Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Þriðjudaginn 15

 

Þriðjudaginn 15. janúar 2008.

Nr. 18/2008.

Lögreglustjórinn í Borgarnesi

(Jón Einarsson, fulltrúi)

gegn

X

(Ása A. Kristjánsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann.

 

Ekki var fallist á að skilyrði væru fyrir hendi til að X yrði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í eitt ár þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili Y, [...], á svæði sem afmarkast við 200 metra radíus umhverfis húsið, mælt frá miðju þess. Ennfremur að lagt verði bann við því að varnaraðili veiti Y eftirför, nálgist hana á almannafæri, nálgist hana á vinnustað hennar, hringi í heima-, vinnu- og farsíma hennar, sendi henni SMS-skeyti, tölvupóst, bréf, eða setji sig á annan hátt í samband við hana. Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími og aðeins verði lagt bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við heimili Y, [...] og taki bannið aðeins til svæðis sem afmarkist af 50 metra radíus. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður vegna kæru málsins til Hæstaréttar greiðist úr ríkissjóði.

Samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19/1991 er heimilt að beita nálgunarbanni, ef ástæða er til að ætla að maður sem krafa beinist að muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði annars manns. Fallist er á rökstuðning héraðsdóms um að ekki sé í þessu máli næg ástæða til að taka kröfu sóknaraðila til greina. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ásu A. Kristjánsdóttur héraðsdómslögmanns, sem ákveðin er að metöldum virðisaukaskatti, í samræmi við málskostnaðarreikning lögmannsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Ásu A. Kristjánsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda varnaraðila, X, 58.826 krónur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2008.

             Mál þetta barst dóminum 3. janúar 2008 og var tekið til úrskurðar 7. sama mánaðar. Sóknaraðili er lögreglustjórinn í Borgarnesi, en varnaraðili er X, [kt. og heimilisfang].

             Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í eitt ár frá úrskurðardegi þannig að bann verði lagt við því að hann komi á eða í námunda við heimili Y að [...], á svæði sem afmarkast við 200 metra radíus umhverfis húsið mælt frá miðju þess. Enn fremur að lagt verði bann við því að varnaraðili veiti Y eftirför, nálgist hana á almannafæri, vinnustað hennar, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni SMS-skeyti, tölvupóst, bréf eða setji sig á annan hátt í samband við hana. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sakarkostnað.

             Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila um nálgunarbann verði hafnað. Til vara krefst varnaraðili þess að eingöngu verði lagt bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili Y, auk þess sem nálgunarbannið verði bundið við 50 metra radíus og því markaður skemmri tími. Til þrautavara er þess krafist að nálgunarbannið verði bundið við 50 metra radíus og því markaður skemmri tími. Jafnframt er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

I.

             Varnaraðili og Y voru til 9 ára í óvígðri sambúð þar til upp úr henni slitnaði í september 2006. Eiga þau sama tvö börn, A, fæddan 1998 og B, fædda 1995. Fara þau sameiginlega með forsjá barnanna sem búa hjá móður, en umgengni barnanna við varnaraðila var ákveðin með úrskurði sýslumannsins í Borgarnesi frá 10. júlí 2007. Fyrir dóminum eru nú rekin dómsmál um forsjá barnanna.

             Hinn 7. nóvember 2007 mætti Y á lögreglustöðina í Borgarnesi í því skyni að kæra varnaraðila fyrir hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs hennar og barna þeirra. Hjá Y kom fram að varnaraðili hefði allt frá sambúðarslitum valdið ónæði á heimilinu með daglegum símasamskiptum, auk þess sem hann veitti henni eftirför, biði hennar utan heimilis og væri á ferðinni nærri heimilinu. Taldi Y að þetta ónæði hefði aukist til muna eftir að varnaraðili flutti til [...] í næsta nágrenni þar sem hún býr með börnin. Þá fullyrti Y að varnaraðili væri með hótanir í sinn garð, jafnvel svo börn þeirra heyrðu.

             Aðdragandi þess að Y lagði fram kæru á hendur varnaraðila var sá að deginum áður skilaði sonur þeirra sér ekki af íþróttaæfingu og dvaldi með föður þar til lögregla hlutaðist til um að koma drengnum til móður tveimur dögum síðar. Samtímis var varnaraðili handtekinn og færður til yfirheyrslu hjá lögreglu. Þar lýsti varnaraðili því að drengurinn hefði komið til sín sjálfviljugur og neitað að snúa aftur til móður. Einnig sagði varnaraðili að hann hefði aldrei haft í hótunum við Y en kannaðist við að hafa látið óviðurkvæmileg ummæli falla í hennar garð. Þá neitaði varnaraðili að hafa valdið fyrrum sambýliskonu sinni ónæði eða brotið gegn friðhelgi hennar á einn eða annan veg. Hins vegar tók hann fram að hann þyrfti oft að aka framhjá heimili hennar til að komast að eigin heimili í næsta nágrenni, auk þess sem hann hefði reynt að hafa samband við börn sín símleiðis og með því að senda SMS-skeyti.

             Hinn 8. nóvember 2007 afhenti Y lögreglunni í Borgarnesi farsíma sinn í þágu rannsóknar málsins. Var jafnframt aflað upplýsinga um hringingar og SMS-skeytasendingar í og úr númeri farsímans á tímabilinu 1. ágúst 2007 til 8. nóvember sama ár. Sú athugun leiddi í ljós að á tímabilinu var 18 sinnum hringt úr farsíma Y í farsíma varnaraðila. Hins vegar var hringt 35 sinnum úr farsíma varnaraðila og 22 sinnum úr heimasíma hans. Á tímabilinu voru 9 SMS-skeyti send úr farsíma Y til varnaraðila en samtals 73 SMS-skeyti send úr símum varnaraðila til Y, þar af 11 eftir miðnætti.

             Lögregla kannaði einnig vistuð SMS-skeyti í farsíma og símakorti Y frá símum varnaraðila, en þau reyndust vera 75 talsins. Var elsta skeytið frá 21. nóvember 2006 en það yngsta frá 6. nóvember 2007. Af þessum skilaboðum telur sóknaraðili að ráða megi margvíslegar hótanir og bendir í því sambandi á eftirfarandi skeyti:

Ertu hrædd eða hvad? [Skeyti sent 05.03.2007 kl. 23.21]

Tú ert mjög ótroskud af hverju fæ ég ekki að heira í börnonum svaradu annasrs toshiba cp æ.æ.æ. [Skeyti sent 24.04.2007 kl. 21.04]

Ef tú hringir ekki eftir 5 mínútur kem ég óvart hvenær kemur [A] næst? [Skeyti sent 17.07.2007 kl. 23.02]

Tú leifir börnunum ekki að hringja, svo leifdu teim ad svara annars verd ég ad grípa til annara rada. [Skeyti sent 11.09.2007 kl. 20.17]

         Sóknaraðili telur einnig að sum af skilaboðunum séu til þess fallin að valda vanlíðan hjá Y og bendir í því sambandi á eftirfarandi skeyti:

Tú ert ad skemma börnin ut af einni ódyrri tolvu. [Skeyti sent 05.05.2007 kl. 21.29]

Tú ert ad pinta börnin kinsokni krabbameinssjúklingur. [Skeyti sent 15.10.2007 kl. 21.38]

II.

             Sóknaraðili heldur því fram að gögn málsins beri með sér að varnaraðili hafi með háttarlagi sínu raskað mjög friði fyrrverandi sambúðarkonu sinnar, Y, og valdið henni miklum ótta og ónæði. Um sé að ræða langvarandi og þrúgandi ástand sem ekki verði unað við. Í ljósi atvika telur sóknaraðili ekki líklegt eða sennilegt að varnaraðili láti af hegðun sinni og því sé nauðsynlegt að honum verði gert að sæta nálgunarbanni.

             Varnaraðili bendir á að ágreiningur hafi um nokkra hríð verið með honum og Y um umgengni hans og barnanna. Fullyrðir varnaraðili að konan hafi ekki virt úrskurð sýslumanns um umgengni en mörg af SMS-skeytum frá varnaraðila snerti þann ágreining. Einnig bendir varnaraðili á að ekki liggi fyrir efni SMS-skeyta frá Y til hans og því vanti samhengi skilaboða. Skilaboðin frá varnaraðila ein og sér gefi því villandi og einhliða mynd af samskiptum hans og Y á þessu tímabili.

             Varnaraðili mótmælir því eindregið að hann hafi haft í hótunum við Y eða að fyrir honum hafi vakað að valda henni vanlíðan eða hræðslu. Einnig mótmælir varnaraðili að lesa megi hótanir úr SMS-skeytum hans. Þvert á móti hafi konan tálmað umgengni hans og barna, en mörg skilaboðin hafi að geyma ósk hans um að fá að ræða við börnin, auk þess sem nokkur skilaboð varði deilu um eignarhald á fartölvu. Þá bendir varnaraðili á að úrræði sem hann hafi í skilaboðum sagst ætla að grípa til sé forsjármál sem hann hafi höfðað á hendur konunni.

             Varnaraðili bendir á að hann hafi ekki setið um Y eða áreitt hana með nokkru móti. Því til stuðnings bendir varnaraðili á að ekki liggi fyrir neinar tilkynningar til lögreglu um ónæði af hans hálfu. Þess verði hins vegar að gæta að þau búi skammt frá hvort öðru í litlu samfélagi og því sé óhjákvæmilegt að þau rekist hvort á annað.

             Samkvæmt framansögðu telur varnaraðili ekki fyrir hendi skilyrði til að honum verði gert að sæta nálgunarbanni og því sé sú krafa tilhæfulaus. Verði krafan allt að einu tekin til greina telur varnaraðili að marka beri nálgunarbanni skemmri tíma og takmarka það á alla vegu svo athafna- og ferðafrelsi varnaraðila séu ekki settar frekari skorður en brýna nauðsyn ber til.       

III.

             Í 110. gr. a laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 94/2000, er að finna heimild til að leggja nálgunarbann á mann ef ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði annars manns. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna segir að þær athafnir sem eru tilefni nálgunarbanns þurfi í sjálfu sér ekki að vera refsiverðar og verði nálgunarbann lagt á þótt einungis megi gera ráð fyrir ónæði af hálfu þess sem bannið beinist gegn. Einnig er tekið fram í athugasemdunum að gera verði nokkrar kröfur að þessu leyti og því nægi ekki að búast megi við smávægilegum ama.

Við ákvörðun um nálgunarbann ber að hafa til hliðsjónar greind ummæli í lögskýringargögnum auk þess sem gæta ber að því að nálgunarbann felur í sér takmörkun á athafna- og ferðafrelsi þess sem því þarf að sæta. Verða þau löghelguðu réttindi ekki takmörkuð frekar en efni standa til hverju sinni.

Fyrir liggur að varnaraðili og Y voru í óvígðri sambúð til margra ára þar til upp úr henni slitnaði haustið 2006. Eiga þau saman tvö börn og fara þau sameiginlega með forsjána. Búa börnin hjá móður en umgengni barnanna við varnaraðila hefur verið ákveðin með úrskurði sýslumanns. Þá liggur fyrir að varnaraðili og konan hafa deilt um umgengni auk þess sem mál eru rekin fyrir dóminum vegna ágreinings um forsjána.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er óhjákvæmilegt að varnaraðili og konan hafi þurft vegna barnanna, sem lúta forsjá þeirra beggja, að eiga með sér samskipti af einhverju tagi. Verður ekki hjá þessu litið þegar virtur er fjöldi hringinga og SMS-skeyta frá varnaraðila til konunnar. Jafnframt er þess að gæta að allnokkuð er um liðið frá því þau SMS-skeyti voru send sem sóknaraðili vísar til sérstaklega, en ekki liggur fyrir að varnaraðili hafi sent slík skilaboð eftir 6. nóvember 2007 eða rétt tæpum tveimur mánuðum áður en sóknaraðili krafðist nálgunarbanns hér fyrir dómi. Samkvæmt þessu og þegar virt er efni SMS-skeyta frá varnaraðila til konunnar, sem nokkur eru að vísu rakinn dónaskapur, þykir ekki næg ástæða til að taka til greina kröfu um nálgunarbann á hendur varnaraðila. Fær ekki breytt þessari niðurstöðu þótt einu sinni hafi komið til afskipta lögreglu þegar sonur varnaraðila var tekinn úr hans umsjá 8. nóvember 2007.

             Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem þykir hæfilega ákveðinn að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði.

             Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

             Hafnað er kröfu um að varnaraðila, X, verði gert að sæta nálgunarbanni.

             Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ásu Kristjánsdóttur, héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.