Hæstiréttur íslands
Mál nr. 401/1999
Lykilorð
- Lánssamningur
- Skjal
|
|
Fimmtudaginn 10. febrúar 2000. |
|
Nr. 401/1999. |
Ólafur Gunnar Grímsson(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) gegn Patcharee Raknarong (Kristinn Ólafsson hrl.) |
Lánssamningur. Skjal.
Ó hélt því fram að hann hefði gert lánssamning við P og hefði hún tekið að sér að endurgreiða honum tilgreinda fjárhæð. P neitaði að hafa fengið fé að láni hjá Ó og kvaðst ekki hafa undirritað umræddan lánssamning. Ekki lá fyrir frumrit lánssamningsins, sem var á thailensku, heldur einungis ljósrit hans og þýðingar á ensku og íslensku. Var talið að skjalið væri verulegum annmörkum háð sem lánssamningur, auk þess sem það færi í bága við 1. mgr. 13. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að skjalið væri ekki lagt fram í frumriti. Fyrir lá yfirlýsing meintra votta skjalsins þess efnis að þeir hefðu hvorki séð né undirritað lánssamninginn og var yfirlýsingin staðfest með áritun staðbundinna yfirvalda í Thailandi. Var ekki talið að Ó hefði, gegn eindregnum andmælum P, tekist að sanna að hann hefði lánað henni umrædda fjármuni. Var niðurstaða héraðsdóms um að sýkna P af kröfum Ó staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. september 1999. Hann krefst þess, að stefnda verði dæmd til að greiða sér 595.945 krónur, jafnvirði 350.000 thailenskra bath, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eftir uppsögu héraðsdóms óskaði áfrýjandi þess með bréfi til lögreglunnar í Reykjavík 28. september 1999, að fram færi opinber rannsókn á því, hvort stefnda hefði ranglega synjað fyrir að hafa tekið við peningaláni úr hendi áfrýjanda og hvort eiginmaður hennar hefði sem vitni borið ranglega fyrir héraðsdómi í þessu máli og eftir atvikum að beiðni hennar. Þá var óskað rannsóknar á því, hvort nafnritun stefndu á thailenskt skuldaskjal frá 19. febrúar 1991 væri fölsuð. Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til lögmanns áfrýjanda 8. desember 1999 var frá því greint, að rannsóknargögn þættu ekki gefa tilefni til frekari aðgerða og væri málið því látið niður falla. Lögmaðurinn kærði þessa ákvörðun lögreglustjóra til ríkissaksóknara 5. janúar 2000 með vísun til 114. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ekki nýtur gagna í málinu um afstöðu ríkissaksóknara, en áfrýjandi leggur fyrir Hæstarétt lögregluskýrslur, sem í nóvember 1999 voru meðal annars teknar af aðilum málsins og eiginmanni stefndu.
II.
Áfrýjandi reisir kröfugerð sína á hendur stefndu á því, að hún hafi með lánssamningi frá 19. febrúar 1991, sem í raun hafi verið gerður munnlega í desember 1990, tekist þá skyldu á herðar að endurgreiða sér 350.000 thailensk bath. Því er haldið fram, að með þessum samningi hafi áfrýjandi lánað stefndu og eiginmanni hennar fé til þess að kaupa bifreið, sem skráð hafi verið á nafn stefndu. Hún neitar því hins vegar eindregið að hafa fengið fé að láni hjá áfrýjanda og að hafa ritað nafn sitt á kröfuskjalið. Er tildrögum þessa ágreinings nánar lýst í héraðsdómi.
Áfrýjandi hefur ekki lagt fram frumrit hins umdeilda lánssamnings heldur einungis ljósrit hans og enska og íslenska þýðingu skjalsins. Af þessum þýðingum og að nokkru leyti ljósritinu er sýnt, að skjalið er verulegum annmörkum háð sem lánssamningur, þar á meðal um fyrirkomulag endurgreiðslu og vexti. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er skýrlega kveðið á um það, að dómskjöl skuli lögð fram í frumriti, séu þau tiltæk. Áfrýjandi hefur engar haldbærar skýringar gefið á því, hvers vegna frumrit lánssamningsins hafi ekki verið lagt fram í dómi eða hvar það kunni að vera niður komið. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing meintra votta skjalsins þess efnis, að þeir hafi hvorki séð lánssamninginn né undirritað hann. Þessi yfirlýsing er staðfest með áritun staðbundinna yfirvalda í Thailandi, þar sem aðilar málsins dvöldust á umræddum tíma, en áfrýjandi hefur mótmælt réttmæti þessa skjals. Gegn eindregnum andmælum stefndu verður ekki talið, að áfrýjanda hafi við svo búið tekist að sanna, að hann hafi lánað henni þá fjármuni, sem greindir eru í ljósritinu. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum áfrýjanda.
Eftir atvikum þykir rétt að láta málskostnað í héraði falla niður. Áfrýjandi skal greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Áfrýjandi, Ólafur Gunnar Grímsson, greiði stefndu, Patcharee Raknarong, 120.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1999.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 11. þessa mánaðar, var höfðað með stefnu, birtri 21. ágúst 1998 og þingfestri 1. september 1998, af Ólafi Gunnari Grímssyni kt. 221121-4279, Malarási 15, Reykjavík á hendur Patcharee Raknarong kt. 140763-8029, Snorrabraut 40, Reykjavík
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda greiði honum skuld að fjárhæð 350.000 Bath, eða íslenskar krónur 595.945 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi ásamt virðisaukaskatti.
Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og auk þess málskostnaðar að mati dómsins og virðisaukaskatts af málskostnaði.
II
Stefnandi byggir kröfur sínar á lánssamningi sem útgefinn var samkvæmt tælensku tímatali 19. febrúar B.E. 2534, en árið 2534 samsvarar árinu 1991. Í tælenska eintakinu virðist sem skráð hafi verið árið 25334 en það sýnast vera pennaglöp. Lánssamningur þessi hefur verið þýddur úr tælensku yfir á ensku og úr ensku yfir á íslensku. Í málinu liggur aðeins fyrir ljósrit lánssamningsins, en stefnandi kveðst ekki hafa frumritið undir höndum. Lánssamningur þessi er á prentuðu eyðublaði, með eyðum til útfyllingar. Í íslenskri þýðingu þessa skjals segir að Patcharee Ruknarong undirriti lánssamning, og að hún hafi fengið að láni hjá Ólafi Gunnari Grímssyni 350.000 Baht. Jafnframt að hún muni endurgreiða höfuðstólinn með 10.000 Baht á mánuði. Í samningnum er ekki fyllt út í þær eyður sem gera ráð fyrir gjalddögum eða vöxtum. Í samningnum er gert ráð fyrir að gerist lántaki brotlegur gagnvart samningnum samþykki hann að lánveitandi fari í mál með því að stefna lántaka til að skila höfuðstól og vöxtum og samþykkir lántaki jafnframt að bæta lánveitanda fullkomlega gjöld, ferðakostnað og önnur útgjöld, sem leiða af framangreindum málarekstri.
Svo segir í lokin: “Ritari samnings þessa hefur lesið upp fyrir mig allar greinar hans og ég, sem lántakandi, hef skilið þær. Ég undirrita hér með þessu til staðfestingar.
Sign Pathcheree Ruknarong ..lántaki
Sign .Ólafur Gunnar Grímsson . eigandi fjár/lánveitandi
Við vitundarvottarnir vottum hér með að við skiljum þýðingu samnings þessa fullkomlega og að samningsaðilar hafa undirritað í viðurvist okkar.
Sign Tawal Ruknarong ..vitundarvottur
Sign .Somsri Kongkimthong vitundarvottur
Sign .Nong Dao Ruknarong .vitundarvottur og ritari.”
Í málinu liggja fyrir yfirlýsingar Phoemsak Sonto, stjórnarmanns í valdstjórn þess héraðs þar sem aðilar bjuggu á þeim tíma sem þau dvöldu á sama búgarði í Tælandi og Phom Malaiwan, forseta sama þorps, þar sem þeir fullyrða að undirritanir Thawan Raknarong og Nongdao Raknarong á umdeildan lánssamning séu ekki þeirra. Jafnframt lýsa þeir því yfir að maður að nafni Somsri Khong-Imthong búi ekki á svæðinu. Jafnframt liggur fyrir yfirlýsing Thawan Raknarong og Nongdao Raknarong, vottuð af ofanrituðum, þess efnis að þau hafi aldrei séð umræddan lánssamning og ekki undirritað hann.
Aðilar gáfu skýrslu fyrir dómi og jafnframt vitnið Óskar Haraldsson, eiginmaður stefndu. Stefnandi kveðst hafa lánað stefndu umrædda peninga til að hún gæti keypt sér bifreið. Hann hafi síðan gengið eftir því að fá einhverja skuldaviðurkenningu frá henni, og rétt áður en hann fór frá Tælandi hafi verið gengið frá skuldaviðurkenningu þeirri sem um er deilt í þessu máli. Hann kvaðst sérstaklega aðspurður ekki hafi skilið tælensku á þessum tíma og hvorki getað skrifað hana né lesið. Hann kvað vottana hafa verið í sama herbergi og þau þegar gengið var frá undirskriftum, en þeir hafi verið búnir að skrifa á plaggið áður. Hann kvaðst hafa beðið eiginmann stefndu, Óskar Haraldsson og rita á skjalið fyrir hans hönd þar sem hans skrift væri svo klossuð, og það hafi hann gert.
Stefnda hefur neitað því að hafa undirritað umdeildan lánssamning auk þess sem nafn hennar sé skrifað vitlaust á umræddan samning. Hún hefur jafnframt neitað því að hafa fengið lánaða peninga hjá stefnanda. Hún kveðst hins vegar samþykkt að lána nafnið sitt á bifreið sem hann keypti í Tælandi, þar sem óheimilt sé fyrir útlendinga að eiga bifreið þar í landi.
Vitnið Óskar Haraldsson, eiginmaður stefndu kom fyrir dóminn og neitaði því að hafa skrifað nafn stefnanda í texta tælenska lánssamningsins.
Stefnandi hefur lagt fram skýrslu tæknirannsóknarstofu ríkislögreglustjóra, þar sem óskað var rannsóknar á því hvort sami maður hafi skrifað nafn stefnanda á hið tælenska skuldaskjal og hafði skrifað framlögð skuldaskjöl vegna viðskipta stefnanda og stefndu og eiginmanns hennar. Kemur þar fram að það hái rannsókn að gögn eru í ljósriti, þar sem við ljósritun tapist þýðingarmiklir þættir og einnig sé varlegt að treysta ljósrituðum gögnum fullkomlega. Verði því ákveðin óvissa með tiltekna skriftarlega þætti þegar ljósrit eru annarsvegar og tekin mið af því í rannsóknarniðurstöðum. Í niðurstöðu Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa segir að skriftarlegt samræmi sé með áritun á skuldabréfinu og öðrum samanburðargögnum og ekki að finna nein þau einkenni sem bendi til annars en að þar hafi sami maður verið að verki.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á lánssamningi samkvæmt nýjum tælenskum lögum em hann kveður hafa verið gerðan á staðnum Lam Mahachi. Samkvæmt honum sé lántakandi stefnda, en lánveitandi sé stefnandi. Samkvæmt 1. grein lánssamningsins sé lánsfjárhæð 350.000.- Baht, sem sé tælenskur gjaldmiðill. Samkvæmt 2. grein sé engin staðfesting lögð fram vegna lánsins. Hafi stefnda lofað að greiða höfuðstólinn með 10.000.- Baht á mánuði en ekki sé tilgreint hvenær eða hvaða tryggingarfé hafi verið um að ræða.
Samkvæmt 3. grein samningsins sé ekki getið um greiðslutíma á láninu. Samkvæmt 4. grein hans sé ekki getið um þá mánaðarvexti, sem stefnda hafi tekið að sér að greiða stefnanda þar til allur höfuðstóllinn væri endurgreiddur. Samkvæmt 5 grein samningsins fallist stefnda á uppboðssölu eigna sinna við andlát sitt eða hvarf til að endurgreiða téð lán, höfuðstól og vexti
Samkvæmt 6. grein fallist stefnda á, að gerist hún brotleg samkvæmt samningnum, verði farið í mál með því að stefna henni til að skila höfuðstól og vöxtum.
Samkvæmt 7.grein fallist stefnda á að bæta stefnanda fullkomlega gjöld, ferðakostnað og önnur útgjöld, sem leiða af framangreindum málarekstri. Kveður stefnandi stefndu hafa ritað undir lánssamninginn sem lántakandi. Í stefnu var því haldið fram að stefnandi hafi jafnframt ritað undir lánssamninginn sem lánveitandi og að undirskriftir hafi farið fram eftir að ritari samningsins hafði lesið hann upp fyrir aðila. Stefnandi upplýsti það hins vegar fyrir dómi að hann hafi sjálfur ekki ritað sitt nafn í samninginn sem lántakandi heldur hafi hann fengið eiginmann stefndu, Óskar Haraldsson til þess en hann kom fyrir dóminn sem vitni og neitaði því að hann hafi skrifað nafn stefnanda í samninginn.
Vitundarvottar að undirskriftum stefnanda og stefndu kveður stefnandi að hafi verið Tawal Raknarong, Somsri Kongkimthon og Nong Dao Raknarong, sem einnig hafi verið ritari samningsins.
Kveður stefnandi að þrátt fyrir innheimtubréf hafi skuld þessi eigi verið greidd og því beri nauðsyn að höfða mál til greiðslu hennar. Vísar hann til meginreglna samningarréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái meðal annars stoð í lögum nr. 7/1936. Einnig vísar hann til vanefndaákvæða samningsins sjálfs. Kröfur um dráttarvexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Um varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Stefnda kveður stefnukröfu byggða á lánssamningi, sem hún eigi að hafa undirritað sem lántakandi í viðurvist þriggja vitundarvotta og stefndi sem lánveitandi í viðurvist sömu vitundarvotta. Sýknukrafa stefndu sé á því byggð, að umræddur lánssamningur hafi ekkert skuldbindingargildi af eftirgreindum ástæðum:
Stefnda neitar bæði að hafa undirritað umræddan lánssamning og að hafa fengið að láni hjá stefnanda þá fjárhæð, sem lánssamningurinn hljóðar um. Þá staðhæfir stefnda, að undirskriftir vitundarvottanna séu falsaðar, og grunsemdir hefur stefnda um, að undirskrift stefnanda sé einnig fölsuð. Kveður stefnda trúverðugleika lánssamnings þess sem stefnukröfur byggjast á vera áfátt í ýmsum fleiri atriðum en að framan greini. Með vísunar til l. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um skyldu dómara til frávísunar máls ex officio vegna galla þykir stefnanda rétt að benda á nokkur þeirra. Lánssamningurinn sé í frumgerð sinni ritaður á tælensku. Samningstextinn hefur verið þýddur af því tungumáli yfir á ensku og af ensku á íslensku og er íslenska þýðingin lögð til grundvallar málssókninni. Kveður stefnda ekki verða séð af dómsskjali nr. 3, að enska þýðingin hafi verið gerð af löggiltum skjalaþýðanda. Augljóst misræmi sé í texta frumskjalsins annars vegar og ensku og íslensku þýðingarinnar hins vegar. Samkvæmt frumskjalinu eigi samningurinn að hafa verið gerður árið 25334, sem reyndar mun vera merkingarleysa samkvæmt tælensku tímatali, en í hinum þýddu textum sé ártalið 2534. Í upphafsákvæði samningsins sé skilin eftir eyða þar sem skrá skyldi nafn lánveitandans. Endurgreiðsluákvæði samningsins í 3. gr. sé ekki útfyllt. Hins vegar segi í 2. gr. í texta, sem ætlað er að fjalla um tryggingarfé, að höfuðstóllinn muni endurgreiddur með 10.000 Bath á mánuði. Ekkert sé sagt um, hvaða mánuði um er að ræða og ekkert kveðið á um gjalddaga. Þá sé ekkert vaxtaákvæði í samningnum.
Í stefnu sé málssóknin m.a. réttlætt með vísun til vanefndaákvæða samningsins án þess að tiltaka nánar, hvaða ákvæði átt er við. Virðist sú tilvísun helst eiga við 6. gr., þar sem segir: "Fari svo að ég gerist brotlegur gagnvart samningi þessum fellst ég hér með á að þér getið farið í mál með því að stefna mér til að skila höfuðstól og vöxtum." Engin skýring sé gefin á því, hvaða samningsbrot séu talin hafa átt sér stað, og sé því málssóknin tilefnislaus.
Hvað snertir lagarök þá styður stefnda sýknukröfu sína þeim rökum, að lánssamningurinn, sem málssóknin sé reist á, hafi ekki skuldbindingargildi gagnvart stefndu. Málskostnaðarkrafan styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. og krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.
V
Það er óumdeilt í þessu máli að í árslok 1990 eða í ársbyrjun 1991 var keyptur pallbíll í Tælandi sem skráður var á nafn stefndu og stefnandi lagði út fyrir kaupverðinu. Aðila greinir hins vegar á um hver átti bílinn og hvers vegna stefnandi greiddi hann. Stefnandi hefur haldið því fram að stefnda hafi keypt bílinn og fengið lánaða hjá honum peninga til kaupanna, en stefnda hefur haldið því fram að hún hafi einungis hjálpað stefnanda við að eignast bílinn með því að leyfa honum að skrá bílinn á hennar nafn, þar sem hann hafi ekki getað skráð hann á sitt nafn sem útlendingur í Tælandi.
Stefnandi byggir málssókn sína hins vegar ekki á þessum málsástæðum þótt drjúgur hluti þeirra gagna sem hann hefur lagt fram í málinu snúist um þessi bílakaup. Hann byggir kröfur sínar á lánssamningi sem stefnda á að hafa undirritað þar sem hún viðurkennir að hafa fengið að láni hjá stefnanda 350.000 Bath og lofar að endurgreiða höfuðstólinn með 10.000 Bath á mánuði, án þess að nánar sé tilgreint hvenær slíkar endurgreiðslur eigi að hefjast.
Stefnandi hefur ekki lagt fram frumrit þess skjals sem hann byggir kröfur sínar á heldur einungis ljósrit þess. Fyrir liggur í málinu yfirlýsing Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa á Tæknirannsóknarstofu Ríkislögreglustjóra um að við ljósritun, tapist þýðingarmiklir skriftarlegir þættir og einnig að varlegt sé að treysta ljósrituðum gögnum fullkomlega, þegar meta eigi hvort undirskrift sé fölsuð. Segir hann að ef horft sé framhjá beinni fölsun í ljósritun, endurspeglist ummerki sem kunni að vera á gleri ljósritunarvélar á skjölum sem úr vélinni komi og einnig gallar eða bilun í tækjabúnaði, sé um slíkt að ræða. Verði því ákveðin óvissa með tiltekna skriftarlega þætti þegar ljósrit séu annars vegar. Samkvæmt þessu gæti orðið erfitt um vik að fá það rannsakað með óyggjandi hætti hvort undirskrift stefndu sé fölsuð á hinu tælenska skjali, en það liggur fyrir að nafn hennar er ranglega stafsett í þýðingu skjalsins, bæði í þeirri ensku og þeirri íslensku og hefur stefnda fullyrt að nafnritunin á tælensku sé líka vitlaust stafsett.
Í gögnum málsins liggja frammi yfirlýsingar meintra votta skjalsins um að þau hafi aldrei séð umræddan lánssamning og ekki undirritað hann. Þetta hafa þar til bær yfirvöld á staðnum staðfest og hafa yfirlýsingar þeirra ekki verið vefengdar.
Í 72. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði segir í 1. mgr. að einkaskjal með eiginhandarnafni útgefanda teljist gefið út af honum með efni því sem það hafi að geyma þar til það gagnstæða er sannað eða gert sennilegt. Jafnframt segir í 3. mgr. að dómari meti sönnunargildi einkaskjals með hliðsjón af atvikum hverju sinni. Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir það hafa verið gert sennilegt að umrætt skjal sé ekki undirritað af stefndu og þykja gögn málsins renna stoðum undir það. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilegur krónur 70.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari sem farið hefur með mál þetta frá 15. maí 1999.
Dómsorð:
Stefnda, Pacheree Raknarong skal vera sýkn af kröfum stefnanda Ólafs Gunnars Grímssonar í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu krónur 70.000 í málskostnað þar með talinn virðisaukaskatt.