Hæstiréttur íslands

Mál nr. 374/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Einangrun


                                                        

Miðvikudaginn 3. júní 2015.

Nr. 374/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Einangrun.

X var gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi hennar stæði með vísan til 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. júní 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um að hún sæti einangrun verði fellt úr gildi.  

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2015.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga, að kærðu, X, fæddri [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. júní 2015, kl. 16:00, og að á þeim tíma verði henni gert að sæta einangrun.

                Kærða mótmælir ekki kröfu lögreglustjóra um að henni verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Kærða krefst þess hins vegar að kröfu lögreglustjóra, um að henni verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur, verði hrundið.

I

                Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir meðal annars að lögreglustjóri hafi til rannsóknar innflutning kærðu á ætluðum ávana- og fíkniefnum og hafi kærða sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 25. maí sl.

                Upphaf málsins megi rekja til þess að lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi 24. maí 2015 borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um að kærða hefði verið stöðvuð á tollhliði vegna gruns um að hún kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum. Kærða hafi verið að koma með flugi Wow air nr. [...] frá [...], [...], ásamt Y fæddri [...]. Konurnar hafi báðar verið færðar í leitaraðstöðu tollgæslunnar þar sem leit hafi verið framkvæmd. Ekkert saknæmt hafi fundist við leit í farangri kvennanna en í viðræðum tollvarða við þær hafi vaknað grunur um að þær kynnu að hafa fíkniefni falin innvortis. Við leit á Y hafi fundist pakkning á innanverðu læri hennar sem innihaldið hafi meint ávana- og fíkniefni. Í kjölfarið hafi konurnar báðar verið handteknar og færðar á lögreglustöðina við Hringbraut, Reykjanesbæ.

Í framhaldinu hafi kærða og Y verið færðar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem sú síðarnefnda hafi gengist undir röntgenskoðun. Við þá skoðun hafi enga aðskotahluti verið að sjá í meltingarvegi konunnar. Kærða hafi hins vegar neitað að undirgangast röntgenskoðun en með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 25. maí sl. hafi henni verið gert það skylt. Konunum hafi báðum verið gert að sæta gæsluvarðhaldi og hafi kærða nú skilað ætluðum fíkniefnum sem hún hafi falið innvortis. Samkvæmt niðurstöðu röntgenrannsóknar hafi ekki reynst fleiri pakkningar í líkama kærðu.

                Lögregla ætli að hin meintu fíkniefni, sem kærða hafi haft falin innvortis, séu kókaín, sbr. frumgreiningu tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

II

Af hálfu lögreglustjóra er til þess vísað að kærðu hafi báðar gefið ótrúverðugar skýringar á ferðum sínum hingað til lands. Einnig sé ósamræmi í framburði þeirra varðandi vitneskju um hin ætluðu fíkniefni.

                Lögreglustjóri segir til rannsóknar innflutning kærðu á töluverðu magni af hættulegum ávana- og fíkniefnum, sem lögregla telji að flutt hafi verið hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Því sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst brotleg við ákvæði laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Vísar lögreglustjóri til þess að rannsókn málsins sé á frumstigi. Lögregla vinni að því að rannsaka aðdraganda ferðar kærðu og Y hingað til til lands og tengsl þeirra við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis. Lögregla þurfi svigrúm til að rannsaka nánar hvort hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi. Telji lögregla að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus. Að sama skapi telji lögregla einnig hættu á að kærða kunni að verða beitt þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hana af hendi samverkamanna.

                Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og að henni verði gert að sæta einangrun á þeim tíma samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

III

                Með vísan alls framanritaðs er fallist á það með lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Ljóst er af því sem að framan er rakið, sem og rannsóknargögnum lögreglu, að rannsókn málsins er hvergi nærri lokið. Að því gættu verður að fallast á það með lögreglustjóra að gangi kærða laus megi ætla að hún kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt í málinu. Þá er fallist á að uppfyllt séu skilyrði til að kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða sæti gæsluvarðhaldi með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

                Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærðu, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. júní 2015, kl. 16:00

                Kærða skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hennar stendur.