Hæstiréttur íslands
Mál nr. 440/2006
Lykilorð
- Málskostnaður
- Skriflegur málflutningur
|
|
Fimmtudaginn 7. júní 2007. |
|
Nr. 440/2006. |
Bjarni Pálsson(Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Emilíu Björgu Jónsdóttur(Hákon Árnason hrl.) |
Málskostnaður. Skriflegur málflutningur.
Mál B gegn M var fellt niður að ósk B, en lagt í dóm um málskostnað. Talið var rétt að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 7. júní 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 19. júlí 2006 og var áfrýjað öðru sinni 15. ágúst sama ár. Með bréfi 29. maí 2007 tilkynnti áfrýjandi að hann félli frá kröfum sínum í málinu um önnur atriði en málskostnað, sem hann krefst nú að verði látinn falla niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefnda mál þetta 14. desember 2005 til að fá áfrýjanda dæmdan til að undirrita nánar tilgreind heimildarskjöl varðandi land, sem skipt hafði verið út úr jörðinni Brautarholti á Kjalarnesi. Landskiptin, sem hér um ræðir, höfðu verið ákveðin 4. apríl 2002 af gerðardómi, sem feður málsaðila, Páll Ólafsson og Jón heitinn Ólafsson, höfðu lagt tiltekin ágreiningsefni fyrir með samningi 15. mars 2000. Páll höfðaði á árinu 2003 mál á hendur Jóni og krafðist þess aðallega að gerðardómurinn yrði felldur úr gildi í heild, en til vara að nánar tilgreindum hluta og yrði þá Jóni gert að greiða tiltekna fjárhæð til uppgjörs milli þeirra. Sakarefninu í því máli var skipt og fjallað um hvora kröfu Páls í sínum þætti þess. Með dómum Hæstaréttar 18. nóvember 2004 í máli nr. 186/2004 og 29. mars 2007 í máli nr. 433/2006 var dánarbú Jóns Ólafssonar, sem þá hafði tekið við aðild að málinu, sýknað af kröfum Páls, en í báðum þáttum þess var málskostnaður látinn falla niður í héraði og fyrir Hæstarétti. Áður en síðari þætti þess máls var endanlega lokið höfðaði stefnda mál þetta á hendur áfrýjanda, en þau höfðu þá hvort fyrir sitt leyti tekið við þeim réttindum og skyldum feðra sinna varðandi jörðina Brautarholt, sem landskiptin sneru að. Svo sem fram kemur í héraðsdómi reisti áfrýjandi varnir sínar í máli þessu einkum á því að sér væri óskylt að afsala landi til stefndu á grundvelli gerðardómsins frá 4. apríl 2002 fyrr en ágreiningur um þau lögskipti yrði leiddur til lykta og skuldbindingar við hann vegna þeirra að fullu efndar. Úr þessum ágreiningsefnum var ekki endanlega leyst fyrr en með áðurnefndum dómi Hæstaréttar 29. mars 2007, en að honum gengnum hefur áfrýjandi fellt niður varnir gegn dómkröfum stefndu um annað en málskostnað. Að því virtu og að teknu tilliti til atvika málsins að öðru leyti er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af því á báðum dómstigum, en um önnur atriði stendur hinn áfrýjaði dómur óraskaður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2006.
Mál þetta, sem var dómtekið 2. mars 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Emilíu Björgu Jónsdóttur, Brautarholti 2, 116 Kjalarnesi, á hendur Bjarna Pálssyni, Brautarholti 1, 116 Kjalarnesi, með stefnu birtri 14. desember 2005.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur skyldugur til að undirrita stofnskjöl Brautarholts VI A, VII A og VII B sem vísað var frá þinglýsingu hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 29. nóvember 2005. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda eða sýknaður að svo stöddu. Auk þess krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málavextir.
Ágreiningurinn er sprottinn af landskiptum og uppgjöri samrekstrar bræðranna Jóns Ólafssonar og Páls Ólafssonar. Stefnandi er dóttir Jóns heitins, en stefndi er sonur Páls og hefur hann tekið við réttindum og skyldum hans hvað varðar landskipti Brautarholts og er þinglesinn eigandi Brautarholts 1.
Bræðurnir Jón og Páll Ólafssynir tóku við óðalsjörðinni Brautarholti árið 1967 af foreldrum sínum. Þeir undirrituðu samning dags. 9. desember 1989, um landskipti á jörðinni.
Hinn 15. mars 2000 gerðu bræðurnir með sér samkomulag um slit samrekstrar, uppgjör skulda og skiptingu sameigna. Þá skuldbundu þeir sig til að leggja ágreiningsatriði til úrskurðar gerðardóms.
Gerðardómurinn er frá 4. apríl 2002. Páll Ólafsson taldi sig ekki geta unað niðurstöðum gerðardómsins og höfðaði því mál á hendur Jóni Ólafssyni, aðallega til ógildingar gerðardómsins, en til vara til ógildingar tiltekinna kafla dómsins og greiðslu að fjárhæð 21.535.199 kr., sbr. héraðsdómsmálið nr. E-5485/2003. Samkomulag varð um að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst var málið flutt um aðalkröfuna. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2003 var aðalkröfunni um ógildingu gerðardómsins hafnað. Hæstiréttur Íslands staðfesti þann dóm í málinu nr. 186/2004. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-5485/2003, þ.e. um varakröfuna, gekk 1. mars sl. og lyktaði honum með því að stefndi, db. Jóns Ólafssonar, var sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Með úrskurði 15. ágúst 2003 féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á að réttaráhrifum gerðardómsins yrði frestað þar til málið væri til lykta leitt. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005 var frestun réttaráhrifa gerðardómsins eingöngu miðuð við varakröfu stefnanda að því marki sem hún hafði ekki verið til lykta leidd.
Í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005 vildi stefndi hrinda réttaráhrifum gerðardómsins frá 4. apríl 2002 í framkvæmd og óskaði því eftir samvinnu við lögmann stefnda um landskipti Brautarholts samkvæmt gerðardómnum, sbr. bréf stefnanda frá 8. ágúst 2005. Því bréfi var ekki svarað og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa ekki fengist svör frá stefnda.
Þá sendi stefnandi beiðni til byggingarfulltrúans í Reykjavík um að skipta upp landspildum í landi Brautarholts í samræmi við gerðardóminn. Það var samþykkt 11. október 2005 og síðan staðfest á fundi borgarráðs 13. október 2005. Þá hefur landbúnaðarráðuneytið samþykkt landskiptin svo og borgarráð Reykjavíkur.
Hinn 11. nóvember 2005 sendi stefnandi sýslumanninum í Reykjavík ósk um þinglýsingu stofnskjala þeirra er mál þetta fjallar um. Sýslumaður vísaði skjölunum frá þinglýsingu þar sem samþykki stefnda skorti, sbr. 1. mgr. 24. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 og 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
Enn á ný eða með bréfi 8. desember sl. ítrekaði stefnandi beiðni sína um undirritun skjalanna. Sú beiðni bar ekki árangur og var mál þetta því höfðað.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir að stefnandi hafi ítrekað óskað eftir því að stefndi undirriti stofnskjölin hefur stefndi ekki sinnt því. Til stuðnings dómkröfum sínum vísar stefnandi til réttaráhrifa gerðardómsins, dags. 4. apríl 2005, sbr. lög um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989. Þá hefur Hæstiréttur Íslands í máli nr. 186/2004 hafnað því að gerðardómurinn sé ógildur og Héraðsdómur Reykjavíkur felldi niður frest réttaráhrifa gerðardómsins með úrskurði 10. júní 2005.
Um lagarök er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og laga um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989. Málskostnaðarkrafa styðst við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að honum sé ekki skylt að undirrita umrædd stofnskjöl. Byggir stefndi á því að ágreiningur aðila um landskipti og slit á samrekstri sé ekki til lykta leiddur og enn sé til meðferðar hjá dómstólum krafa hans um ógildingu hluta gerðardómsins frá 4. apríl 2002 sem stefnandi byggir rétt sinn á.
Krafa stefnanda í máli þessu og varakrafa stefnda í málinu nr. E-5485/2003 eru sprottnar af sömu lögskiptunum, þ.e. samkomulagi Jóns og Páls Ólafssona frá 15. mars 2000.
Þar sem ágreiningi um þau lögskipti hefur ekki verið ráðið til lykta telur stefndi sér ekki skylt að afsala sér þinglýstum eignum sínum, sem hann á í sameign með stefnanda, enda er réttur stefnanda til slíks afsals samkvæmt almennum reglum kröfuréttar háður því að hann hafi efnt skuldbindingar sínar að fullu.
Með gerðardómi 4. apríl 2002 var óskiptu landi og húseignum þeirra Jóns og Páls Ólafssona skipt. Í sameign aðila voru þrjú hús, graskögglaverksmiðja, gömul útihús og gamalt íbúðarhús. Báðir aðilar kröfðust þess að fá í sinn hlut verksmiðjuna og gamla íbúðarhúsið. Samkvæmt gerðardóminum fékk stefndi báðar húseignirnar í sinn hlut en stefnandi gömul útihús sem eru án rafmagns og vatns og þarfnast verulegra endurbóta. Var Jóni gert að greiða Páli 2.000.000 kr. til að jafna metin vegna verðmismunar á húseignunum og hafði þá verið tekið tillit til skiptingar sameiginlegs lands. Peningagreiðslan var í samræmi við gerðardóminn en stefndi telur hana ekki vera í samræmi við þau raunverulegu verðmæti sem Jón fékk umfram Pál. Með réttu hefði þessi greiðsla átt að vera 20.000.000 kr. eins og staðfest er í matsgerð.
Þar sem um gagnkvæmar skyldur er að ræða telur stefndi það ljóst að skylda hans til undirritunar umþrættra stofnskjala sé háð efndum stefnanda. Þar sem enn er deilt um inntak efndaskyldu stefnanda er ljóst að á stefnda hvílir ekki skylda til útgáfu afsals fyrr en að gengnum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-5485/2003 eða Hæstaréttar Íslands.
Með vísan til framanritaðs telur stefndi sig eiga fullan rétt til þess að halda að sér höndum um að undirrita umþrætt stofnskjöl þar til endanlegt uppgjör milli aðila hefur farið fram.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttarins, sérstaklega almennra reglna um afsöl og reglna um gagnkvæma efndaskyldu. Málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988.
Forsendur og niðurstaða.
Ágreiningur málsins varðar undirritun stefnda á stofnskjöl varðandi Brautarholt VI A, VII A og VII B er vísað var frá þinglýsingu, en stefndi hefur ávallt neitað undirritun þeirra.
Upphaf málsins er að rekja til samkomulags feðra málsaðila frá 15. mars 2000.
Þar skuldbinda þeir sig til að leggja ágreiningsefni sín um skipti sín á milli í úrskurð gerðardóms. Verkefni gerðardómsins urðu þríþætt. Í fyrsta lagi skipting lands, mannvirkja og hlunninda. Í öðru lagi uppgjör á samrekstri aðila og í þriðja lagi skipting véla og tækja. Í I. kafla gerðardómsins kemur fram að í samkomulagi aðila frá 15. mars 2000 hafi verið gert ráð fyrir að skipting eignanna yrði eins jöfn og kostur væri og að aðilar ættu að jafna verðmismun með peningagreiðslu. Síðan varð það niðurstaða gerðardómsins að meiri verðmæti hafi komi í hlut föður stefnanda og því ætti hann að greiða föður stefnda 2.000.000 kr. til að jafna metin. Stefndi hefur verið ósáttur við niðurstöðu gerðardómsins og telur sig eiga fjárkröfu á hendur db. Jóns Ólafssonar að fjárhæð rúmar 21.000.000 kr. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað þeirri kröfu.
Að mati dómsins er kjarni málsins sá, að gerðardóminum bar að skipta m.a. landinu á milli þeirra bræðra. Það var gert og komu hinar umþrættu spildur í hlut stefnanda. Þessi ráðstöfun hefur verið staðfest með því að Hæstiréttur Íslands hefur hafnað því að ógilda gerðardóminn. Ætluð fjárkrafa stefnda, sem þó hefur verið hafnað af Héraðsdómi Reykjavíkur, kemur ekki til með að breyta þeim landskiptum sem ákveðin voru í gerðardóminum.
Ljóst má vera að stefnanda ber nauðsyn til að fá þinglýst landspildunum. Þar sem fyrir liggur gerðardómur milli aðila sem ekki hefur verið hnekkt, þá lítur dómurinn svo á, að stefnda beri að undirrita þau skjöl er mál þetta fjallar um. Með vísan til þess sem að framan greinir er krafa stefnanda tekin til greina. Í greinargerð stefnda eru ekki bornar fram málsástæður um efni stofnskjalanna. Of seint er að hafa slíkar málsástæður uppi við aðalmeðferð málsins.
Með vísan til þessarar niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 kr.
Af hálfu stefnanda flutti málið Svanhvít Axelsdóttir hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Eyvindur G. Gunnarsson hdl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefnda, Bjarna Pálssyni, ber að undirrita stofnskjöl Brautarholts VI A, VII A og VII B sem vísað var frá þinglýsingu hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 29. nóvember 2005.
Stefndi, Bjarni Pálsson, greiði stefnanda, Emilíu Björgu Jónsdóttur, 300.000 krónur í málskostnað.