Hæstiréttur íslands
Mál nr. 338/2005
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Sekt
- Lagaskil
|
|
Þriðjudaginn 11.apríl 2006. |
|
Nr. 338/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Þóri Garðarssyni (Sigurbjörn Magnússon hrl.) |
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Lagaskil.
Þ var ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur hafði verið í nafni Í ehf., og staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins, sem og fyrir að hafa ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum staðgreiðslu á lögboðnum tímum. Þ reisti kröfu sína um sýknu á því að hann hafi ekki komið þannig að fjármálastjórn Í ehf. að umrædd brot skyldu varða hann refsiábyrgð. Þegar litið var til stöðu Þ hjá Í ehf. og þátttöku hans í rekstri félagsins og að gættri 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, var fallist á niðurstöðu héraðsdóms að Þ hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Refsilækkunarákvæði laga nr. 134/2005 voru ekki talin eiga við í málinu. Ákvæði héraðsdóms um sektarfjárhæð var staðfest, en með tilliti til nánar tilgreindra greiðslna Þ vegna vangreidds virðisaukaskatts og staðgreiðslu var fangelsisrefsing hans ákveðin fjórir mánuðir, skilorðsbundin í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. júlí 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst nú staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en mildunar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds en til vara að refsing hans verði milduð.
Ákærði reisir kröfu sína um sýknu á því að hann hafi ekki komið þannig að fjármálastjórn Ísferða ehf. að varði hann refsiábyrgð. Meðákærði í héraði og H fjármálastjóri félagsins hafi átt að annast þau skil sem í ákæru er lýst. Af hálfu ákærða eru ekki gerðar athugasemdir við þær fjárhæðir sem í ákæru greinir né gögn um greiðslur á þeim gjöldum sem um ræðir.
Eins og rakið er í héraðsdómi var einkahlutafélagið Ísferðir að meginstefnu í eigu ákærða og meðákærða að jöfnum hlut, en þeir stofnuðu félagið á árinu 1989. Ákærði var með prókúru fyrir félagið ásamt meðákærða og stjórnarformaður þess allt frá stofnun. Jafnframt því starfaði hann í félaginu að markaðsmálum og hafði skrifstofu í starfstöð þess. Þá sat hann með öðrum stjórnendum félagsins fundi svokallaðrar framkvæmdastjórnar, og munu þeir fundir hafa að öllu jöfnu verið vikulega þar sem farið var yfir málefni félagsins. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvað ákærði að á fundum þessum hafi meðal annars verið bornar upp til samþykktar allar fjárfestingar sem námu meira en 100.000 krónum. Samkvæmt framlögðum gögnum var verulegt tap á rekstri félagsins þau ár sem ákæra tekur til. Þannig nam rekstrartap ársins 2001 124.882.152 krónum og var bú þess tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2002. Ekki fundust nægjanlegar eignir í búinu til að greiða skiptakostnað og var skiptum lokið 23. maí 2003 samkvæmt 155. gr. laga nr. 20/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá kváðu bæði ákærði og meðákærði að H hefði látið af störfum í janúar 2002, en brot þau sem ákæra tekur til ná einnig yfir tímabil til loka júní það ár. Þegar litið er til framanritaðs, einkum stöðu ákærða hjá fyrirtækinu, þátttöku hans í rekstri þess og að gættri 44. gr. laga nr. 138/2004 um einkahlutafélög, en þar kemur meðal annars fram að félagsstjórn skuli annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins, er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Er hún þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Með 1. gr. laga nr. 134/2005 var kveðið á um að fésektarlágmark samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur séu miklar. Með 3. gr. laga nr. 134/2005 var sambærileg breyting gerð á 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt hvað varðar lágmark fésektar.
Samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber, hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn og til þess er dómur gengur, að dæma eftir nýrri löggjöf bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Verður þá að taka afstöðu til þess hvort ákærði hafi fullnægt skilyrðum hinna breyttu lagaákvæða.
Áður en ákæra var gefin út í málinu var samkvæmt gögnum málsins virðisaukaskattskuld greidd að fullu fyrir öll fjögur uppgjörstímabilin frá janúar til ágúst 2001 og að tæpum þriðjungi fyrir tímabilið september - október 2001, en því að engu leyti fyrir tímabilið nóvember - desember 2001, eða maí - júní 2002. Samtals námu greiðslur þessar vegna virðisaukaskatts 2.147.100 krónum. Þá voru greiddar samtals 505.994 krónur inn á skuld vegna vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda. Fór sú fjárhæð inn á skuld samkvæmt elsta greiðslutímabili, maí 2001, og getur sú greiðsla ekki talist veruleg, sbr. dóma Hæstaréttar 30. mars 2006 í málunum nr. 428/2005 og nr. 469/2005. Samkvæmt gögnum málsins voru skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir maí, júní og júlí 2001 allar afhentar 1. ágúst 2002, eða eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra vegna máls þessa hófst 7. júní 2002. Fyrir nóvember 2001 var skilað skýrslu 10. janúar 2002, en fyrir janúar og febrúar 2002 hinn 12. apríl það ár. Virðisaukaskattskýrsla fyrir uppgjörstímabilið september - október 2001 var afhent 28. desember það ár, en vegna tímabilsins maí - júní 2002 8. ágúst það ár. Öðrum virðisaukaskattskýrslum fyrir þau tímabil sem ákært er vegna mun ekki hafa verið skilað.
Samkvæmt framansögðu skilaði ákærði ekki virðisaukaskattskýrslum fyrir greiðslutímabilin frá janúar til ágúst 2001, en greiddar höfðu verið allar fjárhæðir varðandi þessi tímabil fyrir útgáfu ákæru, en löngu eftir gjalddaga. Hins vegar hafði verið greitt vegna hluta tímabilsins september-október sama ár, en sú greiðsla verður ekki talin veruleg, sbr. áðurnefnda dóma Hæstaréttar. Þá voru eins og fyrr greinir samtals 505.994 krónur greiddar inn á skuld vegna vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda. Sú fjárhæð fór inn á skuld samkvæmt elsta greiðslutímabili, maí 2001, og telst sú greiðsla ekki veruleg. Samkvæmt öllu framanrituðu eru ekki skilyrði til að beita fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 134/2005.
Að gættum ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um fésektarrefsingu ákærða. Með tilliti til framangreindra greiðslna þykir hins vegar mega ákveða fangelsisrefsingu ákærða fjóra mánuði, bundna skilorði eins og greinir í dómsorði.
Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara var sakarkostnaður í héraði að því er ákærða varðar einungis málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans. Ákærði verður dæmdur til að greiða sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Þórir Garðarsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um fésektarrefsingu ákærða og vararefsingu hennar eru staðfest.
Ákærði greiði sakarkostnað í héraði hvað hann varðar og allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 659.126 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Sigurbjörns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, samtals 622.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 25. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 9. september 2004 á hendur S, [...], Hveragerði, kennitala [...] og Þóri Garðarssyni, Hrísateigi 9, Reykjavík, kennitala 310560-7319.
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærða S sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni og ákærða Þóri sem stjórnarformanni Ísferða ehf., kt. 5000489-1119, sem úrskurðað var gjaldþrota 20. desember 2002, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa hvorki, í samræmi við það sem lög áskilja, skilað virðisaukaskattsskýrslum á lögboðnum tíma né staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni Ísferða ehf. á árunum 2001 og 2002 samtals að fjárhæð kr. 3.391.325 og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
|
Árið 2001 |
|
|
|
|
|
|
Janúa- febrúar |
kr. |
399.568 |
|
|
|
|
Mars - apríl |
kr. |
364.840 |
|
|
|
|
Maí - júní |
kr. |
631.778 |
|
|
|
|
Júlí - ágúst |
kr. |
438.594 |
|
|
|
|
September - október |
kr. |
662.460 |
|
|
|
|
Nóvember - desember |
kr. |
546.322 |
|
kr. |
3.043.562 |
|
|
|
|
|
|
|
|
Árið 2002 |
|
|
|
|
|
|
Maí - júní |
kr. |
347.763 |
|
kr. |
347.763 |
|
|
|
|
Samtals: |
kr. |
3.391.325 |
Þetta er talið varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Ákærðu báðum er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa hvorki, í samræmi við það sem lög áskilja, skilað skilagreinum staðgreiðslu á lögboðnum tímum né staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Ísferða ehf. á árunum 2001 og 2002 samtals að fjárhæð kr. 11.343.921 og sundurliðast sem hér segir:
Greiðslutímabil:
|
Árið 2001 |
|
|
|
|
|
|
Maí |
kr. |
2.102.855 |
|
|
|
|
Júní |
kr. |
2.347.750 |
|
|
|
|
Júlí |
kr. |
2.497.141 |
|
|
|
|
Nóvember |
kr. |
1.397.474 |
|
kr. |
8.345.220 |
|
|
|
|
|
|
|
|
Árið 2002 |
|
|
|
|
|
|
Janúar |
kr. |
1.453.440 |
|
|
|
|
Febrúar |
kr. |
1.545.261 |
|
kr. |
2.998.701 |
|
|
|
|
Samtals: |
kr. |
11.343.921 |
Þetta er talið varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Ákærðu neita báðir sök. Verjendur þeirra gera þær kröfur að ákærðu verði sýknaðir af kröfum ákæruvalds um refsingu og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins 22. júlí 2003 var málefnum einkahlutafélagsins Ísferða vísað til opinberrar rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra. Tekið er fram að bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2002 og hafi skiptum lokið í búinu sem eignalausu 23. maí 2003. Tilefni fyrri rannsóknar skattrannsóknarstjóra af tveimur á staðgreiðslu- og virðisaukaskattskilum Ísferða ehf. hafi verið bréf Tollstjórans í Reykjavík frá 22. apríl 2002, þar sem óskað hafi verið eftir að hafin yrði rannsókn á meintum brotum vegna vanskila á afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti. Formlega hafi sú rannsókn skattrannsóknarstjóra hafist með bréfi 7. júní 2002 þar sem tilkynnt hafi verið um rannsókn á skilum á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabila á tekjuárunum 2001 og 2002 og innheimtum virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabila á tekjuárinu 2001. Tilefni seinni rannsóknar skattrannsóknarstjóra á staðgreiðslu- og virðisaukaskattskilum einkahlutafélagsins hafi verið athugun embættisins á skattskilum einstaklinga og lögaðila í staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Formlega hafi sú rannsókn hafist með bréfi 16. janúar 2003. Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá hafi ákærði Þórir Garðarsson verið stjórnarformaður fyrir félagið og með prókúruumboð á þeim tíma er rannsóknin hafi tekið til og ákærði S meðstjórnandi og framkvæmdastjóri og einnig með prókúruumboð. Tekið er fram að H hafi starfað hjá félaginu sem fjármálastjóri. Rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi leitt í ljós að fyrrum fyrirsvarsmenn Ísferða ehf. ákærðu Þórir og S hafi ekki staðið innheimtumanni skil á lögmæltum tíma á staðgreiðsluskilagreinum sem þeim hafi borið að standa skil á vegna launamanna vegna greiðslutímabilanna maí, júní og nóvember tekjuárið 2001 og janúar og febrúar tekjuárið 2002. Þá hafi rannsóknin leitt í ljós að fyrirsvarsmennirnir hafi vanrækt að standa innheimtumanni skil á þeirri staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna sem þeim hafi borið að standa skil á vegna greiðslutímabilanna maí, júní, júlí og nóvember fyrir tekjuárið 2001 og janúar og febrúar tekjuárið 2002. Samkvæmt rannsókninni hafi vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna greiðslutímabilanna þann 16. janúar 2003 samtals numið 11.654.509 krónum, auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Hafi verið aflað upplýsinga frá innheimtumanni um hvort greitt hafi verið inn á staðgreiðsluskuld Ísferða ehf. eftir það tímamark en svo hafi ekki reynst vera. Háttsemin kunni að varða ákærðu refsingu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. og 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Einnig hafi rannsóknin leitt í ljós að ákærðu hafi vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskattskýrslu vegna uppgjörstímabilsins nóvember desember 2001. Þá hafi þeir ekki staðið á lögmæltum tíma skil á virðisaukaskattskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar febrúar og september október 2001 og maí júní 2002. Rannsóknin hafi leitt í ljós vanrækslu á skilum á innheimtum virðisaukaskatti sem þeim hafi borið að standa skil á vegna uppgjörstímabilanna janúar febrúar, september október og nóvember desember 2001 og maí júní 2002. Samkvæmt rannsókninni hafi vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur þann 16. janúar 2003 numið samtals 1.561.614 krónum, auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Hafi verið aflað upplýsinga hjá innheimtumanni ríkissjóðs um hvort greitt hafi verið inn á virðisaukaskattskuld eða opinber gjöld og tryggingargjald Ísferða ehf. eftir 16. janúar 2003 og svo ekki reynst vera. Háttsemi ákærðu að þessu leyti kunni að varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra fylgdi skýrsla embættisins frá 24. september 2002. Á meðal gagna hennar er skýrsla er tekin var af ákærða S hjá embættinu 20. júní 2002, en þá voru ætluð brot talin felast í vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilsins nóvember 2001 og janúar og febrúar 2002 og virðisaukaskatti vegna tímabilsins september - október 2001 og skilum á skilagreinum og virðisaukaskattskýrslum fyrir sama tíma. Við það tilefni greindi ákærði svo frá að hann hafi verið einn af eigendum einkahlutafélagsins Ísferða á þeim tíma er rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi tekið til og verið framkvæmdastjóri félagsins með prókúruumboð. Er undir ákærða var borið fylgiskjal rannsóknarinnar merkt 4.1, útprentun úr hlutafélagaskrá, kvað ákærði þær upplýsingar er þar kæmu fram vera réttar. Er undir hann voru borin ljósrit af staðgreiðsluskilagreinum Ísferða ehf. vegna þeirra tilvika er voru í rannsókn kvaðst ákærði kannast við skilagreinarnar og staðfesta undirritun sína á nokkrar þeirra. Kvað hann fjármálastjóra félagsins H hafa ritað á aðrar og Ó starfsmann félagsins á enn aðrar. Skýrslugerðin hafi byggst á bókhaldi félagsins, sem hafi gefið rétta mynd af rekstri þess. Ákærði kvað H hafa annast gerð sundurliðana á árinu 2001 en Ó hafi haft það verk með höndum undir stjórn ákærða fyrir árið 2002. Þá hafi H annast launaútreikning og útreikning staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2001 og Ó undir stjórn ákærða fyrir árið 2002. Ákærði kvaðst ekki vita af hverju staðgreiðsluskilagreinum hafi ekki verið skilað á réttum tíma. Þá kvaðst hann ekki vita hver fjárhæð staðgreiðsluskuldar skattaðilans hafi verið er skýrslutakan fór fram. Ekki hafi verið til peningar hjá félaginu til að standa skil á staðgreiðslunni á lögmæltum tíma. Kvaðst hann líta svo á að H hafi tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á að staðgreiðslunni hafi ekki verið skilað til innheimtumanns á árinu 2001. Ákærði kvaðst sjálfur bera ábyrgðina fyrir 2002. Allir starfsmenn félagsins hafi fengið laun sín greidd á réttum tíma. Er ákærði var beðinn um að gera grein fyrir ráðstöfun opinberra gjalda kvað hann peningana hafa verið í rekstri félagsins. Er undir ákærða var borin virðisaukaskattskýrsla Ísferða ehf. á þeim tíma er rannsóknin tók til kvaðst ákærði ekki hafa séð skýrsluna áður en kannast við undirritun H undir hana. H hafi annast gerð skýrslunnar og byggt hana á bókhaldi félagsins sem hafi gefið rétta mynd af rekstri þess. Ekki kvaðst ákærði vita af hverju skýrslum hafi ekki verið skilað á réttum tíma, né hver fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts hafi verið. Innheimtum virðisaukaskatti hafi ekki verið skilað þar sem peningar hafi ekki verið til hjá félaginu. Engin sérstök ákvörðun hafi verið tekin um að skila ekki virðisaukaskatti en H hafi borið ábyrgð á því að skattinum hafi ekki verið skilað. Innheimtur virðisaukaskattur hafi farið í rekstur félagsins. Í lok yfirheyrslunnar var borin undir ákærða samantekt skattrannsóknarstjóra á greiðslum Ísferða ehf. til innheimtumanns og ráðstöfun á höfuðstól, álag, vexti og kostnað. Kvaðst ákærði vera sáttur við allar greiðslur sem hafi tilheyrt innheimtumanni ríkissjóðs.
Ákærði var aftur boðaður í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra 23. janúar 2003 en þá voru ætluð brot einnig talin felast í vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna maí, júní og júlí 2001 og virðisaukaskatti vegna tímabilanna janúar febrúar og nóvember desember 2001 og maí júní 2002 og skilum á skilagreinum og virðisaukaskattskýrslum fyrir sama tíma. Voru svör hans við spurningum starfsmanna skattrannsóknarstjóra um ástæður þess að staðgreiðsluskilagreinum og afdreginni staðgreiðslu hafi ekki verið skilað til innheimtumanns með sama hætti og í fyrri skýrslutöku af honum. Bar hann sem fyrr að H hafi tekið ákvörðun um að skila ekki afdreginni staðgreiðslu og að fjármunir hafi farið í rekstur Ísferða ehf. Kvað hann tiltekinn starfsmann hjá endurskoðanda Ísferða ehf. hafa annast gerð samanburðar- og leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir árið 2001. Þá kvað hann Ó hafa haft með höndum gerð virðisaukaskattskýrslu fyrir þau tímabil sem tiltekin væru í þessum þætti, en ákærði hafi ritað undir skýrsluna. Ísferðir ehf. hafi hætt rekstri í febrúar/mars 2002 og eftir það hafi verið unnið í bókhaldi félagsins, en það væri ástæða þess að skýrslum hafi verið skilað of seint. Engir fjármunir hafi verið til hjá félaginu til að standa innheimtumanni skil á innheimtum virðisaukaskatti. Aðspurður kvaðst hann sjálfur hafa tekið ákvörðun um að skila ekki innheimtum virðisaukaskatti, en fjármunirnir hafi farið í rekstur félagsins.
Ákærði Þórir Garðarsson var yfirheyrður af starfsmönnum skattrannsóknarstjóra. Í skýrslu er hann gaf 20. júní 2002 kvaðst hann vera eigandi tæplega helmings hlutafjár í Ísferðum ehf. og vera stjórnarformaður með prókúruumboð. Kvað hann upplýsingar frá hlutafélagaskrá um félagið vera réttar. Er undir hann voru borin ljósrit af staðgreiðsluskilagreinum fyrir Ísferðir ehf. vegna þeirra tímabila er voru í rannsókn kvaðst hann ekki hafa séð þær skilagreinar áður. Kvaðst hann kannast við áritanir fjármálastjóra félagsins H á nokkrar þeirra og áritanir meðákærða S á aðrar. Skilagreinarnar hafi byggst á bókhaldi félagsins og gæfu þær rétta mynd af rekstri þess. H hafi annast sundurliðun, launaútreikning og útreikning staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir Ísferðir ehf. fyrir árið 2001, en ekki kvaðst ákærði vita hver hafi annast þau verk fyrir árið 2002. Ekki kvaðst ákærði vita af hverju staðgreiðsluskilagreinum hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma, né vita hver fjárhæð staðgreiðsluskuldar Ísferða ehf. hafi verið. Afdreginni staðgreiðslu hafi ekki verið skilað vegna peningaleysis, en H hafi tekið þá ákvörðun og beri ábyrgð á því að svo hafi verið fyrir árið 2001. Ákærðu hafi borið þá ábyrgð í félagi fyrir árið 2002. Allir starfsmenn félagsins hafi fengið laun sín greidd á réttum tíma, en þeir peningar er hafi átt að skila til innheimtumanns ríkissjóðs hafi verið í rekstri félagsins. Fyrir ákærða voru borin ljósrit af virðisaukaskattskýrslu Ísferða ehf. Kvaðst ákærði ekki hafa séð skýrsluna áður en kannast við undirritun H undir hana. Hafi H haft gerð hennar með höndum og byggt hana á bókhaldi félagsins. Ekki kvaðst ákærði vita af hverju virðisaukaskattskýrslunni hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma. Þá kvaðst hann ekki vita hver fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts væri né hvers vegna honum hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma. Kvaðst hann telja að H hafi tekið ákvörðun um að skila ekki innheimtum virðisaukaskatti og bæri ábyrgð á því. Innheimtur virðisaukaskattur hafi verið í rekstri félagsins. Er fyrir ákærða var lögð samantekt skattrannsóknarstjóra á greiðslum Ísferða ehf. til innheimtumanns og ráðstöfun á höfuðstól, álag, vexti og kostnað kvaðst ákærði ekki vita hvort greiðslum hafi verið ráðstafað í samræmi við vilja fyrirsvarsmanna félagsins. Í lok skýrslutökunnar kvaðst ákærði vilja taka fram að fjármálastjórinn H hafi verið ráðinn til félagsins í febrúar 2000 vegna þekkingar sinnar. Hafi H alfarið átt að sjá um fjármál félagsins og sjá til þess að allir skattar og opinber gjöld yrðu greidd að fullu og á réttum tíma. Hafi ákærði talið að svo væri þar til í janúar 2002 en þá hafi komið bréf frá Tollstjóranum í Reykjavík um að félagið skuldaði innheimtumanni fé. Þá hafi komið í ljós að staða félagsins hafi verið mjög slæm. Í kjölfarið hafi verið gert samkomulag við H um að hann hætti störfum.
Ákærði var aftur boðaður í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra 24. janúar 2003 en þá voru ætluð brot einnig talin felast í vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna maí, júní og júlí 2001 og virðisaukaskatti vegna tímabilanna janúar febrúar og nóvember desember 2001 og maí júní 2002 og skilum á skilagreinum og virðisaukaskattskýrslum fyrir sama tíma. Voru svör hans við spurningum starfsmanna skattrannsóknarstjóra um ástæður þess að staðgreiðsluskilagreinum og afdreginni staðgreiðslu hafi ekki verið skilað til innheimtumanns með sama hætti og í fyrri skýrslutöku af honum. Kvað hann sem fyrr H hafa átt að skila staðgreiðsluskilagreinum. Við þetta tilefni bar hann að staðgreiðslu hafi ekki verið skilað þar sem ekki hafi verið til fjármagn hjá félaginu til að greiða afdregna staðgreiðslu á réttum tíma, en H hafi tekið ákvörðun um skilin. Fjármagnið hafi farið í að greiða laun starfsmanna enda væru laun forgangsmál þegar um lítið fjármagn væri að ræða í rekstri. Að því er skil á innheimtum virðisaukaskatti varðaði kvaðst ákærði telja að ekki hafi verið til fjármagn hjá Ísferðum ehf. til að greiða skattinn á réttum tíma. Ekki kvaðst ákærði vita hver hafi tekið ákvörðun um að skila ekki innheimtum virðisaukaskatti, en fjármunirnir hafi farið í rekstur félagsins. Ekki hafi ákærði sjálfur komið neitt nærri fjármálum eða bókhaldi félagsins.
H gaf skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra 27. júní 2002. Kvaðst hann hafa verið starfsmaður félagsins frá í mars 2000 og hafa hætt störfum 29. janúar 2002. Hafi hann verið ráðinn sem fjármálastjóri félagsins til í júní 2001. Eftir þann tíma hafi hann varla getað kallað sig fjármálastjóra þar sem hann hafi engar mikilvægar ákvarðanir tekið varðandi málefni Ísferða ehf. Allar ákvarðanir sem teknar hafi verið eftir júní 2001 hafi verið teknar af ákærða S, sem hafi verið framkvæmdastjóri félagsins. Kvaðst H kannast við áritun sína á staðgreiðsluskilagrein félagsins á fylgiskj. 5.1. Hafi hann byggt skilagreinina á launabókhaldi félagsins úr TOK launabókhaldskerfi, sem gæfi rétta mynd af rekstri félagsins. Er undir hann voru bornar skilagreinar merktar 5.2 og 5.3 kvaðst hann ekki kannast við þær eða vita hver hafi annast gerð þeirra, þar sem hann hafi verið hættur störfum hjá félaginu er þeim hafi verið skilað inn. H kvaðst hafa annast gerð sundurliðana fyrir greiðslutímabilið nóvember 2001, en R hafi tekið við því hlutverki og séð um síðari útreikninga. Launaútreikning og útreikning staðgreiðslu hafi H annast fyrir tímabilið nóvember 2001 og síðan R. Staðgreiðsluskilagreinum hafi ekki verið skilað vegna þess að ,,eitthvað klúður” hafi komið upp í launabókhaldi félagsins, en það hafi leitt til þess að skilagrein fyrir nóvember 2001 hafi verið skilað of seint. Ekki geti hann svarað fyrir önnur tímabil þar sem hann hafi þá verið hættur störfum. H kvaðst halda að staðgreiðsluskuld Ísferða ehf. við innheimtumann hafi numið um 4.6 milljónum króna. Er H var beðinn um að skýra af hverju afdreginni staðgreiðslu hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma kvað hann ákærða S verða að svara fyrir það en líklegast væri að ekki hafi verið til peningar hjá félaginu. Peningarnir hafi verið í rekstri félagsins. Er undir H var borið ljósrit af virðisaukaskattskýrslu kvaðst hann kannast við að hafa gert skýrsluna og undirritað hana. Skýrsluna hafi hann byggt á bókhaldi félagsins sem gæfi rétta mynd af rekstri þess. Upp hafi komið vandræði í fjárhagsbókhaldinu sem tafið hafi gerð hennar. Kvað hann ákærða S verða að svara fyrir og bera ábyrgð á af hverju innheimtum virðisaukaskatti hafi ekki verið skilað til innheimtumanns, en líklegast hafi ekki verið til peningar hjá félaginu. Þeir hafi verið í rekstri þess. Félagið hafi verið rekið með tapi í nokkur ár og þær skuldir sem til rannsóknar hafi verið væru hluti af þeim vanda.
H var aftur boðaður í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra 12. febrúar 2003 en þá voru ætluð brot einnig talin felast í vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna maí, júní og júlí 2001 og virðisaukaskatti vegna tímabilanna janúar febrúar og nóvember desember 2001 og maí júní 2002 og skilum á skilagreinum og virðisaukaskattskýrslum fyrir sama tíma. Voru svör hans við spurningum starfsmanna skattrannsóknarstjóra um ástæður þess að staðgreiðsluskilagreinum og afdreginni staðgreiðslu hafi ekki verið skilað til innheimtumanns með sama hætti og í fyrri skýrslutöku af honum. Hafi ákærði S haft síðasta orðið um hvað væri greitt og hvað ekki. Hann hafi ákveðið að fresta því að greiða afdregna staðgreiðslu, en engir peningar hafi verið til og fjármunir því verið í rekstri félagsins. Að því er virðisaukaskatt varðaði kvaðst H ekki kannast við samanburðar og leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna ársins 2001. Skýrslan hafi verið unnin um hálfu ári eftir að H hafi hætt störfum.
Embætti ríkislögreglustjóra tók saman yfirlit um afdregna staðgreiðslu af launum launþega Ísferða ehf. á rekstrartímabilinu maí 2001 til og með febrúar 2002. Samkvæmt niðurstöðum þess yfirlits nemur vangoldin afdregin staðgreiðsla eftir eindaga samtals 11.343.921 krónu. Eftir eindaga hafi verið greiddar 505.994 krónur og vangoldin staðgreiðsla 18. júlí 2003 því samtals 10.837.927 krónur. Þá hafi laun ákærðu verið dregin frá fjárhæðinni. Þá var tekið saman yfirlit um vangoldinn virðisaukaskatt vegna Ísferða ehf. á rekstrarárunum 2001 og 2002. Samtals hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 3.391.325 krónum. Eftir eindaga hafi verið greiddar 2.147.100 krónur og vangoldinn virðisaukaskattur 18. júlí 2003 því samtals numið 1.556.545 krónum.
Ákærði S gaf skýrslu hjá lögreglu 6. apríl 2004 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann hafa verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Ísferða ehf. á árunum 2001 og 2002 jafnframt því sem hann hafi haft prókúruumboð fyrir félagið. Félagið hafi verið stofnað 1989 og ákærðu verið eigendur þess frá upphafi. Ekki kvaðst ákærði hafa haft reynslu af fjármálum í tengslum við rekstur og því ætíð haft einhvern í starfi er hafi séð um bókhald fyrirtækisins og fjármál. Einn slíkur hafi hætt á árinu 2000 og H þá verið ráðinn sem fjármálastjóri. Hafi ákærði alfarið treyst honum fyrir fjármálum félagsins, en ákærði hafi t.a.m. á árinu 2001 töluvert verið við akstur langferðabifreiða fyrirtækisins, auk þess sem hann hafi um tíma séð um verkstæðið. Bar hann að fjármálastjóri félagsins hafi annast daglega fjármálastjórn á þessum árum, gerð allra skilagreina, þó svo ákærði hafi ritað undir nánast ,,alla pappíra”. H hafi verið látinn hætta störfum í lok janúar 2002 er fyrir hafi legið hve slæm fjárhagsstaða fyrirtækisins hafi verið. Starfsmaður fyrirtækisins Ó hafi haft þessi störf með höndum eftir að H hafi hætt störfum. Ekki kvaðst ákærði hafa verið með sérstakt eftirlit með störfum H. H hafi aldrei rætt um hve erfið staða fyrirtækisins hafi í raun verið. Það hafi fyrst verið í janúar 2002 að ákærða hafi verið kunnugt um hana. Meðákærða, sem stjórnarformanni Ísferða ehf., hafi þá borist tilkynning um að félagið stæði ekki í skilum við innheimtumann ríkissjóðs. Einnig hafi komið í ljós að ekki hafi verið gengið frá skilagreinum vegna staðgreiðslu ársins 2001 sem hafi leitt til þess að starfsmenn fyrirtækisins hafi fengið áætlaða skatta það árið. Ákærði kvað allar stærri ákvarðanir innan fyrirtækisins hafa verið teknar af svonefndu framkvæmdaráði, sem að jafnaði hafi komið saman vikulega. Á slíkum fundum hafi verið farið yfir öll stærri mál. Þar hafi aldrei komið fram að slík vanskil væru á afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti er síðar hafi komið í ljós. Staða fyrirtækisins hafi vissulega verið þung haustið 2001 og hafi ýmsar utanaðkomandi ástæður ráðið því svo sem gjaldþrot stærri viðskiptavina o.s.frv. Fyrirtækið hafi ráðist í kaup á langferðabifreiðum á árinu 2001. Um hafi verið að ræða töluverðar fjárfestingar sem hafi þyngt rekstur félagsins, en þó ekki umfram það sem talið hafi verið forsvaranlegt. Ákærði kvað meðákærða hafa haft markaðsmál fyrirtækisins með höndum og ekki hafa komið að daglegri fjármálastjórn, skilum á skilagreinum o.s.frv. Ekki kvaðst hann rengja niðurstöðutölur yfirlits embættis ríkislögreglustjóra um vangoldna afdregna staðgreiðslu fyrir rekstrarárin 2001 og 2002 að fjárhæð 11.343.921 krónu. Peningaleysi hafi skýrt það að ekki hafi verið staðið við skil á staðgreiðslunni, en ekki hafi verið til peningar til að greiða gjöldin. Það hafi verið á höndum H sem fjármálastjóra að skipuleggja forgangsröðun greiðslna á þessum tíma. Þessi staða hafi væntanlega skapast þar sem ekki hafi verið til peningar innan fyrirtækisins og allir fjármunir farið í reksturinn. Ekki kvaðst ákærði rengja niðurstöðutölur yfirlits embættis ríkislögreglustjóra um vangoldinn innheimtan virðisaukaskatt eftir lögboðinn eindaga fyrir 2001 og 2002, að heildarfjárhæð 3.391.325 krónur. H hafi haft með höndum að gera virðisaukaskattskýrslur fyrir Ísferðir ehf. og kvittað undir flest blöð í fyrirtækinu. Með sama hætti og varðandi staðgreiðslu hafi það væntanlega verið peningaleysi er hafi skýrt það að ekki hafi verið greiddur innheimtur virðisaukaskattur. Innheimtur virðisaukaskattur hafi farið í rekstur fyrirtækisins. Ákærði tók fram að ekki hafi hvarflað að honum að rekstur félagsins hafi verið með þeim hætti að vanskil hafi hlaðist upp á árinu 2001. H hafi gert áætlun um hversu mikla fjármuni þyrfti inn í reksturinn og hafi ákærðu þá ákveðið að leggja peninga í rekstur þess með því að hækka hlutafé félagsins. Ef ákærðu hefði verið ljós raunveruleg staða fyrirtækisins hafi aldrei til þess komið að þeir færu að gangast í persónulegar skuldbindingar gagnvart því. Ákærði kvað Ísferðir ehf. hafa verið með skrifstofuaðstöðu í höfuðstöðvum félagsins að Funahöfða 17 í Reykjavík. Fjórar skrifstofur hafi verið á sameiginlegu svæði, ákærðu með sitt hvora og H eina, en ein hafi staðið auð.
Ákærði Þórir kvaðst hafa tekið þátt í stofnun Ísferða ehf. árið 1989 og hafa starfað við félagið þar til það hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 20. desember 2002. Ákærðu hafi átt félagið saman og átt jafnan hlut í því. Hafi ákærði starfað sem markaðsstjóri félagsins en verið stjórnarformaður þess. H hafi verið ráðinn fjármálastjóri á árinu 2000 en lokið störfum í byrjun árs 2002, en þá hafi honum verið sagt upp störfum þar sem upp hafi komist vanskil á innheimtum virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu, sem hann hafi átt að standa skil á sem fjármálastjóri. H hafi leynt þessum vanskilum fyrir stjórn félagsins, en ákærði hafi fengið tilkynningu frá tollstjóra um vanskil á virðisaukaskatti í janúar 2002. Þá hafi ákærði kallað H og meðákærða saman til fundar og hafi H þar viðurkennt að um vanskil væri að ræða á innheimtum virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu. Þegar álagning skatta starfsmanna hafi legið fyrir í ágúst 2002 hafi legið fyrir vanskil á staðgreiðslunni. Það hafi síðan verið leiðrétt og skilagreinar verið sendar inn 1. ágúst 2002. H hafi áður gefið til kynna að allar skilagreinar hafi verið sendar inn og væru í skilum. Ákærði kvaðst telja að meðákærði hafi engin afskipti haft af daglegum rekstri eða fjármálastjórn Ísferða ehf. á árinu 2001. Ekki hafi ákærði sjálfur komið að ákvarðanatöku um skil á innheimtum virðisaukaskatti eða afdreginni staðgreiðslu, en hann hafi ekki verið með ,,putta í rekstrinum” og því lítið vitað um stöðu mála. Ákærði kvað lýsingu meðákærða á skrifstofuaðstöðu félagsins að Funahöfða 17 vera rétta og hafi H geymt allt bókhald félagsins inni á skrifstofu hjá sér. Ákærði staðfesti þann framburð meðákærða að framkvæmdastjórnarfundir hafi reglulega verið haldnir í fyrirtækinu. Hlutverk funda hafi verið að samræma aðgerðir milli einstaka deilda innan fyrirtækisins, en því hafi verið skipt upp í markaðdeild, rekstrardeild og fjármáladeild. Talsvert hafi verið rætt um rekstraráætlanir, verkefni, innheimtumál og fjárfestingar. Aldrei hafi borið á umræðu um þau vanskil er síðar hafi komið í ljós á innheimtum virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu. Í byrjun árs 2001 hafi legið fyrir rekstraráætlun fyrir fyrirtækið og verið ákveðið að fjárfesta í tveim langferðabifreiðum. Síðan hafi önnur áætlun legið fyrir um mitt ár og þá verið ákveðið að ákærðu myndu setja að jöfnum hlut aukið fé í reksturinn með því að auka hlutafé félagsins. Það hefði aldrei verið gert ef ákærðu hefði verið ljós sá rekstrarvandi er síðar hafi komið fram. Ákærðu hafi báðir borið fyllsta traust til H og ekki talið sig þurfa að fara í saumana á verkum hans. Þeir hafi því t.a.m. aldrei spurt H að því hvort öll gjöld væru í skilum. Ákærði kvaðst ekki rengja niðurstöðutölur yfirlits embættis ríkislögreglustjóra um vangoldna afdregna staðgreiðslu fyrir rekstrarárin 2001 og 2002, að fjárhæð 11.343.921 krónu eða niðurstöðutölur yfirlits um vangoldinn innheimtan virðisaukaskatt eftir lögboðinn eindaga fyrir 2001 og 2002, að heildarfjárhæð 3.391.325 krónur. Kvaðst ákærði gera ráð fyrir að ekki hafi verið til fjármunir til að greiða innheimtan virðisaukaskatt eða afdregna staðgreiðslu. Fjármunir hafi farið í rekstur fyrirtækisins. H hafi hins vegar tekið ákvarðanir um hvað ætti að greiða og hvað ekki.
H kvaðst hafa ráðist til starfa hjá Ísferðum ehf. 15. mars 2000 og hafa látið af störfum 29. janúar 2002. Hann hafi verið ráðinn til starfa sem fjármálastjóri félagsins og unnið sem slíkur og farið með daglega fjármálastjórn þar til í júní 2001 er ákærði S hafi alfarið tekið við ,,greiðslumálum”, þar á meðal greiðslum fyrir maí 2001 með eindaga 15. júní. H kvaðst hins vegar eftir þann tíma hafa séð um bókhald, reikningsgerð og innheimtu. Ástæða þess að H hafi hætt sem fjármálastjóri hafi mátt rekja til þess að ákærðu hafi orðið óánægðir með framgang hans í tengslum við greiðslur af tilteknu skuldabréfi er ákærðu hafi verið í ábyrgð fyrir. Vegna þessara atburða hafi H verið sagt upp störfum sem fjármálastjóra og hann verið látinn kvitta upp á uppsagnarbréf. Hann hafi þó ekki hætt hjá fyrirtækinu en starfsviðið hafi breyst svo sem áður hafi komið fram. Ákveðið hafi verið að H myndi ljúka bókhaldi fyrir árið 2001 og láta endanlega af störfum í janúar 2002. Ákærði S hafi þannig frá og með júní 2001 haft algjört forræði á öllum greiðslum og haft síðasta orðið um hvað yrði greitt og hvað ekki. Ákærði Þórir hafi engin bein afskipti haft af daglegri fjármálastjórn en hann hafi þó vitað að lausafjárstaða fyrirtækisins hafi verið á núlli og minna en það. Ekki hafi ákærði Þórir tekið ákvarðanir um að skila ekki innheimtum virðisaukaskatti eða afdreginni staðgreiðslu. Ákærðu hefðu keyrt greiðslustöðu fyrirtækisins í þrot eftir að hafa fest kaup á allt of dýrum langferðabifreiðum, sem þeir einir hafi tekið ákvörðun um. Ákvörðun um kaup bifreiðanna hafi verið tekin í upphafi árs 2001. Greiðslustaða fyrirtækisins hafi ekki borið sitt barr eftir það, auk þess sem flutningur fyrirtækisins í húsnæði að Funahöfða 17 hafi komið til, en það hafi verið í byrjun júní 2001. Húsnæðisskiptin hafi orðið mjög kostnaðarsöm fyrir fyrirtækið. Endanleg ákvörðun um húsnæðismálin hafi verið í höndum ákærðu. Þá hafi tiltekin áföll orðið í rekstri á árinu 2001 en fyrirtækið hafi t.a.m. misst stóran aksturssamning, auk þess sem stór viðskiptaaðili hafi orðið gjaldþrota. H kvaðst hafa unnið skilagrein vegna afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda vegna nóvember 2001 en ekki hafa komið að ákvörðun um greiðslu vegna skilagreinarinnar. Ekki hafi hann komið að gerð annarra skilagreina. Að því er virðisaukaskattinn varðaði hafi H komið að gerð virðisaukaskattskýrslu fyrir tímabilið september október 2001 og hafi hann byggt niðurstöðutölur á bókhaldi félagsins. Kvaðst hann telja að niðurstöðutölur yfirlits embættis ríkislögreglustjóra um vangoldna afdregna staðgreiðslu fyrir rekstrarárin 2001 og 2002, að fjárhæð 11.343.921 krónu væru réttar en ekki geta tjáð sig um niðurstöðutölur yfirlits um vangoldinn innheimtan virðisaukaskatt eftir lögboðinn eindaga fyrir 2001 og 2002, að heildarfjárhæð 3.391.325 krónur þar sem hann hafi einungis unnið skýrsluna fyrir september október 2001 en annað verið utan hans starfstímabils. Engir peningar hafi verið til í rekstrinum til að standa skil á staðgreiðslunni og virðisaukaskattinum. Kvaðst H alfarið mótmæla þeim framburði ákærðu að hann hafi sem fjármálastjóri borið ábyrgð á skilum á virðisaukaskatti og staðgreiðslu. Ákærði S hafi alfarið borið ábyrgð á fjármálunum frá og með júní 2001 og ákærði Þórir verið með í ráðum um breytingar á starfsvettvangi H. Tók H fram að ákærðu hafi báðum lengi verið ljós sá fjárhagsvandi er hafi steðjað að fyrirtækinu. Kvaðst hann hafa litið svo á að ábyrgð hans samkvæmt ráðningarsamningi hafi eingöngu beinst að stöðu hans inn á við gagnvart ákærðu, en ekki gagnvart skattyfirvöldum eða innheimtumanni ríkissjóðs. Aldrei hafi staðið til að H tæki á sig slíka ábyrgð enda hafi fyrirtækið verið illa rekið árum saman. Þannig hafi honum verið ljóst að fjárhagsstaðan hafi verið slæm er hann hafi ráðist í störf hjá fyrirtækinu. H kvaðst að formi til hafa heyrt undir ákærða S sem framkvæmdastjóra en verið ljóst að ákærðu væru báðir eigendur að fyrirtækinu og á þeim forsendum átt samskipti við báða um rekstur. Kvaðst hann hafa átt sæti á svokölluðum framkvæmdastjórnarfundum allt þar til í júní 2001. Á þeim fundum hafi verið rætt almennt um reksturinn og bíla- og húsnæðismál. Á þeim fundum hafi ávallt legið fyrir hversu slæm fjárhagsstaða fyrirtækisins væri.
Svo sem áður er rakið hefur embætti ríkislögreglustjóra tekið saman yfirlit um afdregna staðgreiðslu af launþegum Ísferða ehf. á rekstrartímabilinu maí 2001 til og með febrúar 2002. Nemur afdregin en vangoldin staðgreiðsla fyrir maí desember 2001 samtals 8.345.220 krónum og fyrir janúar febrúar 2002 alls 2.998.701 krónu. Samtals nemur fjárhæðin 11.343.921 krónu. Eftir eindaga hafi verið greiddar 505.994 krónur og vangoldin afdregin staðgreiðsla fyrir tímabilið því 10.837.927 krónur. Fjárhæðir í ákæru byggjast á þessu yfirliti. Eru þær að mestu í samræmi við niðurstöður skattrannsóknarstjóra varðandi vangoldna afdregna staðgreiðslu fyrir þennan tíma. Ákærðu hafa ekki rengt þessar tölulegu niðurstöður og verða þær lagðar til grundvallar í málinu. Þá hefur embætti ríkislögreglustjóra tekið saman yfirlit um vangoldinn innheimtan virðisaukaskatt fyrir rekstrarárin 2001 og 2002. Samkvæmt yfirlitinu nemur vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur fyrir janúar desember 2001 alls 3.043.562 krónum. Fyrir maí júní 2002 hafi fjárhæðin numið 347.763 krónum. Alls nemur þessi fjárhæð 3.391.325 krónum. Eftir eindaga hafi verið greiddar samtals 2.147.100 krónur og vangoldinn virðisaukaskattur því 1.556.545 krónur. Fjárhæðir þessar liggja til grundvallar ákæru. Skattrannsóknarstjóri hefur í sínu erindi til lögreglu greint frá þeirri niðurstöðu sinni að vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns, að teknu tilliti til greiðslna inn á höfuðstól, hafi numið 1.561.614 krónum. Mismunur á heildarniðurstöðu ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra skýrist af því að ríkislögreglustjóri miðar við að ákærðu hafi fullframið brot gegn ákvæðum laga um virðisaukaskatt varðandi uppgjörstímabilin mars apríl, maí júní og júlí ágúst 2001 með því að greiða innheimtan virðisaukaskatt eftir lögboðinn eindaga. Fær sú niðurstaða stoð í ákvæðum laga nr. 50/1988, en dómstólar hafa áður skorið úr um að brot gegn þessum lögum séu fullframin hafi lögboðnar greiðslur ekki verið inntar af hendi á eindaga. Ákærðu hafa heldur ekki rengt þessar tölulegu niðurstöður yfirlits ríkislögreglustjóra. Með vísan til alls þessa verða þær lagðar til grundvallar niðurstöðu.
Ákærðu byggja báðir varnir sínar á því að fjármálastjóri Ísferða ehf. á þessu tímabili, H Haraldsson, hafi haft alla fjármálastjórn félagsins á sinni hendi og í þeim efnum notið fyllsta trausts ákærðu. Hann hafi ekki upplýst ákærðu um vangoldna afdregna staðgreiðslu af launum starfsmanna fyrirtækisins eða vangoldinn innheimtan virðisaukaskatt. Honum hafi sem fjármálastjóra borið að haga rekstri félagsins með þeim hætti að afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti yrði skilað til innheimtumanns ríkissjóðs á lögmæltum tíma. Þeim hafi verið kunnugt um að rekstur félagsins væri þungur, en ekki verið ljóst að staðan væri slík er síðar hafi komið í ljós. Hafi H verið vikið úr starfi í janúar 2002 og beri ákærðu í ljósi stöðu sinnar ábyrgð á vanskilum félagsins á árinu 2002. Þeir hafa lýst því að fjárskortur hafi leitt til þessarar stöðu og að innheimtur virðisaukaskattur og afdregin staðgreiðsla hafi verið í rekstri félagsins á þessu tímabili. H hefur á móti borið að ákærðu hafi alla tíð verið fullkomlega ljósir þeir fjárhagslegu erfiðleikar sem félagið hafi glímt við í rekstri. Félagið hafi staðið fyrir ýmsum útgjöldum, s.s. vegna kaupa á langferðabifreiðum og vegna flutnings félagsins með starfsemi sína í húsnæði að Funahöfða 17 í Reykjavík. Þessar ráðstafanir, sem og skakkaföll í rekstri, hafi verið félaginu fjárhagslega erfiðar og það hafi ákærðu báðum verið vel kunnugt um.
Einkahlutafélagið Ísferðir var að meginstefnu í eigu ákærðu að jöfnum hlut, en þeir stofnuðu félagið í sameiningu á árinu 1989. Var ákærði S skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í félaginu á þeim tíma er ákæra tekur til. Hefur hann borið að störf sín hafi verið í samræmi við þá skráningu. Þá var ákærði Þórir skráður stjórnarformaður félagsins og vann hann í fyrirtækinu við markaðstengd málefni. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög mælir fyrir um þær ríku skyldur ákærðu sem framkvæmdastjóra og stjórnarformanns einkahlutafélagsins í skjóli stöðu sinnar að afla sér glöggrar vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal um hvort félagið stæði í skilum með greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna svo og að annast um að starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi. Geta ákærðu af þeim ástæðum ekki reist kröfu sína um sýknu á því að þeir hafi falið ráðnum fjármálastjóra að bera ábyrgð á því að greiðslum yrði hagað þannig að félagið stæði í skilum við innheimtumann ríkissjóðs. Þá verður ráðið af gögnum málsins og miðað við að ákærði S hafi að einhverju leyti komið að daglegum rekstri, en hann hefur t.a.m. ritað undir tilteknar skilagreinar vegna afdreginnar staðgreiðslu og virðisaukaskattskýrslu fyrir félagið á þeim tíma er hér skiptir máli. Félagið átti við einhverja fjárhagslega erfiðleika að etja á þessum tíma, en það lagði ríkar skyldur á herðar ákærðu að fylgjast með því að félagið innti af hendi innheimtan virðisaukaskatt og afdregna staðgreiðslu. Fjárhagsstaða félagsins var í reynd slík að hún leiddi til þess að bú Ísferða ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2002 og skiptum lokið í því sem eignalausu 23. maí 2003. Með aðgerðarleysi sínu í þessum efnum hafa ákærðu sem framkvæmdastjóri annars vegar og stjórnarformaður hins vegar vanrækt af stórkostlegu hirðuleysi þær skyldur sem hvíldu á þeim samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til að hlutast til um að skilagreinum yrði skilað og afdregin staðgreiðsla greidd. Með sama hætti hafa ákærðu með stórkostlegu hirðuleysi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að hlutast til um að virðisaukaskattskýrslum yrði skilað og skatturinn greiddur. Með háttsemi sinni hafa ákærðu því báðir gerst sekir um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld. Eru brotin því rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærðu eru báðir fæddir á árinu 1960. Hefur ákærði S ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé og ákærði Þórir ekki þannig að máli skiptir fyrir refsingu í þessu máli. Með hliðsjón af þeim brotum er ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir og dómvenju á þessu sviði þykir refsing þeirra hvors um sig hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, sem verður bundið skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir. Við ákvörðun refsingar hefur verið tekið tillit til greiðslna er bárust inn á ógreiddan virðisaukaskatt og ógreidda staðgreiðslu eftir lögboðinn tíma.
Með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, er kveður á um sektarlágmörk vegna brota á þeim lögum og dómvenju um skiptingu sektargreiðslna greiði ákærðu hvor um sig 14.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella hvor um sig fangelsi í 6 mánuði. Er vararefsing ákveðin með sama hætti og í dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999 í máli nr. 327/1998. Við ákvörðun sektarrefsingar hefur verið höfð hliðsjón af reglum um frádrátt álags.
Um málsvarnarlaun og sakarkostnað fer svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærðu, S og Þórir Garðarsson, sæti hvor um sig fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar beggja ákærðu og hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærðu greiði hvor um sig 14.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella hvor um sig fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði S greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur. Ákærði Þórir greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurbjörns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.