Hæstiréttur íslands
Mál nr. 351/2010
Lykilorð
- Fyrning
- Fjárdráttur
- Umboð
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 16. september 2010. |
|
Nr.
351/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa
Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Herði Má Harðarsyni
(Steingrímur Þormóðsson
hrl.) |
Fjárdráttur. Umboð. Skilorð.
Fyrning.
H var sakfelldur fyrir fjárdrátt,
með því að hafa dregið sér söluandvirði bifreiðar sem hann tók að sér að selja
samkvæmt umboði frá X. Talið var að skýringar H um að X hefði í reynd afhent
honum bifreiðina til eignar, þannig að áhættan af henni myndi hvíla á H, fengi
ekki stoð í gögnum málsins, einkum þegar haft var í huga að söluandvirði
bifreiðarinnar var rúmlega milljón krónur að frádregnu láni sem á henni hvíldi.
Þá yrði ekki séð af umboðinu eða öðrum gögnum að H hefði verið heimilt að líta
á söluandvirði bifreiðarinnar sem eign sína. Var H dæmdur í 3 mánaða
skilorðsbundið fangelsi og honum gert að greiða X 1.017.232 krónur í
skaðabætur, en ekki var fallist á það með H að bótakrafan væri fyrnd.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll
Hreinsson og Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2010 í samræmi við
yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar
hins áfrýjaða dóms.
Brotaþoli, X, skilaði greinargerð til Hæstaréttar og krefst þess að ákærði
verði dæmdur til að greiða sér 1.017.232 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1.
mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. júlí 2002 til
greiðsludags auk málskostnaðar. Þar sem ekki var mætt af hálfu brotaþola við
meðferð málsins fyrir Hæstarétti, er litið svo á að hann krefjist staðfestingar
héraðsdóms um bótaþátt málsins.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að hann verði dæmdur til vægustu
refsingar sem lög leyfa og að hún verði þá bundin skilorði. Að því frágengnu
krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hann þess aðallega að
einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af
kröfunni, en að því frágengnu að dæmd fjárhæð verði lækkuð.
Ákærði byggir einkum á því að X hafi á
árinu 2002 verið að undirbúa sig að flytja til útlanda og verið í vandræðum með
bifreiðina SF 479. Hafi X því komið að máli við sig og óskað eftir því að hann
seldi bifreiðina en á henni hvíldi lán. Hafi X því aðallega viljað losna við
bifreiðina og áhvílandi lán. Hafi ákærði þannig tekið áhættuna af því að losa X
við bifreiðina og skuldbindingu X við Lýsingu hf.
Skýringar ákærða um að X hafi í reynd
afhent honum bifreiðina til eignar, þannig að áhættan af henni hvíldi á ákærða,
fá ekki stoð í gögnum málsins einkum þegar haft er í huga að söluandvirði
bifreiðarinnar var rúmlega milljón krónur að frádregnu láni sem á henni hvíldi
en mánaðarlegar afborganir þess á árinu 2002 námu rúmlega 15 þúsund krónum.
Samkvæmt gögnum málsins veitti X
ákærða „fullt og ótakmarkað umboð“ 23. apríl 2002 til þess að „selja/kaupa bifr. SF-479 sem er Musso árg.
99“ eins og segir í umboðinu. Hvorki verður séð af umboðinu sjálfu né öðrum
gögnum að ákærða hafi verið heimilt að líta á söluandvirði bifreiðarinnar sem
eign sína.
Með þessum athugasemdum en að öðru
leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um
sakfellingu ákærða, heimfærslu brots hans til refsiákvæða svo og ákvörðun
refsingar.
Krafa ákærða um frávísun á bótakröfu X
verður ekki tekin til greina enda er hún nægilega reifuð svo dómur verði á hana
lagður.
Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að
krafa X sé fyrnd. Um fyrningu kröfunnar fer samkvæmt lögum nr. 14/1905 um
fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2008 um
fyrningu kröfuréttinda. Þar sem brot ákærða er ekki þess eðlis að ákvæði 16.
laga nr. 14/1905 standi fyrningu í vegi, fer um fyrningu kröfu umbjóðanda á
hendur umboðsmanni um skil á söluandvirði í tilefni af sölu á grundvelli
umboðsskjals eftir 2. mgr. 4. gr. sömu laga. Bifreiðin SF 479 var seld 24. júlí
2002. Fyrningarfrestur kröfunnar var rofinn þegar ákærða var birt ákæra 15.
júní 2009, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Þar sem hinn 10 ára fyrningafrestur
er ekki liðinn er höfuðstóll kröfunnar ófyrndur.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan
til forsendna hins áfrýjaða dóms verða ákvæði hans um kröfu brotaþola og
dráttarvexti staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað
verða staðfest.
Ákærða verður gert að greiða
áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir
Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar
greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Hörður Már Harðarson, greiði allan
áfrýjunarkostnað málsins, 260.391 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs
verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2010.
Mál
þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af
lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 26. maí 2009 á hendur Herði Má
Harðarsyni, kt. 250671-3509, Staðarseli 8, Reykjavík,
fyrir fjárdrátt með því að hafa, á síðari hluta ársins 2002, dregið sér
söluandvirði bifreiðarinnar SF-479, sem ákærði tók að sér að selja samkvæmt
umboði frá eiganda bifreiðarinnar, X, kt. [...], og
verðmetin var á um 2.000.000 kr. og veðsett fyrir 982.768 kr., með því að láta
skrá á sitt nafn bifreiðina RX-646, sem ákærði fékk í skiptum fyrir SF-479 þann
24. júlí 2002, veðsetja þá bifreið 21. ágúst sama ár fyrir 613.477 kr. og selja
hana þann 5. desember sama ár á 1.400.000 kr.
Þetta er talið
varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur
til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu er krafist af hálfu nefnds X að
ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta sem sundurliðast þannig:
|
1. Söluverð SF-479 þann 24. júlí 2002 |
2.000.000 kr. |
|
2. Til frádráttar skuld við Lýsingu hf. |
982.768 kr. |
|
3. Dráttarvextir frá 24.7.2002 til
26.2.2009. |
2.648.107 kr. |
|
4. Lögfræðikostnaður |
223.650 kr. |
|
5. Vsk. af lögfræðikostnaði |
54.794 kr. |
|
Samtals |
5.909.319 kr. |
Ákærði
krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af ákæru. Til vara er þess krafist
að refsing hans verði felld niður. Að öðrum kosti verði hann dæmdur til vægustu
refsingar sem lög leyfa og að hún verði þá bundin skilorði. Þá er gerð krafa um
að málsvarnarþóknun verði greidd úr ríkissjóði. Loks er þess krafist að
skaðabótakröfu verði í öllum tilvikum hafnað.
Málavextir
Þriðjudaginn 18. júlí 2006 lagði X
fram kæru á hendur ákærða vegna fjársvika við sölu á bifreiðinni SF-479. Í
kæruskýrslu kvaðst X hafa flutt til Þýskalands í apríl 2002 en beðið ákærða,
kunningja sinn, um að selja bifreið sína SF-479. Kvaðst kærandi hafa haft
samband reglulega við ákærða símleiðis til að fylgjast með hvernig gengi að
selja bifreiðina og í einu símtali þeirra á árinu 2002 hefði ákærði upplýst að
hann hefði selt bifreiðina og að áhvílandi lán hefði verið greitt upp. Komið
hefði fram að bifreið af gerðinni Mercedes Benz hefði verið tekin upp í söluverðið sem greiðsla.
Kvaðst kærandi aldrei hafa fengið neinar aðrar upplýsingar um þá bifreið og
sagði hana aldrei hafa verið skráða yfir á sitt nafn. Þá hefði hann heldur ekki
fengið neinar aðrar upplýsingar um söluna á SF-479, hvorki áður en til hennar
kom eða á eftir, eða verið beðinn um að greiða sölulaun vegna hennar. Hefði
ákærði aldrei fengið heimild til að selja bifreiðina án samráðs við sig.
Kærandi kvað ákærða hafa viðurkennt í símtali á árinu 2003 að framangreind Benz-bifreið væri ekki lengur til staðar. Sagði hann ákærða
hafa viðurkennt að hann þyrfti að gera þessi viðskipti upp við kæranda og hefði
hann boðist til að greiða skuldina með bifreiðum.
Kærandi lagði fram gögn sem sýna að
bílalán hans hjá Lýsingu hf. hafði verið yfirtekið 7. ágúst 2002 af nýjum aðila
og að nýr umráðamaður hafði verið skráður fyrir bifreiðinni í hans stað hinn
25. júlí 2002. Hafa og verið lögð fram gögn er sýna að eftirstöðvar lánsins við
yfirtökuna voru 982.769 krónur. Í málinu liggur og fyrir kaupsamningur og
afsal, dags. 24. júlí 2002, þar sem fram kemur að bifreiðin SF-479, Daewoo Musso Grand Lux, módelár 1999, hafi verið seld fyrir 2.600.000 krónur.
Segir þar að sú upphæð hafi að fullu verið greidd með yfirtöku á bílaláni og að
bílalánið verði „hækkað vegna mismunar á milligjöf á RX-646 og SF-479 og
bílaláni“. Ritar ákærði undir framangreindan samning fyrir hönd kæranda
samkvæmt umboði, dags. 23. apríl 2002, þar sem fram kemur að kærandi veiti
ákærða „fullt og ótakmarkað umboð til að selja/kaupa bifr.
SF-479 sem er Musso árg. 1999“. Loks liggja fyrir
gögn er sýna að ákærði hafi selt framangreinda bifreið RX-646, af gerðinni Mercedes Benz E 220, módelár
1994, í eigin nafni fyrir 1.400.000 krónur og hafi hún gengið sem greiðsla upp
í bifreiðina YP-913.
Skýrslur fyrir dómi
Ákærði var í upphafi spurður hvort
hann gerði einhverjar athugasemdir við þá lýsingu sem fram kemur í ákæru. Tók
ákærði þá fram að bifreiðin RX-646 hefði vissulega farið yfir á hans nafn en þá
bifreið hefði hann keypt. Þá taldi hann það og geta staðist, svo fremi sem gögn
staðfestu það, að hann hefði veðsett þá bifreið eins og lýst er í ákæru og selt
hana eða sett upp í kaup á annarri bifreið hjá Bílabúð Benna. Varðandi
aðdraganda þess að kærandi gaf honum umboð til sölu á bifreiðinni SF-479 sagði
ákærði að kærandi hefði á þeim tíma ætlað að flytja utan. Hefði hann því gefið
sér ótakmarkað umboð til sölu bifreiðarinnar þannig að kærandi losnaði við
lánið sem á henni hvíldi. Sagðist ákærði hafa verið umsvifamikill í því að
kaupa og selja bíla á þessum tíma, þó hann hefði ekki haft réttindi sem
bílasali eða starfað við bílasölu, og hefði það verið ástæða þess að kærandi
leitaði til hans. Ákærði kvaðst hafa upplýst kæranda, strax eftir söluna, um að
hann væri laus undan bílaláninu og hefði kærandi verið alsæll með það. Þá hefði
hann oft verið í sambandi við kæranda næstu árin á eftir, bæði símleiðis og
hérlendis, en þá hefði aldrei verið um það rætt að hann skuldaði kæranda
peninga vegna bílasölunnar. Kvaðst ákærði ekki skilja hvers vegna kærandi væri
ósáttur við að hann fengi ekki afhent kaupverð bifreiðarinnar þar sem í
umboðinu fælist að hann hefði fulla heimild til að ráðstafa því eins og honum
sýndist. Umboðið hefði verið fullt og ótakmarkað og hefði hann staðið í þeirri
trú að það nægði. Hann hefði fengið RX-646 í skiptum og hefði hann litið svo á
að í því fælist endurgjaldið til sín fyrir umsýsluna. Hins væri það svo að ekki
hefði allt verðmæti bílsins runnið til sín þar sem á honum hefði hvílt veðskuld
auk þess sem kostnaður hefði fylgt því að koma honum í verð. Þá hefði hann
greitt einhverja peningafjárhæð, líklega um 500-600.000 krónur, A, seljanda
bifreiðarinnar RX-646. Kvaðst ákærði ekki geta framvísað neinni staðfestingu á
þessari greiðslu. Kvaðst ákærði ekki geta skýrt það af hverju hann hafi ekki
minnst á þessa greiðslu við skýrslugjöf sína hjá lögreglu.
Kærandi máls þessa, X, kvaðst hafa
leitað til ákærða og beðið hann um að aðstoða sig við sölu á bifreiðinni
SF-479. Sagði hann að nærtækt hefði verið að leita til ákærða vegna
kunningjatengsla sem myndast hefðu á milli þeirra sem nágranna á árunum
2000-2002 og þar sem ákærði hefði á þeim tíma starfað við bílasölu. Kvaðst
kærandi hafa flutt af landi brott á árinu 2002 og því þurft að selja
bifreiðina. Sagðist hann hafa undirritað umboð til ákærða vegna þessa, en í því
hefði ekkert annað falist en að ákærði gengi frá sölunni fyrir sína hönd. Þeir
hefðu báðir verið sammála um að ásett verð á slíka bifreið væri um 2.000.000
króna, en ákveðið hefði verið setja á hana í kringum 2.100.000. Kærandi kvaðst
að sjálfsögðu hafa reiknað með að ákærði hefði samband við sig ef fram kæmi
tilboð í bifreiðina og bæri það undir sig. Hann hefði og talið sjálfgefið að
ákærði gerði upp við sig kaupverðið í framhaldi. Kvaðst kærandi hafa reynt að
fylgjast með hvernig salan gengi með því að hringja í ákærða nokkuð reglulega.
Hefði hann líklega hringt mánaðarlega og spurt ákærða frétta. Að því hefði svo
komið að ákærði hefði upplýst hann um að bifreiðin væri seld og að hann væri
því laus undan greiðslu bílalánsins er hvíldi á bílnum. Einnig hefði ákærði þá
upplýst að hann hefði tekið upp í annan bíl. Í framhaldi kvaðst kærandi hafa
hringt nokkrum sinnum í ákærða til að fá frekari upplýsingar um stöðu mála og
ávallt fengið mjög loðin svör. Loks hefði ákærði viðurkennt í einu símtalinu að
hann væri búinn að selja bifreiðina sem hann fékk í skiptum fyrir SF-479. Hann
væri hins vegar ekki alveg með á hreinu hvað hann skuldaði kæranda og að hann
þyrfti einhvern tíma til að taka það saman. Ekkert hefði síðan gerst í þeim
málum. Kvaðst kærandi síðast hafa heyrt um málið frá ákærða þegar þeir hefðu
hist í afmælisboði og ákærði þá sagt upphæðina vera lægri en kærandi hefði
sjálfur vænst, líklega um 400.000 krónur. Aðspurður kvaðst kærandi hafa verið
búsettur í Þýskalandi frá 2002-2005 og á þeim tíma hefði hann ekkert komið heim
fyrr en á árinu 2005. Þá hefði hann búið í Búlgaríu frá 2005-2007, en búið
hérlendis síðan þá.
Vitnið B lýsti því að A, sem verið
hefði starfsmaður bílasölu, hefði skráð hann sem umráðamann fyrir bifreiðinni
SF-479. Hefði A algjörlega séð um það mál og gert það til að bjarga málum vegna
fyrri kaupa vitnisins á Musso-jeppa, sem hefði verið
tekinn af honum vegna vanefnda seljandans á að aflétta áhvílandi veðláni.
Kvaðst vitnið ekki hafa neinar upplýsingar um það hvernig A hefði gengið frá
kaupunum aðrar en þær að hún hefði sjálf tekið að sér að greiða af bílaláninu
sem á bílnum hvíldi. Vitnið kvaðst vita til þess að ákærði hefði þurft að
leggja út einhvern kostnað, líklega um 100.000 krónur, vegna lagfæringa sem
orðið hefði að gera á SF-479.
Vitnið A gaf símaskýrslu vegna
málsins. Kvaðst hún hafa keypt Musso-jeppa af ákærða.
Hefði hún yfirtekið lánið sem á honum hvíldi og afhent ákærða Benz-bifreið upp í sem greiðslu. Á þeirri bifreið hefði
hvílt lán sem hún hefði tekið að sér að létta af og hefði hún gert það í
framhaldi. Ákærði hefði því fengið Benz-bifreiðina
skuldlausa út úr skiptunum og minnti hana að bifreiðin hefði verið metin á
1.000.000 eða 1.100.000 krónur. Hún kvaðst hins vegar fullviss um að ákærði
hafi ekki greitt neitt sjálfur á milli í peningum.Vitnið sagði tilgang sinn með
þessum skiptum hafa verið þann að bjarga tilteknu máli vegna vanefnda gagnvart B.
Engir aðrir hefðu komið að frágangi þessa máls en hún og ákærði.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Til stuðnings
sýknukröfu sinni vísar ákærði til þess aðallega að hann hafi fengið fullt og
ótakmarkað umboð frá kæranda til að selja bifreiðina SF-479 með það eina
markmið að kærandi losnaði þar með undan þeirri skuld við Lýsingu hf. sem
hvíldi á bifreiðinni. Heldur ákærði því fram að um það hafi samist milli hans
og kæranda að ákærði eignaðist sjálfur þann hluta söluverðs bifreiðarinnar sem
yrði umfram eftirstöðvar lánsins. Til stuðnings sýknukröfu vísar ákærði og til
þess, verði ekki fallist á framangreint, að meint brot hans eigi ekki undir
ákvæði 247. gr. almennra hegningarlaga heldur hljóti háttsemi hans þá að falla
undir ákvæði 249. gr. sömu laga, um umboðssvik.
Ekki verður talið að í umboði kæranda
til ákærða, vegna sölu bifreiðarinnar SF-479, hafi falist neitt annað en
heimild til að annast söluna fyrir hönd kæranda. Hefur ákærði á engan hátt sýnt
fram á þá staðhæfingu sína að um það hafi samist milli hans og kæranda að
ákærði eignaðist sjálfur þann hluta söluverðs bifreiðarinnar sem yrði umfram
eftirstöðvar hins áhvílandi bílaláns við Lýsingu hf. Bar ákærða því strax eftir
söluna að gera kæranda grein fyrir henni og þeim greiðslum sem átt hefðu sér
stað og þá annað hvort að afhenda kæranda bifreiðina RX-646 eða leita heimildar
hans og þá umboðs til sölu þeirrar bifreiðar. Þess í stað skráði ákærði þá
bifreið á sitt nafn og seldi hana og afsalaði í eigin nafni hinn 5. desember
2002 sem greiðslu upp í enn aðra bifreið.
Ákærði hefur vísað til þess að við
mat á raunverulegu verðmæti bifreiðarinnar SF-479 verði að horfa til þess að
það verð sem tilgreint hafi verið sem söluverð í samningnum frá 24. júlí 2002
og það verð sem tilgreint hafi verið sem söluverð í samningnum um sölu á
bifreiðinni RX-646 hinn 5. desember 2002 hafi í báðum tilvikum verið tilgreint
of hátt þar sem um skipti hafi verið að ræða og eins vegna fyrirhugaðrar
lántöku vegna kaupanna. Þá hafi ekki allt verðmæti RX-646 runnið til sín þar
sem á þeirri bifreið hafi hvílt veðskuld, hann hafi sjálfur þurft að greiða
einhverja fjárhæð vegna kaupanna auk þess sem kostnaður hafi fylgt því að koma
henni í verð.
Samkvæmt kaupsamningi um bifreiðina
SF-479, sem ákærði undirritaði á grundvelli umboðsins fyrir hönd kæranda hinn
24. júlí 2002, nam umsamið söluverð bifreiðarinnar 2.600.000 krónum. Kemur fram
að kaupverðið sé að fullu greitt með yfirtöku á bílaláni og að lánið „verði
hækkað vegna mismunar á milligjöf á SF-479 og RX-646 og bílaláni“. Þrátt fyrir
staðhæfingar ákærða liggur ekkert fyrir um að ákærði hafi sjálfur þurft að greiða einhverja
peningafjárhæð fyrir RX-646. Fyrir liggur að þegar ákærði undirritaði samning um
sölu bifreiðarinnar SF-479 yfirtók raunverulegur kaupandi hennar, A, skuldina
við Lýsingu hf. sem þá nam 982.768 krónum. Þá verður af gögnum ráðið, sem og
vætti kaupandans A, að hún hafi aflétt veðskuld sem hvíldi á RX-646 við söluna
þannig að sú bifreið hafi verið afhent ákærða án áhvílandi veðbanda. Liggur og
fyrir að ákærði afsalaði þeirri bifreið sem greiðslu upp í enn aðra bifreið
hinn 5. desember 2002 og var umsamið söluverð hennar þá 1.400.000 krónur. Sé sú
fjárhæð lögð til grundvallar mati á raunverulegu verðmæti bifreiðarinnar SF-479
þegar ákærði gekk frá sölu hennar 24. júlí 2002 telst söluverð hennar í raun
hafa verið 2.382.768 krónur. Með hliðsjón af framburðum ákærða og vitna og
annarra gagna málsins þykir mega við það miða að bifreiðin SF-479 hafi verið verðmetin
á um 2.000.000 króna eins og í ákæru greinir og verðmæti bifreiðarinnar RX-646
því 1.017.232 krónur.
Ákærði hefur viðurkennt að hann hafi ráðstafað
bifreiðinni RX-646 í eigin þágu, enda hafi hann litið á það sem endurgjald
fyrir þjónustuna við kæranda. Með því að skrá bifreiðina RX-646 á sitt nafn,
veðsetja hana og selja nokkrum mánuðum síðar í eigin þágu verður að telja að
ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og þar með fjárdrátt
skv. 247. gr. almennra hegningarlaga.
Ákvörðun refsingar o.fl.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði
hefur ákærða, á árunum 2005-2006, í fjögur skipti verið gert að sæta
sektarrefsingu auk ökuréttarsviptingar fyrir brot á umferðarlögum. Verður
refsing ákærða nú ákveðin sem hegningarauki við þær refsiákvarðanir með vísan
til 78. gr. almennra hegningarlaga.
Brot ákærða átti sér stað síðari
hluta ársins 2002 en var fyrst kært til lögreglu í júlí 2006. Síðasta skýrsla
af ákærða var tekin í mars 2007 og virðist sem málið hafi verið fullrannsakað í
júlí 2007. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en 26. maí 2009. Hafa tafir
á útgáfu ákæru ekki verið réttlættar af hálfu ákæruvalds og verður tekið tillit
til þess við ákvörðun refsingar. Þá hefur ákærði ekki endurgreitt kæranda tjón
hans vegna hins refsiverða verknaðar. Að þessu virtu þykir refsing ákærða
hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði, sem bundin skal skilorði eins og nánar
greinir í dómsorði.
Af
hálfu kæranda er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum
skaðabætur að höfuðstólsfjárhæð 1.017.232 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 24.
júlí 2002 til 26. febrúar 2009 að fjárhæð 2.648.107 krónur. Verður ekki fallist
á með ákærða að skaðabótakrafan sé fallin niður vegna fyrningar, enda verður
ekki séð að gögn um umfang tjónsins hafi legið fyrir fyrr en eftir að rannsókn
málsins hófst hjá lögreglu. Með broti sínu hefur ákærði fellt á sig bótaskyldu.
Að virtum framburðum og öðrum gögnum
málsins verður hann dæmdur til greiðslu hins umkrafða höfuðstóls. Hins vegar er
í ákæru hvorki tilgreindur vaxtafótur dráttarvaxtakröfu né vísað til 1. mgr. 6.
gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. heimild í 11. gr. sömu
laga. Vaxtakrafa í ákæru er því vanreifuð og ber að vísa henni frá dómi. Ákærði
verður og dæmdur til að greiða kæranda 160.000 krónur í bætur vegna
lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram.
Ákærði
greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímssonar
hdl., 360.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður
upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði,
Hörður Már Harðarson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal framkvæmd
refsingar og hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt
skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði
greiði X 1.017.232 krónur í skaðabætur og 160.000 krónur vegna
lögmannskostnaðar. Dráttarvaxtakröfu er vísað frá dómi.
Ákærði
greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl.,
360.000 krónur.