Hæstiréttur íslands

Mál nr. 459/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kröfugerð
  • Samlagsaðild
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms
  • Heimvísun


Föstudaginn 9

 

Föstudaginn 9. febrúar 2001.

Nr. 459/2000.

Olíufélagið hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Bjarna Vernharðssyni

Einari Draupni Hálfdánarsyni

Jónasi Kristjánssyni

Páli Stefánssyni

Stefáni Ólafssyni

Árna Breiðfjörð Pálssyni

Bergvin Bessasyni

Davíð Fannari Stefánssyni

Guðmundi B. Kristjánssyni

Nikolay Vakunov

Ólafi Vilhjálmssyni

Róbert O. Stefánssyni

Sabit Crnac

Sakib Crnac og

Tryggva D. Thorsteinssyni

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfugerð. Samlagsaðild. Ómerking úrskurðar héraðsdóms. Heimvísun.

 

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem staðfest var sú afstaða skiptastjóra þrotabús S að hafna því að varnaraðilar, skipverjar á skipinu K, sem verið hafði í eigu þrotabúsins, fengju komið að við gjaldþrotaskiptin nánar tilgreindum kröfum um vinnulaun og fleira, en viðurkenndur hins vegar sjóveðréttur þeirra í skipinu K. Fyrir Hæstarétti kröfðust varnaraðilar þess einungis að hnekkt yrði þeirri ákvörðun skiptastjóra að hafna nánar tilgreindum kröfum þeirra. Þess var hins vegar ekki krafist að kröfur þeirra yrðu viðurkenndar eða tekin afstaða til þess, hvort þær nytu forgangsréttar við gjaldþrotaskiptin og væru tryggðar með sjóðveðrétti í skipinu K. Talið var, að eins og varnaraðilar hefðu kosið að leggja málið fyrir dóm yrði slík úrlausn ekki fengin, heldur eingöngu niðurstaða um hvort hnekkja ætti ákvörðun skiptastjóra. Var kröfugerð varnaraðila, sem var einnig óákveðin að öðru leyti, því ekki talin tæk til efnislúrlausnar. Var því fallist á þá kröfu sóknaraðila að ómerkja hinn kærða úrskurð og meðferð málsins í héraði allt frá þingfestingu þess. Var málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. nóvember 2000, þar sem staðfest var sú afstaða skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf. að hafna því að varnaraðilar fengju komið að við gjaldþrotaskiptin nánar tilgreindum kröfum um vinnulaun og fleira, en viðurkenndur hins vegar sjóveðréttur þeirra í fiskiskipinu Kristjáni ÓF 51 til tryggingar kröfum, sem „þeir kunna að eiga vegna veiðiferða skipsins á tímabilinu september til desember 1999.“ Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn kærði úrskurður verði ómerktur ásamt meðferð málsins frá þingfestingu þess, en til þrautavara að kröfum varnaraðila verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Bjarni Vernharðsson, Einar Draupnir Hálfdánarson, Jónas Kristjánsson, Páll Stefánsson og Stefán Ólafsson kærðu úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 15. desember 2000. Þeir krefjast þess að hnekkt verði áðurgreindri afstöðu skiptastjóra til lýstra krafna þeirra í þrotabú Sæunnar Axels ehf., en að staðfest verði niðurstaða hins kærða úrskurðar um viðurkenningu á sjóveðrétti þeirra í Kristjáni ÓF 51. Þeir krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Árni Breiðfjörð Pálsson, Bergvin Bessason, Davíð Fannar Stefánsson, Guðmundur B. Kristjánsson, Nikolay Vakunov, Ólafur Vilhjálmsson, Róbert O. Stefánsson, Sabit Crnac, Sakib Crnac og Tryggvi D. Thorsteinsson kærðu úrskurð héraðsdómara 19. desember 2000. Kröfur þeirra eru á sama veg og fyrrgreindar kröfur annarra varnaraðila.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var bú Sæunnar Axels ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 7. desember 1999. Munu varnaraðilar hafa verið skipverjar á Kristjáni ÓF 51, fimm þeir fyrstnefndu yfirmenn og hinir tíu síðastnefndu undirmenn, en skipið var í eigu félagsins og gert út til veiða af því. Sóknaraðili kveður veðbönd hafa hvílt á skipinu umfram gangverð þess og hafi skiptastjóri í þrotabúinu því leitað tilboða í það eftir ákvæðum 129. gr. laga nr. 21/1991. Hafi sóknaraðili borið sjálfskuldarábyrgð á skuld, sem hvíldi á öðrum veðrétti í skipinu, og gert kauptilboð í það. Hafi tilboðið verið samþykkt á veðhafafundi 17. janúar 2000 og sóknaraðili orðið eigandi skipsins daginn eftir.

Varnaraðilar munu allir hafa lýst kröfum í þrotabúið vegna vangoldinna launa og launa í uppsagnarfresti innan kröfulýsingarfrests, sem lauk 22. febrúar 2000. Áður en það var gert var því þó hreyft við skiptastjóra með bréfi 22. desember 1999 af hálfu varnaraðilanna úr röðum yfirmanna á skipinu að þeir gerðu athugasemdir við uppgjör á aflahlut úr nánar tilgreindum veiðiferðum, þar sem félagið hafi ekki réttilega gert grein fyrir heildarsöluverði aflans. Þetta var ítrekað í bréfi til skiptastjórans 20. janúar 2000 og aftur 3. mars sama árs. Í framhaldi af því var af þeirra hálfu leitað til Verðlagsstofu skiptaverðs 14. mars 2000 og óskað eftir að hún útvegaði gögn til að unnt yrði að komast að raun um hvort uppgjör fyrir umræddar veiðiferðir hafi verið rétt. Umbeðin gögn voru látin í té 27. apríl 2000. Að þessu gerðu rituðu lögmenn varnaraðilanna skiptastjóranum bréf 18. maí sama árs, þar sem meðal annars var vísað til áðurgreindra athugasemda og sagt frá könnun, sem gerð hafi verið á gögnum um söluverð afla af skipinu í umræddum veiðiferðum. Hafi þessi könnun leitt í ljós að aflahlutur hvers háseta hafi verið vanreiknaður um 190.598 krónur, skipstjórans um 381.196 krónur, stýrimanns og yfirvélstjóra um 285.896 krónur, en vélavarða og matsveins um 238.247 krónur. Við þessar fjárhæðir skyldu bætast 10,17% vegna orlofs, svo og lögmannskostnaður. Sagði að þessum kröfum væri þar með lýst í þrotabúið, þótt kröfulýsingarfrestur væri liðinn, en greint var frá röksemdum fyrir því að kröfurnar fengju allt að einu komist að.

Varnaraðilarnir úr röðum yfirmanna lýstu hver fyrir sig kröfum í þrotabúið 24. maí 2000 til viðbótar áður gerðum kröfum. Sagði í kröfulýsingum þeirra að þær væru vegna leiðréttingar á launauppgjöri og var vísað um það efni til áðurnefnds bréfs 18. sama mánaðar. Fjárhæð lýstrar viðbótarkröfu hvers þessara varnaraðila var sem hér segir: Bjarna Vernharðssonar 277.493 krónur, Einars Draupnis Hálfdánarsonar 332.192 krónur, Jónasar Kristjánssonar 441.590 krónur, Páls Stefánssonar 332.192 krónur og Stefáns Ólafssonar 277.493 krónur. Þá lýstu varnaraðilarnir úr röðum undirmanna á sama hátt viðbótarkröfum í þrotabúið 31. maí 2000. Var gerð sjálfstæð kröfulýsing fyrir hvern þeirra, en fjárhæðin í þeim öllum sú sama, 248.839 krónur. Allir varnaraðilarnir kröfðust þess að viðurkenndur yrði forgangsréttur fyrir kröfum þeirra samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, svo og sjóveðréttur í Kristjáni ÓF 51 á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Í bréfi til skiptastjóra 1. júní 2000 mótmælti sóknaraðili sem kaupandi Kristjáns ÓF 51 að kröfur fyrrnefndra yfirmanna á skipinu yrðu teknar til greina, „a.m.k. að því er varðar þann þátt þeirra er lýtur að viðurkenningu á sjóveðrétti í framangreindu skipi.“ Skiptastjóri hélt skiptafund í þrotabúinu 2. sama mánaðar, þar sem varnaraðilar ítrekuðu kröfurnar sínar og sóknaraðili áréttaði mótmæli sín gegn þeim. Með nánar tilgreindum rökstuðningi lýsti skiptastjóri þeirri afstöðu sinni að bæði væri hafnað að kröfunum yrði komið að við skipti á þrotabúinu og að þeim fylgdi sjóveðréttur í skipinu. Kröfðust varnaraðilar þess að ágreiningi um þetta efni yrði beint til héraðsdóms. Það gerði skiptastjóri með bréfi 6. júní 2000 og var málið þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 4. júlí sama árs.

II.

Eins og málið var rekið fyrir héraðsdómi var þar til úrlausnar í einu lagi ágreiningur um hvort viðurkenndar yrðu við skipti á þrotabúi Sæunnar Axels ehf. kröfur, sem þó hafði verið lýst sjálfstætt fyrir hvern af þeim fimmtán aðilum, sem standa til varnar í málinu fyrir Hæstarétti. Þótt fallast megi á með sóknaraðila að æskilegt hefði verið að taka kröfu hvers varnaraðila til úrlausnar í sérstöku máli, fær það því ekki breytt að fyrir rekstri eins máls um þær allar er heimild í 1. málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Eru því ekki efni til að fallast á aðalkröfu eða varakröfu sóknaraðila vegna annmarka á samlagsaðild varnaraðila að málinu.

Í greinargerð, sem var lögð fram í héraði af hálfu varnaraðila úr röðum undirmanna á Kristjáni ÓF 51, var þess krafist að þeirri „ákvörðun skiptastjóra í þb. Sæunnar Axels ehf., að hafna viðurkenningu á kröfum þeirra um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti á málflutningslaun og kröfulýsingarkostnaði, verði hnekkt.“ Samkvæmt greinargerð annarra varnaraðila fyrir héraðsdómi var dómkrafa þeirra nánast orðrétt á sama veg. Ágreiningsefnið, sem varð tilefni til rekstrar málsins, snerist eins og áður greinir um hvort viðurkenna ætti nánar tilgreindar fjárkröfur, sem gerðar höfðu verið sjálfstætt af hálfu hvers og eins varnaraðila, svo og hvort þær nytu forgangsréttar við gjaldþrotaskiptin og væru tryggðar með sjóveðrétti í áðurnefndu skipi. Til þess alls hafði skiptastjóri tekið afstöðu á skiptafundi 2. júní 2000, en með málinu átti að leita úrlausnar héraðsdóms um hvort kröfurnar yrðu viðurkenndar og þá eftir atvikum hvernig. Eins og varnaraðilar hafa kosið að leggja málið fyrir dóm yrði slík úrlausn ekki fengin, heldur eingöngu niðurstaða um hvort hnekkja ætti ákvörðun skiptastjóra. Yrði henni hnekkt stæði eftir sem áður óleyst hver niðurstaðan yrði um kröfur einstakra varnaraðila. Kröfugerð varnaraðila, sem að öðru leyti er einnig óákveðin, er af þessum sökum ekki tæk til efnisúrlausnar í máli, sem rekið er samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 21/1991. Þegar af þessari ástæðu verður að fallast á varakröfu sóknaraðila með því að ómerkja hinn kærða úrskurð og meðferð málsins í héraði allt frá þingfestingu þess.

Dæma verður varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur, svo og meðferð málsins fyrir héraðsdómi frá þingfestingu þess 4. júlí 2000, og er því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Varnaraðilar, Bjarni Vernharðsson, Einar Draupnir Hálfdánarson, Jónas Kristjánsson, Páll Stefánsson, Stefán Ólafsson, Árni Breiðfjörð Pálsson, Bergvin Bessason, Davíð Fannar Stefánsson, Guðmundur B. Kristjánsson, Nikolay Vakunov, Ólafur Vilhjálmsson, Róbert O. Stefánsson, Sabit Crnac, Sakib Crnac og Tryggvi D. Thorsteinsson, greiði í sameiningu sóknaraðila, Olíufélaginu hf., samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. nóvember 2000.

                Mál þetta barst dóminum með bréfi Ólafs Birgis Árnasonar hrl., skiptastjóra þrotabús Sæunnar Axels ehf., dagsettu 6. júní 2000 og móteknu 7. júní s.á.  Í bréfi sínu vísaði skiptastjóri um heimild til málskots til 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21, 1991.  Málið var þingfest þann 24. júlí s.l., en munnlega flutt og tekið til úrskurðar 1. þ.m. 

                Sóknaraðilar málsins eru:  Bjarni Vernharðsson, kt. 030549-4579, Dvergabakka 2, Reykjavík, Jónas Kristjánsson, kt. 151259-3839, Seljabraut 72, Reykjavík, Einar D. Hálfdánarson, kt. 110446-4389, Melbæ 35, Reykjavík, Páll Stefánsson, kt. 051061-4119, Byggðaholti 3c, Mofellsbæ, Stefán Ólafsson, kt. 091053-2419, Miklubraut 86, Reykjavík, Árni Breiðfjörð Pálsson, kt. 180157-2479, Ránargötu 6, Reykjavík, Bergvin Bessason, kt. 050883-3029, Ólafsvegi 30, Ólafsfirði, Davíð Fannar Stefánsson, kt. 070876-3029, Esjugrund 23, Reykjavík, Robert O. Stefánsson, kt. 100680-4089, Aðallandi 6, Reykjavík, Tryggvi D. Thorsteinsson, kt. 201245-2309, Skipholti 36, Reykjavík, Ólafur Vilhjálmsson, kt. 070981-2039, Njarðvíkurbraut 56, Njarðvík, Sabit Crnac, kt. 280874-2489, Kirkjuvegi 16, Ólafsfirði, Sakib Crnac, kt. 011272-2589, Kirkjuvegi 9, Ólafsfirði, Guðmundur B. Kristjánsson, kt. 270281-5169, Réttarvegi 10, Hafnir, Nikolay Vakunov, kt. 271065-2139, Hjallalundi 20, Akureyri.

                Hinir fimm fyrstnefndu sóknaraðilar voru yfirmenn á skipinu og verða hér eftir, þegar við á, nefndir einu lagi sóknaraðilar yfirmenn.  Hinir tíu sóknaraðilarnir voru undirmenn og verða hér eftir, þegar við á, nefndir einu lagi sóknaraðilar undirmenn.

Varnaraðili er Olíufélagið hf., kt. 500269-4649, Suðurlandsbraut 18, Reykjavík.

                Kröfur sóknaraðila samkvæmt greinargerðum þeirra eru, að viðurkennt verði með dómi að sú ákvörðun skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf., Ólafsfirði, að hafna viðurkenningu á kröfum þeirra um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999 þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti á málflutningslaun og kröfulýsingarkostnaði, verði hnekkt.  Þá krefjast þeir málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til þess, að sóknaraðilar eru ekki virðisaukaskattskyldir.

                Kröfur varnaraðila samkvæmt greinargerð eru, að dómurinn staðfesti þá niðurstöðu skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf., að hafna viðurkenningu á kröfum sóknaraðila um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti á málflutningslaun og kröfulýsingarkostnaði.  Þá krefst varnaraðili þess, að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins.

 

Bú Sæunnar Axels ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, þann 7. desember 1999.  Kröfulýsingarfresti lauk þann 22. febrúar 2000.  Sóknaraðilar lýstu fyrir þann tíma kröfum í búið vegna ógreiddra launa.  Á kröfulýsingarfresti komu fram athugasemdir vegna launauppgjörs í tengslum við síðustu veiðiferðir Kristjáns ÓF-51, en ekki komu fram sérstakar kröfur vegna þess á freststímanum. 

Með bréfi hinn 18. maí 2000, eða rúmum þremur mánuðum eftir að kröfulýsingarfresti lauk, lýstu lögmenn sóknaraðila kröfum í búið vegna skipverja á Kristjáni ÓF-51.  Með bréfi dags. 1. júní s.l. mótmælti lögmaður varnaraðila kröfulýsingum þessum, sem of seint fram komnum. 

Á skiptafundi, sem haldinn var í þrotabúi Sæunnar Axels ehf. þann 2. júní 2000, ákvað skiptastjóri að hafna viðurkenningu krafnanna og einnig að þeim fylgdi sjóveðréttur í skipinu.  Rökstuddi skiptastjóri afstöðu sína á þann hátt, að túlka yrði undantekningarákvæði 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21, 1991, þröngt.  Ætti greinin aðeins við um þau undantekningartilfelli þegar krafa yrði fyrst til eftir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar.  Kröfur sóknaraðila væru launakröfur vegna veiðiferða sem farnar hefðu verið á tímabilinu september til desember 1999 og væru því fyrir tímabilið fyrir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar.

Ekki reyndist unnt að jafna ágreining aðila á skiptafundi og var málinu því vísað til Héraðsdóms Norðurlands eystra.

 

Sóknaraðilar yfirmenn kveða lögmann sinn hafa skrifað skiptastjóra bréf dags. 22. desember 1999, þar sem m.a. hafi verið gerðar athugasemdir við launauppgjör til sóknaraðila vegna 26., 28., 29. og 30. veiðiferðar Kristjáns ÓF-51.  Lögmaðurinn hafi einnig gert athugasemdir með bréfi dags. 20. janúar 2000 og 3. mars s.á.

Sóknaraðilar yfirmenn kveða rök skiptastjóra fyrir því, að viðkenna ekki kröfur sóknaraðila, séu byggð á því að krafa sóknaraðila sé ný krafa og hafi komið fram að liðnum kröfulýsingarfresti.  Þar sem túlka verði undantekningarákvæði 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21, 1991, þröngt, komist nefndar kröfur ekki að.

Kveðast sóknaraðilar yfirmenn telja afstöðu skiptastjórans byggjast á þeim misskilningi, að um nýja kröfu sé að ræða, en sá skilningur fái ekki staðist.  Þvert á móti sé um að ræða þegar fram komna kröfu, þ.e. leiðréttingu á þegar lýstri kröfu vegna innunninna gjaldfallinna launa, sem greidd hafi verið að hluta.  Krafa sóknaraðila yfirmanna um að fá laun greidd í samræmi við rétt uppgjör hafi alltaf legið fyrir frá lögmanni sóknaraðila yfirmanna.  Stöðugt hafi verið kvartað við skiptastjóra og skrifstofustjóra hans yfir því, að upplýsingar vantaði yfir gámasölur ofl. vegna síðustu veiðiferðar  skipsins, en þær upplýsingar hafi verið nauðsynlegar til að hægt væri að gera rétt og endanlega upp við skipverjana.  Allan tímann hafi legið fyrir, að töluvert skorti á að gert hefði verið upp við skipverjana að fullu.  Skiptastjóri hafi leitað til fyrrum starfsmanns þrotabúsins og leitað eftir greindum upplýsingum og það hafi lögmaður sóknaraðila yfirmanna einnig gert.  Ekki hafi tekist að fá réttar upplýsingar frá þrotabúinu eða skiptastjóra, þrátt fyrir ítarlegar tilraunir.  Allan tímann hafi lögmaður sóknaraðila yfirmanna gert athugasemdir þess efnis, að upplýsingar skorti til að hægt væri að krefjast rétts launauppgjörs.  Það hafi síðan verið þrautalendingin að leita til Verðlagsstofu skiptaverðs, sbr. bréf dags. 14. mars 2000, varðandi upplýsingarnar þegar legið hafi fyrir, að þrotabúið gæti ekki aflað þeirra.

Strax og Verðlagsstofa skiptaverðs hafði aflað nefndra upplýsinga og reiknað nákvæmlega út hver vangreiddur hásetahlutur væri, með samanburði uppgjörs útgerðarinnar við gögn þau, sem Verðlagsstofan hafði aflað, sbr. bréf dags. 27. apríl 2000, hafi verið hægt að leggja fram sundurliðaða kröfu um endanlegt uppgjör.

Sóknaðaraðilar yfirmenn kveða, að þar sem skiptastjóra hafi frá upphafi skiptanna verið ljóst, að þess yrði krafist að sóknaraðilum yrði greitt í samræmi við rétt vinnulaun þegar tækist að fá fullnægjandi gögn, hafi skiptastjóra borið að leggja til hliðar fé fyrir áætluðum viðbótarlaunakröfum sóknaraðila.  Búið hafi fram að þeim tíma þegar gert ýmsar leiðréttingar á launakröfum sóknaraðila, jafnóðum og tekist hafi að staðreyna hverjar þær ættu að vera.  Kröfur sóknaraðila yfirmanna nú séu sama eðlis, kröfurnar séu gamlar þó svo réttu fjárhæðirnar séu nú loksins komnar í ljós.

Benda sóknaraðilar yfirmenn á, að samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða megi.  Það hafi sóknaraðilar yfirmenn gert, þegar þeir hafi byggt kröfur sínar á upplýsingum frá þrotabúinu, sem síðar hafi reynst rangar.  Strax og réttar upplýsingar hafi legið fyrir hafi leiðrétt kröfugerð verið send til þrotabúsins, sem allan tímann hafi haft vitneskju um tilraunir sóknaraðila til að fá upplýsingar er þeir gætu byggt kröfur sínar á.

Þá kveðast sóknaraðilar yfirmenn leggja áherslu á það, að með því að skjóta undan andvirði heilu gámanna vegna síðustu veiðiferðanna, þegar gert hafi verið upp við sóknaraðila, hafi útgerðin brotið lög og kjarasamninga á sóknaraðilum.  Verði með engu móti séð, að það geti talist eðlilegt eða sanngjarnt að aðrir kröfuhafar í þrotabúið eigi að geta haft af því fjárhagslegan ábata, að vinnulaun voru ekki gerð upp með réttum og lögmætum hætti við sóknaraðila yfirmenn.

Til vara kveðast sóknaraðilar yfirmenn hafa uppi þær málsástæður til stuðnings kröfum sínum, sem fram komi í 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21, 1991, og í sameiginlegu bréfi lögmanna sóknaraðila allra, dags. 18. maí 2000 og vísist til þess bréfs.  Þá sé og vísað til raka í greinargerð lögmanns sóknaraðila undirmanna.

Sóknaraðilar yfirmenn kveðast varðandi varakröfu vísa m.a. til 2. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21, 1991.  Um dráttarvexti vísist til vaxtalaga nr. 25, 1987.  Um málskostnað vísist til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 og um virðisaukaskatt til laga um virðisaukaskatt nr. 50, 1988.

 

Sóknaraðilar undirmenn kveða lögmann sinn hafa, þegar skiptastjóri þrotabús Sæunnar Axels ehf. hafði fengið fyrirliggjandi gögn búsins í hendur, fengið alla ógreidda launaseðla í hendur, þ.m.t. launauppgjör skipverja á Kristjáni ÓF-51.  Með kröfulýsingu dags. 11. desember 1999 hafi lögmaðurinn lýst launakröfum allra sóknaraðila á Kristjáni ÓF fyrir 28. veiðiferð, frá 17. til 27. nóvember, samkvæmt uppgjörum þar sem m.a. hafi verið tiltekinn hlutur hvers og eins skipverja í samræmi við kjarasamninga og afla veiðiferðarinnar.  Með kröfulýsingu dags. 21. janúar 2000 hafi lögmaðurinn síðan lýst launakröfum sóknaraðila undirmanna fyrir 29. veiðiferð, frá 28. nóvember til 6. desember 1999, ásamt uppsagnarfresti og leiðréttingu vegna orlofs, sem hafi komið á fyrri launaseðlum.  Hafi kröfulýsing þessi átt sér stoð í uppgjörum sem borist hafi úr gögnum búsins og sem sóknaraðilar undirmenn hafi treyst á að væru rétt launauppgjör.

Halda sóknaraðilar undirmenn því fram, að með bréfi lögmanns yfirmanna á Kristjáni ÓF til skiptastjóra dags. 22. desember 1999, hafi skiptastjóra mátt vera ljóst, að launauppgjör skipverja þættu verð athugunar.  Sóknaraðilar undirmenn hafi hins vegar, þegar kröfulýsingarfresti lauk þann 22. febrúar 2000, ekki haft aðrar upplýsingar en að launauppgjörin hefðu verið samkvæmt lögum og kjarasamningum.

Sóknaraðilar undirmenn kveðast byggja aðalkröfu sína á því, að um sé að ræða kröfu sem þeim hafi ekki verið kunnugt um á kröfulýsingarfrestinum og hafi því ekki stofnast til kröfunnar fyrr en með bréfi Verðlagsstofu skiptaverðs dags. 27. apríl s.l., þar sem sóknaraðilum undirmönnum hafi þá fyrst mátt vera ljóst, að þeir ættu viðbótarkröfu í þrotabúið, sem næmi mismuni á lýstum kröfum og þeim kröfum sem sóknaraðilum undirmönnum bar réttilega samkvæmt hinum nýju upplýsingum.  Því sé um að ræða nýja kröfu sem eigi heima undir 5. tl. 118. gr. laga nr. 21, 1991, þar sem krafan hafi fyrst orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti.  Þá uppfylli kröfurnar önnur skilyrði 5. tl. 118. gr. laga nr. 21, 1991, þar sem þeim hafi verið lýst án ástæðulauss dráttar og áður en  boðað hafi verði til skiptafundar til úthlutunar úr þrotabúinu.

Kveða sóknaraðilar undirmenn, að það að krafa sé ný hljóti að merkja að hún sé ný gagnvart þeim sem rétt eigi á að lýsa kröfum í þrotabú, í þessu tilviki sóknaraðilum, sem með útgefið launauppgjör frá þrotabúinu í höndunum hafi mátt treysta því í desember 1999, að um rétt uppgjör væri að ræða.  Þegar annað hafi komið á daginn og í ljós komið ný viðbótarkrafa, hafi þeim kröfum verið lýst án ástæðulausrar tafar og innan þess frests, sem 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. geri að skilyrði.  Höfnun skiptastjóra á kröfunum, á þeirri forsendu að ekki sé um nýja kröfu að ræða, eigi því ekki við rök að styðjast, a.m.k. ekki gagnvart þeim sóknaraðilum sem enga hugmynd hafi haft eða ástæðu til að ætla, að launauppgjör hefði verið rangfært af útgerðinni.

Skýring skiptastjóra, sem fram komi í endurriti skiptafundar 2. júní s.l., að túlka verði undantekningarákvæði 118. gr. laga nr. 21, 1991, þröngt og að greinin eigi aðeins við um þau tilteknu undantekningartilfelli, þegar krafa verði fyrst til eftir uppkvaðningu úrskurðar, sýnist heldur ekki eiga við rök að styjast.  Þvert á móti sé ekki hægt að lesa það út úr 5. tl. 118. gr., að í seinna tilvikinu sem nefnt sé í töluliðnum sé að finna ákveðin upptalin undantekningarákvæði.  Fyrra tilvikið í 5. tl. 118. gr., þar sem vísað sé til 1.-3. tl. 110 gr. s.l. valdi ekki vafa, en í seinna tilvikinu séu einungis nefnd tilvik sem hafi annars fyrst orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta.  Hér geti því átt undir ýmis tilvik og af ákvæðinu megi ráða að engin ástæða sé til að ætla að það þurfi að túlka þröngt, þvert á móti sé möguleiki að beita rýmkandi lögskýringu, þar sem ýmis tilvik geti átt undir, sem löggjafinn hafi ekki séð ástæðu til að telja upp, enda mörg tilvik sem komi til greina og eðlilegt sé að heimfæra undir ákvæðið af rökbundinni nauðsyn.

Þá kveðast sóknaraðilar undirmenn vísa til þess, að hin nýja krafa eigi rót að rekja til dulins refsiverðs athæfis fyrirsvarsmanna Sæunnar Axels ehf., sem sóknaraðilum undirmönnum hafi ekki mátt vera ljóst á kröfulýsingarfresti og sem leita hafi þurft atbeina hins opinbera til að fá rannsakað.  Það að sóknaraðilar undirmenn eigi að tapa kröfum sínum á þeirri forsendu að rannsókn hafi ekki leitt það í ljós fyrr en eftir kröfulýsingarfrest, og að þá séu ekki þær aðstæður uppi að um nýja kröfu að ræða skv. 5. tl. 118. gr., verði að teljast óeðlileg lagatúlkun á ákvæði, þar sem ekki séu upptalin sérstök undantekningartilvik.

Til vara kveðast sóknaraðilar undirmenn byggja á því, að um þegar fram komna kröfu sé að ræða, þ.e. leiðréttingu á þegar lýstri kröfu, þar sem skiptastjóra hafi verið fullkunnugt um, fyrir lok kröfulýsingarfrests, að launauppgjörin, sem kröfulýsingarnar hafi stuðst alfarið við, hafi verið ranglega framsett af hálfu þrotabúsins og að framkomnar kröfulýsingar þyrftu því leiðréttingar við. 

Þó ofangreind vitneskja hafi ekki verið fyrir hendi hjá sóknaraðilum undirmönnum og að þeir hafi fyrst vitað um hin röngu uppgjör eftir lok kröfulýsingarfrests, hafi vitneskja skiptastjóra verið fyrir hendi.  Skiptastjóri hafi ríka upplýsingaskyldu gagnvart þeim sem lýsi kröfum í búið og beri að leiðrétta og upplýsa þá, ef hann viti um meinbugi á kröfunum og gera allt það sem í hans valdi standi til að fyrra kröfuhafa tjóni.

Kveðast sóknaraðilar undirmenn sérstaklega vísa til bréfa lögmanns sóknaraðila yfirmanna til skiptastjóra og samskipta hans við skrifstofu skiptastjóra, sbr. bréf dags. 22. desember 1999, 20. janúar 2000 og 3. mars s.á. vegna sóknaraðila yfirmanna á Kristjáni ÓF.

Að öðru leyti en að framan greini kveðast sóknaraðilar vísa til 117. gr. laga nr. 21, 1991, og raka í greinargerð lögmanns sóknaraðila yfirmanna.

 

Varnaraðili kveður að meðal eigna þrotabús Sæunnar Axels ehf. hafi verið skipið Kristján ÓF-51.  Skipið hafi verið yfirveðsett og hafi því verið nauðsynlegt að selja það á nauðungaruppboði eða leita tilboða í það á grundvelli 129. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl.  Varnaraðili, sem hafi verið sjálfskuldarábyrgðaraðili veðskuldabréfs á 2. veðrétti, hafi gert tilboð í skipið sem hafi verið samþykkt á veðhafafundi 17. janúar s.l. og hafi varnaraðili leyst skipið til sín þann 18. janúar.  Varnaraðili kveðst því hafa verulegra hagsmuna að gæta í málinu, þar sem hann sé nú eigandi Kristjáns ÓF-51, en sóknaraðilar krefjist viðurkenningar á kröfum sínum með sjóveðrétti í skipinu.

Kveðst varnaraðili byggja á því, að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin og beri því að hafna henni sem forgangskröfu í þrotabú Sæunnar Axels hf.  Þá sé meginregla við gjaldþrotaskipti, að vanlýsingaráhrifa gæti eftir að kröfulýsingarfrestur renni út, sbr. 1. mgr. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21, 1991.  Kröfur sem lýst sé eftir að kröfulýsingarfrestur er útrunninn, falli því niður gagnvart þrotabúinu sökum vanlýsingar.

Sóknaraðilar undirmenn byggi aðallega á þeirri málsástæðu að ekki hafi stofnast til kröfunnar fyrr en 27. apríl s.l.  Á sömu rökum byggi sóknaraðilar yfirmenn til vara.  Kveðst varnaraðili hafna þeim rökum sóknaraðila að hér sé um nýja kröfu að ræða í skilningi 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti.  Krafa um vinnulaun stofnist á þeim tíma er vinna sé unnin, í þeim tilvikum sem hér um ræði í veiðiferðum sem farnar hafi verið á árinu 1999, áður en bú Sæunnar Axels hf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Sú staðreynd að skipverjar hafi síðar fengið upplýsingar um að vinnulaun hefðu verið ranglega reiknuð út, breyti því ekki, að til krafnanna hafi stofnast áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta.  Kröfulýsingar þær sem um ræði í málinu hafi borist skiptastjóra í lok maí s.l.  Með vísan til 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti beri því að hafna þeirri kröfu að þær komist að við gjaldþrotaskiptin, þar sem þær hafi borist löngu eftir að kröfulýsingarfrestur rann út og eftir að skiptafundur var haldinn, þann 3. mars s.l., þar sem fjallað hafi verið um afstöðu skiptastjóra til lýstra krafna í þrotabúið.

Varnaraðili kveður að undirmenn sóknaraðilar haldi því fram, að engin ástæða sé til að ætla að túlka þurfi undantekningarákvæði 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti þröngt.  Varnaðarili mótmælir þessari fullyrðingu og kveður að skýra verði nefnda undantekningarreglu þröngt og eftir orðanna hljóðan.  Þá verði við mat á því hvort krafa komist að samkvæmt ákvæðinu, að líta til þess hvenær krafan hafi orðið til, en ekki hvenær hún hafi orðið gjaldkræf.

Hvað varði þá málsástæðu sóknaraðila, að um nýja kröfu sé að ræða, kveður varnaraðili að benda megi á það ósamræmi sem gæti í kröfulýsingu þeirri, sem fram komi í bréfi dags. 18. maí 2000.  Þar sé m.a. gerð krafa um að kröfur skipverjanna verði samþykktar sem forgangskröfur með vísan til 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl.  Til þess að krafa geti fallið undir 112. gr. sem forgangskrafa verði að vera um að ræða laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins, sem fallið hafi í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag.  Sóknaraðilar fari fram á að litið verði svo á, að krafan sé ný, sbr. 5. tl. 118. gr., en jafnframt að hún verði tekin til greina sem forgangskrafa, skv. 112. gr., og þar með að litið sé svo á, að hún hafi fallið í gjalddaga fyrir frestdag.  Hér gæti því ekki samræmis í kröfum sóknaraðila.

Kveður varnaraðili að aðalmálsástæða yfirmanna og varamálsástæða undirmanna sé sú, að um leiðréttingu á þegar fram komnum kröfum sé að ræða.  Slík leiðrétting feli í reynd í sér viðbót við fyrri kröfur og þannig nýja kröfu, sem beri að lýsa innan kröfulýsingarfrests, eins og öðrum kröfum.  Einnig sé rétt að benda á þá staðreynd, að grunur sóknaraðila um ranga útreikninga á launum vegna veiðiferða Kristjáns ÓF-51 hafi vaknað löngu áður en kröfulýsingarfrestur rann út.  Megi þessu til sönnunar vísa til bréfs lögmanns yfirmanna dags. 22. desember 1999.  Megi jafnframt ætla, að yfirmönnum og öðrum skipverjum á Kristjáni ÓF hafi verið um þetta kunnugt í lengri tíma, þar sem þeim hljóti að hafa verið ljóst strax eftir hverja ferð, hversu mikið veiddist.  Kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 22. febrúar 2000 og hafi sóknaraðilum því gefist nægur tími til að lýsa kröfum sínum í þrotabúið innan þess tíma.  Skv. 1. gr. laga nr. 13, 1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sé það hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna eins og nánar sé kveðið á um í lögunum.  Í ljósi þess hlutverks Verðlagsstofu hafi verið eðlilegast að afla strax umræddra upplýsinga þar, til unnt yrði að lýsa kröfum skipverjanna innan lögmæts kröfulýsingarfrests.  Sóknaraðilum hafi einnig verið í lófa lagið að lýsa hærri kröfum en gert hafi verið í upphafi, vegna gruns síns um rangt uppgjör.  Ef skiptastjóri hefði hafnað þeim að hluta, hefðu sóknaraðilar getað haldið kröfunum til streitu, þar til frekari upplýsingar um þær lægju fyrir.  Hafi því verið um tómlæti sóknaraðila að ræða, sem ósanngjarnt sé að aðrir kröfuhafar beri hallan af.  Að krefjast þess að leiðréttar verði þegar fram komnar kröfur, sem eins og áður segi feli í raun í sér nýja kröfu, löngu eftir að frestur til að lýsa kröfu í bú sé liðinn og skiptafundur haldinn um lýstar kröfur, gangi gegn meginreglum gjaldþrotaskipta og eigi sér enga stoð í lögum eða venju.

Hvað varði bæði aðal- og varamálsástæður sóknaraðila beri að líta til þeirra meginreglna sem gildi á sviði skiptaréttar og megi þar fyrsta nefna regluna um jafnræði kröfuhafa.  Sú staðreynd, að settur sé ákveðinn frestur fyrir kröfuhafa til að lýsa kröfum sínum í þrotabú og þeim takmörkuðu undantekningum sem gerðar séu þar á, byggi fyrst og fremst á þeirri meginreglu að allir kröfuhafar séu jafnt settir í samskiptum sínum við þrotabú.  Önnur meginregla, sem gangi sem rauður þráður í gegnum lögin um gjaldþrotaskipti, varði málshraða.  Komi þessi meginregla skýrast fram í 2. mgr. 122. gr., þar sem sú skylda sé lögð á skiptastjóra að gæta þess í störfum sínum, að skiptum sé lokið án ástæðulauss dráttar.  Ef skiptastjóri ætti að taka tillit til krafna þeirra er um ræði í málinu, myndi það ganga þvert gegn nefndum meginreglum.

Að lokum kveðst varnaraðili mótmæla fjárhæð kröfulýsinga sóknaraðila.  Samkvæmt útreikningum nemi mismunur sá er var á greiddum launum til sóknaraðila og fjárhæð hásetahlutar samkvæmt niðurstöðu Verðlagsstofu skiptaverðs, kr. 155.548,-, en ekki kr. 190.598,-, eins og varnaraðilar haldi fram.  Mismun þennan skýri villa sem fram komi í útreikningi Verðlagsstofu á uppgjöri útgerðar vegna nóvember 1999.  Greiðsla skv. uppgjöri útgerðar nemi kr. 136.568,- fyrir nóvember, en ekki kr. 101.519,-.  Vísist í þessu sambandi til eyðublaðs Verðlagsstofu nr. 1.1. sem fylgt hafi bréfi Verðlagsstofu skiptaverðs dags. 27. apríl 2000.

Dómkröfur sínar um staðfestingu á ákvörðun skiptastjóra kveðst varnaraðili byggja á 118. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl., auk meginreglna um gjaldþrotaskipti.

Kröfu um að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað kveðst varnaraðili byggja á XXI. kafla laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála, aðallega 130. gr.

 

Skýrslu fyrir dómi gaf Stefán Ólafsson, en hann er einn sóknaraðila yfirmanna.

 

Kröfur sóknaraðila byggja á því, að ranglega hafi verið gert upp við þá vegna veiðiferða Kristjáns ÓF-51 á tímabilinu september – desember 1999.  Kröfur sóknaraðila styðjast m.a. við upplýsingar frá Verðlagsstofu skiptaverðs, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 27. apríl 2000, og gögn er fylgdu því bréfi.

Samkvæmt 118. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl., fellur krafa á hendur þrotabúi niður, ef henni er ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti skv. 2. mgr. 85. gr. lýkur og ekki er unnt að fylgja henni fram gagnvart búinu skv. 116. gr., nema ákvæði 1.-6. tl. 118. gr. eigi við um kröfuna.

Gögn málsins bera skýrlega með sér, að kröfur sóknaraðila eru til komnar vegna starfa þeirra í þágu Sæunnar Axels ehf., áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði réttarins, þann 7. desember 1999.  Liggur því fyrir, að kröfur sóknaraðila urðu til fyrir uppkvaðningu úrskurðarins og getur vitneskja eða ókunnugleiki sóknaraðila um tilvist krafnanna, engu breytt um þá niðurstöðu. 

Ákvæði 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. er undantekningarákvæði, sem samkvæmt almennum túlkunarreglum sætir ekki rýmkandi skýringu.  Samkvæmt orðanna hljóðan tekur ákvæðið, að slepptum þeim hluta er vísar til 1.-3. tl. 110. gr. laganna, einungis til krafna sem fyrst hafi orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti.  Með vísan til framangreinds verður því ekki fallist á þá röksemd sóknaraðila, að kröfur þeirra falli undir 5. tl. 118. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl.

Sóknaraðilar hafa einnig byggt á því í málinu, að kröfum þeirra, sem hér eru til umfjöllunar, hafi í reynd verið lýst í þrotabú Sæunnar Axels ehf. fyrir tímamark það sem um getur í 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti, í þessu tilfelli 22. febrúar 2000.  Launakröfum sóknaraðila hafi þannig verið lýst í búið samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti, þ.e. þær hafi verið tilteknar svo skýrt sem verða mátti miðað við þær upplýsingar, sem sóknaraðilum hafi verið aðgengilegar á freststímanum.

Í lögum nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl., er ekki að finna fyrirmæli um að vitneskja, eða eftir atvikum ókunnugleiki kröfuhafa, hafi áhrif á gildi meginreglu 118. gr. laganna.  Er það álit dómsins, að kröfur sóknaraðila, sem fyrst var lýst í þrotabú Sæunnar Axels ehf. þann 18. maí 2000 og mál þetta fjallar um, verði ekki metnar á annan hátt en sem viðbót við fyrri kröfur sóknaraðila, en ekki sem leiðrétting á áðurlýstum kröfum, enda er í lögum nr. 21, 1991, ekki að finna heimild til handa kröfuhöfum til að leiðrétta lýstar kröfur til hækkunar eftir að kröfulýsingarfresti lýkur.  Þvert á móti er í 117. gr. laganna skýrt kveðið á um, að tilgreina skuli fjáhæð kröfu í krónum þegar henni er lýst í búið.

Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið og 118. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl., þykir verða að staðfesta þá niðurstöðu skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf., að hafna viðurkenningu á kröfum sóknaraðila í þrotabúið um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti á málflutningslaun og kröfulýsingarkostnaði.

Svo sem að framan er rakið kröfðust sóknaraðilar á skiptafundi þann 2. júní s.l., auk þess sem þegar hefur verið lýst, staðfestingar á sjóveðrétti til tryggingar kröfum vegna veiðiferða skipsins Kristjáns ÓF-51 á tímabilinu september til desember 1999.  Kröfu þessari mótmælti varnaraðili og hafnaði skiptastjóri henni á nefndum fundi.  Sóknaraðilar hafa ekki tekið þessa kröfu upp í greinargerðum sínum, en þrátt fyrir það er það álit dómsins, að fjalla beri um hana í úrskurði þessum, sbr. 120. gr. sbr. 171. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl.

Samkvæmt 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, eru laun og önnur þóknun sem skipstjóri, skipverjar og aðrir þeir, sem á skip eru ráðnir, eiga rétt á fyrir störf um borð, tryggð með sjóveðrétti í viðkomandi skipi.  Kröfur þær er sóknaraðilar kunna að eiga vegna veiðiferða skipsins Kristjáns ÓF-51 á tímabilinu september til desember 1999 voru því tryggðar með sjóveðrétti í skipinu. 

Þar sem veðréttur fellur ekki niður þó svo veðkröfum sé ekki lýst í þrotabú og frestur samkvæmt 201. gr. siglingalaga var í síðasta lagi rofinn við þingfestingu máls þessa, þykir ekkert fram komið í málinu um að umræddur sjóðveðréttur sóknaraðila sé fallinn niður.  Þykir því verða að fallast á kröfu sóknaraðila um staðfestingu sjóveðréttar í Kristjáni ÓF-51.

Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.

                Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

Á L Y K T A R O R Ð :

Staðfestur er sjóveðréttur sóknaraðila í Kristjáni ÓF-51 til tryggingar kröfum er þeir kunna að eiga vegna veiðiferða skipsins á tímabilinu september til desember 1999.

Staðfest er sú niðurstaða skiptastjóra í þrotabúi Sæunnar Axels ehf., að hafna viðurkenningu á kröfum sóknaraðila í þrotabúið um leiðréttingu vangreiddra launa vegna tímabilsins september til desember 1999, þ.m.t. orlofi, dráttarvöxtum, innheimtuþóknun, virðisaukaskatti á málflutningslaun og kröfulýsingarkostnaði, að öðru leyti en leiðir af ofangreindum sjóveðrétti þeirra.

                Málskostnaður fellur niður.