Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-348

Tryggingamiðstöðin hf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
A (Víðir Smári Petersen lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Árslaun
  • Tímabundið atvinnutjón
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir.

Með beiðni 5. desember 2019 leitar Tryggingamiðstöðin hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. nóvember sama ár í málinu nr. 900/2018: Tryggingamiðstöðin hf. gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með beiðni 6. desember 2019 leitar A jafnframt leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dóminum fyrir sitt leyti.

Mál þetta lýtur að kröfu A um að Tryggingamiðstöðinni hf. verði gert að greiða henni bætur að fjárhæð 21.721.912 krónur vegna líkamstjóns sem hún hlaut þegar veggskápur féll ofan á hana er hún 5. september 2014 var við vinnu sína sem tanntæknir á tannlæknastofunni [...]. Varð hún fyrir varanlegu líkamstjóni og samkvæmt matsgerð 21. nóvember 2016 var varanlegur miski hennar metinn 15 stig og varanleg örorka 25%. Þá var tímabundið atvinnutjón og þjáningartímabil metið frá 5. september 2014 til 21. sama mánaðar og aftur frá 3. október 2014 til 9. nóvember sama ár og svo frá 25. febrúar 2015 til 5. september sama ár. Tryggingamiðstöðin hf. samþykkti að slysið væri bótaskylt úr slysatryggingu launþega og greiddi A 2.665.498 krónur en hafnaði bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu vátryggingartakans Prófíls ehf.

Ágreiningur aðila snýst aðallega um hvort Tryggingamiðstöðin hf. beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem A varð fyrir vegna umrædds vinnuslyss og þá hvaða árslaun skuli leggja til grundvallar útreikningi skaðabóta vegna varanlegrar örorku, sbr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með fyrrnefndum dómi staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um skaðabótaskyldu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og taldi óhjákvæmilegt að félagið yrði að bera hallann af því að ekki hefði farið fram viðhlítandi rannsókn á orsökum slyssins en fyrir lá að vátryggingartaki og vinnuveitandi A hefði ekki tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins um slysið samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Á hinn bóginn hefði lögreglu verið tilkynnt um slysið og hún haft samband við Vinnueftirlit ríkisins sem ekki hefði séð ástæðu til að koma á vettvang. Var því talið að vátryggingartaki hefði ekki gætt þess á fullnægjandi hátt að vinnustaður A hefði verið þannig úr garði gerður að þar væri gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1980 og 1. tölulið 3. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku vísaði Landsréttur til tekna A fyrir árin 2011, 2012 og 2013, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en talið var að hún hefði ekki sýnt fram á að annar mælikvarði gæfi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hennar, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Tryggingamiðstöðin hf. vísar til þess að málið hafi verulegt almennt gildi hvað varði samskipti atvinnurekanda og Vinnueftirlits ríkisins og vísar meðal annars til dóms Landsréttar 29. nóvember 2019 í máli nr. 217/2019. Þá hafi úrslit málsins verulega þýðingu fyrir félagið og önnur vátryggingafélög sem byggi afstöðu sína til bótaskyldu meðal annars á skýrslum og viðbrögðum Vinnueftirlitsins.

A telur að miða hefði átt við greidd laun í veikindaleyfi, en ekki framangreind þrjú ár fyrir slysið, sem ekki gefi rétta mynd af líklegum framtíðartekjum hennar. Áfrýjunarleyfisbeiðni hennar lúti því eingöngu að lagalegri túlkun á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og telur A að það atriði sé bæði fordæmisgefandi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar. Þá telur hún dóm Landsréttar bersýnilega rangan um þetta atriði.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnirnar eru reistar á. Eru umsóknir leyfisbeiðenda því teknar til greina.