Hæstiréttur íslands

Mál nr. 54/2014


Lykilorð

  • Sifskaparbrot
  • Frelsissvipting
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 8. maí  2014.

Nr. 54/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Daða Frey Kristjánssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. og

Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumenn)

Sifskaparbrot. Frelsissvipting. Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

D var ákærður fyrir sifskapar- og frelsissviptingarbrot með því að hafa sagt tveimur sjö ára stúlkum að fara inn í bifreið sína og ekið með þær á afvikinn stað en hleypt þeim síðan út á sama stað og hann sótti þær. Þá var hann einnig ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa meðan á framangreindri frelsissviptingu stóð, kysst aðra stúlkuna á kinnina og snert maga og læri þeirra utan klæða. D var fundinn sekur um brot gegn 193. gr., 2. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var D dæmdur í þriggja ára fangelsi og til að greiða hvorri stúlknanna 800.000 krónur í miskabætur auk vaxta.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkrafna lækkuð.

A krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína.

B krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 900.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um kröfu hennar verði staðfest.

Við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi kvað ákærði ákæru vera rétta og játaði sök. Í samræmi við það var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í skýrslutöku hjá lögreglu 16. janúar 2013 sagði ákærði að hann hefði fengið stúlkurnar upp í bíl sinn, en í þessari ökuferð hefði eitthvað gerst í höfðinu á sér og hann hefði viðhaft þá háttsemi sem í ákæru er lýst.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Um heimfærslu brota hans til refsiákvæða verður að líta til þess að ákærði ók með stúlkurnar tvær á afvikinn stað, þar sem hann viðhafði þá háttsemi sem í ákæru greinir. Í bifreiðinni voru stúlkurnar algerlega á hans valdi, en þær voru sjö ára gamlar og lýstu fyrir dómi miklum ótta og hræðslu við ákærða. Þótt ekki hafi liðið lengri tími en tíu mínútur frá því að hann hitti stúlkurnar og þar til hann skilaði þeim aftur nálægt heimilum þeirra verður í ljósi atvika málsins og því sem að framan er lýst fallist á að háttsemi ákærða sé réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Við ákvörðun refsingar ber að horfa til þess að af gögnum málsins er ljóst að ákærði nam stúlkurnar tvær á brott í bifreið sinni í því skyni að brjóta gegn þeim kynferðislega. Að því virtu og öðru framangreindu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða, einkaréttarkröfur og sakarkostnað. Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Daði Freyr Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 807.795 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun réttargæslumanna brotaþola, hæstaréttarlögmannanna Guðrúnar Sesselju Arnardóttur og Margrétar Gunnlaugsdóttur, 188.250 krónur til hvorrar um sig.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2013.

                Árið 2013, 8. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Arnaldi Hjartarsyni, settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 651/2013: Ákæruvaldið gegn Daða Frey Kristjánssyni, en málið var dómtekið 30. september 2013.

                Málið er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru dagsettri 2. júlí 2013 á hendur:

                „Daða Frey Kristjánssyni, kennitala [...], fyrir eftirgreind hegningarlagabrot framin í Reykjavík miðvikudaginn 9. janúar 2013:

1. Sifskapar- og frelsissviptingarbrot með því að hafa, sagt telpunum A, kennitala [...], og B, kennitala [...], báðum sjö ára, sem voru í strætisvagnabiðskýli við [...] skammt frá heimilum þeirra, að fara inn í bifreið sína, [...], með [...], sem var lagt í bifreiðastæði við [...], undir því yfirskini að ætla að fara með þær í verslunina [...] þar sem þær hefðu verið að stela úr versluninni, en ella hringja á lögreglu ef þær hlýddu ekki. Ákærði ók hins vegar með þær sem leið lá á malarveg sunnan við Morgunblaðshúsið, Hádegismóum 2, stöðvaði þar bifreiðina og braut gegn þeim eins og lýst er 2. ákærulið. Að því loknu ók ákærði þeim aftur í [...] skammt frá þeim stað þar sem hann neyddi þær upp í bifreiðina og hleypti þeim út.

                Telst þetta varða við 193. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 193. gr. og 225. gr. sömu laga.

2. Kynferðisbrot með því að hafa, meðan á framangreindri frelsissviptingu stóð, sest í aftursæti bifreiðarinnar þar sem telpurnar sátu, spurt hvort þær ættu kærasta, kysst A á kinnina og snert maga og læri telpnanna utan klæða.

                Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Komi til ákvörðunar um frelsisskerðingu ákærða er þess krafist að frelsisskerðingin verði undir öllum kringumstæðum skilorðsbundin með vísan til 57. gr. almennra hegningarlaga og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar tildæmdri refsingu. Þá krefst verjandinn hæfilegrar þóknunar sér til handa.

                Af hálfu Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., fyrir hönd A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða A „miskabætur að fjárhæð kr. 800.000 auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 9. janúar 2013 þar til mánuður er liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafa þessi, en dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga“. Þá er krafist þóknunar réttargæslumanns að mati dómara eða síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun, en áskilinn er réttur til að leggja fram reikning eigi síðar en við aðalmeðferð máls, ef til hennar kemur.

                Af hálfu Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., fyrir hönd B, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða B „miskabætur að fjárhæð kr. 900.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. janúar 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags“. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

                Ákærði hefur skýlaust játað brot sín og var því farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga auk þess sem réttargæslumenn höfðu reifað bótakröfur umbjóðenda sinna og verjandi rakið afstöðu ákærða í þeim efnum.

                Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði er fæddur í ágúst árið 1982. Samkvæmt sakavottorði gekkst hann undir lögreglustjórasátt í mars árið 2013, þ.e. stuttu eftir að atvik þessa máls áttu sér stað, vegna brots gegn 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Að öðru leyti hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar verður hliðsjón höfð af þessu. Til þess þykir einnig mega líta að ákærði gaf sig sjálfviljugur fram við lögreglu eftir að lýst var eftir honum og gekkst greiðlega við brotum sínum. Loks benda gögn málsins til þess að ákærði hafi að einhverju marki reynt að vinna bug á vanda sínum eftir að atvik málsins áttu sér stað. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að hér var um alvarleg brot að ræða sem beindust gegn tveimur sjö ára gömlum stúlkum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

                Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákveðin þriggja ára fangelsi. Gæsluvarðhald, er ákærði sætti frá 15. janúar 2013 til 21. sama mánaðar, skal dragast frá refsingunni að fullri dagatölu.

                Ákærði hefur viðurkennt bótaskyldu í málinu en kveður fjárhæð bótakrafnanna of háa. Með brotum þeim sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþolum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur til hvors brotaþola um sig, í báðum tilvikum auk vaxta sem í dómsorði greinir. Ákærða voru birtar bótakröfurnar við þingfestingu málsins 27. ágúst 2013 og miðast upphaf dráttarvaxta því við það tímamark þegar 30 dagar voru liðnir frá þeim degi.

                Þá ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 301.200 krónur, og þóknun réttargæslumanna, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 172.563 krónur, Margrétar Gunnlaugdóttur hrl., 75.300 krónur, og Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 106.675 krónur, en sú síðastnefnda var réttargæslumaður B fram til 4. september 2013 er Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. tók við af henni. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 228.000 krónur í annan sakarkostnað.

                Arnaldur Hjartarson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

                Ákærði, Daði Freyr Kristjánsson, sæti fangelsi í þrjú ár. Gæsluvarðhald, er ákærði sætti frá 15. janúar 2013 til 21. sama mánaðar, skal koma til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu.

                Ákærði greiði A 800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. janúar 2013 til 26. september 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði B 800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. janúar 2013 til 26. september 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 301.200 krónur, þóknun réttargæslumanna brotaþola, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 172.563 krónur, Margrétar Gunnlaugdóttur hrl., 75.300 krónur, og Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 106.675 krónur, og greiði jafnframt 228.000 krónur í annan sakarkostnað