Hæstiréttur íslands
Mál nr. 92/2014
Lykilorð
- Lánssamningur
- Fjármálafyrirtæki
- Gengistrygging
- Fullnaðarkvittun
- Viðbótarkrafa
- Vextir
- Aðildarskortur
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2014. |
|
Nr. 92/2014.
|
Landsbankinn hf. (Andri Árnason hrl.) gegn Bæ hf. (Einar Hugi Bjarnason hrl.) og gagnsök |
Lánssamningur. Fjármálafyrirtæki. Gengistrygging. Fullnaðarkvittun. Viðbótarkrafa. Vextir. Aðildarskortur.
Talið var að lánssamningur milli B hf., og forvera L hf. væri um skuldbindingum í íslenskum krónum sem bundin væri við gengi erlendrar myntar með ólögmætum hætti. Að því frágengnu stóð ágreiningur aðilanna um stöðu skuldbindingar samkvæmt lánssamningnum á tilteknum degi, þegar innt var af hendi síðasta afborgun sem B hf. stóð í skilum með. Talið var að L hf. ætti ekki rétt til þess að einstakar afborgarnir af láninu á því tímabili sem um ræddi tækju breytingum í samræmi við breytt gengi hins erlenda gjaldmiðils. Tekin var til greina krafa B hf. um að afborganir af höfuðstól skuldarinnar, sem B hf. innti af hendi á tímabilinu, kæmu að fullu til frádráttar höfuðstólnum sem hvorki bæri gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga og að fjárhæð greiddra vaxta hefði þar ekki áhrif, enda teldust þeir að fullu gerðir upp vegna tímabilsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. mars 2014. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 3. apríl 2014. Hann krefst aðallega viðurkenningar þess að lánssamningur 6. júní 2006 milli Landsbanka Íslands hf. og sín sé um lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu og að eftirstöðvar lánsins 27. september 2010 hafi verið 60.198.410 krónur. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi þess aðallega að viðurkennt verði að staða framangreinds lánssamnings hafi 27. september 2010 verið 60.198.410 krónur en til vara staðfestingar héraðsdóms þar sem dæmt var að staða samningsins hafi framangreindan dag verið 71.443.560 krónur. Báðar viðurkenningarkröfur gagnáfrýjanda er lúta að fjárhæðum eru reistar á því að samningurinn hafi falið í sér lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu og verður ekki úr þeim kröfum leyst án þess að taka fyrst afstöðu til þess atriðis. Þar sem ekki verður séð að gagnáfrýjandi hafi að lögum sérstaka hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni um viðurkenningu á því að fyrrgreindur lánssamningur hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu kemur sú krafa aðeins til umfjöllunar sem málsástæða við úrlausn um hver hafi verið staða fyrrgreinds láns 27. september 2006.
II
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gerðu gagnáfrýjandi og Landsbanki Íslands hf. með sér lánssamning 6. júní 2006. Á forsíðu samningsins stóð: „ISK 96.959.117,- LÁNSSAMNINGUR“. Í inngangsorðum sagði að samningurinn væri gerður „um fjölmyntalán til 19 ára að jafnvirði kr. 96.959.117 ... í neðanskráðri mynt: CHF 100% Fjárhæð gjaldmiðilsins ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirrar erlendu myntar eða jafngildi hennar í öðrum erlendum myntum. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Í grein 1.1. sagði meðal annars að lántaki lofaði að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána „umsamda lánsfjárhæð“ og yrði hún laus til útborgunar tveimur virkum dögum eftir undirritun samningsins. Þá sagði í grein 1.2. að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn yrði sá reikningur sem leggja skyldi „lánshlutann“ inn á, en form að útborgunarbeiðni væri fest við samninginn sem viðauki og félli samningurinn úr gildi hefði gagnáfrýjandi ekki tilkynnt um útborgunardag og önnur skjöl sem vísað væri til í samningnum.
Í grein 2.1. samningsins sagði að lánið skyldi greiða að fullu með 19 jöfnum afborgunum á 12 mánaða fresti og skyldi fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta vera 25. september 2006. Í grein 2.2. sagði að lántaki óskaði eftir að reikningur hans nr. 0186-26-435 hjá bankanum yrði „skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum“ en fyrir liggur að þetta var tékkareikningur gagnáfrýjanda í íslenskum krónum. Í grein 2.5. sagði að kæmi til vanefnda lántaka fylgdi auk „vaxta og dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001“ allur kostnaður vegna innheimtu lánsins. Samkvæmt grein 3.1. lofaði lántaki að greiða bankanum vexti sem skyldu „vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR vöxtum ... auk 2,60% vaxtaálags“. Þá sagði í grein 4.1.: „Sé skuldin í skilum getur lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið. Hér er átt við þær myntir og mynteiningar sem skráðar eru í almennri gengistöflu Landsbanka Íslands hf. Skriflega beiðni þar að lútandi ber að senda bankanum með 5 daga fyrrvara. Sú takmörkun er þó gerð að ekki er heimilt að skulda fleiri en 6 gjaldmiðla hverju sinni. Geti bankinn ekki útvegað lántaka einhverja tiltekna mynt eða útvegun hennar myndi hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir bankann er honum heimilt að nota USD í stað þeirrar myntar. Lántaki greiðir allan kostnað við hverja breytingu sem ákvarðast 0,1% af þeirri fjárhæð sem breyta skal, þó að lágmarki kr. 20.000,-. Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað sé sérstaklega samið. Við myntbreytingu kann lánssamningurinn að fá ný lánsnúmer að öllu leyti eða hluta.“ Samkvæmt grein 7.1. hafði bankinn um það val, kæmi til vanskila af hálfu lántaka, hvort krafist yrði „dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.“
Sama dag og lánssamningurinn var gerður ritaði gagnáfrýjandi, til samræmis við áskilnað í grein 1.2. samningsins, á viðauka beiðni um útborgun lánsfjárhæðarinnar þar sem óskað var eftir að hún yrði greidd út 8. júní 2006. Þá sagði: „Vinsamlegast ráðstafið útborgunarfjárhæð til uppgreiðslu“ á láni gagnáfrýjanda við Landsbanka Íslands hf. samkvæmt lánssamningi 8. apríl 2005 og að uppgreiðslan skyldi miðast við 1. júní 2006. Var síðastgreint lán til 20 ára að fjárhæð 90.000.000 krónur sem bundin var vísitölu neysluverðs og skyldi endurgreiða með jöfnum afborgunum á 12 mánaða fresti, fyrst 25. september 2005. Í lok framangreinds viðauka við lánssamninginn 6. júní 2006 var tiltekið að gagnáfrýjandi heimilaði bankanum „að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda“ samkvæmt lánssamningnum af tilgreindum tékkareikningi í íslenskum krónum.
Hinn 9. júní 2006 útbjó Landsbanki Íslands hf. svokallaða kaupnótu vegna útborgunar lánsins að fjárhæð 1.613.564,94 svissneskir frankar, að frádregnu 0,1% lántökugjaldi að fjárhæð 1.613,56 svissneskir frankar. Auk lántökugjaldsins kom til greiðslu samkvæmt kaupnótunni þóknun vegna skjalagerðar að fjárhæð 10.000 krónur. Þá sagði að fyrsta vaxtatímabil væri 1. júní til 25. september 2006, vextir væru 4,068330% „vaxtaruna: LIBOR“ og álag 2,6%. Einnig kom fram í kaupnótunni að farið hefðu fram gjaldeyrisviðskipti, þar sem gagnáfrýjandi hefði selt 1.611.951,38 svissneska franka á myntgenginu 60,09 sem samtals næmi 96.862.158 krónum. Loks sagði þar: „Þann 8.6.2006 var greitt vegna láns ISK 96.852.158.“ Þrátt fyrir það sem fram kom í kaupnótunni er ágreiningslaust að gagnáfrýjandi fékk við útborgun lánsins ekki í hendur svissneska franka en hann mun ekki hafa átt gjaldeyrisreikning í þeirri mynt.
Hinn 25. september 2006 sendi starfsmaður aðaláfrýjanda svofellt tölvubréf til fyrirsvarsmanns gagnáfrýjanda: „Bær ehf. er á gjalddaga í dag, spurning hvort þið eruð búnir að leggja inn á reikning hjá okkur, geturðu látið mig vita hvernig þið farið með þetta?“ Svofellt svar barst samdægurs: „Var búinn að ganga frá því við útibússtjórann ykkar á Hvolsvelli og að ég held einhvern á sviðinu hjá ykkur um að skuldfæra EUR reikning okkar.“ Í samræmi við þetta var fyrsta afborgun lánsins sem var á gjalddaga 25. september 2006 innt af hendi í evrum. Samkvæmt kvittunum vegna áranna 2007 til 2009 voru afborganir þau ár einnig inntar af hendi í evrum en afborgun 25. september 2010 var á hinn bóginn greidd í íslenskum krónum.
Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbanki Íslands hf. sem nú ber heiti aðaláfrýjanda. Tók aðaláfrýjandi við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans og er óumdeilt að hann hafi þar á meðal tekið yfir kröfu á hendur gagnáfrýjanda samkvæmt lánssamningnum 6. júní 2006.
III
Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt þeim ákvæðum er hins vegar óheimilt að binda lán eða annars konar skuldbindingu í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.
Málsaðila greinir á um það hvort samningur gagnáfrýjanda við Landsbanka Íslands hf. 6. júní 2006 sé um lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, þannig að skilmálar þess brjóti í bága við framangreind ákvæði laga nr. 38/2001. Í dómum Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, 6. mars 2014 í máli nr. 602/2013, 12. maí 2014 í máli nr. 288/2014 og 11. september 2014 í máli nr. 90/2014 var leyst úr sams konar ágreiningi þar sem orðalag í samningum, sem á reyndi í þeim málum, var að mörgu leyti það sama og í lánssamningi þeim sem um ræðir í máli þessu. Fyrir utan dagsetningar, tilteknar tegundir erlendra gjaldmiðla, bankareikninga og annað, sem eðli máls samkvæmt er bundið við einstök lánsviðskipti, er ekki sá munur á ákvæðum þessara samninga í lagalegu tilliti að hann geti ráðið niðurstöðu um skýringu þeirra. Verður því hér, á sama hátt og framangreindum dómum, að gæta að því hvernig háttað var ákvæðum samningsins um efndir aðilanna og hvernig að þeim var staðið í raun.
Eins og áður greinir var lánið sem um ræddi í samningi gagnáfrýjanda við Landsbanka Íslands hf. 6. júní 2006 greitt út 8. sama mánaðar samkvæmt kaupnótu þeirri sem aðaláfrýjandi útbjó og áður er lýst. Var sú aðferð við útborgun lánsfjárins í samræmi við fyrrnefnda beiðni gagnáfrýjanda. Samkvæmt því skipti fé í íslenskum krónum í reynd um hendur þegar Landsbanki Íslands hf. efndi aðalskyldu sína á grundvelli lánssamningsins og fá einhliða færslur aðaláfrýjanda í bókhaldi því ekki breytt. Að þessu gættu hefur aðaláfrýjandi ekki fært sönnur á að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðli og verður því lagt til grundvallar að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Skiptir þá ekki máli eins og hér háttar til hvernig afborganir af láninu og vextir voru inntir af hendi í samræmi við valkvæð ákvæði lánssamningsins þar um. Verður samkvæmt þessu staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að skuldbinding samkvæmt lánssamningnum sé í íslenskum krónum, bundin við gengi erlends gjaldmiðils og því í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.
IV
Að fenginni þeirri niðurstöðu að skuldbinding samkvæmt lánssamningnum 6. júní 2006 sé í íslenskum krónum, bundin við gengi erlends gjaldmiðils í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, kemur næst til úrlausnar hver hafi verið staða lánsins 27. september 2010.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi byggir aðaláfrýjandi á því að teljist lánsskuldbindingin vera í íslenskum krónum beri lánið frá upphafi vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 og skuli því með öllu litið fram hjá ákvæðum lánssamningsins um hina erlendu vexti. Samkvæmt því hafi eftirstöðvar lánsins 27. september 2010 numið 96.359.824 krónum. Þessi útreikningsaðferð felur í reynd í sér kröfu um viðbótarvexti fyrir liðna tíð og er henni hafnað með vísan til forsendna héraðsdóms. Til vara byggir aðaláfrýjandi á því að gagnáfrýjandi hafi aðeins getað ráðstafað 25.515.556 krónum inn á höfuðstól lánsins frá lántökudegi til 27. september 2010, en samkvæmt því eru eftirstöðvar þess 71.443.561 krónur þann dag. Gagnáfrýjandi telur á hinn bóginn að eftirstöðvar lánsins hafi umræddan dag verið 60.198.410 krónur þar sem hann hafi undir höndum fullnaðarkvittanir frá aðaláfrýjanda vegna greiðslu hverrar afborgunar af því, en sá útreikningur sætir ekki tölulegum ágreiningi. Samkvæmt þessu eigi afborganir frá lántökudegi fram til 27. september 2010 að koma að fullu til frádráttar upphaflegum höfuðstól sem hvorki beri gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga. Fjárhæð greiddra vaxta eigi ekki að hafa áhrif í þessu sambandi, enda teljist þeir að fullu gerðir upp vegna þessa tímabils.
Lán það sem hér um ræðir fól sem fyrr segir ekki í sér gilda skuldbindingu í erlendri mynt, heldur ólögmæta gengistryggingu láns í íslenskum krónum. Af þeim sökum á aðaláfrýjandi ekki rétt til þess að einstakar afborganir af láninu á því tímabili sem um ræðir taki breytingum í samræmi við breytt gengi hins erlenda gjaldmiðils. Í framangreindri kröfu gagnáfrýjanda felst sem fyrr segir að afborganir af höfuðstól skuldarinnar sem hann innti af hendi til og með 27. september 2010 komi að fullu til frádráttar höfuðstólnum sem beri hvorki gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga og að fjárhæð greiddra vaxta hafi þar ekki áhrif, enda teljist þeir að fullu gerðir upp vegna þessa tímabils. Er fallist á réttmæti þessarar aðferðar gagnáfrýjanda við útreikning á stöðu lánsins sem samkvæmt því nam 60.198.410 krónum.
Héraðsdómur verður staðfestur um málskostnað.
Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennt er að staða láns samkvæmt samningi gagnáfrýjanda, Bæjar hf., við Landsbanka Íslands hf. frá 6. júní 2006 hafi 27. september 2010 verið 60.198.410 krónur.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Aðaláfrýjandi, Landsbankinn hf., greiði gagnáfrýjanda 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2013.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 7. desember 2012 og dómtekið 20. nóvember sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Bær hf., Klausturvegi 6, Skaftárhreppi. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi „að viðurkennt verði að lánssamningur milli stefnda og stefnanda, dags. 6. júní 2006, sé samningur um lán í íslenskum krónum sem innihaldi ákvæði um gengistryggingu skuldbindingarinnar og að sú gengistrygging brjóti í bága við ákvæði laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu‟ en í öðru lagi að viðurkennt verði að eftirstöðvar lánssamningsins hafi hinn 27. september 2010 numið 60.198.410 krónum. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að eftirstöðvar lánssamningsins 6. júní 2006 hafi hinn 27. september 2010 numið 96.359.824 krónum. Til þrautavara krefst stefndi þess að viðurkennt verði að eftirstöðvarnar hafi numið 71.443.560 krónum á sama degi. Til enn frekari vara krefst stefndi þess að viðurkennt verði að eftirstöðvarnar hafi numið 60.198.410 krónum á sama degi. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga.
Málsatvik
Atvik málsins eru ágreiningslaus. Meðal annars er ekki um það deilt að stefndi er núverandi kröfuhafi samkvæmt þeim lánssamningi sem kröfugerð stefnanda lýtur að.
Stefnandi er hlutafélag sem rekur ferða- og gistiþjónustu og hefur að einhverju leyti tekjur sínar í erlendum gjaldmiðlum, einkum evrum. Með lánssamningi 6. júní 2006 tók stefnandi lán hjá Landsbanka Íslands hf. í þeim tilgangi að greiða upp eldra lán í íslenskum krónum, svo sem nánar greinir síðar.
Téður lánssamningur er á forsíðu sinni auðkenndur sem „ISK 96.959.117,- LÁNSSAMNINGUR‟. Í upphafi meginmáls samningsins segir að lántaki og lánveitandi geri með sér lánssamning um „fjölmyntalán til 19 ára að jafnvirði kr. 96.959.117,- [...], í neðanskráðri mynt: 100% CHF. Fjárhæð gjaldmiðilsins ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu myntar eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“
Í grein 1.1 sagði síðan meðal annars að lántaki lofaði að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána „umsamda lánsfjárhæð“, en í grein 1.2 að lántaki sendi bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli „lánshlutann“ inn á. Samkvæmt grein 2.1 skyldi lánstíminn vera 19 ár og höfuðstóll og vextir greiðast að fullu með 19 jöfnum afborgunum á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 25. september 2006.
Samkvæmt grein 2.2 átti greiðslustaður að vera hjá Landsbanka Íslands hf. og var tekið fram að lántaki óskaði eftir að tiltekinn reikningur hans hjá bankanum yrði skuldfærður fyrir afborgun og vöxtum, en fyrir liggur að þetta var bankareikningur í íslenskum krónum. Samkvæmt grein 2.3 var stefnanda heimilt að greiða lánið hraðar upp eða að fullu áður en að lokagjalddaga kæmi en þetta væri þó háð samþykki bankans. Þá var í greininni kveðið á um nánari skilyrði slíkra greiðslna lántaka.
Í grein 3.1 var mælt fyrir um að lánið bæri vexti, sem yrðu breytilegir og jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,6% vaxtaálags. Í grein 4.1 var kveðið á um að væri lánið í skilum gæti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að „myntsamsetningu“ þess yrði breytt, þannig að „eftirstöðvar skuldarinnar miðuðust að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið“. Við umreikning vegna myntbreytingar skyldi nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis yrði miðað við samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna. Í 7. grein kom fram að stæði lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana eða vaxta á gjalddaga bæri honum að greiða dráttarvexti og færi um þá samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtyggingu. Bankinn hefði um það val hvort krafist yrði dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða „af skuldinni breyttri í íslenskar krónur“.
Sama dag og lánssamningurinn var undirritaður útfyllti stefnandi beiðni um útborgun lánsins á eyðublaði sem fylgdi samningnum og óskaði eftir að „útborgunarfjárhæð“ yrði ráðstafað til uppgreiðslu á tilteknu láni og skyldi uppgreiðslan miðast við 1. júní 2006, en svo sem áður segir er ágreiningslaust að umrætt lán var í íslenskum krónum. Stefndi lýsir þessum málsatvikum svo í greinargerð að stefnandi hafi óskað eftir því að fá afhentar íslenskar krónur svo uppgreiðsla eldri skuldbindingar væri framkvæmanleg. Stefndi hafi orðið við ósk stefnanda og selt þá svissnesku franka sem stefnandi hafði tekið að láni fyrir þær íslensku krónur sem notaðar voru til að greiða upp eldri skuldbindinguna. Vísar stefndi í þessu sambandi til svonefndrar kaupnótu bankans þar sem getið er viðskipta í svissneskum frönkum. Hvað sem líður færslum bankans er ágreiningslaust að stefnandi fékk aldrei í hendur svissneska franka.
Stefnandi greiddi fimm afborganir af láninu á gjalddaga. Fjórar af þessum fimm afborgunum, árin 2006, 2007, 2008 og 2009, greiddi stefnandi með evrum af gjaldeyrisreikningi sínum. Þegar fimmta afborgunin var innt af hendi 25. september 2010 innti stefnandi greiðslu sína af hendi í íslenskum krónum. Í öllum tilvikum liggja fyrir svonefndar kaupnótur frá stefnda um kaup á svissneskum frönkum sem ráðstafað var til greiðslu umræddra afborgana.
Eftir afborgun sína haustið 2010 varð stefnandi þeirrar skoðunar að skuldbinding hans væri í raun í íslenskum krónum. Lýsti fyrirsvarsmaður stefnanda framangreindri skoðun við stefnda í bréfi 27. júlí 2011 og í tölvupósti þann 15. maí 2012. Í tölvupósti 16. maí sama ár svaraði útibússtjóri stefnda á Hvolsvelli bréfinu þar sem hann sagði að nauðsynlegt væri að stefnandi greiddi framvegis af láninu í erlendri mynt. Stefnandi ákvað að greiða af láninu í samræmi við fyrirmæli stefnda en með fyrirvara um lögmæti skuldbindingarinnar. Í tölvupósti útibússtjóra stefnda 28. ágúst 2012 kom m.a. fram að annað hvort væri nauðsynlegt að stofna sérstakan reikning í svissneskum frönkum og leggja inn á reikninginn eða hafa nægilegt magn af evrum tiltækt á evrureikningi svo að skuldfæra mætti lánið á þann reikning. Stefnandi telur að með þessu hafi stefndi tekið upp nýtt verklag varðandi greiðslur af láninu. Samkvæmt gögnum málsins hafnaði stefnandi því að stofna reikning í svissneskum frönkum og hélt til streitu þeirri afstöðu sinni að greiða bæri af láninu í íslenskum krónum. Með hliðsjón af sakarefni málsins er ekki ástæða til að rekja bréfaskipti aðila þar að lútandi eða sjónarmið stefnanda um að fyrir liggi viðtökudráttur af hálfu stefnda vegna gjalddaga á árinu 2012.
Ekki var um að ræða skýrslutökur við aðalmeðferð málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að lánssamningur aðila sé í raun um lán veitt í íslenskum krónum sem bundið sé ólögmætri gengistryggingu, þ.e. gengisþróun svissnesks franka. Samningurinn tilgreini þannig nákvæma fjárhæð í íslenskum krónum en erlenda mynt í formi hlutfalls og til viðmiðunar. Hann vísar þessu til stuðnings til dóms Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 og annarra fordæma Hæstaréttar. Greiðslur milli aðila hafi farið fram í íslenskum krónum. Þó svo að kaup/sölunótur vegna gjaldeyrisviðskipta í tengslum við lánssamninginn séu hugsanlega til staðar þá hafi það ekki sönnunargildi um það að um lögmætt erlent lán hafi verið að ræða, enda um málamyndaskjöl að ræða sem stafi frá stefnda. Sýna þurfi fram á að raunverulegar færslur á svissneskum gjaldeyrisreikningi stefnanda hafi átt sér stað. Slíkt sé ómögulegt enda hafi stefnandi aldrei verið eigandi slíks reiknings. Þá liggur einnig fyrir að lánsfjárhæðinni var ráðstafað til uppgreiðslu á íslensku láni hjá sama banka sem enn og aftur sé ótvíræð vísbending þess að um eiginlegt íslenskt lán hafi verið að ræða.
Án þess að raunverulegar færslur erlends gjaldmiðils hafi átt sér stað milli lántaka og lánveitanda telur stefnandi ekki hægt að segja að um raunverulegt og löglegt erlent lán hafi verið að ræða. Stefndi hafi óskað eftir að skuldfærður yrði íslenskur tékkareikningur stefnanda hjá stefnda fyrir afborgunum af láninu í samræmi við framkvæmd stefnda samkvæmt lánssamningsformi sem stafar frá stefnda, sem enn og aftur sé vísbending í þá átt að um skuldbindingu í íslenskum krónum hafi verið að ræða og aldrei hafi verið gert ráð fyrir öðru en greiðslum af láninu í íslenskum krónum. Stefnandi vísar einnig til myntbreytingarheimildar í grein 4 í lánssamningnum og telur hana benda til þess að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Hann telur einnig að þetta hafi í raun verið viðurkennt af fulltrúum stefnda á fundi með honum 28. febrúar 2012.
Stefnandi hafnar því að sú staðreynd að hann hafi greitt hluta afborgana lánsins með erlendum gjaldeyri, nánar tiltekið evrum, leiði til þess að um erlent lán hafi verið að ræða og vísar því til stuðnings til framangreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 155/2011. Hann leggur áherslu á að afborganir hafi aldrei verið greiddar í svissneskum frönkum og ástæða þess að greitt var með evrum sé sú að stefnandi hafi haft peninga í þeirri mynt tiltæka. Stefndi hafi engar kröfur gert um greiðslu af láninu í annarri mynt en íslenskum krónum þar til í maí 2012.
Efni lánssamningsins og öll framangreind atriði bendi eindregið til þess að í reynd hafi verið um lán í íslenskum krónum að ræða sem bundið hafi verið ólögmætri gengistryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um aðra stefnukröfu byggir stefnandi á því að afborganir sem hann innti af hendi komi að fullu til frádráttar höfuðstólnum sem beri hvorki gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga að frádregnum samningsvöxtum sem stefnandi hafi að fullu greitt. Stefnandi vísar til reglna um gildi fullnaðarkvittana til stuðnings því að stefndi geti ekki krafið um viðbótarvexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 vegna þegar greiddra samningsvaxta.
Stefnandi vísar þessu til stuðnings til þess að aðstöðumunur aðila hafi verið feikilegur og hafi svo verið allt frá upphafi lánstíma. Stefndi sé viðskiptabanki með sérþekkingu á fjármálum, þ.m.t. verðtryggingu, vaxtareikningum, skjalagerð og öllu öðru sem að lánveitingum snýr, en stefnandi sé rekstrarfélag á sviði ferðaþjónustu sem búi ekki yfir sérþekkingu á fjármálum. Skilmálar láns stefnanda hafi verið samkvæmt einhliða ákvörðun stefnda og stöðluðum skilmálum hans hvað slík lán varðar. Er því á því byggt að greiðslutilkynningar stefnda og fyrirvaralaus móttaka á greiðslum frá stefnanda í samræmi við tilkynningar hafi jafngilt fullnaðarkvittunum. Í ljósi framangreinds er á því byggt að það standi stefnda nær að bera vaxtamun þann sem hlaust af hinni ólögmætu gengistryggingu.
Stefnandi vísar til þess að líta beri á greiðslur stefnanda með eftirfarandi hætti:
|
Dags. |
Vextir |
Afborgun |
Greiðsla |
|
25.9.2006 |
1.198.702 kr. |
4.812.670 kr. |
6.011.372 kr. |
|
25.9.2007 |
3.890.437 kr. |
4.532.417 kr. |
8.422.854 kr. |
|
25.9.2008 |
6.998.342 kr. |
7.265.288 kr. |
14.263.630 kr. |
|
25.9.2009 |
9.717.521 kr. |
10.307.283 kr. |
20.024.804 kr. |
|
27.9.2010 |
5.100.272 kr. |
9.892.002 kr. |
14.992.274 kr. |
Samkvæmt þessu hafi heildargreiðslur af höfuðstól numið 39.809.660 krónum 27. september 2010 og eftirstöðvar því numið 60.198.410 krónum.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að um hafi verið að ræða lögmætt erlent lán sem stefnanda beri að endurgreiða í samræmi við nánari skilmála lánssamnings. Er á því byggt að lánssamningurinn sjálfur sem og framkvæmd lánveitingarinnar, þ.e. útgreiðsla lánsins og endurgreiðsla þess, beri með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt hafi verið að ræða. Af hálfu stefnda er því mótmælt að tilgreining íslenskra króna í lánssamningnum hafi þau áhrif að lánið teljist ólögmætt gengistryggt lán enda skuldbindingin í öllum öðrum skjölum, sem verði að teljast hluti lánssamningsins, tilgreind með hinni erlendu mynt.
Í þessu samhengi er vísað til þess að skuldbinding stefnanda hafi verið tilgreind með hinni erlendu mynt um leið og þess var kostur. Meginástæðan fyrir því að upphæð erlendu myntarinnar hafi ekki verið sett fram í fjárhæð í lánssamningnum, heldur sem hlutfall, sé sú að gengi erlendu myntarinnar er stöðugt að breytast á gjaldeyrismarkaði. Vegna þess tíma sem líði frá því skrifað er undir lánssamning þar til fjárhæð sé greidd út sé þetta fyrirkomulag nauðsynlegt og hafi sérstaklega verið tekið fram í upphafi lánssamningsins að fjárhæð gjaldmiðilsins ákvarðaðist ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin yrði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð hinnar erlendu myntar eða jafngildi hennar í öðrum erlendum myntum.
Stefndi vísar til kaupnótu við útgreiðslu lánsins 9. júní 2006 þar sem skuldbindingin sé eingöngu tilgreind með erlendri mynt. Þá hafi stefnanda einnig verið sendar tilkynningar um hvern og einn gjalddaga lánsins þar sem skuldbinding stefnanda hafi einungis verið tilgreind með hinum erlenda gjaldmiðli. Sömu sögu sé að segja af kvittunum fyrir greiðslu hvers gjalddaga. Liggi þannig fyrir að skuldbinding stefnanda í öllum skjölum, frá og með útgreiðslu lánsins, hafi verið tilgreind með hinni erlendu mynt en ekki í íslenskum krónum.
Stefndi hafnar því að ekki geti verið um erlent lán að ræða án þess að raunverulegar færslur erlends gjaldmiðils hafi átt sér stað milli lántaka og lánveitanda. Hann telur að með lánveitingu hafi eldra láni stefnanda í raun verið myntbreytt úr íslenskum krónum í svissneska franka í því skyni að stefnandi gæti notið þess vaxtahagræðis sem því fylgdi. Þar sem hin eldri skuldbinding hafi verið í íslenskum krónum og skráð í kerfum stefnda í íslenskum krónum hafi stefndi þurft að selja þá svissnesku franka sem stefnandi hafði óskað eftir að taka að láni hjá honum fyrir íslenskar krónur svo hægt væri að greiða eldri skuldbindingu stefnanda upp. Stefndi vísar til fyrrnefndrar kaupnótu um þessi gjaldeyrisviðskipti svo og til samskipta fulltrúa aðila í tölvupósti. Af hálfu stefnda er á því byggt að það geti ekki undir nokkrum kringumstæðum breytt eðli skuldbindingarinnar að stefnandi hafi í þetta skipti óskað eftir að myntirnar yrðu seldar í skiptum fyrir íslenskar krónur, en ekki lagðar inn á gjaldeyrisreikning hans. Upphaflegur ádráttur lánsins hafi því án vafa verið í svissneskum frönkum en sökum aðstæðna sem raktar verði einungis til stefnda hafi lánið verið greitt út í íslenskum krónum. Af hálfu stefnda er þannig á því byggt að stefndi hafi í upphafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt samningnum í svissneskum frönkum líkt og stefnandi óskaði eftir. Jafnvel þótt lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum telur stefndi þó að um hafi verið að ræða erlent lán og vísar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 50/2012 því til stuðnings.
Stefndi leggur áherslu á að líta verði til þess hvernig aðilar hafi efnt skuldbindingar sínar. Í því sambandi skipti verulegu máli að stefnandi hafi greitt af láninu í erlendum gjaldmiðli. Stefnandi hafi þannig efnt aðalskyldu sína samkvæmt samningnum í erlendum gjaldmiðli. Fráleitt sé að ætla að skuldbinding, sem upphaflega hafi verið ákveðin í erlendum myntum og greidd sé til baka í erlendum myntum, verði metin sem skuldbinding í íslenskum krónum. Stefndi mótmælir því að fordæmi Hæstaréttar leiði til annarrar niðurstöðu. Liggi þannig fyrir að báðir aðilar lánssamningsins hafi efnt aðalskyldur sínar með því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur.
Því er mótmælt að myntbreytingarheimild í grein 4.1 lánssamningsins bendi til þess að lánið sé í íslenskum krónum. Í fyrsta lagi er á það bent að á lánstímanum var framangreindu ákvæði aldrei beitt. Í öðru lagi fái orðalag í þess háttar heimild því ekki breytt hvers eðlis skuldbindingin er og þá megi í þriðja lagi skýrlega ráða af ákvæðinu að við hugsanlega myntbreytingu á láni, hafi átt að fara fram viðskipti með viðkomandi myntir. Stefndi mótmælir því sérstaklega að fulltrúar hans hafi viðurkennt ólögmæti lánsins á fundi aðila 28. febrúar 2012. Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi hafi sjálfur litið svo á að um væri að ræða erlend lán með hliðsjón af framsetningu ársreikninga stefnanda fyrir árin 2006-2010 að því er varðar langtímaskuldir.
Stefndi byggir einnig á því að heimilt hafi verið samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 að víkja frá ákvæðum VI. kafla laganna þar sem lánssamningurinn hafi sannarlega verið stefnanda til hagsbóta. Í fyrsta lagi hafi vaxtakjör stefnanda samkvæmt lánssamningnum verið umtalsvert betri en honum hefði ella boðist. Í því samhengi er vísað til þeirrar staðreyndar að LIBOR-vextir voru umtalsvert hagstæðari fyrir varnaraðila en REIBOR-vextir á íslenskar krónur. Þá er einnig á því byggt að stefndi hafði enga forsendu til að ætla, þegar lánið var veitt, að lánveitingin kynni að reynast stefnanda óhagstæðari heldur en aðrar þær leiðir sem val stóð um enda liggur ljóst fyrir að stefnandi er félag í ferðaþjónustu sem fær stóran hluta tekna sinna í erlendum gjaldeyri. Óveruleg gengisáhætta hafi verið tengd láninu hjá stefnanda. Enn fremur verði ekki einungis horft til breytinga á höfuðstól lánssamningsins í íslenskum krónum við mat á því hvað hafi verið stefnanda til hagsbóta í skilningi laga nr. 38/2001 heldur verði einnig að horfa til breytinga á tekjum stefnanda vegna breytinga á gengi gjaldmiðla. Með hliðsjón af tekjum stefnanda hafi hann haft af því augljósan hag að skuldbinding hans væri í erlendri mynt. Að lokum verður einnig að hafa í huga að stefnanda hafi verið heimilt að gera myntbreytingar á lánssamningunum, sbr. 4. gr. samninganna, og hann getað lagað samninginn að rekstri sínum. Þá hafi stefnanda verið í lófa lagið að gera gjaldmiðlaskiptasamninga og verja sig gegn gengisáhættu.
Varakrafa stefnda tekur mið af því að fallist verði á að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum. Við þessar aðstæður telur stefndi að reikna eigi lánið upp samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 allt frá upphafsdegi þess en ekki umsamda vexti enda hafi ógilding ákvæðisins um gengistryggingu leitt til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð samkvæmt fordæmum Hæstaréttar. Stefndi vísar einnig til fordæma Hæstaréttar því til stuðnings að ekki séu skilyrði fyrir hendi til að litið sé svo á að stefnandi hafi fengið fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta heldur eigi að beita þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum sínum við skuldara, skuli eiga tilkall til greiðslu fyrir það sem vangreitt er. Undantekningar frá þessari reglu eigi hins vegar ekki við í málinu.
Stefndi vísar til þess að hið umþrætta lán hafi verið tekið í júní 2006 og átt að endurgreiða það á nítján árum með 19 jöfnum afborgunum á tólf mánaða fresti, sbr. ákvæði 2.1 í lánssamningnum. Á endurreikningsdegi hafi stefnandi því einungis verið búinn að greiða fimm afborganir af láninu og því ekki slík festa komin í framkvæmd endurgreiðslna að rök séu fyrir beitingu undantekningarreglunnar. Einnig sé til þess að líta í þessu sambandi að fyrstu fjórar afborganirnar hafi í reynd verið greiddar í erlendum myntum án þess að íslenskar krónur kæmu þar nærri. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi því engan veginn verið um það að ræða að stefndi hafi sent greiðsluseðla sem tilgreindu íslenska fjárhæð sem stefnandi hafi greitt. Sjónarmið um fullnaðarkvittanir geti af þessum sökum ekki komið til álita. Einnig er á því byggt að við mat á því hvort beita eigi framangreindri undantekningarreglu kröfuréttar verði að líta til eðlis stefnanda, hvernig stjórn hans sé skipuð og hvernig rekstri hans sé háttað. Færir stefndi rök að því að um sé að ræða fjárhagslega sterkt fyrirtæki með tekjur í erlendum gjaldmiðlum. Stjórnendum stefnanda hafi verið fullljóst hvaða vextir buðust, annars vegar á erlendum gjaldmiðlum og hins vegar á íslenskum krónum. Stefndi leggur áherslu á það að nafngreindur stjórnarmaður í stefnanda hafi einnig verið í bankaráði tiltekins viðskiptabanka og haft sérfræðikunnáttu á því sviði sem hér um ræðir. Stefnandi hafi því haft allar forsendur til þess að meta gengisáhættu sína af láninu og hafi öll samskipti aðila byggst á þessu. Stefnandi getur ekki haldið því fram að hann hafi verið í góðri trú um að vaxtakjör lánsins væru óháð bindingu höfuðstóls þess við gengi gjaldmiðla.
Þá er á því byggt af hálfu stefnda að sú meinta viðbótarkrafa sem felst í hinum vangreiddu vöxtum geti ekki talist umtalsverð að teknu tilliti til þeirrar aðferðafræði sem Hæstiréttur hafi lagt til grundvallar. Í því sambandi vísar stefndi enn til þess að stefnandi sé stöndugur lögaðili sem fært getur vaxtakostnað sem þennan til gjalda í rekstri sínum með þeim afleiðingum að skattgreiðslur hans lækka. Sé því ekki um að ræða fjárhagslega röskun stefnanda af endurgreiðslu.
Samkvæmt framangreindu eigi við það að miða að lánið hafi borið vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Eftirstöðvar hins umþrætta lánssamnings á útreikningsdegi séu þannig summa allra framreiknaðra greiðslna, bæði útgreiðslunnar og endurgreiðslna. Samkvæmt nánari útreikningum stefnda, sem ekki þykir ástæða til að rekja frekar með hliðsjón af því að stefnandi hefur ekki mótmælt tölulegri útlistun stefnda, telst honum til að fjárhæð skuldar stefnanda eftir afborgun og greiðslu vaxta 27. september 2010 hafi verið 96.359.824 krónur sem svarar til þeirrar fjárhæðar sem fram kemur í varakröfu stefnanda.
Önnur varakrafa stefnda tekur mið af því að dómurinn fallist á að um fullnaðarkvittanir stefnanda fyrir vaxtagreiðslum hafi verið að ræða. Stefndi mótmælir því hins vegar að afborganir sem stefnandi innti af hendi komi til frádráttar höfuðstólnum, eins og hann sé talinn vera án gengistryggingar eða verðbóta, umfram það sem leiði af skilmálum lánssamningsins. Þvert á móti skuli miðað við það sem fram hafi komið á hverjum og einum greiðsluseðli og sannarlega greiddum fjárhæðum, ráðstafað inn á lánið, eins og þar kemur fram. Í reglunni um fullnaðarkvittanir felist þannig engin heimild fyrir skuldara til að krefja kröfuhafa um endurgreiðslu heldur einungis að litið verði á þá greiðslu sem þegar hefur verið innt af hendi sem fullnaðargreiðslu. Byggir stefndi á því í annarri varakröfu sinni að líta verði til þess hvernig stefnandi átti að greiða afborganir og vexti af láninu samkvæmt ákvæðum lánssamningsins og að teknu tilliti til fyrri dóma Hæstaréttar. Vísar stefndi í því sambandi til þess að á hverjum gjalddaga samkvæmt grein 2.1 í lánasamningi hafi stefnandi átt að greiða 5.103.111 krónur inn á höfuðstól lánsins. Stefndi hafi sem kröfuhafi haft val um það hvernig innborgunum á kröfu í hans eigu var háttað. Jafnframt byggir stefndi á því að ef undantekningarreglan um fullnaðarkvittanir á við, þá geti stefnandi aðeins haft í höndum fullnaðarkvittun fyrir greiðslu hvers gjalddaga lánsins, án þess að litið sé til niðurbrots á kvittun í afborganir og vexti. Á hverjum greiddum gjalddaga hafi þannig 5.103.111 krónum verið ráðstafað inn á höfuðstól lánsins og þar sem stefnandi hefur fullnaðarkvittun í höndunum fram að 27. september 2010 sé litið svo á í útreikningi stefnda að vextir fyrir það tímamark séu einnig að fullu upp gerðir þó þeir séu lægri en vextir samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sem lánsfjárhæðin átti sannarlega að bera. Á framangreindu tímamarki hafi stefnandi verið búinn að greiða fimm gjalddaga, sem með framangreindri aðferð leiði til lækkunar á höfuðstól lánsins um 25.515.556 krónur sem svari til þess að höfuðstóll lánsins sé 71.443.560 krónur.
Verði ekki fallist á að beita eigi undantekningarreglunni um fullnaðarkvittanir með þeim hætti sem önnur varakrafa stefnda gerir ráð fyrir byggir stefndi frekari varakröfu sína á sömu forsendum, þó þannig að öllum greiðslum stefnanda umfram vexti hefur verið ráðstafað til lækkunar höfuðstól. Með hliðsjón af því að þessi útreikningur stefnda byggir á sama grundvelli og önnur krafa stefnanda í endanlegum málatilbúnaði hans er ekki þörf á því að rekja grundvöll kröfunnar nánar.
Um lagarök stefnda fyrir kröfum sínum er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þá sérstaklega 2., 13., 14. og 18. gr., sem og almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða og efndaskyldu krafna. Þá er einnig sérstaklega vísað til meginreglna fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur sem og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þá sérstaklega 36. gr.
Niðurstaða
Í máli þessu er fram komið að sá lánssamningur, sem kröfur stefnanda lúta að og áður er lýst, er efnislega sambærilegur þeim lánssamningi sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 svo og dómi réttarins 14. nóvember 2013 í máli nr. 337/2013. Af hálfu stefnda er ekki á því byggt að víkja eigi frá fordæmi Hæstaréttar samkvæmt téðum dómi 9. júní 2011. Er þannig á því byggt af stefnda að sakarefni máls þessa sé frábrugðið því sem leyst var úr með téðum dómi Hæstaréttar, einkum viðvíkjandi því hvernig málsaðilar efndu aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum.
A
Ekki er um það deilt að fyrrgreindu láni 6. júní 2006 var ráðstafað til uppgreiðslu annars láns hjá stefnda sem var í íslenskum krónum. Var þannig ekki um það að ræða að lánsfjárhæðin væri greidd í íslenskum krónum inn á bankareikning lántaka, eins og átti við í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 9. júní 2011. Dómurinn fellst þó ekki á að þetta atriði bendi til þess að um hafi verið að ræða erlent lán. Þá telur dómurinn, með vísan til umrædds fordæmis Hæstaréttar, þýðingarlaust að lánið var í kerfum stefnda formlega greitt út í svissneskum frönkum áður en fjárhæðinni var breytt í íslenskar krónur til uppgreiðslu téðs láns stefnanda. Verður þannig að leggja til grundvallar að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum með sambærilegum hætti og í því máli sem leyst var úr með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar, sbr. hins vegar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar 14. nóvember 2013.
Svo sem áður greinir kvað lánssamningurinn 6. júní 2006 á um að lántaki óskaði eftir því að tiltekinn bankareikningur hans í íslenskum krónum yrði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum. Tilkynningar stefnda um gjalddaga báru einnig með sér að umræddur reikningur stefnanda í íslenskum krónum yrði skuldfærður á gjalddaga. Í málinu er ágreiningslaust að stefnandi greiddi þrátt fyrir þetta af umræddu láni í evrum í fjögur skipti, en í íslenskum krónum í eitt skipti. Nánari tildrög þessara greiðslna liggja ekki fyrir í málinu, en gera verður ráð fyrir að þessi tilhögun hafi verið án athugasemda stefnda sem sá um nauðsynlega gjaldeyrisfærslur og tók þóknun fyrir það.
Í málinu er því ekki hreyft að umrætt lán hafi verið erlent lán í evrum. Að þessu virtu þykir það ekki sérstaklega benda til þess að umrætt lán hafi verið erlent lán að stefndi greiddi af því í umrædd skipti með evrum en ekki íslenskum krónum. Er þá einnig litið til þess að í umræddum dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 voru atvik með þeim hætti að tiltekin afborgun hafði verið greidd í erlendri mynt.
Málsástæða stefnda þess efnis að tilgreining langtímaskulda í ársreikningi stefnanda geti haft þýðingu um sakarefni máls þessa er haldlaus. Þá er ekkert fram komið í málinu sem styður fullyrðingar stefnda á þá leið að umræddur lánssamningur hafi verið stefnanda til hagsbóta í skilningi 2. gr. laga nr. 38/2001 umfram það sem átti við í dómi Hæstaréttar 9. júní 2011. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt fyrir liggi að stefnandi hafi tekjur sínar að einhverju leyti í erlendum gjaldeyri.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að sakarefni máls þessa sé sambærilegt því sem leyst var úr með umræddum dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 sem ber því að leggja til grundvallar sem fordæmi við úrlausn málsins. Verður því fallist á fyrstu dómkröfu stefnanda þess efnis að viðurkennt verði að téð lán hafi verið lán í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu, svo sem nánar greinir í dómsorði.
B
Óumdeilt er að þær fjárhæðir sem stefnandi greiddi stefnda í vexti af höfuðstól á fyrrgreindum gjalddögum voru tilgreindar á greiðslutilkynningum, útgefnum af stefnda. Er og ekki um það deilt að stefndi tók við greiðslum stefnanda vegna vaxta og afborgana á fimm gjalddögum og gaf út fyrirvaralausar kvittanir vegna þeirra. Eins og málið liggur fyrir verður því að leggja til grundvallar að stefnandi hafi greitt þá vexti sem tilgreindir voru á greiðsluskjölum stefnda í góðri trú um lögmæti lánsins og þá einnig um það að greiðslurnar fælu í sér réttar og fullar efndir af hans hálfu.
Að mati dómsins er ljóst að aðstöðumunur var með aðilum þar sem stefndi er fjármálafyrirtæki sem starfar á lánamarkaði og hafði þar boðið viðskiptavinum upp á lán með ólögmætri gengistryggingu. Með hliðsjón af ítrekuðum fordæmum Hæstaréttar getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt stefnandi hafi haft einhverjar tekjur sínar í erlendri mynt og stjórnarmenn hans kunni að hafa haft þekkingu á gjaldeyrismálum. Stóð það því stefnda almennt nær að gæta að því að lánssamningar væru í samræmi við lög og bera áhættuna af því ef svo væri ekki. Að lokum verður að líta til þess að þeir viðbótarvextir miðað við 27. september 2010, sem stefndi telur stefnanda til skuldar með málatilbúnaði sínum, nema 24.916.264 krónum ef miðað er við aðra varakröfu stefnda. Er sú fjárhæð umtalsverð, hvort sem litið er til heildarvaxtagreiðslna af láninu eða upphaflegs höfuðstóls þess. Eru fullyrðingar stefnda um stöndugan rekstur stefnanda þýðingarlausar um þetta atriði. Að lokum verður að líta til þess að stefnandi greiddi sex af 19 gjalddögum vaxta og afborgana á gjalddögum sem telst umtalsverður hluti lánsfjárhæðar og lánstíma.
Með vísan til þeirra viðmiða sem fram koma í dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og dómi Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 er það niðurstaða dómsins samkvæmt framangreindu að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu á framangreindum vaxtagjalddögum lánsins. Í samræmi við fyrrgreind fordæmi Hæstaréttar geta ákvæði laga nr. 151/2010 ekki haggað þessari niðurstöðu. Á stefndi því ekki rétt á viðbótarvaxtagreiðslum vegna þeirra vaxtaafborgana sem stefnandi hefur innt af hendi og áður er gerð grein fyrir.
C
Með síðari kröfu sinni krefst stefnandi viðurkenningar á því að staða lánsins hafi hinn 27. september 2010 numið 60.198.410 krónum. Krafa stefnanda er því ekki endurgreiðslukrafa vegna ofgreiddra vaxta samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, líkt og háttaði til í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2013 í máli nr. E-24/2013, heldur krafa um að viðurkennt verði að á tilteknum degi hafi höfuðstóll lánsins numið ákveðinni fjárhæð. Umrædd fjárhæð er fundin þannig út að afborgunum stefnanda er fyrst ráðstafað til greiðslu vaxta en þá stendur eftir fjárhæð sem er umfram það sem leiddi af ákvæðum samningsins á gjalddögum árin 2008, 2009 og 2010. Í útreikningi stefnanda er þessum umframfjárhæðum ráðstafað inn á höfuðstól skuldarinnar án tillits til þess hver raunveruleg afborgun hefði átt að vera samkvæmt ákvæðum lánssamningsins. Þessari aðferð stefnanda hefur verið mótmælt af stefnda og efnislega vísað til þess að honum hafi ekki borið skylda til að ráðstafa hærri greiðslu inn á höfuðstól en leiddi af ákvæðum lánssamningsins, þ.e. 5.103.111 krónum á hverjum gjalddaga.
Samkvæmt grein 2.3 í lánssamningnum 6. júní 2006 var stefnanda heimilt að greiða lánið hraðar upp en samningurinn gerði ráð fyrir en þetta var þó háð samþykki bankans. Væri þessi heimild nýtt skyldi lágmarksgreiðsla nema a.m.k. jafnvirði 10 milljóna íslenskra króna hverju sinni og skyldi lántaki þá greiða kostnað samkvæmt gjaldskrá bankans auk uppgreiðsluþóknunar. Eðli málsins samkvæmt var ekki um það að ræða að stefnandi vísaði til þessarar heimildar þegar hann innti af hendi fyrrgreindar greiðslur sínar, enda taldi hann sig í öllum tilvikum vera að greiða reglulega afborgun vaxta og höfuðstóls. Eru atvik málsins að þessu leyti einnig ólík því sem átti við í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2013 í máli nr. E-24/2013 þar sem um var að ræða eingreiðslulán sem lántaka var hvenær sem er heimilt að greiða inn á eða að fullu upp fram að ákveðnum gjalddaga.
Eins og samningi aðila var háttað verður á það fallist með stefnda að gegn mótmælum hans verði ekki hærri fjárhæð ráðstafað til lækkunar höfuðstóls lánsins en beinlínis leiddi af ákvæðum samningsins á hverjum og einum gjalddaga. Væri önnur niðurstaða ósamrýmanleg meginreglu íslensks réttar um skuldbindingargildi samninga, en í ljósi þeirra málsástæðna sem hafðar voru uppi af aðilum í því máli sem lauk með dómi Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 verður ekki talið að sá dómur hafi fordæmisgildi um þetta atriði. Samkvæmt þessu verður að fallast á mótmæli stefnanda við annarri stefnukröfu stefnanda. Er með þeirri niðurstöðu engin afstaða tekin til þess hvort stefnandi kunni nú eða á síðara tímamarki að eiga rétt á endurgreiðslu vegna ofgreiðslna samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010.
Við þær aðstæður að fallist verði á meginmálsástæðu stefnanda, þess efnis að umrætt lán hafi verið lán í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu, telur stefndi að staða lánsins 27. september 2010 hafi numið 71.443.560 krónum. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda miðast þessi útreikningur við að vextir og rétt hlutfall af höfuðstól lánsins hafi að fullu verið gert upp 27. september 2010. Þannig hafi fimm gjalddagar svarað til alls 25.515.556 króna greiðslu af höfuðstól sem jafngildi því að höfuðstóll lánsins hafi á umræddum degi numið 71.443.560 krónum sem er sú fjárhæð sem svarar til annarrar varakröfu stefnda. Af hálfu stefnanda hafa ekki verið færð að því rök að þessi útreikningur stefnda á höfuðstóls lánsins miðað við umræddan dag sé rangur. Verður því fallist á útreikning stefnda og þá um leið aðra varakröfu hans.
Við ákvörðun málskostnaðar verður að líta til þess að málsástæðum stefnda hefur í meginatriðum verið hafnað. Þá hefur stefnandi kosið að hafa uppi málsástæður í máli þessu sem áður hefur verið leyst úr með dómum Hæstaréttar að mati dómsins. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ákveðst málskostnaður úr hendi stefnda því hæfilegur 900.000 krónur en ekki er fram komið að rétt sé að taka tillit til greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ragnar Guðmundsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Stefán Orri Ólafsson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennt er að lán sem stefnandi, Bær hf, tók með lánssamningi 6. júní 2006 við Landsbanka Íslands hf. til 19 ára, að jafnvirði 96.959.117 krónur, sé lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Einnig er viðurkennt að staða lánsins hinn 27. september 2010 hafi numið 71.443.560 krónum.
Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda 900.000 krónur í málskostnað.