Hæstiréttur íslands
Mál nr. 490/2012
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
|
|
Fimmtudaginn 24. janúar 2013. |
|
Nr. 490/2012.
|
M (Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn K (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Barn. Forsjá. Umgengni.
M og K deildu um forsjá sonar síns og umgengni við hann. Áður höfðu þau farið sameiginlega með forsjá drengsins sem hafði búið á heimili K en verið í umgengni við M. Samkvæmt mati dómkvadds manns og öðrum gögnum málsins var talið að báðir foreldrar væru hæfir til að fara með forsjá drengsins, en að virtum atvikum málsins var ekki talið unnt að dæma um sameiginlega forsjá hans. Með hliðsjón af hagsmunum drengsins voru ekki talin skilyrði til að breyta því fyrirkomulagi sem hann byggi við í dag og var því ákveðið að K færi ein með forsjá hans, en mælt fyrir um umgengni drengsins við M og greiðslu meðlags.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2012. Hann krefst þess að sér verði falin forsjá sonar málsaðila, A, og stefndu gert að greiða einfalt meðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs. Án tillits til niðurstöðu um forsjá krefst áfrýjandi þess einnig að umgengni þess foreldis, sem ekki fær hana, við barnið verði ákveðin til jafns við hitt foreldrið. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2012.
Mál þetta, sem var tekið til dóms 14. júní sl., var höfðað með stefnu þingfestri þann 15. maí 2011.
Stefnandi er K, kt. [...], [...],[...].
Stefndi er M, kt. [...],[...],[...].
Dómkröfur stefnanda eru að henni verði einni falin forsjá drengsins A, kt. [...], til 18 ára aldurs hans. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda meðlag til framfærslu drengsins eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni frá uppsögu dóms til 18 ára aldurs hans. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess fyrir dómi að honum verði falin forsjá sonar síns A til 18 ára aldurs hans. Þá krefst stefndi þess að umgengni drengsins verði skipað með dómi í samræmi við tillögur stefnda um helmingaskipta umgengni. Einnig krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða meðlag með barninu frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs þess, sem nemi einföldum barnalífeyri skv. ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á hverjum tíma.
Til vara krefst stefndi þess, verði krafa hans um forsjá ekki tekin til greina, að umgengni barnsins við stefnda verði skipað með dómi í samræmi við tillögur stefnda um helmingaskipta umgengni.
Þá krefst stefndi þess í öllum tilfellum að stefnandi verði dæmd til að greiða honum málskostnað ásamt virðisaukaskatti.
Undir rekstri málsins eða þann 22. september sl. krafðist stefnandi þess að henni yrði falin forsjá drengsins til bráðabirgða eða þar til endanleg ákvörðun um forsjá lægi fyrir en til vara, yrði þeirri kröfu hafnað, að kveðið yrði á um umgengni á meðan aðalmálið væri rekið fyrir dómstólum. Þá var gerð krafa um meðlagsgreiðslur og málskostnað vegna kröfunnar um bráðabirgðaforsjá.
Hafnaði stefndi þeirri kröfu og krafðist þess að honum yrði falin forsjá til bráðabirgða en til vara, yrði sú krafa ekki tekin til greina, að ákveðið yrði í úrskurði um nánar tilgreinda umgengni svo og krafðist hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Fór munnlegur málflutningur fram um þá kröfu aðila 27. október 2011 og var úrskurður kveðinn upp 2. nóvember 2011. Var kröfum aðila um að forsjánni yrði breytt á meðan aðalmálið væri rekið fyrir dómstólum hafnað en kveðið nánar á um umgengni og meðlagsgreiðslur. Var málskostnaðarákvörðun látin bíða efnisdóms.
Þann 7. desember 2011 lagði stefndi fram matsbeiðni þar sem hann fór fram á að dómkvaddur yrði hæfur, sérfróður og óvilhallur matsmaður til að meta forsjárhæfni aðila, félagslegar aðstæður þeirra og persónulega hagi, tengsl barnsins við foreldra og nánustu umönnunaraðila, vilja barnsins, áhrif umhverfisbreytinga og önnur þau atriði sem tilgreind séu í greinargerð með 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Var matsgerð lögð fram 18. apríl 2012. Reyndu aðilar óformlegar sættir í kjölfarið, sem ekki tókust. Fór aðalmeðferð fram þann 14. júní sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.
Málavextir.
Aðilar máls þessa hófu sambúð í júní 2002 er stefndi flutti til stefnanda í íbúð sem hún hafði þá á leigu. Þann 2. júlí 2005 gengu aðilar í hjónaband. Festu þau kaup á íbúð í [...] í [...]í október 2005 og fluttu þá inn. Sonurinn A fæddist [...] árið 2008. Aðilar bjuggu saman fram til 14. febrúar 2010 en stefndi flutti þá úr [...] og varð stefnandi eftir á heimilinu með drenginn. Þann 22. mars 2010 sóttu aðilar um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanninum í [...] á grundvelli 33. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Við fyrirtökuna hjá sýslumanni kvaðst stefndi óska þess að forsjá drengsins yrði sameiginleg og vera samþykkur því að drengurinn hefði lögheimili hjá stefnanda. Stefnandi kvaðst við það tækifæri hvorki reiðubúin til að taka afstöðu til forsjár, lögheimilis né meðlags. Aðilar tóku saman aftur þann 9. ágúst 2010 og bjuggu saman til 25. september 2010. Þann 29. nóvember 2010 mættu aðilar á ný hjá sýslumanninum í [...] þar sem þau óskuðu lögskilnaðar á grundvelli 39. gr. laga nr. 31/1993. Þar kom fram að ekki lægi fyrir afstaða aðila til forsjár, lögheimilis og meðlags og eignaskipti yrðu leyst með opinberum skiptum. Við fyrirtökuna kom fram að drengurinn hefði búið hjá stefnanda frá samvistarslitum og að samkomulag væri um umgengni.
Bókað er hjá sýslumanninum í [...] 29. nóvember 2010 að ekki liggi fyrir afstaða varðandi forsjá, lögheimili og meðlag en barnið hafi búið frá samvistarslitum hjá móður. Þá var bókað að samkomulag væri um umgengni. 33. gr. barnalaga nr. 76/2003 var kynnt fyrir aðilum en stefndi kvað þau þegar hafa fengið ráðgjöf í fjölskyldumálum og taldi því að ráðgjöf myndi ekki skila árangri en stefnandi kvaðst vilja þiggja ráðgjöfina.
Í fyrra skiptið sem aðilar slitu samvistir kveður stefnandi drenginn hafa dvalið nokkuð reglulega hjá stefnda án þess að gista hjá honum eða frá febrúar 2010 til ágúst 2010. Á þessum tíma hafi umgengni farið að mestu fram á heimili stefnanda í [...]. Samkvæmt stefnanda hafi samkomulagið, sem vísað var til hjá sýslumanni þann 29. nóvember 2010, verið munnlegt samkomulag milli aðila um dvalartíma drengsins hjá stefnda aðra hverja helgi frá föstudegi til sunnudags og auk þess ein næturgisting í viku hverri.
Þann 2. mars 2011 hafi stefnandi óskað eftir því að stefndi samþykkti að hún færi ein með forsjá drengsins og að gengið yrði frá samkomulagi um umgengni. Hafi samkomulag ekki náðst um það. Þann 27. apríl 2011 hafi aðilar reynt að ná samkomulagi um forsjá, umgengni, meðlag og eignaskipti með aðstoð lögmanna sinna. Það hafi ekki gengið eftir.
Stefndi kveður málsatvik í flestum atriðum á sama veg og stefnandi sem máli skiptir og verður ekki rakið aftur hér. Stefndi telur þó að það hafi verið sameiginlegur vilji aðila að fara sameiginlega með forsjá drengsins. Stefndi kveðst hafa verið með drenginn til jafns við stefnanda frá febrúar og fram í ágúst 2010 en í lok apríl 2010 hafi stefnandi skipt um skrá í íbúðinni að stefnda forspurðum, þrátt fyrir þá tilhögun á umgengni sem aðilar höfðu verið sammála um, þ.e. helmingaskipti. Stefndi hafi verið með lánsíbúð í [...]í tvo mánuði og eftir það leiguíbúð í [...]. Þegar hann hafi verið með lánsíbúðina hugnaðist honum ekki að láta drenginn gista þar, enda ókunnugur staður og ekkert af hans dóti á staðnum. Stefndi kveðst, eftir að sambúðinni lauk í september 2010, hafa verið með drenginn hjá móður sinni og sambýlismanni, sem búi í [...], þegar drengurinn gisti hjá honum, enda hafði móðir stefnda passað drenginn áður en hann fór á leikskóla þrjá daga í viku og þekkti drengurinn vel aðstæður á heimilinu. Í febrúar 2011 hafi stefndi fengið kaupleiguíbúð á [...] í [...] til 18 mánaða og hafi hann val um kaup á íbúðinni að loknum leigutíma. Stefnandi hafi síðan í mars 2011 krafist þess af stefnda að hún færi ein með forsjá drengsins sem hann hafi ekki getað samþykkt. Í tölvupósti stefnda til stefnanda komi fram að hann vilji hafa drenginn 50% á móti stefnanda og vilji fá að vera með hann fram yfir sunnudag. Frá upphafi hafi stefndi reynt að auka umgengni sína við drenginn, einkum eftir að hann flutti inn í íbúðina á [...] í [...]. Stefndi hafi í gegnum allt ferlið lagt þunga áherslu á að ná sátt í þessum málum og þar af leiðandi hafi hann ekki gert kröfu um forsjá, enda þótt honum hafi verið ljóst frá upphafi að hag barnsins væri þannig betur borgið. Þá kveðst stefndi hafa reynt að fá að hafa drenginn heila helgi fram til mánudagsmorguns eftir að hann hafði komið sér fyrir á [...]. Aðilar hafi reynt í apríl 2011 að ná sáttum um forsjá, umgengni, meðlag og eignaskipti með lögmönnum sínum en stefnda hafi þá orðið ljóst að stefnandi hygði á flutninga til náms erlendis og með drenginn með sér. Stefndi kveðst hafa viljað hafa umgengni til jafns við stefnanda en ekki sótt það af fullri hörku.
Stefndi gerir athugasemdir við málavaxtalýsingu í stefnu, sem hefur ekki áhrif á niðurstöður málsins og því ekki tilefni til að reifa frekar hér.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína um forsjá drengsins A á 34. gr. barnalaga nr. 76/2002 en þar segi í 1. mgr. að þegar foreldra greini á um forsjá barns skeri dómari úr málinu með dómi hafi sátt ekki tekist um forsjá þess. Í 2. mgr. segi enn fremur að dómari kveði á um hjá hvoru foreldri forsjá barns verði, eftir því sem barni sé fyrir bestu. Í athugasemdum með 34. gr. frumvarps þess sem varð að barnalögum hafi tiltekin verið þau atriði sem á reyni og komi til skoðunar við ákvörðun um forsjá barns hverju sinni. Stefnandi byggi kröfu sína um að henni verði einni falin forsjá drengsins á eftirfarandi efnisástæðum:
Í fyrsta lagi sé krafa stefnanda um forsjá byggð á því að það sé drengnum fyrir bestu að lúta forsjá hennar. Stefnandi hafi frá upphafi verið aðalumönnunaraðili drengsins og séð um allar daglegar þarfir hans. Stefnandi hafi hætt að vinna úti við fæðingu drengsins og verið heima og með honum allt til 1. september 2009, en hún hafi verið með drenginn á brjósti til 14 mánaða aldurs hans. Stefndi hafi varið fæðingarorlofi sínum með drengnum í þrjá mánuði á tímabilinu 20. desember 2008 til 30. september 2009. Þá hafi stefndi gætt drengsins í fimm daga í hverjum mánuði í þá fjóra mánuði á meðan stefnandi hafi lokið síðustu önn [...]náms sem hún stundaði. Á þeim tíma hafi stefnandi komið heim tvisvar á dag til að gefa drengnum brjóst. Frá febrúar 2010 til dagsins í dag hafi umönnun drengsins að mestu komið í hlut stefnanda, en á þeim tíma hafi drengurinn notið umgengni við föður sinn eins og fram hafi komið. Stefnandi haldi því fram að tengsl barnsins við móður séu sterkari en við föður og því sé það barninu fyrir bestu að hún fari með forsjá þess.
Í annan stað byggi stefnandi kröfu sína á því að forsjá hennar muni varðveita óbreytt ástand í lífi drengsins og tryggja honum þann stöðugleika sem einkennt hefur líf hans frá fæðingu. Með slíkri forsjárskipan haldi drengurinn áfram að búa hjá stefnanda og njóta umönnunar hennar sem hingað til og sækja [...] en það sé leikskóli sem byggi á [...]. Líðan drengsins og aðbúnaður hans sé með miklum ágætum. Verði stefnda hins vegar falin forsjá drengins muni það hafa í för með sér miklar breytingar í nærumhverfi hans og ekki sé vitað hvort þær breytingar muni hafa í för með sér breytingar til hins verra.
Krafa stefnanda um forsjá sé reist á því að hún þekki þarfir drengsins betur en stefndi og sé betur í stakk búin til að mæta þeim þörfum. Stefnandi hafi jafnan lagt ríka áherslu á að viðhalda reglu og stöðugleika í lífi drengsins, sem hæfi aldri hans, öndvert við stefnda. Hún telji stefnda ekki taka nægilegt tillit til þarfa drengsins, svo sem hollustu í mataræði og nauðsynlegra hvíldartíma. Þá hafi dagleg samskipti við leikskóla jafnan komið í hlut stefnanda og hún hafi oftast verið heima í veikindum barnsins. Stefndi hafi á hinn bóginn látið vinnu sína og áhugamál ganga fyrir þörfum drengsins þegar þannig hafi háttað til og gjarnan komið honum fyrir í pössun. Í annan stað hafi stefndi ekki sýnt skilning á þörfum drengsins varðandi umgengnisfyrirkomulagið. Að mati stefnanda hafi það hent drengnum, þegar hann var tæplega tveggja og hálfs árs gamall, að dvelja oftar með stefnda og styttri tíma í senn. Munnlegur umgengnissamningur aðila hafi tekið mið af ungum aldri drengsins þar sem gert hafi verið ráð fyrir stuttum umgengnishelgum með aukagistingu í viku hverri. Með því hafi aldrei liðið meira en þrír dagar milli dvalar hjá stefnda. Stefndi viti að dvölin hjá honum verður lengd eftir því sem drengurinn eldist og þroskast. Þegar ljóst hafi verið að aðilum tækist ekki að semja um forsjána hafi stefndi hins vegar ákveðið og án samkomulags við stefnanda að lengja umgengnina um einn dag þrátt fyrir að greinilegt væri að svo löng umgengni væri drengnum ofviða. Þá hafi stefndi ekki tekið fullt tillit til þarfa drengsins varðandi hvíldartíma heldur raskað viðkvæmri svefnvenju hans.
Þá sé krafa stefnanda reist á því að persónulegir eiginleikar og aðstæður aðila mæli með því að henni verði falin forsjá drengsins. Stefnandi, sem starfi sem [...] hjá [...], geti ráðið vinnutíma sínum sjálf. Sveigjanlegur vinnutími hafi því gert henni kleift að sníða vinnutímann að þörfum drengsins, sem hafi komið sér vel í þeim tilvikum þegar drengurinn veikist eða þurfi á henni að halda. Stefndi starfi á hinn bóginn í [...], þar sem svigrúmið sé minna, og vinni auk þess fyrir [...]. Til viðbótar bætist tímafrekt áhugamál sem kalli á daglegar gegningar, en gera megi ráð fyrir að stefndi verji a.m.k. 15-20 klukkustundum á viku í áhugamálið. Það sé mat stefnanda að þessi ástríða stefnda, sem kalli á mikla viðveru í hesthúsunum, samræmist illa barnauppeldi. Forgangur hestaíþróttarinnar fram yfir heimilislíf og barnauppeldi hafi í reynd átt ríkan þátt í því að hjónaband aðila brást. Stefnandi njóti stuðnings fjölskyldu sinnar og vina en saman hafi þau myndað stuðningsnet sem gott sé að vita af. Einkum hafi móðir stefnanda, B, aðstoðað við gæslu drengsins þegar þörf hafi verið á, en drengurinn sé elskur að ömmu sinni. Þá hafi stefnandi ekki hikað við að leita aðstoðar sérfræðinga þegar því sé að skipta, s.s. vegna mataræðis eða þegar hún hafi leitað til Benedikts Jóhannssonar, sem sérhæfir sig í tengslum foreldra og barna við skilnað foreldra, til að milda áhrif skilnaðar á drenginn.
Þá kveður stefnandi að verði henni falin forsjá drengsins með dómi muni hún halda áfram að tryggja stefnda ríkulega umgengni við drenginn. Eins og fram hafi komið telji stefnandi drenginn ekki þola langa dvöl fjarri heimilinu, sem skýrist af ungum aldri hans. Stefnandi sé í ágætis sambandi við föðurömmuna C sem hafi oft komið að pössun drengsins, einkum þegar hann sé í dvöl hjá stefnda.
Stefnandi kveður kröfuna um forsjá vera reista á V. kafla barnalaga nr. 76/2003, einkum 31. gr., sbr. 34. gr., laganna. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. sé kveðið á um að dómari skuli ákveða hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni sé fyrir bestu. Þá sé byggt á barnalögum í heild svo og meginreglum þeirra og undirstöðurökum.
Krafan um greiðslu meðlags sé reist á 4. mgr. 34. gr., sbr. 57. gr., barnalaga nr.76/2003. Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. sé gert ráð fyrir að meðlag skuli ákveðið með hliðsjón af þörfum barns annars vegar og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra hins vegar, þar á meðal aflahæfi þeirra.
Krafan um málflutningsþóknun sé byggð á ákvæðum í XXI. kafla laga nr. 91/1991 og krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi gerir þá kröfu að fara einn með forsjá barnsins en hann telur að með þeim hætti verði tryggt að barnið fái að njóta réttar síns um samvistir við báða foreldra sína. Þá telur stefndi hag barnsins miklum mun betur búið hjá sér, þar sem hann er mjög vel í stakk búinn til að hlúa að því með góðum aðstæðum og umhyggju og tryggja barninu þann rétt sem það á samkvæmt barnalögum. Það sé grunnregla barnaréttar, sbr. 34. gr. barnalaga, að ætíð skuli haga forsjá eftir því sem barni sé fyrir bestu. Þau atriði sem almennt sé viðurkennt að komi helst til skoðunar við mat á hagsmunum barns séu: Tengsl barns við hvort foreldri um sig, dagleg umönnun og umsjá, persónulegir eiginleikar og hagir, óskir barns, kyn og aldur, systkinahópur, húsnæðismál, liðsinni vandamanna, breyting á umhverfi og umgengni barns og forsjárlauss foreldris. Að mati stefnda er nauðsynlegt að reifa hvert þessara atriða í tengslum við deilu aðila um forsjá A.
Varðandi tengsl barnsins við hvort foreldri fyrir sig sé ljóst að drengurinn sé afar hændur að föður sínum og líði gríðarlega vel í návist hans. Stefndi einbeiti sér alfarið að umönnun drengsins þegar hann sé hjá honum og sé drengurinn afar ljúfur og í miklu jafnvægi. Stefndi hafi komið að umönnun barnsins alla tíð, bæði að vinnu lokinni og um helgar, og svo sífellt þegar hann var í fæðingarorlofi og sumarfríi til að hugsa um barnið. Stefndi gjörþekki því þarfir barnsins og kunni að stuðla að góðri líðan þess og skapa því þá mikilvægu öryggistilfinningu sem öll börn þurfa að finna til í uppvexti sínum. Stefndi hafnar því að hann hafi neitað að taka helmings ábyrgð á drengnum á meðan á sambúðinni stóð. Þvert á móti hafi stefndi annast drenginn mikið. Stefnandi hafi verið í [...]námi er drengurinn fæddist þann 20. desember 2008 og hafi hún farið aftur í skólann eftir áramótin þegar drengurinn var aðeins nokkurra vikna gamall og hafi stefnandi útskrifast vorið 2009. Skólinn hjá stefnanda hafi verið frá hádegi á fimmtudögum til kl. 18:00 og frá kl. 8:00 á föstudegi og laugardegi til kl. 17:00. Ekki sé rétt það sem komi fram í stefnu, að stefnandi hafi komið heim tvisvar á dag til að gefa drengnum brjóst. Aðilar hafi komið upp þannig kerfi að stefnandi mjólkaði sig og setti mjólk í frysti. Stefndi hafi síðan verið heima með drengnum og séð um að þíða mjólkina og gefa honum að drekka með „sondu“. Stundum hafi komi fyrir að stefnandi kæmi heim, en þessa mánuði meðan hún kláraði skólann hafi þetta verið fyrirkomulagið. Þeir feðgar hafi því tengst mjög sterkum böndum sem hafi ekki slitnað. Það sé því rangt sem fram komi í stefnu að stefndi hafi eingöngu gætt drengsins 5 daga í mánuði meðan stefnandi hafi lokið síðustu önn [...]námsins. Á þessum tíma hafi stefndi verið í fullu fæðingarorlofi. Þá hafi stefndi ætíð vaknað til barnsins þegar stefndi bjó á heimilinu til að stefnandi gæti hvílt sig á nóttunni. Hafi báðir aðilar verið sáttir við það. Stefndi kveðst ætíð hafa vaknað til drengsins, svæft hann, gefið honum að borða, leikið við hann og sinnt honum allar helgar.
Stefndi mótmælir því að hann taki hestamennsku fram yfir drenginn. Stefndi hafi til að mynda aldrei farið í hesthúsin fyrr en hann hafi verið búinn að elda, baða drenginn, lesa fyrir hann og helst svæfa hann.
Varðandi daglega umönnun og umsjá kveður stefndi drenginn aldursins vegna ekki vera háðan móður sinni umfram föður og skuli öll áhersla vera á jafna umgengni við báða foreldra hans svo honum skapist grundvöllur fyrir traustan félagslegan þroska. Stefndi sé einn fær um að tryggja að slík umgengni verði gerð barninu fær og því sé gríðarlega mikilvægt að forsjá barnsins sé hjá honum svo slíkt megi tryggja, fyrst stefnandi vill ekki sameiginlega forsjá. Stefndi hafi allt sem þurfi til daglegrar umönnunar barnsins. Stefndi kveðst stunda heilsusamlegt líferni, hann stundi mikla hreyfingu og borði hollan mat. Stefnandi sé grænmetisæta og hafi afar sérstakar og stundum öfgafullar skoðanir á því hvaða mat drengurinn megi borða. Aðilar hafi lengi deilt um það hvort drengurinn mætti borða kjöt er hann færi að borða og stefnandi sé mjög andsnúin mjólk og telji hana krabbameinsvaldandi. Stefndi gefi drengnum þó mjólk og mjólkurvörur. Helst gefi hann drengnum hreint skyr og ferska ávexti. Mæður aðila hafi gefið drengnum ís og sé stefnandi mjög ósátt við það. Að sama skapi hafi stefnandi orðið mjög reið ef einhver hafi gefið drengnum smá smakk af sælgæti, t.d. hafi hún hringt öskureið í stefnda er hún komst að því að hann hafði gefið drengnum örlítinn bita af páskaeggi. Stefndi vilji alls ekki að drengurinn fái mikinn sykur eða sælgæti og fái hann slíkt einungis í undantekningartilvikum. Almennt gefi stefndi drengnum því ekki sælgæti eða gos og reyni að hafa matinn hollan og góðan.
Stefndi kveðst mæta á alla viðburði í leikskólanum, t.d. sumarhátíð, foreldradaga, viðtöl og annað. Stefnandi hafi hins vegar ekki alltaf getað mætt, t.d. vegna vinnu á laugardögum. Varðandi veikindatíma með drengnum þá sé það ekki rétt að stefnandi sé meira með honum í veikindum en stefndi, heldur sinna þau honum jafnt. Til marks um ósamræmi í hegðun stefnanda í tengslum við umgengni megi nefna að hún telji í lagi að aðilar séu jafnt með drenginn þegar hann er veikur en ekki þegar hann er heilbrigður. Varðandi samskipti við leikskóla hafi stefndi oft hringt og spurt um ýmis atriði, en hins vegar hafi stefnandi alltaf krafist þess að eiga síðasta orðið. Þegar komi að því að fara með drenginn til læknis og slíkt, þá sé það algjörlega jafnt á komið um hver gerir það. Mjög algengt sé að stefnandi panti tíma hjá lækninum og stefndi fari með hann.
Stefndi hafnar því að hann hafi látið vinnu og áhugamál ganga fyrir þörfum drengsins. Stefndi hafi nánast alltaf sótt drenginn í leikskólann og láti vinnuna ekki hafa áhrif á það. Þá daga eða helgar sem stefndi sé með drenginn fari hann aldrei upp í hesthús heldur fái manneskju fyrir sig. Ef svo hafi borið við að stefndi hafi þurft að fara upp í hesthús hafi hann klárað að baða og svæfa drenginn og svo beðið systurdóttur sína að fylgjast með honum í klukkustund.
Stefndi kveðst ekki vinna heima eða vinna yfirvinnu þegar hann sé með drenginn. Stefnandi hafi haldið því fram að stefndi sé í krefjandi vinnu, en vinna hans hafi aldrei haft nein áhrif á umgengni við drenginn ólíkt því sem vinna stefnanda hafi. Vinna stefnda fyrir [...] sé ráðgjafarvinna og því sveigjanleg og hafi stefndi ekki þurft að vinna þegar hann er með drenginn hjá sér. Stefnandi hafi oft þurft að fara utan og vinna á laugardögum og beðið stefnda að vera með drenginn á meðan. Um jólin hafi stefnandi t.d. þurft að vinna mjög mikið og þá hafi enginn möguleiki verið fyrir hana að sinna drengnum. Nokkrum sinnum á ári myndist hjá stefnanda álagstímar þar sem hún verði að vera í vinnunni, t.d. þegar útsölur eru og um jólin, en þá þurfi hún að vera langt fram eftir á kvöldin. Þá sé stefnandi mikið erlendis og hafi farið nokkrum sinnum út á þessu ári. Á þeim tímum hafi hún alltaf getað treyst því að stefndi taki drenginn. Hún hafi farið til [...] og verið þar frá 27. apríl 1. maí í 2011 og hafi stefndi verið með drenginn þann tíma. Hún hafi líka verið í [...] frá 7. júní 13 júní 2011. Stefndi hafi verið með drenginn frá þriðjudegi til fimmtudags þar til hann fór í hestaferð en þá passaði móðir hans drenginn. Þetta hafi verið helgi stefnanda en samt hafi móðir stefnda séð um að passa drenginn. Stefnandi hafi einnig farið til [...] á árinu og til [...]. Þá kveðst stefndi hafa frá upphafi greitt stefnanda 25.000 krónur mánaðarlega vegna fæðis fyrir drenginn. Síðan hafi hann greitt helming af öllum öðrum kostnaði sem stefnandi hafi talið upp og sagt að hún hafi greitt.
Þá kveður stefndi persónulega eiginleika foreldra og hvernig þeir bregðist við ákveðnum aðstæðum skipta miklu máli við mat á forsjárhæfni. Stefndi sé í góðu tilfinningalegu jafnvægi en slíkt sé mikilvæg undirstaða í uppeldi drengsins.
Stefndi kveðst verða menntaður [...]og í góðri stöðu hjá [...]. Þar vinni hann 8 tíma vinnudag og afar sjaldan yfirvinnu. Stefnandi sé hins vegar [...] og hafi þurft að vinna töluverða yfirvinnu eins og áður hafi komið fram. Stefndi sé fjárhagslega vel settur enda vel menntaður og í öruggri vinnu. Megi því ætla að stefndi sé betur í stakk búinn að veita barninu tækifæri til þroska og veita barninu örvun því til hagsbóta fyrir framtíðina. Í kringum stefnda sé stórt net af ástríku fólki sem sé boðið og búið að hjálpa til þegar þess þurfi. Stefndi reifaði í greinargerð sinni, ásamt því að hafa rakið og skýrt fyrir dóminum, þrjú atvik sem benda eiga til ójafnvægis stefnanda í kringum skilnað aðila. Er ekki ástæða til að reifa það frekar hér. Stefndi kveður stefnanda vera mjög ráðríka og stjórnsama og vilja hafa hlutina eftir sínu höfði. Hún hafi verið afar ósveiganleg í viðræðum við stefnda varðandi umgengnismál.
Hvað varðar húsnæðismál og umhverfi telur stefndi aðstæður á hans heimili miklum mun hentugri fyrir drenginn en heimili stefnanda. Þá sé sundlaug, heilsugæsla, leikskóli, grunnskóli og öll sú þjónusta sem þurfi fyrir börn og barnauppeldi í mikilli nálægð við heimilið. Drengurinn sé á leikskóla í [...] og þar af leiðandi sé best að hann búi sem næst leikskólanum.
Stefndi kveðst njóta stuðnings fjölskyldu sinnar og vina en saman hafi þau myndað tengslanet sem gott sé að vita af. Stefndi lýsir í greinargerð sinni samstarfsörðugleikum stefnanda við foreldra hennar á unglingsárum og síðar. Stefnandi hefur mótmælt því fyrir dóminum og eru ekki efni til að fjölyrða um þá málsástæðu stefnda frekar.
Stefndi segir drenginn ætíð hafa búið í [...] og sé heimili stefnda eini staðurinn þar sem barninu bjóðist raunverulegur stöðugleiki í búsetu. Við blasi að stefnandi ætli til útlanda í nám strax, fái hún forsjána. Því sé stefndi algjörlega mótfallinn. Sé það merki þess að stefnandi beri ekki hag barnsins fyrir brjósti. Komi til þess að stefnandi flytji út og fari í krefjandi nám muni hún ekki hafa tíma til að sinna drengnum með fullnægjandi hætti. Drengurinn þekki þar engan auk þess sem hann þurfi að byrja í nýjum leikskóla með nýtt tungumál, eingöngu fyrir eitt ár. Flytji stefnandi með drenginn úr landi muni verða klippt á tengsl hans við stefnda tímabundið eða um lengri tíma því stefnandi hafi sjálf lýst því að hún vilji búa erlendis um lengri tíma.
Stefndi kveðst hafa sýnt að hann hafi ríkan skilning á þörfum barnsins, í samskiptum við stefnanda, og hafi verið áfram um að stuðla að jöfnum samvistum foreldra og barns. Hafi reynslan undanfarin misseri leitt það í ljós að stefnandi sé algerlega ófáanleg til þess að veita stefnda rýmri umgengni. Að mati stefnda þá gefi auga leið að í huga stefnanda snúist málarekstur stefnanda ekki um hagsmuni A heldur eingöngu hvað henti stefnanda sjálfri og geðþótta hennar hverju sinni. Við ákvörðun forsjár verði ekki hjá því litið hvor málsaðila sé líklegri til að virða rétt barnsins og rétt hins forsjárlausa foreldris til umgengni við barnið. Á því sé byggt að ekki fari milli mála hvort foreldrið er líklegra til að virða þann rétt líkt og gögn málsins beri með sér.
Miðað við aðstæður í þessu máli og m.a. þau atriði sem nefnd hafa verið hér að framan, telji stefndi ekki nokkurn vafa leika á því að hag barnsins sé best borgið með því að honum verði falin forsjá þess.
Verði stefnda falin forsjá barnsins er farið fram á að dómari kveði á um inntak umgengnisréttar barnsins við stefnanda, sbr. 4. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003. Gerir stefndi í greinargerð sinni tillögu að umgengni barnsins við móður. Verði hins vegar fallist á kröfu stefnanda um að henni verði falin forsjá barnsins gerir stefndi tillögu að umgengni í greinargerð sinni.
Stefndi byggir kröfur sínar á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og vísar hann sérstaklega til 34. gr. og 46. gr. laganna. Um málsmeðferð er byggt á ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og ákvæðum VI. kafla barnalaga nr. 76/2003 eftir því sem við á. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði 1. mgr. 130. gr. l. 91/1991 og 3. mgr. 129. gr. s.l. ef til framlagningar málskostnaðarreiknings kemur og krafan um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
Skýrslur fyrir dómi og önnur sönnunargögn.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum og lýsti aðdraganda skilnaðar aðila.
Stefnandi kvað ástæðu forsjármáls þessa vera samskiptaerfiðleika aðila. Stefndi hafi án samráðs við hana ákveðið að lengja helgarumgengni og hann hafi einnig ákveðið að lengja umgengni í miðri viku án samráðs við hana. Það hafi valdið togstreitu milli aðila. Þá hafi stefndi ítrekað hótað henni, á meðan fjárskiptum þeirra var ólokið vegna skilnaðarins, að fara í forsjármál og hafi hún ekki getað búið við þá óvissu lengur. Ekkert traust sé á milli aðila lengur varðandi sameiginlega hluti. Stefndi sé lögmaður og hún treysti honum ekki og óttist að hann leggi stein í götu hennar.
Kvað stefnandi stefnda eyða miklum tíma í áhugamál sitt, sem sé hestamennska, og hafi hann ekki verið tilbúinn til að draga úr því en sá tími hafi ekki samrýmst því að vera með ungbarn. Kvaðst hún hafa, í sambandi þeirra, frekar þurft að halda utan um hlutina og hafa reglu á þeim og því kannski verið ábyrgari aðilinn.
Stefnandi kvaðst hafa reynt að haga umgengni eftir skilnað þeirra þannig að þjónaði högum barnsins sem best. Hún hafi m.a. leitað ráða hjá sálfræðingi vegna þessa. Það hafi gengið vel þar til stefndi flutti í [...] í [...] en þá hafi drengurinn verið tveggja ára. Þá hafi stefndi viljað lengja umgengnina en stefnandi ekki talið skilyrði til þess fyrr en barnið yrði eldra. Kvað stefnandi aldrei líða meira en þrjá daga nú á milli þess sem drengurinn hitti og sé í samvistum við föður sinn. Stefnandi kvaðst hafa lagt til aukna umgengni við stefnda en stefndi hafi viljað umgengni til jafns við stefnanda. Stefnandi hafi talið það ekki henta drengnum að svo komnu og viljað fara hægar í sakirnar. Það hafi stefndi ekki getað sætt sig við. Þá hafi stefndi ákveðið að skila barninu á leikskóla á mánudagsmorgni í stað þess að skila því heim til sín á sunnudagskvöldi og hafi það valdið togstreitu. Stefndi hafi auk þess ætlað að lengja umgengni sem var í miðri viku með því að sækja drenginn deginum áður en samkomulag hafði verið um. Stefnandi kvað umgengi hafa gengið vel eftir að úrskurður gekk um hana 2. nóvember 2011. Stefnandi kvaðst sjá fyrir sér í framtíðinni að umgengni yrði meiri eftir því sem drengurinn eltist en að svo komnu teldi hún viku og viku ekki vera tímabært. Drengurinn sé í mjög góðum tengslum við föður sinn og nauðsynlegt sé að stuðla að þeim tengslum. Þá hafi drengurinn frá fæðingu verið í góðum tengslum við báðar ömmur sínar og þar til hann fór á leikskóla hafi þær báðar hlaupið undir bagga með pössun.
Stefnandi kvað túlkanir stefnda í greinargerð varðandi tengsl stefnanda við fjölskyldu sína rangar og slitnar úr samhengi.
Stefnandi kvaðst, í kjölfar skilnaðar aðila, hafa skoðað möguleika á að fara í framhaldsnám erlendis og borið það undir stefnda. Hún hafi kynnt sér lánareglur LÍN en það væri engin sönnun þess að hún væri að fara til útlanda enda væri það rangt sem haldið sé fram af stefnda að ástæða forsjármáls þessa sé að hún ætli að fara með drenginn út fái hún forsjá hans. Stefnandi kvað það ekki gerlegt fyrir sig fjárhagslega að fara utan í nám núna auk þess sem hún væri komin í starf sem væri draumastarf hennar en það væri að vinna við sköpun og hönnun og fleira og séu algjörlega breyttar aðstæður hjá henni. Neitaði stefnandi því fyrir dóminum að fyrirhugað væri af henni að fara í nám erlendis. Vinnutími hennar væri sveigjanlegur og því komi hann ekki niður á foreldrahlutverki hennar.
Stefnandi kvaðst hafa keypt hlut stefnda í íbúð sem þau áttu saman að [...] í [...], við fjárskipti þeirra í desember sl., og ætli hún sér að búa þar áfram. Þar hafi aðilar búið þegar drengurinn fæddist. Engin áform séu um breytingar hvað það varði. Þá kvaðst stefnandi vera komin í samband við mann sem hún hafi kynnst sl. haust og sé drengurinn að kynnast honum og gangi það mjög vel.
Stefnandi lýsti aðdraganda samskiptaörðugleika hennar við foreldra sína, en hún kvað foreldra sína hafa skilið fyrir nokkrum árum og á þeim tíma hafi aðstæður allar verið erfiðar. Ástæða þess að faðir hennar hafi ekki skírt son þeirra hafi verið tillitsemi við móður hennar, sem þá var nýskilin. Kvaðst stefnandi hafa verið í góðum samskiptum við móður sína frá því fyrir fæðingu drengsins og væri enn. Hún væri að vinna í því að bæta samskiptin við föður sinn og þau samskipti gengju vel fyrir sig. Drengurinn sé vel tengdur báðum foreldrum hennar.
Stefnandi kvað ásetning aðila hafa staðið til þess að láta skilnað þeirra og samskiptaörðugleika ekki hafa áhrif á barnið og hafi þeim tekist vel upp með það.
Stefndi kvaðst fyrir dóminum þess fullviss að stefnandi ætlaði sér til útlanda um leið og hún fengi ein forsjá drengsins og því væri hann mótfallinn. Taldi hann fyrirspurn hennar til LÍN sönnun þess að hún væri með slíkar fyrirætlanir. Þá hafi stefnandi aldrei verið til samvinnu um jafna umgengni við drenginn og líti hún svo á að hún geti úthlutað stefnda umgengnisdögum. Þá sé hún einstrengingsleg í mataræði, borði eingöngu grænmeti og hún hafi orðið reið þegar stefndi gaf drengnum penisillín að læknisráði þegar drengurinn var í umgengni hjá stefnda. Stefndi kvaðst hafa mjög góðar aðstæður fyrir drenginn, að vísu sé höfn við blokkina og ekki sé hægt að hleypa drengnum einum út. Þeir feðgar fari hins vegar saman að veiða og hann taki drenginn með sér í hesthúsin. Hann fái hins vegar aðra til að sinna verkum sínum í hesthúsunum þegar drengurinn sé hjá honum.
Stefndi kvað stefnanda hafa staðið við umgengisfyrirkomulagið eftir að úrskurður gekk um umgengnina 2. nóvember 2011. Stefndi kvaðst ætíð hafa vaknað til drengsins á nóttunni og fært stefnanda hann þegar drengurinn var á brjósti. Þá hafi hann gefið drengnum að drekka með sondu þá daga sem stefnandi var í skólanum, sem hafi verið fimm daga í mánuði á vorönn 2011, eða hann hafi farið með drenginn til stefnanda í skólann.
Vitnið B, móðir stefnanda, kom fyrir dóminn og lýsti sambandi þeirra mæðgna og sambandi þeirra við drenginn. Kvaðst vitnið hafa gætt drengsins á móti móður stefnda áður en drengurinn fór í leikskóla og hafi það gengið mjög vel. Bar vitnið báðum aðilum gott orð og hallaði á hvorugt þeirra.
Vitnið C, kt. [...], móðir stefnda, kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið ekki hafa verið mikið inni á heimili aðila en þegar þau hafi komið heim til vitnisins hafi stefndi verið miklu meira með drenginn og stefndi útbúið mat fyrir drenginn og matað hann. Drengurinn sé greindur og tengsl hans við föður sinn séu einstök. Stefndi hafi verið mikið með drenginn og hafi vitnið verið duglegt við að passa drenginn.
Vitnið D, kt. [...], faðir stefnda, kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið vera í miklum og góðum tengslum við stefnda og drenginn og væri drengurinn sólargeisli þeirra. Kvað hann samband feðganna vera kærleiksríkt og stefndi léki sér mikið við drenginn.
Vitnin E, F og G, allt vinir stefnda, komu fyrir dóminn og báru aðilum báðum gott orð. Svo og gerðu H, systurdóttir stefnda, og I, vinkona stefnanda. Kvað vitnið H, systurdóttir stefnda, sem bjó um tveggja mánaða skeið á heimili aðila, að stefndi hafi verið natinn við drenginn og eldamennsku en verkaskipting hafi verið á heimilinu og milli aðila.
Matsgerð.
Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur framkvæmdi mat á aðilum. Skoðaði hann forsjárhæfni aðila, bakgrunn, félagslegar aðstæður og persónulega hagi. Ræddi matsmaður við móður stefnanda og móður og föður stefnda. Einnig heimsótti hann leikskólann [...] þar sem drengurinn er. Í niðurstöðum matsins segir að báðir aðilar séu að mati matsmanns fyllilega hæfir til að fara með forsjá drengsins. Engin vandamál séu tengd geðveiki, persónuröskun, neyslu áfengis eða annarra vímuefna, afbrotum, misnotkun, ofbeldi eða vanrækslu. Báðir foreldrar séu ákveðnir einstaklingar með margs konar persónustyrkleika og hafi að mati matsmanns fyrst og fremst styrkleika sem uppalendur. Foreldrarnir búi báðir í [...] þar sem vel sé búið að drengnum. Honum líði vel og sé heimakominn hjá þeim báðum. Móðir búi í eignaríbúð í [...] þar sem foreldrarnir hafi áður búið saman. Faðir búi í leiguhúsnæði í [...] og hafi gert kauptilboð í íbúð í [...]. Faðir búi aðeins nær leikskóla drengsins en flytji hann í [...] yrði álíka langt að fara í leikskólann og hjá móður. Foreldrar séu báðir háskólamenntaðir og í fastri vinnu. Faðir starfi hjá [...] og móðir sem [...]. Báðir foreldrar hafi verið í góðu sambandi við starfsfólk leikskólans og þar fái drengurinn mjög góða umsögn. Það hafi vakið athygli matsmanns að starfsmenn leikskólans hafi ekki vitað að forsjárdeila væri í gangi að hafi það komið þeim á óvart að svo vel hafi gengið með drenginn í leikskólanum. Foreldrarnir höfðu nýlega mætt saman á foreldrafund sem hafi gengið vel og þar hafi ekkert komið fram sem benti til deilu á milli þeirra. Sálfræðipróf sýni að móðir hafi lítillega fegrað þá mynd sem hún gaf af sér líkt og algengt sé með foreldra í forsjárdeilum. Útkoman bendi til andlegs heilbrigðis hennar með tilfinningalegum stöðugleika og góðu sjálfstrausti. Hún mælist úthverf sem bendi til mikils félagslyndis og þess að sækjast eftir áskorunum og spennandi viðfangsefnum inn í líf sinn. Hún mælist þýðlynd og stöðuglynd, vandamál tengd kvíða eða þunglyndi greinist ekki. Þeir sem fái svipaðar einkunnir hafi gjarnan mörg áhugamál, hátt mótlætisþol og séu röklega hugsandi, en eigi til fljótfærni. Þeir séu ákveðnir, fastir fyrir og geti vel staðið á sínu. Þeir sækist eftir ábyrgð og þeim láti betur að segja öðrum fyrir verkum og stjórna en að fylgja fyrirmælum annarra.
Þá segir í niðurstöðum matsins að sálfræðipróf sýni að faðir hafi lítillega fegrað þá mynd sem hann hafi gefið af sér líkt og stefnandi. Faðir greinist með andlegt heilbrigði, ágætt sjálfstraust og tilfinningalegan stöðugleika. Stefndi virðist í meginatriðum sáttur við líf sitt og ánægður. Einkenni þunglyndis og kvíða greinist ekki. Hann mælist fremur úthverfur, sem bendi til félagslyndis og sækni í fjölbreytt áhugamál og spennandi verkefni. Þeir sem fái svipaða útkomu hafi gjarnan hátt mótlætisþol, geti yfirleitt haldið rósemi undir streituálagi en hætti þó til fljótfærni. Þeir eigi gott með að mynda jákvæð tengsl við fólk en eigi til að halda um of aftur af sér í tjáningu óska sinna og tilfinninga.
Um sé að ræða foreldra sem að mati matsmanns séu mjög vel hæfir til að sinna barni sínu og mæta þörfum þess. Sá munur virðist helstur á uppeldisaðferðum þeirra að stefnandi sé ívið meira leiðbeinandi og stýrandi við uppeldi drengsins en stefndi láti drenginn heldur meira fá að velja hvað skuli gera og fylgi því svo eftir með leiðbeiningum og mörkum. Matsmanni virðist þó ekki vera um veigamikinn mun að ræða í þessu. Hvorutveggja virðist eiga vel við drenginn.
Veikleikar foreldranna sem forsjáraðila birtist helst í samskiptum þeirra á milli þar sem þeim hætti til að lenda í andstöðu hvoru við annað, ögra eða hrökkva í varnarstöðu. Dæmi um þetta sé að eftir umræður aðila um aukna umgengni, sem hafi ekki leitt til niðurstöðu, hafi faðir ákveðið einhliða að auka umgengni og móðir snúist til varnar. Annað dæmi sé að móðir hafi sett fram í ársbyrjun 2011 að hún ætli sér á árinu að flytja með barnið tímabundið úr landi og faðirinn snúist gegn því. Þessi tilvik hafi að mati matsmanns ýtt undir áhyggjur og vantraust hjá þeim. Þrátt fyrir þetta hafi aðilar í meginatriðum náð að miðla málum varðandi son þeirra en tvennt virðist aðallega standa út af. Annað er deila um það hve hratt skuli auka umgengni feðganna. Stefnandi vilji að það gerist hægt samfara auknum aldri og þroska drengsins og hafi hún ekki útilokað að komið verði á jafnri umgengni með tímanum. Stefndi sjái ekki ástæðu til að það dragist að koma á jafnri umgengni og vilji að það gerist sem fyrst. Hitt ágreiningsefnið sé óvissa um að móðir ætli sér að flytja með drenginn til útlanda vegna náms hennar. Í matsgerðinni segir að í umræðum við matsmann hafi stefnandi lagt áherslu á það að um væri að ræða hugsanlegan möguleika í framtíðinni. Það komi fram hjá stefnanda að henni finnist það óásættanlegt að það geti verið í höndum föður að stjórna því hvort af þessu geti orðið eða ekki. Stefndi telur sig, í samræðum við matsmann, vera vissan um að stefnandi flytji utan í nám. Þá kemur fram að móðir hafi verið með drenginn á brjósti til 14 mánaða aldurs en faðir hafi tekið fæðingarorlof í þrjá mánuði, fyrst mánuð með móður, síðan mánuð einn og loks mánuð með móður.
Þá segir að óumdeilt sé að drengurinn sé tengdur foreldrum sínum jákvæðum og sterkum tilfinningaböndum. Báðir foreldrar virðast hafa bestu hagsmuni barnsins að leiðarljósi í sínum athöfnum. Þeir séu ástúðlegir í fasi gagnvart drengnum, hann finni fyrir öryggi og dafni vel hjá þeim. Allt frá því að stefndi hafi farið út af heimilinu hafi aðilar verið sammála um mikilvægi ríkrar umgengni drengsins við báða foreldra og lagt sig fram um að koma henni við. Það hafi auðveldað drengnum að aðlagast breytingunum. Einnig hafi stuðningur frá öfum og ömmum auðveldað drengnum að taka breytingum í lífi sínu. Þó svo að aðilar hafi ekki alltaf verið sammála þá hafi samstarf þeirra með drenginn verið með ábyrgum hætti og skilað góðum árangri. Drengurinn sé vel þroskaður fyrir sinn aldur og standi sig vel.
Af því sem matsmaður sá í samskiptum föður og sonar þá njóti þeir sín vel saman. Drengurinn sé mjög hændur að föður sínum og leiti mikið til hans, ræði við hann, spyrji hann margs og vilji fá athygli. Drengurinn virðist treysta föður sínum vel og finni fyrir öryggi í návist hans. Stefndi sé vakandi fyrir þörfum drengsins, sýni honum hlýlegt viðmót og ástúð. Þeir feðgar spái og spekúleri um margvísleg efni og eigi gott með að leika sér saman. Einnig noti faðir tækifæri vel sem gefist til að uppfræða drenginn, bæði í gengnum leiki og í viðræðum við hann. Varðandi samskipti móður og sonar þá hafi drengurinn verið glaður og ánægður með henni. Hann haldi sig í návist hennar og hafi verið virkur í þeirra samskiptum, spurt margs og tjáð sig um hlutina. Hann sé greinilega mjög hændur að henni og líði vel hjá henni. Hún sé vakandi fyrir þörfum hans og sýni honum viðeigandi áhuga, blíðu og ástúð. Mæðginin hafi mjög auðveldlega orðið niðursokkin í ímyndunarleiki þar sem eitt hafi tekið við af öðru og hún noti vel tækifæri til að kenna honum og til að gera samveru þeirra skemmtilega. Þá segir að miðað við það sem matsmaður hafi orðið vitni að í samskiptum foreldranna og drengsins, og það sem fram hafi komið í viðræðum við aðstandendur og stjórnendur í leikskóla, þá sé drengurinn tengdur báðum foreldrum sterkum og jákvæðum tilfinningaböndum. Tengslamyndun barnsins við hvort foreldri hafi tekist vel og matsmaður hafi ekki fundið marktækan mun þar á. Auk þess kemur fram í matsgerðinni að mikilvægt sé að taka til greina að foreldrunum hafi tekist vel til með uppeldi drengsins og að veita honum öryggi. Drengurinn sé hamingjusamt barn sem hafi dafnað vel hjá foreldrum sínum og fjölskyldum, bæði þegar foreldrarnir bjuggu saman og eftir skilnað þeirra. Þó að foreldrarnir hafi ólíka sýn á sumt, t.d. áherslur í mataræði, þá virðast þeir mun meira sammála en ósammála um umönnun drengsins. Hnökri hafi orðið í samvinnu þeirra þegar drengurinn var settur á penisillínlyf nýlega en sá hnökri sé dæmi um það sem algengt sé að gerist þegar foreldrar hafa ekki enn sett sér verklagsreglur um samstarf sitt með barn skömmu eftir skilnað. Meiri líkur séu á slíku á meðan forsjár- og umgengnismál séu óleyst og minni líkur á því eftir að mál hafa verið leyst og reynsla kemst á samstarf. Um margt hafi samvinna aðila með drenginn gengið vel, t.d. skiptast þau á að vera með hann þegar hann veikist. Matsmaður telur að foreldrarnir séu færir um að hafa með sér sameiginlega forsjá. Hann telji einnig að aðilar geti hvort um sig borið ábyrgð á forsjá drengsins ef því er að skipta.
Matsmaðurinn kom fyrir dóminn og staðfesti mat sitt. Taldi hann hvorugt foreldrið hæfari en hitt til að fara með forsjá drengsins.
Forsendur og niðurstöður.
Í máli þessu hafa foreldrar farið sameiginlega með forsjá sonar þeirra sem fæddur er í desember 2008 og er þriggja og hálfs árs í dag. Aðilar skildu fyrst í febrúar 2010 en tóku saman aftur í ágúst og skildu endanlega í september 2010 og fór stefndi þá aftur af heimilinu. Hefur drengurinn búið á sama stað frá fæðingu. Umgengni drengsins við stefnda hefur verið aðra hverja helgi auk þess sem umgengni var einnig í miðri viku. Árekstrar voru á milli aðila um umgengnina en stefndi hefur krafist þess að umgengni verði jöfn við báða foreldra. Á það hefur stefnandi ekki fallist. Undir rekstri málsins taldi stefnandi ekki þjóna tilgangi að reyna sættir þar sem stefndi hafi ekki viljað sáttaumleitanir að tilstuðlan sýslumanns áður en mál þetta var höfðað. Þá liggur fyrir að stefnandi leitaði til sálfræðings eftir skilnað í þeim tilgangi að fá ráð til að takast á við stöðu þeirra og drengsins. Stefndi hefur haldið því fram, þrátt fyrir skýringar og neitun stefnanda, að stefnandi ætli að fara til náms erlendis. Verður ekki talið, gegn neitun stefnanda, að stefnda hafi tekist að sanna það. Þó svo væri, þá hefur það almennt ekki verið talið ógna hagsmunum ungra barna að flytja tímabundið til annarra landa og ekkert í þessu máli sem bendi til að hagsmunum barnsins sé hætta búin við slíkar breytingar. Þrátt fyrir það, þá er það ljóst að stöðugleiki barna, föst búseta og öruggt umhverfi sem þau þekkja, sé barni fyrir bestu. Stefndi býr í dag í leiguíbúð og þó svo að hann hafi möguleika á að kaupa þá íbúð síðar er ekkert sem liggur fyrir í málinu um að það sé tryggari búseta fyrir drenginn en núverandi heimili stefnanda, sem býr í eigin húsnæði.
Í málinu liggur fyrir ítarlegt mat dómkvadds matsmanns, sem staðfestir að barnið býr við stöðugleika og mikil tengsl við báða foreldra. Hallar á hvorugt þeirra í þeim efnum. Þá kom fram hjá foreldrum stefnda og móður stefnanda, sem komu fyrir dóminn, að þau telja báða aðilar mjög vel hæfa foreldrar. Framburður annarra vitna fyrir dómi staðfesti það sem áður hefur komið fram að báðir foreldrar eru mjög vel hæfir þó svo að ættingjar og vinir hafi fyrir dóminum viljað fegra málstað síns fólks. Þá er ljóst að báðir aðilar vilja barninu það besta og veita barninu það öryggi, hlýju, ástúð og umönnun sem best er á kosið. Hallar á hvorugt þeirra við mat á því.
Þann 2. nóvember 2011 var kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá hafnað en ákveðið með úrskurði að umgengni við föður yrði frá föstudagssíðdegi fram á mánudagsmorgun aðra hverja viku og þá viku sem helgarumgengni lauk skyldi drengurinn dvelja hjá stefnda frá fimmtudagssíðdegi til föstudagsmorguns. Um jól og áramót skyldi umgengni vera þannig að drengurinn yrði hjá stefnda frá klukkan 12.00 á Þorláksmessu til klukkan 14.00 á aðfangadag og frá klukkan 12.00 á jóladag til klukkan 14.00 á annan í jólum. Á gamlársdag skyldi drengurinn vera hjá stefnda frá klukkan 12.00 til klukkan 14.00 á nýársdag. Báru báðir aðilar að þetta fyrirkomulag hafi verið virt og gengið vel. Að mati matsmanns hefur drengurinn þroskast eðlilega og er ánægður á leikskóla og er ekkert fram komið sem bendi til þess að ofangreint fyrirkomulag hafi ekki hentað honum.
Ekki verður dæmt um að forsjá verði sameiginleg í máli þessu. Sættir um sameiginlega forsjá hefur ekki tekist. Að öllu virtu sem að ofan hefur verið rakið, þykir dóminum ekki skilyrði til að breyta því fyrirkomulagi sem drengurinn býr við í dag og verður krafa stefnanda um að hún fari ein með forsjá drengsins því tekin til greina.
Stefndi gerir kröfu um að drengurinn dvelji hjá sér aðra hverja viku auk þess sem hann tiltekur umgengni um hátíðar. Stefnandi gerði fyrir dóminum tillögu um umgengni yrði henni dæmd forsjáin. Að teknu tilliti til hagsmuna barnsins, þannig að röskun á högum þess verði sem minnst, skal umgengni vera eftirfarandi:
Drengurinn skal dvelja hjá stefnda aðra hverja helgi frá föstudagssíðdegi til mánudagsmorguns. Þá viku sem helgarumgengni lýkur skal drengurinn dvelja hjá stefnda frá fimmtudagssíðdegi til föstudagsmorguns. Hina vikuna skal drengurinn dvelja hjá stefnda frá mánudagssíðdegi til þriðjudagsmorguns. Stefndi sæki drenginn á leikskóla í öllum tilvikum og skilar honum þangað aftur að umgengni lokinni.
Drengurinn skal dvelja önnur hver jól hjá stefnda frá hádegi á Þorláksmessu til hádegis á jóladag, í fyrsta sinn 2012. Skal hann dvelja samsvarandi hjá móður hitt árið og síðan koll af kolli. Um áramót skal umgengni vera annað hvert ár hjá stefnda þannig að hann dvelji frá hádegi 30. desember til klukkan 14.00 á nýársdag, í fyrsta sinn 2013. Skal drengurinn dvelja samsvarandi hjá móður hitt árið og síðan koll af kolli.
Drengurinn skal dvelja hjá hvoru foreldri aðra hverja páska þannig að hann fari um hádegi á skírdag til stefnda og dvelji til hádegis á annan í páskum, í fyrsta sinn 2014. Drengurinn dvelur því hjá móður páskana 2013. Síðan koll af kolli.
Á meðan drengurinn er á leikskólaaldri skulu aðila skipta með sér sumarfríi leikskólans þannig að drengurinn sé viku og viku hjá hvoru foreldri í senn. Skulu aðilar hafa náð samkomulagi um fyrirkomulag sumarfrísins fyrir 1. mars ár hvert.
Eftir að drengurinn er kominn í grunnskóla skal umgengni vera hjá hvoru foreldri í fjórar vikur á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst. Skulu aðilar hafa náð samkomulagi um fyrirkomulag sumarfrísins fyrir 1. mars ár hvert. Skal samfelld dvöl hjá aðilum ekki vera skemur en tvær vikur í einu.
Í vetrarfríum skal drengurinn dvelja hjá föður í eina viku samfellt á tímabilinu 1. nóvember til 1. maí ár hvert.
Stefndi skal greiða einfalt meðlag með drengnum samkvæmt ákvörðun Tryggingarstofnunar ríkisins á hverjum tíma, sbr. 4. mgr. 34. gr., sbr. 57. gr., barnalaga nr. 76/2003, frá uppkvaðningu dóms til 18 ára aldurs hans.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, bæði vegna flutnings um bráðabirgðaforsjá og vegna aðalmálsins, sem þykir hæfilegur 900.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Stefndi lagði fram greinargerð í málinu upp á sextán blaðsíður. Er þar nánast um skriflegan málflutning að ræða, sem er ekki í samræmi við 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991. Verður ekki hjá því komist að gera athugasemdir við slíkan málatilbúnað.
Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefnandi, K, skal fara ein með forsjá drengsins A til átján ára aldurs hans.
Drengurinn skal dvelja hjá stefnda aðra hverja helgi frá föstudagssíðdegi til mánudagsmorguns. Þá viku sem helgarumgengni lýkur skal drengurinn dvelja hjá stefnda frá fimmtudagssíðdegi til föstudagsmorguns. Hina vikuna skal drengurinn dvelja hjá stefnda frá mánudagssíðdegi til þriðjudagsmorguns. Stefndi sæki drenginn á leikskóla í öllum tilvikum og skilar honum þangað aftur að umgengni lokinni.
Drengurinn skal dvelja önnur hver jól hjá stefnda frá hádegi á Þorláksmessu til hádegis á jóladag, í fyrsta sinn 2012. Skal hann dvelja samsvarandi hjá móður hitt árið og síðan koll af kolli. Um áramót skal umgengni vera annað hvert ár hjá stefnda þannig að hann dvelji frá hádegi 30. desember til klukkan 14.00 á nýársdag, í fyrsta sinn 2013. Skal drengurinn dvelja samsvarandi hjá móður hitt árið og síðan koll af kolli.
Drengurinn skal dvelja hjá hvoru foreldri aðra hverja páska þannig að hann fari um hádegi á skírdag til stefnda og dvelji til hádegis á annan í páskum, í fyrsta sinn 2014. Drengurinn dvelur hjá móður páskana 2013 og síðan koll af kolli.
Á meðan drengurinn er á leikskólaaldri skulu aðilar skipta með sér sumarfríi leikskólans þannig að drengurinn sé viku í senn hjá hvoru foreldri. Skulu aðilar hafa náð samkomulagi um fyrirkomulag sumarfrísins fyrir 1. mars ár hvert.
Eftir að drengurinn er kominn í grunnskóla skal umgengni vera hjá hvoru foreldri í fjórar vikur á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst. Skulu aðilar hafa náð samkomulagi um fyrirkomulag sumarfrísins fyrir 1. mars ár hvert. Skal samfelld dvöl hjá aðilum ekki vera skemur en tvær vikur í einu.
Auk ofangreindrar umgengni skal drengurinn dvelja hjá föður í vetrarfríum í eina viku samfellt á tímabilinu 1. nóvember til 1. maí ár hvert.
Stefndi skal greiða einfalt meðlag með drengnum samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á hverjum tíma, sbr. 4. mgr. 34. gr., sbr. 57. gr., barnalaga nr. 76/2003, frá uppkvaðningu dóms til 18 ára aldurs hans.
Stefndi greiði stefnanda 900.000 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts.