Hæstiréttur íslands

Mál nr. 292/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. ágúst 2000.

Nr. 292/2000.

Íslensk erfðagreining ehf. og

(Baldur Guðlaugsson hrl.)

Friðrik Skúlason ehf.

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Þorsteini Jónssyni og

Genealogia Islandorum hf.

(enginn)

                                              

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.

Þ og G höfðuðu mál gegn Í og F og kröfðust skaðabóta og viðurkenningar á því að Í og F væri óheimilt að nota ættfræðigrunna, sem unnir hefðu verið í samvinnu við Þ og G. Undir rekstri málsins lögðu Þ og G fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna til að meta hvernig Í og F hefðu staðið að gerð ættfræðigrunns. Í og F mótmæltu beiðninni, en héraðsdómari féllst á dómkvaðningu matsmanna. Talið var að samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 ætti aðili rétt á að afla og leggja fram í einkamáli sönnunargögn, sem hann teldi málstað sínum til framdráttar. Þá var talið að þótt leitað væri eftir áliti matsmanna á atriðum, sem vörðuðu lagalega þætti, bindi niðurstaða matsgerðar í engu dómara eða takmarkaði svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Þá var einnig talið að Þ og G yrðu að bera halla af því að matsgerð, sem unnin væri eingöngu eftir ábendingum þeirra, teldist af þeim sökum ekki hafa viðhlítandi sönnunargildi við úrlausn málsins. Var því staðfest niðurstaða héraðsdómara um að dómkveðja ætti matsmenn samvkæmt beiðni Þ og G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2000, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að nefndri beiðni varnaraðila verði hafnað og þeim gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilar dæmdir til að greiða kærumálskostnað.

I.

Varnaraðilar höfðuðu mál á hendur sóknaraðilum með stefnu 11. janúar 2000, þar sem krafist var að viðurkennt yrði með dómi að sóknaraðilum væri óheimilt, saman eða hvorum um sig, að nota með nokkrum hætti ættfræðigrunna, sem hafi verið unnir í samvinnu varnaraðila, hvort sem er með eigin notum sóknaraðila eða með því að gera öðrum kleift að nota þá, svo og að sóknaraðilar yrðu dæmdir til að greiða varnaraðilanum Genealogia Islandorum hf. skaðabætur að fjárhæð 293.125.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 13. janúar 2000. Sóknaraðilar tóku til varna í málinu og krefjast þar sýknu af kröfum varnaraðila.

Undir rekstri málsins lögðu varnaraðilar í sameiningu fram á dómþingi 27. júní 2000 beiðni um dómkvaðningu tveggja manna til að meta hvernig sóknaraðilar „hafi saman eða hvor um sig staðið að gerð ættfræðigrunns/ættfræðigrunna (stundum nefndur Íslendingabók).“ Í beiðninni var gerð nánari grein fyrir því, sem meta ætti, með svofelldum hætti: „Þess er óskað að matsmenn kynni sér til hlítar þann stafræna gagnagrunn, einn eða fleiri, sem matsþolar hafa kynnt almenningi undir heitinu Íslendingabók og er í vörslum og umráðum matsþola, annars eða beggja. Matsmenn skulu einkum leitast við að kynna sér hvort ráðið verður af Íslendingabók á hvern hátt hún er til orðin og lýsa því í matsgerð. Einkum er þess óskað að matsmenn geri grein fyrir því hvort unnt er að komast að því með skoðun og samanburði hvort Íslendingabók hefur orðið til með þeim hætti aðallega að aðstandendur hennar hafi leitað í útgefin ættfræðirit og lagt þau til grundvallar verki sínu eða hvort þeir hafi aðallega leitað sjálfstætt í frumheimildir þær sem hafa að geyma þær upplýsingar sem ættfræðingar almennt leita til í því skyni að semja ættfræðiverk (kirkjubækur, dómabækur, manntalsgögn, síðari tíma skráningar Hagstofu Íslands o.fl.) og unnið úr þeim frumheimildum með aðferðum ættfræðinnar þannig að úr hafi orðið heilsteypt sjálfstætt verk, óháð útgefnum ættfræðiritum.“ Sagði síðan í matsbeiðni að varnaraðilar teldu unnt að sjá þetta meðal annars með samanburði á niðjatali í Íslendingabók við annars vegar útgefið niðjatal, sem þeir eða aðrir ættu höfundarrétt að, og hins vegar við niðjatal, sem til væri í handriti, með samanburði á ábúendatali í sömu gögnum, með samanburði á annars vegar eldra útgefnu ættfræðiriti og hins vegar nýuppfærðu handriti um sömu ætt við það, sem kynni að finnast í Íslendingabók um sömu ætt, með samanburði á annars vegar viðurkenndum villum í útgefnum ritum varnaraðila og hins vegar leiðréttum handritum um sömu ættir við það, sem kynni að finnast í Íslendingabók, og með því að kynna sér hvort í Íslendingabók væri einkum að finna upplýsingar um ættir og landsvæði, sem þegar liggja fyrir útgefin rit um. Í matsbeiðni var hvert þessara atriða skýrt nánar.

Sóknaraðilar lögðu fram á dómþingi í héraði 30. júní 2000 skrifleg mótmæli gegn beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Voru mótmæli þeirra rökstudd annars vegar með því að í beiðninni væri óskað eftir mati á atriðum, sem ættu undir mat dómara samkvæmt ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, þar sem í matsbeiðni væri í reynd verið að leggja í hendur matsmanna að meta og gera greinarmun á því hvar mörk höfundarréttar liggi, en með réttu ætti undir dómara að meta þetta og hvar skil lægju milli heimillar og óheimillar notkunar á útgefnum ættfræðiritum. Hins vegar reistu sóknaraðilar mótmæli sín á því að í beiðni varnaraðila væri matsmönnum á nánar tiltekinn hátt lagðar leiðandi línur um framkvæmd mats og þeim gefnar leiðandi forsendur. Með hinum kærða úrskurði var þessum mótmælum sóknaraðila hrundið.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 á aðili rétt á að afla og leggja fram í einkamáli sönnunargögn, sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómara að takmarka þann rétt umfram það, sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Þótt þess gæti í matsbeiðni varnaraðila að leitað sé eftir áliti matsmanna á atriðum, sem varða lagalega þætti í máli þeirra við sóknaraðila, myndi niðurstaða í matsgerð um slík atriði engan veginn binda dómara eða takmarka svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Verður og að fallast á með varnaraðilum að þær ábendingar, sem þeir setja fram í matsbeiðni um hvernig framkvæma mætti matsstörf, skerði ekki frelsi matsmanna til ákvörðunar í þeim efnum. Verður í því sambandi heldur ekki litið fram hjá því að varnaraðilar yrðu að bera halla af því að matsgerð, sem unnin væri eingöngu eftir ábendingum þeirra, teldist af þeim sökum ekki hafa viðhlítandi sönnunargildi við úrlausn máls þeirra við sóknaraðila. Að öllu þessu gættu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að dómkveðja beri matsmenn samkvæmt beiðni varnaraðila.

Sóknaraðilum verður gert í sameiningu að greiða hvorum varnaraðila um sig kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Íslensk erfðagreining ehf. og Friðrik Skúlason ehf., greiði í sameiningu varnaraðilum, Þorsteini Jónssyni og Genealogia Islandorum hf., hvorum um sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2000.

Aðilar málsins hafa forræði á sakarefni þess, m.a. taka þeir ákvörðun um hvaða gagna þeir kjósa að afla til stuðnings málstað sínum, þ.á m. eru matsgerðir, en um þær er fjallað í IX. kafla l. nr. 91/1991.  Stefnandi hefur lagt fram matsbeiðni, sem uppfyllir skilyrði 61. gr. laganna, en þar segir, að í beiðni skuli koma skýrlega fram, hvað eigi að meta og hvað aðili hyggist sanna með mati.  Ekki er fallizt á að hafna beri matsbeiðni af þeim sökum, sem fram kemur í lið 1.1. í andmælum stefndu á dskj. nr. 52, enda mun dómari eftir sem áður meta sjálfstætt atriði, sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar, svo sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 60. gr. eml.  Þá leggur dómari mat á sönnunargildi matsgerðar, þegar málið gengur til dóms, sbr. 66. gr. eml.  Ekki er fallizt á, að þær leiðbeiningar, sem fram koma í matsbeiðni, valdi því, að matsbeiðni verði hafnað, enda er að öllu leyti um atriði að ræða, sem aðilar geta komið fram með á matsfundi.  Dómkvaddir verða hæfir og óvilhallir matsmenn og verður fyrir þá lagt, að matið verði framkvæmt með það að leiðarljósi.  Ber því að taka til greina kröfu stefnenda um dómkvaðningu matsmanna.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Krafa stefnenda um dómkvaðningu matsmanna á grundvelli matsbeiðni á dskj. nr. 51 er tekin til greina.