Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Faðerni
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 21. maí 2004. |
|
Nr. 159/2004. |
X(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Y(Ólafur Björnsson hrl.) |
Kærumál. Faðerni. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
X, sem hafði verið ættleidd af M, krafðist þess að ógilt yrði með dómi að Y væri kynfaðir hennar eins og tilgreint væri í fæðingarvottorði. X höfðaði málið á grundvelli barnalaga nr. 76/2003, en tók fram í málatilbúnaði sínum að krafan fæli ekki í sér viðurkenningu á lagatengslum hennar og Y eða að réttarstöðu hennar sem kjörbarni yrði raskað. Talið var að takmörkunum sem þessum á kröfugerð yrði ekki komið við í máli sem rekið væri eftir reglum III. kafla barnalaga. Með vísan til þessa þótti slíkur misbrestur vera á málatilbúnaði X að vísa yrði málinu frá héraðsdómi. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt í héraði og vegna kæru á úrskurði héraðsdómara til Hæstaréttar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 19. apríl 2004. Hann krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur um annað en málskostnað og sóknaraðila gert að greiða honum málskostnað fyrir héraðsdómi. Þá krefst hann að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Samkvæmt gögnum málsins er sóknaraðili fædd 2. júní 1969. Stjúpfaðir hennar fékk leyfi dómsmálaráðuneytis til að ættleiða hana 11. maí 1989. Samkvæmt beiðni um ættleiðinguna og skjölum í tengslum við hana, sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt, er varnaraðili tilgreindur faðir sóknaraðila.
Í málinu krefst sóknaraðili þess að ógilt verði með dómi að varnaraðili sé kynfaðir hennar eins og tilgreint sé í fæðingarvottorði. Samkvæmt kæru sóknaraðila til Hæstaréttar er tilgangur með málshöfðuninni að fá úr því skorið hvort hún sé rétt feðruð. Heldur sóknaraðili því fram að hún hafi lögvarða hagsmuni af því að vita sannleikann um faðerni sitt, sbr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, sem og II. og III. kafla laganna og 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsingu nr. 18/1992. Af þessu verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi höfðað málið sem dómsmál samkvæmt ákvæðum III. kafla barnalaga til vefengingar á faðerni barns eða ógildingar á faðernisviðurkenningu. Þrátt fyrir þetta segir meðal annars í kæru sóknaraðila: „Kröfugerð sóknaraðila felur ekki í sér viðurkenningu á lagatengslum hennar og varnaraðila eða að réttarstaða hennar sem kjörbarn verði raskað.” Takmörkunum sem þessum á kröfugerð verður ekki komið við í máli, sem rekið er eftir reglum III. kafla barnalaga. Þegar af þessum sökum er slíkur misbrestur á málatilbúnaði sóknaraðila að vísa verður málinu frá héraðsdómi. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Ekki eru efni til að varnaraðili fái greiddan kostnað sinn af rekstri málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, eins og hann krefst. Með því að hann hefur ekki beint kröfu um kærumálskostnað að sóknaraðila verður hann ekki dæmdur. Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 100.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2004.
I
Málið var höfðað 29. desember sl. og tekið til úrskurðar 30. mars sl.
Stefnandi er X.
Stefndi er Y.
"Stefnandi gerir þá kröfu að ógilt verði með dómi að stefndi sé faðir hennar eins og tilgreint er í fæðingarvottorði." Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krafðist þess upphaflega að viðurkennt yrði með dómi að hann væri ekki faðir stefnanda, en til vara að það yrði viðurkennt ef lífeðlisfræðileg rannsókn leiddi það í ljós. Þá krafðist hann málskostnaðar.
Dómarinn ákvað að taka til athugunar hvort vísa ætti málinu frá dómi og gaf lögmönnum aðila kost á að tjá sig um það álitaefni. Í því þinghaldi gerði stefnandi þær kröfur að málið yrði tekið til efnismeðferðar en ef því yrði vísað frá var krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefndi krafðist frávísunar og málskostnaðar.
II
Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að á fæðingarvottorði hennar sé stefndi tilgreindur faðir hennar. Telur hún að af því megi ráða að móðir hennar hafi tilgreint stefnda sem föður sinn og að hann hafi gengist við faðerninu. Á árinu 1989 hafi stjúpfaðir sinn sótt um leyfi til að ættleiða sig og hafi stefnda verið gefinn kostur á að tjá sig um málið. Stefndi hafi hins vegar sagt málið sér óviðkomandi og bent á að hann hafi undirgengist blóðrannsókn á sínum tíma og hún sýnt að hann hafi útilokast sem faðir. Engin gögn hafi fundist um þessa rannsókn hjá viðkomandi sýslumanni. Stefnandi var ættleidd af stjúpföður sínum og er leyfisbréfið gefið út 11. maí 1989. Í því er stefnandi talin dóttir stefnda.
Stefndi lýsir málavöxtum þannig að á árinu 1969 hafi honum verið kennt barn, sem sé stefnandi. Stefndi kveðst hafa talið ólíklegt að hann væri faðir stefnanda, en engu að síður hafi farið fram blóðrannsókn og hafi hún útilokað hann frá faðerninu. Kveðst stefndi hafa talið málið úr sögunni þar til honum hafi verið birt stefnan.
III
Stefnandi byggir á því að henni sé nauðsyn á að fá úr því skorið hvort stefndi sé kynfaðir hennar. Kveður hún þar bæði vera um að ræða tilfinningalega hagsmuni, er snerti sjálfsmynd hennar, svo og hagsmuni hennar og afkomenda hennar um að vita hið rétt um faðernið, m.a. vegna hugsanlegra erfðasjúkdóma.
Stefnandi höfðar málið á grundvelli III. kafla barnalaga nr. 76/2003 og byggir á því að hagsmunir hennar njóti verndar II. og III. kafla laganna, auk þess að vísa til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Stefndi byggir frávísunarkröfuna á því að stefnandi hafi engin rök leitt að því að stefndi sé faðir sinn. Hún eigi þar af leiðandi ekki rétt á því, á grundvelli barnalaga, að fá dóm um kröfu sína. Vísar hann í þeim efnum til ákvæða laganna.
IV
Eins og áður sagði var stefnandi ættleidd af stjúpföður sínum á árinu 1989. Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar segir að við ættleiðingu falli niður lagatengsl barns við kynforeldra sína, nema lög kveði öðru vísi á. Við ættleiðinguna öðlast kjörbarnið sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum sem væri það þeirra eigið barn. Í 2. mgr. segir að ættleiði annað hjóna barn hins fái barnið réttarstöðu sem væri það barn hjónanna.
Stefnandi byggir málsókn sína á ákvæðum III. kafla barnalaga, en hann fjallar um dómsmál til vefengingar á faðerni barns eða ógildingar á faðernisviðurkenningu. Samkvæmt 21. gr. laganna á stefnandi aðild að slíku máli. Hún krefst hins vegar ekki vefengingar á faðerni sínu eða þess að faðernisviðurkenning stefnda verði dæmd ógild, heldur "að ógilt verði með dómi að stefndi sé faðir hennar eins og tilgreint er í fæðingarvottorði." Dómurinn lítur svo á að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hver sé kynfaðir hennar með vísun til þeirra málsástæðna, sem hún byggir málsókn sína á. Hins vegar er á það að líta að við ættleiðinguna rofnuðu öll lagatengsl hennar við stefnda, hvort sem hann gekkst við faðerni hennar á sínum tíma eða ekki og þegar af þeirri ástæðu verður málið ekki rekið á grunvelli ákvæða barnalaga. Það er því ekki fallist á það með henni að krafa hennar á hendur stefnda verði sótt í máli sem þessu og er því óhjákvæmilegt að vísa því frá dómi.
Málskostnaður þykir mega falla niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 80.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Málinu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 80.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.