/2003, einkum 4. og 5. gr. laganna, sem og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, en stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.

V

                Í máli þessu greinir aðila aðallega á um hvort stefndi hafi með lánssamningi, sem undirritaður var, skuldbundið sig til að endurgreiða eftirstöðva lánsins.  Telur stefndi að svo sé ekki og byggir á því að lánssamningurinn sé óskuldbindandi fyrir hann á grundvelli ógildingarreglna 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Þá hafi stefnandi brotið ákvæði þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, nú lög nr. 108/2007, og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, þannig að víkja eigi samningnum til hliðar.  Hafi það verið forsenda fyrir kaupunum að áhætta af greiðslu lánsins væri bundin við stofnfjárhluti og að arðgreiðsla af  þeim nægði til greiðslu lánsins.   Til vara byggir stefndi á að skuldbinding hans samkvæmt lánssamningnum sé í íslenskum krónum en bundin við gengi hinna erlendu gjaldmiðla með ólögmætum hætti.

                Eins og að framan er rakið beindi stefndi beiðni til SPRON Verðbréfa hf. um reikningslán í erlendum myntum 21. desember 2006.   Í beiðninni kom fram að stefndi óskaði eftir að félagið veitti sér „fjölmyntareiknislán að upphæð jafnvirði ISK 7.340.000, sbr. eftirfarandi“.  Síðan voru þeir lánsskilmálar sem stefndi fór fram á tilgreindir í fjórum töluliðum.  Samkvæmt þeim fyrsta skyldi „fjárhæðin“ vera til reiðu hinn 22. desember 2006 og skuldfærast af tilgreindum reikningi í einu lagi ásamt vöxtum og kostnaði á gjalddaga 7. maí 2007.  Óumdeilt er að umræddur reikningur stefnda er í íslenskum krónum.  Samkvæmt öðrum tölulið skyldi „fjárhæðin...samsett af eftirfarandi gjaldmiðlum: CHF 64.521,80 og JPY 6.274.577“.  Í þriðja lagi skyldu vextir verða „6 mán. LIBOR að viðbættu 2,5% álagi“ og loks skyldi lántökugjald vera 1%.  Meðal gagna málsins er „staðfesting á fjölmyntareikningsláni“, sem dagsett er 20. desember 2006, eða daginn áður en fyrrgreind beiðni stefnda um lánið.  Sú staðfestingin er einungis undirrituð af starfsmanni sparisjóðsins, en þar kemur fram að lánsfjárhæðin verði nýtt til greiðslu á stofnfjárbréfum.  Ekki er ágreiningur um að stefnandi veitti stefnda umrætt lán, sem notað var til kaupa á stofnfjárbréfum í SPRON hf.

Fyrir liggur að á gjalddaga lánsins hinn 7. maí 2007 greiddi stefndi SPRON hf. 1.913.447 krónur.  Sama dag undirritaði stefndi „beiðni um framlengingu reiknisláns í erlendum myntum“ sem samþykkt var af SPRON hf.  Þar óskaði stefndi eftir því að lánið yrði framlengt til 7. maí 2008, sem yrði nýr gjalddagi höfuðstóls þess, en vextir skyldu greiðast af láninu, bæði á útgáfudegi þess skjals og nýja gjalddaganum.  Tekið var fram að lánið væri „í dag með eftirfarandi stöðu erlendra mynta“ og síðan tilgreindar fjárhæðir í japönskum jenum og svissneskum frönkum og að framlengingin miðist við „eftirfarandi myntir óbreyttar“.  Í skilmálum framlengingarinnar var kveðið á um að lánið bæri LIBOR-vexti með 3% álagi.  Þá segir: „Lántakandi staðfestir að hann hafi verið upplýstur um og hann hafi fyllilega skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna geti orðið þau að heildarskuld hans í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstefndu af hverju sinni getur orðið hætta en upphafleg lánsfjárhæð“.  Eins og að framan greinir óskaði stefndi tvívegis aftur eftir að lánið yrði framlengt, eða hinn 26. maí 2008 og 8. september 2009 og eru skilmálar þeirra framlenginga að mestu leyti samhljóða þeirri fyrstu. 

Samkvæmt því liggur skýrlega fyrir að með samningi við SPRON hf. skuldbatt stefndi sig til að endurgreiða lánið á tilteknum gjalddaga.  Í þeim skuldaskjölum kemur ekkert fram um að fullnusturéttur lánveitanda hafi átt að takmarkast við stofnfjárbréfin, heldur þvert á móti er þar skýrlega kveðið á um heimild sparisjóðsins til þess að skuldfæra reikning stefnda fyrir greiðslu höfuðstóls lánsins, ásamt vöxtum og kostnaði.  Er hvergi hægt að finna því stað í gögnum málsins að lánveitandi hafi takmarkað rétt sinn til að leita fullnustu í arðgreiðslum af stofnfjárbréfunum.  Þó svo að báðir samningsaðilar hafi gert ráð fyrir því að arðgreiðslur myndu standa undir greiðslu lánsins, og stefndi m.a. byggt þær væntingar sínar á reynslu sinni af arðgreiðslum sem hann hafði fengið greiddar af stofnfjárhlut sínum í sparisjóðnum, víkur það ekki til hliðar þeirri ótvíræðu skyldu sem fólst í lánssamningnum um endurgreiðslu lánsins.

Samkvæmt 5. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2002, sem í gildi voru er umþrætt viðskipti áttu sér stað, sbr. nú 5. gr. laga nr. 108/2007, var lögð sú skylda á fjármálafyrirtæki, sem veitir þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, en telja verður að kaup á stofnfjárbréfum teljist til viðskiptabréfa í skilningi laganna, að afla upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar á sviði viðkomandi tegunda verðbréfaviðskipta og ráða honum frá þeim ef það telur viðskiptin ekki viðeigandi fyrir viðskiptavininn.  Í þeim lögum var hins vegar ekki að finna sjálfstæða ógildingarástæðu ef brotið var gegn ákvæðum þeirra.  Verður því ekki leitað stoða fyrir kröfu stefnda í öðrum réttarheimildum en ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða ólögfestum reglum um ógildi samninga.    

Kemur þá til skoðunar málsástæða stefnda byggð á 36. gr. laga nr. 7/1936 og hvort það geti talist ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig umræddan samning.  Verður við það mat að líta til efnis samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.  Í málinu er ekki annað fram komið en að umdeild lánveiting, samkvæmt lánsbeiðni stefnda, sé venjuleg að formi og efni.  Verður það ekki talið ósanngjarnt af hálfu stefnda, eða andstætt góðri viðskiptavenju, að semja svo að lántaki endurgreiði peningalán, sem lánveitandi hefur veitt lántakanda til að fjárfesta í stofnfjárbréfum eða taka þátt í annars konar áhættusömum viðskiptum.  Þvert á móti eru það eðlilegir samningsskilmálar sem jafnan verður ekki vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.  Þá verður ekki séð að stöðumunur stefnda og sparisjóðsins við lánveitinguna hafi verið þess eðlis að leitt geti til ógildingar hennar.  Máttu starfsmenn sparisjóðsins varla ætla annað en að stefndi gerði sér grein fyrir ábyrgðinni sem felst í því að taka lán.  Verður ekki fallist á með stefnda að almenn þróun efnahagsmála geti haft áhrif á greiðsluskyldu hans eða að víkja beri samningnum til hliðar af þeim sökum, samkvæmt 36. gr. samningalaga, auk þess sem lagasjónarmið um ólögmæta auðgun geta ekki leitt til þeirrar niðurstöðu.  Eins og málið liggur fyrir verður því ekki talið að sýnt hafi verið fram á að efni lánssamningsins sé svo óvenjulegt eða íþyngjandi að skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 fyrir ógildi sé fullnægt. 

Stefndi heldur því fram að það hafi verið forsenda hans fyrir lántökunni að áhættan yrði einungis bundin við stofnfjárbréfin. Hafi þetta verið veruleg forsenda og ákvörðunarástæða fyrir því að taka lánið.  Hafi starfsmönnum sparisjóðsins verið forsendan kunn.  Í málinu liggur ekkert annað fyrir um þessa meintu forsendu stefnda fyrir lántökunni en fullyrðingar hans sjálfs, sem m.a. komu fram við skýrslutöku hér fyrir dómi.  Kom þar m.a. fram að starfsmenn sparisjóðsins hafi sagt honum að áhættan af lántökunni væri nánast engin auk þess sem ljóst hafi verið að með því að taka ekki þátt í stofnfjárútboðinu myndi stofnfjárhlutur hans í sparisjóðnum minnka.  Það getur ekki talist óvenjulegt, ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju, að fjármálafyrirtæki eins og sparisjóðurinn semji á þann veg að lántaki endurgreiði peningalán, sem lánveitandi hefur veitt honum til að fjárfesta í stofnfjárbréfum.  Með því að ekkert liggur fyrir um það í málinu að stefndi hafi, á grundvelli villandi eða rangrar ráðgjafar starfsmanna SPRON hf., tekið umrætt lán á þeirri röngu forsendu að hann væri ekki að taka þá áhættu að gengið yrði að öðrum eignum hans ef stofnfjárbréfin dygðu ekki til, er ekki unnt að fallast á að víkja eigi samningnum til hliðar af þeim sökum samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936.  Sjónarmið um aðgæslu- og upplýsingaskyldu lánafyrirtækja fá ekki breytt skýrri efndaskyldu stefnda samkvæmt samningnum, en efni hans eða ráðstöfun á lánsfjárhæðinni gefur, eins og fram hefur komið, ekki tilefni til að ætla að þar hafi fullnusturéttur lánveitanda verið takmarkaður við hin veðsettu stofnfjárbréf. 

Stefndi byggir einnig á því að umþrættur samningur aðila sé óskuldbindandi fyrir hann á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Í málinu er ekkert það fram komið sem bendir til þess að starfsmenn stefnda hafi haft vitneskju um atvik sem leitt geti til þess að óheiðarlegt sé af stefnanda að bera samninginn fyrir sig, enda liggur ekkert fyrir um að stefnda hafi skort hæfi til þess að gera sér grein fyrir skuldbindingunni eða hann hafi ekki mátt gera sér grein fyrir þýðingu þeirra gerninga sem hann skrifaði undir.  Verður umþrætt lán því ekki talið ógilt á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Kemur þá til skoðunar hvort samningur aðila hafi verið um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi hinna erlendu gjaldmiðla. 

Þegar leyst hefur verið úr því hvort samningur hafi verið gerður um lán í erlendri mynt, svo sem heimilt er, eða um sé að ræða lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta, hefur Hæstiréttur Íslands í dómum sínum fyrst og fremst lagt til grundvallar texta lánssamningsins þar sem lýst er þeim skuldbindingum sem aðilarnir takast á hendur.  Í málinu liggur ekki fyrir að sérstakur lánssamningur hafi verið undirritaður af hálfu beggja aðila. Stefndi málsins skrifaði undir beiðni um reiknislán í erlendum myntum til SPRON hf., dagsetta 21. desember 2006.  Í beiðni stefnda um reikningslán í erlendum myntum óskaði hann eftir fjölmyntareikningsláni að upphæð jafnvirði 7.340.000 íslenskra króna og að fjárhæðin yrði samsett af svissneskum frönkum og japönskum jenum og var fjárhæð þeirra tilgreind.  Í lánsbeiðninni kemur jafnframt fram að fjárhæðin skuli lögð inn á bankareikning stefnda í íslenskum krónum og skuldfærð af sama reikningi.  Samkvæmt beiðninni skyldi lánið bera LIBOR-vextir.  Þegar framangreint er virt verður að líta svo á að með greiðslu SPRON hf. á láninu inn á reikning stefnda, í samræmi við áðurnefnda beiðni stefnda, hafi komist á lánssamningur þeirra á milli.  Fyrir liggur að stefnandi greiddi stefnda umbeðna fjárhæð í íslenskum krónum.  Þannig verður að líta svo á að með því hafi stefnandi fallist á að lána stefnda íslenskar krónur og að tilgreining á fjárhæð hinna erlendu mynta hafi einungis verið til gengisviðmiðunar.  Framlagðar skilmálabreytingar styðja og þá ályktun, þar sem í þeim er sérstaklega fjallað um gengisáhættu.  Af skilmálabreytingunum er og ljóst að þær vörðuðu aðeins gjalddaga og vexti af láninu.  Ekki verður því talið að framlenging lánsins hafi falið í sér skilmálabreytingu varðandi gjaldmiðla lánsins.  Þegar lánsbeiðni stefnda ásamt skilmálabreytingum er virt í heild sinni, sem og efndir aðila á aðalskyldum sínum samkvæmt samningnum, verður ekki annað séð en að stefndi hafi tekið lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, þrátt fyrir að í framangreindum skjölum sé vísað til láns í erlendum myntum og að lánið hafi átt að bera LIBOR-vexti, sem hvort tveggja bendir til þess að lánið sé í erlendum myntum. 

Í ljósi alls framanritaðs verður litið svo á að umdeildar skuldbindingar aðila hafi verið í íslenskum krónum bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla.  Samkvæmt 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, og dómafordæmum Hæstaréttar Íslands er lánabinding eða annars konar skuldbinding í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla óheimil.  Stefndi verður eftir sem áður talinn skuldbundinn til að endurgreiða stefnanda eftirstöðvar lánssamningsins, í samræm við 18. gr. laga nr. 38/2001, og með því að fyrir liggur að umþrættur lánssamningur hefur verið í vanskilum frá 9. nóvember 2009.  Fjárhæð dómkröfu stefnanda miðast hins vegar við gengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla.  Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnda, sem fyrst komu fram í greinargerð hans, sem og ábendingar dómar, hefur stefnandi ekki lagt fram sundurliðun á útreikningi fjárkröfunnar, eins og um skuldbindingu í íslenskum krónum væri að ræða.  Með því að stefnandi hefur ekki sýnt fram á fjárhæð kröfu  sinnar, eins og honum ber að gera, sbr. d- lið 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur. 

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Arion banki hf., greiði stefnda, Gísla Pálssyni 400.000 krónur í málskostnað.