Hæstiréttur íslands

Mál nr. 43/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Þriðjudaginn 27. janúar 2015.

Nr. 43/2015.

Sturla Hólm Jónsson og

(sjálfur)

Aldís Erna Helgadóttir

(sjálf)

gegn

Íslandsbanka hf.

(enginn)

Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli S og A gegn Í hf. og varðaði ágreining sem reis við nauðungarsölu á fasteign þeirra var vísað frá dómi. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var vísað til þess að samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu gætu aðrir en gerðarbeiðendur leitað úrlausnar héraðsdóms um ágreining sem risi við nauðungarsölu, væru gerðarbeiðendur samþykkir því. Þar sem lögmaður gerðarbeiðanda hefði við nauðungarsöluna hafnað kröfu S og A um að þau bæru ágreining um stöðvun hennar undir héraðsdóm hefði skilyrðum laganna hvað þetta varðaði ekki verið fullnægt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 25. desember 2014 sem barst héraðsdómi 29. sama mánaðar en réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau þess að „lagt verði mat á hvort meðferð héraðsdóms á málinu hafi verið í samræmi við ákvæði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og laga um dómstóla nr. 15/1998“ sem og að kröfur þeirra „eins og þær komu fram í greinargerð til Héraðsdóms Reykjavíkur verði teknar til greina á grundvelli útivistar varnaraðila, sem og málskostnaðarkröfur.“ Loks krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fyrir réttinum kemur aðeins til endurskoðunar hvort hinn kærði úrskurður verði staðfestur eða honum hrundið. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2014.

Þessu máli var skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi sem barst dóminum 15. september 2014. Sóknaraðilar eru Sturla Hólm Jónsson og Aldís Erna Helgadóttir, bæði til heimilis að Tröllaborgum 7, Reykjavík, en varnaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.

                Sóknaraðilar krefjast ógildingar ,,uppboðs skv. uppboðsbeiðni dags. 2. júlí 2013“ á eigninni Tröllaborgum 7, Reykjavík, og að ,,framganga embættis sýslumannsins í Reykjavík við framkvæmd á beiðni Íslandsbanka hf. um nauðungarsölu á fyrrgreindri eign verði dæmd ólögmæt“. Sóknaraðilar krefjast einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili hefur ekki látið þetta mál til sín taka.

                Ekki var sótt þing af hálfu varnaraðila við þingfestingu málsins 7. nóvember sl. Málinu var þá frestað til framlagningar greinargerðar sóknaraðila til 21. nóvember sl. Málið var tekið til úrskurðar í þinghaldi sama dag.

I

Í bréfi sóknaraðila sem barst dóminum 15. september 2014 kemur m.a. fram að fyrirhugað sé að lokasala fari fram á eigninni sjálfri 24. september 2014 kl. 11:00. Sóknaraðilar hafa lagt fram staðfest endurrit úr gerðabók Sýslumannsins í Reykjavík vegna nauðungarsölu fasteignarinnar Tröllaborga 7, Reykjavík, fastanúmer 222-4456. Samkvæmt endurritinu var nauðungarsölubeiðnin tekin fyrir í fyrsta sinn 14. nóvember 2013. Sóknaraðilinn Sturla Hólm hafi mætt og einnig fyrir hönd sóknaraðilans Aldísar Ernu. Sóknaraðilinn hafi krafist stöðvunar nauðungarsölunnar. Lögmaður varnaraðila, sem var gerðarbeiðandi við nauðungarsöluna, hafi hafnað því að mótmæli sóknaraðila yrðu tekin til greina og krafist þess að gerðinni yrði fram haldið. Fulltrúi sýslumanns hafi ákveðið að taka ekki til greina mótmæli sóknaraðila. Sóknaraðili hafi þá lýst því yfir að hann myndi leita úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns og krefjast þess að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi og nauðungarsalan yrði stöðvuð. Lögmaður varnaraðila hafi hafnað því að sóknaraðili leitaði úrlausnar héraðsdóms. Ákveðið hafi verið að uppboð eignarinnar myndi byrja 26. febrúar 2014.

Nauðungarsalan var samkvæmt gerðabók næst tekin fyrir 3. september sl. af fulltrúa sýslumanns, en í millitíðinni hafði sýslumaður samþykkt beiðni sóknaraðila um frestun fram yfir 1. september 2014 á ákvörðun eða töku ákvörðunar um byrjun eða framhald uppboðs á eigninni. Í endurriti gerðabókarinnar kemur m.a. fram að sóknaraðilinn Sturla Hólm hafi mætt og einnig fyrir hönd sóknaraðilans Aldísar Ernu. Sóknaraðilinn hafi krafist stöðvunar nauðungarsölunnar. Lögmaður varnaraðila hafi hafnað því að mótmæli sóknaraðila yrðu tekin til greina og krafist þess að byrjun uppboðs færi fram. Fulltrúi sýslumanns hafi ákveðið að gerðinni yrði fram haldið. Sóknaraðili hafi þá krafist þess að fá að bera ágreininginn undir héraðsdóm. Lögmaður varnaraðila hafi hafnað því að sóknaraðili leitaði úrlausnar héraðsdóms. Leitað hafi verið eftir boðum í eignina og hafi samtals tíu boð komið frá varnaraðila og nafngreindum manni. Ákveðið hafi verið að uppboði yrði fram haldið á eigninni sjálfri 24. september 2014 kl. 11:00.

II

Í XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu er fjallað um úrlausn héraðsdómara um ágreining sem rís við nauðungarsölu. Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. laganna skal sá sem vill leita úrlausnar héraðsdómara lýsa því yfir við fyrirtöku sýslumanns á nauðungarsölunni, þar sem sú ákvörðun kemur fram sem leita á úrlausnar um.

Fram kemur í 1. málsl. 4. mgr. 22. gr. laganna að aðrir en gerðarbeiðendur geti leitað úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns eftir ákvæðum XIII. kafla, séu gerðarbeiðendur allir samþykkir því eða ef ákvörðunin varðar aðeins einn gerðarbeiðenda, þá hann fyrir sitt leyti. Eins og áður er rakið kemur fram í endurriti úr gerðabók Sýslumannsins í Reykjavík að lögmaður varnaraðila, sem var gerðarbeiðandi við nauðungarsöluna, hafi hafnað kröfu sóknaraðila um að þau bæru ágreining um stöðvun nauðungarsölunnar undir héraðsdóm. Var skilyrðum þessara laga til að leita úrlausnar héraðsdómara því ekki fullnægt. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laganna ber við þessar aðstæður að vísa máli frá dómi með úrskurði án þess að kveðja til aðila eða taka málið að öðru leyti fyrir á dómþingi. Þótt þetta mál hafi verið þingfest og aðilar þess boðaðir til þinghalds er því óhjákvæmilegt að vísa því frá dómi.  

Ásbjörn Jónasson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Þessu máli er vísað frá dómi.