Hæstiréttur íslands

Mál nr. 147/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 8. maí 2014.

Nr. 147/2014.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Hjálmari Forna Poulsen

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

H var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa tælt A, sem þá var 15 ára, til að hafa við sig kynferðismök með því að gefa honum vilyrði fyrir bifhjóli að launum fyrir þau. Ljóst þótti að H hefði notfært sér yfirburði aldurs, reynslu og þroska í því skyni að tæla A til kynferðismakanna. Þá var H einnig sakfelldur fyrir að hafa í vörslu sinni hreyfimynd sem sýndi barn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Var háttsemi H talin varða við 3. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til alvarleika brots hans gagnvart A, en að auki að hann hefði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, hann hefði verið ungur að aldri er brotið var framið og rannsókn málsins hefði dregist nokkuð. Var refsing H ákveðin fangelsi í sex mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var H gert að greiða A 600.000 krónur í miskabætur og sæta upptöku á fartölvu.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara mildunar á refsingu. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.  

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

I

Krafa ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti er einkum reist á því að í greinargerð ákærða hér fyrir dómi sé aðeins hafður uppi hluti af þeim kröfum sem fram hafi komið í yfirlýsingu hans um áfrýjun. Nánar tiltekið hafi ákærði fallið frá kröfu um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins, svo og kröfu um að upptöku á fartölvu hans yrði hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal taka nákvæmlega fram í tilkynningu ákærða um áfrýjun í hverju skyni áfrýjað sé og hverjar séu dómkröfur hans. Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu að ákærði falli síðar frá einni eða fleiri af þeim kröfum, svo sem í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti. Að því virtu og þar sem ákæruvaldið hefur ekki fært haldbær rök fyrir frávísunarkröfunni verður hún ekki tekin til greina.

II

Í I. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa 11. desember 2011 tælt A, sem þá var 15 ára, til að hafa við sig kynferðismök, með því meðal annars að gefa honum vilyrði fyrir bifhjóli að launum fyrir þau. Er þessi háttsemi ákærða talin varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem henni hefur meðal annars verið breytt með 11. gr. laga nr. 61/2007. Samkvæmt því ákvæði skal hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir barn yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka sæta fangelsi allt að 4 árum. Eins og ráðið verður af orðalagi ákvæðisins og ummælum í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 61/2007, er það refsivert ef maður notfærir sér yfirburði aldurs og reynslu til að tæla barn yngra en 18 ára til kynferðismaka á hvaða hátt sem það er gert. Í samræmi við það er tekið fram í athugasemdunum að séu einstaklingar svipaðir að aldri, reynslu og þroska eigi ákvæðið ekki við.

Eitt af því sem skiptir máli við mat á því hvort ákærði hafi haft yfirburði í samskiptum sínum við brotaþola er að ákærði var 17 ára og 8 mánaða, en brotaþoli nýlega orðinn 15 ára þegar atvik þau sem ákært er fyrir áttu sér stað. Jafnframt verður ráðið af gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, að brotaþoli hafi staðið höllum fæti í samanburði við ákærða vegna þess að hann bar einkenni þess að vera einhverfur og átti af þeim sökum erfitt með félagsleg samskipti. Verður þetta meðal annars ráðið af vottorði sálfræðings hjá Barnahúsi 22. júlí 2013, sem staðfest var fyrir dómi, svo og af vottorðum sérfræðinga hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins frá því í ágúst 2009, en stöðin er starfrækt á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Þrátt fyrir að síðarnefndu skjölin hafi ekki verið staðfest fyrir dómi hafa þau sönnunargildi í málinu, sbr. 1. mgr. 111. gr. og 1. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008, enda þótt það sé takmarkað þar sem þau stafa frá árinu 2009 þegar brotaþoli var tæplega 13 ára, sbr. 137. gr. sömu laga. Það sem ræður þó úrslitum í þessu efni er að með framburði ákærða, brotaþola og annarra vitna fyrir dómi, ásamt tölvupóstsamskiptum sem gerð er ítarleg grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi, er sannað svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi notfært sér yfirburði aldurs, reynslu og þroska í því skyni að tæla brotaþola til að hafa við sig kynferðismök á þann hátt sem þar er lýst.  

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hjálmar Forni Poulsen, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 870.091 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 19. desember 2013.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 13. nóvember sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 11. júní 2013 á hendur ákærða, „Hjálmari Forna Poulsen, kennitala [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2011 í [...] nema annað sé tekið fram:

I.

Kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 11. desember 2011, að [...], með net- og símasamskiptum, tælt drenginn A, fæddan [...] 1996, sem þá var 15 ára gamall, til að hafa við sig kynferðismök, með því að gefa honum vilyrði fyrir bifhjóli ásamt fylgihlutum eða peningagreiðslu að launum fyrir kynferðismökin sem leiddi til þess að þeir hittust undir morgun sama dag, að [...], þar sem ákærði fylgdi tælingunni eftir með samtölum við drenginn og náði fram vilja sínum og saug kynfæri drengsins og hafði við hann endaþarmsmök.

Telst þetta varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007.

II.

Áfengislagabrot, með því að hafa í framangreint skipti, að [...], veitt A áfengi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 18. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

III.

Kynferðisbrot, með því að hafa um nokkurt skeið fram til miðvikudagsins 8. febrúar 2012, að [...], haft í vörslum sínum eina hreyfimynd, með skráarheitinu [...], sem sýnir barn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.

Telst þetta varða við 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, sbr. áður 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 74/2006.“

IV.

Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, á Compaq-fartölvu (munaskrárnúmer 89992/357024) sem notuð var við framningu brota samkvæmt I. og III. ákærulið og samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga á hreyfimynd sem greinir í III. ákærulið.

Í málinu gerir Gunnhildur Pétursdóttir héraðsdómslögmaður, fyrir hönd B, kt. [...], vegna ólögráða sonar hennar, A, kt. [...], kröfu um að ákærða verði gert að greiða miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Aðalmeðferð málsins fór fram 13. nóvember 2013 og var málið tekið til dóms að henni lokinni. Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað en til þrautavara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin. Þá er þess krafist að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talinn einnig útlagður kostnaður skipaðs verjanda ákærða. Hvað bótakröfu varðar gerir ákærði aðallega þá kröfu að henni verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.

II.

Samkvæmt gögnum málsins kærði sviðsstjóri fjölskyldudeildar [...] ákærða til lögreglu, vegna ætlaðs kynferðisbrot gegn A, með bréfi dagsettu 20. janúar 2012. Í kærunni er því lýst að sama dag hafi barnaverndarnefnd á [...] borist tilkynning frá foreldrum A. Í kjölfar þess komu þau í viðtal og lýstu því að daginn áður hafi systir A komið að heimilistölvunni og hafi þá verið opin Facebook-samskipti sem A hafi átt við ákærða sem gáfu til kynna að kynferðisleg samskipti hafi verið á milli þeirra. Ákærði hafi fengið A til að hitta sig gegn því að útvega honum vélhjól. Sögðu foreldrar A að þessi samskipti væru vistuð í tölvunni og einnig fleiri samskipti þar sem ákærði væri að reyna að fá A til að hitta sig aftur. Þau hafi rætt við A um þessi samskipti og spurt hann hvort það væri rétt að ákærði hafi neytt hann til kynferðislegra samskipta á móti vilja hans og hafi A svarað því játandi. Hann hafi sagt að hann hafi farið að hitta ákærða fyrir jólin en ákærði hafi lofað að útvega honum vélhjól. Ákærði hafi gefið honum eitthvað að drekka sem hann hafi ekki vitað hvað var og síðan beitt hann kynferðislegu ofbeldi. Í kærunni segir að A sé greindur með röskun á einhverfurófi, blandaða röskun á námshæfni og athyglisbrest með ofvirkni. Hann sé með eðlilega greind en vegna langvarandi hegðunarvandkvæða hafi hann þurft töluverðan stuðning í skóla og fylgi stuðningsfulltrúi honum allan daginn.

Ákærði gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu 8. febrúar 2012. Hann kvaðst hafa þekkt A frá því að hann var í 8. bekk og halda að hann sé einu eða tveimur árum yngri en hann. Hann lýsti atvikum svo að þeir hafi ákveðið að hittast og A hafi ætlast til að fá „krossarann“ hans í staðinn. Hann hafi verið að hugsa um að selja „krossarann“ og A hafi verið eitthvað að skoða það. Hann hafi verið búinn að fá tilboð í hann upp á 150.000 krónur. Þar sem þetta var eldgamalt hjól tímdi hann ekki alveg að selja það og langaði svolítið að gera það upp. Hann nefndi það við A að það væri komið tilboð og A hafi sagt að það væri allt of mikið. Nokkrum dögum seinna hafi þeir ákveðið að hittast og gera eitthvað og svo hafi A sagt „og hvenær fæ ég þá krossarann“. Ákærði sagði að það hafi náttúrulega aldrei verið inni í þessum samningi, aldrei hafi verið samið um það. Þá hafi hann spurt A hvernig honum gat dottið í hug að hann fengi „krossara“ að verðmæti a.m.k. 150.000 krónur. Síðan sagði ákærði: „Og hann horfði bara á mig, kannski ekkert reiður en það var, hann ætlaði að hringja í mig upp á að rukka mig um þennan krossara. Og svo var hann inni í einhverju húsi sem var, hérna sem bankinn á að koma með. Og eitthvað, við náðum að redda honum út úr því og koma honum annars staðar fyrir sko. Og hérna. Þannig að ég á tímabili hafði ég ekki aðgang að krossaranum einu sinni, þannig að ég hefði ekki getað gert neitt svona. Þannig að þetta var bara. Já, og það, við gerðum honum bara alveg ljóst að hann fengi ekkert krossarann þrátt fyrir, þrátt fyrir þetta. Það var aldrei samið um þetta eða neitt svoleiðis.“

Ákærði lýsti því að þegar þeir hittust hafi þeir fyrst horft á einhvern þátt og svo hafi hlutirnir farið að gerast og það hafi endað með því að þeir stunduðu kynlíf og allt í góðu. Þetta hafi byrjað með munnmökum og endað með endaþarmsmökum. Þetta hafi byrjað á neðri hæð hússins en svo hafi A viljað halda áfram svo þeir hafi fært sig upp. [...] hafi komið heim meðan á þessu stóð en farið aftur. Eftir kynmökin hafi A farið og hitt C, vin sinn. Svo hafi A spurt hann, eiginlega í beinu framhaldi af þessu, hvort hann fengi „krossarann“. Hann hafi sagt nei. Og það hafi ekki staðið til. Aðspurður kvaðst ákærði telja að þetta hafi gerst í nóvember eða byrjun desember heima hjá honum á [...] og að þetta hafi bara gerst einu sinni. Svo sagði ákærði: „Ég enda sagði honum af því að ég þekki þrjár stelpur og einn strák sem eru þú veist, hvað segir maður, að selja sig eða þannig. Og það eru, þau eru að taka, 25, 30 þúsund kall fyrir hvert skipti. Og ég sagði við hann að hérna, að það, þú veist, ef ég myndi þú veist, sem ég myndi ekki tíma, þó svo mig vantaði pening, og ef þessi er að pæla í að selja krossarann svo ég myndi vilja fá pening fyrir hann. En ég sagði við hann þú veist, ef hann væri með eitthvað svoleiðis, þá væri það alla vega 6 sinnum. Þá myndi það ná að dekka þennan pening. En ég myndi samt aldrei gera það fyrir krossarann. Þannig að það var alveg á hreinu allan tímann.“ Aðspurður hvort líta megi þannig á að hann hafi verið að gera þetta fyrir greiðslu svaraði ákærði: „Nei. Ég sagði honum að sko. Hann hélt að þetta væri bara nóg eða eitthvað til að fá bara krossarann upp í hendurnar og galla og hjálm. Ég sagði honum þú veist að ég þekkti fólk sem væri að taka 25, 30 þúsund kall fyrir þetta og það væri þá alla vega 6 skipti eða eitthvað. En ég sagði honum það líka að, að ég myndi ekki stunda þannig viðskipti eða þú veist. Ég hef bara meira sjálfsálit en það. Myndi kannski íhuga það ef ég ætti börn sem væru að svelta eða eitthvað. En ég myndi ekki fara að selja aðgang að mér. Og hvað þá fyrir einhverjum krossara.“ Hann sagði þetta hafa gerst með fullum vilja A. Þeir hafi verið búnir að ræða þetta á tímabili en svo hafi A farið að tala um þetta aftur eftir að hann neitaði að selja honum „krossarann“. Hann hafi haft áhuga á að kaupa hann áður en þeir fóru að tala um kynlíf. Ákærði kvaðst ekki hafa talið að neinn misskilningur væri í gangi. Hann hafi verið búinn að segja A að hann tímdi ekki að selja honum „krossarann“. A hafi aldrei séð „krossarann“ en ákærði kvaðst hafa verið búinn að finna mynd á netinu af einum sem var mjög svipaður og sýna A þegar hann spurði hvernig „krossari“ þetta væri. Ákærði sagði að A hafi hringt í hann eftir þetta og hótað að senda einhverja handrukkara heim til hans. Einnig hafi A sagt honum að greiða sér 150.000 krónur eða hann mundi kæra hann. Aðspurður um áfengisneyslu sagði hann að A hafi endilega viljað fá eitthvað að drekka og hafi hann gefið honum áfengi, líklega Bacardi, sem hann hafi drukkið.

Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 7. júlí 2012. Þar kemur fram að hann telji að hann og A hafi strax orðið vinir á Facebook. Hann sagði þá hafa verið búna að tala saman í svona mánuð þegar A hafi allt í einu sagt að hann langaði að prófa eitthvað með strák. A hafi hringt í hann og beðið hann um að koma til sín. Þeir hafi svo hringt nokkrum sinnum hvor í annan áður en þeir hittust. A hafi ekki viljað fara alla leið en viljað prófa munnmök. Ákærði hafi samþykkt það. Á meðan þetta gerðist hafi [...] komið heim og þá hafi þeir fært sig upp á bað. A hafi fundist þetta gaman og hafi viljað fara alla leið og þá hafi þeir haft endaþarmsmök. Þeir hafi þá verið með handklæði á gólfinu og þar hafi A legið og ákærði haft endaþarmsmök við hann. Hann sagði A hafa langað í mótorhjól og þeir hafi verið búnir að ræða þetta, að hann mundi fá að sofa hjá A sem mundi fá mótorhjól í staðinn. Hann hafi hætt við þetta en A hafi verið að suða um þetta í einhvern tíma. Þá hafi C, vinur A, alltaf verið að hringja í ákærða og segja að hann yrði að gera þetta af því að A langaði svo í mótorhjól. Eftir þetta tilkynnti A honum að hann ætlaði að kæra hann fyrir nauðgun. Hann sagði að hann hafi einungis gefið A um hálfan sjúss af áfengi. Þegar þeir voru niðri í stofu hafi hann haft munnmök við A að hans ósk. Þá staðfesti hann að hafa sent A mynd af sambærilegu hjóli. Hann hafnaði því að hafa tælt A til kynmaka með því að bjóða honum mótorhjól í staðinn og sagði þetta með hjólið hafa verið útrætt um mánuði áður. A hafi alveg vitað að hann fengi ekki hjólið. Þá staðfesti hann að hafa átt í samskiptum við A á Facebook og að þeir hefðu verið í símasambandi.

Aðspurður um ætlað barnaklámefni er fannst í tölvu hans kvaðst hann ekki vita til þess að slíkt efni væri í henni. Hann kvaðst alltaf vera að fá eitthvað sent en hann hafi ekki vitað að það væri ólöglegt. Honum var kynnt hreyfimynd sem ákært er fyrir í III. ákærulið og kvaðst hann ekki kannast við hana og sagði að hún gæti hafa komið með einhverjum tölvupósti.

Dómskýrsla var tekin af A í Barnahúsi 9. febrúar 2012. Hann lýsti því að áður en atvik gerðust hafi hann verið búinn að vera í einhverjum samskiptum við ákærða á Facebook. Hann sagði ákærða hafi hringt, að hann taldi á sunnudegi, um miðja nótt, og sagst eiga mótorhjól. Ákærði hafi viljað láta hann fá hjólið en einhver annar hafi ætlað að kaupa það á 150.000 krónur. Aðspurður af hverju ákærði hafi viljað láta hann hafa hjólið svaraði hann því að ákærði hafi örugglega ekki ætlað að láta hann hafa neitt hjól. Hann hafi langað í hjólið og hafi verið búinn að reyna að safna fyrir hjóli. Hann hafi orðið spenntur og hjólað niður í bæ til að hitta ákærða og taldi að þá hafi verið liðið að morgni. Hjá ákærða hafi hann sest í sófa og horft á sjónvarpið. Ákærði hafi þá komið með áfengi og sagt að hann yrði ekkert fullur af þrem, fjórum glösum. Aðspurður um áfengistegund kvaðst hann telja að það hafi verið Bacardi. Hann sagði að ákærði hafi þá sagt að þeir gætu talað saman um hjólið og hafi sagt að hann vildi ekki pening en hann gæti gert eitthvað fyrir hjólið. Fyrst hafi hann ekki vitað hvað ákærði var að tala um eða hvað ákærði vildi að hann gerði en taldi að hann gæti gefið ákærða 20.000 krónur fyrir hjólið. Ákærði hafi sagt að ef hann kæmi þá gætu þeir rætt þetta. Síðan hafi hann orðið blindfullur því að hann sé ekki vanur áfengi. Þegar hann hafi farið heim hafi hann verið svo fullur að hann hafi reynt að skríða einhvern veginn heim og hafi dottið í stiganum fyrir utan húsið. Ákærði hafi síðan dregið hann upp á baðherbergi og riðið honum. Seinna í skýrslunni orðar A það svo að ákærði hafi sagt honum að koma upp. Ákærði hafi dregið hann úr buxunum eða frekar tekið í þær og kippt þeim af. Nánar aðspurður um það sem gerðist á baðherberginu sagði vitnið að ákærði hafi riðið honum í rassgatið. Hann hafi legið á gólfinu á bakinu og ákærði verið ofan á honum. Ákærði hafði áður sagt honum að leggjast á gólfið. Þá lýsti hann því að einhver maður, sem hann haldi að sé [...], hafi hringt í hann vegna málsins og hótað því að drepa hann, flá hann lifandi. Hann hafi sagt vitninu að það væri svo gott sem dautt. Hann hafi verið í sjokki eftir þetta símtal og verið hræddur. Hann sagði þennan mann hafa hringt fjórum eða fimm sinnum en hann hafi einungis svarað í fyrstu tvö eða þrjú skiptin. Þá kom fram í skýrslu vitnisins að eftir atvikið hafi hann farið í bakaríið og svo heim til vinar síns, C. Vitnið var spurt hvort það muni eftir samskiptum milli sín og ákærða á Facebook þar sem ákærði spyr hann hvernig hann vilji hafa þetta og vitnið svaraði: „Tott bara“. Vitnið svaraði: „Ja, ég gat ekki sagt það, því þá var hann nýbúinn að hringja og segja að hann ætli bara að selja hjólið og ég bara. Gera mig spenntari eða eitthvað. Þannig að ég ætlaði ekki að fara að gera neitt með honum sko.“ Þá kvaðst hann ekki muna eftir að hafa skrifað á Facebook „bara tott og ég fæ hjólið, var það sem við töluðum um“ eða að ákærði hafi skrifað „ókey, en þú færð allt draslið, má ég prófa bara pínku, ætla ekkert að ríða þér, bara að prófa aðeins.“ Vitnið kvaðst ekki hafa vitað hvað ákærði var að tala um. Það mætti ætla að vitnið ætlaði að ríða ákærða fyrir hjólið eða eitthvað. En svo hafi ákærði hringt í vitnið og sagt „nei, ókey sorry, komdu bara og tölum um þetta eða eitthvað“. Vitnið sagði ákærða hafi sagt við hann að hann fengið hjólið eftir þetta en þegar hann hafi spurt hafi ákærði sagt að hann ætti ekkert hjól.

Vitnið B, móðir vitnisins A, gaf skýrslu við rannsókn málsins 25. janúar 2012. Hún lýsti því að dóttir hennar, D, hefði fimmtudaginn 19. janúar 2012 sagt henni frá því að A hafi gleymt Facebook-síðu sinni opinni í heimilistölvunni. D hafi þá farið að skoða síðu A og hafi hún sýnt móður sinni samtal sem átti sér stað á milli ákærða og A. Taldi vitnið að þar kæmi fram að ljótt kynferðisbrot hafi átt sér stað. Vitnið sagði að A hafi verið 15 ára en ákærði að verða 18 og sé hommi. Telur vitnið að ákærði hafi platað A með því að lofa honum mótorhjóli. Hún telji að það hafi verið einhvern tímann fyrir jól sem ákærði hafi beðið A um að hitta sig og hafi hann talið að ákærði hafi ætlað að ræða við hann um þetta mótorhjól. Hún kvaðst muna eftir því að hafa snemma á sunnudagsmorgni farið með annan son sinn á jólahandboltamót og þá hafi A ekki verið heima um kl. 8.30 að morgni. Hún hafi reynt að hringja í hann en slökkt hafi verið á símanum og hafi hún ekki hitt hann fyrr en seinni hluta þessa dags. Þann 19. janúar sl. hafi hún reynt að spyrja A nánar um þetta eftir að hafa séð samskiptin á Facebook. Hann hafi átt erfitt með að tala um þetta en sagt að hann hafi farið heim til ákærða sem hafi gefið honum áfengi og síðan hafi honum verið nauðgað. Daginn eftir hafi vitnið snúið sér til skóla- og fjölskylduskrifstofu og tilkynnt um atvikið. Hún kvaðst ekki hafa séð þetta hjól og taldi að A hafi aldrei fengið það. Þá hafi hún séð á síðunni að A hafi verið að ítreka það við ákærða að fá hjólið [...]. Hún sagði að A hafi liðið mjög illa og hafi hún séð miklar hegðunarbreytingar á honum á þessu tímabili, það er frá því atvik gerðust til dagsins í dag. Hann sé orðinn ofboðslega „agressívur“ og sé farinn að loka sig frá þeim. Greinilegt sé að eitthvað hafi komið fyrir. Þau megi ekki snerta hann og hann sé farinn að slá frá sér þegar hann sé vakinn á morgnana. Þá sagði hún að vegna röskunar á einhverfurófi A þá teldi fólk hann vera vitlausan. Hann eigi erfitt með rökhugsun og erfitt með að tengja tímasetningar.

Vitnið C gaf tvisvar skýrslu við rannsókn málsins. Fyrri skýrsluna gaf hann 7. maí 2012. Þar kom fram að hann og A hefðu þekkst í einhver ár. Aðspurður kvaðst hann lítið vita um atvik en kannast við að hafa hitt A að morgni 11. desember 2011 og hafi A þá verið fullur. Hann sagði ákærða hafa látið A drekka áfengi heima hjá sér. Hann hafi svo hitt A aftur í [...] bakaríinu eftir að hann kom frá ákærða og þeir síðan farið heim til vitnisins. Hann sagði A hafa átt að fá mótorhjól hjá ákærða en geti ekkert sagt nánar til um það. A hefði sagt sér um morguninn í bakaríinu að honum hefði verið nauðgað en hafi ekki viljað fara út í nein smáatriði. Seinni skýrsluna gaf C 4. apríl 2013. Þá sagðist hann hafa átt erfitt með að tjá sig í fyrri skýrslunni þar sem faðir hans hafi þá verið viðstaddur og það hafi honum fundist vera vandræðalegt. Hann lýsti því að hann hefði farið með A heim til ákærða í umrætt sinn en ekki farið sjálfur þangað inn. Vitnið hafi beðið eftir A í bakaríinu og farið þangað aftur með A þegar hann kom frá ákærða. Ástæða þess að A fór heim til ákærða var sú að hann fengi hjólið ef ákærði fengi að totta A. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð hjólið en ákærði hafði áður talað um hjólið við hann og þá beðið hann um að hjálpa sér með það. Vitnið sagði að A hafi sagt honum að ákærði hafi fengið að ríða honum en það hafi hann ekki viljað og þeir hafi ekki verið búnir að ræða það áður en A fór heim til ákærða. Hann sagði að A hafi ekki verið undir áhrifum áfengis þegar hann fór til ákærða en verið „soldið fullur“ þegar hann kom frá honum. Hann skildi A svo að [...] ákærða hafi komið heim á meðan eða eftir að atvik gerðust. Áður en A fór til ákærða hafi hann verið búinn að ræða við vitnið um að tottið hafi átt að vera greiðsla fyrir hjólið. Þá sagði hann að ákærði og A hafi áður verið búnir að ræða þetta á Facebook. Aðspurður sagði hann að A hafi ekki liðið vel. Það hafi verið vegna þess að það hafi verið hommi sem var að gera þessa hluti við hann og það hafi A ekki verið sáttur við.

Meðal rannsóknargagna er tvær útprentanir af samskiptum ákærða og A á Facebook. Samkvæmt skýrslu lögreglu er í báðum tilvikum um að ræða skjöl sem sótt voru í tölvu á heimili vitnisins A. Annars vegar er um að ræða samskipti milli ákærða og A á Facebook og hins vegar sömu samskipti þar sem myndir höfðu verið teknar út.

Þá liggja fyrir gögn um símtöl milli símanúmera ákærða og A 11. desember 2011. Þar kemur fram að A hringdi úr farsíma sínum með símanúmerið [...] í númer ákærða [...] klukkan 06.10.06, 06.26.08 og 12.56.55. Fyrsta símtalið varaði í 50 sekúndur, annað í 914 sekúndur og það þriðja í 6 sekúndur. Þá var hringt úr síma á heimili ákærða, [...], í farsíma A, klukkan 05.13.56 og varaði símtalið í 2572 sekúndur. Þá sýna gögnin einnig að símtöl áttu sér stað milli farsíma þeirra 16. og 30. desember og ítrekað í janúar 2012.

Fyrir liggur niðurstaða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um A frá 28. ágúst 2009. Þar kemur fram að hann hafi komið þangað í þverfaglega athugun auk þess sem ítarlegra upplýsinga hafi verið aflað frá foreldrum hans. Greiningarviðtal einhverfu hafi sýnt einkenni yfir greiningarmörkum á sviði félagslegs samspils og máls og tjáskipta. Ekki hafi verið til staðar einkenni á sviði sérkennilegrar eða áráttukenndrar hegðunar. Við athugun á einkennum á einhverfurófi (ADOS) náðu hegðunareinkenni ekki greiningarmörkum. Mestu erfiðleikarnir hafi komið fram í félagslegri aðlögun. Hann hafi átt erfitt með að fara eftir fyrirmælum, hlíta reglum og hann þurfi aðhald í athöfnum daglegs lífs. Athugunin hafi staðfest að um röskun á atferli sé að ræða. Um sé að ræða röskun á einhverfurófi, með ofvirkniröskun og athyglisbrestsvanda og fékk A greininguna einhverfurófsröskun, ofvirkni og athyglisbrestur og blandaða röskun á námshæfni.

Við rannsókn málsins var tölva ákærða haldlögð og við leit í henni fundust þrjár skrár sem af lögreglu voru taldar innihalda myndskeið sem sýndi kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Þar á meðal er sú skrá sem tilgreind er í III. kafla ákærunnar.

Í framlagðri skýrslu E, sálfræðings í Barnahúsi, frá 22. júlí 2013 er gerð grein fyrir meðferðarviðtölum við A. Þar er áðurnefnd greining hans rakin og því lýst að hann hafi átt við langvarandi hegðunarvandkvæði að stríða og hafi þurft töluverðan stuðning, m.a. í skólanum þar sem stuðningsfulltrúi hafi fylgt honum allan daginn. Hann hafi sótt 6 viðtöl í Barnahúsi á tímabilinu 21. mars til 29. nóvember 2012. Þar kemur fram að A hafi aldrei átt frumkvæði að umræðuefni og hafi svarað því sem hann var spurður um í stuttu máli. Hann tjáði sig ekki greiðlega um hluti, sem rekja megi til þeirra annmarka sem greining á einhverfurófi hefur í för með sér. Hann hafi t.d. ekki verið gefinn fyrir málalengingar og fékkst ekki til að skoða, skilgreina og/eða útskýra hluti nánar, sérstaklega ekki það sem sneri að tilfinningum og/eða líðan og hinu meinta kynferðisbroti. Þá segir í skýrslunni að þeir annmarkar sem fylgja greiningu á einhverfurófi geri það erfiðara að leggja mat á það hvaða afleiðingar meint broti hafi haft fyrir A og hverjar langtímaafleiðingar kunni að verða. Aðallega sé það vegna þess hve erfitt það hafi verið að fá fram tjáningu á tilfinningum/líðan og hugsunum um meint kynferðisbrot og einnig hafi ekki nægilega mörg viðtöl farið fram. Ekki hafi verið unnt að leggja fyrir A sálfræðileg próf til að meta líðan hans þar sem honum fannst spurningarnar vera asnalegar og svaraði hann þeim öllum með því að merkja „núll“ við í svarmöguleikanum. Skýrsluritari telur að þau svör endurspegli hins vegar ekki raunverulega líðan hans heldur miklu fremur einkenni um röskun einhverfurófi. Eiginleg meðferðarvinna hafi aldrei farið fram og óvíst hvort slík meðferð gæti gagnast A.

III.

Ákærði sagði í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins að hann og A hafi þekkst áður en atvik málsins gerðust, hafi átt sameiginlega vini og hafi gert ýmislegt þegar þeir voru yngri. Hann staðfesti að hafa verið í samskiptum við A á Facebook og símleiðis og kvaðst hafa haft kynferðislegan áhuga á A á þeim tíma þegar samskipti þeirra á Facebook hófust í október 2011 en hann hafi ekkert frekar verið að reyna við A. Aðspurður fyrir dómi um spurningar hans á Facebook til A kynferðislegs eðlis kvaðst hann einungis hafa verið að tala um hluti sem hann hefði heyrt um A. Hann kvaðst ekki muna hvor þeirra hafði frumkvæði af samskiptunum en þeir hafi byrjað að tala saman af því að hann átti mótorhjól. Hann hefði áður talað um þetta sama mótorhjól við vitnið C.

Ákærði sagði hann og A hafa hist að morgni 11. desember 2011 og það hafi verið í eina skiptið sem kynferðisleg samskipti hafi verið á milli þeirra. Hann lýsti atvikum svo að vitnið C hafi komið með A heim til hans en C hafi farið strax á brott sjálfur en A hafi orðið eftir. Ákærði og A hafi áður verið búnir að mæla sér mót og ætlun þeirra hafi verið sú að ákærði hefði munnmök við A. Hann kvaðst ekki muna hvor hafði frumkvæðið en þeir hafi verið í símasamskiptum þennan dag. Ákærði kvaðst hafa gefið A áfengi eftir að hann bað um það. Einungis hafi verið um einn eða tvo sopa af Bacardi Razz að ræða. Samskipti þeirra hafi í fyrstu verið vandræðaleg og hafi þeir horft á einhverja mynd, Top Gear, en A hafi síðan farið að ýta á eftir munnmökum og hafi ákærði samþykkt þau. A hafi því haft frumkvæðið. Ákærði hafi veitt A munnmök og hafi þau átt sér stað á neðri hæð hússins. Á meðan hafi [...] komið heim og hafi þeir þá gert hlé en haldið áfram inni á baðherbergi eftir að hann fór aftur. A hafi beðið um að þeir færu þangað til frekari kynmaka og að þeir læstu að sér. Þar hafi ákærði haft endaþarmsmök við A. Þetta hafi verið eitthvað neyðarlegt í fyrstu en allt í góðu. Á meðan þetta átti sér stað hafi C oft hringt í A og verið að ýta á hann að flýta sér. Taldi ákærði það líklegt að C hafi vitað hvað þeir hafi ætlað að gera þar sem hann og A hafi verið vinir. Þetta hafi endað með því að A fékk sáðlát þegar ákærði var að hafa við hann endaþarmsmök. Hann sagði að A hafi verið í um klukkustund hjá sér.

Ákærði kvaðst hafa átt gamalt mótorhjól, Honda MT, eldgamlan „krossara“ sem hann hafi fengið í fermingargjöf. Hann taldi að varla hafi verið peningaverðmæti í hjólinu. Borin var undir ákærða lýsing hans á hjólinu í Facebook-samskiptum hans við A en þar skrifar hann: „samt er eiginlega allt nýtt nema bensíntankurinn sem er heill þarf bara að sprauta hann sem er ekkert mál og svo setja kúpplingssbarka og ef þú vilt annan afturdempara en þessi eini hefur alveg haldið“ og taldi hann að þetta hafi verið rétt lýsing á ástandi hjólsins eins og það var þá en eigi ekki við lengur. Þá kvaðst hann einnig hafi átt brynju, galla og hjálm sem hafi verið meira virði en hjólið sjálft í því ásigkomulagi sem hjólið var þá. Þeir hafi rætt um það að A fengi hjólið og fylgihlutina. Hann hafi verið búinn að senda A mynd af hjóli sömu tegundar og staðfesti að mynd í rannsóknargögnum lögreglu gæti verið myndin og að hún sýndi sambærilegt hjól og hans. Ákærði taldi að þeir hafi byrjað kannski um mánuði áður en þeir hittust að ræða um að A fengi hjólið. Þeirri umræðu hafi verið lokið þegar þeir hittust en þó hafi eitthvað enn verið óljóst um það hvernig þetta ætti að fara fram. Umræðan hafi alla vega verið komin mjög langt. Þegar borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu um að umræðu um þetta hafi verið lokið mánuði áður en þeir hittust sagði hann ástæðu þess að hann sagði það vera þá að langt hafi verið um liðið og hann hafi kannski ekki munað þetta. Þeir hafi verið búnir að ræða um að A fengi ekki hjólið en það hafi breyst í að hann fengi kannski hjólið. Það hafi verið rætt nokkrum dögum áður. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hver hafi átt frumkvæði að þessari umræðu. Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa verið tilbúinn til að láta A hafa hjólið í staðinn fyrir kynmök. Þeir hafi verið strákar og hafi ákveðið að gera þetta. A átti að fá hjólið í staðinn fyrir að ákærði hafði við hann munnmök og endaþarmsmök. Ákærði átti að afhenda hjólið þegar hann gæti. Hann kvaðst hafa ætlað að selja hjólið og hafi strákur ætlað að kaupa það á 150.000 krónur og hafi hann sagt A að það væri verðmæti hjólsins. A hafi átt frumkvæði að því að hann greiddi fyrir hjólið á þennan hátt þar sem hann hafi ekki átt pening. Þetta hafi fyrst komið til tals í símtali þegar A hringdi í hann og hafi ákærði þá talið að hann væri að grínast.

Borin var undir ákærða framlögð óbreytt útprentun af samskiptum ákærða og A á Facebook, bls. 15-26. Ákærði kvaðst kannast við þau samskipti sem þar koma fram og eru frá 11. desember 2011. Þá kvaðst hann ráma í efnislegt innihald samtalsins og að hafa talið að munnmök væru lítið endurgjald fyrir hjólið og að A hafi einungis viljað munnmök. Þá voru borin sérstaklega undir ákærða skrif hans sem koma fram á bls. 16 í útprentuninni en þar segir „okey en ef þú færð allt draslið með má ég þá prófa pínku? ætla ekkert að ríða þér bara prófa aaaaaðeins ætti það ekki að sleppa“. Ákærði sagði að sér sýndist að hann hafi þarna verið að biðja um eitthvað meira en A var tilbúinn að gera. Hann taldi að hann hafi ekki verið að neyða A til neins. Hann kvaðst telja að A hafi haft frumkvæði að því að þeir hittust og að honum hafi ekki síður en ákærða fundist þetta vera spennandi og taldi að hann hafi langað til að prófa eitthvað. Þá var borinn undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem fram kom að hann hafi talið að verðmæti hjólsins hafi verið 150.000 krónur og hann hafi talið það vera of háa greiðslu fyrir kynmökin. Ákærði staðfesti þetta fyrir dómi en sagði að hann hefði ekki mikla möguleika á [...] í þessum efnum og hafi því verið tilbúinn til að láta hjólið fyrir þetta. Hann viti ekki nákvæmlega hvers virði hjólið var en taldi að hann hafi ekki verið með gylliboð. A hafi ráðið þessu en sjálfur hafi hann verið búinn að fá tilboð um 150.000 krónur. Fyrir honum hafi hjólið ekki verið neitt sérstaklega verðmætt, hann hafi verið í vinnu og átti nóg af peningum. Aðspurður sagði ákærði að honum fyndist ekki vera augljóst að hann hafi verið að reyna að fá A til að koma til hans og fá þessi verðmæti í staðinn kynmök. A hefði alveg eins gert þetta án greiðslu. Þá var borin undir ákærða útprentun af samskiptum ákærða A á Facebook 18. og 19. desember 2011 þar sem A er að ýta eftir því að fá hjólið. Ákærði sagði að hjólið hafi þá verið á verkstæði í [...]. Sá sem átti það hafi misst húsið og hjólið því verið þar fast þar í einhvern tíma. Hann hafi sagt A að hann gæti ekki náð í það strax og hafi A tekið því illa.

Þá var borinn undir ákærða útprentun af Facebook 18. desember 2011 þar sem ákærði skrifar að hann hafi gefið A fullt af áfengi. Sagði ákærði þetta hafa verið rangt og hafi hann skrifað þetta af því að A var búinn að vera að hrauna yfir hann. Einnig var borinn undir ákærða útprentun frá sama degi þar sem ákærði skrifar að það sé ekki „sjens“ að hann láti A hafa hjólið þar sem dráttur kosti bara 25.000 krónur. Loks var borinn undir hann útprentun frá 19. desember 2011 þar sem A skrifar: „sidast sagdiru bara tott og svo sagdiru ad tad vaeri ekki nogu mikid svo tufti eg ad rida ter til ad fa hjolid“. Ákærði svaraði þessu svo að málið hafi verið lagt upp þannig að það hafi verið munnmök plús ríða fyrir hjólið. Þeir hafi hins vegar ekki verið búnir að ræða fylgihluti meira. Ætlun hans hafi alltaf verið sú að afhenda hjólið en þegar komið var fram í janúar 2012 hafi hann ekki lengur haft áhuga á að standa við þetta, láta senda hjólið [...] og borga kostnað eftir það sem A hafi þá verið búinn að segja við hann. Þá sagði hann að það væri ýmislegt sem A hafi sagt við hann. Aðspurður sagði ákærði að aldrei hafi verið rætt um peningagreiðslu frá ákærða til A fyrir kynmökin og að seinustu samskipti þeirra áður en þeir hittust umrætt sinn hafi verið í gegnum síma.

Ákærði sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að erfitt væri að vera ungur samkynhneigður einstaklingur á [...]. Sjálfur hafði hann ekki átt kærasta á þessum tíma og hafi verið að þreifa fyrir sér. Hann og A hafi verið jafnir þátttakendur og ekki hafi verið um neinar þvinganir að ræða. A sé stærri en hann og hefði getað lamið hann. Þá kvaðst hann að hafa í samskiptum við A á Facebook verið að opna á kynferðislega umræðu. Sérstaklega var borin undir ákærða útprentun frá 25. október 2011 þar sem ákærði spyr A hvort allir megi sjá spjall sem átti sér stað milli þeirra þar sem þeir ræddu um kynferðislega hluti sem A hefði lýst þar. Þá spurði ákærði þar einnig hvort það væri einhver ástæða til að hann gerði A greiða. Ákærði svaraði því til að hann teldi að hann hafi sagt þetta þar sem þeir hafi verið orðnir ósáttir. Hann neitaði því að með þessu hafi hann verið að reyna að ná taki á A eða lokka hann til að gera eitthvað.

Hvað varðar II. ákæruliðinn vísað ákærði til afstöðu sinnar við þingfestingu þar sem bókað var eftir honum að hann hafi ekki veitt A áfengi heldur hafi þeir neytt áfengis saman. Ákærði sagði A hafa séð vínskáp heima hjá sér og beðið um að fá eitthvað af áfengi. Sjálfur hafi hann verið ragur við að gera það þar sem foreldrar hans áttu áfengið. Hann hafi hellt einu sinni smá úr Bacardi flösku og gefið A. Hann sagði A ekki hafa verið undir sjáanlegum áhrifum þegar hann kom. Þá taldi hann að áfengisneysla hans heima hjá ákærða hafi ekki haft áhrif á hann og vísaði til þess að hann hafi farið burtu hjólandi, í hálku. Hann kvaðst ekki muna hvort þeir hafi drukkið áfengi saman en kvaðst sjálfur hafa verið að drekka eitthvað.

Aðspurður um III. ákærulið sagði ákærði að hann hafi farið í gegnum póstinn sinn og fundið tölvupóstinn þegar honum var sent myndskeiðið. Hann kvaðst hafa fengið póstinn 27. mars 2011. Hann sagði vin sinn F hafa sent honum þetta. Hann kvaðst ekki hafa skoðað póstinn þegar hann fékk hann og taldi að hann hafi farið fram hjá honum. Ákærði kannaðist við að hafa móttekið og geymt póstinn en hann hafi ekki séð myndskeiðið. Verið gæti að hann hefði opnað skrána einhvern tímann en hann hafi ekki séð myndina áður.

Vitnið A sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að hann þekkti ákærða varla neitt en vissi að hann héti Hjálmar Forni. Ekki hafi verið mikil samskipti milli þeirra árið 2011 og kvaðst hann ekki vita til þess að þeir væru í sameiginlegum kunningjahópi. Fyrsta skiptið sem þeir töluðu saman hafi verið þegar ákærði hringdi um miðja nótt og bauð honum að kaupa mótorhjól. Þetta hafi verið sama dag og þeir hittust. Vitnið sagðist halda að ákærði hafi vitað að hann hefði áhuga á mótorhjólum. Hann kvaðst hafa boðið ákærða þann pening sem hann átti þá fyrir hjólið en muni ekki hve mikið það var. Þá kvaðst hann ekki muna eftir því að ákærði hafi talað um 150.000 krónur. Vitnið sagði ákærða hafa, löngu áður en þeir hittust umrætt sinn, verið að hrekkja hann, t.d. hafi hann kannski komið upp að vitninu í strætisvagni og sagt að hann elskaði vitnið. Kvaðst hann ekki hafi tekið þetta alvarlega en haldið að ákærði hafi verið að reyna við hann. Ákærði hafi sagt honum að koma heim til sín og ræða um mótorhjólið. Hann hafi farið til ákærða sem hafi gefið honum mjög mikið áfengi, Bacardi Razz. Hann hafi orðið blindfullur en ákærði hafi ekki verið að drekka. Um atvik heima hjá ákærða vísaði A til fyrri skýrslu frá 9. febrúar 2012. Hann staðfesti að munnmök og endaþarmsmök hafi átt sér stað milli þeirra og kvaðst halda að það hafi verið planið hjá ákærða að gera hann blindfullan. Hann kvaðst varla hafa staðið í lappirnar vegna ölvunar. Eiginlega ekkert hafi verið rætt um mótorhjólið. Sjálfur hafi hann ekki tekið því þannig að ákærði hafi verið að bjóða honum hjólið til að hafa við hann mök. Hann kvaðst hafa verið spenntur fyrir þessu mótorhjóli og hélt að ákærði gæti selt honum það fyrir lítið. Hann kvaðst hafa farið til ákærða til að fá hjólið, til að ræða um það. Hann staðfesti að hafa fengið senda mynd af hjóli frá ákærða en sagði það ekki hafa verið mynd af hjóli ákærða. Hann sagði að verið gæti að ákærði hafi vitað í gegnum C að hann hefði áhuga á mótorhjólum og taldi að það gæti verið ástæða þess að ákærði setti sig í samband við hann.

Þá voru borin undir vitnið samskipti sem, samkvæmt framlögðum gögnum, áttu sér stað á Facebook milli hans og ákærða 11. desember 2011 þar sem ákærði skrifar: „okey en ef þú færð allt draslið með má ég þá prófa pínku? ætla ekkert að ríða þér bara prófa aaaaaðeins ætti það ekki að sleppa“. Vitnið kvaðst muna eftir þessu og kvaðst hafa tekið þessu þannig að þetta væri hommi að reyna við hann. Hann hafi ekki farið heim til ákærða til að ákærði mundi totta hann og hann fengi þá hjólið. Hann hafi ekki farið til ákærða til að hafa við hann mök, það hafi gerst eftir að hann varð blindfullur. Þeir hafi talað saman í síma um morguninn eða um miðja nótt, áður en hann fór til ákærða, en þar hafi ekkert verið rætt um mótorhjólið. Hann kvaðst ekki muna hvar hann hitti C eða hversu lengi hann var hjá ákærða en muni að hann fór síðan heim til C. Síðar í framburði vitnisins rifjaðist upp fyrir ákærða að hann hafi hitt C í bakaríi eftir atvikið. Aðspurður um samskipti hans og ákærða á Facebook þar sem fram kemur að hann virðist samþykkja „Tott“ svarar hann því að hann gæti hafa verið að stríða ákærða aðeins. Þá sagði vitnið að engin alvara væri að baki því sem hann sagði á Facebook og að það væri munur á því sem hann segði á netinu og í alvöru.

Þá var borin undir vitnið útprentun af Facebook-samskiptum milli hans og ákærða frá 18. desember 2011 þar sem vitnið virðist vera að krefja ákærða um hjólið og það spurt hvort þeir hafi á þeim tíma verið búnir að semja um að hann fengi hjólið. Þessu svaraði vitnið neitandi. Hann sagði ákærða hafa verið búinn að lofa honum hjóli sem hann hafi ætlað að kaupa af ákærða. Hann sagðist hafa haldið að hann fengi það kannski í skaðabætur.

Þá voru borin undir vitnið samskipti þeirra á Facebook 18. desember 2011 þar sem vitnið skrifar: „tad var dillinn við vorum bunir að semja annað hvort 150 thus kall eða hjkolid...saettu tig bara vid tad“. Ákærði svarar þessu „það þarf þá að klára samninginn“ og vitnið svarar því „tu platar mig ekki i neitt aftur“. Um þetta sagði vitnið að hjólið hafi greinilega átt að kosta 150.000 krónur. Ákærði hafi svo í símtalinu sagt að hann ætlaði að gefa honum hjólið. Þeir hafi ætlað að tala um það heima hjá ákærða hvað vitnið hafi átt að gera. „Ræða viðskipti.“ Þetta hafi hins vegar ekki verið rætt þegar hann kom þangað. Ákærði hafi gert hann blindfullan, hann hafi rúllað, hann hafi verið svo fullur, drukkið næstum hálfan lítra af áfengi.

Aðspurður kvaðst A ekki vera samkynhneigður eða forvitinn um að vera með strák. Aðspurður um samskipti milli hans og ákærða á Facebook 11. desember 2011, þar sem vitnið segir „jájá en brunda upp í þig“, segist hann hafa verið að hrekkja ákærða. Þá sagði vitnið að í símtalinu áður en þeir hittust hafi þeir talað um mótorhjólið. Hann sagði ákærða hafa vitað af því að hann hafði áhuga á því og kannski lokkað hann þannig. Hann sagði að verið gæti að ákærði hafi haldið að hann vildi eitthvað. Hann sagði að málið væri vandræðalegt fyrir hann. Hann eigi erfitt með að segja frá og líði mjög illa yfir þessu. Þá líði honum sérstaklega illa út af símtali sem hann hafi fengið frá [...] ákærða sem hafi hringt í hann þegar hann hafi verið á leið í Barnahús í skýrslutöku. [...] hafi í símtalinu hótað því að flá vitnið lifandi. Síðan þá, í þessi tvö ár, hafi hann verið mjög hræddur ef hann þekkir ekki númer sem hringt er í hann úr eða ef hann sér „tattúeraðan“ gaur. Hann tékki t.d. á öllum bílum sem koma að húsinu til að athuga hvort þar sé þessi handrukkari að koma. Vitnið lýsti því að hann væri nú í menntaskóla en kvaðst ekki telja að atvikið hafi bitnað á náminu. Aðspurður um það af hverju þetta hafi gerst sagði vitnið að maður sé ekki beint klárast náunginn þegar maður er fullur. Þá taldi hann að þeir hafi báðir átt hugmyndina að því að hann færi að drekka en muni ekki hvort hann hafi beðið um að fá áfengi.

Vitnið B, móðir vitnisins A, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hún teldi að atvik hafi gerst sama dag og [...]mótið fór fram eða 11. desember 2011 en yngri sonur hennar hafi verið að keppa á mótinu. Áður en hún fór að heiman þennan dag hafi hún athugað með A og hann hafi ekki verið í rúmi sínu. Hún hafi fyrst séð hann þennan dag, kannski um hálfþrjúleytið og hafi henni fundist hann þá vera undir áhrifum áfengis en geti þó ekki staðfest það. Hún sagði D dóttur sína hafa bent sér á þetta á Facebook-síðu A, sem hafi verið opin, og hafi hún orðið sannfærð um að þeir hefðu haft mök. Þegar hún spurði A um þetta hafi hann sagt að ákærði hafi nauðgað sér. A hafi einnig sagt henni að hann hafi ekki getað barist á móti ákærða þar sem hann hafi verið blindfullur. Hún lýsti því að A væri almennt mjög lokaður, t.d. segi hann ekki frá þegar einhver lemji hann. Þá sagði hún hann vera hvatvísan og ekki ráða við tilfinningar sínar. Þá lýsti hún því að A hefði nokkrum sinnum séð ákærða eftir að atvikið átti sér stað og hefði það almennt reynst honum erfitt.

Vitnið sagði C, fyrrverandi vin A, hafa átti mótorhjól og A hafi einnig langað í hjól. Hún sagði ákærða hafa lofað A hjólinu og taldi hún að hann hafi haldið að hann væri að fara að skoða það. A hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar hann frétti að hjólið væri fyrir sunnan. A hafi einungis talað um að hann ætti 25.000 krónur fyrir hjólinu en hafi ætlaði að safna meira. Nokkrum dögum áður en þetta gerðist hafi A talað um að hann væri að fara að fá hjól og hafi hún orðið vör við að hann væri að tala við ákærða í símann viku fyrir þetta atvik. Eftir atvikið hafi A ekkert talað um ákærða. Þá var borinn undir vitnið framburður hennar í skýrslu hjá lögreglu þar sem hún sagði að A hafi átt að fá hjólið ókeypis. Sagði hún þá að A hafi á sínum tíma sagt að hann ætti að fá hjólið ókeypis, það hafi ekki verið fyrr en í gær, daginn fyrir aðalmeðferð málsins, sem hann hafi sagt henni frá greiðslum og að hann hafi verið að safna fyrir því.

Vitnið lýsti því að A hafi fengið símtal frá einhverjum tengdum ákærða áður en hann gaf skýrslu í Barnahúsi og sá hafi hótað því að drepa hann. Hún segir að þetta hafi truflað hann mjög þegar hann gaf skýrslu. Þá sagði hún A hafa gjörbreyst eftir atvikið og hafi henni fundist eins og hún hafi misst barnið sitt þennan dag. Hann hafi verið orðljótur og erfiður en hún hafi haldið að þetta væri eitthvað tengt unglingsaldrinum. Hún taldi að A skammaðist sín mikið fyrir það sem gerðist og hafi hann ekki sagt henni meira um það. Vitnið sagði að A hafi átt erfitt frá því atvikið gerðist og þar til í haust en þá hafi allt farið að ganga betur. Dagurinn, þegar aðalmeðferð málsins fór fram, hafi hins vegar einnig verið honum erfiður og hafi hann verið mjög kvíðinn. Vitnið sagði A hafa greinst með röskun á einhverfurófi og sé einnig hvatvís. Hann eigi erfitt með að greina á milli þess sem er rétt og rangt. Það eigi ekki bara við þegar hann sé að gera eitthvað heldur einnig þegar eitthvað sé gert við hann. Þá vilji hann ekki tala um hlutina. Vitnið sagði að hann hefði sagt sér daginn áður að hann vildi frekar að ákærði kæmist upp með þetta en að hann gæfi skýrslu.

Vitnið G, faðir vitnisins A, sagði í skýrslu sinni að þegar hann hafi fyrst heyrt af ætluðu broti gegn A hafi A verið ómögulegur, honum hafi liðið illa og mikil breyting hafi verið orðin á honum. Þetta hafi bitnað á öllu, bæði skóla og heimili. Síðasta sumar hafi hann farið að lagast og hafi m.a. farið að vinna.

Vitnið D, systir vitnisins A, lýsti því fyrir dóminum að hún hafi verið að skoða samtöl bróður síns inni á Facebook og hafi þá séð samtöl á milli hans og ákærða og sagt mömmu sinni frá þeim og sýnt henni þau. Seinna hafi lögreglumaður beðið hana um að „skreenprinta“ þau og hafi lögreglan fengið þau gögn. Hún sagði að þau A hafi alltaf verið miklir vinir en hann hafi verið erfiður á þessu tímabili, skapstór og breyttur. Nú sé hann hins vegar að lagast. Vitninu voru kynnt tvö framlögð skjöl er innihalda útprentanir af samskiptum ákærða og A á Facebook og kvaðst hún ekki hafa átt við neitt annað en myndirnar í gögnunum.

Vitnið C kvaðst hafa verið vinur A þegar atvik gerðust en svo væri ekki núna. Hann sagði A hafa langað í mótorhjól en ekki átt fyrir því og hafi almennt verið að athuga þetta. Vitnið sagði ákærða hafa boðið honum hjól. Hann hafi líklega í desember 2011 farið með A heim til ákærða en ákærði og A hafi áður verið búnir að tala saman á Facebook. Hann kvaðst hafa vitað að ef ákærði mundi totta A þá mundi A fá hjólið. Aðspurður sagði hann þetta hafa átt að gerast af því að A vildi fá hjólið en hann hafi ekki vitað hver hafi átt hugmyndina. A hafi verið rólegur og ekki undir áhrifum áfengis þegar hann fór til ákærða en það hafi verið að morgni, líklega um klukkan átta. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða en ekki farið inn hjá honum. Vitnið hafi svo hitt A þegar hann kom frá ákærða en kvaðst ekki muna eftir að hafa hringt í A á meðan hann var hjá ákærða. Þá kvaðst hann ekki muna hvort A hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hann kom til baka frá ákærða en efaðist um það. Undir vitnið var borinn framburður hans hjá lögreglu um þetta en þar sagði vitnið að það hafi sést að A var ölvaður þegar hann kom til baka. Um þetta misræmi vísaði vitnið til þess tíma sem liðinn var. Þá kvaðst hann ekki muna hvort A talaði um það hvort hann hefði verið að drekka. Þá staðfesti hann að A hafi hjólað út í [...] eftir atvikið. Aðspurt kvað vitnið sig ráma eitthvað í að A hafi einnig átt að fá fylgihluti eða hjálm eða eitthvað slíkt.

Vitnið sagði hann og A ekki hafa talað mikið saman um það sem gerðist heima hjá ákærða. A hafi þó sagt að þeir hafi haft endaþarmsmök, einnig hafi hann talað um tott. Þá kvaðst hann ekki vita til þess að A hafi tekið þetta nærri sér. Hann kvaðst hafa vitað að ákærði og A hafi verið í tölvusamskiptum en aldrei hafi komið fram hjá A að samskiptin á Facebook hafi verið grín. Þá kvaðst hann ekki muna hvort A hafi sagt honum frá því að hann og ákærði hafi verið í símasambandi. Eftir að honum hafði verið kynntur framburður sinn hjá lögreglu breytti hann framburði sínum á þann veg að hann hefði vitað af því að þeir voru í símasamskiptum. Aðspurður sagði vitnið að honum hafi ekki fundist eins og A hafi breyst eftir atvikið eða að hann gæti ekki talað um það sem gerðist.

Vitnið kvaðst hafa vitað að ákærði ætti mótorhjól og hafi ákærði verið búinn að biðja hann um að hjálpa sér með það. Hann sagðist vitnið ekki hafa neitt haft með það að gera að koma á samskiptum milli A og ákærða. Aðspurður um samskipti á Facebook 18. desember 2011 milli vitnisins og A, þar sem vitnið skrifar; „jaa... Ókei. en herna dillinn var að þið báðir myndu fá það“, kvaðst hann ekki muna eftir þessum samskiptum. Aðspurður um samskipti þeirra á Facebook sama dag þar sem vitnið segir; „held þu verðir að gera þetta ef þu villt fa hjólið“, kvaðst hann heldur ekki muna eftir því en sagði að hann hlyti að hafa sagt þetta fyrst þetta stendur þarna. Þá kvaðst hann sjálfur aldrei hafa ætlað að fá þetta hjól. Þá var borinn undir vitnið framburður hans hjá lögreglu 4. apríl 2013 þar sem hann segir að A hafi verið búin að segja honum áður en atvik gerðust að tottið hefði átt að vera greiðslan fyrir hjólið. Hann sagði þetta rétt eftir sér haft og að fyrirfram hafi ekki verið talað um endaþarmsmökin.

Vitnið H, starfsmaður barnaverndar í [...], sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hafi tekið viðtal við foreldra A eftir að málið kom upp. Frekari könnun hafi ekki farið fram af hálfu barnaverndar og hafi verið talið að það sem fram hafi verið komið dygði til að lögreglurannsókn færi fram. Þá kom fram hjá henni að ekki hafi verið gerð önnur greining á A eftir að kæran kom fram. Hún sagði A hafi verið með hegðunarvandamál í skóla og ætti það rætur að rekja til greiningarinnar en kvaðst ekki þekkja hvort komið hafi upp vandamál sem eigi orsök að rekja til þessa atviks.

Vitnið I lögreglufulltrúi lýsti því í skýrslu sinni fyrir dóminum að hann hafi, þegar málið kom upp, tekið tölvu A af heimili hans en komið með hana til baka daginn eftir. Þá hafi D, systir A, vísað honum á gögnin. Þegar hann kom hafi D verið byrjuð á því að taka myndir úr skjalinu til að minnka umfang þess vegna útprentunar. Skjalið sé þannig í gögnum málsins en einnig séu þar ómenguð gögn, þ.e. með myndunum. Hann kvaðst hafa séð heimasíðuna opna og taldi að ekkert hafi verið átt við gögnin. Þá sagði vitnið að D hafi sent honum mynd af mótorhjóli, sem liggi fyrir í rannsóknargögnum, en hún hafi sagt að hún hafi séð þessa mynd í tölvunni. Vitnið kvaðst hafa kannað með svona hjól á netinu og fundið þessa sömu mynd þar. Ekki hafi verið talin ástæða til að senda tölvu A til frekari rannsóknar. Þá hafi lögregla haldlagt gögn úr tölvu sakbornings sem hafi verið á dvalarstað hans á [...]. Þau hafi verið send til Reykjavíkur til tæknirannsóknar. Þá staðfesti vitnið að lögreglu hefðu borist upplýsingar um símtal sem A barst þegar hann var á leið í Barnahús til skýrslugjafar.

Vitnið J lögreglufulltrúi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann staðfesti að hann hafi fundið þrjú myndskeið í tölvu ákærða og taldi hann að tvö þeirra hafi innihaldið barnaklám en það þriðja sýnt íslenskan, ungan mann að runka sér og hafi hann einnig tekið það myndskeið til hliðar. Hann sagði að slóðin D\Users\K\Downloads\allt\[...] sé slóð eins af þessum þremur myndskeiðum. Hún bendi til þess að notandi skrárinnar sé K. Um sé að ræða sjálfgefna staðsetningu skrár sem notandi hefur hlaðið niður. Bæði getur verið um að ræða niðurhal af netsíðu eða tölvupósti. Hann hafi hins vegar ekki forsendur til að sjá á hvaða hátt skráin barst í tölvuna. Aðspurður sagði hann að skráning á „skrá búin til“ og „síða opnuð“ hafi litla merkingu en geti átt við um það þegar skráin var búin til hvar sem það var gert. Tölva ákærða hafi verið með Windows 7.0 stýrikerfi. Það kerfi hafi breytt því hvernig tölvur höndla dagsetningar á skrám. Áður hafi verið búnar til þrjár dagsetningar, hvenær skrá var búin til, hvenær hún var búin til í viðkomandi tölvu og hvenær hún var síðast opnuð. Í Windows 7.0 sé þessum dagsetningum ekki breytt og þeim ekki haldið við af stýrikerfinu sjálfu. Dagsetningin „síðast breytt“ sé líklega dagsetningin þegar skrá er búin til í tölvu en segir ekkert um það hvenær hún var opnuð. Hann kvaðst hvorki geta staðfest né neitað því að ákærði hafi fengið skrána í tölvupósti 27. mars 2011. Hér sé um að ræða sömu dagsetningu og „síðast breytt“ en það sé yfirleitt dagsetningin þegar skrá er opnuð eða eitthvað er átt við hana og hún er vistuð niður en þá verði að gefa sér það að dagsetning í tölvu sé rétt. Aðspurður sagði hann að stærð skrárinnar, 2.707.456 bit, sé sú sama og stærð viðhengis í þeim tölvupósti sem ákærði lagði fram og sagði að hefði borist sér 27. mars 2011, eða 2,6 megabite. Aðspurður um skráninguna „nei“ sem merkt er við “eydd skrá“ sagði vitnið það merkja að skránni hafi ekki verið eytt. Þá sagðist vitnið ekki geta ályktað af dagsetningunni „síðast breytt“ hvort skráin hafi verið skoðuð eða einungis vistuð.

Vitnið E, sálfræðingur og starfsmaður Barnahúss, sagði í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins að A hafi verið boðin meðferð í Barnahúsi og að greining hans hafi haft áhrif á það hvernig meðferðarvinna gekk. Samtalsmeðferð hafi ekki hentað honum og hafi hann setið og hlustað á fræðslu. Hún sagði það samrýmast greiningu hans að honum gangi illa að tjá sig með orðum. Hann hafi lítið viljað tala um tilfinningar sínar og líðan. Þá sagði hún að almennt væri meira samþykki fyrir því í samfélaginu að stelpur fremur en strákar væru þolendur kynferðisbrota og strákum fylgdi aukapakki ef karlmenn brytu gegn þeim og væru þeir þá ófúsari til að greina frá broti. Ein ástæða þess sé sú að þeir haldi að aðrir haldi þá að þeir séu samkynhneigðir. Þá sagði hún A hafa sagt að hann hjólaði frekar, mótorkrossaði, eða gerði eitthvað annað líkamlegt til að fá  útrás ef eitthvað væri að. Loks kom fram hjá henni að það gæti verið erfiðara að meta vanlíðan A þar sem hann sé með greiningu um röskun á einhverfurófi.

IV.

Ákærði er í I. ákærulið ákærður fyrir brot gegn 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en samkvæmt ákvæðinu skal hver sá sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir barn yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka sæta fangelsi allt að 4 árum.

Ákærði er ákærður fyrir að hafa í net- og símasamskiptum tælt A til kynferðismaka með því að gefa honum vilyrði fyrir bifhjóli ásamt fylgihlutum eða peningagreiðslu. Ákærði hefur neitað sök. Hann byggir sýknukröfu sína á því að óljóst sé að samkomulag hafi verið milli ákærða og A um að A fengi hjólið gegn því að hafa kynferðismök við ákærða og að ekki séu uppfyllt skilyrði 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði sé samkynhneigður og hafi verið 17 ára og að þreifa fyrir sér þegar atvik gerðust. Ákærði hafi mátt halda að A hafi viljað hafa kynferðismök við ákærða óháð því hvort hann fengi mótorhjólið. Þá vísar hann til þess að vitnið C hafi hugsanlega verið sá sem ýtti A út í þessi samskipti við ákærða.

Samkvæmt greinargerð, sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum nr. 61/2007, en þar kemur fram umfjöllun um ákvæði 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, eru aðferðir ekki tæmandi taldar í ákvæðinu og til greina komi fleiri aðferðir þar sem gerandi notfærir sér yfirburði aldurs og reynslu. Þá segir þar að ákvæðið eigi ekki við ef einstaklingar eru svipaðir að aldri, reynslu og þroska. Ákærði var 17 ára og 9 mánaða þegar atvik gerðust en A 15 ára og eins mánaðar. Af þeim gögnum sem fyrir liggja um A má ráða að hann glímir við takmarkanir í félagslegum samskiptum, auk þess sem hann sé m.a. hvatvís en hann hefur verið greindur með röskun á einhverfurófi, athyglisbrest með ofvirkni og blandaða röskun á námshæfni. Komið hefur fram bæði í framburði E sálfræðings og móður A, B, að hann eigi almennt erfitt með að tjá sig. Ákærði hefur ekki borið fyrir sig að hafa ekki vitað um aldur A. Þá sagði hann í fyrri skýrslu sinni hjá lögreglu að A væri tveimur árum yngri og fyrir dómi sagði hann að þeir hafi þekkst síðan þeir voru yngri. Með hliðsjón af ungum aldri ákærða og A þegar atvik áttu sér stað verður að telja að sá hátt í þriggja ára aldursmunur sem er á þeim sé slíkur að ákærði hafi yfirburði yfir A í krafti aldurs og reynslu. Við þetta bætist að félagsleg geta A er takmörkuð vegna greiningar hans, eins og rakið hefur verið.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa að morgni 11. desember 2011, á heimili sínu, haft bæði munnmök og endaþarmsmök við A. Er þetta í samræmi við framburð A og fær einnig stuðning í framburði vitnisins C sem bar um það fyrir dómi að A hafi sagt honum áður en hann fór til ákærða að ákærði ætlaði að totta A sem mundi fá hjólið fyrir. Þá bar hann um að A hafi sagt honum þegar hann kom frá ákærða að ákærði hafi einnig haft við hann endaþarmsmök. Er framangreindur framburður vitnisins C fyrir dómi í samræmi við framburð hans í seinni skýrslunni sem hann gaf hjá lögreglu en dómurinn metur trúverðuga þá skýringu vitnisins að hann hafi ekki getað tjáð sig um atvik í fyrri skýrslu vegna nærveru föður hans við skýrslutökuna.

Í fyrri skýrslu sinni hjá lögreglu sagði ákærði að ekki hefði verið samið um það milli hans og A að A fengi hjólið gegn kynmökum við ákærða. Í seinni skýrslunni sem ákærði gaf hjá lögreglu sagði hann að þeir hefðu samið um þetta en hætt við og að umræða um að A ætti að fá hjólið fyrir kynmök hafi verið löngu búin þegar atvik gerðust. Fyrir dómi var framburður hans um þetta á annan veg. Þar sagði hann að þeir hafi byrjað að ræða um að A fengi hjólið kannski um mánuði áður en þeir hittust. Umræðu um þetta hafi verið lokið þegar þeir hittust en eitthvað hafi þó enn verið óljóst. Hann sagði þá hafa verið búna að ákveða að A fengi hjólið gegn því að ákærði hefði við hann munnmök og endaþarmsmök.

Í skýrslu sinni í Barnahúsi sagði A að ákærði hafi viljað láta hann fá hjólið en einhver annar hafi ætlað að kaupa það á 150.000 krónur. Hann hafi þá orðið spenntur og hjólað til ákærða. Aðspurður af hverju ákærði hafi viljað láta hann hafa hjólið svaraði hann því að ákærði hafi örugglega ekki ætlað að láta hann hafa neitt hjól. A sagði í framburði sínum fyrir dómi að um hafi verið að ræða grín af hans hálfu þegar hann lýsti vilja til að hafa kynmök við ákærða í samskiptum þeirra á Facebook og sagði að það væri munur á því sem hann segði á netinu og í alvöru. A sagði að hann hefði farið til ákærða til að ræða um hjólið. Þegar metinn er framburður A lítur dómurinn til þess að af honum má ráða að sú staðreynd að gerandi var karlkyns hafi mikil áhrif á neikvæða upplifun hans af atvikum. Þá kom fram í framburði móður hans, B, að hann skammaðist sín fyrir það sem gerðist. Þá ber einnig við mat á framburði hans að hafa í huga framburð E sálfræðings sem sagði greiningu hans hafa áhrif á það hvernig honum gengi að tjá sig um atvik.

Ákærði og A staðfestu fyrir dómi að hafa átt í samskiptum á Facebook haustið 2011 og í janúar 2012. Af framlögðum útprentunum af samskiptum ákærða og A á Facebook má ráða að þeir ræddu um það að A fengi hjólið gegn því að hafa kynmök við ákærða. Af framburði ákærða og A og símagögnum má ráða að þeir höfðu einnig samskipti símleiðis, m.a. eftir að samskiptum þeirra á Facebook lauk að morgni 11. desember 2011, og áður en þeir hittust. Samkvæmt framburði A í skýrslu sem hann gaf í Barnahúsi hafði ákærði í símtali fallist á að A vildi ekki hafa endaþarmsmök við ákærða fyrir hjólið og sagt að A ætti bara að koma til hans og þeir mundu tala um þetta. Aðspurður um það fyrir dómi hvort þeir hafi þá verið búnir að semja um að hann fengi hjólið þegar hann krafði ákærða um það eftir atvikið, svaraði A því neitandi. Hann sagði að ákærði hafi verið búinn að lofa honum hjóli sem hann ætlaði að kaupa af honum og hann hafi haldið að hann fengi það kannski í skaðabætur eða eitthvað. Ákærði sagði í framburði sínum að hann hafi verið tilbúinn að láta A fá hjólið fyrir kynmök. Hann hafi svo ekki haft lengur áhuga á að standa við þetta, láta senda hjólið [...] og borga kostnað, eftir það sem A hafði verið búinn að segja við hann, án þess að tilgreina nánar hvað það var. Þessi framburður ákærða samrýmist því sem fram kemur í útprentunum af Facebook um að samkomulag hafi verið orðið milli þeirra um að A fengi hjólið gegn kynmökum. Fær þetta stuðning í framburði vitnisins C. Í útprentuninni kemur einnig fram að A krafði ákærða ítrekað um hjólið en ákærði lýsti því að hann gæti þá ekki afhent það og af svörum ákærða má ráða að hjólið hafi átt að vera greiðsla fyrir kynmökin. Ósannað er þó að um annað en munnmök hafi verið samið áður en A kom á vettvang.

Ákærði sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að þegar samskipti þeirra hafi hafist á Facebook í október 2011 hafi hann haft kynferðislegan áhuga á A. Af samskiptum ákærða og A á Facebook má ráða að ákærði hafði frumkvæði að því að vera með kynferðislegt tal við A og kanna hvort A hefði kynferðislegan áhuga á honum. Í útprentun af samskiptum þeirra á Facebook kemur fram að fyrstu samskiptin voru 27. júlí 2011 en þá setti ákærði sig í samband við A og heilsaði honum. A svaraði honum 25. október 2011 og í kjölfar þess senda þeir hvor öðrum fleiri skilaboð þennan dag og þann næsta. Má þar sjá að ákærði hafði frumkvæði að því að beina umræðunum inn á umræðuefni kynferðislegs eðlis en strax eftir að þeir höfðu heilsast 25. október skrifaði ákærði: „en hey samt satt að þú settir einu sinni smokk með hrísgrjónum í rassinn á þér?“ Þessu svaraði A neitandi en ákærði hélt áfram á þessum nótum og spurði A m.a. hvort hann væri hommi og hvort hann hefði stundað kynlíf. Þessu svaraði A honum m.a. með því að segja frá kynlífsreynslu sinni. Eftir þá umræðu má sjá að ákærði reyndi að ná einhverju taki á A með því að hóta honum því að opinbera skrif hans til ákærða á Facebook sem innihéldu efni kynferðislegs eðlis. Það hafi hins vegar ekki haft þau áhrif á A og ekki heldur þegar ákærði hótaði því að taka skrif A úr samhengi. Af samskiptum ákærða og A á Facebook frá 11. desember 2011 má ráða að það sé fyrst þegar ákærði fór að segja honum frá „krossaranum“ sem áhugi A vaknaði. Þau samskipti þeirra bera með sér að eitthvað hafi áður farið á milli þeirra sem ekki kemur þar fram. Samrýmist þetta því að ákærði og A hafi talað saman fyrr um morguninn eins og þeir hafa lýst og ráða má af símagögnum. Samkvæmt framburði ákærða og A sendi ákærði A mynd af sambærilegu mótorhjóli og skrifaði honum á Facebook að það sé ekkert mál fyrir hann að sprauta það í þeim lit sem hann vilji. Ákærði spurði svo hvernig A vilji hafa það og hann svaraði: „tott bara“. Þá svaraði ákærði: „okey en ef þú færð allt draslið með má ég þá prófa bara pínku? ætla ekkert að ríða þér bara prófa aaaaaðeins ætti það ekki að sleppa“. Þessu svarar A: „bara tott og ég fæ hjólið það var það sem við töluðum um“. Þá segir ákærði: “jáaa fyrir hjólið en hvað fæ ég þá fyrir hjálminn og allt draslið það er miklu dýrara en hjólið sjálft“. Þessu svaraði A: „ok hjólið þá bara“. Ákærði sagði þá: „er sko að tala bara um að setja hann smá inn og út aftur hey segjum 3 sinnum inn og út og tott og allt stuffið verður þitt“. Þeir halda umræðunni áfram en A hafnaði öðru en munnmökum fyrir hjólið. Samtalið milli þeirra endar með því að ákærði spurði ítrekað hvenær A gæti komið og A svaraði á endanum „10“. Í framburði B, móður A, við aðalmeðferð málsins kom fram að hann hefði sagt henni að hann fengi bifhjól frá ákærða en þá hafi hann ekki sagt henni frá því að hann yrði að greiða fyrir það. Af framangreindu, framburði A og af útprentun á samskiptum ákærða og A á Facebook má ráða að það hafi skipt A miklu að fá hjólið en hann spyr ákærða strax hvort hann geti ekki látið senda hjólið sem fyrst. Þá báru bæði móðir A og fyrrverandi vinur hans, C, um áhuga hans á bifhjólum. Loks kom fram í framburði E sálfræðings að A leiti m.a. í það að fara á bifhjól þegar honum líði illa.

Þá má af útprentun á samskiptum ákærða og A á Facebook ráða að ákærði reyndi að fá A til að hafa á ný kynmök við sig á meðan hann væri að bíða eftir því að fá hjólið afhent og bauð A notaða tölvu fyrir. Þegar A neitaði skrifaði ákærði; „á ég þá bara að láta hjólið verða selt eða hvernig viltu hafa þetta?“ og hótaði þannig að selja öðrum hjólið. A svaraði þá að þeir hefðu samið um annaðhvort 150.000 krónur eða hjólið og ákærði plati hann ekki aftur. Ákærði svaraði því að það þurfi að klára samninginn og hann hafi ekki verið að plata A, ákærði hafi ekki einu sinni fengið það. Einnig sagði A að síðast hafi hann sagt bara tott en svo hafi hann sagt að það væri ekki nógu mikið og hann hafi þurft að ríða honum til að fá hjólið. Framangreind samskipti milli ákærða og A á Facebook sýna með skýrum hætti hvernig samskipti þeirra á milli þróuðust og hvernig ákærði leitaði eftir einhverju sem hann gæti notað í því skyni að ná fram kynmökum við A. Loks hafi ákærði vakið áhuga A með hjólinu og þá notfært sér þann áhuga.

Samkvæmt framburði ákærða og A og útprentuninni taldi ákærði hjólið vera 150.000 króna virði og talaði um þá upphæð í samskiptum sínum við A. Hann sagði A að hann vissi um einstakling sem vildi kaupa hjólið á því verði og þannig setti hann pressu á A vildi hann kaupa hjólið. A sagði í framburði sínum að hann hafi á þessum tíma ekki átt svo mikinn pening. Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði ákærði að hann vissi til þess að greiddar væru 25.000 fyrir dráttinn en hjólið hefði hann getað selt fyrir 150.000 krónur. Sama kemur fram í útprentun af samskiptum ákærða og A á Facebook. Þar kemur einnig fram að A bauð ákærða að borga 100.000 krónur í staðinn fyrir hjólið og því svarar ákærði m.a.: „ekki séns dráttur kostar 25 þúsund haha ef ég borga þér 100 þá þyrfti ég að ríða þér 5 sinnum í viðbót til að verða sáttur haha“.

Með vísan til framlagðra útprentana af samskiptum ákærða og A á Facebook, framburðar ákærða fyrir dómi og framangreinds er talið sannað að ákærði hafi lofað A mótorhjólinu fyrir kynmök. Dómurinn telur að ekki skipti máli að ósannað sé að þeir hafi fyrirfram verið búnir að semja um endaþarmsmök þar sem ákærði fékk A til að mæta til hans gegn loforði um hjólið. Ákvæði 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga telur ekki upp með tæmandi hætti á hvern hátt tæling geti átt sér stað heldur nefnir í dæmaskyni blekkingar og gjöf. Dómurinn telur að vilyrði fyrir gjöf geti einnig fallið hér undir. Þá liggur fyrir, með hliðsjón af framburði ákærða um mat hans á verðmæti hjólsins á þessum tíma og skrifum hans á Facebook um hæfilegt verð fyrir kynmökin sem áður hafa verið rakin, að hann taldi að hjólið væri of há greiðsla. Styður það að ákærði hafi vitað að hann hefði ekki fengið A til að hafa kynmök við sig nema geta boðið honum í staðinn verðmæti sem A hefði sjálfur ekki haft tök á að eignast þá en langað til að eignast. Óljóst er hvort ákærði hafi í upphafi ætlað sér að standa við loforðið. Í ákæru er byggt á því að A hafi verið tældur með vilyrði fyrir bifhjóli ásamt fylgihlutum eða peningagreiðslu. Með vísan til málsgagna og framburðar ákærða og A fyrir dóminum verður að telja ósannað að ákærði hafi lofað A peningagreiðslu eða fylgihlutum með hjólinu fyrir kynmök. Það er hins vegar niðurstaða dómsins að ákærði hafi tælt A til kynmaka, bæði munnmaka og endaþarmsmaka, með vilyrði um bifhjólið í staðinn og við það notfært sér þá yfirburði sem hann hafði í ljósi aldurs og reynslu og þann áhuga sem A hafði á því að eignast hjólið. Ákvæði 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga tekur einungis til brota gegn einstaklingum yngri en 18 ára. A var 15 ára gamall þegar brotið átti sér stað. Ákærði var á sama tíma á átjánda ári. Sú staðreynd að ákærði taldist þá, vegna aldurs, einnig vera barn breytir ekki þeirri réttarvernd sem A er falin með ákvæðinu. Skilyrði refsiábyrgðar teljast því vera fyrir hendi. Af því sem rakið hefur verið er hafið yfir allan vafa að ákærði hafi gerst sekur um það brot sem lýst er í I. ákærulið, eins og hér að ofan er lýst.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998 er óheimilt að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára. Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa afhent A áfengi en sagði hann hafa beðið um það. Áfengið hafi hann tekið frá foreldrum sínum. A sagði í skýrslu sinni að ákærði hafi veitt sér áfengið en þeir hafi ákveðið í sameiningu að hann mundi drekka áfengi í umrætt sinn. Ekki verður talið að ætlunin með 18. gr. áfengislaga hafi verið sú að ná til tilvika þar sem ungmenni undir 18 ára aldri gefa öðrum ungmennum áfengi sem þau hafa útvegað sér eins og í þessu tilviki. Með vísan til þess er ákærði sýknaður af II. ákærulið.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa 27. mars 2011 fengið hreyfimynd sem ákært er fyrir í III. ákærulið senda í tölvupósti en neitar því að hafa opnað skrána sem innihélt myndina. Í framburði J lögreglufulltrúa fyrir dómi kom fram að hann geti ekki fullyrt á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja og þeirra rannsókna sem gerðar voru á skránni hvort og hvenær hún hafi verið opnuð en staðfesti að hún gæti hafa verið send ákærða framangreindan dag. Skráin inniheldur hreyfimynd sem sýnir dreng á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft skrána í vörslum sínum frá 27. mars 2011 þar til í desember sama ár. Hefur hann með því gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og nánar er tilgreint í III. ákærulið.

VI.

Ákærði, Hjálmar Forni Poulsen, er fæddur árið 1994. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann ekki sætt refsingu. Refsing ákærða verður ákveðin með hliðsjón af 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess sem litið verður til þess að ákærði hefur m.a. verið sakfelldur fyrir alvarlegt brot gegn kynfrelsi ungs manns og að hafa við það notfært sér veikleika hans. Ákærði var á átjánda ári þegar hann framdi þau brot sem hann er hér sakfelldur fyrir og verður því við ákvörðun refsingar einnig litið til ungs aldur hans. Þá er litið til þess að rannsókn málsins dróst nokkuð en frá því að rannsókn hófst og þar til ákæra var gefin út liðu um 17 mánuðir. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Í ákæru er þess krafist að ákærði sæti upptöku til ríkissjóðs á fartölvu af gerðinni Compaq (munaskrárnúmer 89992/357024) sem notuð hafi verið við framningu brota samkvæmt I. og III. ákærulið. Krafa um upptöku er byggð á 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga en samkvæmt ákvæðinu má gera upptæka með dómi hluti sem hafa verið notaðir, ætlaðir eru til notkunar eða hætta þykir á að verði notaðir við framningu brots. Ákærði mótmælti þessari upptökukröfu. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir það brot sem lýst er í I. ákærulið. Fyrir liggur að þau netsamskipti, sem m.a. fólu í sér tælingu gagnvart A, áttu sér stað í gegnum framangreinda tölvu. Verður því að telja að ákærði hafi nýtt tölvuna til samskipta í tengslum við brot sitt. Þá fannst einnig í tölvunni hreyfimynd sú sem lýst er í III. ákærulið og ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir að hafa í vörslum sínum. Með vísan til framangreinds og 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga er tölvan gerð upptæk til ríkissjóðs.

Þá hefur ákærði samþykkt kröfu ákæruvaldsins um upptöku á hreyfimynd sem tilgreind er í III. ákærulið. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu dómsins um sakfellingu ákærða fyrir brot það sem honum er gefið að sök í III. ákærulið og 2. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga er hreyfimyndin gerð upptæk til ríkissjóðs.

Af hálfu A er með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 gerð krafa um að ákærði greiði honum miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur, auk vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar eins og nánar er lýst hér að framan. Er krafan annars vegar rökstudd með vísan til alvarleika brotsins og bent á að ákærði hafi notað sér yfirburði sína gagnvart A og hins vegar til afleiðinga brotsins. A hafi liðið illa á meðan brotið átti sér stað, hann upplifi að ákærði hafi svikið sig og óttist ákærða, m.a. vegna hótana sem hann hafi fengið símleiðis eftir að brotið átti sér stað.

Ákærði hefur með háttsemi sinni brotið alvarlega gegn A. Ekki liggja fyrir nein gögn um þær afleiðingar sem brotið hafði fyrir hann og ljóst er að A glímdi við vandamál sem rekja má til greiningar hans, áður en atvik gerðust. Samkvæmt framburði og vottorði E sálfræðings gera þeir annmarkar sem fylgja greiningu á einhverfurófi, eins og A er með, það erfiðara að leggja mat á hvaða afleiðingar meint brot kunni að hafa fyrir hann og hverjar langtímaafleiðingar kunni að verða. Þá sé af sömu ástæðu óvíst hvort meðferðarvinna geti gagnast A. Kynferðisbrot eru almennt talin til þess fallin að valda þeim sem fyrir þeim verða miska. Með broti því sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir hefur hann því valdið A miska. Þykir A, með vísan til 26. gr. skaðabótalaga, eiga rétt á miskabótum úr hendi ákærða. Með tilliti til alvarleika brotsins og atvika að öðru leyti, þykja þær hæfilega ákveðnar 600.000 krónur auk vaxta eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verður ákærði dæmdur til að greiða óskipt allan sakarkostnað. Til sakarkostnaðar í málinu telst þóknun skipaðs verjanda ákærða, á rannsóknarstigi og fyrir héraðsdómi, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., er telst hæfilega ákveðin 800.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð 107.229 krónur. Af yfirliti hans yfir útlagðan kostnað má ráða að þar er um að ræða ferðakostnað lögmannsins auk flugfars fyrir ákærða að fjárhæð 41.360 krónur. Í 216. gr. laga um meðferð sakamála er tæmandi talið hvað fellur undir sakarkostnað og er þar ekki heimild til að fella kostnað ákærða af ferðalagi í þinghald þar undir. Er því kröfunni hafnað að þessu leyti. Ákærði er því dæmdur til greiðslu útlagðs kostnaðar verjanda að fjárhæð 65.869 krónur. Þá greiði ákærði þóknun réttargæslumanns A, 407.875 krónur, og ferðakostnað lögmannsins, 55.910 krónur. Loks greiði ákærði 97.869 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Daði Kristjánsson saksóknari.

Vegna anna dómsformanns hefur uppkvaðning dómsins dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála. Af hálfu ákæruvalds, verjanda ákærða og dómara var ekki talin þörf á að málið yrði flutt að nýju.

Dómsformaður tók við málinu 2. september 2013 en hafði fram að þeim tíma ekki haft nein afskipti af meðferð þess.

Dóm þennan kveða upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri, Arnfríður Einarsdóttir og Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómarar.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Hjálmar Forni Poulsen, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði sæti upptöku á Compaq-fartölvu (munaskrárnúmer 89992/357024) og hreyfimynd með skráarheitinu [...].

Ákærði greiði A 600.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2012 til 7. ágúst 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, samtals 1.427.523 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 800.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 407.875 krónur.