Hæstiréttur íslands
Mál nr. 502/2016
Lykilorð
- Líkamsmeiðing af gáleysi
- Umferðarlagabrot
- Refsiheimild
- Miskabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að hann verði sýknaður af einkaréttarkröfu, til vara að henni verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Tryggingamiðstöðin hf. krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af einkaréttarkröfu brotaþola en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
I
Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir ákærði einkum á því að niðurstaða dómsins sé lítt rökstudd auk þess sem hann hafi verið dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur á röngum grunni.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu með rökstuddum hætti að ákærði hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi umrætt sinn. Með hliðsjón af röksemdum fyrir þeirri niðurstöðu er ljóst, svo sem gerð verður grein fyrir hér á eftir, að skilja verður hinn áfrýjaða dóm á þann veg að ákærði hafi valdið umferðarslysinu af stórkostlegu gáleysi. Samkvæmt þessu eru ekki þeir annmarkar á samningu dómsins að fari í bága við 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður því hafnað kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms.
II
Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram varð ákærði valdur að umferðarslysi að kvöldi miðvikudagsins 11. febrúar 2015 er hann ók í veg fyrir bifreið brotaþola sem kom úr gagnstæðri átt. Við áreksturinn varð brotaþoli fyrir verulegu heilsutjóni.
Í ákæru er háttsemi ákærða talin varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. og b. og h. liði 2. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru að öðru leyti en því að hann var sýknaður af því að hafa brotið gegn ákvæði 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga þar sem ákvæðið væri ekki viðhlítandi refsiheimild. Samkvæmt fyrri málslið þeirrar málsgreinar skal vegfarandi sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Vegna krafna um skýrleika refsiheimilda verður manni ekki gerð refsing fyrir brot á þessu ákvæði, einu og sér, en aftur á móti ber að líta til þessarar meginreglu við mat á því hvort ökumaður hafi sýnt af sér gáleysi í skilningi 219. gr. almennra hegningarlaga þegar ökutæki, sem hann stjórnaði, hefur valdið tjóni á líkama eða heilbrigði annars manns, sbr. dóm Hæstaréttar 3. desember 2015 í máli nr. 60/2015.
Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi umrætt sinn ekið of hratt miðað við aðstæður og án nægjanlegrar aðgæslu. Fyrir liggur í málinu að ástæða þess að ákærði ók yfir á rangan vegarhelming var sú að hann var að forðast árekstur við bifreið sem ekið var á undan bifreið hans og hafði hægt á sér. Af því er ljóst að ákærði gætti þess ekki, miðað við að mikil hálka var á veginum og skyggni takmarkað, að hafa nægilegt bil á milli bifreiðanna. Fær það stoð í framburði B sem var vitni að atburðinum, en hann bar fyrir dómi að milli bifreiðanna hafi verið um það bil ein bíllengd. Við þessar aðstæður var sú ákvörðun ákærða að sveigja bifreiðinni yfir á öfugan vegarhelming stórháskaleg, enda mátti hann gera ráð fyrir að bifreið kæmi úr gagnstæðri átt, svo sem raunin varð. Með þessari háttsemi sýndi ákærði af sér stórkostlegt gáleysi.
Að því gættu sem nú hefur verið rakið en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og refsingu hans.
Með vísan til þess að slysið verður sem fyrr segir rakið til stórkostlegs gáleysis ákærða í skilningi a. liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður hann dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur sem verða, að virtum þeim gögnum sem fyrir liggja um afleiðingar brotsins, ákveðnar 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærða verður gert að greiða brotaþola 250.000 krónur í málskostnað við að halda kröfu sinni fram hér fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og greinir í dómsorði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en miskabótakröfu brotaþola, A.
Ákærði, Gunnþór Kristinsson, greiði brotaþola 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði greiði brotaþola 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.013.243 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Eiríks Gunnsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2016.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 7. apríl síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 17. nóvember 2015, á hendur Gunnþóri Kristinssyni, kt. [...], Birkivöllum 2, Árborg, Selfossi, „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 11. febrúar 2015, á leið norður Suðurlandsveg við Rauðavatn í Reykjavík, ekið bifreiðinni [...] of hratt miðað við aðstæður, þar sem myrkur var og snjókoma, snjóslabb var á vegi og vegur háll, þegar ákærði ók þar á eftir bifreið með of stutt bil á milli bifreiða án nægjanlegrar aðgæslu er hann ætlaði hindra ákomu og ekið yfir á akreinina fyrir umferð á móti, með þeim afleiðingum að hann lenti í árekstri við bifreiðina [...] sem ekið var austur Suðurlandsveg, með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar [...], A, kt. [...], hlaut fjöláverka/háorkuáverka, kjálkabrot beggja vegna, brot í lendarhrygg, brot á báðum upphandleggjum, opið brot í vinstri lærlegg, opið hnéskeljabrot vinstra og hægramegin og brot í mjaðmarspaða vinstra megin.
Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 5. gr. laga nr. 83, 2005, og 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. og b-. og h-lið 2. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Í málinu gerir Erling Daði Emilsson hdl. f.h., A, kt. [...] kröfu um miskabætur úr hendi ákærða, Gunnþórs Kristinssonar, kt. [...] að fjárhæð kr. 3.000.000,- með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 11. febrúar 2015, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi er liðinn frá því að krafan var birt ákærða, til greiðsludags. Þá er krafist að ákærði greiði málskostnað að skaðlausu, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst aðallega sýknu af bótakröfunni en til vara að bætur verði lækkaðar. Sömu kröfur gerir Tryggingamiðstöðin hf. sem hefur tekið til varna gagnvart bótakröfunni, sbr. 2. mgr. 97. gr. umferðarlaga. Þá krefst félagið málskostnaðar úr hendi brotaþola.
II
Málavextir eru þeir að klukkan 22.29 miðvikudaginn 11. febrúar 2015 barst lögreglunni tilkynning um umferðarslys á þeim stað er í ákæru greinir. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafði bifreið ákærða, sem ekið var vestur Suðurlandsveg, verið ekið yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir bifreið brotaþol sem ekið var í austurátt. Við áreksturinn snerust bifreiðarnar. Þær voru mikið skemmdar og bifreið brotaþola var sögð ónýt. Nota þurfti klippur til að ná henni úr bifreiðinni. Hún var flutt á slysadeild og var ekki hægt að ræða við hana. Rætt var við ákærða á vettvangi og er haft eftir honum í frumskýrslunni að hann hafi „verið að aka norður Suðurlandsveg á um 65 km hraða þegar hann tekur eftir tveimur bifreiðum út í hægra kanti við Rauðavatn. Hann sagðist hafa verið að fylgjast með því hvað væri þar í gangi þegar hann svo lítur fram fyrir sig og sér bifreið fyrir framan sig annað hvort stopp eða á mjög lítilli ferð, hann sagðist þá hafa hemlað til þess að koma í veg fyrir að lenda á bifreiðinni en sá svo fram á það að honum tækist það ekki og beygir til vinstri inn á öfugan vegarhelming og lendir þá framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Gunnþór sagðist ekki geta sagt til um það hvað varð um bifreiðina sem var fyrir framan hann né hvernig bifreið þetta var.“ Síðar um kvöldið ræddi lögreglumaður við ákærða á slysadeild. Hann bar á sama hátt um tildrög slyssins nema hvað hann kvaðst ekki hafa tekið eftir bifreið brotaþola fyrr en hann hefði verið kominn samsíða bifreiðinni sem hann ók fram úr og þess vegna lítið geta gert til að koma í veg fyrir árekstur.
Á vettvangi hafði lögreglan tal af tveimur mönnum sem voru vitni að árekstrinum. Þeir báru á sömu lund og ákærði.
Lögreglumaður ræddi við brotaþola 4. mars á bæklunardeild Landspítalans. Hún kvaðst ekkert muna eftir slysinu. Hún myndi síðast eftir sér er hún hefði beygt af Álftanesvegi og næst myndi hún eftir sér 17. febrúar á sjúkrahúsinu.
Í frumskýrslu lögreglu er akstursskilyrðum þannig lýst að myrkur hafi verið en góð götulýsing. Umferð hafi verið í meðallagi. Þæfingsfærð hafi verið og snjókoma.
Brotaþoli var flutt á slysadeild og í vottorði þaðan segir að hún hafi verið með meðvitund við komuna þangað en með fjölmarga útlimaáverka. Í vottorðinu og gögnum frá gjörgæsludeild kemur fram að brotaþoli hafi haft þá áverka sem í ákæru greinir.
Þá er meðal gagna málsins vottorð sérfræðings í bæklunarskurðlækningum frá 19. ágúst 2015. Í samantekt og áliti læknisins segir að brotaþoli hafi hlotið fjöláverka og eru þeir helstu: „Lærleggsbrot vinstra megin sem meðhöndlað var með mergholsneglingu. Slæmt og mjög svo kurlað opið hnéskeljabrot vinstra megin með yfirborðshrufli á brjóski framanvert á lærleggskollunum. Var gert að þessu með opinni réttingu á innri festingu með vírum og stálþræði auk þess sem sár voru saumuð. Vegna vandkvæða voru vírarnir og pinnarnir síðan fjarlægðir í aðgerð 18. ágúst 2015 utan þess að einn stálþráður sem reyrður hafði verið um hnéskelina var látinn halda sér. Slæmt og mjög svo kurlað opið hnéskeljarbrot hægra megin með afrifubroti á toppi innri læleggskollunnar auk brjóskhrufls. Var brotið hérna megin einnig rétt opið og fest með vírum og stálþræði auk þess sem sár voru saumuð en lærleggskollubrotið fest með pinna. Brot á vinstri upphandlegg sem rétt var lokað og fest með tveimur sveigpinnum. Voru pinnarnir síðan fjarlægðir eftir því sem þeir ullu verkjavandkvæðum en þar sem brotið reyndist ógróið í eftirliti 11. ágúst var framkvæmd aðgerð viku síðar þar sem merghol upphandleggjarins var fræst upp og síðan gerð negling á brotinu sjálfu. Brot á hægri upphandlegg sem meðhöndlað var með mergholsneglingu. Kjálkabrot beggja vegna. Ótilfærð brot í báðum völubeinum sem meðhöndluð voru með álagsskerðingu. Í aðalatriðum ótilfært brot á vinstri mjaðmarspaða.“
Loks hefur verið lagt fram vottorð sálfræðings sem brotaþoli leitaði til. Í vottorðinu segir að fyrstu viðtöl hafi farið í „að vinna með leiðir til þess að takast á við líkamlegan sársauka, sem hún fann fyrir daglega sem og kvíða vegna þess sársauka sem dagleg þjálfun var að valda henni. Einnig unnum við með leiðir til þess að takast á við kvíða fyrir komandi aðgerðir. Þetta slys hefur haft veruleg og alvarleg áhrif á lífsgæði A og ljóst að stúlkan þarf mikinn stuðning til þess að takast á við eftirköst slyssins. Viðtölin virðast hafa dregið úr einkennum áfallastreitu, en þau einkenni eru þó enn til staðar. Vegna mikils líkamlegs sársauka sem m.a. hefur haft áhrif á svefn, hefur ekki enn þótt ráðlegt að fara strax í beina úrvinnslu á slysinu. Heldur hefur verið unnið með þau einkenni sem hafa truflað líf stúlkunnar mest á þeim tíma. Verulegur sársauki getur kallað fram mikil kvíðaeinkenni og með því að leggja áherslu á vinnu með þann þátt, tókst að draga úr kvíðaeinkennum.“
III
Við aðalmeðferð bar ákærði að á nefndum tíma hefði hann ekið bifreiðinni í átt til Reykjavíkur frá Selfossi þar sem hann er búsettur. Ákærði er leigubifreiðarstjóri og sækir vinnu til Reykjavíkur. Var hann á leið til vinnu þetta kvöld. Þegar hann var að aka út úr hringtorginu við Rauðavatn kvaðst hann hafa tekið eftir tveimur bifreiðum utan vegar og voru þær þar sem aðreinin að Hádegismóum greinist frá Suðurlandsvegi. Ákærði kvað mikla hálku hafa verið á leiðinni og færð verið erfið. Hann kvaðst hafa haldið að þessar bifreiðar væru hugsanlega á sumardekkjum. Hann hefði ekið áfram og tekið eftir dökkleitri bifreið á undan sér. Bifreið þessa hefði hann séð er hann var að aka út úr hringtorginu. Ákærði kvaðst nú hafa tekið eftir tveimur mönnum við bifreiðarnar sem voru utan vegar. Þegar hann nálgaðist mennina kvaðst hann hafa tekið eftir því að bifreiðin á undan honum hafði hægt á sér en ekki kvaðst hann muna hvort hann hefði séð hemlaljós á henni. Ekki kvaðst hann muna hversu langt bil var milli bifreiðar hans og bifreiðarinnar á undan. Ákærði kvaðst hafa þurft að taka snögga ákvörðun og byrjað að bremsa en séð að hann myndi ekki ná að stöðva áður en hann myndi lenda á bifreiðinni. Hann kvaðst ekki hafa getað beygt til hægri því þá hefði hann getað lent á mönnunum sem stóðu við kyrrstæðu bifreiðarnar. Hann kvaðst hafa tekið eftir stóru ökutæki, snjóplógi að hann taldi, koma á móti á hinni akreininni en það hefði verið í töluverðri fjarlægð. Ákærði kvaðst því hafa talið að hann hefði tíma til að taka fram úr bifreiðinni sem var fyrir framan hann á veginum áður en hann myndi mæta snjóplógnum. Um leið og hann sveigði til vinstri kvaðst hann hafa tekið eftir lítilli bifreið er komið hefði á móti honum og hann hefði ekki tekið eftir áður. Nú kvaðst ákærði hafa nauðhemlað en það breytti engu og bifreiðarnar rákust saman. Ákærði kvað veður hafa verið stillt og úrkomulaust þegar áreksturinn varð en myrkur og ljós frá ljósastaurum. Vindur hafi verið hægur og síðar, eftir að sjúkralið og lögregla voru komin, hefði byrjað að snjóa að því er hann minnti. Hann kvað hjólför hafa verið á veginum og hefði snjóslabb verið á milli þeirra. Ákærði kvaðst hafa ekið frá Selfossi á 50 til 60 km hraða og taldi sig hafa verið á þeim hraða áður en áreksturinn varð. Hann hefði hægt verulega ferðina og taldi sig hafa verið á 15 til 20 km hraða er áreksturinn varð. Nánar tiltekið kvaðst hann telja að hann hefði verið nánast kyrrstæður þegar hin bifreiðin hefði lent framan á honum.
Brotaþoli kvaðst ekkert muna eftir árekstrinum. Hún kvaðst síðast muna eftir sér þegar hún hefði beygt af Álftanesveginum fyrr um kvöldið. Næst kvaðst hún muna eftir sér á sjúkrahúsinu þegar hún hafði verið á gjörgæslu í viku. Hún kvað sig þó ráma í að maður hefði sagt við sig að hún ætti að vera róleg, hún hefði lent í mjög alvarlegu bílslysi.
Brotaþoli kvaðst hafa slasast mjög illa og hún myndi líklega aldrei ná sér. Hún hefði farið í margar aðgerðir og ætti margar eftir. Þá væri hún í sjúkraþjálfun auk þess að vera í endurhæfingu á stofnunum. Hún kvaðst hvorki hafa getað stundað nám né vinnu. Hún hefði reynt að vinna á leikskóla en það hefði ekki gengið vegna áverkanna. Áður en þetta gerðist kvaðst hún hafa verið alheilbrigð og haft gaman af því að fara á skauta, snjó- og hlaupabretti, eins hefði hún haft gaman af því að fara á hestbak. Hún geti ekkert af þessu eftir slysið.
Ökumaður snjóplógsins kvaðst hafa ekið niður aðrein frá Árbæjarhverfi og niður á Suðurlandsbraut. Hann kvaðst ekki hafa séð aðdraganda slyssins heldur séð það verða fyrir framan nefið á sér eins og hann orðaði það. Þegar hann hefði verið um það bil að aka inn á Suðurlandsveginn hefðu bifreiðarnar skollið saman beint fyrir framan hann. Hann kvaðst hafa séð nokkrar bifreiðar í akstri fyrir slysið en ekki veitt þeim athygli fyrr en það varð. Hann gæti því ekki sagt hvaðan bifreiðarnar sem lentu í slysinu komu. Skyggni hefði verið slæmt, það hafi verið snjómugga að því er hann minnti. Færðin hefði verið slæm þótt búið hafi verið að skafa veginn. Vegurinn hafi talist sæmilega fær og full ástæða til að aka varlega. Hann kvaðst hafa farið að bifreið brotaþola og verið hjá henni þar til sjúkralið kom.
Annar mannanna sem voru á slysstað bar að hafa misst bifreið sína út af vegna slæmrar færðar. Hann kvaðst hafa hringt í vin sinn er hefði komið til að draga hann upp á veginn. Þeir hefðu verið að undirbúa það og tekið eftir leigubifreið aka í norðurátt en mikil umferð hafi verið þarna á þessum tíma. Á undan leigubifreiðinni hafi verið bifreið sem hefði verið að beygja upp aðreinina að Hádegismóum. Sér hafi virst sem bifreiðarstjóri leigubifreiðarinnar hafi ekki fylgst með bifreiðinni, sem var á undan, og misst stjórn á bifreið sinni þegar hin bifreiðin hægði ferðina. Leigubifreiðin hefði farið yfir á öfugan vegarhelming og lent á [...] sem ekið var eftir hinni akreininni. Báðar bifreiðarnar hefðu snúist 180° við áreksturinn áður en þær stöðvuðu. Maðurinn kvað hafa verið þungfært og leigubifreiðinni hefði ekki verið ekið hraðar en 70 km. Hann kvað að [...] bifreiðinni hefði verið ekið á svipuðum hraða en þó alls ekki hraðar en leigubifreiðinni. Maðurinn kvað skyggni hafa verið um 70 metra og það hafi snjóað og allt verið mjög grátt og flughált. Hann kvað hafa virst sem ökumaður leigubifreiðarinnar hefði tekið of seint eftir því að bifreiðin fyrir framan hann hefði verið að hægja á sér.
Hinn maðurinn bar að hafa komið á þennan stað til að aðstoða kunningja sinn. Hann hefði verið nýbúinn að festa kaðal milli bifreiðanna þegar hann hefði heyrt mikinn skell og litið upp. Þá kvaðst hann hafa séð að bifreiðarnar höfðu skollið saman. Hann kvaðst hafa hlaupið að bifreið brotaþola og svo hringt í Neyðarlínuna. Nánar spurður um áreksturinn sjálfan kvað hann mikla umferð hafa verið og mikill snjór hafi verið á veginum. Einnig hafi verið mjög hált en ekki mundi hann hvernig skyggnið hefði verið. Hann kvaðst hafa séð bifreið beygja upp aðreinina að Hádegismóum og þá hafi leigubifreiðin ekki náð að hemla og sveigt yfir á rangan vegarhelming. Þá hefðu bifreiðarnar skollið saman. Hann kvað lítils háttar snjókomu hafa verið um það bil er slysið varð en síðan hefði hún aukist mikið.
Læknir á slysadeild staðfesti vottorð sitt sem að framan var rakið.
Sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, sem gert hefur aðgerðir á brotaþola, staðfesti framangreint vottorð sitt. Hann kvað brotaþola bera umtalsverð varanleg mein vegna slyssins. Framtíðarhorfur nú séu hins vegar óljósar. Hann kvaðst gera ráð fyrir að brotaþoli verði með dagleg óþægindi og hún muni ekki geta unnið hvaða starf sem er. Afleiðingar slyssins muni eiga eftir að há henni í daglegu lífi.
Sálfræðingur, sem brotaþoli leitaði til, staðfesti framangreint vottorð sitt. Hún kvað brotaþola hafa komið til sín 15 sinnum. Helsti vandi brotaþola hafi verið mjög miklir líkamlegir verkir, sorg og depurð yfir því hversu mikil áhrif slysið hefði haft á líf hennar. Slysið muni hafa mjög mikil andleg áhrif á hana til frambúðar. Hún hafi meðal annars þurft að gefast upp við háskólanám.
Lögreglumenn, sem komu á vettvang og ræddu við ákærða og vitni, staðfestu skýrslur sínar.
IV
Hér að framan var gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna og öðrum gögnum sem varða færð og veður þegar slysið varð. Þá eru meðal gagna málsins ljósmyndir sem teknar voru á vettvangi. Öll þessi gögn benda eindregið til hins sama, að færð og veðri hafi verið þannig háttað að gæta átti ýtrustu varkárni við akstur.
Þá var og rakinn hér að framan framburður ákærða og vitna. Sú ályktun verður dregin af framburði þeirra að ákærði hafi ekið út úr hringtorginu við Rauðavatn á um það bil 60 km hraða. Hann hafi tekið eftir bifreiðum utan vegar en ekki tekið eftir bifreið sem ekið var á undan honum í norðurátt fyrr en of seint að hans mati. Til að forðast að aka aftan á þessa bifreið sveigði ákærði til vinstri, yfir á öfugan vegarhelming og lenti þá framan á bifreið brotaþola með þeim afleiðingum sem lýst hefur verið.
Ákærða er gefið að sök að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður og án nægjanlegrar aðgæslu. Eins og veðri og færð var háttað bar ákærða að aka mun hægar en hann gerði og auk þess með meiri eftirtekt. Hann gerði hvorugt og taldi sig ekki hafa önnur ráð en að sveigja yfir á öfugan vegarhelming til að koma í veg fyrir að hann æki aftan á bifreiðina sem ók á undan honum. Með þessu sýndi ákærði af sér saknæmt gáleysi og braut gegn þeim ákvæðum umferðarlaga sem hann er ákærður fyrir að hafa brotið nema hvað hann verður sýknaður af því að hafa brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 4. gr. laganna. Úrlausnir áfrýjunarréttarins undanfarin misseri hafa verið misvísandi um hvort ákvæði þetta sé viðhlítandi refsiheimild eða ekki. Vafann í þessum efnum verður að skýra ákærða í hag, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008, og verður hann því sýknaður af ákærunni hvað þetta varðar. Við áreksturinn slasaðist brotaþoli eins og lýst er í ákæru. Ákærði braut því einnig gegn 219. gr. almennra hegningarlaga eins og hann er ákærður fyrir.
Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur. Refsing hans er hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir.
Eins og rakið var slasaðist brotaþoli mjög mikið í slysinu. Hún mun ævilangt þurfa að glíma við afleiðingar þess eins og grein var gerð fyrir. Miskabótakröfu hennar er í hóf stillt og verður orðið við henni með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ákærða var fyrst birt bótakrafan í þinghaldi 11. janúar síðastliðinn og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns, þóknun fyrri verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola eins og í dómsorði greinir. Laun og þóknanir eru ákveðnar með virðisaukaskatti.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Gunnþór Kristinsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. febrúar 2015 til 11. febrúar 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 36.000 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Atla Más Ingólfssonar hdl., 716.100 krónur, þóknun fyrri verjanda síns, Eiríks Gunnsteinssonar hrl., 327.360 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Erlings Daða Emilssonar hdl., 347.820 krónur.