Hæstiréttur íslands
Mál nr. 676/2015
Lykilorð
- Skaðabætur
- Einkahlutafélag
- Matsgerð
- Ómerking héraðsdóms
- Sératkvæði
- Aðfarargerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. ágúst 2015, en ekki varð af þingfestingu þess 16. september sama ár og var því áfrýjað öðru sinni 8. október 2015. Áfrýjandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 6.686.055 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. janúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í héraðsdómsstefnu krafðist áfrýjandi, sem áður hét MP banki hf., þess að stefnda greiddi sér skaðabætur að fjárhæð 6.686.055 krónur með dráttarvöxtum eins og að framan greinir. Í stefnunni var upphæðin sundurliðuð þannig að hún samanstóð af höfuðstól kröfu samkvæmt héraðsdómi, uppkveðnum 22. nóvember 2013, í máli áfrýjanda gegn GBN ehf., áður Gyðju ehf., 7.362.605 krónur og fjárhæð, sem bankinn hafði sett til tryggingar skiptakostnaði þegar hann krafðist þess að bú einkahlutafélagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta, 350.000 krónur. Frá samtölu þessara fjárhæða voru dregnar innborganir, sem greiddar hefðu verið 12. júlí 2013, 500.000 krónur, 13. september sama ár, 12.550 krónur, og 6. nóvember það ár, 514.000 krónur. Í lýsingu málsatvika var sagt að 12. júlí 2013 hefði samist svo um milli áfrýjanda og GBN ehf. að bankinn fengi „afhentar vörur GBN ehf. sem kr. 500.000 innborgun inn á skuldina“ og hefði sú innborgun verið dregin „frá dómkröfu í þessu máli“, svo sem að framan greinir.
Í stefnunni var því lýst að stefnda hafi, sem framkvæmdastjóri, eini aðalmaður í stjórn og eini prókúruhafi Gyðju ehf., síðar GBN ehf., leitað til áfrýjanda „vegna fjármögnunar á rekstri félagsins.“ Stefnda hafi samið um það við bankann að einkahlutafélagið „fengi yfirdráttarlán á tveimur bankareikningum“ hjá honum gegn tryggingu í öllum vörubirgðum félagsins og „öllum almennum fjárkröfum sem GBN ehf. átti og urðu til í rekstri félagsins“ samkvæmt nánar greindu tryggingarbréfi. Í lýsingu málsatvika var sagt að fyrst um sinn hafi litið svo út „að stefnda og GBN ehf. væru að virða þessar skyldur“ en síðar komið í ljós að „þrátt fyrir veðsetninguna“ hefði stefnda „beint greiðslum vörureikninga“ félagsins til annars banka. Málsástæður áfrýjanda fyrir kröfum sínum voru þær í fyrsta lagi að stefnda hefði með síðastgreindri háttsemi gerst brotleg við 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og bæri „þannig skaðabótaábyrgð ... samkvæmt hinni almennu sakarreglu“, en þetta var skýrt svo í stefnunni að saknæmi hennar fælist „í því að hafa með ásetningi en til vara gáleysi ráðstafað greiðslum“ vörureikninganna til annars banka. Í öðru lagi hefði stefnda með sama hætti bakað sér bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda „með því að framselja vörulager ... GBN ehf.“ Í þriðja lagi hefði slík ábyrgð stofnast þar sem stefndu hefði borið eftir öðrum málslið 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að leita gjaldþrotaskipta á búi einkahlutafélagsins. Í fjórða lagi hefði hún brotið gegn ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög með nánar tilteknum hætti og væri þar með skylt að bæta það tjón, sem af því hefði hlotist, sbr. 1. mgr. 108. gr. laganna. Loks var því haldið fram „að samsama eigi stefndu með GBN ehf. ... þannig að háttsemi GBN ehf. hefur sömu réttaráhrif fyrir stefndu eins og hún hefði viðhaft hana sjálf.“ Hún bæri því persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins.
Í greinargerð stefndu í héraði var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar, til vara að hún yrði sýknuð af kröfu áfrýjanda, en til þrautavara að krafan yrði verulega lækkuð. Til stuðnings sýknukröfunni vísaði stefnda til fjölmargra málsástæðna, svo sem þeirra að ekkert lægi fyrir um að áfrýjandi hefði orðið fyrir tjóni þar sem skiptum á þrotabúi GBN ehf. væri ólokið og því óvíst hvort bótakrafa hans fengist greidd úr búinu. Þá næmi söluverðmæti þeirra vörubirgða, sem áfrýjandi hefði fengið afhentar, 10.809.770 krónum og hefði krafa hans á hendur félaginu því þegar verið greidd að fullu. Einnig var bent á að ekkert mat á vörubirgðunum lægi fyrir.
Með úrskurði héraðsdóms 10. júní 2014 var leyst úr frávísunarkröfu stefndu. Í forsendum hans kemur fram að af héraðsdómsstefnu verði ráðið hver grundvöllur málshöfðunar áfrýjanda sé. Þá sé þar einnig að finna sundurliðun stefnukröfunnar. Ekki fáist annað séð en að stefnda hafi haft færi á að halda upp vörnum eins og hún hafi gert í ítarlegri greinargerð. Meðal annars með þessum rökum hafnaði héraðsdómur kröfu stefndu um frávísun málsins og hefur hún ekki leitað endurskoðunar úrskurðarins hér fyrir dómi. Þótt málatilbúnaður áfrýjanda í stefnunni hefði mátt vera gleggri er ekki næg ástæða til þess með vísan til framangreindra röksemda héraðsdóms að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
II
Undir rekstri málsins í héraði aflaði áfrýjandi mats dómkvadds manns til að skjóta styrkari stoðum undir það hver hafi verið fjárhæð þeirra vörureikninga GBN ehf. sem hann staðhæfði að greiddir hefðu verið að undirlagi stefndu til annars banka þrátt fyrir að allar kröfur félagsins hefðu verið veðsettar áfrýjanda á grundvelli fyrrgreinds tryggingarbréfs.
Í niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms, þar sem stefnda var sýknuð af kröfu áfrýjanda, segir meðal annars að málatilbúnaður hans sé á því byggður að hann hafi orðið fyrir tjóni sem nemi áðurnefndri yfirdráttarskuld GBN ehf. og fjárhæð skiptatryggingar. Það sem fram kæmi í fundargerð af skiptafundi í þrotabúi félagsins bendi eindregið til þess að ekkert muni fást greitt upp í kröfu áfrýjanda í búið, svo sem raunin varð síðar þegar skiptum lauk á því 1. apríl 2015. Því næst vísar héraðsdómur til þess að áfrýjandi byggi á því að raunverulegt verðmæti vörulagersins, sem afhentur var honum sem innborgun á skuld GBN ehf. við hann, skipti engu við úrlausn málsins, heldur beri að miða við þá fjárhæð sem um hafi verið samið þeirra á milli. Þar sem stefnda var ekki aðili að þeim samningi er því slegið föstu í dóminum að við úrlausn málsins verði að leggja til grundvallar raunvirði lagersins, enda beri áfrýjandi sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefndu. Eftir að lagerinn var kominn í hendur áfrýjanda hafi honum verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun um verðmæti hans, eftir atvikum með því að afla matsgerðar dómkvadds manns eftir IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnda haldi því fram að lagerinn hafi verið fast að 11.000.000 króna virði og sé það niðurstaða dómsins að áfrýjanda hafi ekki nægjanlega tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi hennar. Af því leiði að ekki séu efni til að taka afstöðu til annarra málsástæðna málsaðila en vikið hefur verið að.
Eftir uppkvaðningu héraðsdóms aflaði áfrýjandi mats dómkvadds manns á grundvelli XI. kafla laga nr. 91/1991 þar sem þeirri spurningu var meðal annars beint til matsmanns hvaða verð hann teldi að sanngjarnt væri að ætlast til að áfrýjandi hefði fengið fyrir vörulagerinn, að frádregnum kostnaði, ef hann hefði selt lagerinn öðrum, ótengdum sér. Í matsgerð hins dómkvadda manns, sem lögð hefur verið fyrir Hæstarétt, var tekið fram að hann hafi haldið fund með málsaðilum þar sem þeim gafst kostur á að tjá sig og leggja fram ný gögn ef einhver væru. Stefnda sem matsþoli lagði þar fram fjölmörg gögn, auk þess hún mun hafa tekið fram að lagerinn væri vantalinn án þess þó að leggja fram frekari gögn því til stuðnings af sinni hálfu. Í matsgerðinni voru færð rök fyrir svörum við matsspurningum og hljóðaði svarið við framangreindri spurningu svo: „Matsmaður telur að eðlilegt verðmæti lagersins liggi í kringum 1,5 millj. kr. með virðisaukaskatti eða um 1,2 millj. kr. án virðisaukaskatts.“ Matsmaðurinn kom síðar fyrir héraðsdóm þar sem staðfesti matsgerðina og svaraði spurningum lögmanns stefndu um atriði, henni tengdri, og framkvæmd matsins.
III
Eins og að framan greinir er krafa áfrýjanda á hendur stefndu reist á skuld GBN ehf. við bankann og kostnaði hans við að krefjast gjaldþrotaskipta á búi þess félags. Færði áfrýjandi fyrir því margvísleg rök í héraðsdómsstefnu að stefnda bæri með ólögmætri og saknæmri háttsemi ábyrgð á því fjártjóni sem hann hefði orðið fyrir af þessum sökum. Stefnda krefst sýknu af kröfu áfrýjanda af fjölmörgum ástæðum eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Ein af þeim var sú að með afhendingu vörulagers GBN ehf. til áfrýjanda, sem í raun hefði verið mun verðmætari en umrædd skuld félagsins við bankann, hefði hann ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna viðskipta við félagið. Fallist er á með héraðsdómi að við þessar aðstæður hafi áfrýjandi borið sönnunarbyrðina fyrir því hvert hafi verið raunvirði lagersins þegar bankinn fékk hann afhentan, en ekki hafi stoðað fyrir hann að vísa um það til samnings milli sín og félagsins sem stefnda var ekki aðili að. Þar sem áfrýjandi lét hjá líða að afla sér frekari sönnunargagna til stuðnings því að verðmæti lagersins hefði numið þeirri fjárhæð, sem hann lagði til grundvallar í stefnu, svo sem mats dómkvadds manns, var rétt að leyst væri úr málinu í héraði á þann hátt sem gert var.
Undir rekstri málsins hér fyrir dómi hefur áfrýjandi fyrst aflað slíks mats. Með matsgerð hins dómkvadda manns hefur áfrýjandi fært viðhlítandi sönnur á, að minnsta kosti að svo stöddu, að raunverulegt verðmæti lagersins hafi við afhendingu hans numið miklum mun lægri fjárhæð en krafa bankans á hendur GBN ehf., en stefnda hefur ekki hnekkt þeirri sönnun. Að svo vöxnu er brostin forsenda fyrir þeirri niðurstöðu héraðsdóms að sýkna hana á grundvelli þeirrar málsástæðu sem að framan greinir. Þar með á eftir að taka afstöðu til einnar eða fleiri málsástæðna áfrýjanda fyrir skaðabótakröfu hans á hendur stefndu og ef til kemur málsástæðna hennar sem eftir standa til stuðnings sýknu af kröfunni eða lækkun hennar. Úr því að svo stendur á verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. október 1998 í máli nr. 303/1997 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 3303.
Áfrýjandi sem er fjármálafyrirtæki lét hjá líða að afla undir rekstri málsins í héraði sönnunar fyrir staðhæfingu sinni um hvert hefði verið raunvirði vörulagersins þegar hann tók við lagernum þótt honum hlyti að vera ljóst af vörnum stefndu að þess væri þörf. Hefur þetta orðið til þess að dregist hefur að óþörfu að leysa til fullnustu úr málinu. Af þeim sökum verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði, sbr. b. lið 1. mgr. 131. gr., sbr. og 166. gr., laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur og meðferð málsins frá og með þinghaldi 27. febrúar 2015 eru ómerk. Lagt er fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Áfrýjandi, Kvika banki hf., greiði stefndu, Sigrúnu Lilju Guðjónsdóttur, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara
Eins og rakið er nánar í atkvæði meirihlutans krefur áfrýjandi stefndu um bætur vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi hennar sem leitt hafi til tjóns áfrýjanda sem nemur stefnufjárhæð. Ég er sammála meirihluta dómenda um að ekki séu næg efni til að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.
Í héraði var komist að þeirri niðurstöðu að framlögð gögn áfrýjanda nægðu ekki til sönnunar á tjóni hans. Ósannað væri annað en að með viðtöku vörulagers, sem um ræðir í málinu, hefði áfrýjandi fengið fullnustu kröfu þeirrar sem varð tilefni málsóknarinnar. Bæri því að sýkna stefndu. Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti nýtti áfrýjandi heimild til að afla matsgerðar á grundvelli XI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til sönnunar tjóninu. Í kjölfarið staðfesti hinn dómkvaddi maður matsgerðina fyrir dómi og svaraði spurningum lögmanna aðila þar um. Standa ákvæði XXV. kafla laga nr. 91/1991 ekki því í vegi að áfrýjandi geti fyrir Hæstarétti byggt á matsgerð þessari, enda sækir hann til hennar frekari sönnun vegna málsástæðu sem hann hefur borið fram frá upphafi máls til stuðnings kröfugerð sinni. Samkvæmt framanrituðu eru ekki skilyrði fyrir því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju, heldur ber að leysa efnislega úr málinu hér fyrir dómi. Að fenginni niðurstöðu meirihlutans er þó ekki ástæða til að fjalla um efnishlið málsins í þessu atkvæði.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. apríl 2015, höfðaði stefnandi, MP banki hf., Ármúla 13a, Reykjavík, hinn 13. janúar 2014 gegn stefndu Sigrúnu Lilju Guðjónsdóttur, Glitvöllum 34, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 6.686.055 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 3. janúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi einnig málskostnaðar úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefndu eru aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefnda þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Málsatvik eru þau að snemma á árinu 2012 leitaði stefnda, fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins Gyðju, til stefnanda og óskaði eftir lánafyrirgreiðslu fyrir félagið. Nafni Gyðju ehf., sem stofnað var árið 2010, var síðar breytt í Meyja ehf. og svo enn síðar í GBN ehf. Byggir stefnda á því í málinu að þegar hún hafi í maí 2012, fyrir hönd GBN ehf. (þá Gyðja ehf.), samið við stefnanda um lánafyrirgreiðslu hafi bankinn verið meðvitaður um þá staðreynd að Íslandsbanki hf. væri helsti fjármögnunaraðili GBN ehf.
Viðskipti GBN ehf. við stefnanda voru byggð á rekstrarlánasamningi, dagsettum 18. maí 2012, sem fól í sér að GBN ehf. fékk til ráðstöfunar yfirdrátt á reikning nr. 701-26-055102 að hámarki 5.000.000 króna, sbr. grein 4.2 í samningnum. Samhliða var einnig stofnaður reikningur nr. 701-26-20155 í nafni GBN ehf. hjá stefnanda. Stefnda segir þann reikning einungis hafa átt að vera fyrir innborganir og vísar um það til greinar 4.3 í rekstrarlánasamningnum. Enginn yfirdráttur eða heimild til yfirdráttar hafi verið á þeim reikningi. Stefnandi heldur því aftur á móti fram að yfirdráttarheimild hafi einnig verið á þeim reikningi.
GBN ehf. fékk lánafyrirgreiðslu hjá stefnanda gegn því að veita tryggingu í öllum vörubirgðum GBN ehf. og í öllum almennum fjárkröfum sem félagið átti og urðu til í rekstri þess. Var það gert með þinglýstu tryggingarbréfi. Bréfið var að fjárhæð 10.000.000 króna, verðtryggt með vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 395,10 stig. Var bréfið gefið út til tryggingar öllum skuldum GBN ehf. við stefnanda.
Samkvæmt 3. gr. tryggingarbréfsins bar að ráðstafa söluandvirði vörubirgða að fullu til veðhafa. Þá var óheimilt samkvæmt 5. gr. bréfsins að framselja hinar veðsettu vörubirgðir myndi það skerða að mun tryggingu veðhafa. Í 5. gr. tryggingarbréfsins var og á um það kveðið að eftir að veðhafi hefði komið fram greiðsluáskorun til undirbúnings fullnustuaðgerðar til innheimtu krafna sem bréfið tryggði, félli niður takmörkuð heimild veðsala til að skipta út eða framselja vörubirgðir. Þá var í lokaákvæði bréfsins að finna kvöð þess efnis að óheimilt væri að framselja eða veðsetja almennar viðskiptakröfur útgefanda.
Samkvæmt handveðsyfirlýsingu, dagsettri 14. maí 2012, var bankareikningur GBN ehf. nr. 701-26-055102 hjá stefnanda veðsettur bankanum. Var handveðsyfirlýsingin gefin út til tryggingar öllum skuldum GBN ehf. við stefnanda.
Allar kröfur sem GBN ehf. eignaðist í rekstri sínum voru settar í innheimtu hjá innheimtuþjónustu stefnanda. Sá stefnandi um að gefa út reikninga fyrir GBN ehf. og voru reikningarnir áritaðir um veðsetninguna og hvert greiða ætti, en greiða átti inn á hinn handveðsetta reikning. Af hálfu stefnanda er á því byggt í málinu að stefnda hafi þrátt fyrir framangreint beint greiðslum vörureikninga GBN ehf. í miklum mæli til Íslandsbanka hf.
Sumarið 2012 tók GBN ehf. ákvörðun um að hefja framleiðslu á tveimur skólínum. Gerði félagið samning við framleiðanda í Tyrklandi og var um það samið að skórnir yrðu afhentir í september og október 2012. Voru skólínurnar seldar fyrirfram til söluaðila og fékk GBN ehf. 40% fyrirframgreiðslu frá söluaðilum til að staðfesta pantanir áður en framleiðslan hófst. Mikill dráttur varð hins vegar á afhendingu af hálfu framleiðanda. Þá fékk GBN ehf. ekki allt það magn sem um hafði verið samið, auk þess sem hluti framleiðslunnar reyndist gallaður og ekki hæfur til sölu. Mun þessi dráttur hafa orðið til þess að GBN ehf. gat ekki sett umræddar vörur í sölu fyrir jólin 2012 og missti félagið þannig af afar mikilvægu sölutímabili. Er það lá fyrir tók GBN ehf. þá ákvörðun að hætta við framleiðsluna og þurfti GBN ehf. að endurgreiða söluaðilum áðurnefndar fyrirframgreiðslur.
Í byrjun árs 2013 mun stefnda hafa farið á fund stefnanda. Á fundinum lýsti stefnda því tjóni sem GBN ehf. hefði orðið fyrir og hvernig félagið ætlaði sér að endurgreiða skuld sína við stefnanda. Niðurstaða fundarins var sú að stefnandi veitti GBN ehf. þriggja vikna frest til þess að greiða upp skuld félagsins við stefnanda.
Lögmaður stefnanda sendi 3. og 4. júlí 2013 símskeyti til söluaðila GBN ehf. og fór fram á að allar greiðslur til GBN ehf. yrðu lagðar inn á fjárvörslureikning lögmannsstofunnar Lögmáls ehf.
Hinn 9. júlí 2013 fór lögmaður stefnanda ásamt fulltrúa sýslumannsins í Kópavogi á starfsstöð GBN ehf. þar sem lager GBN ehf. og innstæða á bankareikningi GBN ehf. var kyrrsett til tryggingar skuldum félagsins við stefnanda. Þremur dögum síðar, eða 12. júlí 2013, var ritað undir „Samkomulag um lok kyrrsetningar“ milli stefnanda og GBN ehf. þess efnis að stefnandi fengi afhentan vörulager GBN ehf. sem skyldi „... teljast kr. 500.000 innborgun ...“ á skuld félagsins við bankann „... þrátt fyrir að gerðarþoli telji vörulagerinn meira virði.“ Tveimur dögum síðar barst stefndu tölvupóstur frá lögmanni stefnanda og fylgdi talning stefnanda á áðurnefndum vörulager í viðhengi með póstinum. Heldur stefnda því fram í málinu að um mun meira magn af vörum hafi verið að ræða en samkvæmt talningu stefnanda. Þá hafi verðmæti lagersins allt að einu verið mun meira en 500.000 krónur, eða 10.809.770 krónur, samkvæmt talningu stefnanda sjálfs og upplýsingum sem stefnda hafi aflað frá söluaðilum GBN ehf. um verð.
Stefnandi bauð nær allan lagerinn til sölu 17. október 2013 á vefsvæðinu bilauppbod.is. Mun uppboðið hafa staðið yfir í fimm sólarhringa. Svo fór að stefnandi tók tilboði að fjárhæð 556.000 krónur.
Hinn 31. júlí 2013 kærði stefnandi GBN ehf. (þá Gyðja ehf.) og stefndu til sérstaks saksóknara vegna ætlaðra brota á ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga og 142. eða 146. gr. laganna. Þá sendi stefnandi GBN ehf. innheimtubréf, ítrekanir og innheimtuviðvaranir, vegna yfirdráttarskulda á fyrrgreindum bankareikningum, en án árangurs. Hinn 26. september 2013 lagði stefnandi fram skiptatryggingu að fjárhæð 350.000 krónur vegna kröfu bankans um að bú GBN ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Myndar sá útlagði kostnaður annan hluta höfuðstóls dómkröfu stefnanda. Bú GBN ehf. var síðan tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2013.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 22. nóvember 2013, var GBN ehf. gert að greiða stefnanda 7.362.605 krónur vegna yfirdráttarskulda félagsins við bankann. Er sú fjárhæð hinn hluti höfuðstóls dómkröfu stefnanda.
Stefnandi lýsti kröfu í þrotabú GBN ehf. 26. nóvember 2013. Bankinn höfðaði síðan mál þetta gegn stefndu 29. janúar 2014 samkvæmt áðursögðu.
II
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi með tvennum hætti gerst brotleg við ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um skilasvik. Stefnda beri þannig skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda samkvæmt hinni almennu sakarreglu.
Samkvæmt ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga sé óheimilt að selja, veðsetja, taka undir sig eða ráðstafa á annan hátt fjármunum, sem annar maður hefur eignast réttindi yfir, að verknaðurinn verði ekki samrýmdur réttindum hans. Allar almennar fjárkröfur sem GBN ehf. hafi átt eða fengið í rekstri sínum hafi verið veðsettar stefnanda samkvæmt 47. gr. laga um samningsveð. Stefnandi hafi þannig verið annar maður sem eignast hafði réttindi yfir þeim fjármunum sem í kröfunum voru fólgnir. Stefnda hafi ráðstafað kröfunum með þeim hætti að í stað þess að ráðstafa þeim til stefnanda í samræmi við umsamið fyrirkomulag hafi þeim verið ráðstafað til Íslandsbanka hf. Með því hafi stefnda brotið gegn tilvituðu hegningarlagaákvæði, enda hafi þessi ráðstöfun verið í andstöðu við umsamið fyrirkomulag og réttindi stefnanda, sbr. 47. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Réttindum þessum hafði verið þinglýst auk þess sem stefndu hafi að sjálfsögðu verið um þau kunnugt, enda hafi hún undirritað öll skjöl um réttindin.
Til vara að þessu leyti kveðst stefnandi byggja á 22. gr. almennra hegningarlaga um hlutdeild, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 250. gr., verði ekki talið að stefnda hafi sjálf gerst brotleg við það ákvæði. Hún verði þannig talin hlutdeildarmaður í brotum félagsins GBN ehf.
Stefnandi vísar til þess að stefnda hafi ein verið að verki. Enginn annar hafi á þeim tíma sem um ræðir haft heimildir til að gera ráðstafanir fyrir hönd félagsins. Stefnda hafi gegnt öllum embættum félagins. Hún hafi ein verið aðalmaður í stjórn félagsins, auk þess að vera framkvæmdastjóri þess og eini prókúruhafinn. Stefnda hafi ein haft heimildir til ráðstöfunar reikninga hjá stefnanda og undirritað öll skjöl. Því sé ljóst að það hafi verið stefnda sem verið hafi að verki við hina skaðabótaskyldu háttsemi. Engum öðrum sé til að dreifa.
Stefnda hafi einnig gerst brotleg á annan hátt við ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga, til vara, sbr. 22. gr., með sama hætti og lýst sé að framan, með því að framselja vörulager félagsins GBN ehf. Stefnandi sé, samkvæmt ákvæðum tryggingarbréfsins frá 14. maí 2012, með veð í öllum vörubirgðum GBN ehf., sbr. 33. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Samkvæmt 3. gr. tryggingarbréfsins hafi félaginu borið að ráðstafa söluandvirði vara að fullu til stefnanda. Þá hafi samkvæmt ákvæði 5. gr. tryggingarbréfsins verið óheimilt að framselja vörubirgðir ef það skerti að mun tryggingu veðhafa. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga nr. 75/1997, sbr. 2. mgr. 34. gr., hafi verið óheimilt að skipta út eða framselja hinn veðsetta vörulager ef það skerti að mun tryggingu stefnanda. Ljóst sé að þar sem vörur af lagernum hafi verið seldar með þeim hætti sem lýst sé að framan, þannig að greiðslur hafi ekki borist til stefnanda, hafi trygging stefnanda verið skert að miklum mun. Í raun hafi hún orðið að engu. Með þessari háttsemi hafi stefnda því gerst brotleg við ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga nr. 75/1997, sbr. 2. mgr. 34. gr., og um leið við ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga.
Á því sé enn fremur byggt af hálfu stefnanda að samkvæmt ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. beri þeir sem færir séu um að taka ákvörðun um að leita gjaldþrotaskipta skuldara, sem sé bókhaldsskyldur og ekki einstaklingur, skaðabótaábyrgð gagnvart lánardrottnum skuldarans láti þeir það hjá líða. Sönnunarbyrði um sök sé snúið við en í niðurlagi ákvæðisins segi að þetta eigi við, enda sýni þeir ekki fram á að vanrækslan hafi ekki verið þeim saknæm. Þetta þýði að lánardrottinn þurfi ekki að sýna fram á sök þessara manna heldur þurfi þeir að afsanna sök sína.
Með því að brjóta gegn veðrétti stefnanda og framangreindu hegningarlagaákvæði, með því að selja vörur sem óheimilt hafi verið að selja og beina greiðslum annað en þeim hafi átt að beina, hafi stefnda bakað sér skaðabótaábyrgð samkvæmt framangreindu ákvæði. Strax um haustið 2012 hafi verið orðið ljóst, þegar stefnda hafi hætt að beina greiðslum vörureikninga GBN ehf. til stefnanda, að GBN ehf. gæti ekki lengur staðið í fullum skilum við lánardrottna sína og að ekki væri sennilegt að þeir greiðsluörðugleikar myndu líða hjá innan skamms tíma, sbr. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991. Hefði stefnda krafist gjaldþrotaskipta á búi GBN ehf. strax og henni var það skylt hefði enn verið til staðar vörulager í búinu til tryggingar skuldum við stefnanda. Þá hefði skiptastjóri tekið við greiðslum vörureikninga og ráðstafað þeim til veðhafans. Stefndu hafi verið kunnugt um öll framangreind atvik. Sök hennar liggi því fyrir í formi ásetnings, þótt ekki sé nauðsynlegt að sýna fram á svo hátt sakarstig. Raunar þurfi stefnandi ekki að sanna sök heldur sé það stefnda samkvæmt áðursögðu að afsanna að vanræksla hennar hafi ekki verið saknæm.
Stefnandi segir sömu niðurstöðu leiða af ákvæði 80. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Í ákvæðinu sé kveðið á um skyldu félagsstjórnar til að afhenda bú félags til gjaldþrotaskipta eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnda hafi dregið á yfirdrátt GBN ehf. þrátt fyrir að hún hafi mátt vita að lánið yrði ekki endurgreitt vegna fjárhagslegrar stöðu félagsins.
Í málinu er jafnframt á því byggt af hálfu stefnanda að samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög séu meðal annarra stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skyldugir til þess að bæta tjón sem þeir hafa valdið öðrum vegna brota á ákvæðum laganna. Stefnda hafi verið stofnandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri GBN ehf. Talið sé að slík ábyrgð eigi sérstaklega við þegar nefndir aðilar láta stjórnast af persónulegum hagsmunum, en í máli þessu hafi stefnda beint greiðslum til Íslandsbanka hf. þar sem hún hafi verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum við þann banka, eða bankinn hafði veð í heimili stefndu. Einnig hafi verið talið að taki stjórn félags ákvörðun sem sé andstæð lögum megi búast við að stjórnarmenn geti orðið bótaskyldir eftir tiltölulega ströngum mælikvarða. Brot stjórnarmanna á skyldum sínum geti leyst úr læðingi bótaábyrgð einstakra stjórnarmanna og hafi fræðimenn talið að brot gegn lögum geti auðveldlega bakað stjórnarmönnum bótaábyrgð.
Þá beri stjórnarmenn og framkvæmdastjórar trúnaðarskyldu gagnvart hluthöfum og kröfuhöfum. Trúnaðarskylda gagnvart kröfuhöfum eigi einkum við þegar fjárhagsstaða félags sé orðin bágborin, eins og við eigi í þessu tilviki. Þá færist trúnaðarskyldan frá hluthöfum til kröfuhafa. Stefnandi telji að stefnda hafi brotið gegn þessari trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnanda með áðurlýstri háttsemi sinni.
Af hálfu stefnanda er því og haldið fram að samsama eigi stefndu með GBN ehf. Tengsl stefndu og GBN ehf. hafi verið mjög náin þannig að háttsemi GBN ehf. hafi sömu réttaráhrif fyrir stefndu eins og hún hefði viðhaft hana sjálf. Sú háttsemi sem hér skipti máli sé að stofna til skulda við stefnanda. Hagsmunir stefndu og GBN ehf. hafi verið svo samofnir að stefnda beri persónulega ábyrgð á skuldbindingum GBN ehf. Eignaraðild og starfræksla GBN ehf. hafi verið með þeim hætti að telja verði að venjuleg einkenni einkahlutafélags hafi ekki verið fyrir hendi. GBN ehf. hafi ekki á nokkurn hátt verið rekið sem einkahlutafélag.
Stefnandi kveður höfuðstól skaðabótakröfu sinnar vera tvískiptan. Hann myndi annars vegar fjárhæð samkvæmt dómsorði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. nóvember 2013, 7.362.605 krónur, og hins vegar fjárhæð skiptatryggingar, sem lögð hafi verið fram vegna gjaldþrots GBN ehf., 350.000 krónur. Til frádráttar komi síðan innborganir, 115.582 krónur 12. júní 2013, 500.000 krónur 12. júlí 2013 (lager), 12.550 krónur 13. september 2013 og 514.000 krónur 6. nóvember 2013 (sala lagers). Tekur stefnandi fram að í stefnu hafi láðst að draga innborgun að fjárhæð 115.582 krónur frá höfuðstól. Þá hafi innborgun að fjárhæð 514.000 krónur, vegna sölu á lager, ranglega verið dregin frá þar sem þegar hafi verið búið að draga 500.000 krónur frá vegna sama lagers sem samkomulag hafi verið um að gengi upp í skuld GBN ehf. á því verði. Ljóst sé samkvæmt öllu framangreindu að höfuðstóll bótakröfunnar hefði átt að nema 7.084.473 krónum en ekki 6.686.055 krónum. Þar sem óheimilt sé án samþykkis gagnaðila að breyta kröfugerð til hækkunar haldi umkrafinn höfuðstóll í stefnu sér hins vegar. Stefnandi hafi hins vegar komið á framfæri framangreindum leiðréttingum á sundurliðun hans.
Samkvæmt framansögðu hafi stefnda beint greiðslum vörureikninga, sem verið hafi veðsettir stefnanda, til Íslandsbanka hf. í trássi við veðrétt stefnanda. Þessar greiðslur hafi verið margfalt hærri en skuld sú sem myndi bótakröfu stefnanda. Því sé ljóst að ef stefnda hefði ekki beint hinum veðsettu greiðslum til Íslandsbanka hf. væri skuldin að fullu greidd.
Stefnandi tekur fram að við höfðun bótamáls þessa hafi ýmsum kostnaðar- og vaxtaliðum, sem bæst hafi við skuld GBN ehf., verið sleppt til einföldunar. Í þeirri ákvörðun stefnanda felist hins vegar engin eftirgjöf þessara liða gagnvart GBN ehf.
Stefnandi segir fjárhæð innborgana á bankareikninga GBN ehf. hjá Íslandsbanka hf. vegna kaupa á vörum samsvara verði þeirra vara sem seldar hafi verið þrátt fyrir bann. Þetta séu vörur sem stefnandi hefði ella haft veð í og sé því einnig hægt að líta svo á að tjón stefnanda nemi söluverðmæti þessara vara. Stefnandi hafi lagt fram skjöl sem sýni innborganir á bankareikninga GBN ehf. hjá Íslandsbanka hf. Þar séu innborganir flokkaðar eftir því hver greiði í því skyni að veita gleggri sýn á það hvaða greiðslur hafi augljóslega verið veðsettar stefnanda. Innborganirnar séu flokkaðar í nokkra flokka. Þær innborganir sem falli í flokkinn „MP listi“ séu greiðslur veðsettra vörureikninga eða almennra fjárkrafna úr rekstri GBN ehf., sbr. 47. gr. laga nr. 75/1997. Um sé að ræða innborganir frá viðskiptavinum GBN ehf. sem verið hafi í innheimtu hjá stefnanda og sé því ljóst að þeir hafi keypt vörur af GBN ehf. í reikning. Á reikningi 535-26-957 séu þetta 11.366.968 krónur og á reikningi 537-26-310 7.685.063 krónur, eða samtals 19.052.031 króna sem falli í þennan flokk. Sú fjárhæð ein og sér sé mun hærri en bótakrafa stefnanda í máli þessu og nægi þess vegna til að sýna fram á að tjónið sem stefnda olli stefnanda var fjárhæð skuldar GBN ehf.
Innborganir sem settar séu í flokkinn „Ekki listi“ séu frá aðilum sem augljóslega hafi verið viðskiptavinir GBN ehf. og hafi selt vörur félagsins. Gefnir hafi verið út vörureikningar á þessa aðila. Þeir séu þó ekki á listanum yfir þá sem verið hafi í innheimtu hjá stefnanda, þótt þeir hefðu átt að vera það ef stefnda hefði ekki beitt svikum. Á reikningi 535-26-957 séu þetta 1.525.452 krónur og á reikningi 537-26-310 9.520.425 krónur, eða samtals 11.045.877 krónur sem falli í þennan flokk. Eins og hin fyrri sé þessi fjárhæð ein og sér mun hærri en bótakrafa stefnanda í málinu og nægi þess vegna til að sýna fram á að tjónið sem stefnda olli stefnanda var fjárhæð skuldar GBN ehf.
Innborganir sem settar séu í flokkinn „Borgun“ séu frá Borgun hf. sem sé kortafyrirtæki. Þar sé augljóslega um að ræða greiðslur á kröfum sem GBN ehf. hafi eignast á hendur Borgun hf. vegna kortaviðskipta. Á reikningi 535-26-957 séu þetta engar færslur en á reikningi 537-26-310 falli 3.417.237 krónur í þennan flokk.
Innborganir sem settar séu í flokkinn „Innborgun á reikning verslunar“ séu innborganir frá kortafyrirtækinu Valitor hf. Þar sé augljóslega um að ræða greiðslur á kröfum sem GBN ehf. hafi eignast á hendur Valitor hf. vegna kortaviðskipta. Á reikningi 535-26-957 séu þetta engar færslur en á reikningi 537-26-310 falli 1.723.635 krónur í þennan flokk.
Innborganir sem settar séu í flokkinn „Einstaklingar“ séu innborganir frá einstaklingum sem keypt hafi vörur af GBN ehf. Um sé að ræða greiðslur krafna sem veðsettar hafi verið stefnanda, auk þess sem þessar færslur sýni fram á verðmæti vara er seldar hafi verið án heimildar. Á reikningi 535-26-957 séu þetta 595.183 krónur og á reikningi 537-26-310 3.503.353 krónur, eða samtals 4.098.536 krónur sem falli í þennan flokk.
Innborganir sem settar séu í flokkinn „Atvinnuleysistryggingasjóður“ séu innborganir frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta séu greiðslur á kröfum frá sjóðnum sem stofnast hafi vegna þátttöku GBN ehf. í átaksverkefninu „liðstyrkur“ á vegum Vinnumálastofnunar. Greiðslurnar hafi tengst ráðningum á starfsmönnum sem verið hafi á atvinnuleysisskrá. Um sé að ræða almennar fjárkröfur og hafi þær því verið veðsettar stefnanda. Á reikningi 535-26-957 sé um að ræða 186.418 krónur og á reikningi 537-26-310 6.206.846 krónur, eða samtals 6.393.264 krónur sem falli í þennan flokk.
Innborganir í flokknum „Símgreiðslur“ séu innborganir frá kortafyrirtækjum vegna símgreiðslna með kreditkortum. Greiðslurnar hafi stofnast við það að greitt var fyrir vörur hjá GBN ehf. með símgreiðslum. Með þeim hætti hafi GBN ehf. eignast almenna fjárkröfu á hendur viðkomandi kortafyrirtæki. Kröfurnar hafi verið veðsettar stefnanda. Á reikningi 535-26-957 séu engar greiðslur þessarar gerðar en á reikningi 537-26-310 falli 1.668.444 krónur í þennan flokk.
Þær innborganir sem í umræddum dómskjölum séu settar í flokkinn „Tengdir aðilar“ séu innborganir frá Gyðju Collection ehf. Eftir því sem stefnandi komist næst sé það einkahlutafélag systurfélag GBN ehf. Þar sé líklega um að ræða greiðslur á almennum fjárkröfum en ekki viðskiptabréfakröfum eða kröfum samkvæmt innlausnarbréfum. Þær kröfu hafi því verið veðsettar stefnanda. Á reikningi 535-26-957 sé engar greiðslur þessarar gerðar að finna en á reikningi 537-26-310 falli 8.676.500 krónur í þennan flokk.
Innborganir sem skipað hafi verið í flokkinn „GBN ehf. sjálft“ og „Annað“ séu greiðslur sem stefnandi telji sig hafa fært sönnur á undir rekstri málsins að hafi verið greiðslur á almennum fjárkröfum sem veðsettar hafi verið stefnanda. Samtals falli 32.129.198 krónur í þessa tvo flokka innborgana.
Stefnandi bendir á að hann hafi gert ítrekaðar tilraunir til að innheimta skuld GBN ehf. við bankann. GBN ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota og hafi eiginfjárstaða þess verið verulega neikvæð. Við kyrrsetningargerð í júní 2013 hafi nær engar eignir komið fram. Þrotabúið eigi því engar eignir. Samkvæmt því sé ljóst að skuld GBN ehf. við stefnanda muni aldrei fást greidd. Tjón stefnanda liggi því fyrir.
Um skilyrði skaðabóta kveðst stefnandi byggja á hinni almennu sakarreglu. Reglan hafi verið orðuð svo að maður beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann valdi með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun hans og raski hagsmunum sem verndaðir séu af skaðabótareglum.
Tjón sitt segir stefnandi vera það sem tilgreint sé í dómkröfum og útlistað hafi verið hér að framan. Saknæmi stefndu felist í því að hafa með ásetningi, til vara gáleysi, ráðstafað greiðslum vörureikninga til Íslandsbanka hf. og framselt vörur í trássi við veðrétt stefnanda. Hún hafi brotið vísvitandi gegn samningum og ýmsum lagaákvæðum. Það sé hið reglufesta saknæmi en samkvæmt því nægi það eitt að skráðar reglur hafi verið brotnar svo háttsemi verði talin saknæm. Þá stríði háttsemi stefndu jafnframt gegn því hvernig gegn og skynsamur maður hefði hegðað sér við þær aðstæður sem uppi voru. Af þeim sökum sé einnig um að ræða saknæmi samkvæmt bonus pater familias mælikvarðanum.
Ljóst sé að ólögmætisskilyrði sakarreglunnar sé uppfyllt því að háttsemi stefndu hafi verið brot á lagaákvæðum, svo sem fyrr var rakið. Þá sé tjónið meira en sennileg afleiðing af hegðun stefndu. Það sé bein afleiðing af hegðun hennar, svo sem framlögð gögn sýni og rakið hafi verið hér að framan.
Þá hafi hegðun stefndu raskað hagsmunum sem verndaðir séu af skaðabótareglum. Um sé að ræða þá hagsmuni stefnanda sem fólgnir hafi verið í veðrétti hans í vörureikningum og vörulager. Veðréttindi falla í þann flokk eignarréttinda sem nefnist óbein eða takmörkuð eignarréttindi. Með því að gera veð stefnanda verðlaust hafi stefnda raskað þessum hagsmunum.
Stefnandi tekur sérstaklega fram að jafnvel þótt umrædd háttsemi stefndu hafi líklega verið refsiverð verði að líta til þess að mál þetta sé einkamál sem rekið sé eftir ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um þær kröfur sem gera verði til sönnunar stefnanda um atvik og tjón sitt fari því eftir almennum reglum um sönnun í einkamáli. Stefnandi þurfi einungis að gera það meira líklegt en hitt að umdeild atvik séu með þeim hætti sem hann haldi fram svo að þau verði talin sönnuð. Sönnunarkröfur í þessu máli séu því minni heldur en væri í sakamáli vegna sömu atvika, jafnvel þótt málið snúist um háttsemi sem líklega sé refsiverð.
Dráttarvaxta kveðst stefnandi krefjast frá þeim degi þegar liðinn hafi verið mánuður því að hann sendi stefndu innheimtuviðvörun. Krafan styðjist við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Við ákvörðun málskostnaðar segir stefnandi nauðsynlegt að taka tillit til þess að höfðun máls þessa hafi eingöngu komið til vegna háttsemi stefndu. Háttsemin sé líklega refsiverð og hafi stefnda því verið kærð til sérstaks saksóknara. Hvað málskostnaðarkröfuna varði þurfi einnig að líta til þess að stefnandi reki ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi. Því sé nauðsynlegt að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar að virðisaukaskattur leggist ofan á málflutningsþóknun lögmanns stefnanda. Lagagrundvöll kröfunnar segir stefnandi vera 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til hinnar almennu sakarreglu, sem hann segir vera meginreglu á sviði skaðabótaréttar. Stefnandi vísi einnig til ákvæðis 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til IV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um almennar reglur um sönnun, laga nr. 75/1997 um samningsveð og laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.
III
Verða nú reifaðar helstu málsástæður og réttarheimildir sem stefnda byggir kröfur sínar á, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína á því að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að skilyrði fyrir skaðabótaskyldu hennar samkvæmt sakarreglunni, eða eftir atvikum öðrum skaðabótareglum, séu fyrir hendi. Skaðabótaábyrgð á meintu tjóni stefnanda verði því ekki felld á stefndu. Meginregla sé við beitingu sakarreglunnar að tjónþoli verði að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert það sé, að tjónið megi rekja til skaðabótaskyldrar háttsemi tjónvalds og að það sé afleiðing af þeirri háttsemi hans. Stefnandi hafi ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á að skilyrði þessi séu uppfyllt í málinu. Af þeim sökum beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Stefnda segir í málinu ekkert liggja fyrir um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni þar sem GBN ehf. sé undir gjaldþrotaskiptum og skiptum á búi félagsins sé ekki lokið. Engin gögn hafi verið lögð fram af stefnanda sem sýni að hann hafi orðið fyrir því tjóni er hann krefjist að stefndu verði gert að bæta, enda sé ekki orðið ljóst hvort stefnandi fái kröfu sína greidda úr þrotabúinu. Stefnda mótmæli fjárhæð kröfunnar einnig sem rangri og ósannaðri. Í málatilbúnaði sínum vísi stefnandi til þess að samist hafi um það milli aðila 12. júlí 2013 að stefnandi fengi afhentan vörulager GBN ehf. sem 500.000 króna innborgun inn á hina meintu skuld. Stefnandi hefur hins vegar ekki lagt haldbær gögn þessu til stuðnings. Þá liggi fyrir að í grein 19.2 í rekstrarlánasamningi milli stefnanda og GBN ehf. sé kveðið á um að taka skuli mið af skráðu opinberu gengi vörubirgða, sé það til, en endanlegt mat sé á hendi lánveitanda. Ekkert mat á þeim vörubirgðum sem afhentar hafi verið stefnanda liggi fyrir.
Af hálfu stefndu er á það bent að í málinu liggi fyrir einhliða talning stefnanda á þeim vörubirgðum sem hann hafi fengið afhentar frá GBN ehf. Talningu þessari sé alfarið mótmælt af stefndu og telji hún magn afhentra vara hafa verið mun meira en samkvæmt einhliða talningu stefnanda. Stefnandi hafi hafnað því að telja vörurnar við afhendingu þeirra svo að stefnda gæti staðfest talninguna. Þá liggi fyrir opinbert söluverðmæti þeirra vara er stefnandi hafi fengið 12. og 17. júlí 2013. Samkvæmt því verði hafi söluverðmæti varanna, miðað við talningu stefnanda, numið 10.809.770 krónum. Krafa stefnanda sé því að fullu greidd og þegar og af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Þá vísar stefnda til þess að stefnandi hafi ekki lagt fram hreyfingaryfirlit fjárvörslureiknings Lögmáls ehf., nr. 701-26-4070, fram til þess tíma er mál þetta var höfðað. Bendir stefnda á að lögmaður stefnanda hafi sent viðskiptamönnum GBN ehf. bréf þar sem hann krafðist þess að greiðslum til GBN ehf. yrði beint inn á fjárvörslureikninginn. Stefnandi hafi því ekki fært viðhlítandi sönnur fyrir kröfu sinni, eða fjárhæð hennar, og beri af þeim sökum að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Stefnda kveðst hafna því að stefnandi geti byggt höfuðstól dómkröfu sinnar á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2994-/2013. Umrætt mál hafi verið höfðað gegn GBN ehf. en ekki stefndu og hafi verið höfðað til greiðslu skuldar en ekki skaðabóta. Þá sé málið höfðað með stefnu birtri 25. júlí 2013 og með vísan til framangreinds liggi ekkert fyrir um hverjar innborganir séu á skuldina eftir þann tíma.
Stefnda segir sýknukröfu sína einnig byggjast á því að hún hafi ekki sýnt af sér skaðabótaskylda háttsemi, líkt og stefnandi haldi fram. Stefnandi byggi aðallega á því að stefnda hafi, með því að ráðstafa greiðslum vörureikninga og framselja vörulager, brotið gegn 1. mgr. 27. gr., sbr. 2. mgr. 34. gr., laga um samningsveð nr. 75/1997, ákvæðum tryggingarbréfs, sem tryggt hafi verið með veði í vörureikningum og vörubirgðum GBN ehf., og rekstrarlánasamnings milli GBN ehf. og stefnanda.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefnanda hafi verið, eða hafi í það minnsta mátt vera, fullkunnugt frá upphafi viðskipta GBN ehf. við stefnanda um að GBN ehf. væri einnig í viðskiptum við Íslandsbanka og hefði skuldbindingar við þann banka sem standa þyrfti skil á. Stefnandi hafi samkvæmt ákvæðum rekstrarlánasamningsins, sbr. grein 10.1, haft aðgang að öllum helstu fjárhagsupplýsingum GBN ehf. og fjárhagslegri stöðu félagsins á þeim tíma er hann tók ákvörðun um að veita GBN ehf. lán samkvæmt rekstrarlánasamningnum. Nefnir stefnda í þessu sambandi að yfirdráttur GBN ehf. á reikningi 537-26-310 hjá Íslandsbanka hafi staðið í 25.749.190 krónum þegar stefnandi hafi 18. maí 2013 veitt félaginu lán samkvæmt rekstrarlánasamningnum. Stefnanda hafi því átt að vera fyllilega ljóst á þeim tíma að félagið þyrfti einnig að standa skil á þeim skuldbindingum og að það yrði ekki gert á annan hátt en að ráðstafa tekjum félagsins einnig til greiðslu þeirra skulda.
Um vitneskju stefnanda vísar stefnda einnig til samskipta sinna við útibússtjóra hjá stefnanda 5. desember 2012, sem hafi séð til þess að innborgun var samdægurs greidd inn á reikning GBN ehf. hjá Íslandsbanka hf. Það telur stefnda staðfesta að stefnandi hafi alls ekki síðar en á nefndum degi vitað af viðskiptum GBN ehf. við Íslandsbanka hf.
Stefnanda hafi einnig, samkvæmt ákvæðum rekstrarlánasamningsins, verið í lófa lagið að loka fyrir úttektir af reikningum GBN ehf. eða gjaldfella lánið, teldi hann að úttektir væru komnar umfram leyfileg mörk eða fyrirliggjandi tryggingar eða að GBN ehf. uppfyllti ekki ákvæði rekstrarlánasamningsins að öðru leyti. Vísar stefnda í þessu samhengi til þess að samkvæmt grein 4.2 í rekstrarlánasamningi aðila hafi lán GBN ehf. að hámarki getað orðið 5.000.000 króna. Í grein 3.5 í samningnum hafi hámarksfjárhæð, sem lántaki gat tekið að láni vegna viðskiptakrafna er hann hafði eignast á hendur einstökum skuldara, takmarkast við 70% af útistandandi viðskiptakröfum lántaka á hverjum tíma. Í greinum 3.7 og 3.8 hafi svo komið fram að lánveitandi gæti samþykkt að veita lántaka lán sem næmi hærri fjárhæð en rúmaðist innan heimildar hans, sbr. grein 3.5, og að starfsmenn lánveitanda færu daglega yfir kröfur í kröfugrunni og á grundvelli slíks útreiknings væri heimild lántaka reiknuð daglega. Ef ádregin lánsfjárhæð væri hærri en 70% af verðmæti viðurkenndra krafna hafði lántaki tíu daga til að leggja inn á lánið eða leggja fram auknar tryggingar. Stefnandi hafi hins vegar aldrei gert athugasemdir við úttektir GBN ehf. af reikningum eða krafist aukinna trygginga. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram um að skuldbindingar GBN ehf. hafi verið gjaldfelldar með lögmætum hætti áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi hafi þó haft heimild til þess að gjaldfella lán GBN ehf., sbr. grein 11.1 í rekstrarlánasamningi. Stefnandi hafi heldur ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á hvaða tryggingar legið hafi til grundvallar útborgun lánsins og hver fjárhæð slíkra trygginga hafi verið á þeim tíma, eða hvernig staða slíkra trygginga hafi verið á hverjum tíma eftir veitingu lánsins. Stefnandi hafi því hvorki sýnt fram á skaðabótaskylda háttsemi stefndu né að meint tjón megi rekja til þess að stefnda hafi með ólögmætum eða saknæmum hætti brotið gegn 1. mgr. 27. gr., sbr. 2. mgr. 34. gr., laga nr. 75/1997 um samningsveð, ákvæðum í tryggingarbréfi eða rekstrarlánasamningi GBN ehf. við stefnanda.
Stefnda segir ljóst af því sem að framan sé rakið að hún hafi ekki brotið gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Frá upphafi viðskipta GBN ehf. við stefnanda hafi bankanum verið ljóst, eða í það minnsta hefði átt að vera ljóst, að GBN ehf. væri einnig með skuldbindingar við Íslandsbanka hf. sem félagið þyrfti að standa skil á. Þá geti stefnandi ekki byggt bótagrundvöll sinn á 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga þar sem fyrir liggi að stefnda hafi hvorki verið ákærð né dómur fallið á hendur henni vegna slíks brots. Brot gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga varði refsingum og verði mál vegna slíkra brota eingöngu höfðuð af handhöfum ákæruvalds, sbr. 1. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Mál af þeim toga beri að reka eftir reglum þeirra laga, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, nema einkaréttarkrafa hafi verið höfð uppi í sakamáli og henni verið vikið til meðferðar í einkamáli, sbr. XXVI. kafla laga um meðferð sakamála. Þar sem stefnda hafi ekki verið ákærð fyrir brot gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga sé ekki um slíka kröfu að ræða í máli þessu.
Þá falli háttsemi stefndu auk þess ekki undir ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga. Svo háttsemi verði talin falla undir ákvæðið þurfi að sýna fram á auðgunarásetning. Þær greiðslur, sem stefnandi byggi á að renna hafi átt inn á reikning GBN ehf. hjá stefnanda en ráðstafað hafi verið til Íslandsbanka, hafi verið nýttar í rekstur GBN ehf. Þeim hafi ekki verið varið til lækkunar á skuldum GBN ehf. eða skuldbindingum stefndu við Íslandsbanka á neinn hátt. Þá hafi stefnda ekki með öðrum hætti auðgast vegna þessarar ráðstöfunar. Þetta megi glögglega ráða af reikningsyfirlitum GBN ehf. hjá Íslandsbanka. Hinn 18. maí 2012, sama dag og rekstrarlánasamningur milli GBN ehf. og stefnanda hafi verið gerður, hafi skuld GBN ehf. á reikningi 537-26-310 í Íslandsbanka staðið í 26.749.190 krónum og inneign á reikningi nr. 535-26-957 í 206.152 krónum. Á tímabilinu frá 18. maí 2012 til 7. nóvember 2013, þ.e. þess dags er bú GBN ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta, hafi öllum innborgunum á reikninga GBN ehf. verið varið jafnóðum í rekstrarkostnað GBN ehf. Einu innborganirnar sem sé að finna á þessum reikningsyfirlitum, er komi til verulegrar lækkunar á skuldum, séu annars vegar frá 27. júní 2013, að fjárhæð 19.465.100 krónur, vegna útgáfu GBN ehf. á skuldabréfi nr. 537-74-978795, en tilgangurinn með útgáfu bréfsins hafi verið að breyta hluta yfirdráttarskuldarinnar í skuldabréfalán. Hins vegar sé um að ræða innborgun að fjárhæð 8.540.000 krónur frá þriðja aðila, sem yfirtekið hafi yfirdráttarskuld GBN ehf. með stofnun yfirdráttarskuldar við Íslandsbanka hf. Óumdeilt sé því að hvorug þessara innborgana hafi verið vegna krafna sem veðsettar hafi verið stefnanda. Því liggi fyrir að hvorki stefnda né GBN ehf. hafi auðgast við ráðstöfun greiðslna til Íslandsbanka hf. í stað stefnanda. Umræddar skuldbindingar hvíli enn óbreyttar á stefndu sem ábyrgðaraðila.
Stefnda bendir einnig á að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að hann hefði fengið skuld sína greidda ef öllum tekjum GBN ehf. hefði verið ráðstafað til stefnanda. Hefði sá háttur verið hafður á hefði GBN ehf. þurft að nýta reikninga sína hjá stefnanda til að greiða rekstrarkostnað. Þar sem allar tekjur GBN ehf. hafi verið nýttar til að greiða rekstrarkostnað félagsins og því ekki komið til lækkunar skulda GBN ehf. við Íslandsbanka hf. telji stefnda einsýnt að slíkar tekjur hefðu ekki heldur komið til lækkunar skulda GBN ehf. við stefnanda. Skuld GBN ehf. við stefnanda hefði því ekki verið lægri af þeim sökum.
Af hálfu stefndu er og til þess vísað að GBN ehf. hafi verið rekið sem einkahlutafélag og eftir ákvæðum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra laga hafi GBN ehf. verið félag með takmarkaða ábyrgð félagsmanna. Sú ábyrgð hafi verið bundin við hlutafé félagsins eins og það var á hverjum tíma. Einnig sé það grundvallarregla í félagarétti að stjórnendur félaga með takmarkaða ábyrgð séu ekki persónulega ábyrgir gagnvart kröfuhöfum félagsins fyrir skuldum þess. Einu undantekninguna frá þeirri reglu sé að finna í 1. mgr. 108. gr. laganna, en samkvæmt fyrri málslið þess ákvæðis séu stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur og skoðunarmenn einkahlutafélags, svo og rannsóknarmenn, skyldugir til að bæta félaginu það tjón sem þeir hafa valdið því í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Í síðari málslið ákvæðisins sé síðan á um það kveðið að sama gildi þegar hluthafi eða aðrir verði fyrir tjóni vegna brota á ákvæðum laganna eða samþykktum félags. Stefnda segir á það skorta að í stefnu sé aðild málsaðila reifuð með fullnægjandi hætti. Telji stefnda ljóst með vísan til síðari málsliðar 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög að stefnandi geti einungis byggt ætlaða bótaskylda háttsemi stefndu á meintum brotum hennar gegn ákvæðum laga um einkahlutafélög eða samþykktum GBN ehf. Af þeim sökum sé enn fremur ljóst að stefnandi geti ekki byggt meinta skaðabótaskylda háttsemi stefndu á 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga eða ákvæðum laga nr. 75/1997 um samningsveð.
Stefnda hafnar því að hún hafi brotið gegn 80. gr. laga nr. 138/1994, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., með því að gefa GBN ehf. ekki upp til gjaldþrotaskipta. Hafnar stefnda alfarið öllum staðhæfingum stefnanda því tengdum.
Þá bendir stefnda á að hafi stefnandi orðið fyrir tjóni hafi það tjón verið að fullu bætt með afhendingu lagers GBN ehf. Af þeim sökum sé ekki til að dreifa saknæmi af hálfu stefndu samkvæmt 80. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fallist dómurinn á að stefnanda hafi tekist að sýna fram á tjón sitt byggi stefnda á því að þrátt fyrir að hún hefði gefið GBN ehf. upp til gjaldþrotaskipta haustið 2012, eða eftir atvikum síðar, liggi fyrir gögn um að yfirdráttarskuld GBN ehf. á reikningi nr. 701-26-020155 hjá stefnanda hafi staðið í 4.993.693 krónum 4. september 2012. Svo sem sjá megi á yfirliti reiknings nr. 701-26-020155 hafi skuld á reikningnum lægst numið 3.873.941 krónu eftir það tímamark, eða 21. september 2012. Er á því byggt af hálfu stefndu að samanlögð skuld GBN ehf. vegna yfirdráttar á reikningum félagsins hafi líklega ekki verið lægri en 5.373.941 króna eftir 4. september 2012 og fram til þess tíma er GBN ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Segir stefnda þá staðhæfingu stefnanda að skiptastjóri hefði getað ráðstafað greiðslum veðsettra vörureikninga til stefnanda, hefði GBN ehf. verið gefið upp til gjaldþrotaskipta haustið 2012, með öllu ósannaða og haldlausa. Þá liggi enn fremur fyrir samkvæmt áðursögðu að meint tjón stefnanda hafi að langmestu leyti þegar verið fallið til á þeim tíma sem stefnandi haldi fram að stefnda hefði átt að gefa GBN ehf. upp til gjaldþrotaskipta. Einsýnt megi því telja að meint aðgerðarleysi stefndu hafi ekki valdið stefnanda tjóni.
Stefnda heldur því fram að henni hafi ekki verið orðið skylt að gefa GBN ehf. upp til gjaldþrotaskipta þar sem félagið hafi lent í tímabundnum erfiðleikum vegna skóframleiðslu. Þá hafi stefnda ekki vitað að nein slík atvik, sem nefnd séu í 1.-5. tölulið 1. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, væru til staðar í rekstri GBN ehf. á umræddum tíma og fram til þess að stefnandi fékk vörulager GBN ehf. kyrrsettan. Stefnda bendir og á að hún hafi allt frá miðju ári 2012 átt í viðræðum við fjárfesta um að leggja félaginu til fjármuni til að styrkja stöðu þess. Þær viðræður hafi hins vegar ekki verið fullfrágengnar þegar úrskurður um töku bús GBN ehf. til gjaldþrotaskipta var kveðinn upp. Þá bendir stefnda einnig á í þessu samhengi að gera verði greinarmun á ákvörðunum stjórnenda félaga sem séu saknæmar eða ólögmætar og þeim ákvörðunum sem kunni að hafa leitt til taps fyrir hluthafa eða kröfuhafa félagsins, án þess að þær ákvarðanir séu saknæmar eða ólögmætar. Stefnda hafi haft þá trú, og unnið ötullega að því allt fram til gjaldþrotaskipta GBN ehf., að henni tækist að fá aukið fjármagn inn í reksturinn þannig að félagið gæti staðið í fullum skilum með skuldbindingar sínar. Allar ákvarðanir stefndu um að reyna í lengstu lög að halda rekstri GBN ehf. áfram hafi því verið teknar með hagsmuni GBN ehf., og þar af leiðandi kröfuhafa félagsins, að leiðarljósi. Bendir stefnda og á að allt frá haustinu 2012 og fram til þess að bú GBN ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta hafi heildarskuldir GBN ehf. í raun staðið í stað, auk þess sem stefnda hafi ekki haft neinar tekjur af rekstrinum á þessum tíma.
Af hálfu stefndu er sýknukrafa hennar einnig á því byggð, verði á það fallist að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, að tjónið sé á engan hátt afleiðing skaðabótaskyldrar háttsemi stefndu. Orsök tjónsins megi að öllu leyti reka til háttsemi stefnanda sjálfs. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að bein orsakatengsl séu á milli háttsemi stefndu og ætlaðs fjárhagslegs tjóns hans né að hið meinta tjón sé afleiðing saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi stefndu. Bendir stefnda á í þessu sambandi að stefnandi hafi 12. júní 2013 fengið afhentan vörulager GBN ehf. að andvirði a.m.k. 10.809.770 króna. Vörulagerinn hafi stefnandi svo selt á uppboðsvefnum Bílauppboð.is fyrir 556.000 krónur. Stefnda telji með öllu óskiljanlegt hvers vegna stefnandi hafi ákveðið að selja vörulagerinn á uppboðsvef fyrir bifreiðar og fyrir ekki hærra verð en raun bar vitni. Að mati stefndu liggi fyrir að söluverðmæti lagersins hafi verið margfalt hærra en það verð er stefnandi seldi hann fyrir. Ljóst verði að telja að það að meint skuld GBN ehf. við stefnanda sé enn til staðar sé bein afleiðing af þessari háttsemi stefnanda. Honum hefði verið í lófa lagið að selja vörurnar með öðrum hætti, t.d. í samráði við stefndu og fá þannig fullar efndir kröfu sinnar. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert og verði hann að bera hallann af því með hvaða hætti hann ráðstafaði lagernum.
Þá kveðst stefnda hafna því að hún hafi samþykkt að afhending vörulagersins teldist 500.000 króna innborgun á skuld GBN ehf. við stefnanda. Og jafnvel þótt stefnda hefði á það fallist geti slíkt samkomulag ekkert gildi haft í málinu þar sem mál þetta sé skaðabótamál en ekki innheimtumál. Stefnandi geti því ekki krafið stefndu um hærri bætur en sem nemi því tjóni er hann raunverulega hafi orðið fyrir, eða hefði orðið fyrir hefði hann gætt þess að takmarka tjón sitt með raunhæfum aðgerðum. Samkvæmt öllu framangreindu liggi fyrir að slíkt tjón verði að engu leyti rakið til háttsemi stefndu heldur alfarið til háttsemi stefnanda sjálfs.
Af hálfu stefndu er einnig á það bent að meint tjón stefnanda sé jafnframt afleiðing af þeirri háttsemi stefnanda að hafa ekki nýtt sér þær heimildir sem hann hafði samkvæmt ákvæðum rekstrarlánasamningsins til að gjaldfella lán GBN ehf., sbr. greinar 3.8, 8.2 og 11.2, krefjast aukinna trygginga, sbr. grein 3.8, eða ganga að veðum, sbr. grein 11.3, þegar stefnandi taldi að GBN ehf. hefði ekki uppfyllt ákvæði samningsins. Ætlað tjón stefnanda sé því tilkomið vegna þeirrar háttsemi stefnanda sjálfs að hafa ekki nýtt sér þau úrræði sem hann hafði samkvæmt rekstrarlánasamningnum. Í þessu samhengi sé einnig óhjákvæmilegt að taka mið af því að stefnandi sé stórt fjármálafyrirtæki með fjölda sérfræðinga í vinnu. Rekstrarlánasamningurinn hafi verið saminn einhliða af stefnanda og með hagsmuni bankans í huga. Þá séu lánaviðskipti í eðli sínu áhættusöm. Það sé eðli lánastarfsemi að henni fylgi alltaf hætta á að ákveðinn hluti útlána tapist. Til að mæta áhættu sinni vegna útlánataps leggi stefnandi álag á útlánsvexti sína, sem ákveðið sé einhliða af bankanum. Stefnandi geti af þessum sökum ekki velt ábyrgð af ætluðu tjóni sínu yfir á stefndu. Hann verði sjálfur að bera ábyrgð á tapi sínu, enda hafi bankinn samþykkt að veita stefndu lán á forsendum og með skilyrðum sem hann hafi ákveðið einhliða.
Stefnda segir lögmann stefnanda hafa 3. júlí 2013 sent fjölmörgum viðskiptavinum GBN ehf. skeyti þar sem lögmaðurinn hafi upplýst þá um að honum hefði verið falið að innheimta kröfu stefnanda. Samhliða hefði þess verið krafist að viðskiptavinirnir beindu eftirleiðis greiðslum til GBN ehf. inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu hans og ef greitt yrði annað þá myndi viðkomandi skuldari ekki leysast undan greiðsluskyldu. Þessi háttsemi lögmanns stefnanda hafi haft það í för með sér að fjölmargir viðskiptavinir GBN ehf. tilkynntu að þeir myndu ekki eiga frekari viðskipti við GBN ehf. Háttsemi lögmannsins hafi því leitt til þess að rekstrarhæfi félagsins laskaðist verulega, sem aftur hafi leitt til þess að GBN ehf. gat ekki staðið skil á skuldum sínum við stefnanda. Ekki verði með góðu móti séð hvers vegna lögmaður stefnanda hafi látið beina greiðslum inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu sinnar en ekki inn á reikning GBN ehf. hjá stefnanda, líkt og áskilið hafi verið í grein 4.3 í rekstrarlánasamningi, en reikningurinn hafi verið handveðsettur stefnanda og því ekki verið mögulegt að taka út af reikningum nema með samþykki bankans.
Verði ekki fallist á kröfu stefndu um sýknu krefst hún þess til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefnda kveðst byggja varakröfu sína á öllum sömu málsástæðum og sýknukröfuna. Til viðbótar byggist lækkunarkrafan á því að í grein 4.2 og 4.3 í rekstrarlánasamningi sé kveðið á um að stefnandi skuli veita GBN ehf. yfirdráttarlán að hámarki 5.000.000 króna á reikningi nr. 701-26-055102 og að það lán skuli vera greitt inn á ráðstöfunarreikning GBN ehf. nr. 701-26-20155. Í stefnu komi fram að höfuðstóll dómkröfu stefnanda sé 7.362.605 krónur. Svo virðist sem höfuðstóllinn samanstandi annars vegar af skuld að fjárhæð 2.054.507 krónur á reikningi nr. 701-26-55102 og hins vegar af skuld á reikningi nr. 701-26-20155 að fjárhæð 5.308.098 krónur, sbr. handritaðar fjárhæðir á framlögðum reikningsyfirlitum. Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum rekstrarlánasamningsins sé ljóst að ekki átti að geta stofnast til yfirdráttarskuldar á reikningi 701-26-20155. Engin önnur ákvæði rekstrarlánasamningsins mæli heldur fyrir um slíka heimild og þá liggi ekki fyrir í málinu upplýsingar eða gögn um að stefnda hafi, fyrir hönd GBN ehf., óskað eftir yfirdráttarheimild á síðastgreindan reikning eða að stefnandi hafi veitt slíka heimild. Ljóst megi því vera að stefnandi geti ekki borið fyrir sig að stefnda hafi brotið gegn ákvæðum rekstrarlánasamningsins vegna skuldar á reikningi nr. 701-26-20155. Þar af leiðandi geti stefnandi ekki krafið stefndu um skaðabætur vegna skuldar á þeim reikningi. Stefnandi verði sjálfur að bera hallann af tilurð skuldarinnar. Samkvæmt öllu þessu sé ljóst að höfuðstóll kröfu stefnanda á hendur stefndu geti ekki verið hærri en skuld á reikningi nr. 701-26-55102, eða 2.054.507 krónur að frádregnum innborgunum á skuldina. Krafa stefnanda á hendur stefndu geti því ekki numið hærri fjárhæð en. 1.377.957 krónum.
Varakröfu sína kveðst stefnda einnig byggja á því að eigin sök stefnanda sé slík að hann verði að bera ætlað tjón sitt að mestu leyti sjálfur. Um þetta vísar stefnda til þess sem að framan sé rakið.
Varakrafa stefndu sé enn fremur reist á því að í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sé að finna reglu sem heimili að færa niður bótafjárhæð með hæfilegu tilliti til þess hversu mikil sökin var og tjónið, svo og til efnahags tjónvalds og annarra atvika. Í 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé einnig að finna sambærilega lækkunarreglu. Inntak þessara reglna sé annars vegar að heimilt sé að lækka skaðabætur þegar fyrir liggi að bótaábyrgðin yrði hinum bótaskylda svo þungbær að ósanngjarnt yrði að telja og hins vegar að lækkun sé sanngjörn vegna óvenjulegra aðstæðna. Báðar þessar reglur eigi vel við í málinu. Bendir stefnda á að verulegur aðstöðumunur sé og hafi verið á stefndu og stefnanda. Stefnandi sé stórt fjármálafyrirtæki með stórt eignasafn. Stefnda sé hins vegar einstaklingur sem eigi litlar sem engar eignir. Ljóst sé því að það yrði stefndu mjög þungbært, ef ekki ómögulegt, að greiða stefnufjárhæðina að fullu. Að sama skapi hefði tap kröfunnar svo til engin áhrif á fjárhagsstöðu stefnanda. Þá sé eigin sök stefnanda í málinu slík að verði stefnda ekki sýknuð af kröfum stefnanda vegna eigin sakar, verði að telja sök hans slíka að leiða eigi til verulegrar lækkunar á kröfufjárhæðinni.
Stefnda krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti, sbr. lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Kröfuna segir hún byggða á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við ákvörðum málskostnaðar segir stefnda rétt að tekið verði tillit aðstöðumunar aðila og þeirrar auknu vinnu og kostnaðar sem sú háttsemi stefnanda, að neita að afhenda stefndu grundvallargögn í málinu, hafi valdið stefndu. Telji stefnda að framkoma stefnanda undir rekstri málsins hafi verið stórlega aðfinnsluverð.
Hvað lagarök varðar vísar stefnda sérstaklega til meginreglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, laga nr. 75/1997 um samningsveð, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í greinargerð skoraði stefnda á stefnanda, með vísan til 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að leggja fram ýmis gögn. Stefnandi varð við þeirri áskorun að verulegu leyti. Hann hefur þó ekki lagt fram hreyfingaryfirlit yfir fjárvörslureikning Lögmáls ehf., nr. 701-26-4070, frá 1. júní 2013 – 26. mars 2014.
IV
Mál þetta hefur stefnandi höfðað á hendur stefndu til heimtu skaðabóta að fjárhæð 6.686.055 krónur, ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum og málskostnaði.
Af stefnu málsins má ráða að hið meinta tjón stefnanda sé jafnvirði 7.362.605 króna kröfu sem Gyðja ehf., nú þrotabú GBN ehf., var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2013, í máli nr. E-2994/2013, dæmt til að greiða stefnanda, auk skiptatryggingar að fjárhæð 350.000 krónur. Til frádráttar samtölu þeirra fjárhæða koma innborganir, 115.582 krónur 12. júní 2013, 500.000 krónur 12. júlí 2013 (lager), 12.550 krónur 13. september 2013, og 514.000 krónur 6. nóvember 2013 (sala lagers). Lögmaður stefnanda tók fram í munnlegum málflutningi að við ritun stefnu hefði láðst að draga fyrrnefnda innborgun að fjárhæð 115.582 krónur frá höfuðstól kröfunnar og þá hefði innborgun að fjárhæð 514.000 krónur, vegna sölu á lager, þar ranglega verið dregin frá þar sem þegar hefði verið búið að draga 500.000 krónur frá vegna sama lagers, sem samkomulag hefði verið um að gengi upp í skuld GBN ehf. á því verði. Höfuðstóll bótakröfunnar hefði því átt að nema 7.084.473 krónum en ekki 6.686.055 krónum. Þar sem óheimilt væri án samþykkis gagnaðila að breyta kröfugerð til hækkunar héldi stefnandi hins vegar við upphaflega kröfugerð en hefði allt að einu talið rétt að koma á framfæri leiðréttingu á sundurliðun hennar.
Það er meginregla í skaðabótarétti að þeim sem krefst skaðabóta ber að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni. Hann ber einnig sönnunarbyrðina fyrir því hver atvikin að baki tjóninu voru og fyrir sök meints tjónvalds. Þá ber honum enn fremur að sanna að orsakatengsl séu milli tjóns hans og tjónsatburðar.
Í stefnu málsins er á því byggt að stefnda beri ábyrgð á meintu tjóni stefnanda á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar og er í stefnunni reifað með hvaða hætti stefnandi telur skilyrði sakarreglunnar uppfyllt í málinu. Er í stefnu að finna útlistun stefnanda á fjárreiðum GBN ehf. sem bankinn telur sýna að hin umkrafða fjárhæð sé raunverulegt fjártjón hans. Aflaði stefnandi matsgerðar undir rekstri málsins í þeim tilgangi að skjóta tryggari stoðum undir málatilbúnað sinn að þessu leyti. Þá er í stefnu lýst þeirri háttsemi sem stefnandi byggir á að stefnda hafi sýnt af sér og bankinn telur hafa verið saknæma, meðal annars meintum lögbrotum stefndu. Enn fremur er þar reifað hvaða rök stefnandi telji standa til þess að stefnda persónulega sé hinn bótaskyldi aðili.
Málatilbúnaður stefnanda er samkvæmt framansögðu á því byggður að hann hafi orðið fyrir tjóni sem nemi áðurnefndri yfirdráttarskuld GBN ehf. og fjárhæð skiptatryggingar. Til grundvallar fjárhæð kröfunnar liggur endurrit dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. nóvember 2013 í máli nr. E-2994/2013 og kvittun fyrir greiðslu skiptatryggingar, útgefin af Héraðsdómi Reykjaness.
Bú GBN ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2013. Samkvæmt framlagðri fundargerð af skiptafundi í búinu 24. janúar 2014 var á fundinum ekki tekin afstaða til almennra krafna „... þar sem ljóst er að ekkert mun fást greitt upp í þær ...“. Þá kemur og fram í fundargerðinni að skiptastjóra sé „... ekki kunnugt um neinar vörubirgðir eða útistandandi almennar kröfur, en auk þess er engin innistæða á veðsettum bankareikningi. Að öllu óbreyttu er því litið á kröfu MP banka hf. sem almenna kröfu í búið, en ekki er tekin afstaða til slíkra krafna.“ Bendir fundargerðin því eindregið til þess að ekkert muni fást greitt upp í kröfu stefnanda í þrotabú GBN ehf.
Hinn 12. júlí 2013 var ritað undir „Samkomulag um lok kyrrsetningar“ milli stefnanda og GBN ehf. þess efnis að stefnandi fengi afhentan vörulager GBN ehf. sem skyldi teljast 500.000 króna innborgun á skuld félagsins við bankann „... þrátt fyrir að gerðarþoli (GBN ehf.) telji vörulagerinn meira virði“, sbr. niðurlag 3. gr. samkomulagsins. Þá er upplýst að tveimur dögum síðar barst stefndu tölvupóstur frá lögmanni stefnanda og fylgdi talning stefnanda á áðurnefndum vörulager í viðhengi með póstinum. Liggur það skjal frammi í málinu. Samkvæmt skjalinu fékk stefnandi frá GBN ehf. 284 ilmvatnsglös, 26 töskur, 23 belti, 9 ólar og 186 skópör.
Stefnandi byggir á því að raunverulegt verðmæti vörulagersins skipti engu við úrlausn máls þessa. Stefnandi hafi fengið lagerinn afhentan sem 500.000 króna innborgun á skuld GBN ehf. og því sé það sú fjárhæð sem miða verði við. Til þess er hins vegar að líta að stefnda var ekki aðili að umræddu samkomulagi, heldur var samkomulagið milli stefnanda og hins sjálfstæða lögaðila, GBN ehf. Samkomulagið var bindandi fyrir GBN ehf. við fjárhagslegt uppgjör milli félagsins og stefnanda. Mál þetta er hins vegar skaðabótamál gegn stefndu sem rekið er á grundvelli sakarreglunnar. Samkvæmt fyrrnefndri meginreglu skaðabótaréttar er það stefnandi sem ber sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefndu. Við mat á ætluðu tjóni stefnanda verður ekki framhjá því horft að stefnandi fékk vörulagerinn sannanlega afhentan upp í skuld GBN ehf. Við mat á því hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi stefndu þykir verða að leggja raunverulegt verðmæti vörulagersins til grundvallar, ekki umsamið verðmæti milli bankans og GBN ehf., enda á tjónþoli samkvæmt grunnreglum skaðabótaréttar ekki rétt á að fá annað bætt en sannanlegt tjón sitt. Geta hin mjög svo nánu tengsl, sem upplýst er að voru milli stefndu og GBN ehf., engu skipt í þessu sambandi. Umsamin fjárhæð milli stefnanda og GBN ehf. verður af þeim sökum ekki lögð til grundvallar við mat á ætluðu tjóni stefnanda nema fyrir liggi haldbær gögn sem styðji að hún nemi raunverulegu verðmæti lagersins.
Upplýst er að stefnandi bauð nær allan vörulagerinn til sölu 17. október 2013 á vefsvæðinu bilauppbod.is. Fór svo að stefnandi tók tilboði að fjárhæð 556.000 krónur. Fátt liggur fyrir í málinu um umrætt vefsvæði. Þó þykir mega ráða að helst séu þar boðin til sölu notuð ökutæki. Stefnandi hefur ekki skýrt af hverju hann kaus að selja vörulagerinn í gegnum umrætt vefsvæði og telur dómurinn í ljósi framangreinds að nefnt söluverð sé ótækt viðmið við úrlausn á því hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni.
Stefnda hefur lagt fram upplýsingar um verð frá aðilum sem seldu vörur frá GBN ehf. Á grundvelli þeirra upplýsinga, og áðurnefndrar talningar stefnanda sjálfs á lagernum, heldur stefnda því fram að vörulager sá er stefnandi fékk frá GBN ehf., sem jafnvirði 500.000 króna innborgunar á skuld félagsins, hafi verið mun verðmætari en sem nam nefndri fjárhæð, eða fast að 11 milljóna króna virði. Er sú afstaða stefndu í samræmi við afstöðu GBN ehf. sem tekin var upp í 3. gr. samkomulags félagsins við stefnanda samkvæmt framansögðu. Þó svo að á grundvelli þeirra gagna, sem stefnda leggur til grundvallar útreikningi sínum á verðmæti lagersins, verði engu slegið föstu um verðmætið þykir dómnum niðurstaða þess útreiknings mun nærtækari en sú fjárhæð sem stefnandi leggur til grundvallar í kröfugerð sinni. Svo sem ítrekað hefur verið nefnt er það stefnandi, ætlaður tjónþoli, sem ber sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni. Eftir að títtnefndur vörulager var kominn í hendur stefnanda var bankanum í lófa lagið að tryggja sér sönnun um verðmæti lagersins, eftir atvikum með því að afla sér matsgerðar dómkvadds matsmanns eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það kaus stefnandi að gera ekki og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti sem af því hlaust. Er það því niðurstaða dómsins að öllu framangreindu athuguðu að stefnanda hafi ekki nægjanlega tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna hinnar meintu saknæmu og ólögmætu háttsemi stefndu. Af þeirri niðurstöðu leiðir að ekki eru efni til þess að taka afstöðu til annarra þeirra málsástæðna aðila, sem í málatilbúnaði þeirra kunna að felast, en þegar hefur verið vikið að og verður stefnda sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Sú krafa stefndu að lögmaður stefnanda verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað, einn eða sameiginlega með aðilanum, kom fyrst fram í munnlegum málflutningi. Kröfunni var mótmælt, meðal annars með þeim rökum að hún væri of seint fram komin. Á það verður að fallast og verður þegar af þeirri ástæðu ekki á kröfuna fallist.
Undir rekstri málsins kom upp ágreiningur milli aðila um frestbeiðni stefndu. Þá var einnig leyst úr frávísunarkröfu stefndu. Í ljósi niðurstöðu dómsins hvað umrædd ágreiningsatriði varðar og að ágreiningi aðila og atvikum máls heildstætt virtum, þykir rétt, með heimild í 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að láta hvorn aðila bera sinn kostnað af málinu.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, MP banka hf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.