Hæstiréttur íslands
Mál nr. 797/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
|
|
Mánudaginn 20. janúar 2014. |
|
Nr. 797/2013. |
Helga Laufey Guðmundsdóttir (Þórður Heimir Sveinsson hdl.) gegn Íslandsbanka hf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Kærumál. Frestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem meðferð máls Í gegn H var frestað þar til fyrir lægi niðurstaða í öðru máli milli sömu aðila sem áfrýjað hafði verið til Hæstaréttar. Í því máli hafði H verið gert að þola staðfestingu á veðrétti í fasteign sinni samkvæmt tryggingarbréfi sem eiginmaður H hafði gefið út. Í máli þessu krafðist Í staðfestingar á veðrétti í fasteign H samkvæmt sama tryggingarbréfi en vegna annarrar skuldar. H hafði í greinargerð sinni til héraðsdóms krafist frávísunar málsins. Í dómi Hæstaréttar sagði að þegar héraðsdómari ákvað að fresta málinu hafi ekki verið uppi þær aðstæður sem væri kveðið á um í 2. mgr. 100. gr. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af þeim sökum hefði ekkert verið því til fyrirstöðu að málið yrði flutt um formhlið þess. Var hinn kærði úrskurður fellur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar um frávísunarþátt þess.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. nóvember 2013, þar sem meðferð málsins var frestað þar til fyrir lægi í Hæstarétti niðurstaða í máli Héraðsdóms Reykjaness nr. E-1294/2012. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka til meðferðar frávísunarkröfu sóknaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gaf eiginmaður sóknaraðila 7. mars 2000 út tryggingarbréf til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum sínum við Sparisjóð Hafnarfjarðar, síðar BYR hf., samtals að fjárhæð 6.000.000 krónur. Við samruna BYR hf. og varnaraðila 29. nóvember 2011 yfirtók hinn síðarnefndi réttindi og skyldur hins fyrrnefnda. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 5. júní 2013 í máli nr. E-1294/2012 milli aðila þessa máls, sem höfðað var 10. október 2012, var sóknaraðila gert að þola staðfestingu á 1. veðrétti í fasteign sinni að Spóaási 22 í Hafnarfirði samkvæmt áðurnefndu tryggingarbréfi til tryggingar skuld að fjárhæð 30.301.053 krónur. Þeim dómi var áfrýjað 18. október 2013 og krefst sóknaraðili þess að hafnað verði staðfestingu umrædds veðréttar í fasteigninni.
Mál þetta var höfðað 5. mars 2013 til staðfestingar á veðrétti samkvæmt sama tryggingarbréfi í sömu fasteign og áður greinir vegna skuldar að fjárhæð 86.443.776 krónur. Í greinargerð, sem lögð var fram í héraði 16. apríl 2013, krafðist sóknaraðili að máli þessu yrði vísað frá dómi. Voru þau rök færð fyrir frávísunarkröfunni að um sömu dómkröfu væri að ræða og áður hefði verið dæmt um með fyrrgreindum dómi 5. júní 2013 auk þess sem málatilbúnaður varnaraðila væri óljós og vanreifaður. Í þinghaldi 8. nóvember 2013 krafðist varnaraðili að máli þessu yrði frestað þar sem „samkynja máli E-1294/2012 hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar.“ Á þá kröfu var fallist með hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 skal mál flutt um frávísunarkröfu áður en fjallað verður frekar um efni þess og leyst úr kröfunni með úrskurði. Í síðari málslið 3. mgr. 102. gr. sömu laga segir að fresta megi máli ef annað einkamál hefur verið höfðað út af efni sem varðar úrslit þess verulega eða það efni hefur verið réttilega lagt til úrlausnar stjórnvalds. Þeim aðstæðum, sem uppi eru í þessu máli, var ekki fyrir að fara er héraðsdómari ákvað að fresta því. Af þeim sökum var ekkert því til fyrirstöðu að málið yrði flutt um formhlið þess. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka frávísunarkröfu sóknaraðila til meðferðar.
Sóknaraðili krafðist ekki málskostnaðar í héraði í þessum þætti málsins og kemur krafa hans um málskostnað þar því ekki til álita, en um kærumálskostnað fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar um frávísunarþátt þess.
Varnaraðili, Íslandsbanki hf., greiði sóknaraðila, Helgu Laufeyju Guðmundsdóttur, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. nóvember 2013.
Mál þetta var þingfest 20. mars 2013 og tekið til úrskurðar 8. nóvember um frestbeiðni stefnanda. Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 3, Reykjavík, en stefnda er Helga Laufey Guðmundsdóttir, Spóaási 22, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi, útgefnu 7. mars 2000, allsherjarveði tryggðu upphaflega með 1. veðrétti í Spóaási 22, Hafnarfirði, og uppfærslurétti af höfuðstól 6.000.000 króna til tryggingar skuld Ocean Direct ehf. við stefnanda. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.
Af hálfu stefndu er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi en til vara að kröfu stefnanda um staðfestingu á veðrétti verði hafnað. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í þinghaldi 8. nóvember sl., er flytja átti málið um frávísunarkröfu stefndu, óskaði stefnandi eftir fresti í málinu vegna þess að sambærilegu máli milli sömu aðila hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar. Málið var flutt um þennan ágreining og tekið til úrskurðar sama dag.
I.
Þann 7. mars 2000 gaf Arnar Borgar Atlason, eiginmaður stefndu, út tryggingarbréf, allsherjarveð, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum Arnars við Sparisjóð Hafnarfjarðar á hvaða tíma sem er, nú eða síðar, hvort sem um er að ræða víxilskuld, víxilábyrgð, yfirdrátt á hlaupareikningi eða hvers konar aðrar skuldir við sparisjóðinn samtals að fjárhæð 6.000.000 króna. Sparisjóðnum var sett að veði fasteignin Spóaás 12, Hafnarfirði, með 1. veðrétti. Undir tryggingarbréfið skrifaði stefnda sem maki Arnars og sem þinglesinn eigandi fasteignarinnar. Með yfirlýsingu 3. febrúar 2005 lýsti Arnar því yfir með samþykki sparisjóðsins að tryggingarbréfið stæði einnig til tryggingar skuldum útgerðarfélagsins Ocean Direct ehf. við sparisjóðinn. Segir í yfirlýsingunni að tryggingarbréfið standi til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum þeim sem Ocean Direct ehf., nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, kann að skulda eða ábyrgjast Sparisjóði Hafnarfjarðar, með öllum sömu ákvæðum og getið er um í bréfinu. Undir þessa yfirlýsingu ritar stefnda sem maki og sem þinglesinn eigandi fasteignarinnar að Spóaási 22, Hafnarfirði.
Stefnandi höfðaði mál 10. október 2012 fyrir Héraðsdómi Reykjaness, mál nr. E-1294/2012, þar sem staðfestur var 1. veðréttur í fasteign stefndu að Spóaási 22, Hafnarfirði, samkvæmt sama tryggingarbréfi og hér er til umfjöllunar, að fjárhæð allt að 6.000.000 króna. Eins og áður sagði hefur stefnda áfrýjað því máli.
Bú Ocean Direct hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 31. mars 2011 og er skiptum lokið. Segir stefnandi að Ocean Direct hf. hafi verið skuldari við stefnanda samkvæmt lánssamningi, dags. 18. september 2007, og höfuðstóll skuldarinnar verið 118.057.799 krónur. Við úthlutun úr þrotabúinu hafi greiðst 88.431.726 krónur og standi eftir af skuldinni 86.443.776 krónur. Í málinu krefst stefnandi staðfestingar á veðrétti í Spóaási 22, Hafnarfirði, til tryggingar þessari skuld samkvæmt tryggingarbréfinu til þess að bjóða megi upp fasteingina til lúkningar kröfunni að svo miklu leyti sem veðtryggingarbréfið tryggir kröfuna.
Stefnda byggir kröfu sína um frest á því að sambærilegu máli milli sömu aðila hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar og kunni úrslit í því máli að skipta verulegu máli varðandi þetta mál. Af hálfu stefndu er fresti mótmælt og þess krafist að málið verði flutt um frávísunarkröfu stefndu.
II
Sem áður sagði var kveðinn upp dómur 5. júní 2013 í máli nr. E-1294/2012 milli sömu aðila og vegna sama tryggingarbréfs og hér er krafist staðfestingar á. Í dómnum 5. júní 2013 var 1. veðréttur staðfestur í fasteign stefndu að Spóaási 22, Hafnarfriði, samkvæmt veðtryggingarbréfi útgefnu 7. mars 2000 að fjárhæð allt að 6.000.000 króna. Eini munurinn á málatilbúnaði stefnanda nú og í fyrra máli er sá að í þessu máli er önnur skuld tilgreind á bak við tryggingarbréfið. Daginn áður en flytja átti þetta mál um frávísunarkröfu stefndu þann 8. nóvember sl. var áfrýjunarstefna í máli E-1294/2012 birt fyrir stefnanda.
Fallist verður á með stefnanda að niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. E-1294/2012 kunni að hafa veruleg áhrif á úrslit í þessu máli. Verði dómur héraðsdóms staðfestur má búast við að stefnandi felli þetta mál niður en verði sýknað að einhverju eða öllu leyti mun stefnandi væntanlega hafa hagsmuni af því að reka þetta mál áfram. Eru því skilyrði til þess að verða við kröfu stefnanda um frestun málsins á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt þessu er málinu frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í framangreindu máli í Hæstarétti.
Af hálfu aðila er ekki krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Máli þessu er frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í máli nr. E-1294/2012 í Hæstarétti.