Hæstiréttur íslands

Mál nr. 704/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Óvígð sambúð
  • Fjárslit


                                     

Föstudaginn 14. desember 2012.

Nr. 704/2012.

K

(Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl.)

gegn

M

(Oddgeir Einarsson hrl.)

Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárslit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi M og K er risið hafði við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna loka óvígðrar sambúðar. Talið var að K hefði hvorki tekist að sýna fram á að hún hefði lagt fram fé til kaupa á íbúðarhúsi, sem var þinglýst eign M, né að hún hefði eftir það greitt af lánum sem tekin voru til kaupa á húsinu. Þrátt fyrir það var talið, með vísan til ýmissa atriða varðandi sambúð og fjármál þeirra, að dæma bæri K 20% hlutdeild í fasteigninni. Bein framlög K til kaupa á sumarhúsi höfðu numið 15% af kaupverði og þótti K því hafa sýnt fram á að með þeim hefði hún öðlast 15% eignarhlutdeild í sumarhúsinu, þótt opinberri skráningu eignarheimildar hefði verið hagað á annan veg. Að öðru leyti var ekki fallist á kröfur K um hlutdeild í eignum M.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Ný gögn bárust réttinum eftir það. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2012, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna loka óvígðrar sambúðar þeirra. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær í fyrsta lagi að fasteignin A komi við opinber skipti til fjárslita milli aðila þannig að 30% eignarinnar komi í hlut hennar og 70% í hlut varnaraðila. Í öðru lagi að aðrar eignir aðila sem til staðar voru við slit óvígðrar sambúðar, það er sumarhús að B, ökutæki og bankainnstæður á beggja nafni komi til skipta milli aðila að jöfnu. Í þriðja lagi að varnaraðili greiði sóknaraðila helming húsaleigukostnaðar hennar á tímabilinu frá mars 2010 til jafnlengdar 2012 eða alls 2.000.000 krónur. Í fjórða lagi að hafnað verði að aðrar eignir eða skuldir verði teknar með við fjárslitin. Í fimmta lagi að kostnaður við fjárslitin verði greiddur af varnaraðila. Þá er gerð krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.

I

Með hinum kærða úrskurði var vísað frá dómi kröfu sóknaraðila um að varnaraðili greiði henni húsaleigukostnað á tímabilinu frá mars 2010 til jafnlengdar 2012. Þá var og vísað frá dómi kröfu hvors aðila um sig um að gagnaðilinn greiddi einn kostnað við fjárslitin. Samkvæmt þessu hefur ekki verið leyst efnislega úr framangreindum kröfum í héraði en af því leiðir að sóknaraðili getur hvoruga kröfuna haft uppi fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði ásamt þeim atriðum sem málsaðilar deila um, málsástæðum þeirra og lagarökum. Eins og þar greinir voru aðilar í óvígðri sambúð í tæp átta ár, en sambúðin mun hafa staðið yfir frá miðju ári 2002 og fram í ársbyrjun 2010, og eignuðust þau tvö börn á sambúðartímanum. Í hinum kærða úrskurði er og lýst eigna- og skuldastöðu málsaðila við upphaf sambúðar, en samkvæmt því sem þar kemur fram átti varnaraðili íbúð að C en sóknaraðili bifreið sem samkvæmt skattframtali árið 2003 var seld fyrir 450.000 krónur.

Meðan á sambúðinni stóð var sóknaraðili ýmist í námi, hlutastarfi eða fullu starfi auk þess að vera í orlofi vegna barnsburðar. Launatekjur hennar á sambúðartímanum voru árið 2002 samtals  2.085.954 krónur, árið 2003 voru þær 1.399.783 krónur, árið 2004 samtals 1.438.493 krónur, árið 2005 voru þær 2.196.494 krónur, árið 2006 voru tekjurnar 340.005 krónur, árið 2007 samtals 402.335 krónur, árið 2008 voru tekjurnar 2.525.670 krónur og árið 2009 voru þær 3.830.233 krónur. Launatekjur varnaraðila árið 2002 voru 3.436.952 krónur, árið 2003 voru tekjur hans 3.558.353 krónur, árið 2004 voru tekjur hans 3.731.467 krónur, árið 2005 voru tekjurnar 3.125.108 krónur, árið 2006 voru þær 3.954.974 krónur, árið 2007 samtals 3.708.922 krónur, árið 2008 voru tekjurnar 4.622.432 krónur og árið 2009 voru þær 5.418.122 krónur. Auk launatekna naut varnaraðili óverulegra fjármagnstekna sum árin.

Meðan á sambúð aðila stóð tók sóknaraðili námslán sem mun hafa runnið til heimilisreksturs aðila. Sóknaraðili lauk námi á árinu 2008 en á sameiginlegu skattframtali aðila ári síðar kemur fram að fjárhæð lánsins hafi við námslok verið 4.136.696 krónur. Sóknaraðili kveður fjárhæð lánsins nú vera um 5.600.000 krónur en fyrir liggur að fjárhæð þess árið 2009 var 4.561.477 krónur. Báðir málsaðilar munu hafa greitt kostnað vegna heimilisreksturs. 

Málsaðilar munu báðir hafa á sambúðartímanum keypt notaðar bifreiðir sem varnaraðili gerði upp og seldar voru, en fyrir liggur að varnaraðili, sem er bifreiðasmiður, mun hafa verið ráðandi í þeim viðskiptum þótt sóknaraðili hafi tekið þátt í þeim að hluta. Þannig má af skattframtölum aðila ráða að á árunum 2002 til 2009 hafi sóknaraðili alls keypt og selt 21 bifreið.  

Við slit sambúðarinnar var varnaraðili einn þinglýstur eigandi raðhússins að A þar sem aðilar héldu sameiginlegt heimili. Varnaraðili skuldar fasteignalán vegna þeirrar fasteignar en fyrir liggur að hann hefur alla tíð greitt afborganir og vexti af láninu en sóknaraðili ekki. Þá var varnaraðili einn þinglýstur eigandi sumarhússins að B en eignin mun því sem næst vera veðbandalaus.

Við lok sambúðarinnar voru aðilar hvort um sig skráðir eigendur tiltekinna ökutækja og bankainnstæðna. Ekki virðist ágreiningur um að sex ökutæki hafi þá verið í eigu málsaðila en þar er um að ræða fjórar bifreiðir og tvö vélhjól. Er sambúðinni lauk var sóknaraðili einn skráður eigandi ökutækisins [...], sem er [...] bifhjól, en varnaraðili einn skráður eigandi ökutækjanna [...], [...], [...], [...], [...] og [...], en þetta er sú ökutækjaeign sem kröfur sóknaraðila taka til. Samkvæmt skattframtölum aðila fyrir árið 2009 námu bankainnstæður sóknaraðila við lok þess árs alls 39.631 krónu en varnaraðila 405.468 krónum. Voru þau samsköttuð tvö síðustu árin sem sambúðin varði, það er skattárin 2008 og 2009.

II

Ágreiningslaust er með málsaðilum að viðmiðunardagur skipta er 1. febrúar 2010. Á þeim degi var varnaraðili eins og áður er fram komið einn þinglýstur eigandi fasteignarinnar að A og sumarhússins að B.

Ekki nýtur við lögfestra reglna um skipti eigna og skulda við slit óvígðrar sambúðar. Á grundvelli dómvenju, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 1. júní 2011 í máli nr. 254/2011 og 11. júní 2008 í máli nr. 302/2008, hefur myndast sú regla, að við slit sambúðar beri að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og sú meginregla þá talin gilda að hvor aðila taki sínar eignir og beri ábyrgð á sínum skuldum. Opinber skráning eigna og þinglýstar eignarheimildir verða lagðar til grundvallar um eignarráðin nema sá, er gerir tilkall til eignarréttar, sem ekki fær samrýmst opinberri skráningu, leiði annað í ljós. Í samræmi við þetta hvílir á sóknaraðila sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi innt af hendi bein og óbein framlög til eignamyndunar á sambúðartímanum og er sönnun í þeim efnum forsenda þess að fallist verði á kröfu hennar um að skipting eigna við samvistarslitin skuli vera á annan veg en eignaskráning ber með sér.

Sóknaraðili hefur hvorki sýnt fram á að hún hafi lagt fram fé til kaupa á íbúðarhúsinu að A á sínum tíma né að hún hafi eftir það greitt af lánum sem tekin voru til kaupa á húsinu. Við úrlausn þess hvort sóknaraðili hafi þrátt fyrir þetta öðlast hlutdeild í þeirri eign, sem koma eigi til skipta milli aðila við fjárslit þeirra, er til þess að líta, sem áður greinir, að sambúð hennar og varnaraðila stóð í átta ár, þau héldu sameiginlegt heimili, áttu sama lögheimili og eignuðust á sambúðartímanum tvö börn. Samkvæmt skattframtölum málsaðila fyrir umrætt tímabil, en framtölin eru opinberar heimildir um tekjur þeirra og þeim skylt að viðlagðri refsiábyrgð að greina þar satt og rétt frá, höfðu þau bæði tekjur á sambúðartímanum. Tekjur varnaraðila voru þó heldur meiri, enda sóknaraðili heimavinnandi hluta sambúðartímans eða í námi. Á hinn bóginn er fram komið að varnaraðili tók námslán á sambúðartímanum og virðist ágreiningslaust að andvirði þess ásamt þeim tekjum sem varnaraðili að öðru leyti hafði varði hún til sameiginlegra þarfa heimilisins, en slíkt hið sama gerði varnaraðili einnig að einhverju marki. Þegar til þessa er litið og það haft í huga að rík fjármálaleg samstaða var með málsaðilum að öðru leyti, meðal annars í sameiginlegum bifreiðaviðskiptum, verður lagt til grundvallar að sóknaraðili hafi sýnt fram á að með framangreindum framlögum hafi hún öðlast hlutdeild í eignamyndun á sambúðartímanum. Hvað íbúðarhúsnæðið að A varðar þykir sú hlutdeild í ljósi atvika málsins hæfilega metin 20%.

 Varnaraðili festi árið 2008 kaup á sumarhúsi að B með kaupsamningi 5. september 2008 og var kaupverð hans 10.000.000 krónur. Það var greitt með nánar tilgreindum þremur skuldlausum bifreiðum, en fyrir liggur að ein þeirra var skráð eign sóknaraðila. Samkvæmt kaupsamningnum um sumarhúsið var virði bifreiðar sóknaraðila 1.500.000 krónur en heildarvirði bifreiðanna þriggja 10.000.000 krónur. Því námu bein framlög hennar til kaupa á sumarhúsinu 15% af kaupverðinu og hefur sóknaraðili samkvæmt því sýnt fram á að með beinum framlögum til kaupanna hafi hún öðlast 15% eignarhlutdeild í sumarbústaðnum, þótt opinberri skráningu eignarheimildar hafi verið hagað á annan veg.

Að öðru leyti er með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar staðfest niðurstaða hans um skiptingu eigna og skulda málsaðila við fjárslit þeirra.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennt er að við fjárslit sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, komi í hlut sóknaraðila 20% eignarhlutdeild í fasteigninni A og 15% eignarhlutdeild í sumarhúsi að B. 

Hinn kærði úrskurður er að öðru leyti staðfestur um annað en málskostnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2012.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 21. desember 2010, var ákveðið að opinber skipti færu fram vegna sambúðarslita málsaðila. Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 23. febrúar 2012, var ágreiningi máls þessa skotið til dómsins.

Dómkröfur sóknaraðila eru:

1.   Að fasteignin A komi við opinber skipti á búi aðila til skipta á milli þeirra þannig að 30% eignarinnar komi í hlut sóknaraðila en 70% í hlut varnaraðila.

2.   Að aðrar eignir aðila sem til staðar voru við slit óvígðrar sambúðar, þ.e. sumarhús að B, ökutækjaeign og bankainnistæður á beggja nafni komi til skipta á milli aðila að jöfnu.

3.   Að skuld á nafni sóknaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna eins og hún var við sambúðarslit komi til skipta á milli aðila að jöfnu.

4.   Að skuld á nafni sóknaraðila við skattstjóra miðað við álagningu í ágúst 2011 komi til skipta á milli aðila að jöfnu.

5.   Að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila helming húsaleigukostnaðar hennar tímabilið mars 2010 – mars 2012, eða alls 2.000.000 kr.

6.   Að hafnað verði að aðrar eignir eða skuldir verði teknar með í skiptin á búi þeirra en fram koma í dómkröfum sóknaraðila.

7.   Jafnframt er gerð krafa um málskostnað úr hendi varnaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Þá krefst sóknaraðili þess að kostnaður við skiptameðferð bús aðila verði greiddur að óskiptu af varnaraðila.

Endanlegar dómkröfur varnaraðila eru:

1.            Að hafnað verði kröfu sóknaraðila um hlutdeild í fasteigninni að A og fasteignin verði talin 100% eign varnaraðila. 

2.            Að hafnað verði kröfu sóknaraðila um hlutdeild í öðrum eignum varnaraðila, þ.e. sumarhúsi að B, ökutækjaeign og bankainnistæðum og þessar eignir teljist 100% í eigu varnaraðila.

3.            Að aðilar, hvor fyrir sig beri ábyrgð á þeim skuldum sem skráðar eru á nafni þeirra ef frá er talin skattaskuld á nafni sóknaraðila.

4.            Að hafnað verði að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila húsaleigukostnað vegna tímabilsins mars 2010 – mars 2012.

5.            Að skuld sóknaraðila við varnaraðila vegna kostnaðar að fjárhæð kr. 75.887 vegna bifreiðagjalda af bifreiðinni [...] verði felld undir skiptin og talin skuld sóknaraðila.

6.            Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Þá krefst sóknaraðili þess að kostnaður við skiptameðferð bús aðila verði greiddur að óskiptu af varnaraðila.

Málið var tekið til úrskurðar 18. október sl.

I

Málsatvik

Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 23. febrúar 2012, var ágreiningi um eftirtalin atriði skotið til dómsins.

1. Hvort skipta eigi öllum eignum sem undir skiptin falla helmingaskiptum eins og konan krefst eða hvort allar skráðar eignir mannsins eigi að koma í hans hlut við skiptin, eins og hann gerir kröfu um og hvort um sig beri ábyrgð á skuldum á sínu nafni, utan skattaskuldar á nafni konunnar sem maðurinn samþykkir að þau beri jafna ábyrgð á.

2.   Hvort skuld konunnar við Lánasjóð íslenskra námsmanna skuli koma undir skiptin sem skuld beggja.

3.   Hvort taka eigi til greina kröfu mannsins á hendur konunni vegna tjóns sem varð á bifreiðinni [...], sem hún hafði afnot af fyrst eftir sambúðarslitin, og kostnaðar vegna bílaleigubíls.

4.   Hvort taka eigi til greina kröfu mannsins á hendur konunni vegna afnota af bifreiðinni [...].

5.   Hvort taka eigi til greina kröfu mannsins um að konan endurgreiði honum kostnað hans vegna þungaskatts og trygginga bifreiðarinnar [...], sem konan hefur umráð yfir.        

Atvik að baki máli eru að málsaðilar hófu sambúð um mánaðamótin apríl-maí 2002 og stóð hún til janúar-febrúar 2010. Aðilar eignuðust tvö börn á sambúðartímanum og kveðst sóknaraðili því hafa verið mun meira heimavinnandi en varnaraðili við umönnun þeirra, auk þess sem hún hafi verið í námi hluta af tímanum. Þar af leiðandi hafi launatekjur sóknaraðila verið lægri en varnaraðila en á námstímanum hafi sóknaraðili tekið námslán sem runnið hafi að óskiptu til framfærslu heimilis aðila og sé sú skuld í dag um 5.600.000 kr. Varnaraðili mótmælir því að námslánin hafi runnið beint til sameiginlegs heimilishalds aðila. Samkvæmt framburði sóknaraðila fyrir dómurinn fór eldra barnið í vistun hálfan daginn 9 mánaða en það eldra í vistun 18 mánaða.

Varnaraðili kveðst hafa átt verulegar eignir þegar aðilar hófu sambúð. Í fyrsta lagi hafi hann stuttu áður, eða þann 27. maí 2001, fengið slysabætur að fjárhæð 9.027.609 kr. Þá hafi hann áður en aðilar hófu sambúð fest kaup á íbúð að C. Íbúðin hafi verið seld fyrir 18.600.000 kr. og hafi varnaraðili fengið 10.000.000 kr. í sinn hlut. Sú fjárhæð hafi gengið upp í raðhús að A, sem keypt hafi verið á 20.500.000 kr. og hafi hann tekið lán að fjárhæð 11.500.000 kr. fyrir eftirstöðvum. Húsið hafi því að öllu leyti verið eign varnaraðila við upphaf sambúðar og bendi engin gögn til þess að sóknaraðili hafi með einhverjum hætti komið að fjármögnun eignarinnar eða greiðslu áhvílandi lána.

Sóknaraðili kveður aðila hafa staðið fyrir umfangsmiklum bifreiðaviðskiptum á sambúðartímanum einkum að frumkvæði varnaraðila en með þátttöku sóknaraðila sem oftar en ekki hafi verið skráður eigandi, tryggingataki og annað sem til hafi þurft vegna viðskiptanna. Tekjur aðila vegna þessa hafi verið töluverðar og hafi sóknaraðili litið svo á sem þær væru sameiginlegar, en þessar tekjur hafi ekki verið taldar fram til skatts.

Undir meðferð málsins var aflað mats dómkvadds matsmanns á verðmæti ökutækjanna sem að kröfur sóknaraðila varða, þ.e. [...],[...],[...],[...],[...] og [...]. Samtals eru ökutækin metin á 12.750.000 kr. á viðmiðunardegi skipta þann 1. febrúar 2010. Var varnaraðili skráður eigandi þeirra allra nema [...] sem er [...] mótor hjól sem skráð er eign sóknaraðila og [...] sem sömuleiðis var skráð eign sóknaraðila til febrúar 2008. Samtals verðmæti þessara ökutækja var metið á 2.750.000 kr.

Varnaraðili telur það ekki rétt að sóknaraðili hafi tekið mikinn þátt í bifreiðaviðskiptum varnaraðila og hafi lagt fram fé í einhverjum tilvikum til kaupa á bifreiðum. Varnaraðili kveðst fyrst og fremst hafa verið í bifreiðaviðskiptum á eigin kennitölu og hafi hann í öllum tilvikum séð um að greiða seljendum bifreiða og hafi að sama skapi tekið við greiðslum þegar umræddar bifreiðar voru seldar. Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á þessi framlög sóknaraðila til bifreiðakaupa.

Sóknaraðili kveður aðila haustið 2008 hafa fest kaup á sumarhúsi að B og hafi það verið að fullu greitt með bifreiðaeign aðila svo sem kaupsamningur beri með sér. Við samvistaslitin hafi aðilar átt alls 6 bifreiðar og ökutæki og sé ein bifreiðin enn í vörslu sóknaraðila en hin hafi verið áfram í vörslu varnaraðila sem hafi síðan selt þrjú af þessum ökutækjum, en ekki viljað leggja fram gögn við skiptameðferðina til að sýna söluverð þeirra.

II

Málsástæður sóknaraðila og lagarök

Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að málsaðilar hafi með áralangri sambúð og gagnkvæmu framlagi til reksturs heimilis aðila og eignarmyndunar, eignast að jöfnu þær eignir sem voru til staðar í búi aðila við samvistaslitin í lok janúar 2010. Aðilar hafi haft sameiginlegt fjárfélag allan sambúðartímann, enda rekið saman heimili og annast umönnun og framfærslu barna og því eigi sömu skiptareglur að eiga við í búi þeirra og ef þau hefðu verið í hjónabandi. Þá eigi sóknaraðili rétt á að fá helming af skýrri eign varnaraðila við samvistaslitin á grundvelli dómstólamyndaðrar reglu um gagnkvæma hlutdeild í eignamyndun á sambúðartíma, jafnvel þótt eignirnar hafi ekki verið skráðar á hennar nafn við samvistaslitin.

Sóknaraðili byggir á því að fasteign aðila að A eigi að skiptast í hlutföllunum 30/70 þannig að meirihluti eignarinnar komi í hlut varnaraðila þar sem hann hafi átt íbúð þegar aðilar hófu sambúð og eignarhluti hans í þeirri íbúð runnið til greiðslu á hluta kaupverðs A. Við útreikning á þeim eignahlutföllum miði sóknaraðili við að eignin sé í dag 37.500.000 kr. virði skv. framlögðu verðmati og að hluti kaupverðs eignarinnar hafi verið fjármagnaður með eign sem varnaraðili átti við upphaf sambúðar aðila.

Jafnframt sé á því byggt að ekkert liggi fyrir í málinu sem hnekki þeirri málsástæðu sóknaraðila að eftirstöðvar eignarinnar hafi verið fjármagnaðar af aðilum að jöfnu, enda hafi þau verið sambúð þegar eignin var keypt og allt fram í ársbyrjun 2010. Vegna tímalengdar sambúðar aðila og vegna þess að þau áttu saman tvö börn á sambúðartímanum og höfðu sameiginlegt fjárfélag þess vegna, er byggt á því af hálfu sóknaraðila að séreign varnaraðila við upphaf sambúðar hafi verið nægilega mætt með þeim skiptahlutföllum sem sóknaraðili geri kröfu um.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um að fasteignin að A skiptist að jöfnu milli aðila á því að ekkert liggi fyrir í gögnum málsins sem staðfesti fullyrðingu varnaraðila um að hann hafi einn fjármagnað kaupin. Fyrir liggi að kaupverðið hafi verið greitt með þremur bifreiðum en tvær þeirra virðist hafa verið fluttar inn gagngert til kaupanna, enda voru þær verið afhentar seljanda strax eftir innflutning en þriðja bifreiðin hafi verið eign varnaraðila skv. opinberum skrám. Sóknaraðili byggir á því að miða eigi verðmæti eignarinnar við kaupverðið, frá september 2008, enda liggi annað verðmat ekki fyrir í málinu og auk þess hafi varnaraðili upplýst við skiptameðferðina að verðmætaaukning hafi orðið í eigninni eftir kaupin vegna endurbóta á henni. Í því sambandi sé bent á að varnaraðili hafi haldið því fram kostnaður við þær framkvæmdir hafi verið allt að 3.500.000 kr. með því að hann hafi tekið lán hjá afa sínum fyrir þeim framkvæmdum. Þó ekki sé fallist á það af hálfu sóknaraðila að það lán sé til staðar í búi aðila, þá megi byggja á fullyrðingum varnaraðila um kostnað við meintar framkvæmdir um þetta atriði.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um að bifreiðaeign aðila skiptist milli þeirra að jöfnu á því að engin gögn liggi fyrir um að varnaraðili hafi einn fjármagnað kaup ökutækjanna. Hið sama eigi við um bankainnistæður aðila við sambúðarslit enda hafi aðilar verið með sameiginlegt fjárfélag, hafi verið samsköttuð og átt saman tvö börn á sambúðartímanum, auk þess að vinna báðir utan heimilis.

Krafa sóknaraðila um að skattaskuld aðila sem álögð var þann 1. ágúst 2010 skiptist á milli aðila að jöfnu byggist á því að þau beri sameiginlega ábyrgð á skattskuldum vegna samsköttunar samkvæmt skattalögum.

Krafa sóknaraðila um að skuld vegna námslána skiptist á milli aðila að jöfnu er byggð á því að námslánin hafi verið tekin til framfærslu fjölskyldunnar á sambúðartíma og hafi þau runnið óskipt til greiðslu heimilisútgjalda.

Sóknaraðili byggir á því að kostnaður hennar vegna húsaleigu frá samvistaslitum eigi að skiptast á milli aðila að jöfnu þar sem sóknaraðili hafi þurft að leigja sér húsnæði á 120.000 kr. á mánuði á sama tíma og varnaraðili hafi nýtt fasteignina að A til búsetu. Fasteignin að A sé í eigu beggja aðila á grundvelli reglu um hlutdeild í eignamyndun á sambúðartíma og því eigi sóknaraðili rétt á að fá annað hvort greiðslu frá varnaraðila vegna leigu hennar á húsnæði á öðrum stað, eða endurgjald fyrir óskipt afnot hans af þeirra fasteign.

Um lagarök vísar sóknaraðili til 100. gr. skiptalaga og til fordæmis um gagnkvæma hlutdeild í eignamyndun á sambúðartíma auk þess sem vísað sé til almennra reglna kröfuréttarins um stofnun og greiðslu kröfu. Varðandi kröfu um málskostnað vísar sóknaraðili til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Málsástæður varnaraðila og lagarök

1. Fjármunamyndun á sambúðartíma

Varnaraðili telur að hafna eigi öllum kröfum sóknaraðila á þeim grundvelli að engin fjármunamyndun hafi orðið á sambúðartíma aðila. Staðreyndin sé sú að varnaraðili hafi við upphaf sambúðar átt töluvert meiri eignir en við lok sambúðar. Það megi sjá í fyrsta lagi af staðfestingu um móttöku slysabóta, þar sem varnaraðili hafi fengið 8.467.680 krónur í sinn hlut vegna slyss sem hann varð fyrir áður en hann hóf sambúð með sóknaraðila. Þá hafi hann verið eigandi fjölmargra bifreiða við upphaf sambúðar, en löggiltur bifreiðasali hafi verðmetið bifreiðaeign varnaraðila á 23.350.000 krónur. Þá hafi varnaraðili átt húseign að C, við upphaf sambúðar, en við sölu á eigninni hafi hann fengið um 10.000.000 króna í sinn hlut. Samtals hafi eignastaða varnaraðila því verið jákvæð um 41.817.680 krónur við upphaf sambúðar. 

Við sambúðarslit hafi varnaraðili verið eigandi að fasteigninni að A. Miðað við mat fasteignasala á fasteigninni sé um 18 milljóna eign í húsnæðinu. Þá sé ekki tekið tillit til þeirra fjármuna sem notaðir hafi verið til þess að gera húsnæðið upp en þeir hafi alfarið komið frá varnaraðila. Þá sé sumarbústaður að B að verðmæti um 5.650.000 kr. ef miðað sé við fasteignamat. Við sambúðarslit sé varnaraðili því eigandi að fjármunum sem séu í hæsta lagi um 28.650.000 króna. Hafi eignir hans því dregist saman sem nemur tæpum 13 milljónum króna. Af því leiði að engin fjármunamyndun hafi orðið á sambúðartímanum. Því beri að hafna beri kröfu sóknaraðila þar sem það sé skilyrði þess að sambúðarmaki fái hlutdeild í eignum að eignir hafi aukist á sambúðartíma. 

2. Fasteignin að A

Varnaraðili telji að krafa sóknaraðila um 30% eignarhlutdeild í fasteigninni að A sé byggð á grundvallarmisskilningi á því hvernig farið sé með fjárskipti milli aðila í óvígðri sambúð.

                Við fjárskipti milli aðila í óvígðri sambúð séu grunnviðhorfin þau að við skiptin eigi maki rétt á hlutdeild í þeirri fjármunamyndun er orðið hafi á sambúðartímanum, með tilliti til framlaga hvors um sig til eignanna. Hvor aðili um sig geti því öðlast hlutdeild í eignamyndun ef til staðar séu framlög hins aðilans til viðkomandi eignar, með beinum peningagreiðslum, vinnu, lánsfé, afborgunum af lánum, með yfirtöku skulda eða með öðrum sambærilegum hætti.

Til þess að sóknaraðili teljist eiga hlutdeild í fasteigninni að A þurfi með einhverjum hætti að sýna fram á að hún hafi stuðlað að þeirri eignamyndun sem varð á sambúðartíma. Óumdeilt sé að varnaraðili keypti umrædda fasteign að hluta til með fjármunum sem fengust við sölu á íbúð að C, sem var eign varnaraðila fyrir sambúðartíma aðila. Sóknaraðili hafi aldrei haldið því fram að hún hafi veitt fjármunum til kaupa á eigninni. Þá komi fram í kaupsamningi um fasteignina að sérstaklega sé gert ráð fyrir í greiðslutilhögun að greiðslur berist seljanda eignarinnar eftir að íbúð að C selst. Auk greiðslu á 10.000.000 kr. í reiðufé hafi varnaraðili tekið lán hjá Íbúðalánasjóði fyrir eftirstöðvum kaupverðs að fjárhæð 11.500.000 kr. Varnaraðili hafi alla tíð greitt af umræddu láni, og einnig öll gjöld sem tengjast fasteigninni. Ekkert bendi því til þess að sóknaraðili hafi komið að fjármögnun eignarinnar.

Varnaraðili telur að vinna sóknaraðila á heimili aðila geti ekki leitt til þess að henni beri hlutdeild í fasteigninni. Til þess beri að líta að varnaraðili hafi ekki verið heimavinnandi húsmóðir allan þann tíma sem aðilar bjuggu saman. Þá hafi sóknaraðili verið í háskólanámi frá því haustið 2002 og fram til vorsins 2008 þegar hún hafi lokið námi. Sóknaraðili einn hafi notið góðs af þeirri vinnu og njóti enn. Varnaraðili eigi ekki að bera hallann af því að vera með hærri laun á sambúðartíma en sóknaraðili. Sóknaraðili hafi aldrei þurft að greiða leigu vegna veru sinnar í fasteigninni að A, varnaraðili hafi séð um nær öll útgjöld sem tengdust heimilisrekstri, matarinnkaup, fatakaup, bensínkostnað o.fl., auk þess sem jafnræði hafi verið með aðilum hvað vinnu við heimili og börn varði. Varnaraðili hafi greitt töluvert meira til heimilisins en sóknaraðili enda hafi hann verið með mun hærri laun. 

Af kaupsamningi um eignina megi einnig sjá að húsið var fokhelt þegar það var keypt og átti því eftir að eyða umtalsverðum fjármunum í að fullgera það. Það gerði varnaraðili með þeim slysabótum sem hann fékk og sjálfsaflafé. Útlagðan kostnað megi sjá að hluta af reikningsyfirlit varnaraðila hjá Húsasmiðjunni. Sóknaraðili hefur aldrei haldið því fram að hafa veitt nokkurt fé til umræddrar húseignar. Löglíkur séu því fyrir því að varnaraðili hafi lagt út fyrir umræddum framkvæmdum enda sé hann skráður eigandi hússins.

Fari svo ólíklega að sóknaraðili teljist eiga einhverja hlutdeild í fasteigninni telur varnaraðili að sú hlutdeild skuli vera töluvert minni, á bilinu 5-10% hið mesta. Varnaraðili mótmælir einnig því verðmati sem sóknaraðili leggur til grundvallar. Það verðmat miði við verðmæti húsnæðisins í dag en ekki við verðmæti húsnæðisins við sambúðarslit. Verðmat miði við verðmætið um það leyti sem aðilar slíta sambúð sinni og sé að fjárhæð 34.000.000 kr. Þegar verðmat dags. 15. febrúar 2010 sé borið saman við verðmat, dags 20. mars 2011, sem sóknaraðili vilji miða við, megi sjá að í fyrra verðmatinu komi fram að lokafrágang vanti að innan, en engir slíkir vankantar séu á fasteigninni í síðara verðmatinu. Það sýni að varnaraðili hefur unnið við endurbætur á húsnæðinu eftir sambúðarslit og eigi sú verðhækkun á húsnæðinu ekki að koma sóknaraðila til góða þegar verð húsnæðisins sé metið.

3. Sumarbústaður að B

Varnaraðili telur engin rök hníga að þeirri niðurstöðu að sóknaraðila beri hlutdeild í sumarbústað sem er skráð eign varnaraðila. Sumarbústaðurinn hafi allt frá kaupdegi verið þinglýst eign varnaraðila og hafi kaupverðið verið greitt af honum með bifreiðunum, [...], [...] og [...]. Sóknaraðili hafi ekki komið að fjármögnun bifreiðanna heldur hafi það verið varnaraðili sem sá um fjármögnun þeirra. Nauðsynlegt hafi verið að ráðast í endurbætur á bústaðnum og hafi varnaraðili bæði séð um að framkvæma endurbætur og leggja út fyrir þeim. Vísað sé yfirlits yfir efniskostnað varnaraðila hjá Húsasmiðjunni frá 2003 til 2011. Sumarbústaðurinn hafi verið keyptur 5. september 2008 og sé efniskostnaður frá þeim tíma að stærstum hluta vegna hans.

Ekki nægi að verðmætaaukning hafi orðið á sambúðartíma. Sóknaraðili þurfi að hafa átt einhvern þátt í þeirri fjármunaaukningu, en ekkert bendi til þess að svo sé i tilviki sóknaraðila.

                Umræddur sumarbústaður hafi verið keyptur rétt fyrir hið svokallaða bankahrun og hafi verð á sumarbústöðum á þeim tíma verið í hæstu hæðum. Varnaraðili telji því að verðmat sóknaraðila sé langtum hærra en raunverðmæti eignarinnar í dag. Verði talið að sóknaraðila beri einhver hlutdeild í sumarbústaðnum eigi að miða við töluvert lægri upphæð en gert sé í málatilbúnað sóknaraðila. Í því sambandi sé vísað til kaupsamnings, dags. 10. maí 2010, þar sem sumarbústaður á sama svæði og af svipaðri stærð og bústaður varnaraðila er, er seldur á 4.750.000 kr. Þá megi benda á að fasteignamat á fasteigninni sé samtals 5.657.000 kr. Varnaraðili telji að miklu fremur skuli miða við þá fjárhæð en 10.000.000 kr. sem sé langt yfir verðmæti fasteignarinnar.

4. Bifreiðaeign varnaraðila

Sóknaraðili krefjist þess að bifreiðaeign aðila við slit óvígðrar sambúðar komi til skipta á milli aðila að jöfnu. Afar óljóst sé af greinargerð sóknaraðila hvaða bifreiðar sóknaraðili eigi við enda séu þær ekki sérstaklega nefndar í greinargerð. Varnaraðili telji að skipta eigi bifreiðaeign með þeim hætti að fara eigi eftir opinberri eignarskráningu í bifreiðaskrá. Sóknaraðili haldi því þeim bifreiðum sem skráðar séu á hana og varnaraðili haldi þeim bifreiðum sem skráðar séu á hann. Það séu enda engin gögn sem bendi til þess að sóknaraðili hafi lagt nokkuð fram til fjármögnunar þeirra bifreiða sem skráðar séu á varnaraðila og öfugt.

Ef miða eigi við þau gögn sem liggja fyrir og stafa frá skiptastjóra má sjá að kröfur sóknaraðila virðast varða sex tilgreinar bifreiðar, [...], [...], [...], [...], [...] og [...].

Þrátt fyrir að dómkvatt mat muni fara fram á umræddum bifreiðum sé nauðsynlegt að fjalla um hverja bifreið fyrir sig. Bifreiðin [...] hafi verið flutt til landsins, mikið skemmd og sé bíllinn ónýtur sbr. ljósmyndir. Engin verðmæti séu í umræddri bifreið. Bifreiðin [...] hafi verið keypt á 571.000 kr. þann 5. desember 2009 og hafi eingöngu fallið í verði síðan þá. Bifreiðin [...] hafi verið keypt á bílasamningi frá Lýsingu sem varnaraðili greiddi af alla tíð. Til þess að losna við bifreiðina hafi varnaraðili greitt 346.977 kr. til þess að losna undan umræddum bílasamningi. Þetta megi sjá af dskj. nr. 43 þar sem bæði komi fram að varnaraðili var skráður greiðandi á bílasamninginn, hann greiddi allar greiðslur og þurfti að lokum að greiða með umræddum bíl til þess að ná að losna við hann. Bifreiðin [...] hafi verið keypt á 1.417.470 kr. og hafi eingöngu fallið í verði síðan. Bifreiðin [...] hafi verið keypt á 555.000 kr. þann 9. janúar 2009 og hafi eingöngu fallið í verði síðan þá. Bifreiðin [...] sé ónýt og verðlaus, sbr. ljósmynd.

         Ítreka verði að aðilar voru ekki giftir og gildi því helmingaskiptaregla hjúskaparréttar ekki um skiptin. Allt bendi því til þess að varnaraðili eigi þær bifreiðar sem skráðar séu á hann, enda veiti opinber eigendaskráning í bifreiðaskrá líkindi fyrir því. Ef önnur eigendahlutföll séu til staðar í raun og veru sé það sóknaraðila að sýna fram á það með raunverulegum gögnum.

5. Inneign á bankareikningi

Varnaraðili telji engin rök leiða til þess að sóknaraðili eigi að fá hlutdeild í bankainnistæðu hans við sambúðarslit. Enn virðist sóknaraðili byggja á helmingaskiptareglu hjúskaparréttar sem eigi ekki við um aðila í óvígðri sambúð. Sóknaraðili hafi ekkert gert til þess að sýna fram á að hún hafi stuðlað að fjármunasöfnun varnaraðila á reikningi hans.

6. Skuld sóknaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna

Varnaraðili telur engin rök leiða til þess að hann eigi að bera ábyrgð á skuld sóknaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ekki hafi verið sýnt fram á að umrætt lán hafi nýst varnaraðila með nokkrum hætti og verði því að álykta að það hafi fyrst og fremst verið notað í einkaneyslu sóknaraðila. Meginregla skiptaréttar sé að hvor aðili fyrir sig ber ábyrgð á þeim skuldum sem á honum hvíla. Af greinargerð sóknaraðili virðist sem hún telji að varnaraðila beri að sanna að umræddir fjármunir hafi ekki runnið til framfærslu fjölskyldu aðila. Það telur varnaraðili vera misskilning, enda hafi hann ekki undir höndum færsluyfirlit sóknaraðila. Af því ætti að vera hægt að sjá í hvað þessi námslán fóru. Það sé því sóknaraðila nær að leggja fram þær upplýsingar.

7. Krafa um húsaleigu/afnot af A

Sóknaraðili telji enga ástæðu til þess að honum beri að greiða varnaraðila helming húsaleigu hennar eða annars einhvers konar leigu vegna afnota sinna af A. Engin gögn hafi verið lögð fram um umrædda húsaleigu. Óljóst sé af hverju gerð sé krafa um að varnaraðili greiði helming húsaleigu þegar eingöngu sé gerð krafa um 30% eignarhlutdeild í fasteigninni að A. Vísað sé til þeirra ástæðna sem raktar hafa verið til stuðnings því að sóknaraðili eigi engar kröfur vegna fasteignarinnar. Þær leiði til þess að hún eigi því síður kröfu gagnvart varnaraðila vegna húsaleigu á þessum tíma. Grundvöllur kröfunnar sé því enginn.

         Fari svo að viðurkennd verði hlutdeild sóknaraðila í fasteigninni að A þá muni hún fá þá fjármuni sem henni beri vegna fasteignarinnar að fullu greidda. Yrði einnig greidd einhvers konar leiga frá varnaraðila til sóknaraðila fyrir afnot af hennar eignarhluta í fasteigninni væri hún þar með að tvíkrefja sóknaraðila.

Krafan sé engum gögnum studd, hvorki hvað varðar þá leigu sem hún hefur greitt né hvað sé eðlilegt leiguverð fyrir A. 

8. Krafa um greiðslu bifreiðagjalda og trygginga á bifreiðinni [...]

Fari svo að sóknaraðili teljist eiga einhverja kröfu á varnaraðila sé þess krafist að útlagður kostnaður varnaraðila vegna bifreiðar sem hafi verið í notkun og í umráðum sóknaraðila, [...] verði felld undir skiptin og teljist til skulda sóknaraðila. Fjárhæð kröfunnar sé samtals 75.887 kr.

Varnaraðili byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar, m.a. um gjafir og skuldbindingargildi samninga. Þá byggir hann kröfur sínar einnig á meginreglum hjúskaparréttar, er varða fjárskipti í lifanda lífi við slit óvígðrar sambúðar.

Varðandi kröfu um málskostnað vísar varnaraðili til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir varnaraðili á ákvæðum laga nr. 50/1988, en sóknaraðili þessa máls sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi varnaraðila.

IV

Niðurstaða

Aðilar hófu sambúð í apríl-maí 2002 og slitu henni um mánaðamótin janúar- febrúar 2010. Á sambúðartímanum eignuðust þau tvö börn sem fædd eru í júlí 2003 og janúar 2005. Liggur fyrir að sóknaraðili var heimavinnandi fyrstu misserin eftir fæðingu þeirra eða þar til að þau fóru í vistun utan heimilis. Þá liggur fyrir að sóknaraðili stundaði háskólanám í 4 ár á sambúðartímanum. Kveðst sóknaraðili hafa stundað hlutavinnu með námi en að eftir námslok, eða frá árinu 2008 hafa verið í fullri vinnu. Sóknaraðili kveður launatekjur sínar þar af leiðandi hafa verið lægri en varnaraðila. Námslán sem að hún hafi tekið, en skuld vegna þeirra sé í dag um 5.600.000 krónur, hafi runnið til heimilisins. Sóknaraðili kveðst við upphaf sambúðar hafa átt bifreið að andvirði u.þ.b. 400.000 krónur og skuldað u.þ.b. 200.000 krónur. Um tekjur aðila á sambúðartímanum nýtur ekki annarra gagna en skattframtala 2009 og 2010, en þau ár voru þau samsköttuð. Voru tekjur sóknaraðila árið 2008 skv. skattframtali 2009 samtals 2.525.670 kr. en varnaraðila 4.622.432 kr. Tekjur varnaraðila árið 2009 voru skv. skattframtali 2010 samtals 5.418.122 kr. Sóknaraðili kveður námslán og þær tekjur sem hún hafi haft á sambúðartímanum hafa farið í að kaupa mat og annað sem þurft hafi til heimilisins. Þá kveðst hún hafa haft tekjur af bifreiðaviðskiptum, en hún hafi ekki lagt fé til þeirra.

Fyrir liggur að varnaraðili átti íbúð að C við upphaf sambúðar. Óumdeilt er að varnaraðili fékk við sölu íbúðarinnar 10.000.000 kr. í sinn hlut og að sú fjárhæð rann til kaupa fokheldu raðhúsi við A, sem keypt var á 20.500.000 kr. Þá tók varnaraðili lán að upphæð 11.500.000 kr. til að fjármagna kaupin á húsinu og hefur hann einn greitt afborganir af láninu. Varnaraðili er einn þinglesinn eigandi hússins.

Fyrir liggur að varnaraðili fékk þann 27. maí 2001, eða u.þ.b. ári áður en aðilar hófu sambúð, greiddar slysabætur að fjárhæð 9.027.609 kr. og kveðst hann hafa komið með þá fjármuni inn í sambúðina. Heldur varnaraðili því fram að þessum fjármunum hafi hann ráðstafað til að fullgera húsið en þær framkvæmdir hafi hann einnig greitt með launatekjum sínum. Þá kveðst varnaraðili hafa unnið ásamt iðnaðarmönnum að standsetningu hússins.

Varnaraðili kveðst þannig hafa komið með eignir að verðmæti u.þ.b. 20.000.000 kr. inn í sambúðina. Nettóeign búsins sé nú minni og því hafi engin eignamyndun átt sér stað á sambúðartímanum.

Ágreiningslaust er með aðilum að bæði hafi greitt kostnað vegna heimilisrekstursins, en varnaraðili hafi greitt til muna meira enda tekjuhærri.

 Við úrlausn málsins ber að líta til þess að samkvæmt íslenskum rétti er ekki gagnkvæm framfærsluskylda milli sambúðarfólks. Er þannig litið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og fer um fjármál þeirra eftir almennum reglum fjármálaréttarins. Er það því megin regla að við slit óvígðrar sambúðar taki aðili þau verðmæti sem hann á og bera aðilar sönnunarbyrði fyrir annarri skipan mála.

Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili stóð alfarið einn að kaupum á raðhúsinu að A, sem hann er einn þinglesinn eigandi að.

Sóknaraðili ber sönnunarbyrði fyrir því að eignarhald að A hafi verið annað en eignaskráning ber með sér, en að áliti dómsins hefur sóknaraðili ekki hnekkt þeirri málsástæðu varnaraðila að hann hafi einn staðið að kaupum hússins og ennfremur einn fjármagnað þær endurbætur sem fram fóru síðar á eigninni ásamt því að greiða afborganir áhvílandi lána og skatta og aðrar skyldur af eigninni.

Þá hefur sóknaraðili ekki fært fram nein gögn um að hún hafi lagt fé til kaupa, né standsetningar, á sumarhúsinu að B sem varnaraðili er einn þinglesinn eigandi að.

Þá hefur sóknaraðili, sem kveðst hafa haft töluverðar tekjur af bifreiðaviðskiptum, engin gögn fært fram því til stuðnings að hún hafi fjármagnað kaup á bifreiðum eða tekið þátt í fjármögnun þeirra

Þá hefur sóknaraðili engin gögn lagt fram um að hún hafi átt þátt í myndun bankainnistæðna.

Þegar framangreind atvik og hagir aðila eru virtir í heild þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi gögnum og gegn andmælum varnaraðila að hún hafi stuðlað að sameiginlegri eignamyndun á sambúðartímanum.

Samkvæmt framanröktu er það niðurstaða dómsins að allar eignir skráðar á varnaraðila komi í hans hlut við skiptin og að hvort um sig beri ábyrgð á skuldum á sínu nafni að skattaskuldinni frátalinni en varnaraðili er samþykkur skiptingu þeirrar skuldar.

Samkvæmt því verða teknar til greina kröfur varnaraðila um að hafnað verði kröfu sóknaraðila um hlutdeild í fasteigninni að A og fasteignin verði talin 100% eign varnaraðila og að hafnað verði kröfu sóknaraðila um hlutdeild í öðrum eignum varnaraðila, þ.e. sumarhúsi að B, ökutækjaeign og bankainnistæðum og þessar eignir teljist 100% í eigu varnaraðila.

Þá er hafnað kröfu sóknaraðila um að skuld á nafni sóknaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna eins og hún var við sambúðarslit komi til skipta á milli aðila að jöfnu.

Einnig er hafnað kröfum sóknaraðila um að ökutækjaeign og bankainnistæður á beggja nafni komi til skipta á milli aðila að jöfnu.

Tekin er til greina krafa sóknaraðila um að skattaskuld á nafni sóknaraðila við skattstjóra miðað við álagningu í ágúst 2011 komi til skipta á milli aðila að jöfnu en varnaraðili er samþykkur þeirri kröfu.

          Í máli þessu verður ekki tekin afstaða til annarra ágreiningsefna en þeirra sem skipta­stjóri vísaði til dómsins með bréfi sínu dags. 15. maí 2008, sbr. 3. tl. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991.

          Verður þegar af þeirri ástæðu að vísa frá dómi kröfu varnaraðila um að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila húsaleigukostnað vegna tímabilsins mars 2010 til mars 2012, eða alls. 2.000.000 kr.

          Af sömu ástæðu verður að vísa frá dómi kröfu varnaraðila um að skuld sóknaraðila við varnaraðila vegna kostnaðar að fjárhæð. 75.887 kr. vegna bifreiðagjalda af bifreiðinni NE-247 verði felld undir skiptin og talin skuld sóknaraðila.

          Þá verður af sömu ástæðu að vísa frá dómi kröfum aðila varðandi skiptakostnað.

          Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

          Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu sóknaraðila um hlutdeild í fasteigninni A.

Hafnað er kröfu sóknaraðila um hlutdeild í  sumarhúsi að B, ökutækjaeign á nafni varnaraðila og bankainnistæðum á hans nafni.

Tekin er til greina krafa sóknaraðila um að skuld á nafni sóknaraðila við skattstjóra miðað við álagningu í ágúst 2011 komi til skipta á milli aðila að jöfnu.

          Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila um að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila húsaleigukostnað vegna tímabilsins mars 2010 til  mars 2012.

          Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila um að skuld sóknaraðila við varnaraðila vegna kostnaðar að fjárhæð 75.887 kr. vegna bifreiðagjalda af bifreiðinni [...] verði felld undir skiptin og talin skuld sóknaraðila.

          Vísað er frá dómi kröfum aðila varðandi skiptakostnað.

Málskostnaður fellur niður.