Hæstiréttur íslands

Mál nr. 688/2013


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Refsivist
  • Fangelsi
  • Agaviðurlög
  • Réttaráhrif
  • Réttlát málsmeðferð
  • Ítrekun
  • Sérálit


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 30. janúar 2014.

Nr. 688/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Baldri Kolbeinssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

Brot gegn valdstjórninni. Refsivist. Fangelsi. Agaviðurlög. Réttaráhrif. Réttlát málsmeðferð. Ítrekun. Sérálit.

B var ákærður fyrir eignarspjöll og brot gegn valdstjórninni með því að hafa í Fangelsinu að Litla-Hrauni veist með margvíslegu ofbeldi að þremur fangavörðum sem þar voru við skyldustörf, með þeim afleiðingum að einn fangavarðanna hefði hruflast á enni og fengið kúlu á höfuðið, annar hlotið sár á nefið auk þess sem tvenn gleraugu hefðu eyðilagst. B játaði sök og var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Héraðsdómur taldi að ekki hefði verið uppfyllt það málshöfðunarskilyrði vegna eignaspjalla sem fram kæmi í 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að sá krefðist sem misgert hefði verið við og yrði B því hvorki sakfelldur né gerð refsing fyrir meint brot gegn 1. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940 þrátt fyrir játningu. Var hann á hinn bóginn sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 og honum gert að sæta fangelsi í 10 mánuði. Fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá kröfu sinni á hendur B fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940. Þá féllst Hæstiréttur ekki á það með B að honum hefði þegar verið gerð refsing fyrir háttsemi sína umrætt sinn með því að honum hefði verið gert að sæta 5 daga einangrunarvist með ákvörðun forstöðumanns Fangelsisins að Litla-Hrauni 22. mars 2013 og þannig stæði 2. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, svo sem hún yrði skýrð í ljósi 1. mgr. 4. gr. viðauka nr. 7 við mannréttindasáttmála Evrópu, því í vegi að höfðað yrði refsimál gegn honum vegna sömu atvika. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans staðfest um sakfellingu B fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 sem og um refsingu hans.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. október 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð.

I

Með ákæru 2. maí 2013 var ákærði sakaður um brot gegn valdstjórninni og eignaspjöll með því að hafa þriðjudaginn 12. mars 2013 í Fangelsinu að Litla-Hrauni, veist með ofbeldi að fangavörðunum, A, B og C, sem voru við skyldustörf, slegið ítrekað í höfuð B svo gleraugu hans fóru af, rifið í hár A og klórað nef hans og slegið C í enni og hnakka svo gleraugu hans fóru af. Afleiðingar árásarinnar eru í ákæru sagðar þær að B hafi hruflast á enni og fengið kúlu á höfuðið, A hlotið sár á nefið og bæði gleraugun hafi eyðilagst. Taldist þetta varða við 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði játaði skýlaust sakargiftir fyrir dómi 13. september 2013 og var farið með málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Það var dómtekið í sama þinghaldi og dómur kveðinn upp 27. sama mánaðar.

Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá kröfu sinni á hendur ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Er sá þáttur ákærunnar því ekki til meðferðar hér fyrir dómi.

II

Samkvæmt ákvörðun forstöðumanns Fangelsisins að Litla-Hrauni 22. mars 2013 var ákærða, sem þá var refsifangi í fangelsinu, gert að sæta agaviðurlögum með því, meðan á refsivist hans stæði, að sæta einangrun í 5 daga, frá klukkan 22 hinn 22. mars 2013 til klukkan 12.30 hinn 27. sama mánaðar. Í ákvörðunarorðum kom fram að á meðan einangrun varði hefði fanginn aðeins rétt á símtölum við lögmann sinn, innanríkisráðuneytið, umboðsmann Alþingis og Fangelsismálastofnun ríkisins. Um málsatvik sagði í ákvörðuninni að þann 12. mars 2013, þegar birta átti ákærða agaviðurlög vegna annars agabrots, hafi ákærði ráðist á fangaverði, barið þá meðal annars í höfuðið og jafnframt hótað fjölskyldu starfsmanns. Sama dag hafi hann verið meðal annars „með högg, spörk og hótanir gagnvart starfsfólki.“ Fram kom einnig í ákvörðuninni að hann hafi áður sætt agaviðurlögum samkvæmt ákvörðunum 20. desember 2012, 11. janúar, 3. febrúar og 12. mars 2013, en ekki var greint frá ástæðum þess. Í forsendum ákvörðunarinnar 22. mars var vísað til þess að með því að slá fangaverði, hóta fjölskyldu starfsmanns, hóta starfsfólki og skemma eigur fangelsisins hafi ákærði brotið 2. gr., 3. gr. og 10. gr. reglna fangelsa nr. 54/2012 og einnig var skírskotað til 56. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Reglurnar eru settar af fangelsismálastofnun með stoð í 80. gr. þeirra laga. Ákvörðunin var birt ákærða sama dag og kærði hann hana til innanríkisráðuneytisins með heimild í 61. gr. laga nr. 49/2005, sem staðfesti hana með úrskurði sínum 26. mars sama ár. Með framangreindri ákvörðun forstöðumanns fangelsisins á Litla-Hrauni 12. mars 2013 var ákærða gert að sæta einangrunarvist í 10 daga og mun hann hafa sætt henni. Er þeirri einangrunarvist lauk sætti hann í beinu framhaldi einangrun í fimm daga samkvæmt ákvörðuninni 22. mars 2013.

III

Ákærði styður aðalkröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi við það að hann hafi þegar með ákvörðuninni 22. mars 2013 um að hann skyldi sæta 5 daga einangrunarvist sætt refsingu fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa veist með ofbeldi að ofangreindum þremur fangavörðum eins og lýst sé í ákæru. Ákvörðunin og staðfesting hennar með úrskurði innanríkisráðuneytisins hafi falið í sér endanlegar málalyktir og um leið haft neikvæð efnisleg áhrif á síðari úrlausnir fyrir sama brot. Ákvæði 2. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, verði skýrð í ljósi 1. mgr. 4. gr. viðauka nr. 7 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem fjalli um bann við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi, og standi því í vegi að unnt sé að gera ákærða refsingu á nýjan leik vegna sömu atvika. Því hafi verið óheimilt að höfða refsimál þetta þar sem ákærði hafi áður sætt refsingu fyrir sömu atvik.

Ákæruvaldið mótmælir því að málinu verði vísað frá héraðsdómi á þessum grunni. Ákvörðunin um einangrunarvist í fimm daga á meðan á refsivist ákærða stóð sé ekki refsing, heldur hafi hún fyrst og fremst verið tekin með því markmiði að halda uppi aga og öryggi í fangelsinu og til verndar fangavörðum og samföngum ákærða, en ekki í því skyni að refsa honum. Einangrunarvistin sem ákærði var látinn sæta sé, miðað við framangreindar forsendur, ekki refsing í skilningi 31. gr. almennra hegningarlaga, heldur nauðsynlegt stjórntæki fangelsisyfirvalda til að halda uppi aga í fangelsum og til að vernda þá sem þar voru. Þá hafi sú refsivist sem ákærði sætti þegar hann var settur í einangrun ekki lengst. Refsingin sem honum var ákvörðuð í hinum áfrýjaða dómi hafi verið 10 mánaða fangelsi, en einangrunarvistin varað í fimm daga á meðan á fyrri refsivist vegna annarra brota stóð, og því hafi ekki verið um refsingu að ræða í skilningi 1. mgr. 4. gr. í 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans, eins og hún verði skýrð með hliðsjón af 1. mgr. 6. gr. sáttmálans. Ákærði hafi því ekki áður tekið út refsingu vegna brots gegn valdstjórninni, sem hann sé ákærður fyrir í máli þessu.

Með 2. tölulið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 49/2005 er starfsmönnum fangelsa veitt heimild til að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna ef það telst nauðsynlegt til að verjast yfirvofandi árás, yfirbuga grófa mótstöðu, hindra að fangi skaði sig sjálfan eða aðra og til að koma í veg fyrir skemmdarverk. Í VI. kafla laganna er meðal annars fjallað um agabrot og agaviðurlög. Segir þar í 56. gr. að forstöðumaður fangelsis geti beitt fanga agaviðurlögum vegna brots á lögunum og reglum settum á grundvelli þeirra  og kveða á um skyldur fanga, enda komi fram að brot á þeim varði viðurlögum. Í 57. gr. eru svo talin upp í fjórum liðum þau agaviðurlög sem heimilt er að beita refsifanga og er eitt þeirra einangrun í allt að 15 daga. Er tekið fram í 2. mgr. greinarinnar að aðeins megi beita einangrun sem agaviðurlögum vegna brota eða tilraunar til brota sem talin eru upp í fimm liðum og meðal þeirra er samkvæmt 3. lið ofbeldi eða hótun um ofbeldi gagnvart öðrum föngum eða starfsmönnum fangelsis. Þá kemur fram í 5. mgr. 57. gr. laga nr. 49/2005 að áður en ákvörðun er tekin um agaviðurlög skuli málsatvik rannsökuð og fanga gefinn kostur á að að kynna sér fyrirliggjandi gögn og koma sjónarmiðum sínum um þau á framfæri.

Ágreiningslaust er að ákærði undi því að vera settur í 10 daga einangrunarvist vegna agabrota með stjórnvaldsákvörðun forstöðumanns fangelsisins 12. mars 2013 og gerði hann hvorki athugasemdir við form eða efni hennar. Í beinu framhaldi af þeirri vist var hann látinn sæta áframhaldandi einangrunarvist í 5 daga á grundvelli nýrrar stjórnvaldsákvörðunar, sem tekin var tíu dögum eftir að agabrotið 12. mars 2013 var framið. Þótt ákærði hafi ekki hafið einangrunarvistina sem honum var gert að sæta 22. mars fyrr en 10 dögum eftir agabrot hans verður að horfa til þess að hún var tekin út þegar að lokinni fyrri einangrunarvist hans og því í beinu framhaldi af henni. Eins og hér stóð á er litið svo á að einangrunarvistin 22. mars hafi ekki verið gerð í refsingarskyni. Í málinu er óumdeilt að þessi einangrunarvist og ætlað brot hans gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga sem lúta að sakarefni máls þessa varði sömu atvik. Þegar á hinn bóginn er til þess litið að stjórnvaldsákvörðunin var tekin í tilefni ítrekaðra árása og hótana ákærða gegn starfsfólki og vandamönnum þeirra og í því skyni að halda uppi aga og öryggi innan fangelsisins, vernda starfsfólk og samfanga gegn ákærða og þess að agabrot hans gat að hámarki varðað 15 daga einangrunarvist er ekki fallist á með ákærða eins og atvikum málsins er háttað að í ákvörðuninni 22. mars hafi falist refsing í skilningi 31. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur engar athugasemdir gert við málsmeðferðina á stjórnsýslustigi. Saksókn í máli þessu fer samkvæmt framansögðu því ekki í bága við 4. gr. samningsviðauka nr. 7 við mannréttindasáttmálann. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn valdstjórninni og er það réttilega heimfært til refsiákvæðis.

Hinn 15. nóvember 2013 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir þjófnað og fjársvik og var sá dómur hegningarauki við þá refsingu sem honum var gerð með hinum áfrýjaða dómi. Með vísan til forsendna héraðsdóms um refsingu ákærða verður hún staðfest svo og ákvæði dómsins um sakarkostnað. Einn dómara, Ólafur Börkur Þorvaldsson, telur með hliðsjón af atvikum öllum að refsing ákærða skuli ákveðin átta mánaða fangelsi.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 455.066 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 27. september 2013.

Mál þetta, sem þingfest var 30. maí 2013 og dómtekið 13. september 2013, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 2. maí 2013 á hendur Baldri Kolbeinssyni, kt. [...], með dvalarstað í Fangelsinu Litla-Hrauni,

„fyrir brot gegn valdstjórninni og eignaspjöll með því að hafa þriðjudaginn 12. mars 2013, í Fangelsinu Litla-Hrauni, veist með ofbeldi að fangavörðunum A, B og C, sem voru við skyldustörf, en ákærði sló m.a. ítrekað í höfuð B svo gleraugu hans fóru af, reif í hár A og klóraði nef hans og sló C í enni og hnakka svo gleraugun fóru af.  Afleiðingar árásarinnar voru þær að B hruflaðist á enni og fékk kúlu á höfuðið og A hlaut sár á nefið.  Þá eyðilögðust bæði gleraugun.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði kom fyrir dóm við þingfestingu málsins 30. maí 2013 ásamt Inga Frey Ágústssyni hdl. og óskaði eftir að hann yrði skipaður verjandi sinn og var það gert.  Óskaði ákærði eftir fresti til að taka afstöðu til sakargifta.  Var málið tekið fyrir 6. júní 2013 og neitaði þá ákærði sök.  Var óskað eftir að leggja fram greinargerð af hálfu ákærða og var hún lögð fram í þinghaldi 27. júní 2013.  Var þá málinu frestað til aðalmeðferðar 13. september 2013.  Í upphafi þess þinghalds óskaði ákærði eftir að breyta afstöðu sinni til sakargifta og viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Málið var því tekið til dóms samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eftir að sækjandi og verjandi höfðu reifað sjónarmið um ákvörðun refsingar og lagaatriði.

Um málavexti vísast til ákæruskjals.

Í ákæru eru ákærða m.a. gefin að sök eignaspjöll með því að við tiltekna háttsemi ákærða hafi gleraugu fangavarðanna B og C farið af og er því lýst að bæði gleraugun hafi eyðilagst.  Er háttsemi ákærða að þessu leyti heimfærð til 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Í 4. mgr. 257. gr. nefndra laga segir að mál út af brotum sem getur í 1. mgr. 257. gr. laganna skuli því aðeins höfða, að sá krefjist þess, sem misgert var við.  Fangavörðurinn B var inntur eftir afstöðu sinni til þessa í skýrslu sem lögregla tók af honum 5. apríl 2013, en þar segir m.a:  „Varðandi afstöðu hans að Baldri verði refsað fyrir árásina sagði B að hann sagðist hálf vorkenna Baldri þar sem hann kynni ekki að komast út úr vandræðum með öðrum hætti en hins vegar væri ekki hægt að líta fram hjá því að þetta árás á opinbera starfsmenn þannig að hann hefði í raun ekki tekið afstöðu til þess hvort honum væri refsað eða ekki.  Þetta væri ekki í lagi og slæmt fordæmi ef ekkert yrði gert.“  Fangavörðurinn C var inntur eftir afstöðu sinni til þessa í skýrslu sem lögregla tók af honum 5. apríl 2013, en þar segir m.a:  „“Aðspurður um afstöðu hans til þess atriðis að Baldri verði refsað lögum samkvæmt fyrir líkamsárásina sagði C að hans afstaða sem gilti í þessu.  Undirritaður benti C á að Baldur hefði ráðist á hann og það væri spurning hvort honum þætti eðlilegt að Baldri yrði refsað fyrir það og hann svaraði því til „já er það ekki“.“  Ekki liggja fyrir í málinu önnur gögn um afstöðu fangavarðanna B og C til þess hvort þeir krefjist þess að mál verði höfðað vegna eignaspjalla.

Það er mat dómsins að ekki sé í málinu uppfyllt það málshöfðunarskilyrði vegna eignaspjalla skv. 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fram kemur í 4. mgr. 257. gr. laganna, að sá krefjist þess sem misgert var við.  Verður ákærði því hvorki sakfelldur, né honum gerð refsing, fyrir meint brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Játning ákærða getur ekki breytt þessu.  Að öðru leyti er sannað að ákærði framdi brot það sem greinir í ákæru og er þar réttilega fært til refsiákvæða.  Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt sakavottorði hófst sakaferill ákærða á árinu 2007 þegar hann gekkst undir greiðslu 28.000 kr. fésektar fyrir fíkniefnabrot þann 24. maí.  Þann 29. nóvember 2007 var ákærði dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuðir skilorðsbundnir í 2 ár, fyrir rán, ólögmæta meðferð fundins fjár, tilraun til fjársvika, tilraun til þjófnaðar, hylmingu og fíkniefnabrot.  Þann 30. júlí 2008 var ákærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir skjalafals, fjársvik og tilraun til fjársvika, þjófnað og tilraun til þjófnaðar, hylmingu og fíkniefnabrot.  Þann 22. febrúar 2010 var ákærði dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, hylmingu og fíkniefnabrot.  Þann 6. júlí 2010 var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir þjófnað.  Þann 18. mars 2011 var ákærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, fjársvik, eignaspjöll og fíkniefnabrot.  Loks var ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi þann 8. nóvember 2012 fyrir þjófnað og rán.

Við ákvörðun refsingar ber að líta til játningar ákærða.  Jafnframt kveðst ákærði hafa beðið afsökunar þá sem brot hans beindist að og í lögregluskýrslu hefur ákærði lýst iðrun sinni vegna brotsins.  Þá ber að líta til 3. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna síðastgreinds dóms ákærða frá 8. nóvember 2012, en jafnframt þykir bera að líta til þess ákærði var að afplána refsingu og horfir það til þyngingar á refsingu sbr. 1. mgr. 73. gr. almennra hegningarlaga sem og það að brotið beindist gegn opinberum starfsmönnum sem hafa heimild til valdbeitingar sbr. 2. ml. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og einnig 7. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga.  Á hinn bóginn má líta til þess að áverkar sem lýst er í ákæru eru ekki stórvægilegir.  Ekki eru hins vegar að mati dómsins efni til að líta sérstaklega til þess að ákærði hafi sætt agaviðurlögum í fangelsinu eftir brot sitt, en ekki var þar um að ræða refsingu samkvæmt skilgreiningu laga á því hugtaki.  Þá þykir ekki geta haft áhrif á ákvörðun refsingar að samkvæmt framlögðum gögnum hefur ákærði átt við hegðunarvanda að etja.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. 

Samkvæmt 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar, en ekki verður séð að um sé að ræða annan sakarkostnað en þóknun skipaðs verjanda ákærða sem þykir hæfilega ákveðin kr. 451.800 að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar verjandans kr. 92.568.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Baldur Kolbeinsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, alls kr. 544.368, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Inga Freys Ágústssonar hdl., kr. 451.800 að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar verjandans kr. 92.568.