Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Málskostnaður
  • Lögmaður


Miðvikudaginn 6

 

Miðvikudaginn 6. maí 2009.

Nr. 187/2009.

K

(Helga Leifsdóttir hdl.)

gegn

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Málskostnaður. Lögmenn.

K krafðist að felldur yrði úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hennar um að aðalmeðferð héraðsdómsmálsins E-2488/2007 yrði frestað. Um kæruheimild vísaði sóknaraðili til a., b., og c. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 væri heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um að frestur skyldi veittur. Hvorki í þessum né öðrum stafliðum greinarinnar væri heimild til að kæra úrskurð þar sem kröfu um frest væri hafnað. Brast því heimild til kærunnar og var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti. Þá krafðist K jafnframt að yfirmatsmenn skiluðu viðbótarmatsgerð en sú krafa laut ekki að endurskoðun hins kærða úrskurðar og kom því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 17. apríl 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. apríl 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að aðalmeðferð héraðsdómsmálsins nr. E-2488/2007 yrði frestað. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a., b. og c. liða 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og aðalmeðferð málsins verði frestað ótiltekið. Þá krefst hún jafnframt að „yfirmatsmenn skili viðbótarmatsgerð, þeir ræði við þau börnin aftur, þau A og B, einkum með tilhögun umgengni barna og við aðila.“ Hún krefst einnig kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hafi verið veitt í héraði.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann þess að sóknaraðili og lögmaður hennar, Helga Leifsdóttir héraðsdómslögmaður, verði óskipt dæmdar til greiðslu kærumálskostnaðar.

 Krafa sóknaraðila um að yfirmatsmenn skili viðbótarmatsgerð lýtur ekki að endurskoðun hins kærða úrskurðar og er því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um að frestur skuli veittur. Hins vegar er hvorki í þessum né öðrum stafliðum greinarinnar heimild til að kæra úrskurð þar sem kröfu um frest er hafnað, en í henni eru kæruheimildir tæmandi taldar. Brestur því heimild til kærunnar og verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Með því að freista þess að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar án þess að kæruheimild sé fyrir hendi, svo sem bersýnilegt er af ákvæðum 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991, hefur sóknaraðila tekist að verða sér út um þann frest á aðalmeðferð, sem ákveðið var að fram skylda fara 20. apríl 2009, en synjað var um. Með hliðsjón af þessu og vísan til 4. mgr., sbr. 1. mgr. 131. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991 eru skilyrði til að fallast á kröfu varnaraðila um að dæma lögmann sóknaraðila til að greiða óskipt með henni kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, K, og Helga Leifsdóttir héraðsdómslögmaður, greiði óskipt varnaraðila, M, 200.000 krónur í kærumálakostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. apríl 2009.

Í máli þessu hefur lögmaður stefndu gert kröfu um að aðalmeðferð í málinu, sem fyrirhuguð er 20. apríl nk., verði frestað. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins. Stefnandi mótmælir því að aðalmeðferð verði frestað. Var málið tekið til úrskurðar um þennan ágreining aðila 16. apríl sl., en áður reifuðu lögmenn sjónarmið sín um hann.

I.

Stefnda byggir kröfu sína um frestun aðalmeðferðar á því að eitt vitni, annar yfirmatsmanna, Sjöfn Ágústsdóttir sálfræðingur, verði erlendis 20. apríl nk. Stefnda krefst þess að vitnið mæti fyrir dómi til skýringar og staðfestingar á yfirmatsgerð og um atriði sem tengjast henni, enda sé það skýrt samkvæmt lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að matsmaður staðfesti matið fyrir dómi munnlega. Stefnda telur að það sé ekki nóg að vera í símasambandi við yfirmatsmann til að staðfesta matsgerðina. Ákvæði 65. gr. laga nr. 91/1991 sé mjög skýrt hvað þetta varði. Þar segi að samkvæmt kröfu aðila beri matsmanni að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði sem tengjast henni. Stefnda telur ekki unnt að beita ákvæðum VIII. kafla laganna um skýrslugjöf matsmanns, þ.e. að dómkvaddur yfirmatsmaður eigi að fá stöðu venjulegs vitnis í málinu. Meginreglan sé bein og milliliðalaus málsmeðferð, þ.e. aðalmeðferð, aðila- og vitnaskýrslur og skýrslur sérfróðra matsmanna og síðan málflutningur, sbr. 103. laga nr. 91/1991.

       Þá telur stefnda nauðsynlegt að yfirmatsmenn ræði aftur við börn aðila og enn fremur telur stefnda að fresta beri aðalmeðferð þar til niðurstaða liggur fyrir um rannsókn lögreglu vegna kæru sem hún hefur lagt fram á hendur stefnanda.

II.

Lögmaður stefnanda mótmælir því að aðalmeðferð verði frestað og bendir á að það hafi legið fyrir 26. mars sl. að yfirmatsmaður yrði erlendis. Krafa um frestun aðalmeðferðar komi hins vegar fram rétt fyrir aðalmeðferð málsins. Lögmaður stefnanda vísar til þess að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sé unnt að taka skýrslu af matsmanni í gegnum síma og því engin ástæða til að fresta aðalmeðferð. Þá bendir lögmaðurinn á að yfirmatsmenn hafi skilað sameiginlegri matsgerð í málinu og að Ágústa Gunnarsdóttir sálfræðingur muni koma fyrir dóm.

       Af hálfu stefnanda er því mótmælt að ástæða sé til þess að yfirmatsmenn ræði aftur við börnin. Mál þetta hafi verið rannsakað í þaula og fjölmörg skjöl liggi fyrir í málinu frá barnaverndaryfirvöldum og fleirum. Þá er því mótmælt að málinu verði frestað þar til rannsókn lögreglu verði lokið vegna kæru stefndu á hendur stefnanda.

III.

Mál þetta varðar forsjá þriggja barna aðila og var þingfest 7. nóvember 2007. Eftir að málinu var úthlutað 13. desember 2007 hafa verið haldin 19 þinghöld í málinu. Að beiðni stefnanda var dómkvaddur matsmaður hinn 17. desember 2007 og matsgerð lögð fram í málinu 18. apríl 2008. Eftir það var málinu ítrekað frestað að beiðni lögmanns stefndu og það var ekki fyrr en í þinghaldi 30. júní 2008 sem lögð var fram yfirmatsbeiðni stefndu. Tveir sérfræðingar voru dómkvaddir og málinu frestað til 16. september 2008 til framlagningar yfirmatsgerðar. Lögmaður stefndu mætti ekki við fyrirtöku málsins þann dag og boðaði ekki forföll og var málinu frestað til 3. október að beiðni lögmanns stefnanda. Lögmaður stefndu mætti þá og upplýsti að hún hafi verið veik þegar málið var síðast tekið fyrir. Jafnframt upplýsti lögmaðurinn að ekki hefði verið fylgt eftir dómkvaðningu við yfirmatsmenn. Var málinu frestað á ný og í þinghaldi 27. október upplýsti lögmaður stefndu að einn yfirmatsmanna gæti ekki tekið að sér starfið og var annar sérfræðingur dómkvaddur í hans stað. Yfirmatsgerð var lögð fram í málinu 25. febrúar og í þinghaldi 26. mars var ákveðið að aðalmeðferð skyldi fara fram 20. apríl nk. Meðan á rekstri máls þessa hefur staðið hefur einnig verið rekið mál fyrir Héraðsdómi Suðurlands á hendur stefndu vegna kröfu stefnanda um afhendingu barnanna með beinni aðfaragerð. Áður en til málflutnings kom í því máli afhenti stefnda börnin til stefnanda. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 29. janúar sl. var stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað.

Eins og rakið hefur verið hefur mál það sem hér er til úrlausnar dregist mjög á langinn, einkum vegna stefndu. Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 76/2003 skal flýta meðferð forsjármáls. Með aðilum er djúpstæður ágreiningur sem kemur niður á börnunum og er brýnt að niðurstaða fáist í málinu sem allra fyrst. Í 65. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að ákvæðum VIII. kafla laganna verði beitt um skýrslugjöf matsmanns eftir því sem þau geti átt við. Samkvæmt ákvæði í VIII. kafla laganna, sbr. 4. mgr. 51. gr., getur dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af vitni, sem er statt fjarri þingstað, á dómþingi gegnum síma, enda verði skýrslutöku hagað þannig að allir sem eru staddir á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið. Ákvæði þetta heimilar þannig að matsmaður gefi skýrslu í gegnum síma. Við munnlegan flutning um frestun málsins var af hálfu stefndu einnig farið fram á að úrskurðað verði að yfirmatsmenn ræði aftur við börnin en óljóst er á hvaða lagagrundvelli sú krafa er gerð. Yfirmatsmenn hafa skilað matsgerð í málinu og hefur stefnda ekki sýnt fram á rök fyrir því að þeir ræði aftur við börnin, í hvaða tilgangi það skuli gert og hvað stefnda hyggst sanna. Er því hafnað að úrskurðað verði að yfirmatsmenn ræði aftur við börnin. Ekkert liggur fyrir um hvenær þess er að vænta að rannsókn vegna kæru stefndu á hendur stefnanda verði lokið og er því ekki fallist á að málinu verði frestað.

Að öllu þessu virtu verður kröfum stefndu hafnað og ákveðið er að tekin verði skýrsla af vitninu Sjöfn Ágústsdóttur sálfræðingi í gegnum síma við aðalmeðferð málsins 20. apríl nk.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu stefndu, K, um að fresta aðalmeðferð málsins 20. apríl nk., er hafnað.